Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 105/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 105/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120040

 

Kæra [...] og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barna hennar, [...], fd. [...] (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), ríkisborgarar Palestínu, um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara á grundvelli 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 28. júlí 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Hinn 12. október 2022 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 14. október 2022, kom fram að kæranda og börnum hennar hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi 7. febrúar 2022 og hefðu gilt dvalarleyfi þar í landi til 6. febrúar 2025. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 27. september 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þá kom B til viðtals hjá Útlendingastofnun 5. október 2022. Útlendingastofnun ákvað 8. desember 2022 að taka umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda 8. desember 2022 og kærði hún ákvarðanirnar 9. desember 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 23. desember 2022 ásamt fylgigögnum.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Grikklands.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldri sínu til Grikklands.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi og börn hennar hafi flúið heimaríki árið 2019 og farið til Grikklands. Þau hafi svo komið til Íslands í gegnum Frakkland og sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi og B lýst erfiðri dvöl fjölskyldunnar í Grikklandi. Kærandi hafi ekki haft fjármuni til að kaupa mat handa börnum sínum og þá sé andleg heilsa hennar afar slæm. Bæði börn kæranda glími við alvarlega fötlun og bæði þarfnist þau viðvarandi umönnunar til lengri tíma litið. B glími við alvarlega fötlun á fæti eftir að ekið hafi verið yfir hana í heimaríki þegar hún var yngri. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi B lýst mikilli félagslegri einangrun systkinanna í Grikklandi. A glími við heyrnarskerðingu en hann hafi fengið ígrædd heyrnartæki á sínum tíma og í kjölfarið sýnt framfarir. Heyrnartæki hans virki þó ekki lengur og hann því ekki fengið þá umönnun sem hann þurfi á að halda í Grikklandi. Þá hafi A ekki fengið þann stuðning sem hann sé í þörf fyrir til að þróa með sér tjáningu. Samkvæmt gögnum frá fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðarbæjar sé búið að samþykkja kuðungsígræðslu fyrir A hér á landi og stefnt sé á ígræðslu í byrjun þessa árs. Kærandi vísar til þess að ekki liggi fyrir hvort þau tæki sem séu notuð til kuðungsígræðslu hér á landi séu notuð í Grikklandi svo unnt sér að fylgja A eftir þar í landi eftir ígræðslu á Íslandi. Kærandi vekur athygli kærunefndar á því að sú pattstaða sem uppi sé með heyrnartækin kunni að endurtaka sig verði fjölskyldan endursend til Grikklands. Ástand A sé þannig að hann horfi gáttaður í kringum sig og tjái sig með óskiljanlegum orðum. Fjölskylda A geti ekki útskýrt fyrir honum hvað eigi sér stað hverju sinni. Þá vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna hvað varðar aðstæður í Grikklandi máli sínu til stuðnings.

Kærandi byggir aðallega á því að taka skuli mál hennar og barnanna til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem sérstakar ástæður séu uppi í málinu. Kærandi byggir á því að þau eigi á hættu að sæta alvarlegri mismunun í Grikklandi en þar fái þau m.a. ekki aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Kærandi og börn hennar fái ekki viðunandi læknismeðferð í Grikklandi og hún standi höllum fæti varðandi slíka þjónustu samanborið við gríska ríkisborgara. Eftir dvöl fjölskyldunnar í Grikklandi þurfi nú að grípa til ýmissa nauðsynlegra ráðstafana varðandi heilsufar barnanna sem styðji framburð fjölskyldunnar um að þau hafi ekki fengið lágmarksþjónustu í Grikklandi. Þá vísar kærandi til þess að skýrslur um aðstæður í Grikklandi fái ekki haggað þeim raunveruleika sem gögn í máli þeirra sýni fram á. Kærandi vísar til tiltekinnar skýrslu þar sem fram komi að fólk í þeirra stöðu mæti hindrunum innan stjórnsýslunnar sem grískir ríkisborgarar mæti ekki. Kærandi vísar til þess að aðstæður þeirra séu sérstakar í ljósi heilsufarsástands þeirra. Börn kæranda glími við meiriháttar og langvarandi fatlanir sem krefjist umfangsmikillar og viðvarandi umönnunar sem kærandi sjálf hafi ekki burði til að standa undir óstudd. Hagsmunir barna kæranda liggi í því að þau fái viðeigandi umönnun, bæði af hálfu heilbrigðisstofnana og félagslega umönnun vegna fatlana þeirra og þekkingarleysi kæranda á umönnun þeirra. Kærandi vísar þá til þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra byggi ekki á fullnægjandi rannsókn á högum fjölskyldunnar og vísar kærandi til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Þegar ákvarðanir í málum kæranda og barna hennar hafi verið teknar hafi ekki legið fyrir upplýsingar um heilsufarsástand fjölskyldunnar sem nú liggi fyrir. Kærandi vísar til þess að það hafi tekið langan tíma að fá tíma hjá sérfræðilæknum á Íslandi og því hafi fyrirliggjandi upplýsingar ekki verið komnar fyrr en nú. Kærandi vísar til þess að börn hennar standi utan skóla í Grikklandi, fjölskyldan hafi enga tungumálakennslu fengið og börnin ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu sem heilsufarsvandi þeirra krefjist. Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að hún og börn hennar geti vænst þess að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings í Grikklandi í ljósi fenginnar reynslu af því að dvelja í Grikklandi. Kærandi vísar til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, máli sínu til stuðnings.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er þess krafist að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga sem kveði á um bann við endursendingu einstaklinga til svæðis þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir (non-refoulement). Kærandi telur að þau muni verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Grikklandi þar sem þau fái ekki notið virkra grundvallarmannréttinda til samræmis við ríkisborgara Grikklands, hvað varðar aðgang að húsnæði, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu. Í ljósi þeirra hindrana sem þau hafi mætt við að sækja sér grundvallarréttindi þá sé óraunhæft að þau mæti til skóla fyrr en búið sé að leysa úr þeim heilsufarskvillum sem hrjái þau og huga í kjölfarið að menntun þeirra. Kærandi byggir jafnframt á því að ástandið í Grikklandi sé með þeim hætti að ekki verði tryggt að fjölskyldan verði ekki fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Þar eigi þau á hættu að verða send úr landi í ljósi þess að í Grikklandi hafi ólögmætar brottvísanir tíðkast. Þá byggja þau á því að ástand flóttamanna í Grikklandi hafi farið versnandi en flóttamannavandinn í Evrópu hafi aukist, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu og versnandi efnahagshorfa í heiminum. Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka sérstaklega hvort ástandið í Grikklandi sé viðunandi ef svo ólíklega vill til að stofnunin telji þær skýrslur sem kærandi vísar til lýsa viðunandi ástandi. Vísar kærandi til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þessu samhengi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda og barna hennar

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi kona á [...] sem stödd er hér á landi ásamt tveimur börnum sínum sem eru [...] og [...] ára. Samkvæmt gögnum málsins er faðir barnanna búsettur í heimaríki. Kærandi hafi flúið heimaríki ásamt börnum sínum og komið til Grikklands árið 2019. Kærandi og börn hennar hafi fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi árið 2022. Þau hafi svo komið til Íslands 28. júlí 2022 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi átt í erfiðleikum með að verða sér úti um atvinnu, heilbrigðisþjónustu og félagslega aðstoð en hafi fengið aðstoð frá hjálparsamtökum með leigugreiðslur. Jafnframt hafi A verið synjað um skólavist í Grikklandi. Kærandi greindi frá því að vera með skatt- og almannatrygginganúmer í Grikklandi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera með skjaldkirtilsvandamál og þurfi að taka inn lyf vegna þess. Þá greindi kærandi frá því að andleg heilsa sín hafi verið slæm í Grikklandi. Samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum greindist kærandi með lifrarbólgu B hér á landi. Þá bera framlögð heilsufarsgögn með sér að A sé með mjög alvarlega heyrnaskerðingu og sé í þörf fyrir kuðungsígræðslu. Jafnframt sé A í þörf fyrir að læra táknmál svo hann geti tjáð sig. Samkvæmt gögnum málsins lenti B í bílslysi í heimaríki þegar hún var fjögurra ára gömul. B hafi undirgengist aðgerðir á fæti í heimaríki og í Grikklandi vegna þessa. Samkvæmt framburði kæranda sé B í þörf fyrir frekari aðgerðir á fæti.

Réttarstaða barna kæranda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna og af þeim verður ekki annað ráðið en að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða þeirra verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin eru í fylgd móður sinnar og verður því tekin afstaða til mála þeirra í einum úrskurði.

Reglur stjórnsýsluréttar

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Kærandi er kona á [...]sem stödd er hér á landi ásamt tveimur börnum sínum sem eru [...]og [...]ára. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að glíma við vandamál í skjaldkirtli og þyrfti að taka inn lyf vegna þessa. Þá væri kærandi með magnesíum- og kalkskort. Þá greindi kærandi frá því að andleg heilsa hennar hefði verið slæm í Grikklandi og hún hafi átt erfitt með svefn. Þá hefði kærandi áhyggjur af heilsu barna sinna. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 25. ágúst til 9. september 2022, kemur fram að kærandi hafi farið í aðgerð til að láta fjarlægja skjaldkirtil og taki inn skjaldkirtilslyf daglega. Þá kemur fram að kærandi hafi greinst með lifrarbólgu B hér á landi en þó hafi verið um mjög lágt veirumagn í blóði að ræða. Í göngudeildarskrá frá Göngudeild húð- og kynsjúkdóma, dags. 28. nóvember 2022, kemur fram að kærandi hafi leitað þangað eftir tilvísun frá heilsugæslu vegna útbrota á baki, bringu og brjóstum. Útbrot kæranda hafi samræmst örbrigslum (e. keloid). Kærandi hafi fengið viðeigandi meðferð á þeim svæðum sem hafi angrað hana mest. Þá hafi kæranda verið ávísað kláðastillandi kremi og gefin tími í endurkomu eftir þrjár vikur.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að A hefði fæðst heyrnarlaus. A hefði farið í aðgerð í heimaríki þar sem grætt hafi verið í hann heyrnartæki. Heyrnartæki hans hefðu þó ekki virkað síðustu ár þar sem rafhlöður þeirra væru tómar. Þá gæti A einungis tjáð sig við móður sína. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 25. ágúst til 2. september 2022, kemur fram að A hafi fengið viðeigandi bólusetningar. Þá kemur fram að A sé heyrnarlaus og noti heyrnartæki. Þá hafi A  farið í aðgerð á vinstra eyra árið 2009 í heimaríki. Í læknabréfi læknis hjá Heyrna- og talmeinastöð Íslands, dags. 14. október 2022, kemur fram að A sé fæddur heyrnarlaus en hann hafi enga endurhæfingu fengið fyrr en við þriggja og hálfs árs aldur þegar hann hafi fengið heyrnartæki vinstra megin. A hafi enga aðstoð fengið fyrr en hann fékk nýtt tæki fyrir 6 mánuðum síðan en aldrei fengið mælingar eða stillingar á nýja tækið sem sé verulega vanstillt. A eigi erfitt með að skilja aðra en móður og systur sína og þá aðeins ef þær tali beint við hann, einföld skilaboð með handabendingum. A hafi aldrei lært að nota táknmál en hann hafi gengið í grunnskóla upp í 4. bekk en A sé ekki læs. Móðir hafi greint frá því að eiga systkini sem séu heyrnarlaus líkt og A. Við skoðun hafi A lítið getað tekið þátt í samtali. Málrómur hans hafi borið talsverð merki um heyrnarleysi. A hafi verið beðinn að telja upp á tíu en hann hafi sjálfur getað talið upp í fjóra en móðir hjálpað honum að klára upp í tíu. Heyrnarmæling hafi borið með sér mjög alvarlega heyrnarskerðingu. Mælt hafi verið með stillingu á ígræði hans en enginn kuðungsígræðslunotandi sé með sama tæki og A hér á landi og því ekki til búnaður til að meta ástand ígræðis og ytri búnaðar. Sterklega hafi verið mælt með að móðir og systir A fengju táknmálskennslu sem fyrst. Málþroski A sé mjög takmarkaður og tengist því að hann hafi fengið mjög takmarkaða hljóðörvun yfir ævina og því ekki haft forsendur til að læra raddmál. Þrátt fyrir að kuðungsígræðsla gefi honum einhverja hljóðörvun sé hún, miðað við málþroska hans í dag, of takmörkuð til að hann geti þróað með sér raddmál. Mikilvægt sé að gefa honum færi á að læra táknmál þannig að hann geti aukið málþroska sinn og möguleika á auknum samskiptum við aðra. Þá gæti táknmál styrkt hann að einhverju leyti í að taka meiri framförum í raddmáli síðar meir ásamt því að gefa honum meiri möguleika á að læra að lesa. Þá hafi verið mælt með augnskoðun og heyrnarmælingu fyrir B vegna sterkrar ættarsögu. Tveir möguleikar séu í boði en hægt sé að semja við þjónustuaðila í Svíþjóð um frekari stillingar, þjálfun og eftirlit á kuðungsígræðslu eða skipta um innra ígræði yfir í tegund sem notuð sé hér á landi þar sem hugbúnaður og þekking sé til staðar til að þjónusta. Það myndi fela í sér kaup á ígræði og ytri búnað, innlögn og aðgerð fyrir skiptingu á ígræðinu og síðan stillingar og þjálfun hjá starfsfólki hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í kjölfarið, auk reglulegs eftirlits.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að B hefði lent í bílslysi þegar hún var fjögurra ára. B hefði slasast á fæti og farið í fjórar aðgerðir í kjölfarið bæði í heimaríki og í Grikklandi. Þá væri B í þörf fyrir frekari aðgerðir á fæti vegna þessa. Jafnframt greindi kærandi frá því að B hefði átt í erfiðleikum með að hafa stjórn á þvagi í Grikklandi. Þá hefði B glímt við magaverki og væri mögulega í þörf fyrir gleraugu. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 25. ágúst til 2. september 2022, kemur fram að B hafi fengið viðeigandi bólusetningar. Þá hafi B greint frá þreytu í fótum og verkjum í maga sem komi á 6 mánaða fresti. Þá hefur kærandi lagt fram myndir af fæti B.

Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og barna hennar hefur þegar verið lýst og sú aðstoð sem kærandi og börn hennar hafa notið hér á landi verið rakin. Af framlögðum heilsufarsgögnum má sjá að A sé heyrnarskertur og sé í þörf fyrir sérhæfða þjónustu því tengt. Þá liggur fyrir að B hafi lent í bílslysi og hlotið skaða á fæti þegar hún var yngri og þurfi mögulega á frekari heilbrigðisþjónustu að halda vegna þessa.

Kærandi hefur m.a. borið fyrir sig að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hennar vegna slæmra aðstæðna í Grikklandi. Kærandi hafi haft takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, félagsaðstoð og atvinnu í Grikklandi. Þá glími bæði börn kæranda við alvarlega fötlun og þarfnist viðvarandi umönnunar til lengri tíma litið.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er heilsufar kæranda og barna hennar rakið. Þar kemur m.a. fram að A sé heyrnarskertur og að hann hafi undirgengist aðgerð þar sem græddur hafi verið í hann búnaður til að bæta heyrn hans. Kærandi hafi greint frá því að búnaðurinn þyrfti rafhlöðu sem hafi klárast fyrir þremur árum. Kærandi hafi óskað eftir aðstoð í Grikklandi og henni sagt að kostnaðurinn við að koma búnaðinum í lag væri 3000 evrur. Félagasamtök hafi aðstoðað hana við að finna heyrnartæki en hún hafi sjálf þurft að kaupa rafhlöður, sem hún hafi ekki haft efni á. Þá kemur jafnframt fram að B glími við afleiðingar áverka á fæti eftir bílslys. B hafi undirgengist fjórar skurðaðgerðir og væri í þörf fyrir frekari aðgerðir. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kemur fram að fyrirliggjandi heimildir beri með sér að börnum með sérstakar þarfir vegna fötlunar standi til boða úrræði innan menntakerfisins og aðstoð við að útvega búnað sem þau þurfi til að stunda menntun. Heyrnarskertum nemendum, fram að 20 ára aldri, í opinberum skólum standi til boða fjárhagsaðstoð allt að 1.500 evrum til að útvega heyrnartæki. Þá kemur jafnframt fram að einstaklingar í Grikklandi sem séu handhafar alþjóðlegrar verndar og glími við fötlun eigi erfitt með að njóta aðgangs að félagslegum styrkjum. Þurfi þeir að gangast undir skoðun hjá DAC (e. Disability Accreditation Centre) til að meta hvort örorka þeirra sé yfir 67% en einungis þeir sem nái þeim þröskuldi eigi rétt á örorkubótum. Þá standi verndarhöfum til boða aðstoð félagasamtaka við að leggja fram umsókn.

Af ákvörðunum kæranda og barna hennar er ekki að finna frekari umfjöllun um aðstæður fólks með fötlun í viðtökuríki, þá fötlun sem börnin A og B glíma við, hvaða meðferð þau kunni að vera í þörf fyrir eða hvaða úrræði séu í boði fyrir A og B sérstaklega þar í landi. Af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar og yfirferð annarra gagna í málinu er það mat kærunefndar að eins og hér háttar á hafi ekki verið nægjanlega upplýst um einstaklingsbundnar aðstæður barna kæranda til þess að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort aðstæður þeirra féllu undir 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þar sem kærunefnd telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi að þessu leyti verið ófullnægjandi þar sem skort hafi á að upplýsa um atriði er haft gætu áhrif á matið, er óhjákvæmilegt að vísa málunum aftur til nýrrar meðferðar.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar. Kærunefnd telur jafnframt í ljósi aðstæðna að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun. Er það mat kærunefndar að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda og barna hennar hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til nýrrar meðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til meðferðar á ný.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum