Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Almannatryggingar

Mál nr. 245/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 245/2022

Miðvikudaginn 7. september 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 3. maí 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 18. mars 2022 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 24. febrúar 2021, sem barst Sjúkratryggingum Íslands sama dag, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á C á tímabilinu X til X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 18. mars 2022, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. maí 2022. Með bréfi, dags. 10. maí 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 23. mars 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar endurskoðunar hinnar kærðu ákvörðunar og að viðurkennt verði að hún eigi rétt til bóta sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falli undir gildissvið 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi byrjað að finna til í bakinu vikuna X. Hún hafi fengið tíma úthlutuðum hjá lækni á C þann X þar sem henni hafi verið ávísað verkjalyfjum sem hafi átt að slá á verkina. Verkurinn hafi hins vegar haldið áfram að koma við minnstu áreynslu. Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að því er varðar þessa læknisheimsókn komi eftirfarandi fram:

„Í fyrri heimsókninni þann X kvartaði umsækjandi undan verkjum í mjóbaki. Læknir gerði læknisskoðun á henni. Umsækjandi lýsti höggi á bak 3 vikum áður, þegar hún var að […]. Læknir gaf umsækjanda almennar ráðleggingar vegna mjóbaksverk og ávísaði verkjalyfjum. Að mati SÍ verður ekkert fundið að þeirri meðferð sem umsækjandi hlaut við þessa heimsókn. Að mati SÍ gáfu hvorki skoðun læknis né kvartanir umsækjanda lækni tilefni til annarra eða frekari aðgerða af hálfu læknis.“

Kærandi hafi hitt D, lækni á C, þann X vegna stöðugra verkja í baki og hnúts í vinstra brjósti. Hann hafi ávísað henni stóran skammt af verkjatöflum vegna bakverkjanna og hafi lagt til sjúkraþjálfun. Hvað hnútinn í brjóstinu hafi varðað hafi hann sagt að það væri ólíklegur staður fyrir krabbamein og hafi talið gerð hnútsins ekki líkjast krabbameini. Hann hafi talið að um væri að ræða breytingu á brjósti sem gæti átt sér stað við blæðingar og að þetta myndi líklegast hverfa innan tveggja mánaða. Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að því er varðar þessa heimsókn komi eftirfarandi fram:

„Í síðari heimsókninni þann X kvartaði umsækjandi aftur undan bakverk og tengdi verkinn við fall í X. Læknir taldi sig finna merki um tognun og ávísaði vöðvaslakandi- og verkjalyfjum auk bólgueyðandi lyfs. Í þessari skoðun upplýsti umsækjandi fyrst um að hún fundi fyrir hnút í brjósti. Læknir taldi að líklega væri um „hormonaþrymil“ að ræða og ákvað að bíða í 2 tíðahringi og sjá til. Að mati SÍ voru það eðlileg vinnubrögð hjá lækni að boða konu á barneignaaldri með nýjan ógrunnsamlegan hnút í brjósti til skoðunar eftir 2 tíðahringi. Flestir hnútar í brjóstum kvenna á barneignaaldri eru góðkynja og kunnugt er að í tíðahring kvenna verða breytingar á vökvainnihaldi brjósta og geta hnútar fundist sem hverfa síðar í tíðahringnum. Meðal einkenna sem benda til æxlis eru inndregin eða vessandi geirvarta og lítt hreyfanlegur eða illa afmarkaður hnútur. Þessum einkennum var ekki lýst við þessa heimsókn. Því verður ekki fundið að þeirri ákvörðun læknis að bíða með myndgreiningu í 2 tíðahringi. Hnúturinn var síðan enn til staðar við heimsókn umsækjanda á C þann X og var þá efnt til myndgreiningar sem síðan leiddi til greiningar á krabbameini umsækjanda.“

Þann X hafi kærandi leitað aftur á C þar sem ástand hennar hafi verið óbreytt, þ.e. hún hafi enn verið með bakverki og hnúturinn í vinstra brjósti hafi enn verið til staðar. Hvað bakið hafi varðað hafi hún enn og aftur fengið sömu leiðbeiningar, þ.e. taka verkjatöflur og fara í sjúkraþjálfun, engin frekari rannsókn hafi farið fram frekar en áður. Vegna hnútsins í vinstra brjósti hafi verið gefin út beiðni um rannsókn hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Verkjatöflurnar hafi aðeins slegið á bakverkina en eftir sjúkraþjálfun hafi bakverkurinn versnað mikið.

Við rannsókn á leitarstöðinni X hafi komið í ljós að kærandi væri með krabbamein í vinstra brjósti. Við áframhaldandi rannsókn hafi komið í ljós að kærandi væri með krabbamein á fleiri stöðum, þ.e. í baki, í hálsleiðni og niður í mjaðmaliði, í lifur og á fleiri stöðum. Kærandi hafi farið í hryggspengingaraðgerð X á Landspítala og hafi læknarnir, sem hafi framkvæmt aðgerðina, E og F, talið að staðan á bakinu hefði átt að liggja ljós fyrir í X þar sem skemmdir á hryggjarliðnum hafi verið orðnar það slæmar. Samkvæmt símtali við G, hjúkrunarfræðing hjá Brjóstateymi Landspítala þann X, hafi verið gerð mistök hjá heimilislækni í skoðuninni X. Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi eftirfarandi fram:

„Þá vilja SÍ benda á að við rannsóknir á umsækjanda á LSH í tímabilinu X kom í ljós að mein umsækjanda var mjög útbreitt. Meinvörp fundust víða eins og áður hefur komið fram. Því telja SÍ fullvíst að brjóstameinið var ekki læknanlegt með brottnámi þegar mörgum mánuðum eða jafnvel árum áður en umsækjandi bar fyrst upp kvartanir sem rekja mátti til meinsins. Því má telja ljóst að tjón umsækjanda hefði ekki orðið minna, þótt endanleg sjúkdómsgreining hefði legið fyrir fljótlega eftir heimsókn hennar á X þann X þegar hún kvartaði fyrst undan hnútnum í brjóstinu. Með vísan til þessa eru skilyrði 1. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.“

Kærandi sé ósammála þeirri niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingar. Þá sé kærandi ósammála þeirri niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að ekkert verði fundið að heimsóknum hennar á C þann X og X, en kærandi telji að skortur á viðhlítandi meðferð hafi leitt til þess að greining krabbameins, sem hún glími við, hafi tafist til muna.

Að því er varði heimsókn kæranda á Heilbrigðisstofnun C X sé ljóst að á þeim tímapunkti hafi hún verið með óútskýrða bakverki, en kærandi sem sé ekki læknisfræðilega menntuð hafi talið hugsanlegt að verkina mætti rekja til höggs sem hún fékk er hún hafi verið að […]. Kærandi telji að tilefni hafi verið til annarra eða frekari aðgerða af hálfu læknis. Þannig telji kærandi eðlilegt að læknir hefði látið hana undirgangast myndrannsóknir á bakinu til þess að finna út úr því hvað það væri sem væri að orsaka verki hennar. Eins og fram hafi komið hafi kærandi reynst vera með krabbamein í hryggnum og hafi síðar þurft að gangast undir spengingaraðgerð.

Að því er varði síðari heimsókn kæranda á C þann X sé í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands alveg horft fram hjá þeirri meðferð sem kærandi hafi hlotið þann daginn að því er hafi varðað bakverki hennar. Á þeim tímapunkti hafði kærandi verið að glíma við bakverki frá því X. Þrátt fyrir þá staðreynd og það að þá hafi kærandi kvartað yfir hnúti í vinstra brjósti hafi D læknir ekki framkvæmt viðeigandi rannsókn á kæranda en eins og fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þá vísi stofnunin til þess að það hafi verið eðlileg viðbrögð hjá lækni að boða konu á barneignaraldri með nýjan ógrunsamlegan hnút í brjósti til skoðunar eftir tvo tíðahringi. Að mati kæranda hefði D átt að skoða hnútinn í brjósti í samhengi við bakverki hennar og hefði hann gert það hefði hann séð samhengi á milli bakverkja hennar og hnútsins í vinstra brjósti, enda hafi bakverkurinn reynst vera meinvarp og hnúturinn í vinstra brjósti reynst vera illkynja. Að mati kæranda hefði D átt að sjá samhengið, enda sé ljóst að krabbameinsfrumur geti dreifst með blóði og sogæðavökva til eitla og annarra líkamshluta og myndað svonefnd meinvörp þar, en krabbameinsfrumur geti einnig dreift sér með því að vaxa beint inn í annan aðliggjandi vef.

Að mati kæranda sé fráleitt að halda því fram að tjón hennar hefði ekki orðið minna þótt endanleg sjúkdómsgreining hefði legið fyrir fljótlega eftir heimsókn hennar á C þann X. Kærandi telji að D hafi sýnt af sér vanrækslu við meðhöndlun hennar. Hefði D ekki sýnt af sér slíka vanrækslu og hagað meðferðinni eins vel og unnt hefði verið með því að skoða kæranda með forsvaranlegum hætti og eftir atvikum vísa henni til sérfræðinga, megi leiða að því verulegar líkur að hún hefði greinst fyrr og þannig fengið viðhlítandi meðferð fyrr. Hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu krabbameinsins og eftir atvikum koma í veg fyrir frekari skemmdir á hryggjarliðum og/eða meinvörp krabbameinsins. Allan vafa í þessum efnum verði, með vísan til málsatvika, að túlka kæranda í hag.

Af öllu framangreindu leiði að ekki verði við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands unað og sé þess því óskað að nefndin endurskoði hina kærðu ákvörðun og að viðurkennt verði að kærandi eigi rétt á bótum úr sjúklingatryggingu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 24. febrúar 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á C á tímabilinu X til X. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og hafi málið verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 18. mars 2022, hafi umsókn kæranda um bætur verið synjað á þeim grundvelli að það væri mat stofnunarinnar að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 18. mars 2022. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti og er vísað til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Þar segir meðal annars að tvær læknisheimsóknir á C komi til skoðunar að mati Sjúkratrygginga Íslands. Annars vegar heimsókn kæranda á heilbrigðisstofnunina þann X og hins vegar þann X.

Í fyrri heimsókninni þann X hafi kærandi kvartað undan verkjum í mjóbaki. Læknir hafi gert læknisskoðun á henni. Kærandi hafi lýst höggi á bak þremur vikum áður þegar hún hafi verið að […]. Læknir hafi gefið henni almennar ráðleggingar vegna mjóbaksverkjar og ávísað verkjalyfjum. Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekkert fundið að þeirri meðferð sem kærandi hafi hlotið við þessa heimsókn. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi hvorki skoðun læknis né kvartanir kæranda gefið lækni tilefni til annarra eða frekari aðgerða af hálfu læknis.

Í síðari heimsókninni þann X hafi kærandi aftur kvartað undan bakverk og hafi tengt verkinn við fall í X. Læknir hafi talið sig finna merki um tognun og ávísað vöðvaslakandi lyfjum og verkjalyfjum, auk bólgueyðandi lyfs. Í þessari skoðun hafi kærandi fyrst upplýst um að hún fyndi fyrir hnút í brjósti. Læknir hafi talið að líklega væri um „hormonaþrymil“ að ræða og hafi ákveðið að bíða í tvo tíðahringi og sjá til. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi það verið eðlileg vinnubrögð hjá lækni að boða konu á barneignaraldri með nýjan ógrunsamlegan hnút í brjósti til skoðunar eftir tvo tíðahringi. Flestir hnútar í brjóstum kvenna á barneignaaldri séu góðkynja og kunnugt sé að í tíðahring kvenna verða breytingar á vökvainnihaldi brjósta og geti hnútar fundist sem hverfi síðar í tíðahringnum. Meðal einkenna sem bendi til æxlis séu inndregin eða vessandi geirvarta og lítt hreyfanlegur eða illa afmarkaður hnútur. Þessum einkennum hafi ekki verið lýst við þessa heimsókn. Því verði ekki fundið að þeirri ákvörðun læknis að bíða með myndgreiningu í tvo tíðahringi. Hnúturinn hafi síðan enn verið til staðar við heimsókn kæranda á C þann X og hafi þá verið efnt til myndgreiningar sem síðan hafi leitt til greiningar á krabbameini kæranda.

Sjúkratryggingar Íslands bendi á að við rannsóknir á kæranda á Landspítala í tímabilinu X til X hafi komið í ljós að mein hennar hafi verið mjög útbreitt. Meinvörp hafi fundist víða eins og áður hefur komið fram. Því telji Sjúkratryggingar Íslands fullvíst að brjóstameinið  hafi ekki verið læknanlegt með brottnámi þegar mörgum mánuðum eða jafnvel árum áður en kærandi hafi fyrst borið upp kvartanir sem rekja hafi mátt til meinsins. Því megi telja ljóst að tjón kæranda hefði ekki orðið minna þótt endanleg sjúkdómsgreining hefði legið fyrir fljótlega eftir heimsókn hennar á C þann X þegar hún hafi fyrst kvartað undan hnútnum í brjóstinu. Með vísan til þessa séu skilyrði 1. tölul. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar, sem fór fram á Heilbrigðisstofnun C á tímabilinu X til X, séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Ráða má af kæru að kærandi byggi kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hún telur að læknir hennar hafi sýnt af sér vanrækslu og ekki hagað meðferð eins vel og unnt hafi verið en hefði hann gert það væru verulegar líkur á því að krabbamein hefði greinst fyrr, hún hefði fengið viðhlítandi meðferð fyrr, hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu krabbameinsins og eftir atvikum koma í veg fyrir frekari skemmdir á hryggjarliðum og/eða meinvörp.

Í greinargerð meðferðaraðila, H læknis, dags. 25. júní 2021, segir:

„Umsækjandi telur sig hafa fengið ófullnægjandi meðferð er hún leitaði í þrígang á C. Sjá afrit af færslum.“

Í samskiptaseðli, undirrituðum af I læknanema, dags. X, segir:

„4 daga saga um mjóbaksverk. Mikið álag í vinnu og […]. Fékk högg á bakið fyrri ca 3 vikum þegar hún var að […]. Stanslaus verkur. Verri við áreynslu. Leiðir ekki niður í fætur. Neitar söðuldofa. Neitar vandræðum með þvag eða hægðir.

Hefur verið að taka samtals 2 töflur af parkodin síðan verkirnir byrjuðu

#Skoðun

Stíf og verkjuð paravertabral í mjóbaki

A/P

- Ráðlegginar varðandi sund, kalda/heita bakstra, voltaren gel

- Rx norgesic og diclomex rapid

- Beiðni í sjþj.“

Í samskiptaseðli, undirrituðum af D heimilislækni, dags. X, segir:

„Verkir vi mehin í baki eftir að hafa dotttið.

Finnur til við hreyfingar og að anda djúpt

obs eymsli paravertebralt vi megin localicerað Merki tognunnar

Fyrirferð í vi brjósti lat kl. 3 . Líklega hormonaþrymill.

Bíða 2 tíðahringi og sjá til“

Í samskiptaseðli, undirrituðum af I læknanema, dags. X, segir:

„1) Ennþá slæm af bakverkjum síðan í X. Er á leiðinni í sjúkraþjálfun núna í X, er ekki búin að fara áður útaf covid og jólafríi. SLR neg. Aum paravertrabalt. Finnur einnig til þegar hún andar djúpt.

- Reyna á sjþj og sjá hvort það hjálpi

- Rx diclomex rapid og norgesic

2) Fyrirferð í vi brjósti

- Ennþá fyrirferð í vi brjósti lateralt kl. 3. Finnur stundum til, aðalega þegar hún liggur á fyrirferðinni. Ekki inndreginn geirvarta. Ekki roði yfir fyrirferð. Ekki að vessa úr geirvörtu.

- Konsúltera H. Ráðleggur mammorgafiu Sendi beiðni í gegnum heilsugátt.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Að mati úrskurðarnefndarinnar verða ekki gerðar athugasemdir við skoðun og meðferð kæranda á C X. Við komu kæranda X vegna bakmeina eftir að hafa dottið og samhliða vegna hnúts í brjósti er ekki að merkja að við skoðun og sögutöku hafi þessar kvartanir verið settar í samhengi við kvartanir vegna verkja í baki X. Slíkt hefði mögulega kallað á inngrip þann X en verður þó að teljast langsótt á þeim tíma og að mati úrskurðarnefndarinnar var eðlilegt að bíða tvo tíðahringi og sjá hvernig hnútar í brjósti myndu þróast. Þótt að öllu jöfnu sé gangur frekar hægur í brjóstakrabbameini er það einstaklingsbundið og ljóst að í vissum tilfellum getur orðið tvöföldun á stærð æxlis á fremur stuttum tíma en að öllu jöfnu má gera ráð fyrir að meinvörp vaxi hraðar en frumæxlið[1]. Það er þó mat nefndarinnar að ekki séu meiri líkur en minni á því að kærandi hafi orðið fyrir tjóni vegna tafar á greiningu. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 vegna tafar á greiningu. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 



[1] Has tumor doubling time in breast cancer changed over the past 80 years? A systematic review - Dahan - 2021 - Cancer Medicine - Wiley Online Library


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum