Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 13/2015

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 25. janúar 2016 í máli nr. 13/2015.
Fasteign: Hurðarbak, Hvalfjarðarsveit, lnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2016, 25. janúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 13/2015 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 17. september 2015, kærði B f.h. A., kt. [ ], álagningu fasteignagjalda vegna Hurðarbaks, Hvalfjarðarsveit, lnr. [ ], fyrir árið 2015. Kæran lýtur að því að álagning fasteignagjalda hafi áður verið samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en við álagningu fasteignagjalda 2015 hafi  sveitarfélagið, Hvalfjarðarsveit, breytt flokkun fasteignar kæranda að Hurðarbaki og lagt á fasteignaskatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Krefst kærandi þess að eignin verði áfram flokkuð sem bújörð og fasteignaskattur verði áfram lagður á eignina samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 24. september 2015, eftir umsögn frá Hvalfjarðarsveit. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 14. október 2015. Þar kom fram að málið hafi nú tekið breytingum hjá sveitarfélaginu og það hafi verið ákveðið að falla frá breyttri flokkun fasteignarinnar að Hurðarbaki og verði hún áfram flokkuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga í stað c-liðar sama ákvæðis. Sveitarfélagið hafi því endurreiknað fasteignagjöld vegna Hurðarbaks, þannig að fasteignagjöld eignarinnar verði reiknuð út í samræmi við það og kæranda endurgreitt það sem ofgreitt hafi verið vegna fyrrgreindrar ákvörðunar sveitarfélagsins.

Hinn 16. október 2015 var kæranda tilkynnt um framangreinda ákvörðun sveitarfélagsins og óskað eftir afstöðu hans til frekari framhalds málsins hjá nefndinni í ljósi fyrrgreindrar ákvörðunar sveitarfélagsins. Þann 26. október 2015 óskaði kærandi eftir að málið yrði sett í bið uns hann fengi frekari svör frá sveitarfélaginu varðandi þessa breytingu. Yfirfasteignamatsnefnd ítrekaði með tölvubréfi, dags. 9. desember 2015, hvort kærandi hefði í hyggju að afturkalla kæruna í ljósi afstöðu sveitarfélagsins. Kærandi vísaði þá til þess að hann hefði ekki fengið nein frekari viðbrögð frá sveitarfélaginu og óskaði því eftir úrskurði yfirfasteignamatsnefndar.

Af hálfu yfirfasteignamatsnefndar var afstaða kæranda kynnt sveitarfélaginu þann 10. desember 2015 þar sem fram kom að kærandi óskaði eftir skýringum á því hvers vegna ákveðið hefði verið að falla frá fyrrgreindri breytingu á flokkun fasteignarinnar. Með bréfi, dags. 6. janúar 2016, til yfirfasteignamatsnefndar gerði sveitarfélagið grein fyrir því að það teldi því ekki skylt að veita frekari útskýringar vegna málsins. Vísaði sveitarfélagið til þess að hin kærða ákvörðun hefði verið afturkölluð og hin ofgreiddu fasteignagjöld verið endurgreidd kæranda og því væri málið ekki lengur tækt til úrskurðar af hálfu yfirfasteignamatsnefndar.

Málið var tekið til úrskurðar 25. janúar 2016.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þann 18. maí 2015 leiðbeint að vísa ætti ágreiningi um gjaldstofn til úrskurðar Þjóðskrár Íslands. Þeim úrskurði mætti svo aftur skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Með tölvupósti, dags. 18. maí 2015, var niðurstaða sveitarfélagsins kærð til Þjóðskrár Íslands. Þann 17. september 2015 tilkynnti Þjóðskrá Íslands kæranda að yfirfasteignamatsnefnd væri hinn rétti úrskurðaraðili um gjaldflokkun fasteignarinnar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Kærufrestur var því liðinn þegar kæran barst yfirfasteignamatsnefnd þann 18. september 2015. Með vísan til framangreinds telur yfirfasteignamatsnefnd þó afsakanlegt að kæran hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests. Verður kærunni því ekki vísað frá af þeim sökum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um að leggja skuli árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá, sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga ákveður sveitarstjórn fyrir lok árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinir í a- og c-lið þess ákvæðis.

Samkvæmt 3. málslið 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sker yfirfasteignamatsnefnd úr verði ágreiningur um gjaldskyldu. Líkt og að framan greinir liggur fyrir að sveitarfélagið hefur fallið frá fyrri ákvörðun sinni um breytta álagningu fasteignaskatts og hefur álagningu verið breytt aftur í fyrra horf og skattur lagður á samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga líkt og kærandi gerði kröfu um. Þar af leiðandi er ekki lengur til staðar ágreiningur um gjaldflokkun fasteignar kæranda. Þá hefur sveitarfélagið endurgreitt það sem ofgreitt var. Hefur því kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð í málinu þar sem hin kærða ákvörðun hefur verið afturkölluð af sveitarfélaginu. Ber því að vísa kærunni frá yfirfasteignamatsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru A vegna álagðra fasteignaskatta Hurðarbaks, Hvalfjarðarsveit, lnr. [ ], fyrir árið 2015, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.                 

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

 ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum