Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir um sj%C3%A1var%C3%BAtveg og fiskeldi

Kærð ákvörðun Fiskistofu um skriflega áminningu- Úrskurður kveðinn upp 7. apríl 2020

Úrskurður kveðinn upp 7. apríl 2020

Lykilorð:

Stjórnsýslukæra

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A], lögmanns, fyrir hönd [B ehf.], dags. 7. nóvember 2018, þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. október 2018, um að veita kæranda skriflega áminningu, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, vegna brota gegn 3. mgr. 18. gr. laga nr. 116/2006, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ákvörðunin hefur ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 116/2006 og er kærufrestur einn mánuður.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. október 2018, verði felld úr gildi.

Málsatvik og málsmeðferð

Í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, segir að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi haft samband við skipstjóra á línubátnum [C] þann 21. febrúar 2018 og tilkynnt að hann hafi haft í huga að róa með bátnum næsta dag. Fram kemur að skipstjórinn hafi talið ólíklegt að róið yrði næsta dag vegna veðurspár. Í skýrslunni kemur fram að eftirlitsmaðurinn hafi beðið um að hringt yrði í sig ef tekin yrði ákvörðun um að róa og að hann hafi gefið upp símanúmer. Segir jafnframt að skipstjórinn hafi ætlað að gera það. Kærandi hafnar því að veiðieftirlitsmaðurinn hafi óskað eftir því að hringt yrði í sig ef tekin yrði ákvörðun um að róa.

Með bréfi dags. 15. október 2018 veitti Fiskistofa kæranda skriflega áminningu skv. 24. gr. laga nr. 116/2006,  sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, vegna brots gegn 3. mgr. 18. gr. laga nr. 116/2006, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1997. Fram kom að áminningin hafi í för með sér ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996.

Með bréfi dags. 7. nóvember 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu dags. 15. október 2015 um að veita útgerð [C] skriflega áminningu.

Með bréfi dags. 28. nóvember 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, afrit af staðfestri ákvörðun sem og önnur gögn sem stofnunin taldi að vörðuðu málið. Ráðuneytinu barst umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæru með bréfi, dags.  25. janúar 2019.

Með bréfi, dags. 31. janúar, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Með bréfi, dags 15. febrúar 2019, bárust ráðuneytinu athugasemdir kæranda við umsögn Fiskistofu. Málið er tekið til úrskurðar á framangreindum gögnum.

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi mótmælir málsatvikalýsingu Fiskistofu. Kærandi telur rangt að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi beðið skipstjóra um að hringja í sig ef tekin hefði verið ákvörðun um að róa og að hann hafi gefið upp símanúmer sitt. Þá hafnar kærandi því mati Fiskistofu að skipstjóra hafi ekki geta dulist að beiðni veiðieftirlitsmannsins stæði óhögguð svo skömmu eftir að beiðni kom fram eða „nokkrum klst. síðar“. Kærandi telur rangt að [C] hafi verið haldið til veiða nokkrum klukkustundum síðar líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi bendir að á alls liðu 15 klukkustundir og 11 mínútur en ekki nokkrar klukkustundir. Kærandi mótmælir ályktunum Fiskistofu, sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun um að Fiskistofa meti frásögn skipstjóra af samtali hans og veiðieftirlitsmannsins um að því hafi lokið með því að veðurspá væru svo óhagstæð að ólíklegt væri að róið yrði næsta dag mjög ótrúverðuga og að skýrsla veiðieftirlitsmannsins yrði lögð til grunsvallar við úrlausn málsins.

Kærandi bendir á að skrifleg áminning á grundvelli laga nr. 116/2006 sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þar sem ákvörðun er tekin um viðurlög sem síðar kunna að hafa ítrekunaráhrif og að efni símtals milli veiðieftirlitsmanns og skipstjóra kæranda standi orð gegn orði.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýslulaga hvíli sönnunarbyrgði um atvik máls, sem telja má aðilum í óhag, á stjórnvöldum. Bendir kærandi á að stjórnvöldum beri við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana að tryggja sér óyggjandi sönnun sem ekki verður véfengd um atvik máls. Kærandi telur að veiðieftirlitsmanni hafi verið í lófa lagt að tryggja sér sönnun um atvik máls. Jafnframt bendir kærandi á að samskipti stjórnvalda við borgara skuli almennt vera skrifleg.

Með stjórnsýslukæru fylgdi bréf kæranda, dags. 13. apríl 2018, til Fiskistofu þar sem lögmaður kæranda mótmælti lýsingu í brotaskýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu. Í bréfinu segir að í símtali veiðieftirlitsmanns Fiskistofu og skipstjóra hafi veiðieftirlitsmaður verið upplýstur að ólíklegt væri að farið yrði til daginn eftir vegna veðurs og að þar með hafi símtalinu lokið án þess að óskað hafi verið eftir að veiðieftirlitsmaður fengi að fara í næsta róður né að hann yrði látinn vita ef veðurspá breyttist og skipstjóri hygðist fara til sjós daginn eftir. Vegna þessa hafi veiðieftirlitsmanninum ekki verið gert viðvart áður en skipið [C] hélt til veiða þann 22. febrúar 2018.

Með bréfi, dags 15. febrúar 2019, bárust ráðuneytinu athugasemdir kæranda við umsögn Fiskistofu. Í bréfinu segir að ónákvæmi gæti í umsögn Fiskistofu. Jafnframt bendir kærandi á að það sé rangt í umsögn Fiskistofu að í símtalinu hafi komið fram að veiðieftirlitsmaður færi með bátnum í næsta róður. Vísar kærandi til hinnar kærðu ákvörðunar Fiskstofu þar sem fram kemur að veiðieftirlitsmaðurinn hafi tilkynnt að hann hefði í huga að róa með bátnum næsta dag. Kærandi bendir á að það að ætla að fara í næsta róður og hafa í hyggju að fara í næstu róður sé ekki það sama. Kærandi ítrekar að símtalinu hafi lokið án þess að óskað hafi verið eftir að veiðieftirlitsmaðurinn fengi að fara í næsta róður eða yrði látinn vita ef veðurspá breyttist.

Málsástæður og lagarök Fiskistofu

Fiskistofa ítrekar að undir meðferð málsins hjá stofnuninni lagði lögmaður kæranda fram andmæli f.h. útgerðar með bréfi dags. 13. apríl 2018. Fiskistofa bendir á að óumdeilt sé að eftirlitsmaður og skipstjóri [C], áttu símtal þann 21. febrúar 2018 um að veiðieftirlitsmaður færi með bátnum í næsta róður. Fiskistofa bendir jafnframt á að í andmælum kæranda hafi komið fram að ólíklegt væri að farið yrði í róður daginn eftir vegna veðurs. Af þessum orðum í andmælum dregur Fiskistofa þá ályktun, að rætt hafi verið um að veiðieftirlitsmaður færi með því ella hafi veðurhorfur ekki verið ræddar.

Þá bendir Fiskistofa á að það hafi ekki verið þörf á frekari gögnum í málinu þar sem staðfest hafi verið að símtal átti sér stað milli veiðieftirlitsmanns og skipstjóra. Jafnframt bendir Fiskistofa á að það sé löngu viðurkennt að bein samtöl og símtöl séu liður í stjórnsýslunni enda ber stjórnvaldi að skrá hjá sér efni slíkra samtala. Það sé liður í að málin séu upplýst og öllum sjónarmiðum haldið til haga eins og kostur er.

Fiskistofa veitti kæranda skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006 vegna brots gegn 3. mgr. 18. gr. laga nr. 116/2006, þar sem segir að eftirlitsmönnum sé heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að fara um borð í skip til athugunar á frami og veiðarfærum og að skipstjórum sé skylt að veita þeim aðstoð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1997. 

Ákvörðunin hefur ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996.

Niðurstaða

Kærufrestur

Stjórnsýslukæra í þessu máli barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 7. nóvember 2018  eða innan mánaðar frá dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar, dags. 15. október 2018. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 116/2006 og er kærufrestur einn mánuður. Kæran barst því innan tilskilins frests og er því tekin til efnismeðferðar.

Rökstuðningur

Í máli þessu er ekki uppi ágreiningur um lagarök heldur greinir kæranda og Fiskistofu á um málsatvik, þ.e. hvort veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi í símtali þann 21. febrúar 2018 óskað eftir því við skipstjóra að róa með skipinu [C] daginn eftir og hvort veiðieftirlitsmaðurinn hafi óskað eftir því að skipstjórinn léti hann vita ef ákvörðun yrði tekin um að róa.

Í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 116/2006, segir að eftirlitsmönnum sé heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að fara um borð í skip til athugunar á frami og veiðarfærum og að skipstjórum sé skylt að veita þeim aðstoð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1997 segir að veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu sé heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að skipstjórum sé skylt að veita þeim alla aðstoð og aðstöðu um borð í skipum sínum til þess að þeir geti sinnt eftirlit með veiðum.

Fyrir liggur í máli þessu að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi hringt í skipstjóra [C] þann 21. febrúar 2018 og að veiðieftirlitsmaðurinn hafi verið upplýstur um að ólíklegt væri að róað yrði daginn eftir vegna veðurs, sbr. eftirlitsskýrsla veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, og bréf kæranda, dags. 13. apríl 2018, til Fiskistofu. Ágreiningur er um hvort veiðieftirlitsmaðurinn hafi óskað eftir því að skipstjórinn hefði samband ef ákvörðun yrði tekin um að róa. Í skýrslu veiðieftirlitsmannsins, dags. 22. febrúar 2018, segir að veiðieftirlitsmaðurinn hafi beðið skipstjórann um að hringja í sig ef hann tæki ákvörðun um að fara á sjó og að hann gæti hringt í númerið sem veiðieftirlitsmaðurinn hafi hringt úr. Ekkert hefur komið fram í máli þessu sem gefur til kynna að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi haft ástæðu til þess segja rangt frá efni símtalsins. Það liggur því fyrir að veiðieftirlitsmaðurinn hafði lýst yfir vilja til þess að róa með skipinu daginn eftir. Símtal átti sér stað kl. 13:23 þann 21. febrúar 2018 og var haldið til veiða kl. 04:34 þann 22. febrúar 2018.

Það er grundvallarþáttur í eftirliti með veiðum á sjó að veiðieftirlitsmenn fái að fara með skipum í veiðiferðir til að sinna eftirlitsskyldum. Veiðieftirlitsmenn verða þannig að reiða sig á samstarf við skipstjóra til þess að unnt sé að framkvæma eftirlitið og hvílir skylda á skipstjórum samkvæmt lögum að greiða fyrir veiðieftirlitsmönnum til að þeir geti sinnt eftirliti. Ef skipstjórar vanrækja þessa skyldu torveldar það eftirliti á sjó. Að mati ráðuneytisins gat skipstjóra [C] ekki dulist að veiðieftirlitsmaður hygðist fara með skipinu í veiðiferð daginn eftir vegna símtalsins þann 21. febrúar 2018. Það er mat ráðuneytisins að á skipstjóra hvíldi sú skylda að upplýsa veiðieftirlitsmanninn, sem hafði lýst yfir vilja til þess að róa með skipinu daginn eftir, að ákveðið hafi verið að halda til veiða um nóttina.

Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að kærandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn 3. mgr. 18. gr. laga nr. 116/2006, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1997.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. október 2018, um að veita útgerð skipsins [C], skriflega áminningu, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum