Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 19/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

  

Miðvikudaginn 18. febrúar 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hennar, B, nr. 19/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við dóttur sína, B. Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 2014 um umgengni kæranda við dóttur hennar, B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra, þrjár klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í mars, júní, október og desember ár hvert og er móður heimilt að koma með afmælis- og jólagjafir til telpunnar í umgengni.

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði hrundið og umgengni kæranda við barnið verði háttað þannig að hún hafi umgengni við dóttur sína, B, fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra í sex klukkustundir í senn. Umgengnin fari fram í mars, júní, október og desember ár hvert og sé móður heimilt að koma með afmælis- og jólagjafir til telpunnar í umgengni.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærunefnd barnaverndarmála kallaði eftir afstöðu fósturforeldra B, þeirra C og D, til krafna kæranda varðandi umgengni hennar við stúlkuna. Í tölvupósti frá þeim til kærunefndarinnar 10. febrúar 2015 kemur fram að þeir vilji halda óbreyttri umgengni, en telji þó að umgengni sé heldur mikil eins og hún er nú, sérstaklega í  ljósi þess að báðir foreldrar stúlkunnar njóta aðskilinnar umgengni.

II. Málavextir

B fæddist ..... og er því rúmlega X ára gömul. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2012. Faðir stúlkunnar er E, en foreldrar hennar slitu samvistum 2011. Hún hefur verið vistuð hjá fósturforeldrum sínum, C og D, frá X mánaða aldri og verið þar í varanlegu fóstri frá því í ...... Á fósturheimilinu býr einnig ættleidd dóttir fósturforeldranna, F, fædd ...... B á eina sammæðra hálfsystur, G, fædda ....., en hún býr hjá föður sínum.

Umgengni B við kæranda fyrst eftir að hún fór í fóstur var samkvæmt samningum þar að lútandi eins og rakið er í gögnum málsins. Þar sem ekki náðist lengur samkomulag um umgengnina kvað barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð um umgengnina 19. júní 2012. Samkvæmt þeim úrskurði var umgengnin fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra í þrjár klukkustundir í senn. Umgengnin var ekki undir eftirliti en eftir heimsóknir kæranda til stúlkunnar sendi fósturmóðir Barnavernd Reykjavíkur tölvupósta um það hvernig umgengnin hefði gengið. Má af þeim póstum ráða að umgengnin hafi yfirleitt gengið vel.

Lögmaður kæranda sendi barnaverndarnefnd Reykjavíkur bréf 17. september 2014 þar sem gerð var krafa um rýmri umgengni kæranda við stúlkuna eða sex sinnum á ári á heimili kæranda í stað fósturheimilis, umgengnin yrði án eftirlits og í sex klukkustundir. Rökin fyrir kröfum kæranda voru þau helst að henni hefði gengið vel, hún telji að sjúkdómur hennar sé kominn í svo mikið jafnvægi að ástæða sé til þess að auka umgengnina, hún hafi verið lengi edrú og hafi eldri dóttir hennar verið búsett hjá henni í rúmt ár án athugasemda frá barnaverndaryfirvöldum. Kærandi taldi að með því að auka umgengnina myndu tengsl hennar við B styrkjast auk þess sem stúlkan myndi jafnframt tengjast eldri systur sinni, G, betur. Kærandi benti á að hún hefði nýtt sér alla þá umgengni sem hún hefði haft rétt á og telji að umgengni hafi ávallt gengið vel þó hún telji það hamlandi að umgengni fari fram á heimili fósturforeldra.

Barnaverndarnefnd taldi ekki rök fyrir því að breyta umgengninni út frá hagsmunum stúlkunnar og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp 25. nóvember 2014, þar sem ákveðið var að umgengnin yrði óbreytt frá því sem verið hafði, eins og fram hefur komið.

III. Afstaða kæranda

Fram kemur af hálfu kæranda að niðurstaða hins kærða úrskurðar hafi verið henni mikil vonbrigði, enda hafi hún ekkert talið standa í vegi fyrir að minnsta kosti hóflegri aukningu á umgengni. Eftir að kærandi hafi fengið í hendur öll gögn málsins, þar með talið afstöðu fósturforeldra, gögn frá leikskóla og fleira vilji hún falla frá hluta krafna sinna og gera eingöngu kröfu um aukna umgengni í hvert skipti sem umgengni fari fram, þ.e. fjórum sinnum á ári.

Með því að rækja umgengnina á fósturheimilinu sé komið í veg fyrir að barnið verði óöruggt í umgengninni. Með kröfu kæranda sé jafnframt komið til móts við athugasemdir fósturforeldra um að umgengni sex sinnum á ári sé of mikil fyrir svo ungt barn, meðal annars þar sem hún sinni jafnframt umgengni við föður sinn fjórum sinnum á ári. Allar þær röksemdir sem færðar séu fram af hálfu starfsmanna barnaverndarnefndar, sem nefndin geri að sínum í hinum kærða úrskurði, geti ekki átt við aukningu á umgengnistíma í hverri umgengni. Barnið sé með góða félagslega aðlögunarhæfni, góð tengsl við kæranda og engin gögn sem bendi til þess að lengri umgengni í hvert skipti gangi gegn hagsmunum barnsins. Gögn málsins bendi til þess að barnið hafi ánægju af því að rækja umgengni við kæranda og telji hún það sérstaklega benda til þess að ástæða sé til þess að auka við umgengnina. Kærandi telji það jafnframt í raun órökstutt í úrskurði barnaverndarnefndar hvers vegna ekki skuli heimila lengri umgengni í þessi fjögur skipti á ári. Virðist það einfaldlega ákveðið með hliðsjón af því að fósturforeldrar séu mótfallnir því. Það telji kærandi ekki nægilegan rökstuðning, enda þurfi mat af þessu tagi að fara fram með sameiginlega hagsmuni kæranda og barnsins að leiðarljóði en ekki því að hugsanlega verði eitthvað rask fyrir fósturforeldra að taka á móti kæranda í nokkrar klukkustundir aukalega, fjórum sinnum á ári.

Kærandi telji einnig að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur brjóti í bága við meginreglur barnaverndarlaga og stjórnsýsluréttar. Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beri barnaverndarnefnd að rannsaka mál til hlítar áður en tekin sé íþyngjandi ákvörðun gagnvart einstaklingum. Í beiðni lögmanns kæranda um aukna umgengni sé því sérstaklega beint til starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að afla gagna um félagslega stöðu og andlegt ástand kæranda. Telji kærandi að slík gögn hefðu getað vegið þungt við mat á því hvort heimila eigi kæranda frekari umgengni við barnið en nú sé.

Í niðurstöðu kærunnar ítrekar kærandi kröfur sínar og krefst þess að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum kæranda og barnsins. Nauðsynlegt sé að rökstyðja betur niðurstöðu barnaverndaryfirvalda. Engin gögn í málinu bendi til þess að hófleg aukning á umgengni sé slæm fyrir hagsmuni barnsins. Ef það kæmi síðar í ljós að barnið sýndi neikvæða hegðun í tengslum við lengri umgengni hafi barnaverndarnefnd öll úrræði til þess að skerða umgengni að nýju. Markmið kæranda sé að fá ríkari umgengni til þess að viðhalda tengslum sínum við barnið sem augljóslega séu til staðar miðað við öll gögn málsins og lýsingar fósturforeldra á umgengni.

Með athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð barnaverndaryfirvalda, sem sendar voru kærunefnd barnaverndarmála 5. janúar 2015, kemur fram að takmörkuð efnisleg rök sé að finna fyrir því hvers vegna ekki ætti að breyta umgengni á þann hátt sem kærandi krefst. Vísað sé almennt til forsögu málsins án nánari tilgreiningar og sagt að almennt sýni reynslan að umgengni barna við kynforeldra raski ró barna í fóstri þótt ekki sé ágreiningur um hana. Það skorti alla raunverulega umfjöllun um kröfu kæranda, þ.e. hvers vegna eigi ekki að lengja hverja umgengni fyrir sig um örfáar klukkustundir. Almenn sjónarmið um hvað reynslan sýni í meðferð barnaverndarmála almennt geti ekki verið grundvöllur að niðurstöðu í hverju einstöku máli. Nauðsynlegt sé að skoða hvert mál fyrir sig og taka ákvörðun samkvæmt þeim gögnum og rökum sem teflt sé fram hverju sinni. Engin gögn málsins styðji það að þessi aukning á umgengni geti verið skaðleg fyrir barnið. Barnið sé vel statt félagslega eins og fram komi í umsögn leikskóla og hafi, sérstaklega síðastliðin tvö ár, átt ánægjulega umgengni við kæranda. Auk þess hafi barnaverndarnefnd alla möguleika til þess að falla frá aukningu umgengni síðar meir fari svo ólíklega að aukin umgengni sé ekki í samræmi við hagsmuni barnsins.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 16. desember 2014 kemur fram að umgengni kæranda hafi verið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 19. júní 2012. Umgengnin hafi verið ákveðin fjórum sinnum á ári, þrjár klukkustundir í senn á heimili fósturforeldra. Hafi umgengnin gengið nokkuð vel. Stúlkan hafi virst sátt í umgengninni og undanfarið hafi hún verið öruggari í samskiptum sínum við kæranda. Oftast hafi einhver komið með kæranda í umgengni, eldri dóttir hennar eða systir hennar og dóttir hennar. Þegar umgengni hafi farið fram í september 2014 hafi kærandi komið ein í umgengnina og hafi það verið mat fósturmóður að í þeirri umgengni hafi stúlkan og kærandi átt meiri gæðastund en þegar fleiri komi með henni í umgengni. Stúlkan hafi einnig virst njóta umgengninnar betur. Þá liggi fyrir að stúlkan sé mjög örugg á fósturheimilinu þar sem umgengni hafi farið fram. Hún hafi ekki komið á heimili kæranda í nokkur ár og séu þær aðstæður ókunnar stúlkunni. 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur bendir á að markmiðið með varanlegu fóstri sé að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn væri að ræða og taki umgengni við kynforeldra mið af því, skv. 65. og 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og reglugerð nr. 804/2004 um fóstur. B sé vistuð í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem sé ætlað að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu, sérstaklega breytingu á líðan og tengslum við fósturforeldra frá því umgengi var breytt í júní 2012, hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 25. nóvember 2014 að mikilvægt væri að skapa B áframhaldnadi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

V. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram í tölvupósti 10. febrúar 2015 til kærunefndarinnar sú afstaða þeirra að vilja halda óbreyttum umgengnissamningi. Þeim finnist þó núverandi umgengni heldur mikil og séu einkum tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi sé B í litlum sem engum tengslum við kæranda. Hún hafi verið X mánaða þegar hún kom til fósturforeldranna og myndi því í raun sín fyrstu tengsl við þá. Hún líti á fósturforeldrana sem foreldra sína og sýni litla þörf og áhuga á tengslum við kynforeldra sína. Þar sem B sé hjá fósturforeldrunum í varanlegu fóstri sé tilgangurinn með umgengni að B þekki uppruna sinn en ekki sá að byggja upp tengsl á milli barns og kæranda.  Í öðru lagi verði að horfa til þess að þar sem kynforeldrar B séu ekki í sambúð tvöfaldist umgengnin og því sé umgengni átta sinnum á ári (fjórum sinnum fyrir hvort foreldri um sig, í þrjár klukkustundir í senn) sem ætti að teljast mjög rúmt miðað við markmið fósturráðstöfunarinnar.

Regluleg umgengni, eins og hún hafi verið þegar fóstursamningurinn var tímabundinn, hafi gengið illa og reynt mjög á B. Umgengnin hafi kallað fram mikið óöryggi hjá henni og hræðslu við höfnun. Hún hafi verið dugleg að láta reyna á mörkin og kanna hvað hún þyrfti að ganga langt svo að fósturforeldrarnir myndu hafna henni. Þeim hafi smám saman tekist að vinda ofan af þessu eftir að samningi hafi verið breytt yfir í varanlegt fóstur en óöryggið og hræðslan kraumi undir niðri. B beri sig mikið saman við fóstursystur sína og upplifi aðstöðumun sem birtist t.d. í því að þær beri ekki sama föðurnafn. Hún þurfi því stöðugt að fá staðfestingu á því að hún tilheyri fósturforeldrunum og að þau séu eining sem muni aldrei bresta, að fósturforeldarnir séu og verði áfram kjölfestan í lífi hennar.  Umgengni raski tilfinningalegu jafnvægi hennar og því vilji fósturforeldarnir halda henni í algjöru lágmarki. Einnig vilji þeir halda henni sem mest fyrirsjáanlegri en ekki eitthvað sem breytist reglulega því breytingar raski líka jafnvæginu.

VI. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfum kæranda um rýmri umgengni við X ára gamla dóttur sína en hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur kveður á um. Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum. Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Stúlkan hefur verið í fóstri frá X mánaða aldri sem ætlað er að standa þar til hún verður sjálfráða. Foreldrar hennar slitu samvistum 2011 og var kærandi svipt forsjá hennar með dómi [...] 2012. Með fósturráðstöfuninni er ætlunin að tryggja barninu stöðugt og öruggt umhverfi hjá umönnunaraðilum sem barnið á að líta á sem fjölskyldu sína. Markmiðið með þessu þjónar ótvírætt hagsmunum barnsins.

Kærandi krefst þess að fá aukna umgengni í hvert skipti sem umgengni fer fram, þ.e. fjórum sinnum á ári, þannig að hún verði í sex klukkustundir í senn í stað þriggja. Kærandi vísar til þess að með því að rækja umgengnina á fósturheimilinu sé komið í veg fyrir að barnið verði óöruggt í umgengninni. Barnið sé með góða félagslega aðlögunarhæfni, góð tengsl við kæranda og engin gögn sem bendi til þess að lengri umgengni í hvert skipti gangi gegn hagsmunum barnsins. Gögn málsins bendi til þess að barnið hafi ánægju af því að rækja umgengni við kæranda og telji hún það sérstaklega benda til þess að ástæða sé til þess að auka við umgengnina. Í hinum kærða úrskurði sé ekki rökstutt hvers vegna ekki skuli heimila lengri umgengni í þessi fjögur skipti á ári. Ekki nægi að vísa til þess að fósturforeldrar séu mótfallnir því, enda þurfi mat á þessu að fara fram með sameiginlega hagsmuni kæranda og barnsins að leiðarljósi.

Við úrlausn á þessum álitaefnum ber að líta til þess sem fram kemur í 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga en þar segir að við ráðstöfun barns í fóstur skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt þessu ber að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi við ákvörðun á lengd umgengninnar. Hagsmuni barnsins ber að meta með tilliti til þeirrar stöðu sem barnið er í. Eins og lýst er hér að framan hefur barnið verið í fóstri frá X mánaða aldri þar sem markmiðið er að tryggja barninu stöðugt og öruggt umhverfi hjá fósturforeldrunum til frambúðar.

Við úrlausn málsins ber enn fremur að líta til þess að umgengni hefur gengið nokkuð vel. Þótt barnið sýni þess merki að umgengni íþyngi því ekki verður það ekki haft til marks um það að auka beri lengd hverrar umgengni eins og kærandi krefst. Lengri tími þýðir ekki endilega að gæði samveru barnsins og kæranda muni aukast að sama skapi. Með því að auka umgengni verður að telja að þar með verði tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem barnið hefur þörf fyrir í þeirri stöðu sem það er í. Engin vissa liggur fyrir um það hvað aukin umgengni hefði í för með sér fyrir barnið. Heimsóknartímar geta almennt verið íþyngjandi ef lengd þeirra gengur úr hófi. Engin rök verður að telja fyrir því að annað gildi um barnið sem hér um ræðir. Með því að auka umgengni eins og kærandi krefst er tekin áhætta sem er til þess fallin að raska þeim stöðugleika sem barnið býr nú við og hefur mjög mikla þörf fyrir.

Kærunefndin getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda að lengd hverrar heimsóknar í sex klukkustundir úr þremur teljist hófleg aukning. Þvert á móti hlýtur það að teljast veruleg aukning. Eins og málið liggur fyrir verður ekki lagt til grundvallar við úrlausn þess að barnið hafi þörf fyrir lengri samveru við kæranda í hverjum umgengnistíma. Er þá sérstaklega tekið tillit til þess að barnið hefur ekki myndað náin tengsl við kæranda. Kærandinn fer fram á aukna umgengni en samkvæmt því fara hagsmunir hennar og barnsins ekki endilega saman. Þá liggur heldur ekki fyrir að kærandi og barnið hafi einhverja sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli.

Þá telur kærandi að málið hafi ekki verið rannsakað til hlítar áður en hin íþyngjandi ákvörðun var tekin í því. Kærandi hafi sérstaklega beint því til starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að afla gagna um félagslega stöðu og andlegt ástand kæranda. Kærandi telji að slík gögn hefðu getað vegið þungt við mat á því hvort heimila eigi kæranda frekari umgengni við barnið en nú sé.

Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þessi regla er nefnd rannsóknarregla en hún kemur einnig fram í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í rannsóknarreglunni felst að stjórnvaldi beri að afla þeirra upplýsinga og gagna í máli sem nauðsynleg eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Af þessu leiðir að barnaverndarnefnd er óheimilt að ganga lengra í gagnaöflun í hverju máli en nauðsynlegt er. Með vísan til þess að við ákvörðun í málinu þarf að meta þá stöðu sem barnið er í og taka ákvörðun út frá hagsmunum þess, samanber 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, þykir ekki skipta máli að afla framangreindra gagna.

Kærandi vísar enn fremur til þess að markmið hennar sé að fá ríkari umgengni við barnið til þess að viðhalda tengslum sínum við það sem augljóslega séu til staðar miðað við öll gögn málsins og lýsingar fósturforeldra á umgengni. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga verður umgengni að samrýmast þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun barns í fóstur. Með umgengni kæranda við barnið er ekki ætlunin að styrkja tengsl þeirra í milli eða byggja upp varanleg tengsl barnsins við kæranda. Það er heldur ekki ætlunin að vinna að því að barnið tilheyri tveimur fjölskyldum. Mikilvægt er að barnið aðlagist fósturfjölskyldu sinni á sem eðlilegastan máta og að það finni að það tilheyri henni. Af gögnum málsins má ráða að þetta sé stúlkunni mjög mikilvægt. Mestu máli skiptir fyrir þroska barnsins og heilbrigði til lengri tíma að það njóti stöðugra og öruggra tengsla við umönnunaraðila sem barnið lítur á sem foreldra sína. Taka þarf jafnframt tillit til þess að ekki er ætlunin að rjúfa tengsl barnsins við kæranda. Umgengnina þarf að ákveða með tilliti til þessa. Til þess að umgengnin verði farsæl þarf að stuðla að því að hún verði í föstum skorðum þar sem ríkir öryggi og ró í samskiptum þeirra sem að henni koma.

Í þessu máli telur barnaverndarnefnd að umgengni sé hæfileg fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra í þrjár klukkustundir í senn. Kærunefnd barnaverndarmála er sammála þessari niðurstöðu og telur hana þjóna hagsmunum barnsins best. Er þá litið til þeirrar stöðu sem barnið er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og að hófleg umgengni verði að teljast til þess fallin að stuðla að jákvæðum samskiptum og sátt um fyrirkomulag hennar sem er barninu mjög mikilvægt í uppvextinum.

Af framangreindu leiðir að hafna ber kröfum kæranda um rýmri umgengni við stúlkuna en ákveðin var af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur með vísan til 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hinn kærði úrskurður barnaverndar­nefndarinnar frá 25. nóvember 2014 er með vísan til þessa staðfestur.

 

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 2014 um umgengni A við dóttur sína, B, er staðfestur.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 


 

 

 


 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum