Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til bátsins [D]

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐ

 

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A] og [B], f.h. [C ehf.], dags. 30. apríl 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. apríl 2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021 á Skagaströnd.

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Ráða má af kæru að kærandi geri þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta á Skagaströnd, dags. 16. apríl 2021, og úthlutað verði að nýju byggðakvóta, í samræmi við sérreglur sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagastrandar sem nota eigi við útreikning aflamarks og hafi ekki verið virtar.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 16. mars 2021, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 í nokkrum byggðarlögum, m.a. fyrir Skagaströnd en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Umsóknarfrestur var til og með 30. mars 2021. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 163 þorskígildistonnum af byggðakvóta til byggðarlagsins.

 

Kærandi sótti um byggðakvóta á Skagaströnd með umsókn, dags. 22. mars 2021, fyrir bátinn [D]. Hinn 16. apríl 2021 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Skagaströnd ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta, m.a. til ofangreinds báts.

 

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina, sbr. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

 

Kæra barst ráðuneytinu, dags. 30. apríl 2021.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Í stjórnsýslukæru er málsatvikum lýst á þann hátt að kærandi telji að sérreglur sem Fiskistofa notar til grundvallar úthlutun á byggðakvóta séu ekki virtar og endurskoða þurfi úthlutun.

 

Með tölvubréfi, dags. 10. maí 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

 

Í umsögn Fiskistofu, dags. 25. maí 2021, segir m.a. að kærandi haldi því fram að sérreglur Sveitarfélagsins Skagastrandar sem Fiskistofa eigi að nota við útreikning á aflamarki sem skipta eigi á milli fiskiskipa séu ekki virtar. Óvíst sé hvort átt sé við að Fiskistofa hafi úthlutað byggðakvóta til skipa sem ekki uppfylltu skilyrði úthlutunar að mati kæranda, eða hvort að átt sé við að skipting byggðakvótans sé að mati kæranda byggð á röngum forsendum. Segir í umsögninni að ráðherra hafi sett sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda fyrir Skagaströnd sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum fyrir úthlutun byggðakvóta, skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, þ.e. c-lið 1. mgr. 1. gr., 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 728/2020, sbr. auglýsingu nr. 271/2021 sem var breytt með auglýsingu nr. 307/2021 og hafði áhrif á c-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Segir í umsögn að í 1. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta. Ráðherra hafi sett sérstök skilyrði sem höfðu áhrif á 1. mgr. 1. gr. en ekki á 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. apríl 2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa fyrir Skagaströnd, byggði því á að skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir úthlutun byggðakvóta skv. framangreindum stjórnvaldsfyrirmælum. Aflamarki byggðarlagsins hafi því m.a. verið úthlutað til fiskiskipa sem uppfylltu skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, og hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beindist að, ef þeir stunduðu einnig útgerð með skipi sem skráð væri í því byggðarlagi sem þeir höfðu heimilisfang í, skv. heimild í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Ennfremur segir í umsögninni að í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um viðmið úthlutunar til einstakra fiskiskipa. Ráðherra hafi sett sérstök skilyrði sem höfðu áhrif á 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, sem gerðu ráð fyrir að 40 þorskígildistonnum yrði skipt jafnt á milli fiskiskipa með hlutdeild í veiðum á rækju á grunnslóð Húnaflóa. Eftirstöðvum aflamarks hafi verið skipt hlutfallslega á milli fiskiskipa, þó þannig að ekkert skip hafi fengið umfram 50 þorskígildistonn. Segir að samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins verði ákvarðanir og athafnir Fiskistofu að eiga sér stoð í lögum. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins feli það m.a. í sér að stjórnvald verði að gæta hófs í meðferð valds síns og það vald verði að eiga sér stoð í lögum. Með hliðsjón af framangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. apríl 2021. 2) Frétt á vefsíðu Fiskistofu, dags. 16. mars 2021. 3)Yfirlit yfir landaðan afla umsækjenda um byggðakvóta fyrir Skagaströnd, dags. 16. apríl 2021.

 

Með tölvubréfi, dags. 26. maí 2021, sendi ráðuneytið umsögn Fiskistofu til kæranda og gaf honum kost á að koma fram með frekari athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Rökstuðningur

I.

Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni. Ákvæðið verður að skýra með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum.

 

Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu þann 30. apríl 2021 sem er innan kærufrests sem var tvær vikur frá ákvörðun Fiskistofu, og er málið tekið til efnismeðferðar.

 

II.

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 gilda ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 5. mgr. 10. gr. er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2020/2021.

 

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 728/2020. Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Skagaströnd með auglýsingu nr. 271/2021, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021.

 

Þann 18. mars 2021 var gerð breyting á auglýsingunni. Auglýsing nr. 307/2021 um (1.) breytingu á auglýsingu um (1.) staðfestingu reglna sveitartfélaga um úthlutun byggðakvóta, nr. 271/2021 birtist í B-deild Stjórnartíðinda þann 18. mars 2021 og öðlaðist þegar gildi, frá og með 19. mars 2021.

 

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Skagaströnd fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 fór því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 728/2020 og auglýsingu nr. 271/2021, sbr. auglýsingu nr. 307/2021.

 

III.

Kæruefnið er byggt á því að kærandi telji að sérreglur sem Fiskistofa notar til grundvallar úthlutun á byggðakvóta hafi ekki verið virtar. Ráðuneytið bendir á að þær reglur sem gilda um úthlutun og taldar eru upp hér að framan eru þær reglur sem stjórnvaldið Fiskistofa skal miða við þegar teknar eru ákvarðanir um úthlutunar byggðakvóta. Ekki er gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til tillagna sveitarstjórna sem hafa ekki lagalegt gildi stjórnvaldsfyrirmæla eins og reglugerð og auglýsing sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Bar Fiskistofu því við úthlutun að miða við almenn skilyrði í reglugerð nr. 728/2020 auk sérstakra skilyrða sem koma fram í auglýsingum nr. 271/2021 og nr. 307/2021.

 

IV.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. apríl 2021, um úthlutun byggðakvóta til bátsins[D] enda hafi ákvörðunin verið í samræmi við gildandi lög og reglur sem gilda eiga um úthlutunina.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. apríl 2021, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [D].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum