Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 284/2017 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 284/2017

Fimmtudaginn 19. október 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. ágúst 2017, kærir B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2017, um að synja beiðni hennar um endurupptöku máls.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 18. janúar 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að heimilismaður væri eigandi leiguhúsnæðis, sbr. e-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Með bréfi, dags. 27. apríl 2017, mótmælti kærandi synjun Vinnumálastofnunar og fór fram á að ákvörðun yrði breytt og umsókn samþykkt með vísan til þess að hún væri eigandi að 1/3 hluta leiguhúsnæðisins. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2017, var beiðni um endurupptöku og endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar hafnað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 21. ágúst 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. ágúst 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 4. september 2017, og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2017. Athugasemdir bárust frá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 12. september 2017, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. september 2017. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 14. september 2017, og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. september 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé eigandi að 1/3 hluta fasteignarinnar sem hún sé búsett í en C eigi 2/3 hluta hennar. Kærandi sé því leigjandi að 2/3 hluta fasteignarinnar og greiði C leigu í samræmi við það. Þannig séu uppfyllt skilyrði 9. og 12. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Í lögunum sé hvergi kveðið á um hvernig skuli fara með húsnæðisbætur vegna íbúða sem séu að hluta til í eigu leigjanda telji kærandi að líta verði til e-liðar 3. mgr. 9. gr. laganna þar sem fram komi að eigi lögaðili eign megi heimilismaður ekki eiga 50% eða meira í þeim lögaðila. Með lögjöfnun verði að líta svo á að gera verði kröfu um að eignarhlutur leigjanda verði að sama skapi að vera 50% eða meiri í eign til þess að réttur til húsnæðisbóta falli niður. Þar sem eignarhlutur kæranda sé þriðjungur eigi hún rétt til greiðslu húsnæðisbóta.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að í athugasemdum við 9. gr. laga nr. 75/2016 sé skýrt tekið fram að umrætt ákvæði sé nýmæli sett í þeim tilgangi að sporna við málamyndagerningum. Ljóst sé að slíkt eigi ekki við í tilviki kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 eigi hver sá sem leigir íbúðarhúsnæði rétt til húsnæðisbóta að uppfylltum skilyrðum laganna. Allar undantekningar frá þeirri meginreglu verði að túlka þröngt. Í ljósi þess að kærandi leigi íbúð af C eigi hún rétt á húsnæðisbótum ef hún fullnægi skilyrðum laganna að öðru leyti um eignir, frítekjumark og svo framvegis. Kærandi þurfi ekki að þinglýsa leigusamningi í samræmi við 12. gr. laganna og ekki sé ágreiningur um að kærandi leigi 2/3 hluta eignarinnar af C. Því sé eðlilegt að líta til 50% eignarhlutar, ef þörf sé á að líta til stærðar eignarhluta, enda væri það verulega ósanngjarnt og ekki í samræmi við tilgang laganna ef leigjandi, sem ætti 49% í einkahlutafélagi sem eigi viðkomandi leiguhúsnæði að fullu, ætti rétt á húsnæðisbótum en ellilífeyrisþegi sem eigi 1/3 eignar á móti leigusala, ætti ekki rétt á húsnæðisbótum. Það sé því eðlilegt að beita lögjöfnun um eignarhlut, enda um sama ákvæði að ræða í e-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016. Að sama skapi væri óeðlilegt, miðað við málatilbúnað Vinnumálastofnunar, að kærandi ætti rétt á húsnæðisbótum ef hún ætti 1/3 hluta í einkahlutafélagi sem ætti íbúð sem hún leigði, að fullu.

Kærandi bendir á að meginreglan samkvæmt lögunum sé sú að hver sá sem leigi íbúðarhúsnæði eigi rétt á húsnæðisbótum. Undantekning frá þeirri meginreglu sé meðal annars þegar einhver heimilismanna sé eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis. Þá undantekningu verði að skýra þröngt og þá sé fyrst að líta til þess að samkvæmt ákvæðinu miðist það við heimili þar sem séu tveir eða fleiri heimilismenn, enda felist það í orðunum heimilismenn en ekki sé talað um heimilismann í eintölu. Þetta sé í fullkomnu samræmi við það sem segi í greinargerð með 9. gr. í frumvarpinu þar sem hætta sé á að heimilismenn, þar sem einn eða fleiri, en þó ekki allir, eigi húsnæðið, geri með sér málamyndagerning um leigu til að fá húsnæðisbætur, enda geti einn heimilismaður ekki gert með sér málamyndagerning um leigu af sjálfum sér. Óumdeilt sé að kærandi búi ein í húsnæðinu og leigi það af C.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað á grundvelli e-liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Þar segi að húsnæðisbætur verði ekki veittar þegar einhver heimilismanna sé eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2016 séu sérstaklega tilgreind þau skilyrði sem leigjandi þurfi að uppfylla til að eiga rétt á húsnæðisbótum. Enn fremur gildi sambærilegar takmarkanir um greiðslu húsnæðisbóta sem Vinnumálastofnun beri að fara eftir við mat á rétti til húsnæðisbóta.

Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum við e-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 komi fram að réttur til húsnæðisbóta sé ekki fyrir hendi þegar einhver heimilismanna, þar á meðal umsækjandinn sjálfur, sé eigandi viðkomandi húsnæðis. Í lögunum sé hvergi að finna skilgreiningu á því hversu stóran eignarhlut heimilismaður þurfi að eiga í íbúðarhúsnæðinu til að teljast eigandi í skilningi laganna. Það sé mat stofnunarinnar að líta megi svo á að sá sem sé þinglýstur eigandi fasteignar samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, sé raunverulegur eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis og eigi þar með ekki rétt á húsnæðisbótum, óháð eignarhlut.

Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að ákvarðanatöku í máli kæranda og það sé niðurstaða stofnunarinnar að kærandi eigi ekki rétt á húsnæðisbótum.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar kemur fram að ekki sé hægt að fallast á röksemdafærslu kæranda um lögjöfnun þar sem ákvæði e-liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 hafi að geyma tæmandi talningu tilvika. Því beri að túlka ákvæðið þröngt og ekki rýmra en orðalag þess gefi beinlínis til kynna. Ekki verði séð að hægt sé að fella tilvik kæranda undir regluna sem gildi um heimilismenn sem eigi 49% hlut eða minna í lögaðila samkvæmt e-lið 3. mgr. 9. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2017, um að synja kæranda um endurupptöku máls.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á gögn málsins, þar með talið þær skýringar sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni 27. apríl 2017 um að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. janúar hafi ekki verið rétt. Sú ákvörðun var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafa ekki komið fram upplýsingar sem leiða til þess að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun sína frá 31. janúar 2017 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en upplýsingar um að kærandi væri aðeins eigandi að 1/3 hluta fasteignarinnar sem hún býr í lágu fyrir við upphaflega töku ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst verulega á þann veg að réttlætanlegt sé að mál hennar verði tekið aftur til meðferðar hjá Vinnumálastofnun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2017, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum