Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 15/2001: Dómur frá 8. apríl 2002.

Ár 2002, mánudaginn 8. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 15/2001.

Vélstjórafélag Íslands

(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna

Bervíkur ehf.

(Sigurður Kári Kristjánsson hdl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið loknum munnlegum málflutningi 11. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Hafnarhvoli, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness, kt. 610100-3410, Borgarbraut 1, Grundarfirði, vegna Bervíkur ehf., kt. 700399-2229, Snoppuvegi 4, Ólafsvík.


Dómkröfur stefnanda

1. Að viðurkennt verði að Bervík ehf., hafi brotið gegn ákvæði 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að halda Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, áfram til veiða eftir að verkfall Vélstjórafélags Íslands hófst kl. 23:00 þ. 15.03.2001, með félagsmann Vélstjórafélags Íslands, Ámunda Jökul Játvarðsson, kt. 250147-3689, Grundartanga 5, Mosfellsbæ, í stöðu yfirvélstjóra.

2. Að viðurkennt verði að Bervík ehf., hafi brotið gegn ákvæði 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að halda Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, til veiða dagana 17.03., 09., 12., 22., 24., 25., 26., og 27.04.2001 og 02., 03. og 04.05.2001, eftir að verkfall Vélstjórafélags Íslands hófst kl. 23:00 þann 15.03.2001, með félagsmann Vélstjórafélags Íslands, Gísla Hansson Wiium, kt. 130258-7519, Bröttukinn 18, Hafnarfirði, í stöðu yfirvélstjóra.

3. Að viðurkennt verði að Bervík ehf., hafi brotið gegn ákvæði 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að halda Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, til veiða dagana 09., 12., 22., 24., 25., 26., og 27.04.2001 og 02., 03. og 04.05.2001, eftir að verkfall Vélstjórafélags Íslands hófst kl. 23:00 þ. 15.03.2001, með félagsmann Vélstjórafélags Íslands, Snævar Örn Arnarsson, kt. 161078-4769, Starengi 2, Reykjavík, í stöðu vélavarðar.

&

8. Að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/1938 með því að víkja Ámunda Jökli Játvarðssyni, kt. 250147-3689, Grundartanga 5, Mosfellsbæ, úr stöðu yfirvélstjóra á Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, þann 16.03.2001, eftir að verkfall stéttarfélags hans, Vélstjórafélags Íslands, hófst kl. 23:00 þ. 15.03.2001 og setja annan mann í stöðu yfirvélstjóra, Gísla Hansson Wiium, kt. 130258-7519, Bröttukinn 18, Hafnarfirði.

9. Að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/1938 með því að hafa áhrif á afstöðu og afskipti Magnúsar Ásgeirssonar, kt. 050178-4639, Lýsubergi 11, Þorlákshöfn, af stéttarfélögum og vinnudeilum með sölu 2% hluts í Bervík ehf. í byrjun mars 2001 og gefa honum þar með loforð um fjárgreiðslur og/eða hagnað.

10. Að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að stunda veiðar á Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, þann 16.03.2001, með Ámunda Jökul Játvarðsson, kt. 250147-3689, Grundartanga 5, Mosfellsbæ í stöðu yfirvélstjóra, eftir að verkfall stéttarfélags hans, Vélstjórafélags Íslands, hófst kl. 23:00 þ. 15.03.2001 og stuðla þannig að því að afstýra löglega boðaðri vinnustöðvun Vélstjórafélags Íslands, með aðstoð félagsmanns þess.

11. Að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að stunda veiðar á Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, dagana 17.03. 09., 12., 22., 24., 25., 26., og 27.04.2001 og 02., 03. og 04.05.2001, með Gísla Hansson Wiium, kt. 130258-7519, Bröttukinn 18, Hafnarfirði, í stöðu yfirvélstjóra, eftir að verkfall stéttarfélags hans, Vélstjórafélags Íslands, hófst kl. 23:00 þ. 15.03.2001 og stuðla þannig að því að afstýra löglega boðaðri vinnustöðvun Vélstjórafélags Íslands, með aðstoð félagsmanns þess.

12. Að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að stunda veiðar á Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259, dagana 09., 12., 22., 24., 25., 26. og 27.04.2001 og 02., 03. og 04.05.2001, með Snævar Örn Arnarsson, kt. 161078-4769, Starengi 2, Reykjavík, í stöðu vélavarðar, eftir að verkfall stéttarfélags hans, Vélstjórafélags Íslands, hófst kl. 23:00 þ. 15.03.2001 og stuðla þannig að því að afstýra löglega boðaðri vinnustöðvun Vélstjórafélags Íslands, með aðstoð félagsmanns þess.

13. Að Bervík ehf. verði gert að greiða stefnanda sektir samkvæmt grein 1.53. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna tólf brota á ákvæði greinar 1.50. í kjarasamningnum, dagana 16. og 17.03., 09., 12., 22., 24., 25., 26. og 27.04. og 02., 03., og 04.05.2001, samtals að fjárhæð kr. 3.732.000,00.

&

20. Að Bervík ehf. verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.


Dómkröfur stefnda

Stefndi gerir þá kröfu í máli þessu að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

Til vara gerir stefndi þá kröfu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Í báðum tilvikum gerir stefndi þá kröfu í málinu að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Með úrskurði uppkveðnum 24. október sl. var kröfuliðum nr. 4, 5, 6 og 7 vísað frá dómi. Að auki hefur stefnandi fallið frá kröfuliðum nr. 14-19.


Málsatvik

Með bréfi, dags. þann 19.02.2001, boðaði stefnandi verkfall á öll íslensk fiskiskip frá og með kl. 23:00 þann 15.03.2001 nema samningar tækjust fyrir þann tíma, sbr. tilkynningu stefnanda um verkfallsboðun til stefnda, dags. þann 19.02.2001 og tilkynningu stefnanda um verkfallsboðun til Ríkissáttasemjara dags. sama dag. Samningar náðust ekki milli hagsmunaaðila, stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna, innan tilsetts tíma og skall því á verkfall þann 15.03.2001. Laust fyrir kl. 22:00 þann 19.03.2001 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 8/2001 um frestun á verkfalli fiskimanna. Samkvæmt 1. gr. laganna var verkfalli frestað til kl. 24:00 þann 01.04.2001 og hófust verkfallsaðgerðir því sjálfkrafa aftur við upphaf 02.04.2001. Samningar náðust milli stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna þann 09.05.2001, sbr. framlagðan kjarasamning og lauk þar með verkfalli stefnanda.

Töluverður fjöldi báta og skipa stunduðu veiðar í verkfalli stefnanda. Þannig var verkfallsnefnd sjómannasamtakanna tilkynnt um veiðar dragnóta- og netabátsins Bervíkur SH-143 strax í mars 2001. Með bréfi til Bervíkur ehf., dags. þann 26.03.2001 gerði stefnandi kröfu um greiðslu sekta samkvæmt kjarasamningi milli stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna brota útgerðarinnar á verkfallsákvæðum kjarasamningsins í rekstri Bervíkur SH-143. Að mati stefnanda hafði Bervík SH tvívegis verið haldið til veiða er umrætt bréf var ritað, dagana 16. og 17.03.2001, sbr. framlagt yfirlit landana frá Fiskistofu og yfirlýsingu þáverandi yfirvélstjóra á Bervík SH, Ámunda Jökuls Játvarðssonar, dags. þann 07.05.2001.

Lögmaður Bervíkur ehf. svaraði bréfi lögmanns stefnanda með bréfi dags. þann 30.03.2001. Sú ósk var sett fram í bréfinu að lögmaður stefnanda afhenti öll þau gögn sem hann hefði undir höndum varðandi málareksturinn. Með bréfi lögmanns Bervíkur ehf., dags. þann 10.04.2001 er því lýst yfir að umræddar tvær veiðiferðir í mars 2001 hafi ekki verið farnar á vegum og á ábyrgð Bervíkur ehf. Bervík ehf. liti því svo á að málinu væri lokið af sinni hálfu.

Með bréfi lögmanns stefnanda dags. þann 17.05.2001 voru kröfur um sektargreiðslur samkvæmt kjarasamningi ítrekaðar. Gerð var krafa um greiðslu sekta að fjárhæð 2.799.000 kr. fyrir níu landanir í yfirstandandi verkfalli. Í bréfinu er vísað til þess að samkvæmt þinglýsingarvottorði Bervíkur SH-143, sé Bervík ehf. eigandi skipsins og að engum leigusamningi hafi verið þinglýst á skipið. Samkvæmt lögskráningarvottorði fyrir Bervík SH, staðfestu af sýslumanni Snæfellinga, fyrir tímabilið 05.03.2001 20.03.2001, sbr. dskj. nr. 12 og tímabilið 01.04.2001 03.05.2001, sbr. dskj. nr. 13, hafi Bervík ehf. verið tilgreint sem eigandi og útgerðaraðili skipsins. Þá var vísað til yfirlýsingar Ámunda Jökuls Játvarðssonar, fyrrverandi yfirvélstjóra á Bervík SH, dags. þann 07.05.2001. Gefinn var frestur til greiðslu sekta, en þá höfðu níu kjarasamningsbrot verið upplýst, fyrir 01.06.2001.

Með bréfi lögmanns Bervíkur ehf., dags. þann 30.05.2001 var kröfum stefnanda hafnað og vísað til þess að Bervík ehf. hefði leigt Beruvík ehf. skipið þann 01.03.2001, sbr. framlagðan leigusamning. Beruvík ehf. bæri því ekki ábyrgð á umræddum kjarasamningsbrotum. Stefnandi telur nefndan leigusamning marklausan og þar sem Beruvík ehf. hafi ítrekað hafnað kröfum stefnanda sé mál þetta höfðað fyrir Félagsdómi.


Málsástæður

Stefnandi kveðst byggja mál sitt á eftirfarandi málsástæðum:

Ákvæði greinar 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Eins og fram sé komið hófst verkfall félagsmanna stefnanda á fiskiskipum kl. 23:00 þann 15.03.2001. Samkvæmt grein 1.50. í kjarasamningi milli stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna sé þeim er samningurinn taki til óheimilt að vinna þau störf sem aðrir hafi hætt við vegna verkfalls sem stefnandi hafi höfðað. Samkvæmt 2. mgr. greinar 1.50. skuli þau skip er verkfallið nái til hætta veiðum strax og verkfallið taki gildi. Sé vélstjórum/vélavörðum þá ekki heimilt að framkvæma aðra vinnu í þágu útgerðar en að sigla skipinu til hafnar, landa úr skipinu og undirbúa skipið að öðru leyti undir hafnarlegu.

Yfirvélstjórinn á Bervík SH, Ámundi Jökull Játvarðsson, vitni um það í framlagðri skýrslu að þegar verkfall sjómanna hafi skollið á kl. 23:00 þann 15.03.2001 hafi Bervík SH verið haldið að veiðum á Selvogsbanka og síðasta drossan dregin kl. 19:00. Að því loknu hafi verið siglt vestur í Breiðafjörð og átta trossur lagðar á tímabilinu frá kl. 10:00 til 13:00 þann 16.03.2001. Að því loknu hafi verið siglt til heimahafnar, Ólafsvíkur, en trossurnar skildar eftir. Við heimkomuna hafi hann neitað að sinna frekari störfum í þágu Bervíkur ehf. enda skollið á verkfall stéttarfélags hans. Hafi fyrirsvarsmenn Bervíkur ehf. því tekið til þess ráðs að setja annan mann í stöðu Ámunda Jökuls, Gísla Hansson Wiium, kt. 130258-7519, Bröttukinn 18, Hafnarfirði og haldið strax aftur til veiða.

Brot Bervíkur ehf. á ákvæði greinar 1.50. í kjarasamningnum og 18. gr. laga nr. 80/1938.

Þar sem Bervík SH hafi verið haldið áfram til veiða eftir að verkfall stefnanda hafi skollið á, en veiðar ekki stöðvaðar og skipinu siglt til hafnar, eins og skylt sé samkvæmt 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi aðila, teljist Bervík ehf. hafa gerst brotleg við ákvæði greinar 1.50. í kjarasamningnum og varði það sektum að fjárhæð 311.000 kr. samkvæmt greint 1.53. í sama kjarasamningi. Þá teljist Bervík ehf. hafa brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en í ákvæðinu segir að þegar vinnustöðvun hafi verið löglega hafin sé þeim sem hún að einhverju leyti beinist gegn óheimilt að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem hlut eigi að máli. Samkvæmt 70. gr. sömu laga varða brot á lögunum skaðabótum og sektum er renni í ríkissjóð. Þar sem ljóst sé að ákvæði 70. gr. laga nr. 80/1930 verði ekki beitt í þessu máli af lagatæknilegum ástæðum sé ekki gerð krafa um greiðslu sekta í ríkissjóð en þess í stað farið fram á viðurkenningu þess efnis að Bervík ehf. hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938.

Ámundi Jökull Játvarðsson sé félagsmaður stefnanda.

Með því að halda félagsmanni stefnanda, Ámunda Jökli Játvarðssyni, um borð, eftir að verkfall hófst og halda áfram veiðum hafi Bervík ehf. gerst brotlegt við framangreind kjarasamningsákvæði og 18. gr. laga nr. 80/1938. Óumdeilt sé að Ámundi Jökull sé félagsmaður stefnanda samkvæmt gögnum máls.

Bervík ehf. hafi brotið gegn 4. og 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að setja annan mann um borð í stað Ámunda Jökuls Játvarðssonar.

Með því að setja annan mann í stöðu Ámunda Jökuls Játvarðssonar, Gísla Hansson Wiium, kt. 130258-7519, Bröttukinn 18, Hafnarfirði, félagsmann stefnanda, sbr. framlagt yfirlit skilagreina og ljósrit úr félagaskrá stefnanda teljist Bervík ehf. hafa brotið gegn 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með því að hafa afskipti af vinnudeilum með því að setja Ámunda Jökul Játvarðsson í land, rifta við hann ráðningu og ráða annan mann í hans stað. Þá teljist Bervík ehf. hafa gerst brotlegt við 18. gr. sömu laga enda stuðluðu fyrirsvarsmenn útgerðarinnar að því að afstýra löglega hafinni vinnustöðvun með aðstoð félagsmanns stefnanda, Gísla Hansson Wiium.

Bervík ehf. hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að halda Bervík SH-143 úti í verkfallsaðgerðum stefnanda með Snævar Örn Arnarsson innanborðs.

Samkvæmt framlögðu lögskráningarvottorði hafi Snævar Örn Arnarsson, kt. 161078-4769, Starengi 102, Reykjavík, félagsmaður stefnanda, sbr. ljósrit úr félagatali stefnanda, inntökubeiðni í félag stefnanda og yfirlit skilagreina, verið vélavörður á Bervík SH, tímabilið 21.03.2001 05.05.2001. Með því að láta það viðgangast að hafa hann starfandi um borð sem vélavörð, í miðjum verkfallsaðgerðum stefnanda, teljist Bervík ehf. hafa gerst brotlegt við 18. gr. laga nr. 80/1938 og grein 1.50. í kjarasamningi aðila. Þessu til stuðnings vísast til þess að Magnús Ásgeirsson, kt. 050178-4639, Lýsubergi 11, Þorlákshöfn, félagsmaður Vélstjórafélags Íslands, sbr. yfirlit framlagðra skilagreina, hafi verið í föstu ráðningarsambandi við Bervík ehf., sem vélavörður, er verkfall stefnanda stóð yfir en nefndur Snævar Örn hafi komið í hans stað meðan hann var frá vinnu í kjölfar slyss. Magnús Ásgeirsson hafi því ekki verið um borð þ. 16.03.2001; enginn vélavörður hafi þá verið um borð og séu því upplýsingar á framlögðu lögskráningarvottorði rangar, en samkvæmt vottorðinu hafi Magnús verið lögskráður á Bervík SH þann dag.

Magnús Ásgeirsson hafi verið ráðinn til Bervíkur ehf. en ekki Beruvíkur ehf.

Samkvæmt yfirlýsingu Magnúsar Ásgeirssonar, kt. 050178-4639, Lýsubergi 11, Þorlákshöfn dags. þ. 25.06.2001 hafi hann verið ráðinn sem vélavörður á Bervík SH-143 þ. 20.02.2001, af Kristjáni Sigurði Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Bervíkur ehf. Hann hafi slasast við skipsstörf þ. 14.05.2001 og hafi hann þ.a.l. ekki verið við störf á Bervík SH þ. 16.03.2001 er verkfall stefnanda hófst. Í yfirlýsingunni undirstriki Magnús að hafa verið ráðinn til Bervíkur ehf. en ekki Beruvíkur ehf. og að honum hafi aldrei verið tilkynnt að skipti hafi orðið á útgerðarmanni á ráðningartímanum. Launaseðlar útgefnir þ. 17.04.01 beri því ekki með sér hið rétta heiti útgerðarinnar. Í því sambandi er á það bent að launaseðlarnir hafi verið sendir í umslagi merktu Bervík ehf. með póststimpli dags. þ. 23.05.2001 eða rúmum mánuði eftir að umræddir launaseðlar hafi átt að hafa verið gefnir út. Samkvæmt viðskiptamannabókhaldi Bervíkur ehf. sé Bervík ehf. launagreiðandi Magnúsar Ásgeirssonar og samkvæmt lögskráningargögnum sé Bervík ehf. ábyrgt fyrir lögskráningum á Bervík SH. Verði því að telja framburð Magnúsar Ásgeirssonar, að hafa verið ráðinn á Bervík SH undir rekstri Bervíkur ehf., sem félagsmaður stefnanda, á rökum reistan enda hafi fyrirsvarsmenn Bervíkur ehf. ekki sannað hið gagnstæða, til að mynda með framvísun skiprúmssamnings sem þeim hafi borið lagaskylda að gera við ráðningu Magnúsar í skiprúm, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Bervík ehf. hafi brotið gegn 4. gr. laga nr. 80/1938 með því að selja Magnúsi Ásgeirssyni 2% eignarhlut í útgerðinni rétt áður en verkfallsaðgerðir stefnanda hófust.

Í yfirlýsingu Magnúsar Ásgeirssonar komi fram að í byrjun mars 2001 hafi framkvæmdastjóri Bervíkur ehf., Kristján Sigurður Kristjánsson, komið að máli við hann og skipstjórann á Bervík SH, Jónas Ellert Jónsson, auk tveggja háseta og tjáð þeim að hann hygðist halda Bervík SH áfram til veiða þrátt fyrir verkfall sjómannasamtakanna. Hafi framkvæmdastjórinn lagt fram skjal til undirritunar en samkvæmt því hafi Magnús átt að eignast 2% hlut í útgerðinni að verðmæti 10.000 kr. kr. Að svo búnu hafi Magnús verið orðinn meðeigandi útgerðarinnar og því mátt halda áfram vinnu í verkfalli stefnanda. Magnús hafi aldrei greitt þessar 10.000,00 kr. enda hafi framkvæmdastjórinn tilkynnt honum að einungis væri um málamyndagerning að ræða. Er á því byggt að með þessu atferli hafi Bervík ehf. brotið gegn b-lið 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938; reynt að hafa áhrif á afstöðu og afskipti Magnúsar Ásgeirssonar af stéttarfélögum og vinnudeilum með fjárgreiðslum eða loforðum um hagnað. Þá er á því byggt að 2% eignarhluti í Bervík ehf. geti ekki talist nægjanlegur til að telja Magnús Ásgeirsson eiganda útgerðarinnar en ekki launþega sem falli undir lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Bervík ehf. hafi verið útgerðaraðili Bervíkur SH-143 en ekki Beruvík ehf.

Af hálfu Bervíkur ehf. er því meðal annars haldið fram til varnar brotum sínum á ákvæðum kjarasamnings aðila og lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur að skipið Bervík SH hafi ekki verið gert út af hálfu Bervíkur ehf. í verkfalli stefnanda, sbr. bréf lögmanns Bervíkur ehf., dags. þ. 10.04.2001. Í bréfinu segir meðal annars orðrétt:

"Það skal upplýst að þó svo að dragnóta- og netabáturinn Bervík SH-143 sé í eigu umbj. míns þá voru þær veiðiferðir sem þér vísið til ekki farnar á vegum og á ábyrgð umbj. míns, Bervíkur ehf. Lítur umbj. minn því svo á að máli þessu sé lokið af hans hálfu."

Í bréfi lögmanns Bervíkur ehf. dags. 30.05.2001 sé vísað til framlagðs leigusamnings dags. 01.03.2001; að leigusali samkvæmt samningnum sé Bervík ehf., kt. 700399-2229, en leigutaki Beruvík ehf., kt. 540301-2470. Síðan segi orðrétt í bréfinu:

"Í bréfi yðar, dags. 17. maí 2001, þá er því haldið fram að hin meintu brot umbjóðanda míns hafi átt sér stað annars vegar á tímabilinu, 5. mars 2001 til 20. mars 2001, en hins vegar á tímabilinu 1. apríl 2001 til 3. maí 2001. Ofangreindur samningur um leigu á fiskiskipinu m.s. Bervík SH-143, er hins vegar dagsettur þann 1. mars 2001, eða áður en hin meintu brot eiga að hafa átt sér stað. Í ljósi þessa telur umbj. minn að þær veiðiferðir sem þér vísið til í bréfi yðar dags. 17. maí 2001. [sic] hafi hvorki verið farnar á vegum né á ábyrgð félagsins."

Stefnandi telur að framlagður leigusamningur hafi verið gerður til málamynda og í því markmiði að skjóta Bervík ehf. undan löglega boðaðri vinnustöðvun. Leigusamningurinn sé undirritaður þ. 01.03.2001 en stefnandi hafi boðað verkfall með bréfum dags. þ. 19.02.2001. Þá hafði atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun staðið yfir hjá stefnanda um nokkurt skeið en atkvæði hafi ekki verið talin fyrr en þ. 01.02.2001.

Bervík ehf. sé stofnað þ. 23.03.1999 en Beruvík ehf. sé stofnað þ. 28.02.2001. Kristján Sigurður Kristjánsson sé meðstjórnandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Bervíkur ehf. og stjórnarmaður og prókúruhafi Beruvíkur ehf. Jónas Ellert Jónsson sé varamaður í stjórn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Beruvíkur ehf. en hann sé jafnframt skipstjóri á Bervík SH, sbr. framlögð lögskráningarvottorð. Jónas Ellert Jónsson skrifi undir leigusamninginn f.h. leigutaka, en önnur nöfn leigutaka sé ekki að finna á samningnum. Virðist nefndur Jónas Ellert vera hér einn að verki. Þá hafi leigusamningnum ekki verið þinglýst. Lögheimili bæði Bervíkur ehf. og Beruvíkur ehf. sé að Snoppuvegi 4, Ólafsvík. Af framangreindu verði ráðið að um eitt og sama félagið sé að ræða enda erfitt að sjá hagsmuni Bervíkur ehf. í því að leigja sjálfum sér skip sitt nema fyrir það eitt að skjóta sér undan löglega boðuðum verkfallsaðgerðum stefnanda eða til þess að komast undan ákvæðum kjarasamninga og laga um greiðslu hæsta gangverðs fyrir fiskafurðirnar hverju sinni, sbr. efnisatriði samningsins sjálfs.

Framangreindu til frekari stuðnings, þ.e. að hinn óþinglýsti leigusamningur sé málamyndagerningur, vísast til skýrslu yfirvélstjórans á Bervík SH, Ámunda Jökuls Játvarðssonar, dags. þann 07.05.2001. Samkvæmt skýrslunni hafi Ámundi Jökull verið ráðinn yfirvélstjóri á Bervík SH þann 18.02.2001 undir rekstri Bervíkur ehf. Það atriði ætti að vera óumdeilt enda hafi Beruvík ehf. ekki verið stofnað fyrr en þann 28.02.2001. Ámundi Jökull hafi verið ráðinn til starfa af Kristjáni Sigurði Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Bervíkur ehf. og síðar einnig stjórnarmanni í Beruvík ehf. Samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði fyrir Bervík SH-143 sé Bervík ehf. skráð eigandi skipsins en engum kvöðum eða öðrum eignaböndum, svo sem leigusamningi, hafi verið þinglýst á skipið. Samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti hafi Ámunda Jökli verið greidd laun frá Bervík ehf. enda sé kennitalan 700399-2229 tilgreind á reikningsyfirlitinu sem kennitala greiðanda. Samkvæmt viðskiptamannabókhaldi Bervíkur ehf. sé Bervík ehf. launagreiðandi Ámunda Jökuls en síðasta færsla í viðskiptamannabókhaldinu sé framkvæmd þ. 17.04.2001. Það sé ekki fyrr en með launaseðli, útgefnum þann 17.04.2001 sem Beruvík ehf. sé tilgreint sem útgerðaraðili Bervíkur SH eða sama dag og Bervík ehf. hafi innt af hendi síðustu greiðslu sína til Ámunda Jökuls. Greiðslan sem átt hafi sér stað þ. 17.04.2001 sé framkvæmd af Beruvík ehf., þ.e. kennitalan 540301-2470 sé tilgreind sem kennitala greiðanda. Samt sem áður sé sú greiðsla tilgreind í viðskiptamannabókhaldi Bervíkur ehf., kt. 700399-2229. Þá beri enn fremur að líta til þess að Bervík ehf. hafi ætíð lögskráð á Bervík SH-143, skipaskrárnúmer 259 og sé á lögskráningarvottorðum skráð sem útgerðaraðili skipsins, sbr. framlögð lögskráningarvottorð.

Verktaka á fiskiskipum fari í bága við sjómannalög nr. 35/1985.

Samkvæmt 1. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 gildi lögin um alla sjómenn á íslenskum skipum. Samkvæmt 4. gr. laganna geti samtök sjómanna og útgerðarmanna samið um betri réttindi sjómönnum til handa en leiðir af ákvæðum laganna. Ákvæði laganna um réttindi sjómanna skuli í engu skerða fyllri rétt þeirra samkvæmt kjarasamningum, sbr. 2. mgr. 4. gr. sjómannalaga. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sjómannalaga sé með skipverja í lögunum átt við hvern þann sjómann sem á skip sé ráðinn til skipsstarfa. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. teljist vélstjórar til yfirmanna. Í framangreindum ákvæðum laganna sé ótvírætt tekið af skarið um það að sjómenn séu launþegar og að um kjör þeirra fari samkvæmt sjómannalögum og kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags. Verktaka á skipum sé því ólögmæt.

Samkvæmt 6. gr. sjómannalaga skuli útgerðarmaður sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur (skiprúmssamningur) við skipverja. Í slíkum samningi skuli þau atriði tiltekin sem greind séu í 1. 6. tölulið 1. mgr. 6. gr. Geri útgerðarmaður ekki slíkan samning við skipverja beri hann allan halla af sönnunarskorti sem af því kann að leiða, sbr. t.d. H. 1993:946. Ákvæði 6. gr. sjómannalaga verði að skoðast til hliðsjónar því máli sem hér sé til umfjöllunar en eins og að framan sé rakið hafi Ámundi Jökull talið að hann væri ráðinn til yfirvélstjórastarfa á Bervík SH undir rekstri Bervíkur ehf. Á síðari stigum haldi fyrirsvarsmenn Bervíkur ehf. því fram að skiprúmssamningurinn við Ámunda Jökul og verkfall stéttarfélags hans, stefnanda málsins, komi þeim ekkert við. Ámundi Jökull hafi verið ráðinn til Beruvíkur ehf. sem ekki hafði verið stofnað þegar hann hafi verið ráðinn til starfa á Bervík SH. Þar sem enginn skriflegur samningur hafi verið gerður við Ámunda Jökul verði hann að teljast ráðinn til Bervíkur ehf. en ekki Beruvíkur ehf. enda hafi hann haft fulla ástæðu til að ætla að svo væri sbr. það sem fyrr segir um það atriði. Bervík ehf. verði hér að bera allan halla af þeim sönnunarskorti sem stafi af því að skiprúmssamningur hafi ekki verið gerður við Ámunda Jökul, bæði gagnvart Ámunda sjálfum og stéttarfélagi hans, Vélstjórafélagi Íslands.

Réttur skipverja til að rifta skiprúmssamningi samkvæmt 22. gr. sjómannalaga við sölu eða leigu skips.

Hafi Bervík ehf. leigt Beruvík ehf., Bervík SH, þann 01.03.2001, eins og haldið sé fram í málinu, þá hafi Bervík ehf. borið að tilkynna Ámunda Jökli um þá ráðstöfun. Ámundi Jökull hefði þá átt rétt til að rifta skiprúmssamningi sínum á Bervík SH samkvæmt 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga og krefjast skaðabóta miðað við sex vikna kaup. Hann hafi ekki þurft að sæta því að fylgja skipinu til nýs útgerðaraðila sbr. H. 1990:1276 og H. 1995:2744, hvort sem um sölu eða leigu á skipinu hafi verið að ræða. Við skipti á útgerðaraðila hafi hinum nýja útgerðaraðila borið að ganga frá skiprúmssamningi við Ámunda Jökul, hefði hann á annað borð viljað taka slíkum samningi. Allt framangreint styðji það mat stefnanda að umræddur leigusamningur sé ómarktækur og einungis til þess fallinn að skjóta Bervík ehf. undan löglega boðuðum verkfallsaðgerðum stefnanda.

Leigusamningurinn beri ljóslega með sér að vera málamyndagerningur.

Til að undirstrika framangreind sjónarmið um verkfallsbrot Bervíkur ehf. er bent á ákvæði leigusamningsins en samningurinn beri þess greinilega merki að vera málamyndagerningur. Fyrst í stað er bent á ákvæði 4. gr. samningsins um leigutímann. Skipið sé leigt þann 01.03.2001 en leigusamningurinn sé uppsegjanlegur með einnar viku fyrirvara. Það sé ekki einu sinni nægjanlegur fyrirvari til að segja yfirmönnum skipsins upp störfum en þeir hafi þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Samkvæmt 6. gr. samningsins sé leigugjald skipsins 60% af hráefnisverði skipsins á leigutímanum. Bervík ehf. sé sem sagt að hirða 60% af afrakstri skipsins hver sem hann kunni að vera á hverjum tíma. Af þessu ákvæði megi greina tilraun Bervíkur ehf. til að gera skipverjana á Bervík SH verktaka á skipinu. Verktaka á fiskiskipum sé óheimil og með öllu óframkvæmanleg. Samkvæmt 7. gr. samningsins sé Bervík ehf. skuldbundið til að annast í samráði við Beruvík ehf. allt eðlilegt viðhald og viðgerðir á skipi, vél- og skipsbúnaði og samkvæmt 8. gr. samningsins skuli Bervík ehf. greiða allan kostnað vegna reksturs skipsins á leigutímanum en ekki sé sérstaklega tilgreint hvort laun skipverja séu innifalin í þeim kostnaði. Hins vegar sé frá því greint í 9. gr. samningsins að Bervík ehf. sjái um að greiða allar tryggingar af skipinu og skipverjum. Af samningi þessum verði ekki annað ráðið en að Bervík ehf. hafi haldið áfram rekstri Bervíkur SH og að stofnun Beruvíkur ehf. sé einungis til málamynda og til þess fallin að halda Bervík SH áfram til veiða þrátt fyrir verkfallsaðgerðir stefnanda.

Bervík ehf. hafi brotið 12 sinnum af sér í afstöðnum verkfallsaðgerðum stefnanda í útgerð netabátsins Bervíkur SH-143.

Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu um landanir Bervíkur SH-143 hafi Bervík ehf. brotið tólf sinnum af sér í liðnu verkfalli stefnanda, í rekstri Bervíkur SH-143, dagana 16. og 17.03.2001, dagana 09., 12., 22., 24., 25., 26. og 27.04.2001 og 02., 03. og 04.05.2001. Fyrsta brotið hafi verið framið þann 16.03.2001 en þá var Ámundi Jökull Játvarðsson yfirvélstjóri skipsins en Magnús Ásgeirsson var skráður vélavörður en var þá í landi óvinnufær, sbr. framlögð lögskráningavottorð. Báðir séu þeir félagsmenn stefnanda. Enginn virðist hafa verið lögskráður í vélarúm skipsins er landað var þ. 17.03.2001 og einungis einn maður lögskráður í skiprúm, Skúli Helgason háseti, sbr. framlagt lögskráningarvottorð. Hér sé því um brot á lögskráningarlögum að ræða og ákvæði 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi aðila á dskj. nr. 5, en þar segir:

"Komi til verkfalls vélstjóra/vélavarða er samningur þessi tekur til skulu þau skip er verkfallið nær til hætta veiðum strax og verkfallið tekur gildi."

Ljóst sé að kjarasamningurinn milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands hafi tekið til vélstjóranna tveggja á Bervík SH, þeirra Ámunda Jökuls Játvarðssonar og Magnúsar Ásgeirssonar enda séu þeir báðir félagsmenn stefnanda. Hafi því Bervík ehf. borið að leggja Bervík SH þegar í stað en ekki hafi verið hægt að manna skipið nýjum vélstjórum meðan verkfallsaðgerðir hafi staðið yfir. Styðjist það sjónarmið einnig við 4. gr. laga nr. 80/1938, a-lið; Bervík ehf. hafi ekki verið unnt að reka Ámunda Jökul úr starfi eftir að verkfall hófst, ráða nýjan mann í hans stað og halda áfram veiðum. Ákvæði 18. gr. laga nr. 80/1938 taki einnig yfir þetta tilvik; að reka Ámunda Jökul úr starfi og ráða annan félagsmann stefnanda til að sinna skipsstörfum hans í verkfallinu.

Í apríl og maí 2001 hafi Gísli Hansson Wiium verið lögskráður sem yfirvélstjóri á Bervík SH og Snævar Örn Arnarsson sem vélavörður, sbr. framlagt lögskráningarvottorð en báðir séu þeir félagsmenn stefnanda. Breyti þó í raun engu um félagsaðild þessara manna enda hafi þeir verið staðgenglar félagsmanna stefnanda í verkfallinu en slíkir staðgenglar geti ekki haft ríkari rétt til vinnu í verkfalli en þeir skipverjar sem þeir leysa tímabundið af. Komi því við 10 kjarasamningsbrot hér til viðbótar hinum tveimur og sé því samtals um að ræða tólf kjarasamningsbrot.

Bervík ehf. sé krafið um greiðslu sekta samkvæmt grein 1.53. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Samtals teljist Bervík ehf. hafa brotið tólf sinnum á ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. Í grein 1.53. í kjarasamningnum sé kveðið á um sektargreiðslur eða öllu heldur févíti vegna brota á kjarasamningnum. Greiðslur þessar nema allt að 311.009 kr. sbr. grein 1.53. og grein 1.08., þ.e. sektargreiðslur þessar hafi hækkað úr 300.007 kr. í 311.009 kr. þann 01.01.1999 eða um 3.65%.

Sektir vegna tólf kjarasamningsbrota nemi að hámarki 3.732.000 kr. og sé gerð sú krafa að Bervík ehf. verði gert að greiða þá fjárhæð í félagssjóð stefnanda. Um sé að ræða alvarleg brot á kjarasamningnum, ákvæðum hans sem sérstaklega eigi að koma í veg fyrir að útgerðir haldi skipum sínum áfram til veiða í verkföllum og verkbönnum, sbr. sérákvæði greinar 1.50. í kjarasamningnum þess efnis. Með sérákvæðum kjarasamningsins um verkföll og verkbönn í ákvæði greinar 1.50. og greiðslu sekta vegna brota á þeim ákvæðum í grein 1.53. sé verið að gera verkföll sjómannasamtakanna og verkbönn útvegsmanna virkari; í stað þess að beita ofbeldi til að stöðva ólöglegar veiðar skips sé hægt að reka ágreininginn fyrir dómstólum. Felli Félagsdómur niður sektir samkvæmt kjarasamningnum eða lækki þær verulega í þessu máli verði gamli mátinn væntanlega tekinn upp að nýju og sé það engum til hagsbóta.

Bervík ehf. hafi hagnast verulega í útgerð Bervíkur SH-143 í afstöðnum verkfallsaðgerðum stefnanda.

Bervík ehf. hefur hagnast verulega á útgerð Bervíkur SH í verkfalli stefnanda. Í fyrsta lagi hafi engin samkeppni verið um veiðistaði en á netaveiðum sé mikilvægt að staðsetja bátana sem best. Markaðsverð sjávarfangs hafi hækkað verulega í hinu sex vikna verkfalli og hafi Bervík ehf. þ.a.l. fengið mun hærra verð fyrir afurðir sínar en ella og náð að veiða stóran hluta af aflaheimildum sínum fyrir mun hærra verð en samkeppnisaðilarnir. Þá hafi veiðar Bervíkur SH og annarra skipa sem brutu gegn löglega boðuðum verkfallsaðgerðum sjómannasamtakanna haft þau áhrif, ef eitthvað sé, að verkfallið hafi dregist á langinn, öllum til tjóns, sjómönnum, útgerðarmönnum og þjóðfélaginu í heild; hinir brotlegu séu þeir einu sem hafi hagnast.

Til merkis um aflabrögð Bervíkur SH í verkfallinu er vísað til framlagðra löndunarskýrslna frá Fiskistofu. Í verkfallinu muni Bervík SH hafa aflað samtals 187 tonn og 125 kg af þorski, 3 tonn og 564 kg af ýsu, 3 tonn og 708 kg af ufsa, 1 tonn og 581 kg af löngu, 195 kg af skarkola, 196 kg af gullkarfa en aðrar tegundir hafi numið 102 kg. Aflaverðmæti Bervíkur SH hafi numið á annan tug miljóna kr. í apríl 2001 og hafi þá einungis verið tekið tillit til þorsksaflans. Samkvæmt fiskverðssamkomulagi milli áhafnar og útgerðar Bervíkur SH-143, dags. þann 22.09.2000 fái áhöfnin alltaf sama verð fyrir fiskinn, verð sem séu langt undir landsmeðalverðum samkvæmt upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs og það þrátt fyrir að verð á mörkuðum hafi stórlega hækkað í verkfallsaðgerðum stefnanda. Það sé því ljóst að Bervík ehf. hafi hagnast hlutfallslega meira á verkfallsbrotum sínum en skipverjarnir á Bervík SH. Framangreindar sektargreiðslur séu samkvæmt framangreindu fjarri því að vera of háar, eigi Bervík ehf. á annað borð ekki að hagnast á brotum sínum á ákvæðum laga nr. 80/1938 og grein 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Félagsdómi sé falið að meta fjárhæð sekta.

Eins og orðalag greinar 1.53. í kjarasamningi aðila beri með sér nemi brot á ákvæðum kjarasamningsins sektum allt að fjárhæð 311.009 kr. Það sé því undir Félagsdómi komið að meta alvarleika brots og dæma sektir í samræmi við það. Ekkert komi fram í ákvæðinu um það hvort einstök útgerð geti endalaust brotið af sér án þess að slík brotaröð hafi í för með sér margföldunaráhrif. Er því haldið fram í málinu að Bervík ehf. hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamningsins í hvert sinn sem Bervík SH hafi verið haldið til veiða í hinum löglega boðuðu verkfallsaðgerðum stefnanda. Að öðrum kosti gæti útgerð sem verkfallsaðgerðir tækju til ítrekað brotið gegn áskilnaði greinar 1.50. í kjarasamningnum og einungis greitt eina sekt, að hámarki 311.009 kr. sem séu smámunir miðað við þá hagsmuni sem í húfi séu; að geta stöðugt róið í verkfalli án þess að vörnum verði við komið og aflað með því verðmæta upp á tugi- eða hundruð milljóna króna. Fallist Félagsdómur á slíka niðurstöðu megi búast við því að í framtíðinni verði verkfallsaðgerðir stefnanda með öðrum hætti en nú sé; gamaldags aðferðum verði eflaust beitt við verkfallsvörslu í stað hinna nútímalegu aðferða; að aðilar leysi úr ágreiningi sínum fyrir hlutlausum dómstól. Hér sé mikilvægt mál á ferðinni og niðurstöður þess gætu haft veruleg áhrif á vinnumarkaðinn í heild sinni.

Nokkrir útvegsmenn sem hafi stundað ólöglegar veiðar í verkfalli sjómannasamtakanna hafi viðurkennt brot sín og samið um greiðslu sekta. Um það sé ekki að ræða í tilviki Bervíkur ehf. enda hafi félagið tekið til varna í máli þessu. Fyrir því sé áratugalöng venja að ákvæði kjarasamninga haldi gildi sínu þar til nýr kjarasamningur hafi verið gerður og sé á þeim venjurétti byggt í máli þessu. Sérstaklega er vísað til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda í þessu sambandi, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993. Undanþágur séu veittar í verkföllum og fari um launakjör undanþágumanna samkvæmt umræddum kjarasamningi, þá sé sérstaklega um það samið í kjarasamningnum hvernig menn eigi að hegða sér í verkföllum, sbr. ákvæði greinar 1.50. og um brot á því ákvæði fari samkvæmt ákvæði greinar 1.53. Verði Bervík ehf. sýknuð af sektarkröfu í málinu myndi það óhjákvæmilega leiða til þess að sjómenn boði verkföll mun fyrr en verið hafi og engar undanþágur verði veittar í verkföllum, svo sem til togararalls eða vélaupptekta; siglinga milli hafna eða til almenns eftirlits með vélbúnaði.

Aðild.

Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur reki félög, sem ekki séu meðlimir sambandanna, mál sín og meðlima sinna. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé það verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögunum og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana. Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm.

Stefnandi kveðst byggja á ákvæðum greina 1.03., 1.14., 1.50. og 1.53. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, 4., 18., 44. og 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, 1., 4., 5., 6., 9. og 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, H. 1990:1276 og H. 1995:2744.


Málsástæður og lagarök stefnda

Byggir sýknukrafa stefnda fyrir það fyrsta á þeirri málsástæðu að stefndi eigi ekki aðild að máli þessu og því beri að sýkna félagið af öllum dómkröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Sýknukröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til þess að á því tímabili sem hin meintu kjarasamningsbrot hafi átt sér stað og dómkröfur stefnanda byggja á, hafi verið í gildi leigusamningur milli stefnda og Beruvíkur ehf. um fiskiskipið Bervík SH-143. Hafi umræddar veiðiferðir því verið farnar á vegum og á ábyrgð fyrirsvarsmanna Beruvíkur ehf en ekki stefnda og því hafi stefnanda borið að beina málsókn sinni að Beruvík ehf. en ekki stefnda. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert og beri því að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ofangreindri málsástæðu til stuðnings er vísað til þess að vinnulaun þeirra skipverja sem voru um borð á Bervík SH-143 á því tímabili sem mál þetta snúist um hafi verið greidd af Beruvík ehf. og færð til gjalda í rekstri félagsins. Stefndi hafi hvergi komið nærri launagreiðslum til skipverjanna á umræddu tímabili enda var skipið í leigu hjá Beruvík ehf. Fullyrðingu sinni til stuðnings vísar stefndi til þeirra launaseðla sem lagðir hafa verið fram í málinu, þar sem fram komi að launagreiðandi sér Beruvík ehf. en ekki stefndi.

Stefnandi eyði miklu púðri í að færa rök fyrir því að leigusamningur um Bervík SH-143 milli stefnda og Beruvíkur ehf. hafi verið gerður til málamynda. Í því sambandi er m.a. á því byggt að leigusamningnum hafi ekki verið þinglýst. Þá er því haldið fram að ástæður fyrir því að slíkur málamyndagerningur hafi verið gerður hafi verið tilraunir stefnda til skjóta sér undan löglega boðuðum verkfallsaðgerðum stefnanda eða til þess að koma stefnda undan ákvæðum kjarasamninga og laga um greiðslu hæsta gangverðs fyrir fiskafurðirnar hverju sinni.

Stefndi hafnar ofangreindum málflutningi stefnda sem ósönnuðum og fjarstæðukenndum. Vísar stefndi í því sambandi til þess leigusamnings sem fyrir liggur í málin, sem undirritaður sé af fyrirsvarsmönnum leigutaka og leigusala og vottaður af tveimur vitundarvottum. Stefndi mótmælir harðlega að leigusamningurinn sé einungis málamyndagerningur enda telur stefndi allar slíkar fullyrðingar stefnda ósannaðar. Telur stefndi að leigusamningurinn hafi verið gildur, bæði hvað form og efni varðar, og gerir kröfu um að á honum verði byggt í máli þessu. Þá telur stefndi að þeir launaseðlar sem lagðir hafa verið framog gefnir voru út af leigutaka skipsins, sýni svart á hvítu að ekki hafi verið um að ræða málamyndagerning heldur gildan löggerning. Þá vill stefndi taka það sérstaklega fram að það hafi enga þýðingu fyrir gildi umrædds leigusamnings hvort honum hafi verið þinglýst eða ekki. Slíkri opinberri skráningu sem í þinglýsingu felist sé einungis ætlað að tryggja réttarstöðu gagnvart þriðja manni en hafi engin áhrif á gildi leigusamningsins sem slíks.

Með hliðsjón af þeim röksemdum sem að ofan greinir telur stefndi einsýnt að sýkna beri hann af öllum dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts stefnda að máli þessu, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Í öðru lagi telur stefndi að verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda á þeim grundvelli að félagið eigi ekki aðild að málinu beri engu að síður að sýkna stefnda af dómkröfum sem byggja á ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda. Byggir sú sýknukrafa stefnda á þeirri málsástæðu að þegar verkfall stefnanda hófst hafi þágildandi kjarasamningur stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna og ákvæði hans, þ.á.m. ákvæði greina 1.03., 1.14., 1.50. og 1.53. fallið niður og þar með úr gildi og ekki verið skuldbindandi gagnvart stefnda eða öðrum aðilum sem undir ákvæði kjarasamningsins féllu.

Þeirri fullyrðingu er alfarið hafnað, sem haldið er fram af hálfu stefnanda að fyrir því sé áratugalöng venja að ákvæði kjarasamninga haldi gildi sínu þar til nýr kjarasamningur hafi verið gerður og að slíkur venjuréttur eigi við í máli þessu. Stefndi telur einsýnt að ákvæði kjarasamninga falli niður og þar með skyldur aðila slíkra samninga í þeim tilvikum þegar annar aðili kjarasamnings lýsi yfir verkfalli, en í þeirri yfirlýsingu felist að ekki verði staðið við þá meginreglu slíkra samninga sem vinnuskyldan sé. Að sama skapi falli niður við slíkar yfirlýsingar aðrar meginskuldbindingar sem í ákvæðum kjarasamningi felist, s.s. skyldur vinnuveitanda til þess að greiða launþegum sínum umsamin vinnulaun og standa skil á orlofsgreiðslum og greiðslum í lífeyrissjóði, svo fátt eitt sé nefnt. Og í ljósi þess hversu einsýnt það virðist að ákvæði kjarasamninga falli niður þegar verkfall skelli á þá séu engar heimildir til þess, hvorki fyrir stefnanda né dómstóla, til að dæma stefnda til greiðslu sekta vegna meintra brota á kjarasamningi sem ekki hafi verið í gildi á þeim tíma þegar umræddar veiðiferðir og atvik, sem hinar fjölmörgu dómkröfur stefnanda byggja á, eigia að hafa átt sér stað.

Til stuðnings ofangreindri málsástæðu er sérstaklega bent á að ákvæði greinar 1.53. í kjarasamningi stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna sé gríðarlega íþyngjandi gagnvart stefnda. Samkvæmt viðurkenndum lögskýringar- sjónarmiðum beri dómstólum að túlka slík ákvæði þröngt, sérstaklega þegar fyrir hendi sé vafi á því hvort viðkomandi kjarasamningur sem hafi inni að halda slík sektarákvæði sé í gildi.

Að lokum hafnar stefndi því að hafa vikið Ámunda Jökli Játvarðssyni úr stöðu yfirvélstjóra á Bervík SH-143, eftir að verkfall stefnanda hófst og að hafa sett annan mann í stöðu yfirvélstjóra, þar sem Ámundi Jökull hafi óskað eftir því að vera leystur frá störfum sínum. Jafnframt hafnar stefndi því að hafa brotið gegn a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/1938, með því að hafa áhrif á afstöðu og afskipti Magnúsar Ásgeirssonar af stéttarfélögum og vinnudeilum með sölu 2% hluts í stefnda í byrjun mars 2001. Ennfremur hafnar stefndi því að hafa látið hjá líða að láta skipverjum Bervíkur SH-143 í té reikningsuppgjör eða brotið gegn kjarasamnings- eða lögbundnum rétti þeirra að nokkru leyti.

Með hliðsjón af því sem að ofan greinir gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir stefndi þá kröfu til vara að þær kröfur sem stefnandi gerir á hendur stefnda í máli þessu um greiðslu sekta vegna hinna meintu kjarasamningbrota verði lækkaðar verulega.

Sektarkröfur virðast allar byggjast á ákvæði greinar 1.53. í kjarasamningi stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna sem kveði á um sektir vegna brota á kjarasamningi aðila, en Félagsdómi sé falið að meta alvarleika brots og dæma sektir í samræmi við það.

Við túlkun á ofangreindu ákvæði greinar 1.53. telur stefndi að hafa verði í huga að ákvæðið sé íþyngjandi fyrir samningsaðila. Beri því samkvæmt viðteknum lögskýringaraðferðum og leiðum að túlka slík ákvæði með þrengjandi hætti gagnvart þeim aðila sem hin íþyngjandi regla ákvæðisins beinist að og verði slíku ákvæði ekki beitt gagnvart þeim aðila sem beita á sektargreiðslum með harkalegri hætti en ákvæðið beinlínis heimili.

Svo virðist sem að í kröfugerð stefnanda í máli þessu felist að þar sem hann telji að stefndi hafi með háttsemi sinni brotið alls sextán sinnum gegn ákvæðum kjarasamningsins milli stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna og því Með öðrum orðum byggir dómkrafan á því að í háttsemi stefnda felist brotaröð sem leiði til og hótar stefnandi að gripið verði til þess sem hann nefnir gamaldags aðferða við verkfallsvörslu, verði ekki fallist á dómkröfur hans.

Stefndi hafnar þeirri túlkun stefnanda að sekta beri stefnda jafnoft sem nemi fjölda hinna meintu kjarasamningsbrota.og gerir kröfu um að verði það niðurstaða dómsins að stefndi hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðum kjarasamningsins þá verði sú sekt sem honum verði gert að greiða aldrei metin hærri en sem nemur þeirri fjárhæð sem fram kemur í ákvæði 1.53. þannig að dæmd sekt samkvæmt ákvæðinu verði aldrei látin nema hærri fjárhæð en 311.000 kr.

Á það er sérstaklega bent að í að í ákvæði greinar 1.53. komi hvergi fram heimild til þess fyrir dómstóla að beita þeim margföldunaráhrifum refsiákvæðisins sem stefnandi gerir kröfu um að gert verði.

Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á ákvæðum 129, gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og verður nánari grein gerð fyrir þeirri kröfu við aðalmeðferð málsins.

Sýknukrafa stefnda byggir á ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglum samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga, þ.á.m. kjarasamninga, og ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Varakrafa stefnda um verulega lækkun á dómkröfum stefnda byggir á ákvæðum kjarasamnings stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einkum ákvæði greinar 1.53.


Niðurstaða

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefndi ber því í fyrsta lagi við til stuðnings sýknukröfu sinni að félagið eigi ekki aðild að málinu og því beri að sýkna félagið af öllum dómkröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er vísað til þess að á þeim tíma, sem í málinu greini, hafi verið í gildi leigusamningur milli stefnda og Beruvíkur ehf. um fiskiskipið Bervík SH-143, sbr. samning, dags. 1. mars 2001, sem liggur fyrir í málinu. Umræddar veiðiferðir hafi því verið farnar á vegum og á ábyrgð Beruvíkur ehf. og hafi stefnanda því borið að beina málsókn sinni að því félagi en ekki stefnda.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að málinu sé réttilega beint að hinu stefnda félagi, enda verði að telja að greindur leigusamningur hafi verið gerður til málamynda og í því augnamiði að skjóta stefnda undan löglega boðaðri vinnustöðvun. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til efnis leigusamningsins, sem beri með sér að hann hafi verið gerður í aðdraganda að stofnun Beruvíkur ehf., stjórnunartengsla þess félags og stefnda og ýmissa annarra atriða sem nánar eru rakin í stefnu. Stefndi mótmælir þessum staðhæfingum og telur þær ósannaðar. Leigusamningurinn hafi verið gildur bæði að efni og formi. Vísar stefndi m.a. til þess að framlögð gögn sýni að Beruvík ehf. hafi greitt laun skipverja.

Fram kemur í málinu að atkvæðagreiðsla fór fram á vegum stefnanda um boðun verkfalls vélstjóra á íslenskum fiskiskipum og voru atkvæði talin hinn 1. febrúar 2001. Var samþykkt að boða verkfall sem hefjast skyldi kl. 23.00 hinn 15. mars 2001 tækjust samningar ekki fyrir þann tíma. Með bréfum, dags. 19. febrúar 2001, var Samtökum atvinnulífsins og ríkissáttasemjara tilkynnt um þessa ákvörðun. Á þessum tíma hafði Beruvík ehf. ekki verið stofnað. Samkvæmt stofnsamningi og félagssamþykktum Beruvíkur ehf. var einkahlutafélag þetta stofnsett 28. febrúar 2001, en stofnskjölin eru dagsett þann dag. Samkvæmt stofnskjölum þessum var tilgangur félagsins rekstur útgerðar, rekstur fasteigna, lánastarfsemi svo og annar skyldur atvinnurekstur. Stofnendur einkahlutafélagsins voru Bervík ehf., stefndi í máli þessu, og sex tilgreindir einstaklingar. Hlutafé félagsins var 500.000 kr. og skiptist þannig að hlutafjáreign Bervíkur ehf. var 440.000 kr. og hlutafjáreign hvers sexmenninganna var 10.000 kr. Samkvæmt fundargerð stofnfundar hinn 28. febrúar 2001 skipuðu stjórn félagsins þeir Kristján Sigurður Kristjánsson í aðalstjórn og Jónas Ellert Jónsson í varastjórn. Framkvæmdastjóri var Jónas Ellert Jónsson og báðir fóru stjórnarmennirnir með prókúruumboð. Breytingar urðu á nafni, tilgangi, prókúru og stjórn Beruvíkur ehf. hinn 5. nóvember 2001, m.a. var nafninu breytt í Íslandsflutningar ehf., en ekki hafa þær breytingar þýðingu í máli þessu. Ekki liggur annað fyrir en eignaraðild og stjórn Beruvíkur ehf. hafi verið með framangreindum hætti á þeim tíma sem í málinu greinir.

Samkvæmt stofnskjölum Bervíkur ehf., stefnda í máli þessu, þ.e. stofnsamningi og félagssamþykktum, var félagið stofnsett 23. mars 1999. Samkvæmt stofnskjölunum var tilgangur þess rekstur útgerðar, rekstur fiskverkunar, rekstur fasteigna, lánastarfsemi svo og annar skyldur atvinnurekstur. Stofnandi félagsins, Snoppa ehf., skrifaði sig fyrir öllu hlutafé í félaginu 500.000 kr. Stjórn félagsins skipuðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, Kristján Sigurður Kristjánsson og Sigtryggur Hafsteinsson. Framkvæmdastjóri félagsins var Kristján Sigurður Kristjánsson. Hinn 4. september 2000 urðu breytingar á stjórn þannig að Súsanna Þorgrímsdóttir og Sigurborg Þorvaldsdóttir komu í stað Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og Sigtryggs Hafsteinssonar og varð Súsanna stjórnarformaður með prókúru. Þá kemur fram í tilkynningu til Hlutafélagaskrár 4. september 2000 að Súsanna Þorgrímsdóttir og Sigurborg Kjartansdóttir hafi keypt allt hlutafé í Bervík ehf. af Snoppu ehf. Verður ekki annað séð en eignaraðild að Bervík ehf. og stjórn félagsins hafi verið með þeim hætti, sem hér hefur verið rakið, á þeim tíma sem um ræðir í málinu. Upplýsingar liggja fyrir um breytingar síðar á stjórn félagsins en ekki hafa þær neina þýðingu fyrir úrlausnarefnið. Tekið skal fram að af hálfu stefnda hefur verið upplýst að Súsanna Þorgrímsdóttir sé eiginkona Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar og Sigurborg Kjartansdóttir eiginkona Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar.

Samkvæmt framangreindri lýsingu er ljóst að veruleg eigna- og stjórnunartengsl voru á milli Bervíkur ehf., stefnda í máli þessu, og Beruvíkur ehf. á greindum tíma. Þannig var Kristján Sigurður Kristjánsson stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Bervíkur ehf. á sama tíma eini stjórnarmaður í aðalstjórn Beruvíkur ehf. og hafði prókúruumboð. Þá sat eiginkona hans, Súsanna Þorgrímsdóttir, í stjórn Bervíkur ehf. og var stjórnarformaður með prókúruumboði. Hvað eignartengsl varðar þá liggur fyrir að aðalhluthafi í Beruvík ehf. var Bervík ehf. með 88% af heildarhlutafjáreign í félaginu. Voru því sömu eigendur ráðandi í báðum félögunum. Eigendur að öllu hlutafé í Bervík ehf. voru þær Súsanna Þorgrímsdóttir og Sigurborg Kjartansdóttir, en tengsla þeirra við fyrirsvarsmenn félaganna hefur verið getið.

Eins og fram er komið telur stefnandi að stofnun Beruvíkur ehf. og ráðstöfun Bervíkur SH-143 með greindum leigusamningi til fyrrgreinda félagsins hafi verið til málamynda og gerð í því skyni einu að halda skipinu áfram til veiða í trássi við verkfall stefnanda. Af hálfu stefnda hefur ekkert komið fram um tilefni þess að Beruvík ehf. var stofnsett og umrædd ráðstöfun skipsins fór fram til félagsins með leigusamningi, dags. 1. mars 2001, að því undanskildu að í skýrslutöku af Kristjáni Sigurði Kristjánssyni hér fyrir dómi kom fram að ástæðan hefði aðallega verið sú að vertíð færi í hönd og skipið væri kvótalaust. Væri þetta "eiginlega ekkert hægt nema menn standi í þessu saman." Telur stefnandi að þessar skýringar feli í sér viðurkenningu um enn alvarlegri atriði sem sé að uppgjör hafi ekki verið í samræmi við lög og kjarasamninga. Verður að taka undir það með stefnanda að virða beri skýringar þessar í samræmi við það sem í þeim felst.

Af hálfu stefnanda er því borið við, eins og fram er komið, að efni greinds leigusamnings beri merki þess að hafa verið gerður til málamynda og rekur stefnandi ákvæði samningsins nánar í þessu sambandi. Undir það verður að taka að efnisákvæði samningsins séu verulega frábrugðin því sem almennt gerist í leiguviðskiptum af þessum toga, m.a. hvað varðar uppsögn leigumálans, sbr. 4. gr. samningsins, viðgerðar- og viðhaldskostnað svo og rekstrarkostnað, sem leigusali ber, sbr. 7. og 8. gr. samningsins, svo og tryggingar skipverja, sbr. 9. gr. samningsins. Þá verður að telja ákvæði um leigugjald í 6. gr. afbrigðilegt.

Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið um tildrögin að stofnun Beruvíkur ehf. og ráðstöfun Bervíkur SH-143 til þess félags með greindum leigusamningi og virtum ákvæðum leigusamningsins, sem telja verður verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum, verður ekki hjá því komist að draga þá ályktun að ráðstafanir þessar séu tilkomnar vegna þeirra eigna- og stjórnunartengsla, sem í málinu greinir, og gerðar í þeim tilgangi að geta haldið Bervík SH-143 til veiða í umræddu verkfalli stefnanda. Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt verður að taka undir það með stefnanda að umrædd ráðstöfun skipsins með greindum leigusamningi beri það mikinn keim af málamyndagerningi að hún sé að vettugi virðandi í máli þessu. Að svo vöxnu verður byggt á því að Bervík SH-143 hafi verið gerð út á vegum og ábyrgð stefnda á greindum tíma. Er málinu því réttilega beint að stefnda og verður sýknukrafa stefnda því ekki tekin til greina á grundvelli aðildarskorts.

Verður þá tekin afstaða til þeirra krafna stefnanda sem hann hefur ekki fallið frá eða ekki hefur verið vísað frá dómi. Til hagræðis er haldið sömu númerum og hver krafa er tilgreind með í stefnu.

1. krafa.

Hér er þess krafist að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda með því að halda mb. Bervík áfram til veiða eftir að verkfall stefnanda hófst kl. 23 þann 15. mars 2001 með félagsmann stefnanda, Ámunda Jökul Játvarðsson, í stöðu yfirvélstjóra. Í skriflegri skýrslu yfirvélstjórans, Ámunda Jökuls, dags. 7. maí 2001, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, kemur fram að báturinn hafi verið á veiðum á Selvogsbanka um það leyti sem verkfallið skall á. Síðan hafi honum verið siglt til Breiðafjarðar, þar sem veiðum var haldið áfram þann 16. mars. Að svo búnu hafi verið haldið til hafnar í Ólafsvík. Skýrslu þessari hefur ekki verið andmælt af hálfu stefnda að því leyti sem hér hefur verið greint frá. Í 2. mgr. greinar 1.50 í kjasamningi þeim, sem í gildi var milli aðila, þegar verkfallið hófst að kvöldi 15. mars 2001, segir að komi til verkfalls vélstjóra/vélavarða er samningurinn tekur til skulu þau skip er verkfallið nær til hætta veiðum strax og verkfallið tekur gildi. Í 3. mgr. sömu greinar segir að vélstjórum/vélavörðum sé þá ekki heimilt að framkvæma aðra vinnu í þágu útgerðar en að sigla skipinu til hafnar, landa úr því og búa það undir hafnarlegu. Þegar þessi ákvæði greinarinnar eru virt þykir ljóst að í þeim felist skýr fyrirmæli um það, ef skip er á veiðum, þegar verkfall hefst, að veiðum skuli þegar hætt og skipi siglt til hafnar. Ber útgerð skips að hlíta þessu ákvæði án tillits til þess hvenær ákvæði kjarasamnings kunna að öðru leyti að hafa fallið niður við það að verkfall hófst. Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja sannað að mb. Bervík var haldið áfram til veiða eftir að verkfallið hófst þann 15. mars 2001. Verður því fallist á það með stefnanda að með því hafi útgerð skipsins, Bervík ehf., brotið gegn greindu ákvæði kjarasamningsins.

2. og 3. krafa.

Í 2. og 3. kröfulið er þess krafist að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 1.50. greinar kjarsamningsins með því að hafa haldið skipinu til veiða nánar tilgreinda daga í mars, apríl og maí 2001 meðan á verkfalli stefnanda stóð, annars vegar með Gísla Hansson Wiium um borð í stöðu yfirvélstjóra og hins vegar með Snævar Örn Arnarsson um borð í stöðu vélavarðar. Þeir Gísli og Snævar Örn eru báðir félagsmenn stefnanda. Eins og gerð hefur verið grein fyrir varðandi 1. kröfulið felur 2. mgr. 1.50. greinar hins umdeilda kjarsamnings í sér fyrirmæli um að hætt skuli veiðum og skipi haldið til hafnar, ef það er statt á veiðum við upphaf verkfalls. Viðurkenningarkrafan er einungis byggð á 2. mgr. en ekki öðrum ákvæðum gr. 1.50. Verknaðarlýsing þeirrar málsgreinar tekur samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til þess ef skip hættir ekki veiðum strax og verkfall tekur gildi. Það er því ekki brot á því ákvæði að halda skipi til veiða eftir að verkfall er hafið. Af þeim sökum verður krafa stefnanda samkvæmt þessum tveimur kröfuliðum ekki tekin til greina.

8. krafa.

Hér er krafist viðurkenningar á því að Bervík ehf. hafi brotið gegn a-lið (1. mgr.) 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með því að hafa vikið Ámunda Jökli Játvarðssyni úr stöðu yfirvélstjóra á mb. Bervík þann 16. mars 2001 og sett annan mann, Gísla Hansson Wiium, í stöðuna. Samkvæmt a.-lið 4. gr. laga nr. 80/1938 er atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjónmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjónmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn. Í fyrrgreindri skýrslu Ámunda Jökuls Júlíussonar frá 7. maí 2001 segir að hann hafi neitað að sinna frekari störfum í þágu útgerðarinnar, er báturinn kom til hafnar þann 16. mars 2001. Þá hafi útgerðarmaðurinn tekið það til bragðs að setja annan mann, þ.e. Gísla Hansson Wiium, í stöðu hans og halda strax aftur til veiða. Við skýrslugjöf hér fyrir dómi kom fram hjá Ámunda Jökli að hann hafi ekki fallist á að eiga aðild að Beruvík ehf. og því hafi verið sjálfhætt hjá sér í bili og hann því haldið heim til sín. Framkvæmdastjóri Bervíkur ehf., Kristján Sigurður Kristjánsson, hefur borið að Ámundi Jökul hafi látið af störfum að eigin ósk. Hafi orðið að samkomulagi, þegar hann fór, að hann mætti hætta án eftirmála.

Ekkert er fram komið í málinu til stuðnings fullyrðingu framkvæmdastjóra stefnda um hið meinta samkomulag varðandi starfslokin og hún virðist ekki trúverðug. Fallast má á það með stefnanda að ráðning annars manns í starf Ámunda Jökuls hafi verið ígildi brottvikningar og varði, eins og málum var háttað, við a- lið 4. gr. laga nr. 80/1938.

9. krafa.

Undir þessum kröfulið er þess krafist að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn b-lið (1. mgr.) 4. mgr. laga nr. 80/1938 með því að hafa áhrif á afstöðu og afskipti Magnúsar Ásgeirssonar af stéttarfélögum og vinnudeilu með sölu 2% hluts í Bervík ehf. í byrjun mars 2001 og gefa honum þar með loforð um um fjárgreiðslur og/eða hagnað. Samkvæmt b.-lið 4. gr. laga nr. 80/1938 er atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum. Magnús var vélavörður um borð í mb. Bervík frá 22. febrúar 2001 til 14. mars 2001, er hann hætti störfum vegna slyss. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing, dags. 25. júní 2001, undirrituð af Magnúsi. Þar segir m.a. svo, orðrétt: "Í byrjun mars 2001 kom framkvæmdastjóri Bervíkur ehf., Kristján Sigurður Kristjánsson, að máli við undirritaðann (svo) og skipstjórann á Bervík SH, Jónas Ellert Jónsson, auk tveggja háseta og tjáði þeim að útgerðin, þ.e. Bervík ehf., hyggðist halda áfram veiðum þrátt fyrir yfirvofandi verkfallsaðgerðir sjómannasamtakanna. Kristján Sigurður lagði fram skjal til undirritunar þar sem fram kom að undirritaður eignaðist 2% hlut í útgerðinni, að verðmæti 10.000 kr. og mætti þar af leiðandi stunda áfram veiðar í verkfalli Vélstjórafélags Íslands. Undirritaður greiddi aldrei umræddar 10.000 kr. þar sem Kristján Sigurður sagði að einungis væri um málamyndagerning að ræða." Í staðfestu endurriti af stofnskrá fyrir einkahlutafélagið Beruvík ehf., dags. 28. febrúar 2001, kemur fram að hlutafé félagsins sé 500.000 krónur og stofnendur þess séu Bervík ehf. með 400.000 króna hlut svo og sex tilgreindir aðilar, sem á þessum tíma voru skipverjar á mb. Bervík, með 10.000 króna hlut hver. Er Magnús Ásgeirsson einn þessara aðila. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins að Magnúsi hafi verið seldur 2% hlutur í Bervík ehf. eins og byggt er á í kröfulið þessum. Stefnandi hefur ekki gert frekari grein fyrir því á hvern hátt Magnúsi hafi verið gefið "loforð um fjárgreiðslur og/eða hagnað" þannig að brjóti í bága við b.-lið 4. gr. laga nr. 80/1938. Framkvæmdastjóri Bervíkur ehf. hefur gefið þá skýringu á stofnun einkahlutafélagsins Beruvíkur ehf. að mb. Bervík hafi verið án kvóta, vertíð hafi verið að byrja og ætlunin hafi verið að áhöfnin tæki þátt í kvótakaupum með því að leiguverð fyrir kvóta yrði dregið af söluverði afla. Eins og hér stendur á verður ekki talið nægilega í ljós leitt að þátttaka Magnúsar Ásgeirssonar í stofnun einkahlutafélagsins Beruvíkur ehf. hafi falið í sér fyrirheit eða loforð fyrirsvarsmanna Bervíkur ehf. um fjárgreiðslur og/eða hagnað umfram launagreiðslur, sem kunnu að hafa skerst vegna hinnar fyrirhuguðu þátttöku áhafnarinnar í kvótaleigu. Við svo búið þykir ekki annað fært en hafna kröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfulið.

10., 11. og 12. krafa.

Undir þessum þremur kröfuliðum krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að Bervík ehf. hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að stunda veiðar á mb. Bervík dagana 16. og 17. mars, 9., 12., 22., 24., 25., 26. og 27 apríl og 2., 3. og 4. maí 2001. Kveður stefnandi brotin hafa falið í sér að umrædda daga hafi mb. Bervík verið á veiðum með félagsmenn stefnanda um borð, Ámunda Jökul Júlíusson þann 16. mars, Gísla Hansson Wiium alla hina dagana og Snævar Örn Arnarsson alla hina tilgreindu daga að undanskildum 16. og 17. mars. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 80/1938 er þeim, sem vinnustöðvun beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa, þegar hún hefur verið löglega hafin. Með hliðsjón af framlögðum lögskráningarvottorðum mb. Bervíkur á því tímabili sem hér um ræðir þykir mega slá föstu að umræddir aðilar hafi verið um borð í bátnum hina tilgreindu daga eins og stefnandi heldur fram, þó að því undanskildu að ekki verður ráðið af lögskráningarvottorðunum að Gísli Hansson Wiium hafi tekið þátt í veiðiferðinni þann 17. mars. Ennfremur liggja fyrir í málinu upplýsingar frá Fiskistofu um að afla hafi verið landað úr bátnum hina tilgreindu daga. Þá liggur það fyrir að þessa daga stóð yfir verkfall stefnanda á fiskiskipaflotanum sem m.a. beindist að útgerð mb. Bervíkur. Með því að nýta sér starfskrafta þeirra Ámunda Jökuls, Gísla og Snævars Arnar til að geta haldið mb. Bervík á veiðum dagana 16. mars, 9., 12., 22., 24., 25., 26. og 27 apríl og 2., 3. og 4. maí 2001 hefur Bervík ehf. stuðlað að því að komast hjá löglegu verkfalli stefnanda. Er það brýnt brot gegn 18. gr. laga nr. 80/1938.

13. krafa.

Undir þessum kröfulið krefst stefnandi þess að Bervík ehf. verði gert að greiða stefnanda sektir samtals að fjárhæð 3.732.000 krónum, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna tólf brota dagana 16. og 17. mars, 9., 12., 22., 24., 25., 26. og 27 apríl og 2., 3. og 4. maí 2001 á ákvæði greinar 1.50 í áðurgreindum kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útgerðarmanna og stefnanda. Er sektarkrafan reist á grein 1.53. í kjarasamningnum. Þar segir að brot gegn samningnum varði sektum allt að 300.057 krónum er renni í félagssjóð stefnanda og sektarupphæðin skuli hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins. Eins og áður hefur verið rakið varðandi annars vegar 1. kröfu og hins vegar 2. og 3. kröfu stefnanda er talið að Bervík ehf. hafi einungis brotið gegn téðum kjarasamningi með því að hafa ekki hætt veiðum og siglt til hafnar um leið og verkfall stefnanda hófst að kvöldi 15. mars 2001. Brot útgerðarinnar í þessu efni er ótvírætt. Verður ekki hjá því komist að fallast á kröfu stefnanda þannig að stefndi Bervík ehf. greiði sekt vegna brots þessa sem renni í félagssjóð stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að hún nemi hámarki því sem fram kemur sjálfu ákvæðinu. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum hins vegar ekki gert grein fyrir hvernig sektarupphæðin skuli hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði kjarasamningsins. Á hinn bóginn gerir stefndi ekki athugasemdir við það að fjárhæðin nemi 311.000 krónum. Verður krafa stefnanda því tekin til greina með þeirri fjárhæð.

Stefnandi krefst þess að Bervík ehf. verði dæmt til að greiða sér málskostnað að skaðlausu. Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndu vegna Bervíkur ehf. greiði stefnanda málskostnað sem telst hæfilegur 250.000 krónur.


D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að Bervík ehf. braut gegn ákvæði 2. mgr. greinar 1.50. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda, Vélstjórafélags Íslands, með því að halda mb. Bervík SH-143 áfram til veiða eftir að verkfall stefnanda hófst kl. 23.00 þann 15. mars 2001. Viðurkennt er að Bervík ehf. braut gegn a-lið 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með því að víkja Ámunda Jökli Játvarðssyni úr stöðu yfirvélstjóra á Bervík SH-143, þann 16. mars 2001, eftir að verkfall stefnanda hófst hófst kl. 23.00 þann 15. mars 2001. Viðurkennt er að Bervík ehf. braut gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að halda mb. Bervík SH-143 á veiðum dagana 16. mars, 9., 12., 22., 24., 25., 26. og 27. apríl og 2., 3. og 4. maí 2001. Stefndi, Bervík ehf., greiði sekt að fjárhæð 311.000 kr. sem renni í félagssjóð stefnanda. Stefndi, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellinga vegna Bervíkur ehf., greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.

Stefndu skulu vera sýknir af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum