Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 177/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 177/2020

Mánudaginn 8. júní 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 8. apríl 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 7. apríl 2020 vegna umgengni kæranda við son sinn, C, og að takmarka aðgang kæranda að gögnum varðandi son sinn, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.)

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er á X aldursári en hann er sonur kæranda og D. Kærandi fer ein með forsjá drengsins. Drengurinn á X systkini sammæðra, X eldri og X yngra. 

Mál drengsins hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá árinu 2006, en á árunum 2014-2018 var mál drengsins til meðferðar hjá Barnavernd Kópavogs vegna áreitis og hótana kæranda í garð […]. Kærandi hlaut þriggja ára skilorðsbundinn dóm vegna þessa. Máli drengsins var lokað sumarið 2018 þar sem hann dvaldi erlendis með kæranda og aðstæður hans óþekktar. Alls hafa borist 42 tilkynningar og þrjár bakvaktarskýrslur vegna drengsins til Barnaverndar B og hefur hann verið vistaður X sinnum utan heimilis, X sinni á vegum Barnaverndar B þegar hann var nýfæddur og í X skipti á vegum Barnaverndar Kópavogs á árunum 2014-2016. Ítrekaðar tilkynningar hafa borist frá skóla drengsins á árunum 2018 til 2020 þar sem miklar áhyggjur hafa verið af námi hans, hegðun og líðan. Tilkynningarefni frá skóla séu langar, óútskýrðar fjarverur drengsins frá skóla, jafnvel mánuðum saman, og erfið hegðun hans þegar hann var í skólanum. Hegðun drengsins hafi farið versnandi í skóla og fari ekkert nám fram sökum hegðunar hans, auk þess sem hún hafi mikil áhrif á skólastarf og kennslu samnemenda hans. Ítrekað hafi verið óskað eftir því að kærandi samþykki stuðning í skóla en það hafi ekki gengið eftir. Kærandi hafi einnig hafnað stuðningi og samvinnu við Barnavernd B.

Mál drengsins vegna umgengni og aðgengi kæranda að gögnum vegna drengsins var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 31. mars 2020. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni og aðgengi að gögnum var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að C, hafi umgengni við móður sína, A, í tvær klst. í senn á tveggja vikna fresti. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B og undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar B. Símtöl verði tvisvar í viku óski drengurinn eftir því á fyrirfram ákveðnum tímum. Símtöl verði undir eftirliti vistunaraðila.

A, sem fer með forsjá C, og lögmönnum hennar, er aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða C, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent eða teknar af þeim myndir, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Skal þeim gert kleift að kynna sér gögnin í húsnæði Barnaverndar B og undir eftirliti starfsmanns nefndarinnar.

Gildir takmörkun þessi á afhendingu gagna um þau skjöl og önnur gögn sem eru til vörslu hjá Barnaverndarnefnd B og þau gögn sem til verða og varðveitt verða hjá Barnaverndarnefnd B.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. apríl 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 7. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Með tölvupósti, dags. 20. maí 2020, tilkynnti lögmaður kæranda að hún gætti ekki lengur hagsmuna kæranda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 7. apríl 2020 verði felldur úr gildi.

Hinn 11. febrúar síðastliðinn hafi Barnaverndarnefnd B kveðið upp úrskurð um að C skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði, auk þess sem borgarlögmanni hafi verið falið að gera kröfu fyrir dómi um vistun barnsins í allt að sex mánuði, eða til 11. ágúst 2020. Með úrskurði Héraðsdóms B frá 6. apríl 2020 í máli nr. U-1664/2020 hafi úrskurður barnaverndarnefndar um vistun í tvo mánuði verið staðfestur, auk þess sem dómurinn hafi fallist á viðbótarkröfu barnaverndarnefndar um vistun til 11. ágúst 2020.

Drengurinn, sem mál þetta lúti að, hafi verið tekinn af heimili kæranda 18. febrúar 2020. Eftir það hafi engin umgengni farið fram. Kærandi hafi óskað eftir umgengni án eftirlits en barnavernd hafi ekki fallist á það. Þá hafi kærandi óskað eftir því að drengurinn fengi að heyra í henni í síma á hverjum degi en barnavernd hafi ekki fallist á það. Með hinum kærða úrskurði hafi verið ákveðið að drengurinn skyldi hafa umgengni við kæranda í tvær klukkustundir á tveggja vikna fresti og að umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B undir eftirliti starfsmanna. Þá hafi verið ákveðið að símtöl yrðu tvisvar í viku, óski drengurinn eftir því, á fyrir fram ákveðnum tímum. Einnig hafi verið ákveðið að símtöl skyldu vera undir eftirliti vistunaraðila.

Kærandi sé afar ósátt við úrskurð nefndarinnar hvað þetta varði. Kærandi vilji fá að hitta son sinn án eftirlits starfsmanna barnaverndar, enda telji hún umgengni undir eftirliti þvingaða og að hún nái ekki að eiga gæðastundir með syni sínum við slíkar aðstæður. Þá telji hún að símtöl tvisvar í viku séu ekki nóg og að hún vilji tala við son sinn á hverjum degi.

Talsmaður drengsins hafi skilað tveimur skýrslum til barnaverndar þar sem hann ræði umgengni drengsins við kæranda. Í báðum skýrslunum komi fram skýr vilji barnsins til þess að vera hjá kæranda. Þá komi einnig fram skýr vilji hans til mikillar umgengni við kæranda á meðan vistun standi og að sú umgengni fari fram án eftirlits barnaverndar. Barnið sé því sama sinnis og kærandi hvað þetta varði. Í 2. mgr. 46. gr. bvl. komi fram að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varði í samræmi við aldur þess og þroska og taka skuli réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls. Í máli þessu sé um að ræða dreng á X aldursári sem hafi í tvígang lýst með afar skýrum og afdráttarlausum hætti vilja sínum til mikillar og rúmrar umgengni við kæranda á meðan vistun hans standi. Þá hafi hann lýst yfir vilja til að fá að hringja í kæranda þegar honum henti, helst á hverjum degi.

Ekkert tillit sé tekið til vilja barnsins í hinum kærða úrskurði heldur sé þvert á móti úrskurðað eftir óbreyttum tillögum barnaverndar, algerlega óháð því sem fram komi í skýrslu talsmanns um skýran vilja barnsins til rúmrar umgengni án eftirlits. Slíkt verði að teljast afar sérstakt, einkum með tilliti til aldurs drengsins og þess hve afdráttarlaus hann sé í svörum sínum til talsmanns.

Þegar stjórnvöld taki ákvörðun í málum skuli gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7. mgr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefnd hafi úrskurðað eftir tillögum barnaverndar í máli þessu án þess að taka mið af öðrum sjónarmiðum, svo sem vilja barnsins og aðstæðum kæranda. Það liggi fyrir að kærandi hafi aldrei orðið uppvís að því að vera í neyslu eða neins konar óreglu. Því sé ljóst að barnið sé ekki í neins konar hættu í umgengni við hana og því ekki séð hvers vegna nefndinni hafi þótt nauðsynlegt að úrskurða um umgengni undir eftirliti. Þá verði ekki séð að nauðsynlegt sé að takmarka símaumgengni eins og raun beri vitni.

Með tilliti til alls framangreinds geti kærandi ekki fallist á að nauðsynlegt sé með tilliti til hagsmuna barnsins að umgengni sé takmörkuð með þeim hætti sem greini í hinum kærða úrskurði og að hún óski eftir rýmri umgengni sem fari fram án eftirlits.

Þá hafi verið ákveðið í hinum kærða úrskurði að kæranda og lögmönnum hennar væri aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varði drenginn, án þess að þau eða ljósrit af þeim væru afhent eða teknar af þeim myndir, sbr. 2. mgr. 45. gr. bvl. Þá hafi jafnframt verið ákveðið að framangreindum aðilum yrði gert kleift að kynna sér gögnin í húsnæði Barnaverndar B og undir eftirliti starfsmanna nefndarinnar.

Kæranda þyki að með þessum úrskurði nefndarinnar sé alvarlega brotið á rétti hennar til aðgangs að gögnum, sbr. 1. mgr. 45. gr. bvl., andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og rétti til réttlátrar málsmeðferðar sem sé tryggður í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telji kærandi að gengið sé allt of langt í þessum efnum og langt umfram það sem nauðsynlegt sé með tilliti til hagsmuna barnsins. Þar af leiðandi sé um að ræða tillögu sem gangi gegn almennum sjónarmiðum um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. bvl.

Kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnum sem aðili málsins, sbr. 1. mgr. 45. gr. bvl. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Þennan rétt megi takmarka með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga. Slíka takmörkun sé að finna í 2. mgr. 45. gr. bvl. Þar sé heimilað að synja um aðgang að gögnum sé það talið skaða hagsmuni barnsins. Um sé að ræða undantekningu á meginreglu stjórnsýslulaga og veigamikla takmörkun á rétti til aðgangs að gögnum. Þessa undantekningu beri að skýra þröngt þar sem hún feli í sér takmörkun á rétti kæranda gagnvart stjórnvöldum. Reglan um aðgang að gögnum byggi meðal annars á því að almennur aðgangur að upplýsingum og umráði skjala málsins sé nauðsynlegur liður í því að gæta andmælaréttar. Með því að takmarka aðgang að gögnum sé verið að gera kæranda erfitt um vik við að gæta andmælaréttar síns með fullnægjandi hætti.

Hinn kærði úrskurður byggi á því að kærandi hafi birt skýrslu talsmanns barnsins á opinni fésbókarsíðu sinni og þannig brotið gegn friðhelgi einkalífs barnsins og farið gegn persónuverndarsjónarmiðum. Skýrsluna hafi kærandi fjarlægt eftir að lögmaður hennar hafi rætt við hana og útskýrt fyrir henni að slík birting bryti í bága við friðhelgi einkalífs barnsins. Kærandi hafi ekki birt önnur gögn er varði börnin frá því í lok febrúar síðastliðnum. Í greinargerð barnaverndar sé talað um að kærandi hafi áður birt trúnaðargögn á netinu er varði börnin en slíkt sé ekki rökstutt og ekki lögð fram nein gögn sem sýni fram á slíkt.

Þar sem kærandi hafi tekið niður umrædda skýrslu og ætli sér ekki að birta frekari gögn sé í raun ekki þörf að beita úrræði 2. mgr. 45. gr. bvl. Þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hyggist birta frekari gögn sé ekki hægt að segja án vafa að aðgangur hennar að gögnum málsins muni skaða hagsmuni barnanna. Enn sé ítrekað undantekning á afhendingu gagna beri að skýra þröngt. Birting á einni skýrslu, sem hafi svo verið tekin út, geti tæpast fullnægt skilyrðum 2. mgr. 45. gr. bvl.

Hinn kærði úrskurður feli í sér gróft brot á meðalhófsreglu. Ekki hafi verið reynt á að semja við kæranda að birta ekki frekari gögn á netinu. Þá hafi ekki verið reynt að semja við kæranda að birta ekki frekari gögn á netinu. Né hafi verið boðið upp á vægara úrræði, svo sem að kærandi myndi gera skriflegan samning við lögmann að hún fengi eingöngu að kynna sér gögn á skrifstofu lögmanns en lögmaðurinn fengi afhent afrit þeirra. Eða þá að takmarka aðgang að tilteknum gögnum en ekki öðrum. Ekki verði séð að ástæða né skilyrði séu til þess að takmarka svo freklega aðgang kæranda að gögnum málsins þegar ekki hafi verið reynt að fara vægar í sakirnar eða semja við kæranda í þessum efnum. Farið hafi verið beint í þessar aðgerðir að takmarka aðgang að öllum gögnum án þess einu sinni að hugleiða að beita vægari úrræðum. Þar af leiðandi gangi hinn kærði úrskurður gegn sjónarmiðum um meðalhóf.

Með tilliti til alls þess sem fram hafi komið telji kærandi að ekki séu skilyrði fyrir beitingu úrræðis 2. mgr. 45. gr. bvl. Þá telji kærandi að farið hafi verið mun strangar í sakirnar en tilefni sé til. Af þeim sökum beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að ekki hafi náðst samkomulag um umgengni við kæranda og málið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B þann 31. mars 2020. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna baranverndar, dags. 25. mars 2020, ásamt fylgiskjölum. Í greinargerð komi fram að í ljósi þess að kærandi hafi virst í ójafnvægi og sýnt markalausa hegðun í símtölum við drenginn og jafnframt verið með ógnandi tilburði í garð starfsmanna Barnaverndar B sé lagt til að umgengni drengsins við móður verði aðra hverja viku í tvær klukkustundir í senn í húsnæði á vegum barnaverndar. Þá sé lagt til að drengurinn hafi símatíma við móður tvisvar sinnum í viku þar sem hann geti fengið að hringja í kæranda óski hann eftir því. Það sé mat starfsmanna að nauðsynlegt sé að meta líðan drengsins og stöðugleika í kjölfar umgengni við móður þar sem drengurinn hafi sýnt merki um vanlíðan í kjölfar símtala við kæranda. Fram komi það mat starfsmanna að nauðsynlegt sé að umgengni fari fram undir eftirliti þar sem áhyggjur hafi verið af andlegri stöðu kæranda. Einnig bendi starfsmenn á ósamræmi í hegðun drengsins. Hann hafi ítrekað ekki viljað svara símtölum kæranda eða hringja í hana en á sama tíma taki fram við talsmann að hann vilji dvelja hjá kæranda og fara aftur í hennar umsjá. Fyrir fundinn hafi legið fyrir ný skýrsla talsmanns þar sem fram komi að talsmaður hafi hitt drenginn að nýju 18. mars 2020 og aflað afstöðu hans til tillagna starfsmanna um umgengni. Þar hafi komið fram að drengurinn teldi umgengni vera of litla og hafi óskað eftir því að umgengni yrði vikulega en hafi sagt það vera í lagi ef umgengni yrði aðra hvora viku. Þá hafi drengurinn einnig óskað eftir rýmri símaumgengni við móður. Hann vilji ráða þeirri umgengni sjálfur og fá tækifæri til þess að hringja á hverjum degi í kæranda ef hann vilji og þegar honum henti. Þá hafi hann sérstaklega tekið fram að hann vilji ekki eiga símtöl við kæranda í einrúmi.

Í bókun Barnaverndarnefndar B þann 31. mars 2020 sé tekið undir mat starfsmanna að öllu leyti. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að ljóst sé að tryggja þyrfti aðstæður drengsins á meðan umgengni fari fram og algert skilyrði sé að hún fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum nefndarinnar. Þegar tekið sé tillit til þess sem fram hafi komið á fundinum, fyrirliggjandi gagna, þörf fyrir ró og stöðugleika á vistunarstað og að teknu tilliti til þess að um tímabundna vistun sé að ræða hafi nefndin talið hæfilegt að umgengni verði á tveggja vikna fresti tvær klukkustundir í senn. Umgengni með þessum hætti þjóni best hagsmunum drengsins. Það þjóni ekki hagsmunum drengsins að kærandi hafi möguleika á því að komast í samband við hann í gegnum netið eða í síma nema hann óski þess og geti hann hringt í kæranda tvisvar í viku á fyrir fram ákveðnum tímum undir eftirliti vistunaraðila.

Á fundi nefndarinnar þann 31. mars 2020 hafi jafnframt verið fjallað um tillögu starfsmanna barnaverndar að kærandi og lögmaður hennar geti kynnt sér skjöl og önnur gögn á skrifstofu Barnaverndar B, að viðstöddum starfsmanni barnaverndar, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Fyrrgreind tillaga hafi verið sett fram í ljósi þess að kærandi hafi verið að birta viðkvæmar persónuupplýsingar og trúnaðargögn varðandi drenginn á samfélagsmiðlum. Kærandi hafi birt skýrslu löglærðs talsmanns á fésbókarsíðu sinni og hafi löglærður talsmaður drengsins gert alvarlegar athugasemdir við birtingu skýrslunnar og krafist þess að slíkar birtingar eigi sér ekki stað í framtíðinni með hagsmuni drengsins að leiðarljósi. Í greinargerð starfsmanna komi fram það mat að hefta skuli aðgang kæranda að gögnum máls. Með birtingu viðkvæmra upplýsinga um drenginn á alnetinu hafi kærandi brotið gróflega á rétti drengsins til friðhelgi einkalífs sem og persónuverndarlaga. Tryggja þurfi hagsmuni drengsins og kærandi hafi sýnt dómgreindarbrest með birtingu trúnaðargagna sem skaði hagsmuni drengsins. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi verið tekið undir mat starfsmanna og talsmanns drengsins um að með birtingu viðkvæmra upplýsinga um drenginn á alnetinu hafi kærandi brotið gróflega á rétti drengsins til friðhelgi einkalífs. Drengurinn hafi engan þroska til að bera hönd fyrir höfuð sér er varði birtingu upplýsinganna. Verði því að telja að um trúnaðarbrest kæranda gagnvart drengnum sé að ræða og dómgreindarbrest sem skaði hagsmuni drengsins. Vegna þeirra sjónarmiða hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að þeim sé ekki unnt að veita kæranda og lögmanni hennar óheftan aðgang að gögnum í máli kæranda frá þeim tíma.

Í yfirliti L, dags. 16. mars 2020, komi meðal annars fram að þegar drengurinn hækki í spennu þá sé það í flestum tilfellum vegna samskipta hans við vini þegar hann spili tölvuleiki eða þegar hann tali við kæranda í síma. Drengurinn hafi í nokkur skipti ekki viljað ræða við kæranda í síma þegar hún hafi hringt og í þau skipti sem hann hafi rætt við hana hafi hann hækkað töluvert í spennu þar sem hann sé ósáttur við spurningu hennar. Hún hafi meðal annars verið að spurja hann hvar hann sé staðsettur í V og hvort hann þekki einhver hús í kringum sig. Drengurinn sé ósáttur við kæranda og meðal annars sagt við hana „þú kemur ekki að skemma fyrir mér“ og beðið hana að hætta að spyrja sig spurninga. Þá hafi drengurinn verið að spyrja kæranda með hverjum hún sé hverju sinni en hún hafi neitað að svara honum. Þegar kærandi hafi spurt hann hvernig honum líði og hvort hann fái að borða hafi drengurinn svarað að honum líði vel og að hann fái nóg að borða.

Það sé meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem séu barninu fyrir bestu. Við úrlausn máls þessa verði því að horfa til þeirrar stöðu sem drengurinn sé í og taka ákvörðun sem þjóni hagsmunum hans best. Drengurinn þurfi að upplifa öryggi og ró í sínu lífi og sé mikilvægt að stuðlað sé að því með öllum tiltækum leiðum. Barnaverndarnefndar B telji að hagsmunum drengsins sé best borgið með þeirri umgengni sem ákvörðuð hafi verið og mikilvægt sé að hún sé undir eftilriti enda beri gögn máls með sér að kærandi sé óútreiknanleg og hafi ekki hag drengsins ætíð að leiðarljósi. Að auki verði að horfa til ósamræmis í hegðun og svörum drengsins sem bendi til ákveðinnar hollustuklemmu og því mikilvægt að allar aðstæður í umgengni verði tryggðar til hins ítrasta svo hægt sé að meta líðan hans um leið og öryggi hans sé tryggt. Þá sé það mat nefndarinnar að hefta verði aðgang kæranda að gögnum málsins enda hafi kærandi með birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga um drenginn á alnetinu brotið gróflega á rétti drengsins til friðhelgi einkalífs og tryggja þurfi að ekki verði framhald á því.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með vísan til forsendna niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar frá 7. apríl 2020 krefjist Barnaverndarnefnd B að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV.  Sjónarmið C

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns þar sem aflað var upplýsinga um afstöðu drengsins til umgengni við kæranda. Drengurinn sagðist helst vilja hitta kæranda í hverri viku en önnur hver vika væri í lagi ef það ætti að vera á þann veg. Aðspurður um hvernig hann vilji hafa símaumgengni þá segist hann vilja ráða slíkri umgengni sjálfur og fá tækifæri til þess að hringja á hverjum degi í kæranda ef hann vilji og þegar honum henti. Honum hafi fundist X í viku vera of lítil umgengni. Þá hafi hann tekið sérstaklega fram að hann vilji ekki eiga símtöl við kæranda í einrúmi.

V.  Niðurstaða

Drengurinn C. Kærandi er móðir drengsins og fer hún ein með forsjá hans. Mál drengsins vegna umgengni og aðgangs kæranda að gögnum var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 31. mars 2020. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda var málið tekið til úrskurðar þann 7. apríl 2020.

Umgengni

Með hinum kærða úrskurði frá 7. apríl 2020 var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda yrði í X klukkustundir í senn á X vikna fresti. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B og undir eftirliti starfsmanna barnaverndar. Símtöl verði X í viku óski drengurinn eftir því á fyrirfram ákveðnum tímum. Símtöl verði undir eftirliti vistunaraðila.

Kærandi telur að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi. Kærandi óski eftir rýmri umgengni og án eftirlits. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. bvl. á barn sem vistað er á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd leitast við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda á viðkomandi heimili eða stofnun. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni drengsins við kæranda takmörkuð verulega. Sjónarmið barnaverndarnefndar við ákvörðun um umgengni kæranda var að drengurinn þurfi að fá að upplifa öryggi og ró í sínu lífi. Barnaverndarnefnd telji hagsmunum drengsins best borgið með þeirri umgengni sem ákvörðuð hefur verið og mikilvægt að hún sé undir eftirliti enda beri gögn málsins það með sér að kærandi sé óútreiknanleg og hafi ekki hag drengsins ætíð að leiðarljósi. Þá verði að horfa til ósamræmis í hegðun og svörum drengsins sem bendi til ákveðinnar hollustuklemmu og því mikilvægt að allar aðstæður í umgengni verði tryggðar til hins ítrasta.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni drengsins og öryggi hans. Af því leiðir ber að hafna því sem kærandi heldur fram að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. ssl. við ákvörðun á umgengni drengsins við kæranda.

Þá krefst kærandi þess að hún fái að njóta umgengni við drenginn án eftirlits. Hér telur úrskurðarnefndin að líta verði til forsögu málsins, meðal annars þeirra lögreglutilkynninga sem liggja fyrir í gögnum málsins og annarra tilkynninga sem hafa borist Barnavernd B. Verður öryggi drengsins og annarra að mati úrskurðarnefndarinnar best tryggt með því að umgengni fari fram í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna barnaverndar.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 81. gr. bvl. þegar umgengni barna í vistun við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B er varðar umgengni drengsins við kæranda.

Aðgangur að gögnum málsins

Með hinum kærða úrskurði frá 7. apríl 2020 takmarkaði Barnaverndarnefnd B aðgang kæranda og lögmanns hennar að gögnum er varða son hennar á grundvelli heimildar 2. mgr. 45. gr. bvl., þannig að þeim væri aðeins heimilt að kynna sér gögn málsins í húsakynnum barnaverndar, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Gildir takmörkunin á afhendingu gagna um þau skjöl og önnur gögn sem eru í vörslum Barnaverndarnefndar B og þau gögn sem til verða og varðveitt verða hjá nefndinni.

Kæranda telur sé alvarlega brotið á rétti hennar til aðgangs að gögnum. Þá telur kærandi að gengið sé allt of langt í þessum efnum og langt umfram það sem sé nauðsynlegt með tilliti til hagsmuna barnsins og fari því gegn almennum sjónarmiðum um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga.

Í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Í athugasemdum við lagagreinina segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Barnaverndarnefnd B byggir á því að birting viðkvæmra upplýsinga um drenginn á alnetinu hafi kærandi brotið gróflega á rétti drengsins til friðhelgi einkalífs hans. Í úrskurði barnaverndarnefndarinnar kemur fram að nefndin telji um trúnaðarbrest kæranda gagnvart drengnum sé að ræða og dómgreindarbrest sem að skaði hagsmuni drengsins. Vegna þeirra sjónarmiða telji nefndin ekki unnt að veita kæranda og lögmanni hennar óheftan aðgang að gögnum í máli drengsins.

Eins og að framan greinir ber að túlka þær takmarkanir sem fram koma í 2. mgr. 45. gr. bvl. í samræmi við það sem fram kemur í 17. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga er byggð á því að stjórnvald meti sérstaklega í hverju tilviki þau andstæðu sjónarmið um sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum máls á þeim grundvelli að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga eða gögn í heild sinni séu almennt til þess fallinn að valda tjóni. Sérstakt mat verður ávallt að fara fram á aðstæðum öllum í því máli sem til úrlausnar er og meta verður sérstaklega sérhvert skjal sem aðgangur aðila er takmarkaður að. Samkvæmt framansögðu verður að telja að Barnaverndarnefnd B hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt mat á það hvort þau gögn sem hér um ræðir hafi að öllu leyti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl., sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Verður því ekki fallist á að Barnaverndarnefnd B hafi verið heimilt að takmarka aðgang kæranda að öllum skjölum og öðrum gögnum sem eru í vörslu Barnaverndarnefndar B og þau gögn sem til verða og varðveitt verða hjá nefndinni, þar sem sérstakt mat þarf að fara fram um sérhvert skjal, með hliðsjón af framangreindu.

Með vísan til framangreinds er þeim hluta úrskurðar Barnaverndarnefndar B er varðar takmörkun á aðgangi kæranda að gögnum er varða son hennar felldur úr gildi. Málinu er því vísað aftur til Barnaverndarnefndar B til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 7. apríl 2020 um umgengni C við A, er staðfestur.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 7. apríl 2020 um aðgang A, að skjölum og öðrum gögnum, sem varða mál son hennar fyrir Barnaverndarnefnd B, er felldur úr gildi. Þeim hluta málsins er vísað aftur til Barnaverndarnefndar B til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum