Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 61/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 61/2021

Miðvikudaginn 25. ágúst 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 2. febrúar 2021 um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 20. ágúst 2020 tilkynnti kærandi Sjúkratryggingum Íslands að hún hefði orðið fyrir slysi við íþróttaiðkun X. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 2. nóvember 2020. Í bréfinu segir að ekki hafi verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni frá baki mætti rekja til slyssins X. Umsókn um greiðslu úr slysatryggingum almannatrygginga hafi því verið synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. febrúar 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 8. mars 2021, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. mars 2021. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 2. nóvember 2020 verði endurskoðuð og að viðurkennt verði að hún eigi rétt á bótum úr slysatryggingum almannatrygginga vegna íþróttaslyss X.

Í kæru segir að kærandi hafi lent í íþróttaslysi X þegar hún hafi […] á vegum C. Hún hafði […] fallið harkalega á bakið. Við fallið hafi kærandi misst meðvitund og lamast í fótum og hafi því ekki getað gengið í þrjár vikur eftir slysið. Kærandi hafi verið flutt samdægurs með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans. Í bráðamóttökuskrá á slysdegi, þ.e. X, komi eftirfarandi fram:

,,A var í […] og datt, […], hún lenti aftur fyrir sig á spjaldhrygg. Verkjar aðallega þar yfir og út í vi. mjöðm. Hún er flutt hingað með sjúkrabíl.“ Þá segir einnig að hún sé ,,nokkuð meðtekin af verk“.

Kærandi hafi fengið eftirfarandi greiningu:

„Tognun og ofreynsla á aðra og ótilgreinda hluta lendahryggs og mjaðmagrindar, S33.7.“

Kærandi hafi aðeins farið í röntgenmyndatöku við komu sína á slysadeild en beináverkar hafi ekki greinst. Við svo búið hafi hún verið send heim með verkja- og bólgustillandi lyf.

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 2. nóvember 2020, hafi stofnunin synjað bótaskyldu á þeim grundvelli að ekki væru skýr orsakatengsl á milli slyssins X og þeirra verkja sem kærandi búi við. Þá sé vísað til þess hve seint slysið hafi verið tilkynnt, sbr. 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Fyrir liggi að slysið hafi átt sér stað fyrir 1. janúar 2016 og því gildi um það lög um almannatryggingar nr. 100/2007, IV. kafli þeirra, sem þó sé efnislega samhljóða lögum nr. 45/2015.

Í 6. gr. laga nr. 45/2015 komi fram að þegar slys beri að höndum sem ætla megi að sé bótaskylt, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði tafarlaust senda tilkynningu um slysið á því formi sem Sjúkratryggingar Íslands skipi fyrir um. Í 6. gr. komi og fram að heimilt sé að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys hafi borið að höndum séu atvik svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta. Í reglugerð um tilkynningarfrest slysa, settri með stoð í 6. gr. laganna, komi eftirfarandi fram í 3. gr:

„Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.

Almennt skal ekki fallið frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests þegar liðið hafa meira en 10 ár frá því að slys bar að höndum og þar til það er tilkynnt til Tryggingastofnunar ríkisins.“

Kærandi telji að fyrir liggi öll þau læknisfræðilegu gögn sem nauðsynleg séu til að varpa ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni og þeirri sjúkrastofnun sem hafi séð hana fyrst eftir slysið ásamt gögnum um fyrra heilsufar.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé vísað til sjúkraskrárfærslu frá lok árs X þar sem skráð sé að kærandi hafi fyrir tíu dögum […] lent á baki. Hún hafi eftir það fengið verki á mjaðmahnútusvæði beggja vegna við hlaup. Framangreint óhapp hafi ekki truflað kæranda frekar. Hvað varði sjúkraskrárfærslu, dags. X, sem Sjúkratryggingar Íslands vísi til, sé skráð að kærandi hafi orðið fyrir slysi við […] og fengið verk í mjóbak. Kærandi hafi ekki leitað sér frekari læknishjálpar eftir framangreint óhapp.

Það sé ekki fyrr en á slysdegi, þ.e. X, sem tíðar komur til lækna vegna stoðkerfisverkja hefjist. Í samskiptaseðli, dags. X, komi fram að kærandi hafi verið í sjúkraþjálfun í fjóra mánuði og náð litlum árangri. Hún hafi dottið harkalega á bakið fyrir þremur árum (X). Í samskiptaseðli, dags. X, sé einnig getið um slysið X og þar komi fram að kærandi hafi dottið harkalega á bakið í […] og hafi síðan verið með viðvarandi mjóbaksverki, verri vinstra megin. Kærandi hafi síðar greinst með brjósklos. Enn sé getið um slysið í samskiptaseðli X, þ.e. getið sé um að kærandi hafi dottið á bakið þegar hún hafi verið að […]. Kæranda hafi í framhaldinu verið vísað í D til endurhæfingar vegna langvinnra bakverkja. Í göngudeildarnótu D, dags. X, sé enn og aftur skráð að verkir í baki hafi byrjað að hrjá kæranda X. Þá segi:

,,Datt […] X á bakið og var handónýt í baki í einhverja mánuði. Var send í röntgen rannsókn en hún var eðlileg. Verið með þessa verki síðan þá. Þessir verkir síðan koma aðeins og fara.“

Þá sé einnig getið um slysið X í sjúkraskrárfærslum, dags. X, X og X. Athygli veki að í samskiptaseðli læknakandidats, dags. X, segi:

,,A er X ára hraust kona sem lenti í því að lenda mjög illa á bakinu […] fyrir nokkrum árum. Undirrituð var vitni að þessu og þetta var slæmt högg. Hún var […]. Lenti á bakinu. […]. Hefur síðan verið slæm í bakinu.“ [Leturbreyting undirritaðs].

Í framhaldinu hafi verið fyrirhugað að kærandi færi í verkjameðferð á E.

Ekki sé unnt að fallast á með Sjúkratryggingum Íslands að ekki hafi verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni frá baki mætti rekja til slyssins X og að af þeim sökum séu orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns óljós.

Kærandi telji að slysið, sem hún hafi orðið fyrir X, sé meginorsök þeirra miklu verkja sem hrjái hana í dag. Ágætis samtímagögn séu fyrir hendi sem að mati kæranda sýni fram á að það slæma högg sem hún hafi orðið fyrir […] þennan dag sé orsök þeirra verkja sem hún búi við í dag.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að 20. ágúst 2020 hafi stofnuninni borist tilkynning um meint slys sem muni hafa átt sér stað X. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 2. nóvember 2020, hafi stofnunin synjað umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingu á þeim grundvelli að skilyrði 6. gr. laga nr. 45/2015 (efnislega samhljóða 28. gr. laga nr. 100/2007) hafi ekki verið uppfyllt og því hafi málið ekki verið skoðað frekar efnislega. Synjun á bótaskyldu sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi fram að samkvæmt II. kafla laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga séu launþegar slysatryggðir við vinnu sína að uppfylltum nánari skilyrðum laganna. Í 6. gr. laganna komi fram að þegar slys beri að höndum sem ætla megi að bótaskylt sé, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði tafarlaust senda tilkynningu um slysið á því formi sem Sjúkratryggingar Íslands skipi fyrir um. Hafi sá sem átti að tilkynna slys vanrækt það, skuli það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysi varð eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta, sé það er gert áður en ár sé liðið frá því að slysið hafi borið að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys hafi borið að höndum séu atvik svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipti. Það skilyrði sé sett að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að sýnt sé fram á orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða.

Í tilkynningu komi fram að slysið hafi átt sér stað X en það hafi ekki verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands fyrr en 20. ágúst 2020 og hafi tilkynningarfrestur 6. gr. því verið liðinn. Eins og áður hafi komið fram verði aðeins vikið frá tilkynningarfresti laganna sé sýnt fram á orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða. Samkvæmt tilkynningu hafi kærandi slasast þegar hún hafi verið að […] á vegum C Hún hafi […] dottið beint á bakið. Hún hafi misst meðvitund við fallið og ekki getað gengið í þrjár vikur eftir atvikið og síðar hafi komið í ljós að hún hafi fengið brjósklos í bakið.

Í samskiptaseðli X (tæpum X árum fyrir slysið) komi fram að kærandi hafi verið í „[…]lenti á baki fyrir 10 dögum. Eftir það fær hún verki á mjaðmahnútusvæði beggja vegna þegar hún hleypur. Hafði haft mesta verkinn fyrst eftir áverkann um neðanverðan brjóstkassa og brjóstbak beggja vegna en það ekki að trufla núna“. Í bráðamóttökuskrá, dags. X, komi fram að kærandi „hefur reyndar verið með viðvarandi verki í nokkurn tíma í mjóbaki, misgóð. […] hefur verið í sjúkraþjálfun en þar vaknaði grunur um brjóskloseinkenni en hún segist hafa farið í skoðun til a.m.k. eins læknis áður sem taldi þetta ekki vera brjóskloslegt. […] komu hingað í dag í þeirri von að fá einhverja myndrannsókn sem myndi skera úr um það hvort hún væri með brjósklos. Ég segi þeim að hún sé í raun ekki með nein einkenni sem bendi sérstaklega til þess, frekar eins og stoðkerfiseinkenni frá bakinu sjálfu.“ Þá komi fram í niðurstöðu rannsókna frá G þann X vegna segulómunar á lendhrygg að „discar sæmilega varðveittir en í LIV-V bilinu er breiðbasa disc útbungun posteriort. Þetta veldur þrengingum í lateral recessum, meira vinstra megin. Ræturnar eru ekki verulega klemmdar en það er þó þröngt um þær.“

Í bráðamóttökuskrá Landspítala frá X segi að kærandi hafi meiðst í […], sé nokkuð meðtekin af verk en ekki sjáanleg áverkamerki. Kærandi hafi þó kvartað mest yfir spjaldhrygg og út í mjaðmir en einnig neðst í mjóhrygg. Þann X sé skráð í bráðamóttökuskrá Landspítala að kærandi hafi lent í [slysi] þann X og að hún „fann ekkert til eftir slysið fyrr en síðar um kvöldið. Var þá stíf og aum í mjóhrygg. Verið slæm síðan. Verst að sitja kyrr lengi. […] Eðlilegt flexion um mjóhrygg og ekki verki. Verkjar við extension um mjóhrygg en klárar ágætis hreyfiferil. […] Tognun í baki.“ Við röntgenrannsókn hafi ekki verið að sjá skrif eða beináverka. Í samskiptaseðli, dags. X, kemur fram að kærandi „Æfði […] fyrir X árum síðan datt hún harkalega á bakið, gat ekki staðið eða hreyft fæturnar. Verið slæm síðan vi.megin í mjóhrygg. Fór á BMT þá og teknar myndir af hrygg sem sýndu ekki brot. Fór í aðgerð á fótunum vegna beinhimnubólgu (X) – beitti sér rangt eftir það og lá mikið og eftir það fór að bera meira á verkjum. […] A/P: ekki merki um brjósklos við skoðun og ekki hrygggigt“. Í umsögn um segulómun af baki, dags. X, komi fram að „Eins og við skoðun X eru hrörnunarbreytingar og lækkun á liðþófanum L4/L5. Þar er prolaps sem gengur aftur í miðlínu og aðeins til vinstri eins og var við fyrri skoðun, þessi afturbunga er jafnstór og jafnbreið […] borið saman við rannsókn X er ekki marktæk breyting á stærð eða formi prolaps L4/L5 sem gengur aftur í mænugang, klemmir að mænusekk og meira yfir til vinstri.“

Samkvæmt framangreindu og sjúkraskrá kæranda hafi hún verið með bakverki um nokkurt skeið. Þá hafi kærandi óskað eftir myndrannsókn með tilliti til brjóskloss í X, eða um hálfu ári fyrir hið tilkynna slys. Þar sem kærandi hafi verið með svipuð einkenni í baki fyrir hið tilkynnta slys sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki hafi verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni frá baki megi rekja til slyssins X. Þar af leiðandi séu orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns óljós og því séu ekki skilyrði til að víkja frá tilkynningarfresti 6. gr. laganna. Umsókn um greiðslu úr slysatryggingum almannatrygginga sé synjað.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss sem hún varð fyrir X.

Við úrlausn málsins ber að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Í X voru í gildi ákvæði um slysatryggingar í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 27. gr. laganna taka slysatryggingar til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr. Í 2. málsl. sömu greinar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Í þágildandi 1. mgr. 28. gr. laganna segir að þegar slys beri að höndum, sem ætla megi að sé bótaskylt samkvæmt lögunum, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði, sé ekki um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi sem sjúkratryggingastofnunin skipi fyrir um til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans. Þá segir í 2. mgr. 28. gr. að sé vanrækt að tilkynna um slys sé hægt að gera kröfu til bóta, sé það gert áður en ár sé liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slysið bar að höndum séu atvik svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipti. Einnig segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Með stoð í þágildandi 2. mgr. 28. gr. laganna, sbr. nú 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/2015, hefur verið sett reglugerð nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.“

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning um slys kæranda X og voru þá liðin X ár og X mánuðir frá því að slysið átti sér stað. Frestur til að tilkynna slysið var þá liðinn samkvæmt þágildandi 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin synjaði bótaskyldu í málinu á þeirri forsendu að ekki væru uppfyllt skilyrði til að víkja frá tilkynningarfresti 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, sbr. þágildandi 28. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum, að greiða bætur þótt liðið sé meira en ár frá slysi. Undantekningarákvæðið ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Skilyrði þess að vikið sé frá ársfrestinum er að ljóst sé að orsakasamband sé á milli slyss og þess áverka sem sótt er um bætur fyrir, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægileg. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands er slysinu lýst þannig:

„Umbjóðandi minn var að […] á vegum C Hún hafði […] og hún datt beint á bakið. Hún missti meðvitund við fallið. Umbjóðandi gat ekki gengið í þrjár vikur eftir atvikið og síðar kom í ljós að hún fékk brjósklos í bakið.“

Þá liggur fyrir bráðamóttökuskrá, dags. X, undirrituð af E lækni, þar sem meðal annars segir:

„A var í […] og datt, þegar […], hún lenti aftur fyrir sig á spjaldhrygg. Verkja aðallega þar yfir og út í vi. möðm.

[…]

Skoðun

Nokkuð meðtekin af verk. Ekki sjáanleg áverkamerki. Kvartar mest yfir spjaldhrygg og út í mjaðmir en einnig neðst í mjóhrygg. Ekki neurol. brotfallsmerki.

Við skoðun er hún vel vakandi og áttuð, fékk ekki höfuðhögg að því er virðist.

Ekki þreifieymsli yfir miðlínu hryggjar þreifað frá hálshrygg og niður á lendhrygg.

Hún er eiltíð aum yfir ofanverðu lumbosacral svæði en eymsli eru meira neðar yfir SI liðum og út í vi. mjöðm.

Ekki eymsli yfir liðbeini. Distal status á útlimum eðlilegur.

Enginn verkur í nárum.

Rannsóknir

RTG. LENDHRYGGUR, SACRUM OG PELVIS:

Beináverkar greinast ekki.

Álit og áætlun

Fáum rtg.mynd af lumbosacral hrygg og pelvis og ég sé ekki nein brot.

Líklega tognun og mar. Fær verkja og bólgustillandi lyf. Eftirlit í Hg. eftir þörfum.“

Í sjúkraskrá kæranda kemur fram í færslu frá X:

„Er í […]. Var […] og lenti á baki fyrir 10 dögum. Eftir það fær hún verki á mjaðmahnútusvæði beggja vegna þegar hleypur. Hafði haft mesta verkinn fyrst eftir áverkann um neðanverðan brjóstkassa og brjóstbak beggja vegna en það ekki að trufla núna. Obj. Bil greinilega festumein á troch. bæði isometriskt test jákv. svo og tog á glutei og tenso fasciae lata. eymsli á festum við troch. framanvert“

Þá kemur fram í bráðamóttökuskrá X:

„A er X ára gömul stúlka sem kemur á SBD til skoðunar ásamt […]. Hún […], fær slynk á bakið og skellur svo niður í kjölfarið. Eftir það verkir í mjóbaki. Hún hefur reyndar verið með viðvarandi verki í nokkurn tíma í mjóbakinu, misgóð. Versnaði áberandi við þetta óhapp. Verkirnir leiða aðeins niður í rasskinnar beggja vegna og koma klárlega fram við hreyfingar. […] A hefur verið í sjúkraþjálfun en þar vaknaði grunur um brjóskloseinkenni en hún segist hafa farið í skoðun til a.m.k. eins læknis áður sem taldi þetta ekki vera brjóskloslegt. […] komu hingað í dag í þeirri von að fá einhverja myndrannsókn sem myndi skera úr um það hvort hún væri með brjósklos. Ég segi þeim að hún sé í raun ekki með nein einkenni sem bendi sérstaklega til þess, frekar eins og stoðkerfiseinkenni frá bakinu sjálfu.“

Í niðurstöðu rannsókna frá G X segir:

„Segulómun lendhryggur: Almennt eru discar sæmilega varðveittir en í L:IV-V bilinu er breiðbasa disc útbungun posteriort. Þetta veldur þrengingum í lateral recessum, meira vinstra megin. Ræturnar eru ekki verulega klemmdar en það er þó þröngt um þær.“

Af gögnum málsins er ljóst að þegar kærandi varð fyrir slysinu X hafði hún sögu um bakverki. Þannig liggur fyrir að tæplega X árum fyrir slysið hlaut hún áverka þegar hún féll á bak við íþróttaiðkun og rúmlega X fyrir slysið leitaði hún á bráðamóttöku vegna bakverkja og var þá grunur um brjósklos. Þá liggur fyrir að áður en slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands lenti kærandi í [slysi] þann X og hlaut tognun í baki.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær þannig ekki ráðið af gögnum málsins að skýrt orsakasamband sé á milli slyss kæranda þann X og þeirra einkenna sem hún býr við nú, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005. Að mati úrskurðarnefndar er því ekki heimilt að beita undantekningarreglu þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um almannatryggingar til að falla frá meginreglu 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna um að tilkynna skuli tafarlaust um slys og í síðasta lagi innan árs frá slysi.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum