Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir umhverfisr%C3%A1%C3%B0uneytis

Mál 06100129

Hinn 18. maí 2007, er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu barst þann 20. nóvember 2006 kæra Jóns Jónssonar hdl. f.h. Bláarinnar ehf. vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 20. október 2006 um að lagning 1,6 km vegar, Upphéraðsvegar, milli Fellabæjar og Ekkjufells á Fljótsdalshéraði, sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

I. Hin kærða ákvörðun og kröfur kæranda.

Vegagerðin tilkynnti þann 4. ágúst 2006 til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða lagningu Upphéraðsvegar (vegnúmer 931) á 1,6 km kafla milli Fellabæjar og Ekkjufells, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 10c í 2. viðauka laganna. Gert er ráð fyrir að legu Upphéraðsvegar verði breytt og nýr vegur verði lagður á um 1,6 km löngum kafla. Tenging við Hringveg (þjóðveg nr. 1) verður 230 m norðar en núverandi tenging.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar, sbr. bréf dags. 20. október 2006, var að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Helgafells á Fljótsdalshéraði, en fyrirhuguð veglína mun liggja um land kæranda. Gerir kærandi þær kröfur að umhverfisráðherra ógildi mat Skipulagsstofnunar og feli stofnuninni að taka matsskylduákvörðun á nýjan leik í samræmi við lög. Að öðrum kosti úrskurði ráðherra að umdeild framkvæmd verði matsskyld.

II. Einstakar málsástæður kæranda og umsagnir um þær.

1. Almennt.

Framangreind kæra var þann 18. janúar 2007 send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar, Fljótsdalshéraðs og heilbrigðiseftirlits Austurlands. Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 6. febrúar 2007, Umhverfisstofnunar þann 24. janúar 2007, Vegagerðarinnar þann 6. febrúar 2007, Fljótsdalshéraðs þann 22. mars 2007 og heilbrigðiseftirlits Austurlands þann 20. janúar 2007. Umsagnirnar voru þann 12. apríl 2007 sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær.

Kærandi telur ranga þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Telur kærandi að við mat á matsskyldu framkvæmdarinnar hafi sjónarmiða 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum ekki verið gætt.

2. Sammögnunaráhrif.

Af hálfu kæranda er bent á að við mat skv. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum eigi að líta til sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, sbr. lið 1.ii. Framkvæmd Upphéraðsvegar sé órjúfanlegur hluti af væntanlegri breytingu á legu þjóðvegar 1, þar sem gert sé ráð fyrir byggingu nýrrar brúar yfir Lagarfljót. Ekki verði lagt mat á líkleg umhverfisáhrif Upphéraðsvegar nema með því að samtengdar framkvæmdir verði metnar um leið. Breyting þjóðvegar 1 og Upphéraðsvegar sé samtengd ákvörðun í vegagerðarlegu tilliti og skipulagslegu tilliti, sbr. aðalskipulag Fellahrepps til 2012 (nú Fljótsdalshérað). Taki matsskylduákvörðun ekki til þessara samtengdu verkefna sé umhverfismat í raun óþarft, þar sem framkvæmdaraðili geti bútað niður framkvæmdir til þess að komast hjá matsskyldu. Grunnmarkmið umhverfismats séu þannig sniðgengin, sbr. 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að ákvörðun stofnunarinnar hafi m.a. verið byggð á umsögn Fljótsdalshéraðs þar sem tekið sé fram að fyrirhuguð færsla Upphéraðsvegar sé í samræmi við Aðalskipulag Fellahrepps 2000-2012. Ákvörðunin hafi einnig byggt á því að samkvæmt framlögðum gögnum Vegagerðarinnar muni fyrirhuguð lagning Upphéraðsvegar ekki kalla á breytingu í legu þjóðvegar 1 frá því sem gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi en verði henni breytt frá gildandi aðalskipulagi gæti það haft áhrif á tengingar við Upphéraðsveg. Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi ætíð lagt áherslu á mikilvægi þess að lagt sé mat á tengdar framkvæmdir með tilliti til sammögnunaráhrifa á umhverfið. Í því tilfelli sem hér um ræðir hafi lagning Upphéraðsvegar, eins og hún er kynnt, ekki áhrif á hver verði endanleg lega þjóðvegar 1 og út frá því sjónarmiði ekki sammögnunaráhrif með þeirri framkvæmd. Í kærunni sé ekki bent á í hverju sammögnunaráhrif kunni að vera fólgin að mati kæranda eða hvort kærandi hafi hugmyndir um aðra kosti í legu Upphéraðsvegar sem meta ætti umhverfisáhrif af samtímis mati á breytingu á þjóðvegi 1.

Í umsögn Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins segir:

„Umhverfisstofnun hefur áður bent á að skoða eigi samliggjandi framkvæmdasvæði sameiginlega ef þess er nokkur kostur. Í fyrrnefndri umsögn benti Umhverfisstofnun á að haga ætti framkvæmdum við Upphéraðsveg í tengslum við aðrar framkvæmdir í vegagerð á umræddu svæði, enda sérkennilegt að byggja fyrst veigaminnsta hlutann, þ.e. Upphéraðsveg, sem síðan gæti hugsanlega haft áhrif á legu Hringvegar 1.

Eins og staða mála er í dag telur Umhverfisstofnun nánast ómögulegt að meta sammögnunaráhrif mismunandi vegframkvæmda í Fellabæ. Hér kemur til að ekki er unnt að gera raunhæfan samanburð á hannaðri veglínu annars vegar og hins vegar brú og vegi þar sem gerð og staðsetning mannvirkja hefur ekki verið ákveðin.

Þó er ljóst að við mat á umhverfisáhrifum Hringvegar 1 um Fellabæ verður að sumu leyti litið til annarra þátta en gert var við Upphéraðsveg. Má t.d. nefna hljóðvist og loftgæði. Ársdagsumferð á Hringvegi 1 um Lagarfljótsbrú er um 3200 bílar. Í samanburði er ársdagsumferð um Upphéraðsveg 165 bílar eða um 5% umferðar um Lagarfljótsbrú. Því má gera ráð fyrir að áhrif umferðar af Upphéraðsvegi inn á Hringveg 1 hafi hlutfallslega lítið vægi þegar litið er til fyrrnefndra þátta. Einnig ber að líta til þess að breytt lega Upphéraðsvegar og Hringvegar ætti í sjálfu sér ekki að leiða til aukinnar umferðarar á því svæði sem hér um ræðir þó hugsanlegt sé að umferð gæti dreifst á annan hátt um þessa vegi í kjölfar veglagningar á Hringvegi og Upphéraðsvegi. Ekki verður um að ræða sammögnunaráhrif hvað varðar áhrif á svæði nr. 646 á náttúruminjaskrá, þar sem líklegast er að Hringvegur 1 um Fellabæ verði alfarið utan þess svæðis."

Vegagerðin telur í umsögn sinni að um sé að ræða sjálfstæða framkvæmd sem sé í samræmi við gildandi aðalskipulagsáætlun og hafi markmið óháð breytingu Hringvegar. Breyting Hringvegar og lagning Upphéraðsvegar séu ekki samtengdar framkvæmdir. Sérstök fjárveiting sé til verksins á samgönguáætlun og gert sé ráð fyrir að ráðist verði í hana hvað sem líður framkvæmdum við breytingu á legu Hringvegar. Lagningu Upphéraðsvegar sé ætlað að bæta samgöngur með nýjum og betri vegi og geti a.m.k. tímabundið þjónað markmiði sínu þar til ákvörðun verður tekin um brúarstæði nýrrar Lagarfljótsbrúar. Möguleg breyting Hringvegar í tengslum við nýja Lagarfljótsbrú sé sjálfstæð framkvæmd og meta verði áhrif þeirrar framkvæmdar þegar allar forsendur liggi fyrir, þ.m.t. áhrif af mögulegri breytingu Upphéraðsvegar sem líklegt er að verði, komi til þess að Hringvegur verði færður til við byggingu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Síðan segir í umsögn Vegagerðarinnar:

„Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram umfjöllun um áhrif mögulegrar færslu Hringvegar í framtíðinni. Þar kemur fram að hugsanlegt sé að við byggingu nýrrar Lagarfljótsbrúar verði legu hennar breytt frá núgildandi skipulagi t.d. ef ákveðið verður að lengja Egilsstaðaflugvöll. Það geti haft áhrif á tengingu Upphéraðsvegar við Hringveg en ekki að öðru leyti áhrif á legu vegarins. Framkvæmdaraðili hefur engar forsendur til að meta á þessu stigi hvort og þá með hvaða hætti skipulagi verður háttað í framtíðinni hvað þetta varðar. Ekki liggur fyrir ákvörðun um brúarstæði nýrrar Lagarfljótsbrúar. Eftir er að fjalla um það heildstætt í skipulagi hvernig fyrirkomulagi mannvirkja verður háttað verði af fyrirhugaðri byggingu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Þess vegna getur framkvæmdaraðili ekki metið umhverfisáhrif Upphéraðsvegar og Hringvegar saman eins og kærandi gerir kröfu um þar sem allar skipulagslegar forsendur skortir."

3. Áhrif á landslag og jarðmyndanir.

Kærandi telur að í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé ekki fjallað nægjanlega um fyrirhugaða framkvæmd með tilliti til staðsetningar. Framkvæmdin sé fyrirhuguð á svæði á náttúruminjaskrá sem kalli á ítarlega skoðun. Vegurinn muni að hluta til liggja um afar sérkennilegt landslag sem einkennist af fellum og klettaásum með mýrarsundum og vötnum á milli. Samkvæmt áætlun framkvæmdaraðila verði töluverðar bergskeringar úr klettaásum sem séu í raun grundvöllur þess að svæðið sé á náttúruminjaskrá. Bergskeringar séu óafturkræfar og þegar þær séu gerðar á einstökum klettamyndunum verði að telja að um umtalsverð umhverfisáhrif sé að ræða. Í ákvörðun sinni um matsskyldu framkvæmdarinnar beini Skipulagsstofnun því til framkvæmdaraðila að lágmarka bergskeringar. Slík tilmæli hafi enga þýðingu þar sem ekki sé heimilt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum að skilyrða matsskylduákvarðanir eins og heimilt sé að gera í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Fyrst stofnunin telji ástæðu til að vernda umræddar bergmyndanir sé nauðsynlegt að það verði gert með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum þar sem lagaheimild fyrir setningu slíkra skilyrða er fyrir hendi.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi byggt mat sitt hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á umrætt svæði m.a. á umsögn Umhverfisstofnunar sem ekki hafi gert athugasemdir við legu vegarins. Í umsögn Umhverfisstofnunar segi m.a:

„Fyrirhuguð veglína liggur um iðnaðarhverfi í Fellabæ, yfir framræst tún í löndum Helgafells, Skipalækjar og Ekkjufells og meðfram klapparholtum inn á núverandi veg við afleggjara að Ekkjufelli. Hluti fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis er innan svæðis nr. 646 á náttúruminjaskrá. Gildi þessa svæðis er talið felast í eftirfarandi: „Afar sérkennilegt landslag, sem einkennist af fellum og klettaásum með mýrarsundum og vötnum á milli."

Votlendi á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði hefur þegar verið raskað og því telur Umhverfisstofnun ekki ástæðu til að gera athugasemdir við legu vegarins þar. Fyrirhugað er að sveigja veglínuna að klettaásum norðan Ekkjufells og taka þar efni úr skeringum. Eins og fram kemur í tilkynningu framkvæmdaraðila eru klettaásarnir einkennandi fyrir landslag svæðisins en áhrif á ásýnd lands verða á takmörkuðu svæði nálægt þéttbýlinu við Fellabæ. Umhverfisstofnun telur þó að hlífa eigi þessum klettum við raski eins og kostur er."

Ennfremur kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar að með því að beina þeim tilmælum til framkvæmdaraðila að bergskeringar yrðu lágmarkaðar hefði stofnunin einungis verið að taka undir álit Umhverfisstofnunar enda stofnuninni kunnugt um að ekki sé lagaheimild fyrir því að setja framkvæmdum skilyrði í ákvörðun um matsskyldu. Skipulagsstofnun bendir að lokum á að Umhverfisstofnun hafi ekki bent á neina umhverfisþætti á framkvæmdasvæðinu sem þyrftu ítarlegri skoðun.

Í umsögn Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins segir:

„Sú skering sem hér um ræðir er í klettaás austan fyrirhugaðrar veglínu milli stöðva 1200-1300. Eins og fram kemur í gögnum Vegagerðarinnar er ekki ráðgert að skeringin nái inn í bergstálið þar sem það er hæst. Umhverfisstofnun vill benda á að mögulegt ætti að vera að færa veginn fjær umræddum kletti til að tryggja enn frekar að klettinum verði ekki raskað og stækka jafnframt því skeringu við stöð 1350, en sú skering er í núverandi vegi. Það er rétt sem fram kemur í kæru Regula að bergskeringar séu óafturkræfar. Umhverfisstofnun telur reyndar að það eigi við um nánast alla efnistöku. Óafturkræfni efnistöku hefur hins vegar ekki í för með sér að öll efnistaka sé þar með óásættanleg eða hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Umhverfisstofnun telur að efnistaka geti oft verið ásættanleg ef þess er gætt við efnistöku og frágang að varðveita einkenni og útlit þeirrar jarðmyndunar sem skert er vegna efnistökunnar. Umhverfisstofnun taldi í fyrrnefndri umsögn ekki ástæðu til að gera athugasemdir við breytta legu Upphéraðsvegar. Ekki þyrfti að koma til þess að skerða klettaás milli stöðva 1200-1300 þar sem bergið er hæst. Því væru áhrif á jarðmyndanir innan svæðis nr. 646 á náttúruminjaskrá í lágmarki."

Vegagerðin telur að fyrirhuguð framkvæmd muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Fram komi í kynningarskýrslu framkvæmdarinnar að neikvæð umhverfisáhrif hennar verði lítil. Framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulagsáætlanir, í jaðri þéttbýlisins að Fellabæ og liggi að stórum hluta um raskað svæði. Skeringar í klapparása verði á um 120 m kafla og verði haldið í lágmarki eins og fram komi í kynningarskýrslu. Jákvæð áhrif framkvæmda felist í bættum og öruggari samgöngum vegna betri vegar og bættrar legu hans.

4. Staðsetning framkvæmdar – áhrif á útsýni.

Kærandi bendir á að umrætt svæði liggi afar nærri þéttbýli Fellabæjar og því séu sérstaklega ríkar ástæður til ítarlegs umhverfismats á fyrirhugaðri framkvæmd, sbr. 3.i. lið í viðauka 3. Lega fyrirhugaðs vegar muni jafnframt spilla verulega útsýni frá byggðinni í Fellabæ. Sjónarmiðum um það sé í engu getið af hálfu Skipulagsstofnunar.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að áhrifa framkvæmdarinnar á útsýni frá byggðinni í Fellabæ hafi ekki verið getið í tilkynningu Vegagerðarinnar til stofnunarinnar né hafi komið ábendingar um það í umsögn sveitarstjórnar. Í umsögn Umhverfisstofnunar hafi komið fram ábending um að framkvæmdin hefði áhrif á ásýnd lands á takmörkuðu svæði nálægt þéttbýlinu í Fellabæ. Skipulagsstofnun hafi talið í þessu ljósi að ásýndarbreyting væri svo minniháttar að ekki væru forsendur til að fjalla um þann umhverfisþátt í ákvörðuninni eða kalla eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um hann. Að mati Skipulagsstofnunar verður ásýndarbreyting séð frá Fellabæ þar sem vegurinn fer yfir flatt ræktarland. Hugsanlegar skeringar í klapparholt muni vart sjást frá þéttbýlinu en hins verða áberandi séð frá Ekkjufelli. Af hálfu kæranda hafi ekki verið lögð fram nein gögn er styðja þörf á því að skoða framkvæmdina með tilliti til sjónrænna áhrifa frá þéttbýlinu í Fellabæ.

Vegagerðin telur í umsögn sinni að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa óveruleg áhrif á útsýni frá Fellabæ. Ennfremur megi benda á að þar sem um sé að ræða lagningu vegar í nágrenni þéttbýlis þar sem umhverfi allt er meira og minna manngert sé ekki hægt að reikna með að útsýni haldist óbreytt til framtíðar, sbr. úrskurð umhverfisráðherra frá 14. júlí 2003.

 

5. Votlendi.

Kærandi bendir á að fyrirhugaður vegur mun liggja um votlendi og svæði þar sem unnt er að endurheimta votlendi. Mikið fuglalíf sé á svæðinu. Verulega skorti að hans mati á að framkvæmdaraðili hafi gert grein fyrir þessum þáttum og að Skipulagsstofnun sinnti rannsóknarskyldum vegna þeirra við matskylduákvörðunina. Matskylduákvörðunin sé þannig ólögmæt með vísan til rannsóknarskyldu stjórnvalda auk framangreindra efnisannmarka sem séu afleiðingar þess hve málið var óupplýst.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að votlendi á framkvæmdasvæðinu og í nágrenni þess hafi öllu verið raskað með framræslu og túnrækt þó að sum túnin muni ekki vera nytjuð lengur. Af þessum sökum hafi Umhverfisstofnun í umsögn sinni ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við legu vegarins með tilliti til áhrifa á fuglalíf sem stofnunin taldi ekki verða fyrir umtalsverðum áhrifum af framkvæmdinni. Umhverfisstofnun hafi ekki talið þörf á frekari upplýsingum um fuglalíf og því hafi Skipulagsstofnun ekki haft ástæðu til að ætla að skortur væri á upplýsingum varðandi þennan þátt.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að það votlendissvæði sem vísað sé til í kæru sé milli stöðva 200-1400 á fyrirhuguðum vegi. Það sé að lang mestu leyti framræstar mýrar þar sem ræktuð hafi verið tún. Ekki liggi fyrir neinar áætlanir um endurheimt votlendis á umræddu svæði. Því telji Umhverfisstofnun að meta verði ástand svæðisins eins og það er en ekki eins og það gæti hugsanlega orðið ef horfið yrði frá núverandi landnýtingu.

Vegagerðin bendir í umsögn sinni á að hin kærða ákvörðun byggi á ítarlegri kynningarskýrslu framkvæmdaraðila og sé rökstudd í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Í hinni kærðu ákvörðun séu rakin álit og umsagnir Fljótsdalshéraðs, heilbrigðiseftirlits Austurlands og Umhverfisstofnunar en enginn þessara aðila hafi séð ástæðu til að mælast til þess að metin yrðu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Það hafi verið samdóma álit þeirra að ekki væru líkur á að framkvæmdin myndi hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Vegagerðin telur alla málsmeðferð Skipulagsstofnunar og framkvæmdaraðila í samræmi við lagaskyldur, þ. á m. hafi rannsóknarskylda við meðferð málsins verið uppfyllt með framlagningu ítarlegrar kynningarskýrslu, öflun umsagna frá þar til bærum aðilum og annarri umfjöllun um málið.

III. Niðurstaða.

1. Sammögnunaráhrif.

Kærandi telur að líta eigi til sammögnunaráhrifa fyrirhugaðrar framkvæmdar og væntanlegrar breytingar á legu þjóðvegar 1 (Hringvegar). Framkvæmd Upphéraðsvegar sé órjúfanlegur hluti af væntanlegri breytingu á legu þjóðvegar 1 þar sem sé gert ráð fyrir byggingu nýrrar brúar yfir Lagarfljót. Ekki verði lagt mat á líkleg umhverfisáhrif Upphéraðsvegar nema með því að samtengdar framkvæmdir verði metnar um leið.

Samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 eru framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 3. viðauka laganna koma fram þær viðmiðanir sem líta ber til við mat á því hvort framkvæmd sem fellur undir 2. viðauka skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt ii. lið 1. tölul. 3. viðauka eru sammögnunaráhrif framkvæmdar með öðrum framkvæmdum meðal þess sem litið skal til við framangreint mat. Fram kemur í gögnum málsins að fyrirhuguð færsla Upphéraðsvegar er í samræmi við gildandi aðalskipulag Fellahrepps 2000-2012. Miðað við gildandi aðalskipulag kallar fyrirhuguð framkvæmd ekki á breytingu á legu þjóðvegar 1. Að mati Vegagerðarinnar er um sjálfstæða framkvæmd að ræða sem ráðist verður í hvað sem líður framkvæmdum við breytingu á legu þjóðvegar 1. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um mögulega færslu þjóðvegar 1 eða Lagarfljótsbrúar. Vegagerðin bendir á að framkvæmdaraðili hafi engar forsendur til að meta á þessu stigi með hvaða hætti skipulagi verði háttað í framtíðinni hvað þetta varðar. Ekki liggur því fyrir hvort og þá hvaða áhrif framkvæmdir við þjóðveg 1 kunna að hafa á áhrifasvæði Upphéraðsvegar. Að mati ráðuneytisins er ekki unnt að meta sammögnunaráhrif framangreindra framkvæmda þar sem ekki hafa verið teknar ákvarðanir um gerð og staðsetningu mannvirkja þjóðvegar 1. Ráðuneytið telur að eðlilegt hafi verið að miða í umfjöllun um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar við legu þjóðvegar 1 skv. gildandi aðalskipulagi eins og gert var í gögnum framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun.

2. Áhrif á landslag og jarðmyndanir.

Kærandi telur að í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé ekki fjallað nægjanlega um fyrirhugaða framkvæmd með tilliti til staðsetningar. Framkvæmdin sé fyrirhuguð á svæði á náttúruminjaskrá þar sem landslag einkennist af fellum og klettaásum með mýrarsundum og vötnum á milli. Telur kærandi að fyrirhugaðar skeringar úr klettaásum séu óafturkræf umhverfisáhrif sem telja verði umtalsverð.

Hluti fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis er innan svæðis nr. 646 á náttúruminjaskrá. Gildi svæðisins er lýst með eftirfarandi hætti í náttúruminjaskrá: „Afar sérkennilegt landslag, sem einkennist af fellum og klettaásum með mýrarsundum og vötnum á milli." Fram kemur í gögnum framkvæmdaraðila að skeringar í klappaása verði á um 120 m kafla og verði haldið í lágmarki. Ekki er gert ráð fyrir að skeringin nái inn í bergstálið þar sem það er hæst. Umhverfisstofnun taldi í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar að hlífa ætti þessum klettum við raski eins og kostur væri og tók Skipulagsstofnun undir þau tilmæli. Í umsögn Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins kemur fram að stofnunin telur að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á jarðmyndanir innan svæðis nr. 646 á náttúruminjaskrá verði í lágmarki. Því hafi stofnunin ekki gert athugasemdir við fyrirhugaða veglínu. Ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun að þó að slík bergskering sé í eðli sínu óafturkræf séu fyrirhuguð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á jarðmyndanir ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum, enda verði raski á klettum haldið í lágmarki eins og framkvæmdaraðili áformar.

3. Staðsetning framkvæmdar – áhrif á útsýni.

Kærandi bendir á að umrætt svæði liggi afar nærri þéttbýli Fellabæjar og því séu sérstaklega ríkar ástæður til ítarlegs umhverfismats á fyrirhugaðri framkvæmd, sbr. i. lið 3. tölul 3. viðauka. Lega fyrirhugaðs vegar muni jafnframt spilla verulega útsýni frá byggðinni í Fellabæ.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að framkvæmdin muni hafa minniháttar breytingar á ásýnd lands séð frá Fellabæ þar sem vegurinn fer yfir flatt ræktarland. Hugsanlegar skeringar í klapparholt muni vart sjást frá þéttbýlinu en hins vegar verða áberandi séð frá Ekkjufelli. Vegagerðin telur í umsögn sinni að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa óveruleg áhrif á útsýni frá Fellabæ. Ráðuneytið telur að ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem bendi til þess að fyrirhuguð sjónræn áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áhrif hennar á útsýni verði umtalsverð.

4. Votlendi.

Kærandi bendir á að fyrirhugaður vegur mun liggja um votlendi og svæði þar sem unnt er að endurheimta votlendi. Mikið fuglalíf sé á svæðinu. Verulega skorti að hans mati á að framkvæmdaraðili hafi gert grein fyrir þessum þáttum og að Skipulagsstofnun sinnti rannsóknarskyldum vegna þeirra við matskylduákvörðunina.

Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun benda á í umsögnum sínum að votlendi á framkvæmdasvæðinu og í nágrenni þess hafi þegar verið ræst fram og þar ræktuð tún. Svæðinu hafi því þegar verið raskað. Af þessum sökum hafi Umhverfisstofnun ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við legu vegarins með tilliti til áhrifa á fuglalíf sem stofnunin telji ekki verða fyrir umtalsverðum áhrifum af framkvæmdinni. Ráðuneytið tekur undir framangreint mat Umhverfisstofnunar að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á votlendi og fuglalíf séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í máli þessu lagði framkvæmdaraðili fram kynningarskýrslu þar sem gerð er grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og áhrifum hennar á umhverfið. Skipulagsstofnun aflaði umsagna Fljótsdalshéraðs, heilbrigðiseftirlits Austurlands og Umhverfisstofnunar. Álit þeirra var að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Engar ábendingar bárust um að upplýsingar skorti um fyrirhugaða framkvæmd. Sama gildir um þær umsagnir sem ráðuneytið aflaði við meðferð málsins. Eins og áður segir hefur votlendi á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði þegar verið raskað og þar ræktuð tún. Ráðuneytið telur að ekkert hafi komið fram í málinu sem styður þá fullyrðingu kæranda að ófullnægjandi grein hafi verið gerð fyrir áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á votlendi. Ráðuneytið fellst því ekki á að Skipulagsstofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

5. Niðurstaða.

Það er samdóma mat umsagnaraðila, Skipulagsstofnunar, heilbrigðiseftirlits Austurlands, Umhverfisstofnunar og Fljótsdalshéraðs, að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Með vísan til þess og þess sem rakið er í köflum 1-4 hér að framan er það niðurstaða ráðuneytisins að fyrirhuguð lagning Upphéraðsvegar (vegnúmer 931) á 1,6 km kafla milli Fellabæjar og Ekkjufells sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Staðfest er því ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. október 2006 um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

Úrskurðarorð.

Staðfest er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. október 2006 um að lagning 1,6 km vegar, Upphéraðsvegar, milli Fellabæjar og Ekkjufells á Fljótsdalshéraði, sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum