Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd samkv%C3%A6mt l%C3%B6gum um hollustuh%C3%A6tti og mengunarvarnir

7/2009

Mál nr. 7/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2010, mánudaginn 14. júní, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2009, Vigdís Rut Andersen, Þórðarsveig 6, Reykjavík, hér eftir nefnd kærandi, gegn Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, Borgartúni 10-12,  Reykjavík, hér eftir nefnt kærði. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna anna. 

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, dags 30. júlí 2009, kærði Hildur Sólveig Pétursdóttir, hrl., f.h. Vigdísar Rutar Andersenúnbogason HH hf.   (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs, (hér eftir nefnt kærði) frá 2. júní 2009, að kæranda sé óheimilt að halda hund á heimili sínu að Þórðarsveig 6, Reykjavík.     

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að framangreind ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs verði felld úr gildi.  

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 30. júlí 2009 ásamt fylgiskjölum, merkt 1-9.

2. Greinargerð kærða vegna stjórnsýslukæru dags. 18. september 2009 ásamt fylgiskjölum. 

3. Athugasemdir kæranda dags. 30. nóvember 2009. 

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð.

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd hinn 8. ágúst 2009.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik.

Árið 2003 festi kærandi kaup á íbúð á jarðhæð að Þórðarsveig 6 í Reykjavík. Fyrir kaupin hafði kærandi aflað sér upplýsinga, m.a. hjá kæranda, hvort samþykki annarra eigenda þyrfti til að halda hund í húsinu, en á þeim tíma átti kærandi tvo hunda. Kærandi kveður hundaeftirlitsmann Reykjavíkurborgar og starfsmenn kærða hafa tjáð sér að ekki þyrfti samþykki annarra, þar sem umrædd íbúð væri með sérinngang. Kærandi telur framangreint hafa verið forsendu þess að hún undirritaði kaupsamning og fékk eignina að Þórðarsveig 6 afhenta í apríl 2004.

Þegar kærandi hugðist skrá hundana að Þórðarsveig 6 fékk hún þær upplýsingar hjá starfsmönnum kærða að til þess þyrfti hún að afla samþykkis frá öllum eigendum hússins, þvert á þær upplýsingar sem kærandi fékk stuttu áður hjá starfsmönnum kærða.

Kærandi bendir á í kæru sinni að hundahald að Þórðarsveig 2-6 hafi verið bannað á húsfundi sem haldinn var stuttu eftir að kærandi flutti inn í eign sína, að undanskildum þeim íbúðum sem væru á jarðhæð, þar sem almennur skilningur þeirra sem sóttu fundinn  var sá að samþykki allra íbúa fyrir hundahaldi næði ekki yfir eignir á jarðhæð með sérinngang.

Kærandi kveður engin afskipti hafa verið af málinu fyrr en í nóvember 2006 og svo ekki aftur fyrr en þremur árum síðar, eða árið 2009. Þá hafi borist bréf frá kærða þar sem kæranda var gefinn mánuður til að koma hundum sínum fyrir á öðru heimili. Kærandi kveðst hafa orðið við því og skráð hund sinn á annað heimili hinn 3. júlí 2009. Á þessum tímapunkti var aðeins um einn hund að ræða.

Með stjórnsýslukæru dags. 30. júlí 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun kærða til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.   

Kærða var með bréfi dags. 8. ágúst 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum, varðandi kæruna, og bárust þau hinn 18. september 2009.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða og bárust athugasemdir hinn 30. nóvember 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda. 

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á 2. mgr. 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar frá 17. janúar 2002 nr. 52/2002. Kærandi telur að skýrt sé kveðið á um það þegar sótt sé um leyfi til að halda hund í fjöleignarhúsi, þar sem íbúð er með sérinngang, þótt um annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð sé að ræða, þá sé veiting skráningarleyfis ekki háð samþykki annarra eigenda. Kærandi ítrekar sérstaklega að sérinngangur sé að hennar íbúð og hún þurfi ekki að fara yfir sameiginlegt rými að íbúðinni. Kærandi telur það uppfylla framangreint ákvæði hundasamþykktarinnar.

 

Kærandi bendir einnig á að hundurinn hafi aldrei farið inn á sameignlega lóð eða inn í önnur sameiginleg rými. Kærandi kveðst aðeins hafa sett hundinn út á séreignarlóð sína sem fylgir hennar íbúð. Kærandi kveðst reyndar hafa hætt því eftir að nágranni hennar óskaði eftir því. Þá hafi kærandi einnig útbúið viljayfirlýsingu þar sem m.a. kemur fram að hundurinn muni ekki fá að fara inn á sameiginleg rými og muni ekki fara út á séreignarhluta hennar, sbr. fylgiskjal nr. 8. Kærandi ítrekar að hún vilji umfram allt lifa í sátt við nágranna sína.

 

Kærandi vísar sérstaklega til athugasemda sem fylgdu A-lið 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Þar kemur fram að markmið ákvæðisins sé að vernda ofnæmis- og astmasjúkt fólk. Ákvæðið eigi ekki við um ónæði eða skoðanir fólks á dýrahaldi. Kærandi bendir á að ákvæðið takmarki eigna- og ráðstöfunarrétt einstaklinga og beri að túlka þröngt.

 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða áréttar hann fyrri röksemdir sínar. Kærandi bendir á að sérinngangur sé að íbúð hennar og því þurfi hún ekki samþykki annarra eigenda hússins. Hundurinn þurfi aldrei að fara um sameiginlegt rými hússins. Kærandi áréttar ennfremur að hún uppfylli skilyrði hundasamþykktar Reykjavíkurborgar nr. 52/2002 og sé því heimilt að halda hund og fá hann skráðan. Því til stuðnings vísar kærandi í úrskurð nefndarinnar frá 16. desember 2008 nr. 7/2008 en þar var ákvörðun umhverfis- og samgöngusviðs staðfest um að synja heimild til að skrá hund með þeim rökum að leyfi allra eigenda væri nauðsynlegt. Kærandi bendir á að í því máli hafi eigandi þurft að fara með hund sinn um sameiginlegan tröppugang sem sé sameiginlegt rými og undanþága 2. mgr. 6. gr. hundasamþykktarinnar sé ekki fyrir hendi. Það sé ekki þannig hjá kæranda og því hafi sá úrskurður ekki fordæmisgildi í þessu máli.

 

Kærandi ítrekar að túlkun umhverfis- og samgöngusviðs á 41. gr. laga nr. 26/1994 og 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar sé ekki rétt, þ.e. að ef eitthvert rými er sameiginlegt þá þurfi samþykki allra. Kærandi telur þvert á móti að ákvæði 2. ml. 13. tl. 41. gr. laganna og 2. mgr. 6. gr. samþykktarinnar gætu ekki verið skýrari, en þar segir að ef umsækjandi sé með sérinngang, þá þurfi ekki leyfi annarra eigenda, þótt um sé að ræða annað sameiginlegt húsrými á lóð.  Kærandi bendir á að túlkun kærða sé ekki í samræmi við lög og samþykktir sem kveða á um hundahald og því ríki mikil réttaróvissa um hundahald í fjölbýli.

 

Þá ítrekar kærandi framkomnar kröfur og óskar eftir að málinu verði flýtt eftir fremsta megni.  

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði, Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar gerir þá kröfu að ákvörðun frá 2. júní 2009 verði staðfest þar sem kæranda var synjað um leyfi til hundahalds.   

Kærði bendir á að kærandi hafi aldrei fengið leyfi til að halda hund, þar sem skilyrði um samþykki allra eigenda hússins hafi ekki verið uppfyllt og kveður að kærandi hafi aldrei skilað inn þeim gögnum sem þarf til að fá hund skráðan. Kærði bendir á að kvartanir annarra íbúa hafi borist vegna hunds kæranda. Kvartanir hafi verið á þá leið að óþrifnaður og ónæði sé vegna hundsins og að íbúar hússins hafi lýst yfir mikilli óánægju með hundahald kæranda. Vegna kvartana voru hundaeftirlitsmenn sendir til kæranda. Þá hafi kærandi verið með fjóra óleyfishunda og einn kött. Önnur dýr hafi ekki verið í íbúð kæranda. Í kjölfar þessa hafi það verið ítrekað fyrir kæranda að afla samþykkis hjá sameigendum hússins. Það hafi hins vegar ekki fengist og upplýst af formanni húsfélagsins, Jóhönnu Guðbrandsdóttur, að samþykki myndi ekki fást hvorki frá íbúum né frá húsfélagi. Kærandi hafi verið upplýst um kæruleiðir þegar ljóst var að samþykki fengist ekki fyrir hundinum.

Kærði bendir einnig á úrskurð nefndarinnar frá 16. desember 2008 nr. 7/2008 en þar hafi nefndin staðfest túlkun kærða á 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar nr. 52/2002 að leyfi allra eigenda fjöleignarhúss þyrfti til að halda hund, þótt fyrir hendi væri sérinngangur, en annað sameiginlegt rými væri fyrir hendi. Kærði bendir á að ruslageymsla sé á sameiginlegri lóð og að bílageymsla, hjóla- og vagnageymsla hússins sé í sameign.  Kærði telur þá málsástæðu kæranda, að enginn astma- eða ofnæmissjúklingur sé í húsinu og því eigi að fást leyfi fyrir hundinum, ekki breyta túlkun kærða né afstöðu sameigenda kæranda. Kærði bendir á að sameigendur hússins hafi rétt til að synja beiðni um hundahald, hvort sem viðkomandi er astma- eða ofnæmissjúklingur. Kærði leggur áherslu á að ákvæði um hundahald sé einnig sett til að vernda hagsmuni annarra en hundaeigenda.

Að lokum vísar kærði í ákvæði reglugerðar nr. 941/2002 [í greinargerð er vísað til reglugerðar nr. 941/1998, brottfallin] um hollustuhætti, sérstaklega 14. gr. og 56. gr. reglugerðarinnar. Í fyrra ákvæðinu er kveðið á um þá skyldu fólks að halda lóðum sínum hreinum. Í síðara ákvæðinu er kveðið á um þá skyldu gæludýraeigenda að gæludýr þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Kærði telur að kærandi hafi ekki virt framangreind ákvæði, þar sem sameigendur hússins hafi almennt verið ósáttir með hundahald kæranda. Því til stuðnings bendir kærði á að aðeins einn íbúi hússins hafi skrifað undir yfirlýsingu um úrbætur frá kæranda með því að strika út hluta hennar, sbr. fylgiskjal nr. 7 með kæru. 

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Ágreiningur í máli þessu snýst um skilgreiningu á 13. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og 2. mgr. 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar frá 17. janúar 2002 nr. 52/2002.

Um hundahald í Reykjavík gilda ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og ákvæði hundasamþykktar Reykjavíkurborgar nr. 52/2002 sem sett var með stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 2. gr. hundasamþykktarinnar er  hundahald að meginreglu bannað. Heimilt er að fá undanþágu frá banninu ef skilyrði samþykktarinnar eru uppfyllt.

Reglur um töku ákvarðana í fjöleignarhúsum er að finna í 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 1. ml. 13. tl. A-liðar 41. gr. laganna þarf samþykki allra eigenda til að halda hunda og/eða ketti í fjöleignarhúsi. Í 2. ml. sama ákvæðis segir: „Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.Í ákvæðinu er kveðið á um undanþágu frá reglunni um samþykki allra, og nóg að fá samþykki þeirra sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými með þeim sem hyggst halda hund eða kött.  Af gögnum málsins er ljóst að kærandi er með sérinngang en hjóla- og vagnageymsla, ásamt bílgeymslu eru í sameiginlegu rými hússins. Kærandi þarf ekki að fara inn um sameiginlegan stigagang, inngang, sameign eða sameiginlegan tröppugang til að komast inn í íbúð sína, heldur er gengið beint inn í íbúð kæranda af bílastæði. Í 2. mgr. 6. gr. hundasamþykkar Reykjavíkurborgar segir: „Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameigin­legt húsrými eða sameiginlega lóð, þá er veiting leyfis til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda...Af tilvitnuðum ákvæðum er ljóst að kærandi þarf ekki leyfi annarra eigenda til að fá leyfi til hundahalds. Til að fá leyfið verður kærandi að uppfylla öll skilyrði hundasamþykktar Reykjavíkurborgar. Gögn málsins bera það með sér að nokkuð barst af kvörtunum frá sameigendum kæranda vegna hundsins, sbr. fylgiskjöl með greinargerð kærða. Kvartanir sameigenda varða óþrifnað og ónæði af hundinum. Af gögnum málsins má einnig sjá að kærandi hefur komið til móts við kvartanir og t.a.m. hætt að setja hundinn út á séreignarlóð sína til að koma í veg fyrir að úrgangur og gelt frá hundinum valdi óþrifum eða ónæði. Framangreint er í samræmi við skyldur gæludýraeigenda, sbr. 13. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar og 56. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en þar segir að gæludýraeigandi skuli gæta þess að dýr valdi ekki hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Gera verður kröfu þess efnis að kvartanir sameigenda um óþægindi og óþrifnað af dýri séu studdar haldbærum gögnum og að óþrifnaður og óþægindi séu ítrekuð og umfram það sem venjulegt og eðlilegt er, sbr. 3. mgr. 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar. Ekki hafa verið lögð fram gögn í málinu sem fullnægja þeim áskilnaði. 

 

Ber því að fallast á kröfu kæranda.

 

                                                            Úrskurðarorð:                                                           

Ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs frá 2. júní 2009 um synjun á hundahaldi þar sem samþykki allra sameigenda er ekki fyrir hendi, er felld úr gildi.

  

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum