Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Barnaverndarm%C3%A1l

Nr. 172/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

 

Mál nr. 172/2019

Fimmtudaginn 16. maí 2019

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. maí 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er sú ákvörðun sem kemur fram í lokabréfi Barnaverndar Reykjavíkur til kæranda frá 8. apríl 2019 þar sem segir að ekki þyki tilefni til afskipta barnaverndaryfirvalda af máli dóttur kæranda sem fædd er X.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins kemur fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi borist tilkynning frá heimilislækni X 2019 varðandi dóttur kæranda. Í framangreindu bréfi barnaverndar 8. apríl sl. er vísað til þess að í tilkynningunni komi fram að stúlkan hefði lýst atviki þar sem faðir hennar hefði [...]. Í nefndu bréfi barnaverndar kemur jafnframt fram að um væri að ræða gamalt tilvik og væri faðirinn ekki lengur í lífi stúlkunnar. Þætti því ekki tilefni til afskipta barnaverndaryfirvalda af málinu.

Þann 6. maí 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Gerði kærandi athugasemd við fyrrgreinda ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um að aðhafast ekki í málinu í kjölfar tilkynningarinnar. Hún óskar eftir því að málið verði opnað og skoðað betur.

Kærandi kveður ekki rétt að faðir stúlkunnar sé ekki lengur í lífi hennar. Kærandi hafi tálmað umgengni við föður frá [...] eftir að fyrrnefnt atvik hafi átt sér stað, en verið sé að reyna að koma á umgengni við hann eftir úrskurði sýslumanns. Allar líkur séu á því að umgengni verði að fara fram með eða án samþykkis kæranda.

[...] í X hafi stúlkan farið X í umgengni til föður í stuttan tíma í hvert sinn. Eftir heimsóknirnar hafi mátt sjá á hegðun stúlkunnar að þær hafi reynt á hana og haft áhrif á vellíðan hennar. Í kjölfar heimsóknanna hafi hún meðal annars tekið reiðiköst og misst alveg stjórn á sér. Hafi skap stúlkunnar breyst svo eftir sé tekið.

Kærandi hafi áhyggjur af velferð stúlkunnar hjá föður. Hún taki þó fram að hún vilji ekki koma í veg fyrir alla umgengni en vilji að umgengni verði takmörkuð við dagsheimsóknir og helst undir eftirliti. Á heimili föður búi [...] sem hafi áreitt stúlkuna kynferðislega. Kærandi vilji ekki að þeir séu eftirlitslausir með stúlkunni.

Faðir hafi margsinnis beitt kæranda ofbeldi, bæði á meðan á sambúð þeirra stóð og eftir að henni lauk. Þá hafi hann hlotið dóm fyrir ofbeldi gagnvart kæranda.

Fjölskyldan hafi verið undir miklu álagi og streitu vegna málsins og upplifi kærandi sig vanmáttuga gagnvart kerfinu.

 

II. Niðurstaða

Í 1. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) segir að þegar barnaverndarnefnd fái tilkynningu eða berist upplýsingar með öðrum hætti um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, ofbeldis eða vanvirðandi háttsemi af hendi annarra eða eigin hegðunar þess eða að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu eins og lýst er í 16. gr., skuli hún taka afstöðu til þess án tafar, og eigi síðar en innan sjö daga frá því að henni barst tilkynning eða upplýsingar, hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu.

Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. bvl. er ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða að hefja ekki könnun, hvorki kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála né annars stjórnvalds. Þarna er um að ræða ákvörðun barnaverndar um málsmeðferð sem lýtur ekki að efni máls eins og útskýrt er í athugasemdum með lagagreininni í frumvarpi til bvl. Þar segir enn fremur að ekki sé þarna um eiginlega stjórnsýsluákvörðun að ræða sem falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af því leiði að ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði VIII. og IX. kafla frumvarpsins um meðferð mála hjá barnaverndarnefndum og kærunefnd barnaverndarmála eigi ekki við um undirbúning og form ákvörðunar um hvort hefja skuli könnun máls. Kærandi vísar í kærunni til úrskurðarnefndarinnar til þess að hún hafi áhyggjur af velferð stúlkunnar hjá föður hennar og að umgengni við hann hafi haft slæm áhrif á stúlkuna. Í framangreindu bréfi barnaverndar til kæranda er henni bent á að foreldrar geti fengið stuðning og ráðgjöf hjá þjónustumiðstöð vegna tímabundinna erfiðleika og eru jafnframt veittar leiðbeiningar í sambandi við það.

Í máli þessu barst Barnavernd Reykjavíkur tilkynning frá heimilislækni X 2019 vegna dóttur kæranda. Var það ákvörðun barnaverndar að ekki væri tilefni til afskipta af hálfu barnaverndaryfirvalda í málinu, þ. e. a. s. að hefja ekki könnun barnaverndarmáls samkvæmt 21. gr. bvl., á grundvelli tilkynningarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. bvl. er ekki um að ræða ákvörðun sem kæranleg er til æðra stjórnvalds. Af þessum sökum er málinu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A á þeirri ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur 8. apríl 2019, um að ekki væri tilefni til afskipta af hálfu barnaverndaryfirvalda í máli dóttur hennar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

Lára Sverrisdóttir

Björn Jóhannesson                                                                Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum