Hoppa yfir valmynd
K%EF%BF%BD%EF%BF%BDrunefnd %EF%BF%BD%EF%BF%BDtlendingam%EF%BF%BD%EF%BF%BDla

Nr. 377/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 377/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22080003

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 398/2021, dags. 26. ágúst 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. apríl 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 30. ágúst 2021. Hinn 6. september 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og endurupptöku málsins. Hinn 4. nóvember 2021 synjaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa í máli sínu með úrskurði kærunefndar nr. 545/2021. Hinn 9. desember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju. Hinn 3. febrúar 2022 synjaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins með úrskurði kærunefndar nr. 39/2022. Hinn 2. ágúst 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku í þriðja sinn.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. tölul. 1. mgr.  24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji að kærunefnd hafi byggt á ófullnægjandi og röngum upplýsingum í máli hans, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi gerir athugasemdir við úrskurð kærunefndar í máli sínu, dags. 26. ágúst 2021. Kærandi gerir m.a. athugasemd við að ekki hafi verið reifað að hann glími við andleg vandamál, jafnvel þó gögn hafi verið lögð fram um það. Kærandi telur að sú staðreynd að kærunefnd hafi ekki talið upp mjög alvarleg andleg veikindi hans við samantekt á forsendum sínum um persónulega stöðu hans bendi til þess að nefndin hafi ekki tekið tillit til þeirra við mat á stöðu hans og þannig hafi nefndin byggt á ófullnægjandi upplýsingum um atvik í máli hans. Þá komi fram í úrskurði kærunefndar að kærandi hafi notið heilbrigðisþjónustu vegna fötlunar sinnar í Grikklandi. Kærandi gagnrýnir að kærunefnd skuli vísa til gagna frá Göngudeild sóttvarna en virða á sama tíma að vettugi svör hans í viðtali hjá Útlendingastofnun. Hið rétta sé að kærandi hafi ekki notið heilbrigðisþjónustu í Grikklandi eftir að hann hlaut þar alþjóðlega vernd. Því telur kærandi að kærunefnd hafi byggt mat sitt á forsendum sem hafi verið rangar. Þá vísar kærunefnd til þess í úrskurði sínum að hann njóti aðstoðar frá fjölskyldu sinni og telur eðlilegt að honum verði áfram gert að vera háður þeirri aðstoð. Kærandi telur að sú staðreynd að hann hafi haft fjölskyldu sína með sér hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöðu kærunefndar. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 429/2021, dags. 9. september 2021, sem varðaði mál annars fatlaðs einstaklings og jafnræðisreglu, 11. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi að þessi forsenda kærunefndar brjóti gegn réttindum hans til sjálfstæðis sem og öðrum réttindum hans sem tryggð séu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur hefur verið hér á landi. Með fullgildingu samningsins hafi íslenska ríkið viðurkennt m.a. mikilvægi sjálfræðis og sjálfstæðis fyrir fatlað fólk. Kærandi telur að kærunefnd hafi brotið gegn markmiðum og efni samningsins með því að gera honum að vera að öllu leyti háðan fjölskyldu sinni þrátt fyrir að hann sé sjálfráða og sjálfstæður einstaklingur. Kærandi telur því að kærunefnd hafi ekki byggt á skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við ákvarðanatöku í máli hans. Þvert á móti hafi honum verið vísað frá Íslandi til ríkis þar sem meginreglur samningsins séu að engu hafðar og sjálfræði og sjálfstæði hans séu virt að vettugi. Með því að taka ekki tillit til skyldna sinna samkvæmt samningnum hafi kærunefnd byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Því telur kærandi að kærunefnd útlendingamála beri nú að endurupptaka mál hans, fella hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og fela stofnuninni að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna sem og tímamarka 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að kærunefnd hafi byggt ýmist á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum í úrskurði í máli hans.

Þá telur kærandi að hann uppfylli skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að um ómarkviss vinnubrögð lögreglu við flutning hans frá landinu hafi verið að ræða auk þess sem hann hafi aldrei verið beðinn persónulega um að undirgangast læknisrannsókn vegna Covid-19 sem gangi gegn áðurnefndum skuldbindingum íslenska ríkisins og sjálfræði hans.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 26. ágúst 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því hann telji að kærunefnd hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til alvarlegra andlegra veikinda hans auk þess sem kærunefnd hafi lagt til grundvallar að hann hafi notið heilbrigðisþjónustu í Grikklandi eftir að hann hlaut þar alþjóðlega vernd. Þá telur kærandi að kærunefnd hafi ekki metið stöðu hans m.t.t. skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 26. ágúst 2021, voru þau heilsufarsgögn sem lágu fyrir hjá nefndinni rakin. Lá m.a. fyrir bréf frá sálfræðingi þar sem fram kom að kærandi hefði farið í fjóra sálfræðitíma hér á landi. Í viðtölum sínum við sálfræðing hafi kærandi greint frá því að eiga erfitt með að festa svefn vegna kvíða og áhyggja yfir eigin stöðu. Þá hafi kærandi glímt við áleitnar endurminningar af fyrri áföllum. Jafnframt hafi sjálfsmatslisti sem lagður hafi verið fyrir kæranda leitt í ljós alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða sem og alvarleg einkenni streitu. Með hliðsjón af framlögðum heilsufarsgögnum taldi kærunefnd að heilsufar kæranda væri ekki með þeim hætti að hann teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá kom fram að af þeim gögnum sem kærunefnd hafði kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefði kærandi aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu þar í landi og ættu einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi að lögum sambærilegan rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum, og ríkisborgarar Grikklands. Því fellst kærunefnd ekki á með kæranda að ekki hafi verið tekin afstaða til andlegra veikinda hans við niðurstöðu máls hans í úrskurði sínum, dags. 26. ágúst 2021.

Þegar hefur verið fjallað um málsástæðu kæranda hvað varðar rangfærslur í sjúkraskrá hans í úrskurði kærunefndar, dags. 4. nóvember 2021. Var það mat kærunefndar að hefðu hinar réttu upplýsingar legið fyrir, hefði úrlausn máls kæranda orðið sú sama. Var því ekki fallist á með kæranda að úrskurður kærunefndar, dags. 26. ágúst 2021, hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að öðru leyti vísast til rökstuðnings nefndarinnar í úrskurði, dags. 4. nóvember 2021, í nr. 545/2021, hvað þessa málsástæðu varðar.

Þá gerir kærandi athugasemd við þann rökstuðning kærunefndar að hann njóti aðstoðar fjölskyldu sinnar og telur að kærunefnd hafi ekki litið til réttinda sem honum séu tryggð samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem fullgiltur hefur verið hér á landi, við ákvarðanatöku í máli hans. Vísar kærandi jafnframt til úrskurðar kærunefndar nr. 429/2021, dags. 9. september 2021, máli sínu til stuðnings. Kærunefnd tekur fram að við ákvarðanatöku í máli kæranda fór fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum hans og þeim aðstæðum sem biðu hans í viðtökuríki. Lagði kærunefnd mat á stöðu fatlaðs fólks í Grikklandi og þau úrræði sem honum stæðu til boða sem fatlaður einstaklingur með alþjóðlega vernd þar í landi. Í úrskurði kærunefndar, dags. 26. ágúst 2021, rakti kærunefnd jafnframt þá þjónustu sem kærandi ætti rétt á sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi. Tók kærunefnd fram að Grikkland hefði fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valfrjálsa bókun við samninginn. Fór því fram heildarmat á aðstæðum kæranda og þeirri þjónustu sem honum stæði til boða í viðtökuríki. Þá tekur kærunefnd fram að þó litið hafi verð til þess að kærandi væri í fylgd með fjölskyldu sinni hafi það eitt og sér ekki haft úrslitaáhrif á niðurstöðu í máli hans. Í framangreindu máli, úrskurði kærunefndar í máli nr. 429/2021, sem kærandi vísar til í greinargerð sinni var kærandi lamaður fyrir […]. Kærandi notaðist við […]. Jafnframt lá fyrir að kærandi væri handhafi viðbótarverndar í Grikklandi og að dvalarleyfi hans væri útrunnið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd hafði kynnt sér kom fram að umsóknarferli við endurnýjun dvalarleyfa gæti tekið töluverðan tíma og á meðan á því stæði gætu einstaklingar lent í þeirri stöðu að hafa takmarkað aðgengi að félagsaðstoð, heilbrigðisþjónustu eða atvinnumarkaðnum. Að mati kærunefndar báru gögn með sér að kærandi mætti vænta þess að staða hans yrði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríkinu. Af þeim sökum telur kærunefnd að þrátt fyrir að um sama viðtökuríki sé að ræða sé ekki unnt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kæranda í framangreindum úrskurði enda séu aðstæður þeirra ólíkar að öðru leyti.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji vinnubrögð lögreglu við flutning hans frá landinu vera ómarkviss og að hann hafi aldrei verið beðinn persónulega um að undirgangast læknisrannsókn vegna Covid-19. Í úrskurði kærunefndar nr. 39/2022, dags. 3. febrúar 2022, kom m.a. fram að lögmaður kæranda hefði verið viðstödd í gegnum fjarfundarbúnað þegar stoðdeild hitti kæranda og fjölskyldu hans í búsetuúrræði þeirra til að kynna fyrir þeim Tilkynningu um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands. Þá hafi tilkynningin verið kynnt fyrir kæranda og fjölskyldu hans með aðstoð túlks í gegnum Language Line. Kærunefnd fellst því ekki á með kæranda að um ómarkviss vinnubrögð stoðdeildar við flutning hans frá landinu hafi verið ræða.

Meðfylgjandi endurupptökubeiðni kæranda er vottorð frá sjúkraþjálfara, dags. 30. maí 2022. Í vottorðinu kemur m.a. fram að kærandi hafi hitt þrjá sjúkraþjálfara hér á landi reglulega í rúmt ár. Kærandi hafi í byrjun verið krepptur í mjöðmum, hnjám og ökklum en það hafi tekist að liðka hann þannig að liðferlar séu nokkuð eðlilegir við passífa hreyfingu. Samkvæmt mati sjúkraþjálfaranna þriggja sem hafi komið að meðferð kæranda beri hann einkenni […] í ganglimum sem samræmist einkennum fólks með […]. Einkennin feli m.a. í sér óeðlilega vöðvaspennu svo ganglimir leita í ákveðin spennumynstur. Kærandi sé í þörf fyrir endurhæfingu þar sem mismunandi fagaðilar kæmu að meðferð hans til að hann geti orðið sjálfbjarga auk þess sem hann sé í þörf fyrir viðhaldsmeðferð m.a. á sjúkraþjálfunarstofu til að vinna gegn vöðvastífni og bæta færni. Það er mat kærunefndar að framangreint vottorð hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um heilsufar kæranda og sé til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hans hjá nefndinni. Líkt og að framan greinir er það mat kærunefndar að kæranda standi til boða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta í viðtökuríki. Kærunefnd telur að ekki sé um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 26. ágúst 2021, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine his case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum