Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 191/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 191/2020

Fimmtudaginn 9. júlí 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, móttekinni 8. apríl 2020, kærði Leifur Runólfsson lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 vegna umgengni hennar við son sinn, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er tæplega X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir drengsins. Faðir drengsins er D.

Samkvæmt gögnum málsins hefur mál drengsins verið til meðferðar hjá Barnavernd B allt frá meðgöngu kæranda vegna vímuefnaneyslu hennar. Þá hafa barnaverndaryfirvöld veitt kæranda margvíslegan stuðning.

Drengurinn fór í umsjá fósturforeldra sinna þann 20. september 2019. Kærandi og barnsfaðir drengsins afsöluðu sér forsjá hans með dómsátt sem gerð var fyrir Héraðsdómi B þann 10. janúar 2020. Í kjölfarið varð fósturvistunin varanleg. Starfsmenn barnaverndar lögðu til að umgengni í varanlegu fóstri yrði tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn. Ekki náðist samkomulag um tíðni umgengni og var málið því tekið úrskurðar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að C, hafi umgengni við móður sína, A, tvisvar sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B í mars og október ár hvert. Skilyrði er að móðir sé í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Fósturforeldrar skulu vera viðstaddir umgengni ef þau kjósa það.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. apríl 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 26. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. maí 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt og að umgengni drengsins við kæranda verði einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn, síðasta sunnudag hvers mánaðar.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið í óskráðri sambúð með barnsföður sínum. Barnavernd B hafi fylgst með kæranda á meðan á meðgöngu hafi staðið. Drengurinn hafi verið að mestu hjá kæranda eftir fæðingu. Það hafi þó komið tímabil þar sem drengurinn hafi verið vistaður á T ásamt kæranda og föður drengsins. Árið 2018 hafi verið framkvæmt forsjárhæfnismat á foreldrum drengsins. Matsmaður hafi talið foreldra nógu hæfa til þess að fara með forsjá drengins svo lengi sem þau héldu sig frá vímuefnum. Matið hafi því komið vel út fyrir foreldrana. Haustið 2019 hafi farið að halla verulega undan fæti hjá kæranda og föður drengsins og barnavernd ákveðið að fara fram á að foreldrar drengsins yrðu sviptir forsjá hans. Við þá ákvörðun barnaverndar hafi kærandi fallið í talsverða neyslu. Kærandi hafi hins vegar fljótlega ákveðið að sækja um vímuefnameðferð í E og komist þar að í janúar 2020. Kærandi hafi alfarið slitið sambandi sínu við föður drengsins og sé hún nú barnshafandi að nýju.

Ágreiningur þessa máls snúi eingöngu að tíðni umgengni. Aðilar séu sammála um að umgengni sé í tvo tíma í senn. Þá er ekki gerð athugasemd við að umgengni fari fram undir eftirliti og að fósturforeldrar fái að vera viðstaddir umgengnina. Þá geri kærandi ekki athugasemd við það að hún verði að vera í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Ítrustu kröfur kæranda séu þær að umgengni fari fram einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn, eða alls 12 skipti á ári.

Kærandi fari aðallega fram á að drengurinn njóti umgengni við sig tólf sinnum á ári. Kærandi telji að umgengni tvisvar á ári sé alltof lítil. Hafa beri í huga að drengurinn eigi von á systkini og það verði að gefa drengnum möguleika á því að tengjast sínu nýja systkini. Flest börn séu spennt fyrir því að eignast systkini og sé það mjög þroskandi fyrir börn að fylgjast með uppvexti og þroska nýja systkinisins. Þá myndi það gera báðum systkinum gott að tengjast strax í æsku. Það sé réttur hvers barns að fá að þekkja uppruna sinn og fjölskyldu. Þá sé það að sama skapi réttur hvers barns að fá að þekkja og tengjast systkinum sínum. Ljóst sé að systkinin muni ekki tengjast ef þau fái einungis að hittast í stutta stund tvisvar á ári. Í þessu máli þurfi að hafa í huga velferð beggja barnanna.

Þá beri að hafa í huga að þó svo að barn sé í fóstri til 18 ára aldurs, eigi barnið rétt á að þekkja uppruna sinn. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað gagnrýnt hversu litla umgengni barnaverndarnefndir í Noregi hafi gefið foreldrum í sömu sporum og kærandi. Þó að kærandi hafi afsalað sér forsjá yfir barninu fyrir dómi, eigi hún engu að síður rétt á að tengjast honum og vera í umgengni við hann. Það sé líka barninu fyrir bestu að vera í umgengni við kæranda og tilvonandi systkini, sérstaklega þar sem kærandi hafi tekið á sínum málum og sé í meðferð. Kærandi geri sér vel grein fyrir því að hún geti ekki umgengist börnin sín undir áhrifum vímuefna. Kærandi sé orðin edrú í dag og hyggist vera það sem eftir er ævi sinnar. Áður en drengurinn hafi farið í fóstur hafi kærandi náð góðum tengslum við drenginn að mati matsmanns.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Með sama hætti eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni barns við foreldri og aðra nákomna, samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar.

Tillögur starfsmanna, sem hafi verið lagðar fram á fundi Barnaverndarnefndar B þann 17. mars 2020, byggi á þeirri grundvallarforsendu að stefnt sé að því að drengurinn alist upp á núverandi fósturheimili til 18 ára aldurs. Í varanlegu fóstri sé markmið fósturs að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn sé að ræða. Drengurinn hafi upplifað mörg áföll á stuttri ævi sinni. Hann hafi farið í umsjá fósturforeldra sinna þegar hann hafi verið X gamall og hafði þá þegar verið vistaður fjórum sinnum á T, vistheimili barna, vegna vímuefnaneyslu foreldra.

Áform kæranda um að óska eftir endurskoðun ráðstafana samkvæmt 34. gr. bvl. þegar 12 mánuðir séu liðnir frá því að hún hafi afsalað sér forsjá drengsins breyti ekki þeirri staðreynd að drengurinn lúti forsjá Barnaverndarnefndar B og sé vistaður í varanlegu fóstri sem eigi að standa til 18 ára aldurs. Jákvætt sé að kærandi hafi sótt sér vímuefnameðferðir, líði vel í dag og hafi áform um að vera án vímuefna til frambúðar. Það sé mikilvægt fyrir barnið að kærandi sé í ástandi til að sinna umgengni á tímabili fósturs. Við mat á umgengni í varanlegu fóstri breyti í sjálfu sér ekki þótt kærandi sé án vímuefna í dag, líkt og lögmaður hennar hafi greint frá, og sé ákveðin í að endurheimta forsjá drengsins. Markmið umgengni við kæranda í varanlegu fóstri sé ekki að byggja upp tengsl á milli kæranda og sonar hennar heldur fyrst og fremst að drengurinn þekki uppruna sinn. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að því markmiði verði náð með umgengni tvisvar á ári. Drengurinn búi nú við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra sem hafi tekið að sér það vandasama hlutverk að annast forsjárskyldur drengsins og vera honum það skjól sem hann þurfi á að halda og veita honum stöðugleika í uppeldinu sem hann hafi farið á mis við í umsjá foreldra sinna. Fósturvistun drengsins sé skammt á veg komin og mikilvægt að drengnum og fósturforeldrum verði gefið tækifæri til að byggja upp tengsl sín á milli og að sem minnst truflun verði þar á. Það séu lögvarðir hagsmunir drengsins að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu. Einnig að honum verði gefið svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun.

Umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Sérstaklega þurfi að horfa til þess að tryggja þurfi að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert beri að líta svo á að ekki hafi verið gætt nægilega að því að umgengni þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn, eins og gert sé með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að hann fái frið til að tilheyra fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda sé til þess fallin að valda honum. Markmiðið með því sé að tryggja hagsmuni drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika. Með vísan til þess sem að framan greini, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl., þyki umgengni kæranda við drenginn hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.

IV. Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við drenginn. Í tölvupósti þeirra til nefndarinnar, dags. 19. júní 2020, kemur fram að fósturforeldrum finnist umgengni tvisvar á ári meira en nóg. Seinasta umgengni við kæranda hafi verið í X síðastliðinn, sem hafi gengið í alla staði vel, en þrátt fyrir það hafi barnið verið mjög lengi að jafna sig.

V.  Niðurstaða

Drengurinn X er tæplega X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir drengsins.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn tvisvar sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B í mars og október ár hvert. Skilyrði sé að kærandi sé í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Fósturforeldrar skuli vera viðstaddir umgengnina ef þau kjósi það.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt og að umgengni drengsins við kæranda verði einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn, síðasta sunnudag hvers mánaðar. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 19. júní 2020. Þar kemur fram sú afstaða að þau telji að umgengni eigi að vera í mesta lagi tvisvar á ári.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirra stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni drengsins við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Í máli drengsins er því ljóst að ekki er stefnt að því að hann fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við drenginn þarf því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í varanlegt fóstur.

Frumgeðtengsl, sem myndast á fyrstu tveimur árum í lífi drengsins, móta hann alla ævi. Í þessu tilviki komst drengurinn í öruggt, stöðugt umhverfi aðeins X gamall og má gera ráð fyrir að hann hafi getað myndað afgerandi sterk geðtengsl við fósturforeldra, enda bera gögn málsins þess vitni að drengurinn hafi náð að tengjast fósturforeldrum sínum vel. Hann er því því fyrst og fremst tengdur fósturforeldrum sínum.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni drengsins við kæranda þannig að hann fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni.  Markmiðið með því er að tryggja til frambúðar umönnun drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika. Þá ber að líta til þess að með umgengni kæranda við drenginn er ekki verið að reyna styrkja tengsl hans við kæranda, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í varanlegu fóstri við foreldra og aðra nákomna er ákveðin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 varðandi umgengni C við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum