Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd %C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 372/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 372/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070004

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 4. júlí 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. júní 2022 um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum er krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 10. október 2020. Hinn 26. janúar 2021 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar nr. 152/2021 uppkveðnum 8. apríl 2021. Hinn 23. apríl 2021 lagði kærandi fram beiðni til kærunefndar um endurupptöku máls síns. Með úrskurði nr. 259/2021 uppkveðnum 10. júní 2021 hafnaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku máls hans. Hinn 15. október 2021 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins. Með úrskurði nr. 557/2021 uppkveðnum 18. nóvember 2021 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku málsins og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 4. janúar og 12. apríl 2022. Með ákvörðun, dags. 14. júní 2022, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd ásamt því að honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 4. júlí 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 18. júlí 2022 ásamt fylgigögnum. Hinn 9. september 2022 bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá kæranda.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna trúarbragða sinna, ótta við nánar tilgreindan vopnaðan hóp og almenns ástands þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2022, hvað varðar málsatvik, landaupplýsingar og umfjöllun um almennt öryggisástand í Írak. Kemur í þeirri greinargerð meðal annars fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í […] en hafi síðar sest að í […]. Kærandi sé af arabískum uppruna og sé súnní múslimi. Kærandi hafi greint frá því viðtali hjá Útlendingastofnun að 13. október 2013 hafi faðir hans verið á leið frá […] til Bagdad þegar hann hafi verið stöðvaður við vegatálma og drepinn af meðlimum vopnahópsins […]. Skömmu eftir morðið hafi kærandi, sem hafi á þessum tíma verið í námi við […] háskóla, byrjað að taka þátt í samkomum nemenda þar sem hann hafi tjáð sig um morðið og almennt um framgöngu yfirvalda gegn borgurum landsins. Fyrrgreindur vopnahópur hafi brugðist við með því að þrýsta á kæranda að hætta að tjá sig opinberlega og gefið út handtökuskipun á hendur honum. Kærandi hafi verið ásakaður um að taka þátt í mótmælum gegn yfirvöldum, hvetja aðra til þátttöku og um að vera meðlimur Ba´ath stjórnmálaflokksins. Kærandi hafi hins vegar aldrei verið meðlimur flokksins. Kærandi hafi flúið frá Írak 15. nóvember 2013. Yfirvöld í heimaríki hafi síðar afhent fjölskyldu hans sams konar handtökuskipun og hafi verið gefin út árið 2013.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í […] héraði í Írak á árunum 2019 og 2020. Er í því sambandi vísað til úrskurðar kærunefndar frá 18. júní 2020 nr. 220/2020 þar sem fjallað sé um virkni ISIS/Daesh í Ninewa héraði. Þá er í greinargerð umfjöllun um […] vopnahópinn. Vísað er til þess að hópurinn sé stór og valdamikill vopnahópur Sjia múslima sem njóti stuðnings Írans og sé hluti af svokölluðu PMF sveitum í Írak en starfi mjög sjálfstætt. Jafnframt er í greinargerð almenn umfjöllun um aðstæður í Írak og stöðu súnní múslímskra araba.

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi er gerð athugasemd við framsetningu Útlendingastofnunar á málsástæðum kæranda en í ákvörðun stofnunarinnar komi fram að kærandi byggi mál sitt á hættu í heimaríki vegna nafn síns, að hafa starfað sem túlkur og vegna huglægrar afstöðu hans um trúmál sem eigi ekki við um mál kæranda. Réttara sé að kærandi hafi byggt mál sitt á því að hann óttist ofsóknir af hálfu […] hópsins sem teljist fara með ríkisvald. Þá byggir kærandi á því að staða hans sem súnní múslími geri stöðu hans veikari þar sem sjítar fari með völd í landinu. Kærandi telur að óljóst sé hvort mál hans hafi verið rannsakað af Útlendingastofnun á réttum grundvelli eða ekki. Hafi það ekki verið rannsakað á réttum grundvelli kunni að vera um að ræða brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá gerir kærandi í öðru lagi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi gefið í skyn að ósamræmi sé milli nafns á handtökuskipun sem hann hafi lagt fram og þess nafns sem kærandi sé skráður með í gagnagrunni stofnunarinnar. Nafn það sem skráð sé í gagnagrunn Útlendingastofnunar sé það nafn sem skráð sé í auðkennisskjölum sem gefin hafi verið út af grískum stjórnvöldum. Að mati kæranda sé þar af leiðandi ekki um að ræða ósamræmi líkt og ráða megi af ákvörðun Útlendingastofnunar. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á öryggisástandinu í […] héraði og borginni Mósúl. Kærandi telur að ástandið þar sé mun alvarlegra en Útlendingastofnun metur það. Kærandi ítrekar opinbera afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til endursendinga til Íraks sem sé enn á þann veg að hún hvetji ríki til að snúa ekki nokkrum Íraka sem komi frá svæðum sem áður hafi verið stjórnað af ISIS eða þar sem ISIS sé enn með viðveru aftur þangað gegn vilja sínum. Að lokum gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á stöðu kæranda. Annars vegar með því að gera lítið úr því hvaða þýðingu það geti haft að vera súnní múslímskur arabi í Írak og hins vegar að hann eigi hættu á ofsóknir af hálfu […] vopnahópsins en kærandi hafi greint frá því að þau sé á eftir honum vegna gagnrýni hans og hafi gefið út handtökuskipun á hendur honum. Kærandi tekur fram að hann byggi ekki mál sitt á því að eiga á hættu ofsóknir vegna ætlaðra tengsla við Ba´ath flokkinn líkt og Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana en hann hafi greint frá því að valdamikill hópur í Írak, […], hafi haft í hótunum við sig og gefið út handtökuskipun á hendur honum eftir að hann hafi tekið þátt í samkomum og tjáð sig opinberlega með gagnrýnum hætti um hópinn og framgöngu írakskra yfirvalda gegn almennum borgurum. Þá hafi framangreindur hópur einnig sakað kæranda um að vera meðlimur í Ba´ath stjórnmálaflokknum og barist fyrir því að koma honum aftur til valda. Þá telur kærandi að með vísan til þeirra heimilda sem raktar hafi verið í greinargerð megi telja að staða hans almennt sem súnní múslimskur arabi geri stöðu hans viðkvæma. Samkvæmt heimildum verði súnní múslimskir arabar fyrir margvíslegum mannréttindabrotum af hálfu sjía múslíma sem fari nú með völd í Írak og hafi slík brot einkum verið framin af hálfu PMF sveita á borð við […]. Jafnframt telur kærandi að líta megi svo á að framangreindur hópur fari með ríkisvald á heimasvæði kæranda. Þar af leiðandi beri að leggja til grundvallar að yfirvöld í heimaríki kæranda hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd frá ofsóknum þeirra sem hann óttist.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er gerð sú krafa til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð í tengslum við aðalkröfu kæranda telur hann að hann uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Þá telur kærandi að síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi einnig við í máli hans. Kærandi vísar til þess að það sé opinber afstaða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að ríki snúi ekki nokkrum Íraka til baka gegn vilja sínum sem kemur frá svæðum sem teljist óörugg eftir að hafa verið losuð undan stjórn ISIS eða séu undir stjórn þeirra. Kærandi telur ljóst að með tilliti til heimilda í greinargerð falli […] héraðið undir framangreinda afstöðu Flóttamannastofnunar.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda er þess krafist til þrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi, skv. 1. mgr. 74. gr. útl., vegna erfiðra félagslegra aðstæðna og erfiðra almennra aðstæðna. Kærandi telur að hann hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í Írak. Kærandi hafi greint frá því að fjölskylda hans hafi þurft að flytja innan Ninewa héraðs og búi við ákaflega erfiðar efnahagslegar og félagslegar aðstæður. Þá telur kærandi að hann hafi einnig ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra almennra aðstæðna þar sem langvarandi stríðsástand hafi ríkt í heimaríki hans. Að mati kæranda ríki enn slíkt ástand í […]. Þá sé ljóst að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu og yfirvöld veiti ekki þegnum sínum nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum.

Verði ekki fallist á framangreindar kröfur kæranda krefst kærandi þess að lokum að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 10. október 2020 fyrir meira en 18 mánuðum síðan. Fyrir liggi að skýrsla hafi verið tekin af kæranda. Kærandi hafi lagt fram öll þau skilríki sem hann eigi og mögulegt sé að afla, þ.m.t. grískt dvalarleyfisskírteini og ferðaskilríki. Þá hafi kærandi lagt fram afrit af skilríkjum frá heimaríki sínu og nú frumrit annars þeirra. Enn fremur hafi kærandi gengist undir tungumála og staðháttarpróf að beiðni Útlendingastofnunar. Kærandi telur því að ekkert hafi komið fram í hans máli sem gefi tilefni til að telja vafa leika á því hver hann sé. Þá sé kæranda ekki kunnugt um ástæður sem gætu leitt til brottvísunar hans. Jafnframt hafi kærandi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins með framburði sínum og framlögðum gögnum. Séu skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því uppfyllt. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar þess efnis að hann hafi ekki veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins. Kærandi hafi ekki lagt fram fölsuð skjöl eða dvalið á ókunnugum stað eða yfirgefið landið án leyfis. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki rökstutt mat sitt á því að hann uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Við úrlausn málsins byggði Útlendingastofnun á því að kærandi væri frá Írak og væri súnní múslími. Á grundvelli ljósmynda af skólaskírteini og tveimur námsárangursskírteinum lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi hafi verið nemandi við háskólann í […]. Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi hafi greint frá því að faðir hans hafi verið myrtur af vopnuðum hópi á eftirlitsstöð á ferð sinni til Bagdad og að kærandi hafi orðið fyrir hótunum og ofsóknum eftir að hann hafi opinberlega tjáð sig um dauða föður síns og lýst yfir andstöðu við það ástand sem uppi hafi verið í landinu á þeim tíma. Kærandi hafi engin gögn lagt fram til stuðnings þeirri frásögn sinni en Útlendingastofnun hafi ekki talið hægt að útiloka að kærandi hafi orðið fyrir einhvers konar áreiti, hótunum eða ofbeldi af hálfu vopnahópa í Írak og að frásögn hans hvað varðaði aðstæður í Mósúl hafi verið í samræmi við landaupplýsingar sem stofnunin hefði kynnt sér við rannsókn málsins. Síðar í ákvörðuninni er vísað til þess að kærandi hafi kveðið að […] vopnahópurinn hafi gefið út handtökuskipun á hendur honum. Kærandi lagði fram við meðferð málsins ljósmynd af umræddri handtökuskipun þar sem fram kemur, samkvæmt lauslegri þýðingu, að skipunin sé gefin út á hendur einstaklingi að nafni [...] og beint til vopnasveitarinnar Asa‘ib Ahsl al Haq.

Í kafla ákvörðunarinnar er ber heitið Mat á trúverðugleika frásagnar er að finna nokkra umfjöllun um Mósúl borg og byggir sú umfjöllun aðallega á skýrslum frá árunum 2017, 2018 og 2019 en þó er að litlum hluta vísað til skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 um atburði ársins 2019 og skýrslu EASO frá júní 2021. Í umfjölluninni kemur fram að þrátt fyrir að yfirvöld hafi náð yfirráðum yfir borginni árið 2017 sé ástandið þar enn varhugavert og aðeins hafi tekist að byggja upp innviði þar að hluta, árásir ISIS séu enn vandamál. Þá bendi heimildir til þess að öryggi í Mósúl sé tryggt af írakska hernum, lögreglunni og ýmsum shija vopnasveitum og að framangreindir aðilar deili með sér völdum í borginni. Að mati kærunefndar liggur ekki ljóst fyrir í ákvörðuninni með hvaða rökum Útlendingastofnun kemst að því að kærandi sé ótrúverðugur hvað varðar ástæður flótta hans frá heimaríki. Ekki verður lesið af ákvörðuninni að sérstök afstaða hafi verið tekin um þá þýðingu sem framangreind ljósmynd af ætlaðri handtökuskipun hafi fyrir úrlausn málsins. Þá er í ákvörðun stofnunarinnar afar lítil umfjöllun um vopnahópa sem hafi starfað í Írak, og engin sérstök umfjöllun um […] vopnahópinn sem kærandi kveður hafa hótað sér og gefið út handtökuskipun á hendur sér. Verður því ekki séð að Útlendingastofnun hafi haft fullnægjandi upplýsingar til þess að leggja til grundvallar að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð í heimalandi sínu sem jafnað verði til ofsókna og rekja má til ástæðna er fram koma í. 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga.

Í niðurstöðu Útlendingastofnunar hvað varðar viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, fjallar stofnunin aðeins um aðstæður í Bagdad og kemst að þeirri niðurstöðu að þær séu ekki með þeim hætti að kærandi eigi á hættu illa meðferð samkvæmt ákvæðinu yrði hann sendur til baka til heimaríkis síns. Ekki er hægt að lesa af ákvörðuninni hvers vegna stofnunin fjallar um aðstæður í Bagdad en ekki borginni Mósúl eða í […] héraði, því svæði sem lagt hafði verið til grundvallar að kærandi kæmi frá. Að mati kærunefndar er hér um annmarka að ræða á málsmeðferð Útlendingastofnunar á því hvort kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá hefði jafnframt þurft að fara fram ítarlegra og vandaðra mat hjá Útlendingastofnun á aðstæðum og öryggisástandi í Mósúl og Ninewa héraði með tilliti til nýlegri upplýsinga og heimilda, einkum í ljósi þess að um er að ræða svæði sem voru á árunum 2014 til 2017 undir stjórn Daesh og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagst gegn því að einstaklingum sem þaðan koma sé gert að snúa til baka.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar bera framangreind vinnubrögð Útlendingastofunnar í máli kæranda með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum hans. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar. Aðstæður hans hafi ekki verið skoðaðar með hliðsjón af aðstæðum á heimasvæði hans í Írak, frásögn hans hafi ekki verið skoðuð með tilliti til gagna sem hann hafi lagt fram og heildrænt skorti verulega á upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir aðstæður kæranda í heimaríki hans. Með vísan til framangreinds er málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunarinnar í máli kæranda, að mati kærunefndar, ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, einkum 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur framangreinda annmarka Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum