Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarn%C3%A1msb%C3%B3ta

Matsmál nr. 3/2022, úrskurður 2. mars 2023

Fimmtudaginn 2. mars 2023 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 3/2022

 

 

Vegagerðin

gegn

IREF ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 10. ágúst 2022 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Suðurhrauni 3, 210 Garðabæ (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu í landi jarðarinnar Lónakots í Hafnarfirði, landnúmer 123167, í þágu framkvæmdar um breikkun (tvöföldun) Reykjanesbrautar samkvæmt ákvörðun um eignarnáms 9. ágúst 2022. Með matsbeiðninni var þess einnig farið á leit við matsnefndina að nefndin heimilaði eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem taka ætti eignarnámi, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

 

Eignarnámsheimild er í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

 

Eignarnámsþoli er þinglýstur eigandi að 50% hlut í Lónakoti, IREF ehf., kt. 450411-0940, Skeifunni 17, 108 Reykjavík, en fyrirsvarsmaður eignarnámsþola er Þórarinn Arnar Sævarsson, stjórnarformaður, kt. […], [heimilisfang].

 

Matsandlagið samkvæmt matsbeiðni 10. ágúst 2022 er nánar tiltekið:

50% eignarhluti eignarnámsþola í spildu úr landi Lónakots undir Reykjanesbraut á milli vegstöðva 4800 og 5600 vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar eignarnema, að stærð 58.976 fermetrar, miðað við 60 metra breitt vegsvæði, það er 30 metra frá miðlínu til hvorrar handar, að frádregnu 12.250 fermetra vegsvæði eldri vegar, eða samtals 46.726 fermetrar.

50% eignarhluti eignarnámsþola í spildu úr landi Lónakots undir Reykjanesbraut vegna fyrri framkvæmdar eignarnema, að stærð 25.988 fermetrar, miðað við 60 metra breitt vegsvæði, það er 30 metra frá miðlínu til hvorrar handar, að frádregnu 9.597 fermetra vegsvæði eldri vegar, eða samtals 16.391 fermetrar.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 25. ágúst 2022. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 27 tölusettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs. Fært var til bókar að matsnefnd féllist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 37. gr. vegalaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, svo og að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. sömu laga. Þá var þess farið á leit við málsaðila að þeir skiluðu til matsnefndarinnar athugasemdum um hvort skilyrði stæðu til umráðatöku samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr 11/1973 á grundvelli fram kominnar beiðni eignarnema þar að lútandi. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Föstudaginn 9. september 2022 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Fært var til bókar að matsnefnd færi þess á leit við eignarnema að upplýst yrði um stærðir þess lands Lónakots sem matsþoli héldi eftir að framkvæmd eignarnema frágenginni. Þá væri þess óskað að landamerki Lónakots yrðu færð inn á kort eignarnema. Loks var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Þriðjudaginn 29. nóvember 2022 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 25. ágúst 2022 og vettvangsgöngu 9. september sama ár. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar frá eignarnema athugasemdir 14. september 2022 vegna kröfu hans um umráðatöku, tölvubréf eignarnema 15. september 2022 til matsnefndar, þar sem upplýst var að sveitarstjórn hefði dregið til baka framkvæmdaleyfi vegna þeirra framkvæmda sem eru tilefni eignarnámsins, athugasemdir 22. september 2022 vegna kröfu eignarnema um umráðatöku ásamt þremur fylgiskjölum, þar sem þess var meðal annars óskað að „ákvörðun um umráðaheimild frá Matsnefnd eignarnámsbóta verði frestað að svo stöddu, uns nýtt framkvæmdaleyfi hefur verið samþykkt og eignarnemi endurmetið tímalínu verksins með tilliti til nýrrar dagsetningar á útboði verksins“, greinargerð eignarnema 10. nóvember 2022 ásamt 12 fylgiskjölum, svo og athugasemdir hans 25. nóvember 2022 ásamt einu fylgiskjali. Þá höfðu matsnefndinni einnig borist til framlagningar frá eignarnámsþola athugasemdir 13. og 16. september 2022 vegna kröfu eignarnema um umráðatöku, greinargerð eignarnámsþola 10. nóvember 2022 ásamt 12 fylgiskjölum, tölvubréf eignarnámsþola 25. nóvember 2022 til matsnefndar ásamt einu fylgiskjali (korti) og tölvubréf eignarnámsþola 27. nóvember 2022 til matsnefndar ásamt fjórum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram tímaskýrsla vegna vinnu lögmanns hans. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmönnum bókað að þeir teldu ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Með tölvubréfi eignarnámsþola 6. janúar 2023 til matsnefndar bárust tvö ný skjöl, annars vegar samskipti landeigenda Óttarsstaða við sveitafélagið Hafnarfjarðarbæ 3. nóvember 2022 og 5. desember sama ár vegna beiðni þeirra fyrrgreindu um breytingu á aðalskipulagi og hins vegar erindi Carbix 7. sama mánaðar til Hafnarfjarðarbæjar vegna beiðni um aðalskipulagsbreytingu.

 

Í tölvubréfi matsnefndar 9. janúar 2023 til aðila var þess farið á leit við aðila: Að upplýst yrði frekar um atvik að lagningu Reykjanesbrautar um 1960 og töku lands í þágu þeirrar vegagerðar, þ. á m. hvort vitað væri hvort endurgjald hefði komið fyrir land undir veg. Í tölvubréfinu var tilgreint að af málatilbúnaði aðila yrði helst ráðið að ekkert væri vitað um þetta en vegna rannsóknarskyldu matsnefndar vildi nefndin inna aðila sérstaklega um svör við þessu. Einnig að veittar yrði upplýsingar um áhrifasvæði þjóðvegarins fyrir og eftir framkvæmdir eignarnema, það er áhrifasvæði í samræmi við d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð nr. 90/2003.

 

Með tölvubréfi eignarnema 25. janúar 2023 til matsnefndar bárust athugasemdir hans vegnar fyrirspurnar matsnefndar 9. sama mánaðar ásamt fimm fylgiskjölum. Með tveimur tölvubréfum eignarnámsþola 14. febrúar sama ár til matsnefndar bárust athugasemdir hans. Með tölvubréfi eignarnema degi síðar til matsnefndar bárust enn athugasemdir af hálfu eignarnema.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar bætur til eiganda 50% eignarhluta í fasteigninni Lónakoti vegna eignarnáms á annars vegar 58.976 fermetra spildu og hins vegar 25.988 fermetra spildu undir veg úr landi Lónakots, sem eignarnemi hyggst taka undir framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar, að frádreginni annars vegar 12.250 fermetra spildu og hins vegar 9.597 fermetra spildu lands núverandi vegar sem tilheyri eignarnema. Samtals skuli því koma bætur fyrir annars vegar 46.726 fermetra spildu og hins vegar 16.391 fermetra spildu úr landi Lónakots, eða samtals 63.117 fermetra. Samkvæmt málatilbúnaði eignarnema er fyrri spildan ætluð í þágu framkvæmdar við breikkun Reykjanesbrautar en sú síðari tekin eignarnámi vegna fyrri framkvæmdar við tvöföldun vegarins. Þá skuli matsnefnd ákveða bætur vegna hæfilegs málskostnaðar við hagsmunagæslu eignarnámsþola miðað við eðli og umfang málsins.

 

Eignarnemi bendir á að eins og samningaviðræður geri ljóst hafi hann leitast við að ljúka málinu með sátt. Þar sem sættir hafi ekki tekist og stórkostlegur munur sé á bótatillögum eignarnema og gagntillögu eignarnámsþola sé nauðsynlegt að leita til matsnefndar til að skera úr ágreiningi um fjárhæð eignarnámsbóta.

 

Varðandi matsandlagið tiltekur eignarnemi að jörðin Lónakot, landnúmer 123167, sé í eigu sveitarfélagsins Hafnarfjarðarkaupstaðar og eignarnámsþola í jöfnum hlutföllum. Eignarnemi ráðgeri að ganga frá samkomulagi við sveitarfélagið um eignarhlut þess. Eignarnemi tiltekur að samkvæmt fasteignaskrá sé heildarstærð fasteignarinnar Lónakots 430 hektarar og landið sé þar skráð sem óútvísað land. Þá sé landið í aðalskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar að mestu leyti skilgreint sem almenningur/óbyggt svæði, þ. á m. þar sem fyrirhuguð veglína liggi, en að hluta sem hverfisverndað eða verndað svæði. Í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir breikkun Reyknesbrautar í samræmi við fyrirhugaðar framkvæmdir eignarnema. Ekkert deiliskipulag liggi fyrir um land Lónakots. Fasteignamat ársins 2022 nemi 150.100.000 krónum og fasteignamat næsta árs nemi 185.650.000 krónum. Í gildandi aðalskipulagi liggi áætluð veglína um land sem flokkað sé sem óbyggt svæði. Engin mannvirki séu á vegsvæðinu eða aðrar tilfæringar. Þá séu kvaðir á landareigninni um lagningu rafmagnslínu og ljósleiðara auk óhindraðs aðgangs Landsnets hf. að helgunarsvæði rafmagnslínanna og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda og síðara viðhalds, eftirlits og endurnýjunar. Eignarnámið beinist að eignarhluta eignarnámsþola í tveimur spildum úr landi Lónakots sem séu í óskiptri sameign með Hafnarfjarðarkaupstað; annars vegar undir breikkun Reykjanesbrautar, þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar við breikkun vegarins, og hins vegar undir vegsvæði Reykjanesbrautar innan Lónakots úr fyrri framkvæmd við tvöföldun Reykjanesbrautar. Samkvæmt landgreiningu miðist matsandlagið við 58.976 fermetra og 25.988 fermetra af mosagrónu hrauni innan Lónakots meðfram núverandi vegsvæði Reykjanesbrautar. Eignarnemi kveðst telja sér til eignar núverandi vegsvæði, sem sé talið 12 metra breitt (6 metrar til hvorrar handar), alls 12.250 fermetrar og 9.597 fermetrar. Komi vegsvæði núverandi vegar til frádráttar bótum fyrir matsandlagið. Skuli eignarnámsþola því ákveðnar bætur fyrir 50% eignarhlut hans í matsandlaginu, annars vegar samtals 46.726 fermetra (58.976 - 12.250) og hins vegar samtals 16.391 fermetra (25.988 - 9.597), en heildarstærð spildnanna tveggja, alls 63.117 fermetrum, verði hins vegar skipt út úr jörðinni Lónakoti í kjölfar eignarnámsins. Eignarnemi kveður eignarrétt sinn yfir eldra vegsvæði, sem hafi verið ítarlega rakinn í samskiptum aðila, byggja á því að Reykjanesbraut hafi legið í núverandi vegsvæði um áratugaskeið allt frá því vegurinn var lagður um 1960 og hafi frá þeim tíma verið haldið óslitið við af almannafé. Leiði sjónarmið laga nr. 46/1905 um hefð til sömu niðurstöðu með sömu rökum. Hér vísar eignarnemi meðal annars til dóma Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 644/2006 (Syðri Fjörður), 20. mars 2003 í máli nr. 388/2002 (Fífuhvammur) og Hrd. 1980, bls. 920 (Leirvogstunga), auk úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 18. nóvember 2011 í máli nr. 2/2011 (Hjarðarhagi). Verði vegsvæði núverandi Reykjanesbrautar því að koma til frádráttar bótum fyrir land undir veg, sbr. einnig það grundvallarsjónarmið 4. mgr. 39. gr. vegalaga að eignarnemi sé eigandi núverandi vegsvæða óháð skráðum eignarheimildum. Eignarnemi vísar til þess að eignarnámsþolar geri athugasemdir við tilgreiningu á stærð matsandlagsins þar sem þeir sætti sig ekki við frádrátt núverandi vegsvæðis sem falli innan heildarstærðar vegsvæðis sem skipt verði úr landinu. Hér bendir eignarnemi á að framsetning kröfugerðar í eignarnámsákvörðun og matsbeiðni til matsnefndar sé hefðbundin. Eignarnámsþolar hafi haldið því fram að 4. mgr. 39. gr. vegalaga eigi ekki við því eignarnemi geti ekki sannað eignarhald sitt á núverandi vegi, að eignarnemi hafi ekki þinglýst réttindum sínum samkvæmt 3. mgr. 40. gr. vegalaga og að ekki hafi verið lagður fram eignarnámsúrskurður eða samningur um landið. Eignarnemi kveður útskýringar á hvaða forsendum og réttarheimildum eignarhald hans á núverandi vegsvæði byggist vera fullnægjandi heimild. Hann hafnar alfarið túlkunum eignarnámsþola á ákvæðum vegalaga og dómafordæmum sem fyrir liggja.

 

Í þessu samhengi bendir eignarnemi á að engu breyti þótt tilvitnaðir dómar séu kveðnir upp fyrir gildistöku vegalaga nr. 80/2007. Ákvæði vegalaga um eignarnám og skyldu fasteignareiganda til að láta af hendi nauðsynlegt land til þjóðvegagerðar hafi staðið lítt breytt um áratugaskeið. Þá séu ákvæði vegalaga um fyrningu bótakrafna vegna vegagerðar í meginatriðum óbreytt þótt ákvæði um fyrningu sem lengi vel hafi verið eitt ár hafi verið breytt í 10 ár með gildandi lögum. Ákvæði hefðarlaga um fasteignarréttindi séu óbreytt. Eignarnemi bendir á eignarnámsheimildir vegalaga í VII. kafla vegalaga nr. 80/2007 og eignarnámsheimild í 37. gr. laganna, auk lögskýringargagna þar sem fram komi að ekki hafi verið um efnisbreytingar að ræða. Fyrri fordæmi dómstóla séu því gild réttarheimild. Þá hafnar eignarnemi því að 3. mgr. 40. gr. vegalaga hafi þau áhrif sem eignarnámsþolar halda fram og bendir á að ákvæðið hafi verið nýmæli í núgildandi vegalögum. Eignarnámið nú beinist að heildarvegsvæðinu að frádregnu því landi innan þess sem þegar tilheyri eignarnema. Eignarnemi vinni að því jafnt og þétt að þinglýsa vegsvæðum og sé það almennt gert í tengslum við framkvæmdir. Þá bendir hann á að þinglýsing breyti ekki efnislegu inntaki eignarréttar. Eignarnemi kveður 4. mgr. 39. gr. vegalaga eiga sér samsvörun í almennum reglum skaðabótaréttar um að bæta beri nettótjón landeiganda og hafi hún því víðtækari skírskotun en aðeins í tilvikum þegar eldri vegur er lagður niður og honum skilað aftur til landeiganda. Eignarnemi bendir á að hann hafi um áratugaskeið haft óslitin umráð yfir vegsvæðinu, viðhaldið mannvirkinu af almannafé án athugasemda eða krafna sem vitað sé um af hálfu eignarnámsþola. Vísar eignarnemi t.d dóms Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 644/2006 (Syðri Fjörður) málatilbúnaði sínum til stuðnings, þar sem skorið hafi verið úr um frádrátt eldra vegstæðis. Þá bendir eignarnemi á að eldri vegalög hafi kveðið á um að ekki bæri að greiða bætur fyrir óræktað land sem tekið hafi verið til þjóðvegagerðar, sbr. 2. mgr. 25. gr. vegalaga nr. 101/1933 og 1. mgr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994, auk þess sem í þessum lögum hafi verið kveðið á um stutta fyrningarfresti, sbr. t.d. 30. gr. laga nr. 101/1933 og 49. gr. laga nr. 45/1994, og bótakröfur sem kynnu að hafa stofnast því löngu fyrndar. Þótt sjónarmið kunni að hafa breyst undanfarin ár raski það ekki réttarstöðunni. Krafa eignarnema um frádrátt núverandi vegsvæðis sé því fyllilega lögmæt.

 

Eignarnemi bendir á að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér tvöföldun Reykjanesbrautar á landsvæði sem legið hafi vegur um áratugum saman og þar sem hvorki sé að finna fasteignir né önnur mannvirki og bendir á dómaframkvæmd og úrskurðaframkvæmd matsnefndar auk lagagrundvölls í þessu samhengi. Þá komi fram í skýrslunni Grindavíkurvegur — saga og minjar frá 2012, sem liggi fyrir í málinu, að Reykjanesbraut hafi legið í sama vegstæði frá því a.m.k. árið 1960. Ekkert liggi fyrir um hvort eða hvenær komi til álita að reisa mannvirki á jörðinni, hvort heimild þess efnis fáist eða um ætlaðan kostnað hugsanlegra framkvæmda.

 

Við mat á bótum telur eignarnemi að líta beri til almennra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta sem hann gerir grein fyrir í málatilbúnaði sínu, þ. á m. um fullt verð í merkingu 72. gr. stjórnarskrárinnar, sjónarmið um söluverð, notagildi og enduröflunarverð, þýðingu lögákveðinnar landnýtingar og opinberrar skráningar fyrir verðgildi fasteigna o.fl. Eignarnemi telur að markaðsverð matsandlagsins sé vegna staðsetningar, gæða og nálægðar við veg ekki hærra en hann hafi boðið. Rétt sé að líta til samninga við landeigendur í sambærilegum málum og fyrirliggjandi upplýsinga um landverð á jörðum/spildum sem gengið hafi kaupum og sölum á svipuðum slóðum, nýlegra úrskurða matsnefndar, mats þjóðskrár á landbúnaðarlandi í nágrenninu og gildandi fasteignamats matsandlagsins.

 

Þessu til viðbótar bendir eignarnemi á að viðurkennt sjónarmið við mat á eignarnámsbótum sé að eigendur lands sem vegur liggi um verði ávallt að gera ráð fyrir að vegir verði uppfærðir og lagfærðir, auk þess sem umferð kunni að aukast eða minnka með árunum og skipulag breytast. Þessi sjónarmið eigi að leiða til þess að meint tjón landeigenda af breikkun og endurbyggingu vega séu minni en ef verið væri að leggja veg um land þar sem vegur hefði ekki legið áður. Af því leiði að sjónarmið um önnur áhrif af vegarlagningu, t.d. hugsanleg áhrif vegna skipulagskvaða, komi ekki til skoðunar í sama mæli. Þá leggur eignarnemi áherslu á þá grundvallarreglu að bætur skuli miðast við að gera eignarnámsþola eins settan fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Bætur skuli miða við sannað fjárhagslegt verðmæti (gangverð) eignarnuminnar spildu á matsdegi miðað við staðgreiðslu og núverandi notkun. Til frádráttar komi allar hugsanlegar hagsbætur sem eignarnámsþoli hafi af framkvæmdum, sbr. 39. gr. vegalaga.

 

Eignarnemi krefst þess að eignarnámsþola verði ákvarðaðar bætur í samræmi við þessi meginsjónarmið og miðað við framlögð málsgögn. Eignarnemi áréttar að hann telji sig óbundinn af framlögðum tilboðum enda hafi þau verið liður í að ná samningum við landeigendur. Eignarnemi heldur því fram að sú fjárhæð sem hann hafi boðið í samningaviðræðum bindi ekki hendur matsnefndar og beri ekki að skilja sem lægstu mögulegu fjárhæð við mat á endanlegum bótum heldur leggi nefndin sjálfstætt mat á hæfilegar bætur út frá gögnum máls og eigin sérþekkingu.

 

Eignarnemi vísar til þess að samkvæmt fasteignaskrá sé land Lónakots metið á 150.100.000 krónur en fasteignamat 2023 nemi 185.650.000 krónum. Skráð stærð þess sé 430 hektarar. Samkvæmt því sé fasteignamat að meðaltali 349.000 krónur á hektara eða 34,90 krónur á fermetra. Samkvæmt forsendum sem eignarnemi hafi lagt til grundvallar fyrri tilboðum sínum megi þó ætla að markaðsverð sé hærra en tilboðin hafi jafnframt tekið tillit til þess að um væri að ræða land meðfram vegi og að mestu innan veghelgunarsvæðis samkvæmt vegalögum nr. 80/2007. Eignarnemi telur í samræmi við fyrri tilboð sín og tiltæk gögn að hæfilegar bætur fyrir matsandlagið nemi 2.100.000 krónum á hektara eða 210 krónum á fermetra, sbr. lokatilboð hans. Við mat á hæfilegri bótafjárhæð kveðst eignarnemi hafa litið til þess að matsandlagið sé meðfram núverandi Reykjanesbraut og muni að mestu vera innan núverandi veghelgunarsvæðis sem sæti lögbundnum takmörkunum samkvæmt 1. mgr. 32. gr. vegalaga og takmörkunum skipulagslöggjafar um heimil not, þ. á m. samkvæmt d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Núverandi vegur hafi upphaflega verið lagður sem steyptur vegur upp úr 1960 og hafi verið meginsamgönguæð um Reykjanesið síðan. Samkvæmt fordæmum matsnefndar eignarnámsbóta hafi land næst vegi lægra matsverð en land sem liggi fjær vegi vegna þeirra kvaða sem til staðar séu, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 30. mars 2009 í máli nr. 10/2008 (Ásgrímsstaðir og Móberg) og dóm Hæstaréttar í máli nr. 349/2004 (Þjórsártún).

 

Hafi eignarnemi meðal annars litið til úrskurðar matsnefndar 30. júlí 2015 í máli nr. 2/2014 (spilda úr landi Óttarsstaða á 2.250.000 krónur á hektara eða 225 krónur á fermetra). Hafi fyrri tilboð eignarnema meðal annars tekið mið af þessari niðurstöðu nefndarinnar, uppreiknað með tilliti til vísitölu, þeirrar staðreyndar að um land í næsta nágrenni við veg sé að ræða, auk þess að taka tillit til áhrifa sem leiði af framkvæmdinni, sbr. dóm Hæstaréttar 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 (Þjórsártún). Af öðrum sambærilegum málum hafi meðal annars verið litið til úrskurðar 30. júlí 2015 í máli nr. 5/2014 (Stóra-Vatnsleysa á Reykjanesi 150 krónur á fermetra), úrskurðar 30. júní 2015 í máli nr. 3/2014 (land Skógræktar ríkisins við Hafnarfjörð 300 krónur á fermetra), úrskurðar 30. júní 2015 í máli nr. 4/2014 (Hvassahraun vestan Óttarsstaða 225 krónur á fermetra), úrskurðar 30. júlí 2015 í máli nr. 7/2014 (Stóra Knarranes I á Vatnsleysuströnd 150 krónur á fermetra) og úrskurðar 30. júlí 2015 í máli nr. 9/2014 (Sjónarhóll 100 krónur á fermetra), sem ítarlega er lýst í málatilbúnaði eignarnema. Af þessum úrskurðum telur eignarnemi ljóst að við mat á verðmæta lands á þessu svæði þurfi að líta til söluverðmætis hins umþrætta landsvæðis og við það mat þurfi að líta til þróunar byggðar, hver sé líkleg byggðarþróun í framtíðinni og hvort einhverjar aðstæður séu uppi sem séu til þess fallnar að vekja væntingar sem hafi áhrif á verð. Þá hafi í úrskurðum í málum nr. 3/2014 og 4/2014 t.d. verið litið til mögulegrar uppbyggingar á flugvelli í Hvassahrauni sem ekki horfi eins við í dag eftir eldgos á svæðinu. Sama megi segi um áform um byggingu flugvallar og uppbyggingu hafnar á þessu svæði.

 

Hér vísar eignarnemi og til þess að eignarnámsþoli hafi keypt 50% eignarhlut sinn í Lónakoti með kaupsamningi 31. maí 2021. Afsal hafi farið fram 1. febrúar 2022 og því þinglýst 11. sama mánaðar. Hafi kaupverðið fyrir þennan eignarhlut numið samtals 135.000.000 krónum en af því leiði að fasteignin hafi í heild, alls 430 hektarar, verið verðmetin á 270.000.000 krónur eða sem nemi 627.907 krónum á hektara eða 62,79 krónur á fermetra. Eignarnemi telur það skjóta skökku við að nú, fáum mánuðum síðar, geri eignarnámsþoli kröfu um 5.603 krónur á fermetra, eða tæplega hundraðfalda hækkun. Eignarnemi kveður engar forsendur geta verið til að fallast á það sem virðist gagntilboð eignarnámsþola upp á 56.025.760 krónur á hektara eða 5.603 krónur á fermetra. Eignarnemi telur fyrri tilboð sín hafa verið mjög hæfileg og jafnvel rífleg fyrir land meðfram núverandi vegi. Eignarnemi kveður kaupverðið gefa glögga mynd af markaðsverði á landi á þessum stað um þessar mundir og eignarnámsþoli geti ekki nú, ári síðar, krafist hundraðfaldrar hækkunar á það verð sem hann hafi sjálfur greitt fyrir eignina. Kaupsamningur eignarnámsþola sjálfs sé nýjasta og besta heimildin um raunverulegt markaðsverð fyrir matsandlagið og verði ekki framjhjá því litið við úrlausn málsins. Auk þess sé um að ræða óskipulagt land, lagt hrauni og að hluta til á náttúruminjaskrá og hafi það ekki hærra markaðsverð sem stendur.

 

Eignarnemi hafnar því að tilvísun til skráðs fasteignamats á atvinnulóðum í nágrenninu gefi rétta mynd af líklegu verðmæti matsandlagsins. Alkunna sé að þegar sveitarfélög hafi staðfest skipulag á lóðum, hvort sem um sé að ræða íbúðarhúsalóðir eða atvinnulóðir, þá séu þær metnar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna og eftir þeim mælikvörðum sem þá gildi. Óútvísað land sé metið miklum mun lægra. Sjáist það best á því hve land Lónakots sé í reynd lágt metið að fasteignamati þrátt fyrir að vera um 440 hektarar að stærð.

 

Eignarnemi telur aðra nýtingu en núverandi not jarðar eignarnámsþola ekki fyrirséða eða líklega og núverandi not séu því líklegustu not. Bendir eignarnemi t.d. á Hrd. 1984, bls. 906 (Ásgarður) og Hrd 1999, bls. 2666 (Sorpstöð Suðurlands) máli sínu til stuðnings. Meta verði framboðið einingaverð lands í því ljósi. Eignarnámsþolar hafi ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að breytingar verði á notkun landsins í bráð, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 25. mars 2010 í máli nr. 404/2009 (Mýrar) þar sem meginniðurstaða réttarins hafi verið sú að kröfur verði að byggjast á haldbærum gögnum. Að mati eignarnema liggi ekkert fyrir um fyrirhugaða eða líklega nýtingu til framtíðar sem geti haft áhrif á fjárhæð bóta. Landið sé óbyggt og hafi verið það frá því eignarnámsþoli eignuðust það. Ekkert deiliskipulag liggi fyrir eða aðrir skilmálar varðandi hugsanlegar byggingar sem unnt sé að styðjast við. Samkvæmt gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sé Lónakot fyrir utan svokölluð vaxtamörk og töluvert lengra frá byggð í Hafnarfirði en grannjörðin Óttarsstaðir, auk þess sem landið sé að nokkru háð kvöðum vegna skráningar náttúruminjaskrár. Þá hafi landið ekki að öðru leyti verið gert tilbúið til annarrar notkunar. Hafi það áhrif til verulegrar lækkunar á verðmati umfram kröfugerð eignarnámsþola. Eignarnemi telur ófært að leggja til grundvallar að land geti fallið í flokk byggingarlóða í nánustu framtíð ef engar áætlanir liggi fyrir um slíkt og beri því að flokka landið sem óbyggt land, óútvísað, óskipulagt og einsleitt, sem þakið sé mosagrónu hrauni. Við það bætist að jörðin sé að miklu leyti friðlýst svæði sem takmarki möguleika til framtíðarbyggingar, þ. á m. með vísan til laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. og laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en hluti Lónakots sé nr. 111 í náttúruminjaskrá, það er á strandlengjunni frá Fögruvík í Vatnsleysuvík að Straumi vipð Straumsvík. Eignarnemi telur og að framkvæmdin breyti engu um framtíðarnotkun landsins umfram það sem nú sé enda hafi vegur legið um landið á þessum stað um áratugaskeið og umferð aukist jafnt og þétt samhliða þróun samfélagsins og áhrifin því þegar komin fram á verðmæti fasteignarinnar. Jafnvel þótt áætlanir um uppbyggingu á jörðinni væru til staðar telur eignarnemi ólíklegt að nokkur uppbygging gæti átt sér stað á svæðinu þar sem fyrirhuguð breikkun verði, því svæðið sé í mikilli nálægð við núverandi vegsvæði og innan veghelgunarsvæðis núverandi vegar. Eignarnemi áréttar að engar ákvarðanir hafi verið teknar um breytta framtíðarnýtingu. Loks áréttar eignarnemi að engin áform liggi fyrir um nýtingu Lónakots þvert á það sem við eigi í tilviki Óttarsstaða þar sem þó hafi komið fram hugmyndir um nýtingu.

 

Eignarnemi hafnar því sem fram hafi komið í málinu um að áætlun sé um höfn í landi aðliggjandi jarðarinnar Óttarsstaða í náinni framtíð sem hafi áhrif á verðmæti matsandlagsins. Hugmyndirnar geti því ekki haft áhrif á mat á verðmæti matsandlagsins og beri að líta framhjá þeim. Auk þess verði ekki séð að hafnarframkvæmd geti nokkurn tímann verið á dagskrá í landi Lónakots. Eignarnemi fær raunar heldur ekki séð með hvaða hætti slík höfn í landi Óttarsstaða gæti orðið að veruleika án þeirra mislægra gatnamóta við Rauðamel sem eignarnemi hyggst koma á í tengslum við breikkunarframkvæmdina. Ef matsnefndin teldi rétt að líta til framtíðarnýtingar af þessum toga bæri nefndinni að taka fullt tillit til þeirrar hagsbótar sem eignarnámsþolum hlotnist vð framkvæmdina, sbr. 3. mgr. 39. gr. vegalaga.

 

Eignarnemi mótmælir því kröfufjárhæðum eignarnámsþola í heild sinni og telur fjárhæðirnar á engan hátt í samræmi við raunverulegt tjón eignarnámsþola, verðmat á gæðum og staðsetningu lands, hefðbundin viðhorf við mat á bótum fyrir eignarnumið land eða úrskurðaframkvæmd matsnefndar. Einnig liggi fyrir að 50% eignarhlutur eignarnámsþola í Lónakoti hafi komið til á árinu 2022 og sé bótakrafa hans í engu samræmi við kaupverðið. Bótarkröfur eignarnámsþola byggi á því að framkvæmd eignarnema hafi áhrif á land sem allt sé æskilegt og fyrirhugað byggingarland í náinni framtíð óháð öðrum aðstæðum. Þessu hafnar eignarnemi. Þá virðist kröfufjárhæðir eignarnámsþola miða við aðstæður þegar vegur sé lagður um land þar sem enginn vegur hafi verið áður. Eignarnemi hafnar því einnig og byggir á að upphafleg vegalagning innan lands jarðar eignarnámsþola sé ekki hið eiginlega umfjöllunarefni í málinu, auk þess sem kröfugerð eignarnámsþola sé langt umfram raunverulegt verðmæti matsandlagsins.

 

Við verðmat matsandlagsins byggir eignarnemi á fleiri gögnum, nánar tiltekið gögnum um sölu og verðmat sambærilegs lands. Telur eignarnemi nærtækast að líta til eigin kaupa eignarnámsþola á fasteigninni en með kaupsamningi 31. maí 2021 hafi eignarnámsþoli keypt 50% eignarhluta í Lónakoti af Arion banka. Hafi afsal farið fram 1. febrúar 2022. Heildarviðskiptin hafi numið samtals 135.000.000 krónum, þar sem um var að ræða kaup á 50% eignarhlut í 430 hektara landsvæði sem samkvæmt fasteignaskrá sé skrá sem „annað land“. Hafi kaupverðið því numið 627.907 krónum á hektara eða 62,79 krónum á fermetra. Tilboð eignarnema hafi þannig numið rúmlega þreföldu því verði sem eignarnámsþoli keypti landið á. Eignarnemi kveður það skjóta skökku við að sami aðili krefjist nú 5.603 króna á fermetra fáum mánuðum eftir að fyrrgreint afsal hafi verið gefið út, enda liggi engin gögn fyrir um áætlanir sem réttlætt geti slíka hækkun. Séu því engar forsendur til að fallast á gagntilboð eignarnámsþola eins og það birtist í bréfi hans 1. júní 2022. Eignarnemi telur fyrri tilboð sín hafa verið mjög hæfileg og jafnvel rífleg fyrir land meðfram núverandi vegi. Þótt skammur tími sé liðinn frá því eignarnámsþoli eignaðist eignarhluta sinn í Lónakoti hafi þó komið í ljós að eldgosavirkni á svæðinu sé mikil, enda hafi gosið aftur árið 2022 í kjölfar gosloka árið 2021. Að öllu þessu virtu telur eignarnemi að væntingar vegna hugsanlegs flugvallar í Hvassahruni ætti fremur að koma til lækkunar bóta, enda sé mikil eldvirkni á svæðinu og sjái ekki fyrir endann á þeirri eldvirknishrinu. Þá hafnar eignarnemi því að líta skuli til sjónarmiða eignarnámsþola um sölu á nánar tilgreindum fasteignum því þau eigi ekki við (þ. á m. kaup á landi undir Vesturlandsveg við Lágafell í Mosfellsbæ þar sem um hafi verið að ræða land í þéttbýli skipulagt sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi, auk fasteignamats atvinnu- og iðnaðarlóða í nágrenni við jörðina). Eignarnemi byggir á að miða skuli við ætlað söluverð eða markaðsvirði matsandlagsins þar sem ekkert liggi skýrlega fyrir um núverandi eða fyrirhugað notagildi þess, arðs af eigninni eða þörf á enduröflun sambærilegrar fasteignar í kjölfar framkvæmdarinnar.

 

Eignarnemi hafnar því að eignarnámsþolar verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hugsanlegs óhagræðis eða jarðrasks á framkvæmdatíma enda séu engin mannvirki á jörðinni, þar fari ekki fram ræktun og ekkert liggi fyrir um fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu í náinni framtíð. Þá hafnar eignarnemi því að verðgildi jarðarinnar muni rýrna við framkvæmdirnar eða takmarkað fyrirsjáanlega framtíðarnýtingu landsins heldur þvert á móti. Ekkert bendi til þess að eignarnámsþolar verði fyrir öðru fjártjóni en sem nemi því að matsandlaginu verði skipt út úr landinu. Eignarnemi telur engar forsendur fyrir greiðslu bóta til eignarnámsþola vegna ætlaðrar skiptingar landsins eða takmarkana á framtíðarnýtingu þess. Ráðgerð breikkun Reykjanesbrautar innan jarðar eignarnámsþola liggi aðallega um landsvæði þar sem áhrifa Reykjanesbrautar gæti nú þegar, því matsandlagið falli að mestu saman við veghelgunarsvæði núverandi vegar, sbr. 30. gr. vegalaga, sem hafi legið innan jarðarinnar um áratugaskeið. Breikkaður vegur hafi því ekki önnur áhrif á nýtingu lands eða landkosta en þau sem þegar séu til staðar.

 

Um hugsanleg önnur áhrif vegna eignarnámsins sé til þess að líta að eignarnemi hafi boðið bætur að álitum vegna hugsanlegs jarðrasks/áhrifa af vegarlagningunni sem lið í að ná samkomulagi við eignarnámsþola. Eignarnemi byggir á hinn bóginn á því að öll hugsanleg verðlækkun aðliggjandi lands, sem um sé að ræða, hafi þegar komið fram fyrir löngu, sbr. meðal annars sjónarmið sem fram komi í dómum Hæstaréttar í máli nr. 394/2004 (Þjórsártún), 8. október 2009 í máli nr. 345/2008 og í máli nr. 644/2008. Eignarnemi áréttar því að engin almenn verðlækkunaráhrif geti orðið vegna framkvæmdanna og að líklegt verðfall aðliggjandi lands, ef um slíkt sé að ræða, hafi þegar komið fram. Reykjanesbraut hafi legið um landið um áratugaskeið og takmarkist notkun og framtíðarnýting landsins við tilvist vegarins. Eignarnemi telur að breikkun vegarins nú hafi óveruleg áhrif á nýtingu landsins umfram þegar til komin áhrif. Taka beri tillit til þess við ákvörðun bóta fyrir landið. Eignarnemi bendir á að skráð stærð jarðarinnar Lónakots samkvæmt fasteignaskrá sé 430 hektarar og eftir beiðni matsnefndar hafi eignarnemi tekið saman upplýsingar um stærð þess lands sem eignarnámsþolar halda eftir að eignarnámi frágengnu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem eignarnemi hafi aflað sé heildarstærð Lónakots fyrir eignarnám 4.389.410 fermetrar en eftir eignarnám 4.303.246 fermetrar. Haldi eignarnámsþolar eftir 2.378.007 fermetrum norðan vegar og 1.925.239 fermetrum sunnan vegar. Matsandlagið nemi alls 84.964 fermetrum og þar af kveður eignarnemi sig þegar eiga 21.847 fermetra. Eignarnámsþolum beri því bætur fyrir samtals 63.117 fermetra. Við eignarnámið færist eignarheimild að um 1,9% heildarjarðarinnar til eignarnema. Þetta telur eignarnemi styðja að framkvæmdin og eignarnámið muni hafa óveruleg áhrif á nýtingu landsins. Hann telur því engar forsendur til að ákvarða bætur fyrir skiptingu lands eða meint óhagræði af vegarlagningu, enda sé hvorki búið á jörðinni né fari þar fram ræktun eða önnur starfsemi, sbr. t.d. úrskurði matsnefndar 25. júlí 2003 í máli nr. 3/2003 (Hjarðaból) og 5. ágúst 2003 í máli nr. 2/2003 (Fjarðarhorn). Eignarnemi sé reiðubúinn að standa við fyrra boð sitt um bætur að álitum vegna meints óhagræðis á framkvæmdatíma en meta verði framboðna fjárhæð í því ljósi að um samningaviðræður hafi verið að ræða þar sem eignarnemi hafi leitast árangurslaust við að ná samningum. Loks áréttar eignarnemi þann hag sem eignarnámsþolar hafi af framkvæmdum eignarnema og taka beri tillit til við bótaákvörðun, sbr. 3. mgr. 39. gr. vegalaga, það er vegna mislægra vegamóta við Rauðamel og stígs fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur samhliða vegi undir Reykjanesbraut. Tilgangur þessara framkvæmda sé framtíðartenging við Straum og framtíðaruppbygging í landi Óttarsstaða og Lónakots. Þessi þáttur framkvæmdarinnar sé ekki nauðsynlegur hluti verksins eins og staðan sé í dag en viðbótarkostnaður vegna undirganga hlaupi á hundruðum milljóna króna. Í öllu falli séu áhrif á land lágmörkuð með gerð framtíðarvegamóta við Rauðamel, þar sem gert sé ráð fyrir að tengja saman norður- og suðurhluta jarðarinnar sem tryggi aðkomuleiðir þegar og ef farið verði í uppbyggingu í framtíðinni. Því sé enginn grundvöllur fyrir ákvörðun bóta fyrir skiptingu lands eða óhagræðis af tilkomu breikkunarinnar.

 

Eignarnemi hafnar öðrum kröfum eignarnámsþola um bætur vegna áhrifa af völdum eignarnámsins. Þannig telur eignarnemi að eignarnámsþolar verði ekki fyrir teljandi óþægindum á framkvæmdatíma umfram aðra vegfarendur og íbúa stór-Reykjavíkursvæðisins sem þurfi að sætta sig við opinbera framkvæmdir. Framboðnar bætur að fjárhæð 1.000.000 krónur telur eignarnemi hámarksbætur fyrir þann þátt málsins og tekur þar mið af úrskurðarframkvæmd matsnefndar. Þá hafnar eignarnemi bótaskyldu vegna ætlaðrar hljóð- og loftmengunar í framtíðinni. Um hljóðstig frá umferð og viðbrögð við hávaða gildi reglugerð nr. 724/2008 og samkvæmt umhverfisskýrslu aðalskipulagstillögu sé hljóðstig frá Reykjanesbraut komið í 50 db í 500 metra fjarlægð. Eignarnemi hafnar einnig kröfum eignarnámsþola um bætur vegna 100 metra áhrifasvæðis til hvorrar handar frá veginum, því um sé að ræða veg sem hafi verið lagður fyrir áratugum síðan. Vegurinn breikki aðeins til suðurs og því verði engin breyting á áhrifasvæði á landi norðanmegin.

 

Samandregið telur eignarnemi hæfilegt verð fyrir matsandlagið nema 210 krónum á fermetra. Fallist matsnefnd ekki á það bendir eignarnemi á að verð fyrir matsandlagið geti að hámarki numið 325 krónum á fermetra en að frádregnum 25% til lækkunar, það er 244 krónum á fermetra, því um sé að ræða breikkun núverandi þjóðvegar, matsandlagið sé allt innan núverandi veghelgunarsvæðis og staðsett í næsta nágreinni við álverksmiðju ISAL. Taki slíkt hámarksverð mið af nýjasta úrskurði matsnefndar 28. júní 2022 í máli nr. 7/2021, þótt eignarnemi telji forsendur í því máli, þar sem um hafi verið að ræða gróið land á Kjalarnesi í eigu aðila í atvinnurekstri og land skilgreint sem landbúnaðarland, ekki fyllilega sambærilegar við aðstæður í tilviki Lónakots. Engin rök standi til þess að ákvarða verð matsandlagsins hærra enda séu hugsanleg verðlækkunaráhrif þegar fram komin. Raunar telur eignarnemi að eðlilegt og hæfilegt verð fyrir landið skuli ákvarðað lægra að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafi á svæðinu. Eignarnemi hafnar sjónarmiðum um matsandlagið sem byggingarland enda sé landið ekki deiliskipulagt sem slíkt, sé ekki á aðalskipulagi sem íbúðar- eða iðnaðarsvæði og alls óvíst hvort það gæti yfir höfuð hentað til slíkra nota eða hvert byggingarmagn gæti orðið. Meta beri landið sem óbyggt óútvísað land, sbr. meðal annars úrskurð matsnefndar í máli nr. 7/2021.

 

Þessu öllu til viðbótar byggir eignarnemi á sjónarmiðum um verðmat lands og framboðnar bætur sem fram komu í svörum við athugasemdum eignarnámsþola við framkvæmdina.

 

Eignarnemi mótmælir málatilbúnaði eignarnámsþola, þ. á m. málavaxtalýsingu af þeirra hálfu, og bendir á að með framkvæmdinni sé vegurinn breikkaður í núverandi vegstæði en land ekki klofið.

 

Í tilefni af beðni matsnefndar um að eignarnemi upplýsti um byggingarbannskvaðir samkvæmt skipulagsreglugerð vísar eignarnemi til fyrirmæla f. liðar greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð og tiltekur að við breikkun vegarins til suðurs færist 100 metra skipulagskvöð eitthvað utar. Hafi eignarnemi látið reikna út flatarmálið sem við bætist vegna fyrirhugaðra framkvæmda, samtals 16.199 fermetrar. Þá sé heildarflatarmál á því svæði sem tekið hafi verið undir fyrri breikkun vegarins samtals 9.377 fermetrar. Hann vekur athygli á að hugsanleg útfærsla kvaðar sé einungis þeim megin sem breikkunin sé, sunnan vegar. Engra áhrifa gæti af framkvæmdum eignarnema norðan vegar. Eignarnemi bendir á að skipulagskvöðin samkvæmt tilvitnuðu ákvæði sé undanþæg og að það sé með öllu óvíst að breikkun vegarins hafi nokkur áhrif á verðmæti aðliggjandi lands, hvað þá bótaskyld áhrif á hagsmuni eignarnámsþola. Skipulagskvöðin sé aðeins 100 metrar fyrir íbúðarhúsnæði en 50 metrar fyrir atvinnuhúsnæði eða annað húsnæði. Verslunar- og þjónustuhúsnæði geti þannig farið upp að veghelgunarsvæði sem sé 30 metrar frá miðlínu vegar, sbr. 1. mgr. 32. gr. vegalaga. Þá tiltekur eignarnemi að sé land síðar skipulagt fyrir atvinnulóðir eða slíkt hafi breikkun vegarins engin áhrif. Eignarnemi hafnar því að í málinu verði hugsanleg verðlækkunaráhrif reiknuð með útfærslu skipulagskvaðar fyrir íbúðarhús og áréttar að bótakröfur verði að byggja á raunverulegu og sannanlegu tjóni. Hann telur langlíklegast að ef land sunnan vegarins verði lagt undir byggð í framtíðinni, sem reyndar sé alls óvíst, þá verði það lagt undir athafnasvæði en ekki íbúðabyggð. Fjarlægðarmörk vegna athafnasvæðis breytist ekkert við framkvæmdina. Eignarnemi kveður búðarbyggð mjög ólíklega eða útilokaða á þessu svæði í nánustu framtíð vegna náttúrulegra aðstæðna og eldgosahættu. Engir nauðsynlegir innviðir séu til staðar og landið utan byggðalínu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins eins og áður hafi verið lýst. Ef íbúðabyggð muni í framtíðinni teygja sig í þessa átt telur eignarnei líklegra að byggð þróist með ströndini, norðan vegar, þar sem engin áhrif verði vegna breikkunar vegarins. Eignarnemi bendir og á að Lónakotsjörðin sé mjög landmikil og því muni breyting á skipulagskvöð að líkindum engin áhrif hafa á verðmæti hennar. Horfa verði á land jarðarinnar í heild við mat á hvort breikkunin hafi einhver slík áhrif. Þá verði ekki frekari landskipting af völdum framkvæmdarinnar. Telji nefndin rétt að bæta að hluta einhver áhrif vegna útfærslu byggingarbannskvaðar beri að taka fullt tillit til þess við mat á verðmæti lands næst vegi til lækkunar.

 

Í tilefni af fyrirspurn matsnefndar um hvort frekari upplýsingar væru til um eignarhald núverandi vegsvæðis vísar eignarnemi til þess að kannað hafi verið ítarlega hvort gögn fyndust um kaup á landi þegar framkvæmdir hefðu hafist við fyrri breikkunaráfangann upp úr aldamótum. Ekki finnist gögn um að greitt hafi verið fyrir land undir veg á þeim tíma sem vegurinn hafi verið lagður um miðjan 7. áratug síðustu aldar. Helstu gögnin um þetta sem eignarnemi geti lagt fram sé saga þess vegar sem nái aldir aftur í tímann. Um 1960 hafi verið hafist handa við að leggja nýja Suðurnesjaveginn en hann hafi samkvæmt heimildum verið lagður og steyptur á árunum 1960-1965 og vegurinn því legið um land Óttarsstaða um 60 ára skeið. Eignarnemi áréttar fyrri sjónarmið sem að þessu atriði snúa, þ. á m. dómafordæmi og ákvæði vegalaga í gegnum tíðina. Hann kveður forsendur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 644/2006 eigi fullum fetum við hér og áréttar að samkvæmt eldri lagaákvæðum hafi ekki borið að greiða bætur fyrir óræktað land undir veg auk þess sem fyrningarfrestur krafna vegna bóta fyrir vegaframkvæmdir hafi verið styttri en nú er. Eignarnemi upplýsir að samkvæmt heimildum hafi verið gjaldskylda á veginum og innheimt veggjald. Gjaldskýli hafi verið nálægt Straumi. Þá hafi því þegar verið ljóst að íslenska ríkið hafi talið sig eiganda og í fullri heimild til að innheimta gjald fyrir notkun vegarins. Ekki verði annað ráðið en að vegarlagning þessi hafi verið almannaheilla, öllum sýnileg og veggjald innheimt fram til 1975 er framkævmdarkostnaður hafi verið uppgreiddur. Hvergi virðist koma fram í heimildum að landeigendur á svæðinu hafi gert athugasemdir eða kröfur vegna lagningar vegarins og engin gögn finnist um það heldur. Eignarnemi telur ljóst að eignarhald hans á núverandi vegsvæði sé alveg skýrt samkvæmt fordæmum dómstóla sem vísað hafi verið til, úrskurðarframkvæmd matsnefndar eignarnámsbóta og ákvæðum vegalaga fyrr og nú. Allar kröfur vegna núverandi vegar séu fallnar niður fyrir fyrningu hvort sem litið sé til gildandi vegalaga eða eldri vegalaga. Aðeins beri því að greiða bætur fyrir viðbótarland undir veg, ekki eldra vegsvæðið. Þá framkvæmd telur eignarnemi og í samræmi við bótareglu vegalaga, um að bætur greiðist aðeins fyrir viðbótarland, þótt reglan sé orðuð þannig að draga skuli frá bótum fyrir land sem leggist af við framkvæmd. Eignarnemi áréttar að vegna reglna fasteignaskrár og þinglýsingalaga verði hann að fá skilríki fyrir eignarrétti sínum að heildarvegsvæðinu svo unnt sé að stofna lóð í fasteignaskrá og þinglýsa vegsvæðinu. Þetta breyti þó ekki hinum efnislega rétti eignarnema til núverandi vegsvæðis og ekki verði metnar bætur fyrir land sem þegar tilheyri eignarnema. Eignarnemi heldur því fram að framkvæmdin hafi verið sú að eignarnámið nái til heildarsvæðisins sem verði skipt út úr jörðinni en bætur greiddar fyrir viðbótarlandið (nettó) og þannig hafi verið gengið frá samningum við eigendur lands undir veg í fyrri breikkunaráfanga vegna Reykjanesbrautar, t.d. í tilviki Hvassahrauns og Brunnastaðahverfis.

 

Eignarnemi gerir athugasemdir við gögn sem eignarnámsþoli lagði fram í málinu eftir munnlegan flutning þess, annars vegar fyrirspurn landeigenda Óttarsstaða um breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar og bréfs frá þriðja aðila, Coda Terminal, til Hafnarfjarðarkaupstaðar með fyrirspurn eða ábendingu um breytingar á aðalskipulagi til framtíðar. Fyrirspurn landeigenda Óttarsstaða um hugsanlega breytingu á skipulagi í landi jarðarinnar geti ekki ein sér haft áhrif til hækkunar á landverði og þýðing bréfs Coda Terminal fyrir niðurstöðu í málinu sé óljós. Eignarnemi telur þessi viðbótargögn ekki hafa neina þýðingu fyrir úrlausn málsins. Hér áréttar eignarnemi fyrri málatilbúnað sinn meðal annars um hugmyndir landeigenda Óttarsstaða um gerð stórskipahafnar fyrir landi jarðarinnar gegnt Straumsvíkurhöfn og gögn sem stafa frá Faxaflóahöfnum. Hann áréttar að allar hugmyndir um verulegar breytingar á aðalskipulagi svæðisins séu það fjarlægar að ekki komi til álita að taka tillit til þeirra við mat á bótum í málinu, auk þess sem ef af yrði þá væri um gríðarstóra framkvæmd að ræða þar sem eftir er allt skipulagsferli, mat á umhverfisáhrifum, leyfisveitingar og annað. Geti slíkar hugmyndir því ekki komið til álita við mat á bótum undir land næst vegi.

 

Loks mótmælir eignarnemi því að viðbótarathugasemdir hans og skýringar skuli hafa áhrif á málskostnaðarákvörðun. Tilefni þessara athugasemda og skýringa af hálfu eignarnema hafi verið framlagning nýrra gagna af hálfu eignarnámsþola eftir að málið hafi verið tekið til úrskurðar, svo og fyrirspurn af hálfu matsnefndarinnar. Það sé nefndarinnar að meta málskostnað með tilliti til nauðsynlegs umfangs og efni máls.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti fullar bætur sér til handa vegna matsandlagsins í landi Lónakots. Hann krefst fullra bóta fyrir hið eignarnumda land, bóta vegna verðfalls landsins sem ekki er tekið eignarnámi, bóta fyrir land sem ekki nýtist vegna eignarnámsins og „bóta fyrir bæði tímabundið og framtíðar ónæði, rask, óþægindi og óhagræði.“ Einnig krefst eignarnámsþoli þess að eignarnemi greiði sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati matsnefndar.

 

Eignarnámsþoli telur að í hnotskurn reyni fyrst og fremst á þrjú atriði í málinu: Í fyrsta lagi stærð matsandlagsins, það er hvort meta skuli bætur fyrir allt flatarmál landspildunnar, samtals 84.964 fermetra, eða að frádregnu vegsvæði núverandi vegar (áætlað samtals 21.847 fermetrar) sem eignarnemi telur tilheyra sér, það er samtals 63.391 fermetra. Í öðru lagi hvert sé verðmæti matsandlagsins. Í þriðja lagi hver sé verðrýrnun þess hluta sem eftir standi.

 

Varðandi stærð matsandlagsins vísar eignarnámsþoli til þess að óumdeilt sé að hann sé þinglýstur eigandi landsins sem taka eigi eignarnámi. Eignarnámsþoli byggir á því að núverandi vegur sé þannig í sinni eigu eins og þinglýstar eignarheimildir bendi til. Við lagningu upphaflega vegarins hafi landspildan undir hann ekki verið tekin eignarnámi eða greitt fullt verð fyrir sem þó sé fortakslaust skilyrði samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekkert bendi því til þess að eignarráð hafi flust frá eignarnámsþola en telji eignarnemi að svo hafi verið þá fái það hvorki staðist lög eða stjórnarskrá. Eignarnámsþoli bendir á að tilkall eignarnema til núverandi vegsvæðis, sem áætlað sé samtals 21.847 fermetrar, sýnist byggja einkum á tveimur forsendum. Annars vegar 4. mgr. 39. vegalaga nr. 80/2007 sem hafi að geyma heimild eignarnema til að draga frá vegsvæði núverandi vegar. Hins vegar því að eignarnemi sé eigandi vegsvæðisins þrátt fyrir að eignarnámsþoli sé þinglýstur eigandi að jörðinni og eignarnámsþoli aldrei fengið greitt fyrir lagningu vegarins. Fyrir því færi eignarnemi nánar tilgreindar röksemdir.

 

Eignarnámsþoli hafnar þessum málatilbúnaði eignarnema. Hann telur að ákvæði 4. mgr. 39. gr. vegalaga eigi ekki við nema eignarnema takist sönnun um að hann njóti beins eignarréttar yfir núverandi vegsvæði. Fyrir liggi að eignarnámsþoli sé þinglýstur eigandi núverandi vegsvæðis og beri eignarnemi sönnunarbyrði fyrir því að sú skráning sé ekki rétt. Eignarnemi hafi enga tilraun gert til að uppfylla þá sönnunarbyrði heldur þvert á móti fullyrt að hann hafi enga skjalfesta heimild sem vefengi þinglýstan eignarrétt eignarnámsþola. Þá bendir eignarnámsþoli á að það sé heldur ekki svo að eldri vegur leggist niður við lagningu nýs vegar og falli til landeiganda. Frádráttarregla laganna geti því ekki komið til skoðunar að mati eignarnámsþola. Eignarnámsþoli kveður 3. mgr. 40. gr. vegalaga kveða skýrlega á um að eignarheimild eignarnema að vegsvæði skuli þinglýst og skráð í samræmi við ákvæði þinglýsngalaga og laga um skráningu og mat fasteigna með sama hætti og eignarheimildir að öðrum fasteignum. Í lögskýringargögnum um þetta ákvæði vegalaga segi að eignarnámsheimild eignarnema leiði til þess að þegar henni sé beitt flytjist eignarréttur að landi, sem eignarnám beinist að, að fullu til eignarnema. Gildi þá einu hvort lands sé aflað með samkomulagi eða eignarnámsúrskurði. Nauðsynlegt sé að unnt sé að þinglýsa slíkum rétti og þyki rétt að kveða sérstaklega á um það til að taka af öll tvímæli. Eignarnámsþoli bendir á að þrátt fyrir þetta lagaákvæði hafi eignarnemi látið undir höfuð leggjast að þinglýsa ætluðum eignarrétti sínum og verði hann að bera hallann af því að hafa ekki gert það, hafi eignarrétturinn einhvern tímann verið til staðar. Eignarnámsþoli bendir einnig á að eignarnemi hafi hvorki lagt fram samkomulag né eignarnámsúrskurði í tengslum við þetta og að fyrirliggjandi gögn sýni fram á að eignarnámsþoli njóti eignarréttar yfir vegsvæðinu. Þá liggi fyrir að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vegalaga verði landeiganda aðeins skylt að láta af hendi land sem þurfi til þjóðvegagerðar ef fullar bætur komi fyrir. Varðandi dóm Hæstaréttar 20. mars 2003 í máli nr. 388/2002 sérstaklega telur eignarnámsþoli ljóst að í því máli hafi legið fyrir skjöl þar sem eigendur eignarlandsins Fífuhvamms hafi viðurkennt eignarnámið en ekkert slíkt liggi fyrir hér í tilviki Óttarsstaða. Eignarnámsþoli telur ljóst að þeir dómar Hæstaréttar sem eignarnemi hafi byggt á í málatilbúnaði sínum hafi ekkert gildi í málinu þar sem þeir varði allir eldri vegalög. Hafi eignarnemi nokkurn tímann átt þann eignarrétt sem hann haldi fram hafi honum borið að þinglýsa þeim eignarrétti sem hann hafi þá látið undir höfuð leggjast að gera í 15 ár.

 

Að öllu virtu telja eignarnámsþolar ljóst að vegsvæði núverandi vegar sem liggi um land Lónakots sé eign eignarnámsþola og njóti sá eignarréttur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Vegurinn liggi innan lands hans og ekki liggi fyrir önnur skjöl um að vegurinn sé ekki hluti af eignarlandi hans eða í eigu annarra. Vegsvæðið komi því ekki til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. vegalaga. Fyrir liggi að eignarnemi hafi „ákveðið að taka eignarnámi allan eignarhluta landeiganda (50%) í 58.976 m2 lands undir veg úr landi Lónakots [...] auk þess allan eignarhluta landeiganda (50%) í 25.988 m2 lands undir vegsvæði Reykjanesbrautar úr landi Lónakots“, eins og greini í ákvörðun eignarnema 9. ágúst 2022. Telur eignarnámsþoli að eignarnemi hyggist nú afla sér eignarheimildar að landinu öllu en freisti þess að bæta aðeins fyrir hluta þess, það er 63.117 fermetra eða um 75% af því landi sem sé undir í ákvörðun hans um eignarnám. Þetta telur eignarnámsþoli vera í andstöðu við ákvæði vegalaga og eignarrétt hans sem tryggður sé í stjórnarskrá. Beri því matsnefnd að meta bætur fyrir allt landið sem ákvörðun um eignarnám lúti að, það er 84.964 fermetra.

 

Varðandi verðmæti matsandlagsins byggir eignarnámsþoli á að líta verði til staðsetningar landsins, nálægðar við þéttýli og sjó auk mögulegrar nýtingar landsins til framtíðar, en það varpi best ljósi á líklegt söluverðmæti matsandlagsins. Óumdeilt sé að verðmat eignarnema, 210 krónur á fermetra, miði við þá forsendu að engin not séu fyrirsjáanleg eða líkleg á landinu. Eignarnámsþoli byggir á því að not lands hans sem byggðarlands hafi nýlega í auknum mæli orðið fyrirsjáanleg enda sé til þess að líta að með nýlegri niðurfellingu þynningarsvæðis, færslu vatnsendamarka og skorti á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, aukist líkur á slíkum notum í næstu framtíð. Vísar hann til nánar tilgreindrar úrskurðarframkvæmdar matsnefndar um þær kröfur sem gerðar verði til framtíðarnýtingar svo unnt sé að taka tillit til hennar við ákvörðun bóta og heldur því fram að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær land hans verði notað sem byggðarland, sbr. úrskurði matsnefndar 24. maí 2006 í máli nr. 5/2006 og 1. ágúst 2006 í máli nr. 8/2006. Raunar telur hann notin fyrirsjáanleg í næstu framtíð, sbr. til hliðsjónar úrskurð matsnefndar 12. janúar 2009 í máli nr. 3/2008.

 

Þessu til frekari stuðnings vísar eignarnámsþoli meðal annars til nánar tilgreindra fundargerða ýmissa nefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar sem lagðar hafi verið fram í málinu og bréfa sem stafi frá einstökum bæjarfulltrúum sveitarfélagsins, sem vitni meðal annars um tillögu að því að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að fjölga nýbyggingarsvæðum. Eignarnámsþoli skírskota sérstaklega til minnisblaðs 8. apríl 2022 sem fylgt hafi fundargerð skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar 12. apríl 2022, þar sem fram komi að með færslu vatnsverndarmarka og niðurfellingar þynningarsvæðis séu aukin tækifæri til vaxtar bæði í upplandinu og á svæðinu vestan við svæðið sem hafi verið frestað í aðalskipulagi 2013-2015, það er í landi Óttarsstaða. Í bókun fulltrúa meirihlutans í sömu fundargerð komi jafnframt fram að byggingarland sem nú sé til staðar innan gildandi svæðisskipulags sé svo gott sem uppurið og það sé því brýn nauðsyn á að skoðuð verði fjölgun á nýbyggingarsvæðum. Þá komi fram í greinargerð núgildandi aðalskipulags Hafnarfjarðarkaupstaðar 2013-2024 að svæðið vestan Straumsvíkur sé tekið frá fyrir hafnar- og atvinnusvæði. Eignarnámsþoli telur að möguleikar á framtíðarnýtingu landsins sem byggðarlands séu ótvíræðir. Bendir hann á að eiginleikar og gæði matsandlagsins (staðsetning og staðhættir lands) skipti höfuðmáli við ákvörðun matsnefndar um bætur og þótt skipulag kunni að hafa þýðingu við matið skuli miða við raunhæfa möguleika eignarnámsþola á framtíðarnýtingu landsins, sbr. Hrd. 1984, bls. 906, þar sem matsnefndin hafi talið nægja að möguleikar séu á framtíðarnýtingu svo unnt sé að taka tillit til hennar við ákvörðun bóta, sbr. úrskurði matsnefndar 25. ágúst 2008 í máli nr. 17/2006 og 1. júlí 1999 í máli nr. 22/1997. Eignarnámsþoli mótmælir því að gögn frá Faxaflóahöfnum, sem eignarnemi hafi lagt fram í málinu, geti haft þýðingu við úrlausn þess vegna hagsmunaárekstra. Hann mótmælir því einnig að nýleg eldgos séu til þess fallin að draga úr líkum á uppbyggingu fyrir landi sínu og benda meðal annars á milljarðafjárfestingu Carbfix á svæðinu og stöðuga atvinnuuppbyggingu ofan álversins sem færist hratt í vesturátt til Óttarsstaða. Þá bendir hann á mótsögn í málatilbúnaði eignarnema sem byggi annars vegar á því að önnur nýting lands eignarnámsþola en núverandi nýting sé ekki fyrirséð eða líklega en hins vegar á því að til frádráttar bótum skuli hafa mikinn hag þeirra af framkvæmdum við mislæg gatnamót við Rauðamel en tilgangur þeirra sé framtíðartenging við Straum og framtíðaruppbygging á landi Óttarsstaða og Lónakots. Eftir munnlegan flutning máls þessa lagði eignarnámsþoli fram samskipti eigenda jarðarinnar Óttarsstaða við sveitafélagið Hafnarfjarðarbæ 3. nóvember 2022 og 5. desember sama ár vegna beiðni þeirra fyrrgreindu um breytingu á aðalskipulagi, svo og erindi Carbix 7. sama mánaðar til Hafnarfjarðarbæjar vegna beiðni um aðalskipulagsbreytingu, áðurgreindu til enn frekari stuðnings.

 

Til viðbótar við nálægð Lónakots við þéttbýli og möguleika eignarnámsþola á framtíðarnýtingu landsins sem byggðarlands, bendir eignarnámsþoli á að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi lagt upp með að stórskipahöfn verði á svæðinu. Þeir vísa til samantektar um stöðu stærstu hafna sunnan Faxaflóa, sem lögð hafi verið fram á fundi hafnarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 26. júní 2019. Þá vísa þeir til aðalskipulags Hafnarfjarðarkaupstaðr 2013-2024, þar sem fram komi að hraunin sunnan kaupstaðarins verði eitt helsta vaxtarsvæði atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu og því mikil þörf á aukinni hafnaraðstöðu, svo og að miklir þróunarmöguleikar séu á ströndinni og upplandinu rétt vestan Straumsvíkur fyrir slíka starfsemi. Einnig vísa þeir til aðalskipulagsbreytingar Reykjanesbrautar frá Krísuvíkurafleggjara að sveitarfélagamörkum Voga, sem staðfest hafi verið af skipulagsstofnun 16. desember 2021, þar sem fram komi að sett hafi verið inn gatnamót við Rauðamel til að bregðast við framtíðaruppbyggingu á Óttarsstaða- og Lónakotslandi og vísað til þess að þarna hafi einnig verið hugmyndir um uppbyggingu á framtíðarhafnarsvæði. Þessir möguleikar á nýtingu Lónakots og svæðisins í nágrenni þess varpa að mati eignarnámsþola ljósi á að aukin atvinnuuppbygging á svæðinu gefi tilefni til íbúðauppbyggingar til að sinna fyrirhugaðri atvinnustarfsemi á svæðinu, sem renni stoðum undir framtíðarmöguleika landsins sem byggðarlands. Eignarnámsþoli telur þessa uppbyggingu ekki verða jafn aðlaðandi og byggð á svæðinu ekki jafn verðmæta með margfölduðum umferðarþunga og tilheyrandi ónæði sem af honum leiði í næsta nágrenni.

 

Eignarnámsþoli byggir á að við mat á verðmæti matsandlagsins skuli litið til sölu á öðrum löndum. Þeir andmæla þeirri afstöðu eignarnema að samningar við landeigendur í sambærilegum málum og fyrirliggjandi upplýsingar um landverð á jörðum og spildum, sem hafi gengið kaupum og sölum á svipuðum slóðum, sem eignarnemi virðist byggja á að sé eingöngu sala á Lónakoti, leiði til þess fermetraverðs sem eignarnemi hafi boðið, það er einungis 210 króna á fermetra. Eignarnámsþoli hafnar því að salan á landi Lónakots eigi við meðal annars af þeim sökum að seljandinn hafi verið fjármálastofnun sem eignast hafi landið í skuldaskilum og viljað koma því í verð. Auk þess skipti fjarlægð frá þéttbýli í austri máli og landverð lækki eftir því sem vestar dragi meðal annars samkvæmt úrskurðaframkvæmd matsnefndar. Eignarnámsþoli vísar til þess að gangverð sambærilegra eigna og nýlegir kaupsamningar varpi ljósi á að verðmat matsandlagsins sé umtalsvert hærra en tilboð eignarnema, sbr. t.d. fermetraverð lands undir vegsvæði vegna breikkunar Vesturlandsvegar við Lágafell 4.500 krónur árið 2020. Þótt síðastgreinda landið hafi verið skipulagt telur eignarnámsþoli að taka verði einnig mið af þessu verðmati í sínu tilviki, því ljóst sé af öllu framangreindu að möguleikar eignarnámsþola til að nýta land sitt sem byggingarland í framtíðinni væru mjög góðir ef eignarnámið stæði ekki til. Eignarnámsþoli hafna alfarið viðmiði eignarnema um kaupverð Lónakots. Þá sýni upplýsingar sem eignarnámsþoli hafi lagt fram í málinu að gangverð sambærilegs landsvæðis og Lónakots í nágrenninu hafi verið umtalsvert hærra en 210 krónur á fermetra til lengri tíma, sér í lagi þegar tekið sé tillit til vísitöluhækkana. Athugun eignarnámsþola á þróun fermetraverðs á landi í nágrenni við land eignarnámsþola lengra aftur í tímann sýni greinilega að tilboð eignarnema sé allt of lágt. Meðal dæma sem eignarnámsþoli nefnir eru t.d. sala á landi í Straumsvík í nóvember 2004 (til Alcan á um 3.285 krónur á fermetra eða 7.585 krónur á fermetra með vísitöluhækkun), eignarnám á landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni (á um 3.800 krónur á fermetra á úrskurðardegi í október 2009 eða 6.594 krónur á fermetra með vísitöluhækkun) og sala á Straumi 15. mars 2018 (á 6.733 krónur á fermetra eða 8.331 krónur á fermetra með vísitöluhækkun). Eignarnámsþoli vísar einnig t.d. til þess að samkvæmt úrskurði matsnefndar í máli nr. 2/2014 hafi tveir skikar úr Setbergslandi gengið kaupum og sölum á 5.000 krónur á fermetra.

 

Eignarnámsþoli bendir á að í matsbeiðni eignarnema sé vísað til þess að eignarnámsþoli hafi keypt 50% hlut í jörðinni Lónakoti 31. maí 2021 á 135.000.000 krónur sem nemi 62,79 krónum á fermetra miðað við að heildarverð jarðarinnar sé þá 270.000.000 krónur og að það skjóti skökku við að eignarnámsþoli vilji nú, fáum mánuðum síðar, tæplega hundraðfalda hækkun fyrir landspildurnar. Í þessu samhengi vill eignarnámsþoli árétta þrennt til að forðast misskilning. Í fyrsta lagi virðist eignarnemi miða tímamark kaupanna ranglega við útgáfu afsals 1. febrúar 2022 í stað kaupdags 31. maí 2021, auk þess sex mánuðir hafi liðið frá útgáfu afsals til matsbeiðnar eignarnema en ekki fimm mánuðir eins og eignarnemi hafi haldið fram í málinu. Í öðru lagi liggi í augum uppi að kaupverðið miðist við kaupdag en ekki útgáfu afsals og því hafi tæplega 15 mánuðir liðið frá kaupdegi til dagsetningar matsbeiðni eignarnema. Í þriðja lagi hafi verðmat eignarinnar síaukist frá kaupsamningsdegi. Fasteignamat vegna 2021 hafi verið 150.100.000 en fasteignamat vegna 2023 verður 185.650.000 krónur, sem nemur tæplega 23,7% hækkun. Þegar eignarnámsþoli hafi samið um kaupverðið 2021 hafi hann greitt mun hærra verð en svaraði til gildandi fasteignamats, sem sýni meðal ananrs að markaðsverðið jarðarinnar sé mun hærra en fasteignamat hennar gefi til kynna. Þótt fasteignamat sé ekki afgerandi fyrir markaðsverð jarðarinnar veiti það þó sterka vísbendingu um þá lágmarkshækkun sem hafi orðið á jörðinni. Verðmatið skuli þannig að lágmarki vera 23,7% hærra en tilboð eignarnema kveði á um.

 

Að öllu virtu telur eignarnámsþoli að við mat á söluverði Lónakots þurfi að líta til möguleika svæðisins, staðsetningar landsins, framtíðarnýtingar, gangverðs sambærilegra jarða sem taki mið af síhækkandi fasteignamati sem sýni aukið verðgildi á markaði. Þá tiltekur eignarnámsþoli að eignarnemi hafi ekki enn fengið umráð hins eignarnumda og að miða beri markaðsvirði jarðarinnar við það tímamark þegar hann fái umráð hins eignarnumda.

 

Eignarnámsþoli bendir einnig á að í úrskurðum matsnefndar um spildu sunnarlega í landi Óttarssstaða og spildu í eigu Skógræktar ríkisins, sbr. úrskurði matsnefndar í málum nr. 2/2014 og 3/2014 (þar sem fermetraverð lands hafi verið ákveðið 293 krónur og 391 krónur á verðlagi dagsins í dag), hafi verið um að ræða land fjarri byggð og sjó og möguleikar til nýtingar þess aðrir en hér séu til skoðunar. Hann telur nærtækara að líta til úrskurðar matsnefndar 23. október 2009 í máli nr. 4/2009 (Straumsland) þar sem nálægð við álverið hafi verið sú sama og nú en færa mætti rök fyrir því að Lónakot stæði að nokkru leyti framar varðandi legu, fegurð og nýtingarmöguleika.

 

Varðandi verðrýrnun þess sem eftir stendur bendir eignarnámsþoli í fyrsta lagi á almenna verðrýrnun. Hann leggur áherslu á neikvæð áhrif af breikkuninni á það land sem hann heldur eftir. Matsnefnd verði að taka tillit til þess að verðmat Lónakots hafi farið síhækkandi síðan eignarnámsþoli keypti sinn hlut í jörðinni eins og þróun fasteignamtas og skipulagsmál á nærliggjandi svæði sýni fram á. Raunhæft sé að ætla að framkvæmdirnar muni stórlega draga úr þessari þróun og fremur leiða til þess að verðgildi jarðarinnar muni lækka stórlega vegna takmarkaðra nýtingarmöguleika á því landi sem eftir standi og ónæði sem muni stafa af enn frekari umferðarþunga á jörðinni með tilheyrandi óþægindum. Muni heildarverðmæti landsins því rýrna við breikkun vegarins vegna þess að nýting landsins sem eftir standi verði að miklum hluta ómöguleg enda um meiriháttar þjóðveg að ræða sem muni bersýnilega hafa afgerandi áhrif á landið allt.

 

Í öðru lagi bendir eignarnámsþoli á ónæði, rask og óþægindi, sér í lagi tímabundin óþægindi, sem hann verði fyrir vegna breikkunarinnar. Hann benda á álit skipulagsstofnunar um að neikvæð áhrif á landslag og ásýnd verði „mjög áberandi“ á framkvæmdatíma. Þá bendir eignarnámsþoli á matsskýrslu Mannvits um fyrirhugaða breikkun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni þar sem fram komi að framkvæmdirnar muni hafa nokkuð neikvæð áhrif á umferðaröryggi á framkvæmdatíma. Þetta telur eignarnámsþoli eðli máls samkvæmt munu bitna sérstaklega illa á sér, sem þurfi að nota veginn vegna eignarhalds síns.

 

Í þriðja lagi telur eignarnámsþoli að hann muni þurfa að þola mengun vegna breikkunar vegarins, því vegna breikkunarinnar muni umferð um veginn stóraukast á næstu árum og áratugum sem muni auka útblástur farartækja sem þar fara um, svo og hafa í för með sér hljóð-, loft-, svifryks- og sjónmengun með aukinni umferð. Varðandi sjónmengun bendir eignarnámsþoli á að ljóst sé að nýi vegurinn verði sýnilegri í landinu en sá vegur sem ráðgerður var í fyrstu. Eignarnámsþoli telur að eignarnámsbætur ættu að taka mið af þessari staðreynd. Skipulagsstofnun hafi metið áhrif breikkunarinnar á landslag og ásýnd talsvert neikvæða. Varðandi hljóðmengun vísar eignarnámsþoli til þess að mörk fyrir hávaða vegna umferðar ökutækja séu lægri í tilviki íbúðarhúsnæðis á íbúðasvæðum, verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum heldur en á iðnaðarsvæðum og athafnasvæðum, sbr. töflu í viðauka við reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Hann telur að tvöföldun á umferðarmiklum vegi muni hafa áhrif á hávaða vegna farartækjanna sem þar fari um og hafi breikkun vegarins því takmarkandi áhrif á möguleika eignarnámsþola til að skipuleggja land sitt í nágrenni við veginn til samræmis við reglugerðir um hávaða. Þótt framkvæmdaraðilar meti áhrif á hljóðvist af breikkuninni óveruleg telur eignarnámsþoli að það mat taki ekki mið af möguleikum sínum sem landeigenda til framtíðarnýtingar og þeim möguleikum sem eignarnámsþoli sé sviptur með því að hljóðstig hækki um nokkur desíbel alls staðar í grennd við brautina eftir breikkun. Það hafi augljóslega neikvæð áhrif á það land sem eignarnámsþoli haldi eftir og verði byggingarmöguleikar hans í grenndinni t.d. kostnaðarmeiri vegna nauðsynlegra mótvægisaðgerða varðandi hljóðvist fyrir það háa hljóðstig sem fylgi breikkun vegarins. Varðandi loft- og svifryksmengun vísar eignarnámsþoli til þess að þrátt fyrir að umhverfisstofnun haldi ekki úti mælingum á loftgæðum við framkvæmdarstað sé samkvæmt gögnum, sem eignarnámsþoli hafi lagt fram í málinu, vitað að mikil umferð og þá helst við stórar umferðaræðar og nálægt verksmiðjum geti leitt til aukins svifryks. Svifryk hafi áhrif á heilsu fólks og þar af leiðandi áhrif á hve aðlaðandi nýting á landi eignarnámsþola verði í kjölfar framkvæmdanna, sem og hvernig fýsilegt sé að skipuleggja svæðið næst veginum til frambúðar. Eignarnámsþoli telur að ætla megi að neikvæð umhverfisáhrif vegna þess nái til að lágmarki 100 metra svæðis hvorum megin við miðlínu vegarins enda liggi fyrir hvernig byggð hafi byggst upp meðfram Reykjanesbraut á síðustu árum. Þá komi skýrt fram að áhrifasvæðið sé mun stærra en eignarnemi haldi fram. Áhrifasvæðið verði líklega hið minnsta 30 hektarar úr landi Lónakots. Það land tapist eignarnámsþola og verði að bæta til framtíðar vegna verðfalls þess lands sem ekki sé tekið eignarnámi.

 

Í fjórða lagi bendir eignarnámsþoli á aðra varanlega takmörkun á nýtingu þess hluta sem eftir standi. Breikkun vegarins í fjórfalda hraðbraut muni leiða til þess að ekki verði unnt að nýta land jarðarinnar sem best henti til byggingar og minnki því verðmæti lands eignarnámsþola verulega.

 

Kröfu sína um málskostnað styður eignarnámsþoli við 11. gr. laga nr. 11/1973. Hann benda á að undir rekstri málsins fyrir matsnefnd hafi þurft að bregðast við ýmsu af hálfu eignarnema, t.d. kröfu um umráðatöku.

 

Eignarnámsþoli mótmælir athugasemdum eignarnema sem bárust matsnefnd eftir munnlegan flutning málsins fyrir nefndinni. Hann bendir á að eignarnemi vísi til þess að fjarlægðarmörk muni ekkert breytast við framkvæmdina samkvæmt skipulagsreglugerð. Hér telur eignarnámsþoli nauðsynlegt að hafa í huga að ákvæðið í d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð mæli fyrir um lágmarksfjarlægðir mannvirkja frá vegum. Það liggi í hlutarins eðli að því meiri sem umferð vegar sé og vegurinn stærri því meiri verði fjarlægðin. Það sé því rangt að halda því fram að fjarlægðarmörk muni ekkert breytast við framkvæmdina því auðséð sé og fyrirsjáanlegt að það lágmark sem þarna sé vísað til muni ekki eiga við og aðeins fara hækkandi við það að tvöfalda akbrautirnar. Eignarnámsþoli ítrekar að sér beri fullt verð fyrir allt land sem tekið sé eignarnámi, ekki aðeins mismun, enda hafi eigarnemi enga eignarheimild vegna eldra vegsvæðis. Telur eignarnámsþoli að sér beri bætur fyrir það land sem tekið sé eignarnámi (84.964 (58.976+25.988) fermetrar, ekki 63.117 (46.726+16.391) fermetrar) og bætur fyrir 25% af þeim hluta lands sem eftir stendur og hinn fjórfaldi vegur muni hafa áhrif á (þ.e. að lágmarki 25% bætur fyrir 289.054 (185.466+103.588) fermetra en ekki 25.576 (16.199+9.377) fermetra), sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 349/2004, svo sem áður hafi verið lýst í málatilbúnaði eignarnámsþola. Varðandi athugasemdir eignarnema um eignarhald núverandi Reykjanesbrautar telur eignarnámsþoli ekki að þarna komi neitt fram sem sýnist breyta því sem áður sé fram komið í málinu af hans hálfu. Sérstaklega sé hafnað að samningar við landeigendur annarra lóða í fyrri breikkunaráfanga geti haft nokkur áhrif á eignarrétt eignarnámsþola, því öðrum landeigendum sé að sjálfsögðu heimilt að ráðstafa eignarrétti sínum með frjálsum samningum án þess að það breyti réttarstöðu eignarnámsþola. Þá kveður hann óljóst af samningunum hvort kaupverð hafi þar einnig verið vegna eldra vegsvæðis eða eignarnemi í þessum tilvikum áður greitt einhverjar bætur vegna eldri vegar. Í öllu falli komi það máli þessu ekki við. Eignarnámsþoli áréttar þann málatilbúnað sinn sem áður sé lýst að kaupverð kaupsamnings um hluta af Lónakoti hafi ekkert gildi fyrir mat á bótum, sbr. t.d. Hrd. 1996, bls. 4089 og úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 2/2019. Þá áréttar eignarnámsþoli ráðgerðar breytingar á skipulagsmálum tengdum Óttarsstöðum og fyrirhugaða framtíðarnýtingu jarðarinnar. Loks ítrekar eignarnámsþoli gerðar kröfur og fyrri röksemdir, svo og kröfu um málskostnað. Hann bendir á að í viðbótarathugasemdum eignarnema eftir málflutning hafi verið farið nokkuð út fyrir fyrirspurn matsnefndar og málið að hluta endurflutt af hálfu eignarnema án teljandi þarfar.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildu eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmdar við breikkun (tvöföldun) Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til breikkunar Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla frá Krýsuvíkurvegi allt til enda fjögurra akreina brautar að Hrauni vestan Straumsvíkur. Ráðgert sé að breikka veginn í 2+2 aðskildar akreinar, breyta mislægum vegamótum við álverið í Straumsvík og útbúa tengingu að dælu- og hreinsistöð austan Straumsvíkur. Einnig sé ráðgert að byggja annars vegar undirgöng fyrir gangandi og hjólandi réttan austan við álverið og hins vegar eftirlitsstaði fyrir umferðareftirlit beggja vegna Reykjanesbrautar, austan við Straumsvík. Með framkvæmdinni verði lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar. Framkvæmdin fer um land fáeinna jarða frá Hrauni í vestri allt til Krýsuvíkurvegar í austri, þ. á m. um landspildu eignarnámsþola í landi jarðarinnar Lónakots. Eignarnámi hafi aðeins verið beint að matsandlaginu fyrir landi jarðar eignarnámsþola að Lónakoti og gagnvart eigendum jarðarinnar Óttarsstaða, sbr. mál matsnefndar eignarnámsbóta nr. 2/2022 sem rekið sé samhliða þessu máli. Samningar hafi tekist við aðra landeigendur á svæðinu, það er Rio Tinto (ISAL) og Hafnarfjarðarkaupstað. Reykjanesbraut þverar jörðina Lónakot og eignarnámið beinist að landspildu fyrir landi eignarnámsþola beggja vegna vegarins. Landspildan er ætluð undir nýja og breikkaða Reykjanesbraut. Ráðgert er að austast á spildunni verði staðsett mislæg vegamót (við Rauðamel). Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að bæta samgöngur og umferðaröryggi á vegarkaflanum en um sé að ræða eina kaflann á Reykjanesbraut frá Ásbraut í Hafnarfirði til Njarðvíkur sem ekki hafi verið breikkaður. Mikil umferð sé um Reykjanesbraut og slys nokkuð algeng.

 

Kemur þá til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um bætur úr hendi eignarnema vegna eignarnáms á matsandlaginu, spildu eignarnámsþola í landi Lónakots.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 9. september 2022 ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður. Í matsbeiðni segir orðrétt meðal annars um matsandlagið: „Andlag eignarnáms er 50,00% eignarhluti eignarnámsþola í spildu úr landi Lónakots [...] á u.þ.b. 800 metra kafla milli ca. stöðva 4800 og 5600, sbr. hnitsettan uppdrátt [...]. Flatarmál landspildunnar er alls 58.976 m2, en það vegsvæði núverandi vegar sem tilheyrir [eignarnema] er áætlað 12.250 m2. Ber því að meta bætur fyrir alls 46.726 m2. [...] Andlag eignarnáms er 50,00% eignarhluti eignarnámsþola í spildu úr landi Lónakots [...] undir vegsvæði Reykjanesbrautar (41-15) úr fyrri framkvæmd við tvöföldun Reykjanesbrautar, sbr. hnitsettan uppdrátt [...]. Flatarmál landspildunnar er alls 25.988 m2, en það vegsvæði núverandi vegar sem tilheyrir [eignarnema] er áætlað 9.597 m2. Ber því að meta bætur fyrir alls 16.391 m2.“ Af matsbeiðni verður þannig helst ráðið að eignarnámið taki til tveggja landspildna að samtals að stærð 63.117 fermetrar (46.726+16.391) í landi jarðarinnar Lónakots þótt hér sé til þess að líta að aðila greinir á um stærð matsandlagsins. Samkvæmt málsgögnum er heildarstærð jarðarinnar um 430 hektarar. Af uppdráttum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að Reykjanesbraut mun að breikkuninni frágenginni liggja um land eignarnámsþola í sömu veglínu og eldri vegur en breikka til suðausturs og verða eftirleiðis vegur með aðskildum akstursstefnum, þar sem nyrði akrein hans verði staðsett í veglínu eldri vegar en syðri akreinin suðaustan hans. Mislæg gatnamót á austurmerkjum í landi hennar (við Rauðamel) liggja á hinn bóginn beggja vegna eldri vegar. Vegsvæði nýrrar og breikkaðrar Reykjanesbrautar ásamt mislægum gatnamótum tekur til tveggja spildna í landi Lónakots samtals að stærð 84.964 fermetrar (58.976+25.988) og þar af nýtast áfram samtals 21.847 fermetrar eldra vegsvæðis (12.250+9.597) og því sæta 63.117 fermetrar eignarnámi úr landi jarðarinnar. Vettvangsathugun á landi jarðarinnar Lónakots leiddi í ljós að matsandlagið er óræktað land, vaxið apalhrauni.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskildum kröfum eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns af völdum aukinnar mengunar og skertrar landnýtingar í framtíðinni á því landi sem hann heldur eftir, svo og ónæðis, rasks og óþæginda í framtíðinni af völdum breikkunar vegarins á sama land. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að til staðar sé virkur markaður um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Fyrst þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir landspilduna sem fer undir vegnsvæði Reykjanesbrautar í Hafnarfirði vegna nýlegra breikkunarframkvæmda, auk nýs vegsvæðis Reykjanesbrautar og mislægra gatnamóta vegna ráðgerðrar framkvæmdar. Matsnefndin telur að tilboð eignarnema að fjárhæð á bilinu 210 til 244 krónur á fermetra gefi ekki fyllilega raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að hvorki þau viðmiðunarverð sem greinir í málatilbúnaði eignarnámsþola fyrir nefndinni né kröfum hans á hendur eignarnema í samningaviðræðum þeirra samkvæmt málsgögnum gefi rétta mynd af verðmæti þess. Eins og í úrskurði matsnefndar frá því í dag í máli nr. 2/2022 varðandi eignarnámsbætur fyrir spildu úr landi aðliggjandi jarðarinnar Óttarsstaða vegna eignarnáms í þágu sömu framkvæmdar, telur matsnefndin rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi 345 krónum á fermetra eða 3.450.000 krónum á hektara, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar 21. desember 2021 í máli nr. 4/2021, 7. júní 2022 í málum nr. 5/2021 og 6/2021 og 28. júní 2022 í máli nr. 7/2021 varðandi eignarnám á landspildum á Kjalarnesi og verðlagsáhrif. Eins og í tilvitnuðum málum er til þess að líta að hvorki liggur fyrir deiliskipulag vegna matsandlagsins né heldur er í aðalskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu þess í þágu þéttbýlis, eða aðrar aðstæður sem heimila þegar önnur en núverandi not þar, en jafnframt að landsvæðið er á suðvesturhorni landsins í grennd við þéttbýliskjarna á höfuðborgarsvæðinu og af þeim sökum kann land þar í framtíðinni að nýtast sem byggingarland auk annars, sbr. úrskurð matsnefndar 30. júlí 2015 í máli nr. 2/2014 þar sem til úrlausnar var spilda sunnar í landi Óttarsstaða. Matsnefnd telur ekki efni til að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna úr landi aðliggjandi jarðanna Óttarsstaða og Lónakots sem nú sæta eignarnámi í þágu sömu framkvæmdar, sbr. og úrskurð matsnefndar frá því í dag í máli nr. 2/2022. Í málinu hefur verið upplýst um að eignarnámsþoli keypti 50% eignarhlut sinn í Lónakoti af Arion banka hf. með kaupsamningi 31. maí 2021. Samkvæmt afsali um eignarhlutann sem móttekið var til þinglýsingar 10. febrúar 2022 var afhendingardagur 1. febrúar 2022 en áhættuskipti miða við það tímamark. Þótt kaupsamningur á frjálsum markaði geti gefið vísbendingu um raunverulegt verðmæti hins selda er hér til þess að líta að eignarnámsþoli keypti eignarhlutann af fjármálafyrirtæki, auk þess sem í málinu liggja fyrir upplýsingar um hækkun fasteignamats frá þeim tíma sem kaupin gerðust, en fasteignamat er eitt þeirra atriða sem litið er til við matið. Fyrrgreind niðurstaða matsnefndar um verðmæti matsandlagsins er þannig reist á heildstæðu mati sem áður var lýst.

 

Fyrir matsnefnd er uppi ágreiningur um stærð matsandlagsins. Eignarnemi telur sér til eignar vegsvæði eldri vegar og krefst þess að það verði dregið frá stærð matsandlagsins við útreikning bóta. Eignarnámsþoli krefst á hinn bóginn bóta fyrir matsandlagið, þ. á m. vegsvæði eldri vegar, á grundvelli 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem eldra vegsvæði hafi aldrei verið tekið eignarnámi, engar bætur hafi komið fyrir það og að beinn eignarréttur yfir því sé enn á hendi eignarnámsþola. Ber eignarnámsþoli því meðal annars við í málinu að ef eignarnemi fari með eignarrétt yfir eldra vegsvæðinu hafi honum borið að taka eignarnámi viðbótarland að stærð 63.117 fermetrar en ekki 84.964 fermetra eins og eignarnámsþoli kveður að gert hafi verið.

 

Í málinu er óumdeilt að eldri vegurinn hafi verið lagður um land eignarnámsþola í kringum 1960 og að eignarnemi hafi ekki þinglýsta eignarheimild fyrir vegsvæði eldri vegarins, því hann hafi skort skilríki fyrir ætluðum eignarrétti sínum og ekki gert reka að því að höfða eignardómsmál. Undir meðferð málsins fyrir matsnefnd fór nefndin þess sérstaklega á leit við aðila að upplýst yrði frekar um atvik að lagningu Reykjnesbrautar um 1960 og töku lands í þágu þeirrar vegagerðar, þ. á m. hvort vitað væri hvort endurgjald hefði komið fyrir land undir veg. Ekkert er í málinu fram komið um hvort land undir vegsvæði eldri vegarins hafi þá verið bætt. Af fyrirliggjandi gögnum verður á hinn bóginn ekki annað ráðið en að eignarnemi hafi tekið við umráðum eldra vegsvæðisins fyrir áratugum og að eignarnámsþoli, og þeir sem eignarnámsþoli leiðir rétt sinn yfir jörðinni frá, hafi látið þau umráð átölulaus uns bótakrafa hafi komið fram undir rekstri máls þessa fyrir matsnefnd. Hér er þess jafnframt að gæta að valdsvið matsnefndarinnar einskorðast við úrlausn ágreinings um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973. Þótt í eignarnámsákvörðun og málatilbúnaði eignarnema sé framsetning ekki svo glögg sem verða má og að ef til vill megi leggja þann skilning í hana að matsandlagið teljist 84.964 fermetrar að stærð en frá dragist eldra vegsvæði sem háð sé ætluðum eignarrétti eignarnema, er það álit matsnefndar að henni hafi ekki verið falið að meta eldra vegsvæðið til verðs heldur sé verkefni nefndarinnar bundið við eignarnám á landi í þágu ráðgerðra breikkunarframkvæmda eignarnema, sbr. dóm Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 644/2006. Það er þannig ekki nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um hvernig eignarrétti sé háttað, sbr. t.d. til hliðsjónar úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 8/2019, hvort eignarnám á landinu undir eldra vegsvæðið hafi yfirleitt átt sér stað eða hvort bótaréttur vegna eldra vegsvæðisins sé fyrir hendi eða hann fallinn niður fyrir fyrningu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. mars 2003 í máli nr. 388/2002. Það er heldur ekki nefndarinnar að taka afstöðu til þess hvort eignarnemi geti á grundvelli úrskurðar matsnefndar í máli þessu fengið þinglýst eignarrétti yfir eldra vegsvæðinu. Gildir einu þótt í málatilbúnaði eignarnema komi meðal annars fram að hann telji að á grundvelli eignarnámsins verði eignaryfirfærsla að öllu landi undir vegsvæði breikkaðs vegar, þ. á m. eldra vegsvæðis, og að eignarnemi hafi í hyggju að þinglýsa ætlaðri eignarheimild sinni yfir því landi.

 

Fyrir 63.117 fermetra spildu í landi jarðarinnar Lónakots (84.964 - 21.847) þykja hæfilegar eignarnámsbætur vegna helmingshlutar eignarnámsþola þannig vera 10.887.683 krónur (63.117x345x0,5).

 

Næst kemur til úrlausnar hvort eignarnámsþola beri bætur fyrir fjárhagsleg áhrif sem nýtt vegsvæði hafi á það land jarðarinnar Lónakots sem hann heldur eftir. Hér er til þess að líta að vegurinn mun eftir breikkun þvera land eignarnámsþola á sama stað og áður. Þótt meira land sé nú lagt undir vegamannvirki vegna nýrrar akreinar sunnan eldri vegar og í þágu mislægra gatnamóta er það álit matsnefndar, meðal annars eftir vettvangsathugun í málinu, að eignarnámsþoli njóti hagræðis af framkvæmdunum sem vegi þar upp á móti. Aðkoma eignarnámsþola að því landi jarðarinnar sem þeir halda eftir verður öruggari og aðgengi að landinu mun fyrirsjáanlega aukast eftir framkvæmdir eignarnema. Niðurstaða matsnefndar er því sú að eignarnámsþoli verði ekki fyrir tjóni af völdum fjárhagslegra áhrifa sem nýtt vegsvæði hafi á land sem þeir halda eftir og er þeirri kröfu eignarnámsþola hafnað.

 

Því næst er til þess að líta að spildur fyrir landi eignarnámsþola norðan og sunnan breikkaðs vegar heyra undir áhrifasvæðis þjóðvegar samkvæmt d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð nr. 90/2003. Í ákvæðinu segir:

 

„Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar en gæta skal ákvæða vegalaga um veghelgunarsvæði. Óheimilt er að færa þjóðveg eða byggja nýjan veg utan þéttbýlis þannig að fjarlægð milli bygginga og vega verði minni en framangreind mörk segja til um án undangenginnar málsmeðferðar um deiliskipulag.“

 

Matsnefndinni er eins og áður greinir aðeins falið að meta bætur vegna þess eignarnáms sem nú fer fram í þágu breikkaðs vegar, vegna nýlegra og ráðgerðra framkvæmda, og er því óhjákvæmilegt að litið verði til þess að fyrir var áhrifasvæði vegna eldri þjóðvegarins, sbr. til hliðsjónar úrskurð matsnefndar 6. október 2021 í máli nr. 4/2020. Að þessum upplýsingum virtum er það álit matsnefndar að nýtt vegsvæði hafi fjárhagsleg áhrif á það land jarðarinnar Lónakots sem eignarnámsþoli heldur eftir vegna þess að áhrifasvæði þjóðvegar eykst með tilkomu framkvæmdanna einkum vegna mislægra gatnamóta fyrir landi hans. Matsnefndin aflaði upplýsinga frá eignarnema um stærð þeirrar spildu innan Lónakots sem lendir innan áhrifasvæðis þjóðvegar samkvæmt d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð fyrir framkvæmdir eignarnema annars vegar og eftir þær hins vegar. Af hálfu eignarnema var upplýst að áhrifasvæði stækkaði við framkvæmdirnar sem næmi 16.199 fermetrum, miðað við 100 metra fjarlægð á milli þjóðvegarins frá staðsetningu íbúða eða frístundahúsa. Matsnefnd telur að eignarnámsþola beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem aukið áhrifasvæði vegna nýs vegsvæðis, eftirlitssvæðis og mislægra gatnamóta hefur á það land sem hann heldur eftir, vegna verðrýrnunar sökum þess að þessi hluti landsins sætir eftirleiðis takmörkunum á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis skipulagsreglugerðar sem ekki hvíldu áður á landinu. Eignarnemi telur ólíklegt að land þetta verði nýtt fyrir íbúðabyggð í framtíðinni og ber því þess vegna meðal annars við í málinu að við ákvörðun um áhrifasvæði vegarins skuli í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar miða við minni fjarlægð, t.d. 50 metra. Af hálfu matsnefndar er á það bent að nefndin hefur þegar slegið því föstu hér á undan að hvorki liggi fyrir deiliskipulag vegna matsandlagsins né heldur sé í aðalskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu þess í þágu þéttbýlis, eða aðrar aðstæður sem heimili þegar önnur en núverandi not þar, en jafnframt að landsvæðið sé á suðvesturhorni landsins í grennd við þéttbýliskjarna á höfuðborgarsvæðinu og af þeim sökum kunni land þar í framtíðinni að nýtast sem byggingarland auk annars. Telur nefndin því ófært að miða við annað en 100 metra áhrifasvæði vegarins samkvæmt d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð og rétt að miða verðrýrnun þessa við fjórðung fermetraverðs vegna matsandlagsins, það er 86,25 krónur á fermetra, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 21. desember 2021 í máli nr. 4/2021. Þykja hæfilegar bætur vegna þessa fyrir helmingshlut eignarnámsþola vera 698.582 krónur (16.199x86,25x0,5).

 

Eignarnámsþoli hefur og haft uppi bótakröfu vegna ætlaðs tjóns af völdum aukinnar mengunar í framtíðinni sem breikkun Reykjanesbrautar hafi í för með sér. Hér er að áliti matsnefndar slík óvissa um áhrif af völdum ætlaðrar mengunar sem krafan snýr að, að ekki er að svo stöddu unnt að ákveða eignarnámsbætur fyrir ætlað framtíðartjón af þessum völdum, líkt og eignarnámsþoli hefur krafist. Hefur matsnefndin þá meðal annars í huga heimildir 16. gr. laga nr. 11/1973 til endurupptöku bótaákvörðunar. Er þessari kröfu eignarnámsþola því hafnað.

 

Í úrlausnum matsnefndar hefur um langa hríð verið lagt til grundvallar að við aðstæður á borð við þær sem hér eru uppi eigi eignarnámsþoli rétt til bóta fyrir tjón af völdum rasks og ónæðis vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Það er því álit matsnefndar að eignarnámsþoli verði fyrir tjóni sem til komi af völdum slíks rasks og ónæðis, sbr. t.d. úrskurði matsnefndar 29. júní 2021 í máli nr. 5/2020 og 7. júní 2022 í máli nr. 5/2021. Bætur vegna þessa til handa eignarnámsþola vegna helmingshlutar hans þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur (1.000.000x0,5).

 

Er öðrum kröfum eignarnámsþola um bætur fyrir ætlað tjón af völdum verðrýrnunar þess hluta lands jarðarinnar Lónakots sem þeir halda eftir hafnað sem haldlausum.

 

Í málinu hefur eignarnámsþoli borið því við að hann hafi ekki enn fengið umráð hins eignarnumda og að miða beri markaðsvirði jarðarinnar við það tímamark þegar eignarnemi fái umráð þess. Hér er til þess að líta að undir meðferð málsins fyrir matsnefnd féll eignarnemi frá kröfu um að nefndin heimilaði honum að taka umráð matsandlagsins á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 og getur eignarnemi því ekki tekið umráð þess fyrr en mat liggur fyrir og þá gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati, sbr. upphafsmálslið 13. gr. sömu laga. Tekur úrlausn matsnefndar því mið af verðmæti hins eignarnumda og verðlagi á matsdegi, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 21. desember 2021 í máli nr. 4/2021 og til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 233/2011.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþolum vera samtals 12.086.265 krónur (10.887.683 + 698.582 + 500.000).

 

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola óskipt 3.025.662 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði. Hefur þá verið tekið tillit til meðferðar málsins fyrir matsnefnd, þ. á m. vettvangsathugunar í málinu 9. september 2022, þess að lögmaður eignarnámsþola hefur samhliða rekið annað mál fyrir matsnefndinni, mál nr. 2/2022, vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema, svo og þess að eignarnemi hafði uppi kröfu um að nefndin heimilaði honum að taka umráð matsandlagsins á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 en féll frá þeirri kröfu undir rekstri málsins fyrir nefndinni. Þannig var í tölvubréfi eignarnema 15. september 2022 til matsnefndar og bréfi hans 22. sama mánaðar til nefndarinnar upplýst að útgefið framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdanna hefði verið fellt úr gildi og að ráðist yrði í umsókn um nýtt leyfi og þess farið á leit við matsnefnd að úrlausn um kröfu eignarnema um tafarlaus umráð yrði frestað uns nýtt framkvæmdaleyfi hefði verið samþykkt og hann endurmetið tímalínu verksins. Þegar eignarnemi sló kröfu sinni á frest höfðu aðilar þegar tekið til varna um kröfuna, því eignarnemi skilaði 14. og 22. september 2022 athugasemdum til matsnefndar vegna hennar og eignarnámsþoli skilaði sömuleiðis til nefndarinnar athugasemdum vegna kröfunnar 13. og 16. sama mánaðar.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.000.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin ohf., skal greiða eignarnámsþola, IREF ehf., 12.086.265 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og eignarnámsþola 3.025.662 krónur í málskostnað.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

 

Valgerður Sólnes

 

 

            Gústaf Vífilsson                                                         Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum