Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir f%C3%A9lags- og vinnumarka%C3%B0sr%C3%A1%C3%B0uneytisins

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 1/2023

Fimmtudaginn 2. febrúar 2023 var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 30. janúar 2023, kærði Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður, fyrir hönd Eflingar stéttarfélags, kt. 701298-2259, miðlunartillögu ríkissáttasemjara, dags. 26. janúar 2023, í máli nr. 7/2022.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar miðlunartillögu ríkissáttasemjara, dags. 26. janúar 2023, í vinnudeilu kæranda og Samtaka atvinnulífsins sem kærandi vísaði til ríkissáttasemjara þann 7. desember 2022 á grundvelli 24. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938.

Kærandi vildi ekki una miðlunartillögu ríkissáttasemjara og kærði því miðlunartillöguna til ráðuneytisins þann 30. janúar 2023 á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í fyrrnefndri kæru kemur meðal annars fram að kærandi telji miðlunartillögu ríkissáttasemjara kæranlega stjórnvaldsákvörðun sem feli í sér inngrip í réttindi kæranda og félagsmanna hans. Þá krefst kærandi þess að miðlunartillaga ríkissáttasemjara verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan mál þetta er til meðferðar hjá ráðuneytinu.

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 31. janúar 2023, ítrekaði kærandi kröfu sína um frestun réttaráhrifa í málinu.

 

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda lögin þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Samkvæmt 2. málsl. sama ákvæðis gilda lögin ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Að mati ráðuneytisins er hér með hugtakinu stjórnvaldsákvörðun vísað til sömu ákvarðana og lýst er í 1. gr. stjórnsýslulaga en hvorki ákvarðana sem varða undirbúning máls né þeirra ákvarðana sem ætlað er að hafa almenn réttaráhrif.

Í III. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur er kveðið á um sáttastörf í vinnudeilum. Í 1. mgr. 22. gr. laganna er kveðið á um að ríkissáttasemjari annist sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Það er því meginhlutverk ríkissáttasemjara að leiða sáttaumleitanir í vinnudeilum milli launafólks og atvinnurekenda á íslenskum vinnumarkaði.

Í 27. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er kveðið á um að ríkissáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu ef samningsumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að miðlunartillögu skuli leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sé miðlunartillaga ekki felld í atkvæðagreiðslu, sbr. 31. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, felur hún í sér lausn vinnudeilu sem hefur almenn áhrif á réttindi og skyldur aðila á vinnumarkaði. Af þessari ástæðu ber að mati ráðuneytisins að líta svo á að miðlunartillaga skv. 27. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur sé hluti af störfum ríkissáttasemjara og liður í málsmeðferð sem hefur það að markmiði að leysa vinnudeilu milli aðila.

Það er mat ráðuneytisins að eðli og einkenni ákvarðana um rétt eða skyldu manna skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sé meðal annars að um sé að ræða einstakar ákvarðanir stjórnvalda sem beinast almennt aðeins að tilteknum aðila máls og leysa úr afmörkuðu máli með bindandi hætti. Ákvarðanir um málsmeðferð og ákvarðanir sem hafa almenn réttaráhrif teljast því ekki til ákvarðana um rétt eða skyldu manna í þessu sambandi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að mati ráðuneytisins að líta svo á að miðlunartillaga ríkissáttasemjara, dags. 26. janúar 2023, hafi verið liður í sáttastörfum ríkissáttasemjara í yfirstandandi vinnudeilu kæranda og Samtaka atvinnulífsins. Af þessum ástæðum telur ráðuneytið að ekki hafi verið um að ræða ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi alls framangreinds verður að mati ráðuneytisins ekki talið að í máli þessu sé fyrir hendi stjórnvaldsákvörðun sem heimilt er að kæra til æðra stjórnvalds á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Stjórnsýslukærunni verður vísað frá ráðuneytinu þegar af þessari ástæðu.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga getur æðra sett stjórnvald frestað réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Að mati ráðuneytisins á þessi heimild ekki við nema um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun sem telst kæranleg. Þá leiðir af ákvörðun ráðuneytisins um frávísun kærunnar að málið er ekki lengur til meðferðar hjá ráðuneytinu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Stjórnsýslukæru Eflingar stéttarfélags, dags. 30. janúar 2023, vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara, dags. 26. janúar 2023, er vísað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum