Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd %C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 29/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 30. mars 2020
í máli nr. 29/2019:
Ridango AS
gegn
Strætó bs. og
Fara AS

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 17. nóvember 2019 kærir Ridango AS innkaupaferli Strætó bs. nr. 14580 auðkennt „Rafrænt greiðslukerfi fyrir Strætó bs.“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun Strætó bs. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) frá 28. október 2019 um að velja tilboð Fara AS í hinu kærða útboði. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Kærandi sendi nefndinni frekari rökstuðning fyrir kæru sinni 22. nóvember 2019. Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerðum 25. nóvember 2019 og 2. janúar 2020 krafðist varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Jafnframt bárust athugasemdir frá Fara AS hinn 5. desember 2019. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila og Fara AS og skilaði athugasemdum 20. janúar 2020.

Með ákvörðun 6. desember 2019 hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva samningsgerð vegna hins kærða útboðs.

I

Í júní 2019 auglýsti varnaraðili forval vegna lokaðs útboðs með möguleika á samningaviðræðum vegna innkaupa á rafrænu greiðslukerfi fyrir strætisvagna. Forvalinu lauk með tilkynningu varnaraðila 19. ágúst 2019 um þá aðila sem var boðið að taka þátt í útboðinu og rann frestur til að skila tilboðum út 3. október sama ár. Í innkaupaferlinu voru gerðar fjölmargar kröfur til þátttakenda og þeirra lausna sem bjóða skyldi. Meðal annars var gerð krafa um að þátttakendur í forvali skiluðu inn skriflegri staðfestingu tveggja opinberra aðila á sviði almenningssamgangna um að þátttakandinn hefði á síðustu fjórum árum innleitt sams konar eða sambærilegt kerfi í almenningssamgöngukerfum með 150 vögnum hið minnsta. Þá áttu bjóðendur að geta boðið upp á snertilausan greiðslumáta, svokallað cEMV (contactless Eurocard, Mastercard and Visa).

Kærandi var á meðal þeirra fjögurra þátttakenda sem skiluðu tilboði í lokuðu útboði. Varnaraðili fól VSÓ ráðgjöf að fara yfir tilboðin og er minnisblað um mat á tilboðum frá 23. október 2019 á meðal gagna málsins. Þar kemur meðal annars fram að tilboð Fara AS sé lægst að fjárhæð og samkvæmt útboðsgögnum hafi varnaraðili áskilið sér rétt til að taka því tilboði sem sé fjárhagslega hagstæðast án þess að fara í samningaviðræður. Með tölvubréfi Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar 28. október 2019 var bjóðendum tilkynnt að stjórn varnaraðila hefði ákveðið að taka tilboði Fara AS. Hinn 8. nóvember 2019 var bjóðendum tilkynnt að tilboð Fara AS hefði verið endanlega samþykkt.

II

Kærandi byggir á því að tilboð Fara AS hafi verið ógilt þar sem það hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna. Fyrirtækið hafi ekki lagt fram gögn til staðfestingar á því að það hafi sett upp sambærilega lausn á síðustu fjórum árum. Þær staðfestingar sem Fara AS hafi lagt fram frá samgöngufyrirtækjum í Þrándheimi og Tromsö séu ófullnægjandi. Greiðslukerfin sem Fara AS hafi notað í þeim tilfellum hafi ekki boðið upp á tiltekna eiginleika, svokallaðan cEMV greiðslumáta, sem séu skilyrði í hinu kærða útboði. Þá hafi varnaraðili átt að hafna tilboði Fara AS sem óeðlilega lágu enda hafi það verið 46% lægra en tilboð kæranda sem var næst lægsta tilboðið og 52% lægra en meðalupphæð tilboða. Kærandi vísar til þess að þegar munur á tilboðsfjárhæð lægstbjóðanda og annarra bjóðenda sé 20% eða meira teljist tilboð lægstbjóðanda vera óeðlilega lágt. Varnaraðili hafi að minnsta kosti átt að krefjast þess að Fara AS útskýrði tilboðsfjárhæðina. Að lokum telur kærandi að varnaraðili hafi gert mistök við mat á tilboði kæranda og eiginleikum þess.

III

Varnaraðili telur að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var borin undir nefndina. Með tilkynningu 19. ágúst 2019 hafi legið fyrir hvaða þátttakendur teldust fullnægja hæfisskilyrðum forvalsgagna. Kæran byggi á því að þátttakandinn sem var valinn hafi ekki fullnægt hæfisskilyrðum en frestur til að kæra þá ákvörðun hafi byrjað að líða við framangreinda ákvörðun og kæra því verið lögð fram of seint. Varnaraðili telur að kærandi hafi misskilið hæfiskröfur útboðsins enda hafi verið sérstaklega tekið fram í forvalsgögnum að ekki þyrfti að leggja fram staðfestingu á cEMV greiðslumáta í fyrri sambærilegum samningum. Þá hafi ekki verið skylt að hafna tilboði Fara AS sem óeðlilega lágu enda hafi ekkert í tilboðinu bent til þess að ástæða væri til að ætla að bjóðandinn hefði nýtt sér óeðlilegt forskot á aðra bjóðendur. Þá hafi óverulegur munur verið á verðtilboðum kæranda og tilboði Fara AS í einum hluta útboðsins af þremur. Munurinn á verðtilboðunum í hina tvo hlutana skýrist af því að þar hafi bjóðendur haft meira svigrúm og innkaup varnaraðila í þeim hlutum hafi að hluta til verið valkvæð á 10 ára tímabili.

Í athugasemdum Fara AS er fullyrt að fyrirtækið hafi uppfyllt öll skilyrði innkaupaferilsins og afhent fullnægjandi gögn um lausnir og fyrri sambærilega samninga. Fyrirtækið telur að í skilyrði forvalsins um sambærilega samninga á síðustu fjórum árum hafi cEMV greiðslulausn sérstaklega verið undanskilin og þannig ekki þurft að sýna fram á slíka lausn í fyrri samningum.

IV

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Fara AS í hinu kærða útboði og að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda þess í stað. Jafnframt er krafist málskostnaðar, en aðrar kröfur hafa ekki verið gerðar.

Eftir að bindandi samningur samkvæmt lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 114. gr. laganna. Eins og rakið hefur verið var ákvörðun um val tilboðs kynnt bjóðendum 28. október 2019 og að loknum biðtíma, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna, var tilboð Fara AS endanlega samþykkt hinn 8. nóvember sama ár. Hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laganna og er þegar af þeirri ástæðu hvorki unnt að ógilda val varnaraðila á tilboði Fara AS né velja tilboð kæranda í hinu kærða útboði. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda. Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Ridango AS, vegna innkaupaferlis varnaraðila, Strætó bs., nr. 14580 auðkennt „Rafrænt greiðslukerfi fyrir Strætó bs.“ er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.


Reykjavík, 30. mars 2020


Ásgerður Ragnarsdóttir (sign)

      Auður Finnbogadóttir (sign)

Sandra Baldvinsdóttir (sign)



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum