Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 22/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 22/2020

Fimmtudaginn 16. apríl 2020

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 13. september 2019, um synjun á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 22. maí 2019, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Sveitarfélaginu Árborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi félagsþjónustusviðs Árborgar, dags. 1. júlí 2019, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði 4. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um félagslegar leiguíbúðir. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálanefndar sem tók málið fyrir á fundi 20. ágúst 2019 og staðfesti synjunina. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 13. september 2019.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. janúar 2020. Með bréfi, dags. 14. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni 7. febrúar 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. febrúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um að synja umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar

Í greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar er vísað til þess að ekki sé tilefni til að fallast á kröfur kæranda, enda séu þær ekki í samræmi við reglur sveitarfélagsins um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið synjað vegna eigna sem fram komi á skattframtali hans. Samkvæmt því sé eignastaða kæranda samtals 6.224.380 kr. en eignamörk samkvæmt framangreindum reglum séu 4.357.100 kr. Kærandi sé því töluvert yfir framangreindum eignamörkum. Félagsmálanefnd hafi fjallað um mál kæranda og staðfest synjun afgreiðslufundar með sömu rökum eða með vísan til 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði hjá Sveitarfélaginu Árborg. Félagsmálanefnd hafi talið að kærandi gæti keypt eigin íbúð og þannig búið í öruggu húsnæði og jafnframt fengið stuðning ef hann þyrfti og óskaði eftir frá fjölskyldusviði Árborgar.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 13. september 2019, á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 4. gr. reglna sveitarfélagsins um félagslegar leiguíbúðir væri ekki uppfyllt.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. janúar 2020. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar svo sem bar að gera samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu þykir afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en liðnum kærufresti og verður hún því tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta  skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 64. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar.

Í 1. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir í Sveitarfélaginu Árborg kemur fram að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og/eða annarra félagslegra erfiðleika og skuli fjárhags- og félagslegar aðstæður þeirra metnar út frá ákveðnum viðmiðum eins og nánar sé rakið í reglunum. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir úthlutun og leigurétti og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–c-liðum ákvæðisins.

Í c-lið 4. gr. framangreindra reglna er kveðið á um eignamörk en þar segir að eignir umsækjanda skuli vera undir eignamörkum og miða skuli við heildareign að frádregnum heildarskuldum samkvæmt staðfestu ljósriti af skattframtali fyrir síðasta ár. Núgildandi eignamörk eru 4.357.100 kr. en óumdeilt er að eignir kæranda voru yfir þeim mörkum. 

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþáguheimildir vegna félagslegra leiguíbúða. Þar segir að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 4. gr. um eignamörk þegar um sé að ræða umsækjanda sem búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu, fötlun eða mikla félagslega erfiðleika. Sækja þurfi skriflega um undanþágur til félagsmálanefndar Árborgar. Sé beiðni um undanþágu hafnað skuli umsækjanda tilkynnt það skriflega og um leið vakin athygli hans á rétti hans til að bera ákvörðunina undir úrskurðarnefnd velferðarmála og málskotsfrest.

Í áfrýjun kæranda til félagsmálanefndar óskaði hann eftir endurskoðun á synjun umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði og greindi þar frá aðstæðum sínum. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar sveitarfélaginu að líta á áfrýjun kæranda sem undanþágubeiðni í skilningi 5. gr. reglnanna. Í bókun félagsmálanefndar er eingöngu vísað til þess að synjunin sé staðfest og í greinargerð sveitarfélagsins fyrir úrskurðarnefndinni kemur fram að félagsmálanefnd hafi staðfest synjun afgreiðslufundar með sömu rökum eða með vísan til 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði. Ekki hefur verið nánar rökstutt af hálfu sveitarfélagsins hvernig aðstæður kæranda voru metnar með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram koma í ákvæði 5. gr. reglnanna. Getur úrskurðarnefndin því ekki endurskoðað mat sveitarfélagsins á því hvort kærandi hafi uppfyllt undanþáguákvæði 5. gr. reglnanna. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 13. september 2019, um að synja umsókn A , um félagslegt leiguhúsnæði er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum