Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 2/2011, úrskurður 18. nóvember 2011

Föstudaginn 18. nóvember 2011 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 2/2011

 

Vegagerðin

gegn

Hjarðarhaga ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

 

Með matsbeiðni dags. 26. maí 2011 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 8. júní 2011 fór eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, Reykjavík, þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar eignarnámsbætur fyrir 2,19 ha. lands undir veg að nýrri brú yfir Ysta-Rjúkanda auk lands undir áningastað nærri brúarsporðinum. Til frádráttar kemur 0,648 ha. eldra vegsvæði sem tilheyrir þegar eignarnema að hans mati. Andlag eignarnámsins er því mismunur á flatarmáli nýs og gamals vegsvæðis, 1,54 ha.

 

Þá krefst eignarnemi að nefndin meti hæfilegar bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands undir losun 6.500 rúmm. umframefnis meðfram vegi í allt að 1 km. fjarlægð frá framkvæmdasvæði og fyrir bráðabirgðaanot lands undir urðun afgangsefnis úr eldri brú sem tekin verður niður.

 

Þá gerði eignarnemi kröfu um að honum yrði heimiluð umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið með vísan til 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Eignarnemi byggir eignarnámsheimild sína á 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

 

Eignarnámsþoli er Hjarðarhagi ehf., kt. 460808-0490, Hjarðarhaga 701, Egilsstöðum.

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 8. júní 2011. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni og fleiri gögn. Málinu var að þú búnu frestað til vettvangsgöngu til 6. júlí 2011.

 

Miðvikudaginn 6. júlí 2011 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar. Eignarnemi ítrekaði kröfu sína um að fá umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið. Lögmaður eignarnámsþola mótmælti kröfu eignarnema um umráðatöku og var honum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð vegna þessa þáttar málsins.

 

Föstudaginn 15. júlí 2011 tók matsnefndin ákvörðun um að heimila eignarnema umráð hins eignarnumda þó matinu væri ekki lokið enda legði eignarnemi fram tryggingu fyrir greiðslu eignarnámsbóta að fjárhæð kr. 2.000.000.

 

Mánudaginn 8. ágúst 2011 var málið tekið fyrir. Eignaremi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola til 29. ágúst 2011.

 

Með bréfi dags. 9. ágúst 2011 krafðist lögmaður eignarnámsþola þess að matsmálinu yrði vísað frá matsnefndinni og að nefndin endurupptæki eða afturkallaði ákvörðun sína um umráðatöku og tæki nýja ákvörðun þar sem umráðatöku væri hafnað. Matsnefndin gaf eignarnema kost á að koma að sjónarmiðum sínum vegna þessara krafna eignarnámsþola og bárust matsnefndinni sjónarmiðin með bréfi lögmanns eignarnema dags. 22. ágúst 2011.

 

 

Með bréfi dags. 31. ágúst 2011 tilkynnti matsnefndin lögmanni eignarnámsþola að ekki væri fallist á kröfu hans um frávísun málsins. Þá var einnig hafnað kröfu um endurupptöku ákvörðunar um umráðatöku.

 

Miðvikudaginn 14. september 2011 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram bréfaskipti vegna kröfu um frávísun og endurupptöku ákvörðunar um umráðatöku. Þá lagði eignarnámsþoli fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir nefndinni til 19. október 2011 .

 

Miðvikudaginn 19. október 2011 var málið tekið fyrir. Báðir aðilar lögðu fram gögn og var málið að því búnu flutt munnlega fyrir nefndinni og tekið til úrskurðar.

 

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Af hálfu eignarnema er þess krafist að matsnefndin meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna eignarnáms á 2,19 ha. lands að frádregnum 0,648 ha. sem þegar tilheyra eignanema. Þannig er krafist bóta fyrir samtals 1,54 ha. lands sem notað verður undir nýjan veg og áningastað/útskot nærri hinni nýju brú svo vegfarendur geti stöðvað ökutæki örugglega og virt fyrir sér fossinn í Ysta-Rjúkanda.  Eignarnemi kveður 1,19 ha. af hinu eignarnumda landi vera gróið land og 0,35 ha. tún.

 

Þá er krafist mats á bótum vegna bráðabirgðaafnota lands undir losun umframefnis sem til fellur við framkvæmdir á svæðinu. Um er að ræða land fyrir um 6.500 rúmm. efnis sem koma þarf fyrir meðfram vegi ofan vegar í allt að 1 km. fjarlægð frá framkvæmdasvæði. Þér er og krafist bóta fyrir bráðabirgðaafnot lands vegna urðunar á eldri brú yfir Ysta-Rjúkanda. Efnið sem urða þarf er 215 rúmm.

 

Þá krefst eignarnemi þess að eignarnámsþola verði ákvarðaður hóflegur málskostnaður við hagsmunagæslu miðað við eðli og umfang málsins.

 

Eignarnemi kveður eignarnámið til komið vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ysta-Rjúkanda og nauðsynlega veglagningu að hinni nýju brú og svæði undir áningarstað næst brúarsporðinum. Eignarnemi tekur sérstaklega fram að vatnsréttindi í Ysta-Rjúkanda séu undanskilin eignarnáminu sbr. 2. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 auk veiðiréttinda sem tilheyra eða kunna að tilheyra hinni eignarnumdu spildu.

 

Eignarnemi mótmælir sérstaklega kröfu eignarnámsþola um frávísun málsins frá matsnefndinni og telur engar efnislegar eða lagalegar ástæður valda því að vísa eigi málinu frá.

 

Eignarnemi kveðst hafa kynnt eignarnámsþola framkvæmdina og boðið honum bætur með bréfum sem rituð voru í mars og apríl 2009. Ekkert svar hafi borist frá eignarnámsþola og sendi eignarnemi þá drög að samningi og tillögu að bótum með bréfi dags. 4. júní 2009 og óskaði eftir athugasemdum fyrir 7. júlí s.á.  Samtals voru kr. 389.950 boðnar í eignarnámsbætur auk kr. 142.000 vegna fyrirsjáanlegrar röskunar á um 400 m. af girðingum ofan vegar.

 

Eignarnemi segir samningaviðræður hafa farið í bið fram á haustið 2010 vegna aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Eignarnemi telur aðila hafa verið komna nærri því að ná samkomulagi um bætur á haustdögum 2010 en ekki hafi gengið saman með aðilum þrátt fyrir miklar tilraunir þar að lútandi. Eignarnemi kveðst vilja nýta sér eignarnámsheimild sína en þiggur ekki boð eignarnámsþola um afnot af landinu með samningum við hann, jafnvel þó þau afnot yrðu endurgjaldslaus. Eignarnemi kveðst hafa reynt sitt ýtrasta til að ná sáttum við eignarnámsþola áður en málið var sent matsnefndinni til meðferðar. Eignarnemi segir lokatilboð sitt, sem sent var til eignarnámsþola þann 18. apríl 2011, hafi samtals hljóðað upp á kr. 467.450, en eignarnemi lýsir sig óbundinn af fyrri tilboðum þar sem málið sé nú komið í þann farveg að bætur verði ákvarðaðar af Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Eignarnemi telur það hafa verið ljóst, eftir að lokaboði hans var ekki tekið, að frekari sáttatilaunir væru þýðingalausar og var því tekin ákvörðun um eignarnám á hinum eignarnumdu réttindum og sú ákvörðun tilkynnt eignarnámsþola með bréfi dags. 3. maí 2011. Eignarnemi telur að sú staðreynd að eignarnámsþoli hefur nú kært eignarnámsákvörðunina til innanríkisráðuneytisins sýna svo ekki verið um villst að með öllu hafi verið útilokað að ná samningum við eignarnámsþola.

 

Eignarnemi tekur sérstaklega fram að tölulegur ágreiningur hafi ekki verið milli aðila í sáttatilraunum þeirra, heldur hafi kjarni ágreiningsins snúist um að eignarnámsþoli hafi ekki vilja eftirláta beinan eignarrétt að hinu afmarkaða vegsvæði. Eignarnemi kveðst hafa seilst langt til að freista þess að ná samningum, en allt hafi komið fyrir ekki, eignarnám hafi verið óhjákvæmilegt með eftirfarandi meðferð málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Eignarnemi mótmælir því að eignarnámsþoli eigi rétt á bótum en fyrir annað en hin eignarnumdu réttindi. Þannig telur eignarnemi eignarnámsþola ekki eiga að fá sérstakar bætur fyrir jarðrask, átroðning vegna framkvæmdanna, enda sé gert ráð fyrir að framkvæmdirnar fari fram innan þess svæðis sem greitt verður fyrir vegna eignarnámsins. Þá verði vegurinn ekki lagður um tún eða önnur ræktuð svæði og muni því framkvæmdin ekki hafa áhrif á nýtingu jarðarinnar. Þá mun eignarnemi lagfæra girðingar sem munu laskast ofan vegar svo sem honum er skylt að lögum.

 

Eignarnemi byggir eignarnámsheimild sína á 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Eignarnemi heldur því sérstaklega fram að lög geri ráð fyrir eignarnámi ef ekki takist samningar við landeigendur. Heimildir vegalaga kveði ekki á um að land sé fengið að láni eða leigu undir þjóðvegi og ekki sé gert ráð fyrir að leigunám sé heimilt. Af þessum sökum hafi ekki verið um annað að ræða fyrir eignarnema, úr því samningar tókust ekki við eignarnámsþola, en að taka landið eignarnámi og vísa ágreiningi um bætur fyrir hið eignarnumda til Matsnefndar eignarnámsbóta. Eignarnemi kveðst ekki skilja andstöðu eignarnámsþola við þessa tilhögun. Þegar liggi fyrir að þjóðvegurinn hafi um áratugaskeið legið um land eignarnámsþola og verið viðhaldið af almannafé. Um eignarhald eignarnema á eldra vegsvæði vísar eignarnemi til Hrd. 1980:920 (Leirvogstungudómur), en þar hafi grundvallarreglan um eignarrétt ríkisins að eldra vegsvæði verið staðfest. Eignarnemi mótmælir sjónarmiðum eignarnámsþola sem fram koma í málatilbúnaði hans í sambandi við eignarhaldið á eldra vegstæði.

 

Eignarnemi tekur fram að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar eigi eignarnámsþoli að fá fullt verð fyrir hin eignarnumdu réttindi. Meginreglan sé því sú að bæta eigi fyrir allt fjárhagslegt tjón sem eignarnámsþoli verði fyrir, þ.e. vegna eignarámsins og þess óhagræðis sem eignarnámið hefur í för með sér fyrir eignarnema og leiðir til fjártjóns.

 

Eignarnemi kveður að íslenskar fræðikenningar hafi miðað við þrenns konar mælikvarða þegar bætur fyrir eignarnám eru ákvarðaðar: Söluverð, notagildi og enduröflunarverð. Eignarnemi bendir á að fasteignamat jarðarinnar Hjarðarhagi sé kr. 428.000 og 9,9 ha. af ræktuðu landi séu metnir á kr. 653.000. Ræktaða landið sé því metið á kr. 66.000 pr. ha. Eignarnemi segir að skráð fasteignamat jarðarinnar sé eitt af því sem líta beri til við mat á eignarnámsbótum. Eignarnemi telur að einnig beri að líta til viðmiðana sem fram koma í vinnureglum hans sjálfs og gefnar hafa verið út í því skyni að samræma vinnubrögð í samningum við landeigendur, sbr. orðsendingu Vegagerðarinnar nr. 2/2009 sem lögð hefur verið fram í málinu. Eignarnemi kveður að við mat á bótum fyrir land beri að miða bætur við ætlað söluverð lands hverju sinni. Sé ekki unnt að staðreyna söluverð lands beri að líta til orðsendingar eignarnema sem gefi leiðbeiningar um verðmæti lands að teknu tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika o.fl. Eignarnemi telur að samkvæmt núgildandi vinnureglum hafi honum borið að bjóða bætur á bilinu kr. 75.000-175.000 pr. ha. nema hærra söluverð/markaðsverð væri í  ljós leitt. Því til viðbótar hafi verið heimilt að bjóða bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap afurðagefandi túns allt að kr. 322.000 pr. ha.

 

Eignarnemi leggur áherslu á að einungis fjárhagslegt tjón beri að bæta vegna eignarnámsins. Í því sambandi bendir hann sérstaklega á að vegur hafi legið um land eignarnámsþola um áratugaskeið og því feli eignarnámið nú ekki í sér neina breytingu á stöðu jarðarinnar þó svo veglína sé lítillega löguð til og vegurinn lagaður að kröfum nútímans. Áhrif eignarnámsins séu því minni en ef verið væri að leggja veg um land sem vegur hefur ekki legið um áður.

 

Eignarnemi hafnar því alfarið að verð á landi á þessu svæði sé hærra en kr. 200.000 pr. ha. fyrir algróið land. Þá eigi eftir að taka tillit til þess að um sé að ræða minna gróið land næst núverandi vegi. Eignarnemi kveður forsendur tilboðs hans til eignarnámsþola hafa m.a byggst á úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 14/2006 (Brekka) að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á fasteignaverði síðan þá. Þá hafi eignarnemi einnig litið til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 10/2008 (Ásgrímsstaðir og Móberg). Eignarnemi telur að eðlilegt og sanngjarnt verð á landi á þessu svæði sé kr. 150.000 en hámarkasverð sé kr. 175.000 pr. ha.  Eignarnemi telur  að eignarnámsþoli verði ekki fyrir neinu fjártjóni vegna urðunarinnar, en ef matsnefndin komist að annarri niðurstöðu eigi að fara um bætur vegna þessa eins og um bráðabirgðaafnot/tímabundin afnot lands sé að ræða, eða jarðrask sem eignarnámsþolum sé stundum ákvarðaðar bætur fyrir.

 

Varðandi málskostnað telur eignarnemi að lögmaður eignarnámsþola hafi gripið til ýmissa úrræða undir rekstri málsins sem ekki hafi verið tilefni til miðað við atvik og umfang málsins. Gerir eignarnemi þá kröfu að eignarnámsþola verði einungis ákvörðuð hæfileg fjárhæð í kostnað vegna rekstrar málsins miðað við eðli og umfang þess.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola eru eftirfarandi kröfur gerðar:

Aðallega að málinu verði vísað frá matsnefndinni.

Til vara er þess krafis að nefndin úrskurði um árlega verðtryggða greiðslu að fjárhæð kr. 80.000 frá eignarnema til eignarnámsþola fyrir eftirgreinda þætti:

a)      Fyrir afnot af þeim 2,19 ha lands í landi eignarnámsþola sem eignarnemi hyggst nýta undir nýja brú og breytt vegsvæði og áningarstað.

b)      Fyrir afnot af landi við elstu brú sem eignarnemi hyggst láta standa áfram í landi eignarnámsþola ásamt göngustíg að henni.

c)      Fyrir afnot lands undir losun umframefnis sem til fellur við framkvæmdirnar.

d)     Fyrir afnot lands undir urðun afgangsefnis úr eldri brú auk fullrar greiðslu vegna túns undir vegsvæði, ræktun, jarðrask/átroðning og bætur vegna trjáplantna að fjárhæð kr. 620.000.

Til þrautavara er þess krafist að nefndin úrskurði um fullt verð fyrir þau réttindi sem fallist veður á að taka eignarnámi og árlega verðtryggða greiðslu fyrir þau réttindi sem fallist verður á að veita eignarnema afnotarétt af.

 

Í öllum tilvikum er gerð krfa um að eignarnámsþola verði ákvarðaður málskostnaður að skaðlausu að mati nefndarinnar eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns eignarnámsþola.

 

Af hálfu eiganarnámsþola er því mótmælt að eignarnemi eigi eignarétt á landi undir núverandi vegi á svæðinu. Eignarnámsþoli telur að samgöngumannvirki á svæðinu hafi í upphafi að miklu leyti byggst á frumkvæði og kostnaði heimamanna auk þess sem uppgræðsla jarðarinnar, bæði innan velhelgunarsvæðisins og utan þess, hefur verið í höndum eignarnámsþola sem hefur lagt verulegan kostnað til þess verkefnis á síðastliðnum árum.

 

Eignarnemi rökstyður aðalkröfu sína um frávísun málsin í fyrsta lagi með því að ekki sé búið að úrskurða um lögmæti eignarnámsins eftir kæru hans á eignarnámsákvörðuninni auk þess sem skilyrðum 72. gr. stjórnarskrár um nauðsyn og meðalhóf sé ekki fullnægt. 

 

Í öðru lagi byggir eignarnámsþoli kröfu um frávísun á því að kröfugerð eignarnema í málnu sé óskýr og óljós. Telur eignarnámsþoli að kröfugerð eignarnema í málinu samrýmist í engu reglum um kröfugerð í stefnu í einkamálum sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Að mati eignarnámsþola verður að gera þá kröfu til eignarnema í máli sem þessu að kröfugerð hans sé það skýr að taka megi hana upp í úrskurðarorð, verði fallist á hana. Telur eignarnámsþoli að eignarnemi eigi að gera ákveðna fjárkröfu fyrir nefndinni. Verði ekki fallist á þessi sjónarmið eignarnámsþola er á því byggt að 2. og 3. kröfuliðir í matsbeiðni, þ.e þeir liðir er fjalla um bráðabirgðaafnot lands, séu svo vanreifaðir að þeri séu með öllu ótækir til úrskurðar og þar með málið í heild sinni. Þannig sé krafist bóta vegna bráðabirgðaafnota en við vettvangsgögnu málsins hafi því verið lýst að ekki stæði til að skila landinu aftur, hvað þá að skila því í sama ástandi og það er í í dag. Eignarnámsþoli bendir á að krafa um tímabundin afnot lands njóti engrar lagastoðar. Í 34.-36. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé fjallað um bráðabirgðaafnot en augljóst sé að þar sé ekki átt við jafn varanleg afnot og um ræðir í þessu máli. Af 3. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms leiði hins vegar að eignarnemi geti krafist stofnunar afnotaréttinda. Eignarnámsþoli telur í ljósi hugtakanotkunar vegalaga og laga um framkvæmd eignarnáms sé ljóst að gera verði greinarmun á bráðabirgðaafnotarétti vegalaga og afnotarétti samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Það hafi eignarnemi ekki gert í máli þessu og því sé kröfugerð hans röng, ónákvæm og vanreifuð. Eignarnámsþola sé ómögulegt að verjast kröfu um ákvörðun endurgjalds fyrir lands sem fjallað er um í kröfuliðum 2 og 3 hjá eignarnema, enda liggi ekki fyrir hvert inntak þeirrar kröfu sé auk þess sem stærð þess lands sem um ræðir sé ekki skilgreind.

 

Frávísunarkrafa eignarnámsþola er í þriðja lagi byggð á því að eignarnemi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að krefjst mats á verðmæti lands eignarnámsþola, þegar fyrir liggur að honum standa til boða endurgjaldslaus afnot þeirra. Í raun sé um lögspurningu að ræða, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Því beri að vísa málinu frá nefndinni.

 

Vegna varakröfu gerir eignarnámsþoli þá kröfu að matsnefndin meti hæfilegt árlegt leigugjald fyrir það land sem eignarnemi þurfi á að halda vegna framkvæmda á landi eignarnámsþola. Telur eignarnámsþoli að af 3. gr. laga nr. 11/1973 og vegalögum nr. 80/2007 sé ljóst að engar hömlur séu á heimild Vegagerðarinnar til að stofna til afnotaréttar yfir því landssvæði sem eignarnemi þurfi á að halda vegna framkvæmdarinnar og af 2. gr. laga nr. 11/1973 leiði að Matsnefnd eignarnámsbóta geti skorið úr um endurgjald af þessu tagi. Telur eignarnámsþoli að reglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar leiði til þess að velja beri vægara úrræðið, þ.e. að ekki sé heimilt að mæla fyrir um eignarnám ef önnur vægari úrræði komi til greina. Telur eignarnámsþoli að eðlileg greiðsla fyrir afnotaréttindin sé fundin út frá þeirri aðferð að finna út fullt verð umræddra réttinda og nota síðan viðurkennda aðferðarfræði til að meta leigugjald sem endurspegli þetta fulla verð. Eftirfarandi jöfnu megi síðan nota til að finna leiguverðið: Fullt verð x leiguhlutfall x verðtrygging. Eignarnámsþoli telur að hann eigi að auki rétt á bótum vegna ræktunartaps og afurðataps vegna þess að nýi vegurinn muni spilla 0,35 ha. af túni. Þá eigi hann eignnig rétt á bótum fyrir jarðrask og efnislosunar. Telur eignarnámsþoli að bætur fyrir þessa þætti auk leigugjalds geti ekki numið lægri fjárhæð en kr. 400.000. Þá telur eignarnámsþoli að um 20 trjálöntur muni fara forgörðum við framkvæmdina og rétt sé að miða við kr. 11.000 fyrir hverja plöntu eða samtals kr. 220.000.

 

Vegna þrautavarakröfu eignarnámsþola telur hann að verðmæti hins eignarnumda lands sé ekki minna en kr. 600.000 pr. ha. vegna túna, ræktunarkotnaður og afurðatap sé ekki minna en kr. 400.000 pr. ha og annað land sé ekki minna virði en kr. 184.306 pr. ha. Þá sé gamla vegstæðið ekki verðmætara en kr. 122.870 pr. ha. Um verðmæti landsins styðst eignarnámsþoli m.a. við framlögðum samningi vegna framvkæmda við Eyrarteig í Skriðdal. Með hliðsjón af framangreindu telur eignarnámsþoli að fjárhæð eignarnámsbóta vegna hins eignarnumda lands geti aldrei orðið lægri en kr. 1.391.130 sem sé þannig fundið út:  184.306 x 2,19 ha + 600.000 x 0,35 ha + 450.000 + 0,35 ha. + 620.000 (jarðrask og tré).

 

Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að honum verði haldið skaðlausum af öllum kostnaði hans við málið og hefur lögmaður hans lagt fram málskostnaðaryfirlit upp á kr. 1.370.280 vegna reksturs málsins fyrir nefndinni auk þess sem forsvarsmaður eignarnámsþola gerir kröfu um kr. 557.815 vegna tapaðra tekna og útlagðs kostnaðar við málið.

 

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Eignarnámsheimild er að finna í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Ekki liggur fyrir úrskurður æðra stjórnvalds eða dómur um að eignarnámsákvörðunin sé ólögmæt þegar úrskurður þessi er kveðinn upp. Með vísan til þess að eignarnema hefur með framangreindu ákvæði í lögum verið veitt eignarnámsheimild verður honum ekki gert að sætta sig við minni réttindi en full eignarréttindi yfir landi sem hann þarf á að halda vegna framkvæmda sinna. Með vísan til þessa er aðalkröfu eignarnámsþola um frávísun málsins hafnað og breytir þar engu þó eignarnemi hafi ekki gert beina tölulega kröfugerð fyrir nefndinni, enda er matsnefndin stjórnsýslunefnd með það hlutverk að ákvarða eignarnámsbætur og er sem slík óbundin af kröfugerð aðila auk þess sem nefndin getur aflað gagna sjálfstætt. Er rekstur mála fyrir matsnefndinni að þessu leyti ólíkur rekstri einkamála fyrir dómstólum.

 

Eignarnemi byggir eignarnámið á heimild í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Heimild eignarnema gengur út á að öðlast fullan eignarétt á því landi sem hann þarf til framkvæmda sinna, gegn greiðslu fullra bóta. Ekki er að finna í lögum skyldu eignarnema til að sætta sig við óbein eignaréttindi þegar heimild til fulls eignarnáms er fyrir hendi svo sem hér er. Af þessum sökum er ekki fallist á varakröfu eignarnámsþola í máli þessu um að matsnefndin ákveði árlega greiðslu til handa eignarnámsþola vegna afnota eignarnema á landi því sem hann þarf á að halda.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Stærð og lega hins eignarnumda lands er ágreiningslaus með aðilum.  Matsnefndin telur sig óbundna af þeim tilboðum sem gengið hafa á milli aðila í aðdraganda máls þessa og mun leggja verðmat á hið eignarnumda út frá almennum mælikvörðum, óháð forsögu málsins að þessu leyti. Vatns- og veiðiréttindi í Ysta-Rjúkanda eru ekki hluti af hinu eignarnumdu réttindum.

 

Fallist er á það með eignarnámsþola að fasteignamatsverð lands á landsbyggðinni gefur ekki raunhæfa mynd af markaðsvirði lítilla spilda sem ganga kaupum og sölum úr stærri jörðum.  Allt hið eignarnumda land er gróið land og hluti þess tún. Þá liggur fyrir að trjárækt sem eignarnámsþoli hefur stundað á landinu mun fara forgörðum að hluta til. Aðilar málsins eru sammála um að miða við að 20 hríslur muni eyðileggjast vegna framkvæmda eignarnámsþola. Að áliti matsnefndarinnar eru ekki líkur fyrir því að hið eignarnumda land sé eftirsótt sem sumarhúsaland, sérstaklega þegar litið er til legu þess þétt að núverandi vegi á svæðinu.

 

Fallist er á það með eignarnema að hann eigi eignarrétt á því landi sem er undir núverandi vegi á svæðinu og eignarnemi geti af þeim sökum skilað hluta af því landi til baka sem komi til frádráttar því landi sem tekið er eignarnámi nú.

 

Ekki er fallist á að eignarnámsþoli verði fyrir neinu fjártjóni vegna urðunar eldri búar og söku þess að eignarnemi þarf að koma fyrir á landinu með varanlegum hætti um 6.500 rúmm. umframefnis sem leggst til við framkvæmdina. Allt að einu þykir matsnefndinni rétt að ákvarða eignarnámsþola bætur fyrir jarðrask og átroðning af þessum sökum.

 

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar eignarnámsbætur fyrir 1,54 ha. lands vera kr. 338.800. Hæfilegar bætur fyrir 20 trjáhríslur sem munu forgörðum vegna framkvæmdarinnar þykja vera kr. 100.000 og bætur fyrir jarðrask og átroðning vegna urðunar og efnistilflutnings kr. 100.000.

 

Í áliti umboðsmanna Alþingis í málnu nr. 3541/2002 var komist að þeirri niðurstöðu að Matsnefnd eignarnámsbóta bæri að fjalla um það í úrskurði sínum hvort kostnaður eignarnámsþola við meðferð ágreiningsmáls um málsmeðferð og ákvörðun eignarnema um eignarnám hefði verið málefnalegur og eðlilegur og þá að hvaða leyti eignarnema væri skylt að bera þann kostnað. Svo sem að framan greinir hefur lögmaður eignarnámsþola lagt fram málskostnaðaryfirlit upp á kr. 1.370.280 vegna vinnu við matsmál þetta auk þess sem eignarnámsþoli sjálfur gerir kröfu um kr. 557.815 vegna tapaðra tekna og útlagðs kosnaðar í tengslum við málið. Að mati nefndarinnar þykir rétt að eignarnemi beri að hluta til kostnað eignarnámsþola sem ekki tengist beint meðferð málsins fyrir matsnefndinni. Á hinn bóginn er það álit nefndarinnar að lögmaður eignarnámsþola hafi lagt allt of mikla vinnu í málið miðað við efni þess og umfang auk þess sem vinna hans við matsmálið nr. 1/2011 hljóti að hafa nýst að hluta til í þessu máli. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að skera niður við trog þá fjárhæð sem krafist er í þessu sambandi. Þykir hæfilegt að ákvarða eignarnámsþola kr. 800.000 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000 í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Hjarðarhaga ehf., kt. 460808-0490, Hjarðarhaga 701, Egilsstöðum, kr. 538.800 í eignarnámsbætur og  kr. 800.000 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

 

 

______________________________                      ___________________________

Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali                 Vífill Oddsson verkfr.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum