Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 14/2020

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 18. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá skólaskrifstofu Sveitarfélagsins Hornafjarðar um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, vegna leikskólans Sjónarhóls.

Í beiðninni er óskað eftir undanþágu vegna fjölda nemenda á tveimur deildum leikskólans Sjónarhóls. Um sé að ræða leikskólann Sjónarhól þar sem eru sex deildir. Á fjórum deildum er nemendafjöldi undir 20 en á tveimur deildum séu 24 nemendur. Hafi foreldrar leikskólabarna orðið við tilmælum um að halda börnum sínum heima séu þau með kvef eða önnur einkenni flensu, en ekki liggi fyrir upplýsingar um hve mörg börn séu heima af þeim sökum.

II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:

„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 3. gr. hennar um leikskóla að leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er.

Ekki er skilgreint hvað ,,í sem minnstum hópum“ merkir tölulega en ráða má af auglýsingunni að það séu færri en 20 nemenda hópar.

Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins má ekki ráða af beiðninni af hverju ekki er unnt að skipuleggja skólastarf með þeim hætti að það sé í samræmi við 3. gr. auglýsingar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Ráðuneytið leggur til að beiðninni verði synjað. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

Af hálfu sóttvarnasviðs Embættis landlæknis kom fram að ekki væri unnt að mæla með því að heimilaðir væru stærri hópar en 20 barna í leikskóla.

III. Niðurstaða.

Samkvæmt 3. gr. auglýsingar nr. 216/2020 er leikskólum heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag. Í 4. gr. auglýsingarinnar kemur fram að í grunnskólum skuli ekki vera fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa.

Samkvæmt 6. gr. auglýsingar nr. 216/2020 getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík setji í hættu ráðstafanir til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum.

Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Enn fremur þegar aðstæður á viðkomandi stað gera það mun erfiðara en annars staðar að fylgja fyrirmælum ákvörðunarinnar og/eða um sé að ræða mjög lítil frávik frá auglýsingunni.

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Ráðuneytið leggur þann skilning í 3. gr. auglýsingar nr. 216/2020, að teknu tilliti til 4. gr. hennar, að almennt skuli nemendahópar í leikskólum vera minni en í grunnskólum. Það hefur og verið raunin í framkvæmd. Því sé ekki unnt að heimila stærri hópa í leikskólum en 20 börn og almennt skuli leitast við að hafa þau ekki fleiri en 10–15. Ráðuneytið telur að eins og umsóknin er fram sett standi ekki rök til þess að heimila sveitarfélaginu undanþágu frá ákvörðun um takmörkun skólahalds að teknu tilliti til þeirra almannahagsmuna sem ákvörðunin byggir á. Hafi enda ekki verið um að ræða takmörkun, svo sem að óhjákvæmilegt sé að skipta 24 nemendahópunum í tvennt, sem kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum. Þá sé heldur ekki um að ræða þær aðstæður að erfiðara sé á leikskólanum en annars staðar að fylgja fyrirmælum ákvörðunarinnar. Það er því mat ráðuneytisins að það samræmist ekki markmiðum þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til að veita umbeðna undanþágu. Undanþágubeiðninni er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni skólaskrifstofu Sveitarfélagsins Hornarfjarðar um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, fyrir tvær deildir á leikskólanum Sjónarhóli er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum