Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Barnaverndarm%C3%A1l

Nr. 232/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 232/2019

Mánudaginn 7. október 2019

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. maí 2019, móttekinni 5. júní 2019, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. maí 2019 vegna umgengni við D og E.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára og drengurinn E er X ára. Kynforeldrar barnanna voru svipt forsjá þeirra með dómi Héraðsdóms F X 2019 og lúta bæði börnin forsjá Barnaverndarnefndar B. Bæði börnin eru vistuð utan heimilis. Kærandi þessa máls er móðir barnanna.

Í dómi Héraðsdóms F frá X 2019 eru atvik málsins rakin. Fram kemur að þann X hafi Barnaverndarnefnd B borist tilkynning þess efnis að D hefði í samskiptum við [...] greint frá því að [...]. Málið hafi verið [...]. Með samþykki móður barnanna hafi verið ákveðið að vista börnin tímabundið utan heimilis á vegum barnaverndarnefndarinnar og stóð sú vistun til X. Við upphaf málsins hafi könnun leitt í ljós að á heimili fjölskyldunnar hafi verið [...]. Við skýrslutökur fyrir dómi X og X og síðar X hafi stúlkan [...]. Við skýrslutöku af drengnum X skýrði hann frá því að [...]. Við upphaf málsins hafi móðir og móðuramma átt afar erfitt með að trúa því að [...]. Kvaðst móðir engu að síður ætla [...]. Börnin hafi svo farið aftur í umsjá móður í X en þá hafi faðir barnanna verið fluttur af heimilinu [...]. Gerð hafi verið áætlun um frekari meðferð málsins og lagði barnaverndarnefndin áherslu á að börnin, [...], myndi ekki umgangast föður sinn nema að takmörkuðu leyti um jól og áramót [...]. Eftir að börnin komu á ný á heimili móður fóru starfsmenn barnaverndar fljótlega að hafa áhyggjur af stöðu barnanna þar. [...] Í greinargerð sem móðir lagði fram á fundi barnaverndar þann [...] kom einnig fram að móðir teldi að stúlkan ætti mögulega við [...] vanda að etja, [...]. Þá hafi barnaverndin greint frá því að móðir teldi að [...]. Frá skóla bárust ábendingar um að stúlkan [...], en barnaverndin taldi þá að foreldrar væru í samvistum. Þá hafi móðir ekki sinnt því að stúlkan færi í nauðsynleg meðferðarviðtöl við starfsmenn barnaverndar. Í kjölfar þess að sérfræðingar G létu í ljós álit sitt um að ekki væri vænlegt fyrir stúlkuna að hefja þar meðferð ef [...] var málið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar C X. Úrskurðaði nefndin X að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis í tvo mánuði svo að viðtalsmeðferð gæti farið fram. Héraðsdómur H staðfesti úrskurð barnaverndarnefndarinnar X. Á fundi barnaverndarnefndarinnar Xhafi verið samþykkt, með vísan til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að vistun stúlkunnar yrði framlengd þar til viðtölum í G væri lokið, eða í allt að Xmánuði til viðbótar. Með úrskurði X féllst Héraðsdómur H á kröfu barnaverndarnefndarinnar.

Á þeim tíma er stúlkan var í vistun naut hún takmarkaðrar umgengni við kæranda og bróður sinn undir eftirliti. Í X ákvað kærandi að taka drenginn [...] í B og flytja lögheimili þeirra tilF þar sem hún kvaðst ætla að [...] Drengurinn átti erfitt uppdráttar í samskiptum við önnur börn í nýjum skóla. Starfsmenn barnaverndar töldu þá ljóst að foreldrar myndu ekki ætla að eiga samvinnu við barnaverndina og að kærandi hefði sagt ósatt um hagi þeirra og sonar þeirra á heimilinu þar sem [...]. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B X var ákveðið að taka drenginn af heimili kæranda og flytja hann á [...]. Þann X barst tilkynning frá [...] sem lýsti því að hann ætti við [...] að stríða eins og þegar hann hafði dvalið hjá henni í fyrra skiptið. Þá kvað vistmóðir að drengurinn hefði tjáð sér að [...]. Í kjölfarið var [...] og óskað eftir rannsóknarviðtali við drenginn í G. Barnaverndarnefnd B hafi svo tekið mál drengsins fyrir X. Á fundi áréttaði móðir að [...]. Faðir barnanna kom einnig fyrir fundinn og tjáði þar skoðun sína að þau hjónin gerðu sér nú grein fyrir því að skilnaður væri misráðinn þar sem samband þeirra væri traust þótt þau myndu búa í sundur á meðan [...]. Skýrsla var tekin af drengnum í G X þar sem hann staðfesti, að mati barnaverndarnefndarinnar, [...]. Með úrskurði X ákvað barnaverndarnefndin að drengurinn skyldi tekinn af heimili kæranda og vistaður utan heimilis í Xmánuði. Þá ákvað barnaverndarnefndin með vísan 1. mgr. 28. gr. bvl. að fara fram á að ráðstöfunin skyldi gilda í allt að Xmánuði. Sú krafa var ekki sett fram í tæka tíð og rann vistunartími út. Neytti þá barnaverndarnefndin úrræða 31. gr. bvl. og úrskurðaði að drengurinn skyldi kyrrsettur á [...] til X mánaða. Héraðsdómur staðfesti þann úrskurð sem var síðan staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B X var ákveðið að stúlkan skyldi kyrrsett á [...] í X mánuði. Með úrskurði Héraðsdóms H X var vistun stúlkunnar framlengd til X mánaða. Mál til forsjársviptingar var höfðað í X og hafa börnin því verið samfellt vistuð utan heimilis, stúlkan X ár og drengurinn X ár.

Frá upphafi málsins hafi faðir barnanna [...].

Í hinum kærða úrskurði, sem varðar umgengi barnanna við móður, móðurömmu, föður og föðurömmu kemur fram að umgengni við kæranda hafi verið regluleg en undir eftirliti.

Í  úrskurðinum er vísað til þess að kröfur kærenda um umgengni hafi verið til umfjöllunar á fundi Barnaverndarnefndar B X 2019 sem hafi samþykkt svohljóðandi bókun:

Fyrir barnaverndarnefnd B liggja kröfur frá foreldrum systkinanna D og E, og ömmum þeirra, um aukna umgengni barnanna við fjölskylduna. Foreldrar barnanna voru sviptir forsjá þeirra með dómi héraðsdóms, dags. X og hefur þeim dómi verið áfrýjað til Landsréttar og er niðurstaða réttarins að vænta innan skamms. Með vísað til þess og með hliðsjón af því að systkinin hafa fram að þessu ekki lýst vilja sínum til að umgengni verði aukin, er það ákvörðun barnaverndarnefndar B að fresta afgreiðslu krafnanna þar til niðurstaða Landsréttar liggur fyrir varðandi skipan forsjár yfir þeim.

Með dómi Landsréttar X 2019 var dómur Hérðasdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Í kjölfarið var úrskurðað um umgengi barnanna við kærendur með hinum kærða úrskurði, dags. 10. maí 2019.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umgengni systkinanna D og E, við móður sína, A verði einu sinni í mánuði í tvo tíma í senn undir eftirliti. Ef móðir óskar eftir að bjóða börnunum í leikhús, bíó eða aðra viðburði, má auka umgengnistímann í fjórar klst. Ömmur barnanna, I, og J, eigi kost á að taka þátt í umgengni móður fjórum sinnum á ári, á hátíðum/afmælum. Engin umgengni verði við föður, K. Úrskurður þessi gildir þar til loka niðurstaða dómstóla liggur fyrir um skipan forsjár yfir börnunum.“

Foreldrar barnanna voru sviptir forsjá þeirra með dómi Héraðsdóms F X 2019. Dómi héraðsdóms hefur verið skotið til Landsréttar.

 

II.  Sjónarmið kærenda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að ákveðið verði að umgengni hennar við börnin verði aukin þannig að umgengni hennar við börnin fari fram tvisvar sinnum í mánuði, í þrjár til fjórar klukkustundir í senn þar sem bæði börnin komi í umgengni á sama tíma og því til viðbótar að fram fari mánaðarleg umgengni við stúlkuna með kæranda í þrjá tíma í senn og sambærileg umgengni kæranda við drenginn tvisvar í mánuði. Þá sé jafnframt farið fram á að lagt verði fyrir Barnavernd B að bætt verði upp sú umgengni sem fallið hafi niður og að ákveðið verði með tilgreindu skipulagi fram í tímann hvernig umgengni verði háttað og með hvaða hætti umgengni verði bætt upp og hvenær það verði gert ef hún raskast af óviðráðanlegum aðstæðum.

Krafa kæranda sé byggð á því að hún og börn hennar eigi rétt á samvistum við hvert annað.  Börnin séu ung að árum, eða aðeins X og X ára gömul, hafa verið höfð í vistun meira og minna  síðan X og þannig verið haldið frá móður þó að hún hafi í engu brotið gegn þeim. Þá hafi því ítrekað verið beitt gegn móður að hún hafi [...]. Engu að síður hafi barnaverndarnefnd ákveðið að láta það sem vind um eyru þjóta og haldið áfram að fara með málið eins og sannað væri að börnin hafi [...]. Sé það þrátt fyrir að [...].

Þá byggi kærandi ekki síst á því að hún hafi ávallt forgangsraðað hagsmunum barnanna fyrst og viljað gera allt sem í sínu valdi stóð til að tryggja hagsmuni þeirra. Þannig hafi hún meðal annars [...] og vilji bjóða þeim búsetu og heimili með sér einni, [...]. Þannig hafi hún ávallt viljað leggja allt sitt af mörkum til að tryggja hagsmuni barnanna og því séu ekki skilyrði til að byggja úrskurð um skerta umgengni á [...] og því að hún hefði ekki hagsmuni barnanna nægjanlega í forgangi.

Að auki sé í dómi Héraðsdóms F frá X í barnaverndarmáli aðila vísað til þess að börnin vilji ekki lengur fara heim til foreldra sinna og lagt til grundvallar að þau hafi [...]. Í engu sé tekið á því í dóminum hvernig fyrirvaralaus taka barnanna á unga aldri af heimili foreldra sinna getur leitt til áfalls, svo og afleiðinga af því, og þá ekki heldur hvernig þessar ítrekuðu fósturráðstafanir geti svo haft áhrif á meinta viljaafstöðu barnanna og leitt til tengslarofs við móður. Þvert á móti hafi það verið staðfest með ítarlegum hætti í niðurstöðum dómsins hvernig barnaverndarnefnd hafi ítrekað brotið á kæranda í málsmeðferðinni, en svo hafi í engu verið tekið tillit til þess við ákvörðun um sviptingu forsjár. Þá hafi barnaverndarnefndin síðan takmarkað umgengni barnanna við móður að ástæðulausu og þvert á vilja barnanna, að því er virðist, til þess að styrkja í sessi afstöðu barnanna og vilja til þess að búa áfram á núverandi dvalarstað. Þetta hafi verið gert þvert á ábendingar sem fram koma í dómi héraðsdóms, svo sem tillögur í niðurstöðu dómsins á bls. 39 um lengri umgengni drengsins við móður, til dæmis í viku í senn með óboðuðu eftirliti. Jafnframt séu í dóminum á sömu blaðsíðu gerðar alvarlegar athugasemdir við margt í vinnslu málsins hjá Barnaverndarnefnd B, til dæmis það að tekið er undir athugasemdir L varðandi leyfi til vistunar, átalin er ófagleg nálgun starfsmanna hvað varðar [...], að móðirin hafi ekki notið sannmælis hjá starfsmönnum barnaverndar og að allt of lítið hafi verið aðhafst af hálfu nefndarinnar til þess að styrkja tengslamyndun hennar við börn sín fyrr í ferlinu eða til að auka traust hennar í garð barnaverndar. Skort hafi á samvinnu og samráð varðandi málefni stúlkunnar og margt fleira. Í kjölfarið á þessum alvarlegu athugasemdum brást barnaverndarnefndin hins vegar ekki við með því að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við störf hennar, heldur gekk lengra í því að rjúfa tengsl móður og barnanna. Byggir kærandi á því að í því felist brot á meginreglum stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti og brot gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhóf, sbr. einnig 7. mgr. 4. gr. bvl.

Þá byggi kærandi á því að ekkert hafi réttlætt minnkaða umgengni móður við börnin, sbr. úrskurð þess efnis frá X, en með úrskurðinum var umgengnin skert verulega, úr átta klukkustunda umgengni við drenginn mánaðarlega, og fjögurra klukkustunda umgengni stúlkunnar við móður í tveggja tíma umgengni mánaðarlega. Slík skerðing hafi auk þess verið þvert á tilmæli í dómi héraðsdóms og hefði því þurft að færa sértaklega rök fyrir skerðingunni, en það hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti.

Kærandi byggi á því að ekkert liggi fyrir í málinu frá hlutlausum aðila um að samvistir barnanna við hana séu skaðlegar fyrir þau. Þvert á móti sýni skýrslur eftirlitsaðila að þeim komi vel saman og njóti samvistanna, ekki síst fyrst eftir að þau voru vistuð gegn vilja móður. Þegar vistunin heldur svo áfram í allan þann langa tíma sem raun ber vitni hefur það eðlilega áhrif á tengslin, en á meðan ekki liggur fyrir hvar börnin eigi að vera til frambúðar beri að verja og vernda tengsl þeirra við móður. Réttur foreldris til að sinna börnum sínum og njóta samvista við þau séu grundvallarréttindi sem njóti bæði verndar í landsrétti og alþjóðlegum mannréttindareglum. Kærandi sé sannfærð um að þegar að dómur falli í héraði, nú í annað sinn vegna ómerkingar Landsréttar, fái hún börnin aftur til sín og því sé nauðsynlegt að vernda tengsl þeirra á meðan það mál stendur yfir. Þá skipti einnig verulegu máli að það eru aðeins X þar til eldra barnið sé orðið fullorðið og þarf að geta átt tengsl við sína fjölskyldu á fullorðinsárum, hvort sem börnin séu í vistun eða ekki fram til þess. Slík tengsl verða aðeins varin með umgengni sem er nægilega mikil til að fjölskyldan geti átt eðlilegar samverustundir og þá helst án eftirlits, enda sé ekkert tilefni til annars. Í því sambandi sé sérstaklega bent á að kærandi hafi aldrei verið sökuð um að brjóta á nokkurn hátt gegn börnum sínum og að eftirliti hafi upphaflega verið komið á til að tryggja rannsóknarhagsmuni þar sem áhyggjur voru uppi um að kærandi kynni að [...]. Þær áhyggjur voru þarflausar, [,,,]. [...] Hefur barnaverndarnefnd byggt á því að eftirlitið sé vegna ótta barnanna og til að bæta líðan þeirra. Því sé mótmælt af hálfu kæranda, en ekkert í fari barnanna í umgengni bendir til þess að þau séu hrædd í umgengni við kæranda, og þá væri mun mikilvægara að vinna með þann ástæðulausa ótta ef hann er til staðar frekar en að styrkja hann í sessi með því að hafa eftirlitsaðila með umgengninni að ástæðulausu. Slíkt eftirlit sé þannig frekar til þess fallið að styrkja ranghugmyndir barnanna um að það sé ástæða til að óttast eitthvað í umgengni hjá kæranda.

Hinn kærði úrskurður byggi meðal annars á því að ítrekað eigi að hafa komið fram hjá dóttur kæranda að hún vilji ekki hitta móður oftar. Ekkert sé hins vegar fjallað um það að stúlkan hefur í hvert sinn er hún hefur verið spurð viljað hafa umgengni eins og hún er á því tímamarki og engu viljað breyta. Þannig vildi hún engu breyta þegar umgengnin var tvisvar í mánuði, en samt sem áður var umgengin minnkuð. Byggir kærandi á því að miðað við frásögn barnsins virðist hún sætta sig við ástandið á hverjum tíma og ekki vilja breytingar. Sé þó ekkert sem gefi til kynna að hún vilji ekki áfram sterk tengsl og ríkulega umgengni við móður. Þá er sá verulegi annmarki á því hvernig afstöðu barnanna hefur verið aflað að í öllum tilvikum hefur aðeins verið rætt við börnin á heimili vistforeldra en aldrei utan heimilis, svo sem í skóla eða á öðrum hlutlausum stað. Því er skiljanlegt að stúlkan tjái sig ekki um vilja til breytinga á umgengni þannig að hún verði aukin. Hafa börnin bæði lýst vilja sínum til aukinnar umgengni og breyttrar umgengni hjá móður. Þrátt fyrir þessa annmarka á rannsókn á afstöðu barnanna hefur það komið afdráttarlaust fram hjá drengnum að hann vill hitta móður sína á hverjum fimmtudegi, þ.e. vikulega. Byggi kærandi á því að ekkert tilefni sé til annars en að fara að þessum vilja barnsins og úrskurða um vikulega umgengni hans við móður.

Þá sé hinn kærði úrskurður jafnframt byggður á því að börnin sýni af sér mikla vanlíðan í kringum umgengni. Það sé í hróplegu ósamræmi við ágæta líðan barnanna í umgengni, sem hefur gengið vel, og ekki heldur í samræmi við vilja drengsins eins og hann lýsir honum fyrir talsmanni og fyrir dómurum í málinu.

Kærandi byggi sérstaklega á því að reynslan af umgengni hingað til sýni vel að þörf sé á skýrari ramma utan um umgengnina, meðal annars atriði eins og umgengni um jól, uppbætur á umgengni sem hafi fallið niður og önnur atriði sem varða umgengnina. Þá sé fullt tilefni til þess að auka umgengni barnanna við kæranda, enda vilji þau verja meiri tíma með henni og fá svigrúm til að eiga skemmtilegar stundir með henni, svo sem í leikhúsferðum eða annarri slíkri dægradvöl. Áríðandi sé að rúmur tími sé til samveru í kringum slíkar ferðir, enda mikilvægt að kærandi og börnin geti átt innihaldsrík samskipti fyrir og eftir slíkar gæðastundir, þ.e. leikrit og kvikmyndasýningar hafa eðlilega ekki í för með sér mikil samskipti aðila á meðan á sýningu stendur. 

Þá byggi kæranda á því að ekkert tilefni sé til þess að úrskurða um að ömmur barnanna geti átt umgengni við þau samtímis því sem kærandi eigi við þau umgengni. Umgengnisréttur kæranda sé sjálfstæður réttur hennar, rétt eins og umgengnisréttur ættingja er sjálfstæður réttur þeirra og engin lagaskilyrði fyrir því að úrskurða um að ömmur geti gengið inn í umgengnisrétt kæranda í tiltekin skipti.

Að endingu sé jafnframt vísað til þeirra sjónarmiða sem fram komu í fyrri kæru vegna málsmeðferðar Barnaverndarnefndar B á máli hennar og barnanna.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að dómur í máli kæranda hafi fallið X 2019. Í dóminum hafi komið ýmislegt í ljós varðandi athugaverð vinnubrögð af hálfu barnaverndar í málinu. Þannig hafi það meðal annars komið fram á bls. X að vanlíðan drengsins megi ef til vill rekja til þess að vilji hans standi til þess að hitta móður sína meira, en að frá uppkvaðningu fyrri dóms í málinu hafi umgengni hans við kæranda verið skert umtalsvert í trássi við leiðbeiningar sérfróðra meðdómsmanna sem fjölluðu um mikilvægi þess að reyna fremur að efla og styrkja tengsl þeirra til framtíðar. Enn frekari athugasemdir við vinnubrögð barnaverndar í málinu hafi komið fram á bls. X þar sem vísað sé til þess að vankantar hafi verið á könnun málsins og gerð áætlana og að börnin hafi verið vistuð [...]. Sérstaklega átelji dómurinn einnig ófaglega nálgun starfsmanna sem fólst í því að fjalla ítrekað um [...]. Það hafi einnig verið mat dómsins að kærandi hafi ekki notið sannmælis hjá starfsmönnum barnaverndar og að allt of lítið hafi verið aðhafst af hálfu barnaverndar til að reyna að styrkja tengsl hennar við börn sín fyrr í ferlinu, eða til að auka traust hennar í garð barnaverndar. Þá hafi engin meðferðaráætlun verið í gildi frá X. Ekki hafi verið höfð samvinna við kæranda varðandi [...], um viðtöl í G eða um viðtöl hjá listmeðferðarfræðingi svo að dæmi séu nefnd. Þá sé það mat dómsins að það hefði mátt láta reyna á frekari og opnari umgengni drengsins við móður svo sem hann virðist sjálfur kalla eftir, en að án gildra skýringa hafi hins vegar verið reynt að skerða þau tengsl enn frekar og verði að telja vandséð að það geti talist barninu fyrir bestu til lengri tíma litið. Með þessum hætti hafi dómurinn gert mjög alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins, þó svo að það hafi ekki verið talið nægjanlegt til að breyta efnislegri niðurstöðu málsins.

Í tilefni af ummælum um að eftirlit með umgengni hafi meðal annars verið haldið áfram vegna eindregins vilja barnanna, þá leggi kærandi áherslu á að ekki hafi verið brugðist með réttum hætti við meintum ótta barnanna sem samkvæmt Barnaverndarnefnd B hafi leitt  til þess að börnin vilji alls ekki vera ein með móður sinni. Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að sá ótti sé annað en fullkomlega tilhæfulaus, ef hann sé þá til staðar. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar af hálfu kæranda hafi þó ekki verið unnið með vanda fjölskyldunnar í heild, svo sem í fjölskyldumeðferð, þar sem unnt hefði verið að vinna bug á þessum meinta ótta barnanna frekar en að festa hann í sessi með því að samþykkja ástæðulaust eftirlit með umgengni barnanna við kæranda.

Kærandi áréttar að hún hafi ávallt verið skýr með það að hún og faðir barnanna [...]. Það hafi enga þýðingu varðandi umgengni barnanna við kæranda [...]. Í skýrslutökum af báðum aðilum fyrir dómi í X 2019 hafi komið skýrlega fram að þau hefðu bæði fullan skilning á því að það væri ekki börnunum fyrir bestu að þau [...]. Jafnframt hafi kærandi fullan skilning á því að það sé skilyrði fyrir umgengni barnanna við hana að [...]. Kærandi hafi alla tíð farið ákaflega vel eftir öllum skýrum fyrirmælum sem hún hefur fengið varðandi umgengnina og ekkert í málinu bendir á nokkurn hátt til þess að hún sé líkleg til að haga umgengni á þann veg að börnin [...] í umgengni við hana.

Aukin tengslamyndun barna og móður verði ekki framkvæmd með samskiptum á milli starfsmanna barnaverndar og móður beint, heldur aðeins með aðkomu móður, barna og eftir atvikum sérfræðings. Slík þjónusta hafi aldrei verið boðin fram af hálfu barnaverndar, þó svo að eftir því hafi verið kallað, og skiptir það því engu máli í því sambandi að kærandi kjósi að hafa lögmann sinn í samskiptum við starfsmenn Barnaverndar B.

Hvað varði meinta vanlíðan barnanna í kringum umgengni sé áréttað að Barnaverndarnefnd B hafi undir rekstri málsins alls látið hjá líða að vinna með vanda fjölskyldunnar, þ.e. barnanna og kæranda. Unnt hefði verið að taka á þeim vanda frekar en að líta svo á að ástæða væri til að takmarka umgengnina. Það sama eigi við um þau sjónarmið sem barnavernd rekur sem rökstuðning fyrir því að ömmur barnanna njóti ekki sjálfstæðrar umgengni, heldur umgengni á sama tíma og kærandi. Þannig ber barnavernd því við að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að auka við umgengni, meðal annars með vísan til meintrar vanlíðanar barnanna vegna umgengni við þær. Eins og áður hefur verið rakið virðast börnin hafa órökstuddan og óútskýrðan ótta gagnvart upprunafjölskyldu sinni og vinna þarf bug á þeim ótta og þeirri vanlíðan, en ekki mæta honum með frekari skerðingu á umgengni, meðal annars við ömmur þeirra, sem aðeins festir í sessi ótta barnanna og gefur þeim frekar þá mynd af aðstæðum að ótti þeirra eigi við einhver rök að styðjast.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 30. júlí 2019 er vísað til þess að mál systkinanna hafi verið til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd B frá X. Börnin hafi verið tekin af heimili sínu fljótlega eftir að málið kom til kasta nefndarinnar og hafa verið á fósturheimili lengst af síðan.

Héraðsdómur F hafi kveðið upp dóm þann X um að foreldrar skyldu sviptir forsjá barnanna, dóminum hafi verið áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti hann og vísaði heim í hérað og nú hafi Héraðsdómur F kveðið upp dóm á ný, dags. X 2019,  og sé niðurstaðan sú sama og í fyrra sinnið, þ.e. foreldrar séu sviptir forsjá barnanna. 

[...]

Kærandi dragi úr vægi framburðar barnanna og ber brigður á að framburður þeirra hafi verið eins stöðugur frá upphafi málsins eins og barnaverndarnefnd hafi haldið fram. Fram hafi komið hjá sérfræðingum G að langan tíma hafi tekið að mynda traust hjá stúlkunni og að hún hafi verið lokuð og feimin í upphafi og átt erfitt með að ræða [...] og frásögnin hafi komið á löngum tíma. Að mati sérfræðinga G hafi stúlkan verið mjög samkvæm sjálfri sér í frásögnum sínum og framburður drengsins hafi einnig verið trúverðugur. Bæði börnin hafi þó átt erfitt með að tjá sig og þurft til þess langan tíma.

Kærandi haldi því réttilega fram að eftirliti með umgengni hafi fyrst verið komið á þar sem áhyggjur hafi verið af því að kærandi kynni að reyna að hafa áhrif á framburð barnanna. Eftirlit hafi þó áfram verið með umgengni eftir að rannsókn málsins lauk og sé það ekki síst vegna eindregins vilja barnanna beggja sem hafa lýst því yfir að þau vilji alls ekki vera ein með móður sinni.

Af hálfu kæranda sé því haldið fram að hún hafi ávallt forgangsraðað hagsmunum barnanna fyrst og [...]. Bent skal á að frá því að málið kom til kasta Barnaverndarnefndar B hafa foreldrar verið mjög margsaga um [...]. Í álitsgerð sem M sálfræðingur vann fyrir Héraðsdóm F og dagsett er X, segir faðir varðandi framtíðaráform sín að hann ætli sér að sinna fjölskyldunni betur eftir að börnin hafi flutt aftur heim [...].

Kærandi kvartar yfir því að barnaverndarnefnd hafi ekkert aðhafst til að styrkja tengslamyndun móður við börn sín og auka traust hennar í garð barnaverndar, en það hafi verið nokkrum vandkvæðum bundið þar sem kærandi hafi lýst því yfir í upphafi að hún vildi engin samskipti við starfsmenn nefndarinnar. Hún hafi ekki komið í boðuð viðtöl og ekki svarað tölvupóstum og gerði kröfu um að öll samskipti færu í gegnum lögfræðing sinn. Bent sé hins vegar á að allan tímann, sem málið hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd, hefur verið regluleg umgengni við móður og raunar örari umgengni heldur en venja sé í málum af þessu tagi.

Kærandi tiltaki að ekkert liggi fyrir hjá hlutlausum aðila um að umgengni barnanna við móður sína sé þeim skaðleg. Eftir standi þó að vilji þeirra sé skýr, þau hafi bæði sagt að þau séu ekki örugg í umgengni við hana nema eftirlitsaðili sé viðstaddur og af umsögnum kennara þeirra megi ráða að líðan þeirra og hegðun sé markvert verri í kringum umgengnisdaga. Í álitsgerð sálfræðingsins, sem áður sé vitnað til, sé haft eftir kennurum barnanna að bæði börnin verði óörugg í kringum umgengni og hangi þá meira í kennurum sínum en aðra daga, D [...] en E verði [...]. Kennarar hafi tekið eftir sterku munstri í kringum umgengni, en þá verði tilfinningaleg líðan D mjög slæm og hún [...] og eigi einnig erfiðara með einbeitingu í námi. E verði órólegri, eigi erfitt með einbeitingu og [...].

Barnaverndarnefnd hafi unnið að því í þessu máli að foreldrar verði sviptir forsjá barnanna og hafi nú gengið dómur í annað sinn í héraði þar sem niðurstaðan sé sú sama og áður. Verði niðurstaðan staðfest í Landsrétti blasi við að umgengni barnanna við kynforeldra sína verði ekki aukin. Við þessar aðstæður telji nefndin það ekki þjóna hagsmunum barnanna að auka nú umgengni enn frekar í þann stutta tíma sem eftir er þar til Landsréttur kveður upp dóm sinn. Bent skal á að í hinum kærða úrskurði sé umgengni aukin frá því sem áður var að því leyti að auka má tímann í hvert sinn úr tveimur klukkustundum í fjórar, kjósi móðir að bjóða börnunum í leikhús eða á aðra viðburði.

Ákvörðun um að gefa ömmum barnanna kost á að taka þátt í umgengni móður fjórum sinnum á ári hafi verið tekin með það í huga að það þjónaði ekki hagsmunum barnanna að auka enn við umgengni, auk þess sem upplýsingar hafi legið fyrir um að samskipti við upprunafjölskyldu barnanna, sem hafa verið utan reglulegrar umgengni, hafi komið þeim, og þá einkum stúlkunni, í uppnám. 

Úrskurður Barnaverndarnefndar B um umgengni barnanna við kæranda hafi verið kveðinn upp með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu barnaverndar sem fram kemur í 2. mgr. 4. gr. bvl. að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til.

Í ljósi alls framanritaðs og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar og dóms Héraðsdóms F frá X sl., sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV.  Sjónarmið fósturforeldra barnanna

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni og barst hún með tölvupósti 19. september 2019. Fram kemur í bréfi fósturforeldra að börnin vilji takmarkaða umgengni við kæranda. Börnin vilji ekki hitta kæranda nema starfsmaður barnaverndar sé á staðnum. Fósturforeldrar telja umgengni við kæranda alltof mikla. Umgengni við kæranda minni börnin á erfitt líf sem þau séu laus við núna. Þá biðji þau aldrei um að fara til kæranda og verði mjög óróleg þegar kemur að umgengni. Sá óróleiki komi svo fram í skóla daginn eftir og þau fari í uppnám í tengslum við umgengnina.

 

V. Sjónarmið drengsins

Við meðferð málsins hjá Barnavernd B var þess óskað að talsmaður E myndi ræða við hann. Í skýrslu talsmanns frá X 2019 kemur fram að aðspurður sagðist drengurinn hitta móður sína einu sinni í mánuði með D og að það væri gaman. Hann sagðist vilja hitta kæranda alla fimmtudaga og þá með D. Aðspurður um hvar hann vildi búa hafi hann sagt „ég veit ekki“. Aðspurður um hvort hann vildi hitta föður sinn hafi hann sagt „ég veit ekki“. Aðspurður um ömmur sínar sagði drengurinn að hann vildi að þær kæmu líka alltaf með í umgengni alla fimmtudaga með móður. Aðspurður um eftirlitsaðila, sem væri í umgengni, hafi drengurinn sagt að það væri gott að hafa hana með.

VI. Sjónarmið stúlkunnar

Við meðferð málsins hjá Barnavernd B var þess einnig óskað að talsmaður D myndi ræða við hana, meðal annars um umgengni. Í skýrslu talsmanns frá X 2019 kemur fram að aðspurð sagðist stúlkan hitta móður sína einn fimmtudag í mánuði í tvær klukkustundir í senn á heimili móður. Hún færi þá í umgengni með E bróður sínum. Stúlkan sagðist vilja halda umgengninni eins og hún væri. Kvað hún að eftirlitsaðili sem væri með þeim í umgengni væri góð. Aðspurð um umgengni við ömmur sagðist stúlkan hafa hitt þær um jólin í umgengni með móður og að það hefði verið gaman. Hún sagðist vilja hitta þær báðar um hátíðar og þá í umgengni sem væri þegar skipulögð með móður. Hún vildi ekki aukna umgengni vegna þessa. Hvað varði umgengni föður sagðist stúlkan ekki vilja hitta hann. 

 

VII.  Niðurstaða

Drengurinn E er fæddur X og stúlkan D er fædd X. Þau búa hjá sömu fósturforeldrunum, N og O.

Foreldrar voru sviptir forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms F X 2019 en dóminum hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Með hinum kærða úrskurði frá 10. maí 2019 var ákveðið að umgengni barnanna við móður þeirra yrði einu sinni í mánuði, í tvo tíma í senn undir eftirliti. Auka mætti umgengni í fjóra tíma í senn ef móðir óskaði eftir að bjóða börnunum í leikhús, bíó eða á aðra viðburði. Ömmur barnanna ættu kost á að taka þátt í umgengni móður fjórum sinnum á ári, á hátíðum/afmælum. Engin umgengni yrði við föður.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að börnin hafi verið á fósturheimili lengst af frá árinu X, eða frá þeim tíma er [...] og gerði barnaverndarnefnd kröfu um að foreldrar skyldu sviptir forsjá þeirra með dómi. Mikill dráttur hafi orðið á því að endanleg niðurstaðu hafi fengist í forsjársviptingarmáli gegn foreldrum systkinanna og hafi það eðlilega haft gríðarleg áhrif á líðan barnanna og ljóst að rekstur málsins alls hafi fengið mikið á þau. Börnin hafi sýnt meiri vanlíðan og óöryggi eftir dóm Landsréttar, einkum hafi stúlkan haft áhyggjur af framvindu mála. Það sé álit Barnaverndarnefndar B að afar brýnt sé að úr þeirri vanlíðan og því óöryggi verði dregið svo sem unnt sé á meðan beðið sé endanlegrar niðurstöðu dómstóla svo að börnin eigi sem mesta möguleika á því að sleppa við varanlegar afleiðingar af þeirri töf sem orðið hefur í málinu. Upplýsingar liggi fyrir um vanlíðan þeirra  og hugarangur, þörf fyrir aukinn stuðning í kringum umgengni og um eindreginn vilja stúlkunnar til að hafa umgengni með sama hætti og verið hefur. Barnaverndarnefndin telur eðlilegt að ömmur barnanna eigi umgengni við börnin fjórum sinnum á ári, á hátíðum eða afmælum, á sama tíma og umgengni móður fer fram. Vegna afstöðu barnanna til föður álítur nefndin að það samræmist ekki hagsmunum þeirra að hafa umgengni við hann.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að umgengni hennar við börnin verði aukin í tvisvar sinnum í mánuði, í þrjár til fjórar klukkustundir í senn, þar sem bæði börnin koma í umgengni á sama tíma og að því til viðbótar fari fram mánaðarleg umgengni við stúlkuna með kæranda í þrjá tíma í senn, og sambærileg umgengni kæranda við drenginn tvisvar í mánuði. Þá sé jafnframt farið fram á að lagt verði fyrir Barnavernd B að bætt verði upp sú umgengni sem fallið hafi niður og að ákveðið verði með tilgreindu skipulagi fram í tímann hvernig umgengni verði háttað og með hvaða hætti umgengni verði bætt upp og hvenær það verði gert ef hún raskast af óviðráðanlegum aðstæðum.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kærendur á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kærenda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til stöðu þeirra, en samkvæmt dómi Héraðsdóms F frá X 2019 hafa foreldrar verið sviptir forsjá þeirra. Í máli barnanna er því ljóst að ekki er stefnt að því að þau fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þess, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur umgengni barnanna við kæranda verið hagað með þeim hætti að þau fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda er fallin til að valda þeim. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Einnig ber að líta til þess að með umgengni kæranda við börnin er ekki verið að reyna að styrkja tengsl þeirra við hana frekar, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn. Ber að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Það eru lögvarðir hagsmunir barnanna að þau búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Börnunum líður vel hjá fósturfjölskyldunni og ekkert bendir til að þau hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir þeirra að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. maí 2019 varðandi umgengni D og E, við A, er staðfestur.

 

 

Kári Gunndórsson

Hrafndís Tekla Pétursdóttir                                      Björn Jóhannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum