Hoppa yfir valmynd
K%EF%BF%BD%EF%BF%BDrunefnd %EF%BF%BD%EF%BF%BDtlendingam%EF%BF%BD%EF%BF%BDla

Nr. 344/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 344/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU22060014

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði sínum, nr. 215/2021, dags. 12. maí 2021, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 17. maí 2021. Hinn 26. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Hinn 7. október 2021 var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað. Hinn 18. október 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju og var þeirri beiðni hafnað 25. nóvember 2021. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku í þriðja sinn 8. júní 2022.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda kemur fram að samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að fá mál sitt tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi vísar til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans hafi komið fram sú afstaða að hann hafi ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á hugsanleg fjölskyldutengsl hans við einstaklinga í Grikklandi með óyggjandi hætti þó slík tengsl væru ekki útilokuð. Kærandi hafi svo óskað eftir endurupptöku máls hans hjá kærunefnd þegar eiginkona hans og barn hafi komið til landsins en verið hafnað m.a. á þeim grundvelli að hvorki eiginkona né barn kæranda hefðu hlotið alþjóðlega vernd hér á landi. Með vísan til fyrirliggjandi gagna og nýrra upplýsinga telur kærandi að forsendur hafi nú breyst en hann eigi eiginkonu og dóttur sem staddar eru hér á landi og hafa hlotið hér alþjóðlega vernd. Kærandi hafi þegar lagt fram ítarleg og áreiðanleg gögn um fjölskyldutengsl sín með fyrri endurupptökubeiðni sinni en sé vafi enn til staðar væri hægt að útiloka hann með blóðprufu. Kærandi vísar til þess að fyrir liggi hjúskaparvottorð til staðfestingar á hjónabandi hans auk þess sem hann hafi verið staðfastur í frásögn sinni um fjölskylduaðstæður sínar. Í ljósi framangreinds telur kærandi að tengsl fjölskyldunnar séu með þeim hætti að þau falli undir 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, enda beri gögn málsins með sér að tengslin hafi orðið til áður en að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd voru lagðar fram hér á landi. Því krefst kærandi þess aðallega að mál hans verði endurupptekið og að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að ekkert hafi komið fram í máli hans sem gefi til kynna að sérstakar ástæður mæli gegn því að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ákvæðisins. Þá krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt réttarstaða flóttamanns á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara þá gerir kærandi kröfu um að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd og að málinu verði vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun, í ljósi verulega breyttra forsendna.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 12. maí 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með úrskurði kærunefndar í stjórnsýslumáli nr. KNU21120063, dags. 24. febrúar 2022, komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að mál eiginkonu og dóttur kæranda skyldi taka til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna. Í málinu lá fyrir að kærandi og eiginkona hans væru aðskilin vegna ásakana hennar um andlegt ofbeldi af hans hálfu. Taldi kærunefnd að í ljósi aðgangshindrana að grunnþjónustu og lagalegum réttindum í Grikklandi og þá sérstaklega þegar litið væri til stöðu barnsins að ástæða væri til að ætla að kærandi væri í verulega síðri stöðu en almenningur í Grikklandi til að sækja sér réttindi sín, framfleyta fjölskyldunni og fá viðeigandi stuðning félagsmálakerfis og þar með tryggja gunnþarfir barns síns. Það væri því ekki í samræmi við öryggi barnsins, velferðar og þroska að fara aftur til Grikklands þar sem óvissa væri um trygga framfærslu barnsins og aðgang að grunnþjónustu og félagslegum stuðningi.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að eiginkona hans og dóttir hafi nú hlotið alþjóðlega vernd hér á landi og því skuli veita honum alþjóðlega vernd aðallega á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga en til vara á grundvelli 3. mgr. 45. gr. sömu laga. Þá gerir kærandi kröfu um að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd og að málinu verði vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun, í ljósi verulega breyttra forsendna.

Hvað varðar beiðni kæranda um fjölskyldusameiningu við konu hans og dóttur á grundvelli 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga beinir kærunefnd þeim tilmælum til kæranda að leggja slíka umsókn fram hjá Útlendingastofnun svo kærandi fái umfjöllun um þá beiðni á tveimur stjórnsýslustigum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki verði fallist á beiðni kæranda um endurupptöku á þessum grundvelli.

Þrautavarakrafa kæranda lítur að því að mál hans verði endurupptekið hjá kærunefnd og að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 11. nóvember og 2. desember 2020, greindi kærandi frá því að hafa ekki sérstök tengsl við Ísland. Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 12. maí 2021, lá fyrir að eiginkona hans og barn væru ekki komnar til landsins. Því leit kærunefnd svo á að ekkert í gögnum málsins benti til þess að kærandi hefði slík tengsl við landið að beita ætti ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess að eiginkona og dóttir kæranda hafa nú fengið alþjóðlega vernd hér á landi telur kærunefnd að mat þurfi að fara fram á sérstökum tengslum kæranda að nýju, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að ljóst sé að ekkert í málatilbúnaði kæranda hjá Útlendingastofnun hafi gefið til kynna að kærandi hefði sérstök tengsl við Ísland þegar ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans var tekin telur kærunefnd að hinar breyttu forsendur kalli á frekari rannsókn í málinu og að kærandi fái leyst úr hinni breyttu málsástæðu á tveimur stjórnsýslustigum. Því telur kærunefnd að fallast verði á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans enda er ljóst að atvik hafa breyst verulega frá því að úrskurður í máli kæranda féll, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Því telur kærunefnd að mat á sérstökum tengslum þurfi að fara fram hjá Útlendingastofnun í ljósi þeirra breyttu forsendna sem nú eru uppi. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því felld úr gildi og skal Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The appellant‘s request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall re-examine the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum