Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 9/2001: Dómur frá 4. júlí 2001.

Ár 2001, miðvikudaginn 4 júlí, er í Félagsdómi í málinu nr. 9/2001.

Starfsmannafélag ríkisstofnana vegna

Marínar Gústafsdóttur

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu,

(Jón G. Tómasson hrl.)

Byggðasamlagi um málefni fatlaðra í

Norðurlandskjördæmi vestra og

(Björn L. Bergsson hrl.)

Verkalýðsfélaginu Vöku

(Ástráður Haraldsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur


D Ó M U R

Mál þetta sem dómtekið var 6. júní sl. er höfðað með stefnu þingfestri 3. apríl 2001.

Málið dæma Kristjana Jónsdóttir, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Guðni Á. Haraldsson.


Stefnandi er: Starfsmannafélag ríkisstofnana, kt. 620269-3449, Grettisgötu 89, Reykjavík, vegna Marínar Gústafsdóttur, kt. 200551-2069.

Stefndu eru: íslenska ríkið, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, kt. 541292-2419, Höfðabraut 6, Hvammstanga og Vaka, verkalýðsfélag, kt. 670269-5669, Suðurgötu 10, Siglufirði.


Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

  1. Að viðurkennt verði að Starfsmannafélag ríkisstofnana fari með samningsaðild fyrir Marínu Gústafsdóttur, kt. 200551-2069, við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið vegna starfa hennar við Sambýlið, Lindargötu 2, Siglufirði, sem stuðningsfulltrúi.
  2. Að viðurkennt verði að laun og kjör Marínar Gústafsdóttur, kt. 200551-2069, hafi frá og með 1. maí 2000 farið eftir kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 23. apríl 1997, með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000 og kjarasamningi sömu aðila frá 25. mars 2001 með gildistíma frá 1. mars 2001 til 30. nóvember 2004.
  3. Að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Félagsdómi, þ.m.t. virðisaukaskatt af lögmannsþjónustu.

Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins, eru þær að íslenska ríkið verði sýknað af kröfum stefnanda og tildæmdur verði málskostnaður að mati dómsins.

Af hálfu stefnda, Byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku, eru þær að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.


Málavextir

Marín Gústafsdóttir er starfsmaður Sambýlisins, Lindargötu 2, Siglufirði. Hún var ráðin í nóvember 1984 og hefur starfað þar óslitið síðan. Á sambýlinu búa fatlaðir einstaklingar og rekstur sambýlisins er hluti af þjónustu sem heyrir undir Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi eystra, sbr. 10. og 12. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Svæðisskrifstofan er ríkisstofnun og starfsmenn hennar og stofnana sem undir hana heyra eru ríkisstarfsmenn í skilningi laga nr. 70/1996.

Ekki mun hafa verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við Marínu við upphaf ráðningar hennar en fyrir liggja í málinu tilkynningar til launadeildar fjármálaráðuneytisins um starf Marínar, dags. 1. janúar 1989 og 1. september 1990.

Í fyrri tilkynningunni er starfsheiti Marínar tilgreint "meðferðarfulltrúi". Nú er starfsheitið "stuðningsfulltrúi".

Hinn 23. mars 1999 gerði félagsmálaráðuneytið samning við stefnda, byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra. Meginefnisatriði samningsins er að byggðasamlagið tekur tímabundið að sér verkefni svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra gagnvart íbúum sveitarfélaganna, sbr. 1. gr. samningsins. Heimild til samningsgerðarinnar er 13. gr. laga nr. 59/1992. Gildistími samningsins er frá 1. apríl 1999 til 31. desember 2001.

Með samningi þessum tók hið stefnda byggðasamlag að sér framkvæmd laga um málefni fatlaðra m.a. rekstur sambýla samkvæmt 10. gr. laganna þ. á m. rekstur Sambýlis fatlaðra að Lindargötu 2, Siglufirði, sem íslenska ríkið hafði rekið. Sem lið í yfirtöku verkefnisins frá ríkinu yfirtók hið stefnda byggðasamlag réttindi og skyldur íslenska ríkisins gagnvart starfsmönnum sambýlisins. 6. gr. samningsins er í samræmi við l. mgr. IV. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 59/1992 þar sem segir:

"Meðan á tímabundnum samningi skv. 13. gr. stendur teljast hlutaðeigandi starfsmenn svæðisskrifstofu, sem eru í starfi þegar samningurinn tekur gildi, vera í þjónustu viðkomandi sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar. Í slíkum samningi er félagsmálaráðherra heimilt að framselja viðkomandi sveitarfélagi, byggðasamlagi eða héraðsnefnd allar þær valdheimildir sem framkvæmdastjórar svæðisskrifstofa fara með samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo fremi að starfsmönnum sé tilkynnt hver fari með það vald. Engin formbreyting verður á ráðningarstöðu starfsmanna, þeir eru áfram ríkisstarfsmenn og um laun þeirra og önnur starfskjör fer eftir sömu kjarasamningum og fyrr."

Þegar samningur félagsmálaráðuneytisins og hins stefnda byggðasamlags var gerður, þann 23. mars 1999, var í gildi kjarasamningur, dags. 14. apríl 1997, milli ríkisins og Alþýðusambands Norðurlands, sem stefnda, Verkalýðsfélagið Vaka á Siglufirði á aðild að, sem gilti um starfskjör starfsmanna sambýlisins að Lindargötu 2, Siglufirði. Var um það samið, sbr. 6. gr. samnings stefnda, ríkisins, og stefnda, byggðasamlagsins, að stefndi, byggðasamlagið, myndi leita eftir aðild að þeim kjarasamningi.

Byggðasamlagið fullnægði þessari samningsskyldu sinni og leiddi því samningur stefndu, ríkisins og byggðasamlagsins, ekki til breytinga á starfskjörum starfsmanna sambýlisins, sami kjarasamningur gilti allt þar til nýr var gerður, en gildistími eldra samningsins var til 29. febrúar 2000. Þar sem sá kjarasamningur rann út á tímabili hins tímabundna þjónustusamnings varð að ráði af hagkvæmnisástæðum að stefndi, íslenska ríkið, stóð að gerð nýs kjarasamnings við Alþýðusamband Norðurlands vegna starfsmanna sambýlisins að Lindargötu 2 á Siglufirði. Ritað var undir nýjan kjarasamning þann 9. maí 2000 og gildir hann frá 1. maí 2000 til 31. desember 2003.

Í 6. gr. samningsins milli félagsmálaráðuneytis og Byggðasamlags um máefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra eru nánari ákvæði um starfsmannamál. Fyrsta málsgrein ákvæðisins er svohljóðandi:

"Á samningstímanum teljast þeir starfsmenn, sem taldir eru upp á fylgiskjali 6, vera í þjónustu byggðasamlagsins. Byggðasamlagið fer með boðvald og aðrar þær valdheimildir sem forstöðumenn fara með samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992 með síðari breytingum. Byggðasamlagið skal tilkynna starfsmönnum hver sé í fyrirsvari gagnvart þeim og fari með vald til að taka ákvarðanir um réttindi þeirra og skyldur."

Stefnandi er tilgreind á fylgiskjali 6, sem vísað er til. Er hún réðst til starfa á sambýlinu var hún félagsmaður í Verkalýðsfélaginu Vöku á Siglufirði. Með bréfi, dags. 17. apríl 2000, óskaði hún eftir inngöngu í félag stefnanda, SFR, og sagði sig jafnframt úr Verkalýðsfélaginu Vöku. Þá voru kjarasamningar verkalýðsfélagsins við íslenska ríkið lausir. Fleiri starfsmenn gerðu slíkt hið sama. Framkvæmdastjóri SFR tilkynnti um stéttarfélagsskipti starfsmannanna með bréfi til byggðasamlagsins, dags. 28. apríl 2000. Jafnframt var þess óskað að starfsmennirnir fengju greidd laun samkvæmt kjarasamningi SFR við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá og með 1. maí 2000 og að félagsgjöldum og öðrum gjöldum samkvæmt kjarasamningnum yrði skilað til félagsins frá sama tíma.

Í bréfi formanns Verkalýðsfélagsins Vöku, dags. 8. maí 2000, til Marínar vegna úrsagnar hennar úr félaginu er Marínu bent á að tímasetning úrsagnarinnar hafi verið röng. Er vísað til þess að kjarasamningur Vöku hefði verið laus allt frá 29. febrúar 2000 og viðræður stæðu yfir við samninganefnd ríkisins. Vísað er til 10. gr. laga verkalýðsfélagsins, en þar segir m.a. "Enginn getur sagt sig úr félaginu á meðan vinnudeila stendur yfir sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanns." Segir og í bréfinu að sama dag og Marín sendi bréf sitt hafi verið tekin ákvörðun um að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Bréfi framkvæmdastjóra SFR var svarað með bréfi framkvæmdastjóra byggðasamlagsins, dags. 18. maí 2000. Er því þar hafnað að starfsmennirnir flytji félagaðild sína til SFR og þess óskað að tilkynning starfsmanna verði dregin til baka. Röksemdir framkvæmdastjórans eru á þá leið að með vísan til fyrrnefnds þjónustusamnings sé byggðasamlaginu óheimilt að ráða nýja starfsmenn þannig að þeir verði ríkisstarfsmenn. Í ljósi þessa og þar sem í undirbúningi sé lagasetning þess efnis að flytja málaflokkinn "málefni fatlaðra" til sveitarfélagsins sé það mjög óeðlilegt að m.a. Marín verði í SFR. Slíkt feli í sér breytingu á forsendum þjónustusamningsins sem byggðasamlagið geti ekki fallist á.

Lögmaður SFR sendi framkvæmdastjóra byggðasamlagsins bréf, dags. 25. maí 2000, vegna þeirrar afstöðu hans, sem hér hefur verið lýst. Erindið var ítrekað með bréfi dags. 27. júní 2000, þar sem jafnframt var minnt á skyldu stjórnvalda til að sinna málum innan hæfilegs frests. Bréfum þessum var ekki svarað af hálfu stefnda, byggðasamlagsins.


Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:

1. krafa


  1. Stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild Marínar Gústafsdóttur. Í því felist að þeim sé óheimilt að þvinga hana til þátttöku í öðru stéttarfélagi en hún sjálf kýs. Þessi regla verði leidd af félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi beint lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994. Um þetta vísist til fordæma Félagsdóms í málum nr. 16/1995, 9/1997 og 9/1999.
  2. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra sé ríkisstofnun og Marín Gústafsdóttir því ríkisstarfsmaður samkvæmt lögum nr. 70/1996, sbr. 1. gr. Í áður tilvitnuðu upphafsákvæði 6. gr. þjónustusamnings milli félagsmálaráðuneytisins og Byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra sé ekki gert ráð fyrir breytingu á þeirri skipan. Þá komi fram í bráðabirgðaákvæði IV með lögum nr. 59/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 52/1999, að meðan tímabundinn þjónustusamningur sé í gildi verði engin formbreyting á ráðningarstöðu starfsmanna. Þeir séu áfram ríkisstarfsmenn og um laun þeirra og önnur starfskjör fari eftir sömu kjarasamningum og fyrr.
  3. SFR sé stéttarfélag í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 4. gr. laganna. Af því leiði að SFR fari með samningsaðild fyrir félagsmenn sína, sem þess óski, en þeirra á meðal sé Marín Gústafsdóttir. Í gildi sé og hafi verið kjarasamningur milli SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, en sá samningur taki m.a. til launa stuðningsfulltrúa sem starfi hjá ríkinu.
  4. Samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 94/1986 eigi stéttarfélög opinberra starfsmanna rétt til samningsaðildar fyrir félagsmenn sína. Í reglunni felist að ríki og sveitarfélögum sé skylt að gera kjarasamninga við félögin vegna félagsmanna þeirra sem hjá þeim starfi, að uppfylltum almennum skilyrðum.
  5. Áðurnefndri afstöðu framkvæmdastjóra byggðasamlagsins til málefnisins, sbr. bréf hans, dags. 18. maí 2000, verði að mótmæla sérstaklega. Í fyrsta lagi telji stefnandi það ekki skipta neinu máli fyrir ágreiningsefnið sem hér sé til úrlausnar hvort byggðasamlaginu sé óheimilt að ráða nýja starfsmenn þannig að þeir verði ríkisstarfsmenn. Marín Gústafsdóttir sé ekki nýr starfsmaður. Í öðru lagi sé það með öllu fráleitt að það geti heft Marínu Gústafsdóttur í að gerast félagsmaður í SFR að það sé í undirbúningi að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaganna. Í þriðja lagi geti forsendur margnefnds þjónustusamnings ekki breytt neinu um rétt starfsmanna til að velja sér stéttarfélag, enda séu starfsmenn ekki aðilar að þjónustusamningnum.
  6. Áðurnefndri afstöðu formanns stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku, sé einnig mótmælt. Að því er varði tilvísun í 10. gr. laga verklýðsfélagsins sé bent á að ákvæðið takmarki samnings- og félagafrelsi manna og beri því að skýra þröngt samkvæmt viðurkenndum skýringarreglum. Þetta eigi sérstaklega við þar sem í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 sé ákvæði sem hafi þann tilgang að koma í veg fyrir misnotkun á úrsagnarrétti félagsmanna stéttarfélaga. Stefnandi telji að hugtakið "vinnudeila" í áðurnefndri 10. gr. laga stéttarfélagsins beri að skýra þannig að það taki til tilvika eins og vinnustöðvana og auglýsinga um atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun en ekki þess eins að kjarasamningar séu lausir og viðræður samningsaðila í gangi. Þá sé bent á að Marín hafi tilkynnt úrsögn áður en ákvörðun hafi verið tekin um að vísa "deilunni" til ríkissáttasemjara. Það sé meginregla samningaréttar að tilkynning hafi réttaráhrif þá þegar er hún sé send af stað, sbr. 39. gr. samningalaga nr. 7/1936.

2. krafa

Krafa um að viðurkennt verði að laun og kjör Marínar Gústafsdóttur hafi frá og með 1. maí 2000 farið eftir kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 23. apríl 1997, byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og fyrsta krafan. Kjarasamningur Verkalýðsfélagsins Vöku hafi verið laus er Marín tilkynnti úrsögn sína úr félaginu og inngöngu í SFR og í gildi kjarasamningur þess félags. Stefnandi telji að það megi ráða af 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og af forsendum Félagsdóms í máli nr. 18/1998, Stéttarfélag verkfræðinga gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, að taka beri þessa kröfu stefnanda til greina.


Dómsvald Félagsdóms og aðild stefndu

Stefnandi kveður mál þetta lúta dómsvaldi Félagsdóms á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í ákvæðinu segi að undir dómsvald Félagsdóms falli m.a. að dæma um ágreining er lúti að samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nái. Félagsdómsmál nr. 16/1995, 9/1997 og 9/1999 hafi lotið að sambærilegum ágreiningi. Samkvæmt 3. tl. sama ákvæðis dæmi Félagsdómur einnig í málum um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.

Um aðild íslenska ríkisins til varnar vísist til þess að Marín Gústafsdóttir sé ríkisstarfsmaður og áðurnefndur kjarasamningur SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs taki til starfa hennar. Stefnandi telur að því verði ekki hjá því komist að stefna íslenska ríkinu til varnar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986.

Verkalýðsfélaginu Vöku og Byggðasamlagi um málefni fatlaðra í Norðurlands- kjördæmi vestra sé einnig stefnt, þannig að þau verði bundin af málsúrslitum. Bent er á að samkvæmt 6. gr. áðurnefnds þjónustusamnings teljist Marín Gústafsdóttir vera í þjónustu byggðasamlagsins meðan samningurinn sé í gildi. Byggðasamlagið hafi hagsmuni af málsúrslitum og hafi látið málefni til sín taka.

Málskostnaðarkrafa styðjist við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeildur.


Málsástæður stefnda, íslenska ríkisins

Af hálfu íslenska ríkisins er á því byggt að samkvæmt 6. gr. samningsins milli félagsmálaráðuneytisins og Byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra sé Marín starfsmaður byggðasamlagsins og semji því um ráðningarkjör sín við byggðasamlagið. Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs fjalli hvorki um ráðningarkjör Marínar né annarra einstakra starfsmanna byggðasamlagsins um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra. Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs taki heldur ekki ákvörðun um hvaða kjarasamningar skuli lagðir þar til grundvallar. Það sé í verkahring meðstefnda, byggðasamlagsins, að ákveða hvernig brugðist verði við óskum starfsmanna í þjónustu þess, sbr. IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 59/1992, um að laun þeirra fari eftir öðrum kjarasamningi en upphaflega hafi verið miðað við. Fjármálaráðherra f.h. ríkisins hafi ekki afskipti af slíku, enda utan valdsviðs ráðuneytisins.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, fari fjármálaráðherra með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögunum. Í 4.-6. gr. sömu laga séu þau stéttarfélög nánar greind, sem hafi rétt til að gera kjarasamninga við fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins hafi gert kjarasamninga bæði við stefnanda, Starfsmannafélag ríkisstofnana, og við Alþýðusamband Norðurlands f.h. aðildarfélaga vegna starfa á sambýlum. Verði ekki séð að kröfu um að viðurkennt verði sérstaklega að stefnandi fari með samningsaðild vegna Marínar sé réttilega beint að íslenska ríkinu - eða hvort krafan eins og hún sé orðuð, án nokkurs fyrirvara eða áskilnaðar, geti yfirleitt talist dómtæk. Þá sé ítrekað að fjármálaráðherra fjalli ekki um ráðningarkjör einstakra starfsmanna byggðasamlagsins né taki ákvörðun um hvaða kjarasamning skuli leggja til grundvallar vegna starfa á sambýlinu. Beri því að sýkna stefnda, íslenska ríkið, vegna aðildarskorts.


Málsástæður stefnda, byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra

Um sýknukröfu vegna dómkröfu nr. 1.

Stefndi krefst sýknu af dómkröfu stefnanda er lýtur að samningsaðild stefnanda f.h. Marínar Gústafsdóttur við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið um störf við sambýlið Lindargötu 2, Siglufirði, með eftirfarandi rökum.

Samningsaðild stefnanda.

Úr því hafi í raun verið leyst í dómum Félagsdóms nr. 18/1998 og nr. 9/1999 að stefnandi eigi ekki lögbundinn forgangsrétt til gerðar kjarasamninga. Áskilnaður 4. gr. um rétt stefnanda til gerðar kjarasamnings feli ekki í sér slíka einokun á kostnað annarra stéttarfélaga. Tilgangur þess sé sá einn að að tryggja réttarstöðu stéttarfélaga opinberra starfsmanna og rétt þeirra til að gera kjarasamninga fyrir félagsmenn sína að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Fyrir liggi að stefndi, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, hafi gert kjarasamning við Alþýðusamband Norðurlands er taki til starfa á Sambýli fatlaðra að Lindargötu 2, Siglufirði. Þeim samningi geti stefnandi ekki krafist að verði rutt út með vísan til 4. gr. laga nr. 94/1986.

Krafa stefnanda stríði jafnframt gegn 6. gr. laga nr. 94/1986 þar sem kveðið sé á um að ekki skuli nema eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Við úrlausn þessa máls beri að sjálfsögðu að líta til þess svæðis sem stefndi, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, taki til. Alþýðusamband Norðurlands hafi farið með samningsumboð fyrir ófaglærða starfsmenn á heilbrigðisstofnunum á greindu svæði og hafi þannig tvímælalaust réttinn til að gera kjarasamning í skilningi 6. gr. laganna. Til þess að annað stéttarfélag geti öðlast þann rétt þurfi það að hafa innan sinna vébanda meirihluta þeirra starfsmanna sem kjarasamningnum sé ætlað að ná til eða í það minnsta að starfsmennirnir hafi einhvert það sérkenni sem skapi þeim sérstöðu s.s. vegna menntunar, sbr. 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986. Þó að fjöldi starfsmanna í stéttarfélagi ráði ekki úrslitum þannig að fullnægt sé áskilnaði 5. gr., sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1999, sé hitt ótvírætt að túlka beri þann áskilnað sem 5. gr. ráðgeri þannig að fleiri félagsmenn en einn þurfi til svo fullnægt sé áskilnaði laganna til að öðlast samningsumboð, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna. Niðurstaða í þá veru að einn dygði myndi geta leitt til glundroða á vinnumarkaði þar sem það þýddi í raun að hver starfsmaður um sig gæti stofnað sitt eigið stéttarfélag.

Stefnandi hafi höfðað mál þetta vegna Marínar Gústafsdóttur einnar þannig að í raun þurfi ekki að líta til alls samningssvæðis hins stefnda byggðasamlags, þó svo að það sé langeðlilegasta viðmiðið. Það nægi að líta til Sambýlisins að Lindargötu 2, Siglufirði en þar starfi drjúgt fleiri starfsmenn en Marín ein. Alþýðusamband Norðurlands hafi samningsrétt fyrir þá alla og þar með Marín einnig, sbr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Þó svo að slíkur samningsréttur í höndum stéttarfélags, sem Marín hafi sagt sig úr, feli í sér takmörkun á félagafrelsi hennar, styðst sú takmörkun við málefnaleg rök og fullnægi algerlega áskilnaði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með þessari takmörkun sé komið í veg fyrir glundroða til almannaheilla, sbr. 2. mgr. 11. gr. sáttmálans.

Ranglega staðið að úrsögn

Jafnvel þó svo yrði litið á að stefnandi eigi lögbundinn rétt til að gera kjarasamning fyrir hönd Marínar Gústafsdóttur þá séu ekki skilyrði til að fallast á kröfu stefnanda.

Marín Gústafsdóttir hafi verið félagsmaður í stefnda, Verkalýðsfélaginu Vöku, er hið stefnda byggðasamlag hafi gert umræddan þjónustusamning við stefnda, íslenska ríkið, sbr. dskj. nr. 7, en þá hafi verið í gildi kjarasamningur milli þess stéttarfélags og ríkisins eins og rakið hafi verið. Sá kjarasamningur hafi runnið út þann 29. febrúar 2000 og hafi Marín þá enn verið félagsmaður í Vöku. Kjaraviðræður hafi hafist 31. janúar 2000 milli aðila, íslenska ríkisins og Alþýðusambands Norðurlands, og hafi kjaradeilan þannig staðið í hartnær þrjá mánuði er stefnda, byggðasamlaginu, hafi borist tilkynning stefnanda um félagsaðild Marínar, sbr. bréf dags. 28. apríl 2000, en þar komi fram að hún hefði sótt um og fengið aðild að stefnanda þann 17. apríl 2000.

Í máli þessu liggi fyrir að Marín Gústafsdóttir hafi staðið ranglega að úrsögn sinni úr Verkalýðsfélaginu Vöku að því marki sem sú úrsögn hafi áhrif á réttarstöðu hennar gagnvart kjarasamningum þess stéttarfélags. Hún sé því bundin af gerðum kjarasamningi þar til hann renni út 31. desember 2003.

Úr því hafi verið leyst í dómum Félagsdóms í málum nr. 18/1998 og 9/1999 að það sé í fyrsta lagi þegar samningar séu lausir sem unnt sé að hafa uppi kröfur um gerð kjarasamnings fyrir félagsmenn, þ.e. 31. desember 2003 í máli þessu.


Ranglega staðið að tilkynningu um félagsaðild

Stefnandi hafi aldrei haft samningsumboð fyrir starfsmenn Sambýlis fatlaðra að Lindargötu 2, Siglufirði. Réttarstaða stefnanda við að fara með slíkt umboð fyrir hönd Marínar feli í sér að stefnandi kæmi fram sem nýtt stéttarfélag í skilningi 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Í lagaákvæðinu sé það sérstaklega áskilið að slíkt nýtt félag, sem færi með samningsumboð samkvæmt 5. gr. laganna, beri að tilkynna um það þremur mánuðum áður en kjarasamningur, sem í gildi sé, renni út. Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi hafi ekki tilkynnt um félagsaðild Marínar Gústafsdóttur fyrr en tveimur mánuðum eftir að kjarasamningurinn hafi runnið út. Í því ljósi geti ekki reynt á heimild stefnanda fyrr en í fyrsta lagi 31. desember 2003.


Aðildarskortur

Úrsögn Marínar úr Verkalýðsfélaginu Vöku hafi ekki staðist félagslög þess félags, sem sett séu í samræmi við 3. gr. laga nr. 80/1938, en sú takmörkun sem 10. gr. félagslaganna leggi á úrsagnarrétt félagsmanna sinna styðjist við hlutlæg og málefnaleg rök. Að auki hafi stefnandi ekki óskað eftir að gera kjarasamning fyrir hennar hönd eins og áskilið sé í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Samið hafi verið við Alþýðusamband Norðurlands um störf ófaglærðra starfsmanna á sambýlinu að Lindargötu 2, Siglufirði. Komi því ekki til álita hvort stefnandi hafi samningsumboð fyrir Marínu fyrr en í árslok 2003.

Íslenska ríkið reki ekki nefnt sambýli og komi ekki fram sem atvinnurekandi starfsmannanna. Það geri stefndi, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra. Breyti engu í þessu sambandi þó hagkvæmnisástæður hafi leitt til þess að stefndi, íslenska ríkið, hafi komið fram fyrir hönd stefnda, byggðasamlagsins, við gerð kjarasamnings á árinu 2000. Það hafi einvörðungu komið til af því að þá hafi verið meira en eitt og hálft ár eftir af tímabundnum þjónustusamningi aðila en hvorugur samningsaðila hafi á þeirri stundu tekið afstöðu til framlengingar samningsins. Ef stefndi, byggðasamlagið, hefði komið að gerð þess kjarasamnings með formlegum hætti hefði það skert mjög svigrúm samningsaðila kjarasamningsins þar sem gildistími kjarasamningsins hefði þurft að taka mið af gildistíma þjónustusamningsins milli félagsmálaráðuneytisins og byggðasamlagsins. Komi til framlengingar þjónustusamningsins sé næsta ljóst að stefndi, íslenska ríkið, muni ekki eiga aðild að gerð nýs kjarasamnings í árslok 2003, hvorki formlega né óformlega þar sem að þjónusta við fatlaða væri alfarið komin í hendur stefnda, byggðasamlagsins.

Í því ljósi sé það stefnda, Byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, í raun óviðkomandi á hvern veg leyst verði úr dómkröfu þessari. Næst þegar kjarasamningur verði laus þann 31. desember 2003 sé einboðið að þá muni liggja fyrir hvort málefni fatlaðra hafi verið færð varanlega á ábyrgð sveitarfélaga eða hvort hætt hafi verið við það. Hafi málaflokkurinn verið færður hafi stefndi, íslenska ríkið, ekkert umboð til að semja um kaup og kjör starfsmanna á Sambýlinu að Lindargötu 2, Siglufirði. Ef málaflokkurinn hefði ekki verið færður hefði stefndi, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, ekkert umboð með sama hætti. Hið stefnda byggðasamlag hefði jafnframt lokið hlutverki sínu og vafalaust þá verið leyst upp og væri þannig ekki til.


Um sýknukröfu vegna dómkröfu nr. 2.

Það liggi fyrir í máli þessu að stefnandi hafi aldrei haft samningsumboð fyrir starfsmenn Sambýlis fatlaðra að Lindargötu 2, Siglufirði, ekki 1997, ekki fyrr og ekki síðar. Jafnframt ætti að vera óumdeilt að kjarasamningur stefnanda við stefnda, íslenska ríkið, sem gerður hafi verið 24. apríl 1997, hafi ekki tekið til þessara starfa.

Því fari fjarri að Marín Gústafsdóttir geti einhliða og að geðþótta skipt um stéttarfélag með þeim réttaráhrifum að atvinnurekandi hennar verði bundinn af löngu gerðum kjarasamningi sem aldrei hafi gilt um starf hennar.

Starfsheiti Marínar breyti engu í þessum efnum, enda títt samið um sömu starfsheitin í mismunandi kjarasamningum. Sem dæmi mætti nefna kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Landssambands útvegsmanna annars vegar og hins vegar kjarasamning Alþýðusambands Vestfjarða við Útvegsmannafélag Vestfjarða, en í báðum þessum samningum sé samið um kjör háseta á skipum. Það að háseti gangi til liðs við eitthvert aðildarfélaga Alþýðusambands Vestfjarða myndi fráleitt binda útgerðarmann á Seyðisfirði við kjarasamning Vestfirðinganna.

Þá breyti engu í þessum efnum þótt störfin, sem kjarasamningur stefnanda og kjarasamningurinn við Alþýðusamband Norðurlands taki til, væru algerlega sambærileg. Um störfin á Siglufirði og hjá þeim sem stefnandi semji fyrir hafi gilt og gildi sinn hvor kjarasamningurinn.

Í Félagsdómsmáli nr. 18/1998, sem áður sé vitnað til, hafi jafnframt verið höfð uppi efnislega nákvæmlega sama krafan eins og seinni krafa stefnanda lúti að, að dæmt yrði að þegar gerður kjarasamningur gilti um störf starfsmanna við inngöngu þeirra í nýtt stéttarfélag sem einnig hafi haft kjarasamning við atvinnurekanda. Sýknað hafi verið af þeirri kröfu.

Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, af þessari kröfu stefnanda.

Málsvörn stefnda styðst við reglur vinnuréttar um gerð kjarasamninga, samningsumboð og aðild að stéttarfélögum, sbr. lög nr. 94/1986 og lög nr. 80/1938.

Þá er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu um málskostnað en um álag vegna virðisaukaskatts er vísað til laga nr. 50/1988. Stefndi, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag sem skatti þessum nemi úr hendi stefnanda.


Málsástæður stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku

Stefndi byggir á því að ákvæði 10. gr. laga Vöku sé efnislega eins og ákvæði sem finna megi í lögum flestallra stéttarfélaga í landinu. Slík ákvæði séu sett til að koma í veg fyrir að unnt sé að beita úrsögnum til að laska samningsstöðu stéttarfélaga og þeir tálmar sem með því séu lagðir á úrsagnarrétt félagsmanna séu hóflegir og styðjist við málefnaleg rök. Marín Gústafsdóttir hafi gengist undir þetta ákvæði með inngöngu í Vöku, en hún hafi gengið í félagið af fúsum og frjálsum vilja árið 1967 og hafi um árabil verið trúnaðarmaður félagsins á vinnustað.

Viðræður um endurnýjun kjarasamningsins hafi hafist samkvæmt viðræðuáætlun við samninganefnd ríkisins 31. janúar 2000 og hafi deilunni verið vísað til sáttasemjara þann 17. apríl sama ár. Félagsmönnum sem hafi undirritað úrsagnirnar hafi í bréfi félagsins verið bent á að endurskoða hug sinn til veru í félaginu þegar kjaradeilan væri afstaðin og búið væri að ganga frá samningi. Enginn starfsmannanna hafi séð ástæðu til að ítreka úrsögn eftir að samningar náðust.

Sá starfsmaður, sem hafi dregið bréfið til baka, og annar til, hafi hætt störfum á sambýlinu og nýir starfsmenn verið ráðnir. Nýju starfsmennirnir séu félagsmenn í Vöku.

Samkvæmt skilagrein vegna launagreiðslna fyrir janúar 2001 hafi borist félagsgjöld af tíu starfsmönnum Sambýlisins við Lindargötu. Sex þessara starfsmanna hafi sent margnefndar óskir um úrsögn í apríl 2000.

Þessir sex félagsmenn hafi notið allrar þjónustu og margskonar styrkja frá félaginu eftir apríl 2000. Þeir hafa m.a. setið námskeið fyrir meðferðar- og stuðningsfulltrúa, sem formaður Vöku hafi haft forgöngu um að haldið yrði á svæðinu og þegið ferðastyrki vegna ferða sem farnar hafi verið vegna þessa.

Verkalýðsfélagið Vaka hafi í ljósi framangreinds staðið í þeirri trú að allir þessir einstaklingar hafi fallið frá áformum sínum um úrsögn úr félaginu. Félagið hafi ekkert frétt af málinu frekar fyrr en mál þetta var höfðað. Málshöfðunina verði væntanlega að skilja sem svo að félagsmaðurinn, Marín Gústafsdóttir, vilji enn segja sig úr Verkalýðsfélaginu Vöku. Henni sé það að sjálfsögðu frjálst að uppfylltum skilyrðum félagslaga sem Marín hafi, sem félagsmaður Vöku, skuldbundið sig til að hlíta. Sú úrsögn geti hins vegar ekki haft áhrif á gildi kjarasamnings Alþýðusambands Norðurlands og íslenska ríkisins frá 9. maí 2000.

Verkalýðsfélagið Vaka hafi um langt árabil farið með samningsrétt f.h. félagsmanna sinna sem starfi á Sambýlinu við Lindargötu og engin áform séu uppi um það af hálfu félagsins að hætta að semja um launakjör þeirra sem þessum störfum gegni.

Verkalýðsfélagið Vaka telur að sýkna beri félagið af kröfum stefnanda af margvíslegum ástæðum. Kröfugerð stefnanda, eins og hún sé sett fram, varði ekki Verkalýðsfélagið Vöku. Félagið eigi enga aðild að þeirri kröfugerð og gæti, þótt félagið vildi, á engan hátt hlutast til um þær kröfur, hvorki til að synja þeim né fallast á þær. Þegar svo hátti til beri að sýkna vegna aðildarskorts.

Verkalýðsfélagið Vaka hafi gert kjarasamninga þá sem gilt hafi um störf á Sambýlinu að Lindargötu 2 á grundvelli laganna nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í 6. gr. laganna sé kveðið á um að ekki skuli nema eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama atvinnurekanda fyrir sömu starfsstétt. Mjög vafasamt sé raunar að þetta ákvæði standist. Beri að líta svo á að í kröfugerð stefnanda felist krafa um að Verkalýðsfélagið Vaka geti ekki framvegis staðið að gerð kjarasamninga f.h. þeirra félagsmanna sinna sem starfi á Sambýlinu að Lindargötu 2 þá sé þeirri kröfugerð harðlega mótmælt. Við blasi að verði litið svo á að það standist að íslenskum lögum að fela stéttarfélagi með lögum forgang til samningsgerðar og einkarétt til samningsgerðar fyrir tiltekinn starfshóp þá sé það Vaka sem fari með þann rétt fyrir þann starfshóp sem hér eigi hlut að máli. Hvernig beri að skilja kröfugerð stefnanda um þetta atriði sé raunar mjög óljóst.


Einstakar málsástæður stefnanda og afstaða til þeirra.

Rétt þyki að fara nokkrum orðum um einstakar málsástæður stefnanda og taka afstöðu til þeirra. Vísað sé til einstakra málsástæðna í sömu röð og með sömu tilgreiningu og þær komi fram í stefnu.


1. krafa

1. og 2. Stefndi, Verkalýðsfélagið Vaka, sé fullkomlega sammála þessum málsástæðum.

3. Stefndi, Verkalýðsfélagið Vaka, sé sammála þessari málsástæðu með þessum athugasemdum. Verkalýðsfélagið Vaka sé, líkt og SFR, stéttarfélag í skilningi laga nr. 94/1986. Í gildi sé og hafi verið kjarasamningur Alþýðusambands Norðurlands m.a. f.h. Verkalýðsfélagsins Vöku og fjármálaráðherra og sá samningur fjalli um kjör þeirra sem starfi í Sambýlinu að Lindargötu á Siglufirði.


  1. Vísað sé til þess sem áður sé fram komið, að Verkalýðsfélagið Vaka sé líkt og SFR stéttarfélag í skilningi laga nr. 94/1986.
  2. Þarfnast ekki athugasemda af hálfu Verkalýðsfélagsins Vöku.
  3. Vísað sé til þess sem áður sé fram komið um lög Verkalýðsfélagsins Vöku og rökin að baki 10. gr. laganna. Sérstaklega er mótmælt þeim sérkennilega skilningi stefnanda á hugtakinu "vinnudeila" sem fram komi í málsástæðunni. Skilningur stefnanda veki sérstaka athygli í ljósi þess að um sé að ræða stéttarfélag. Þá sé vísað á bug dylgjum stefnanda um að eitthvert samhengi sé á milli þess að deilunni hafi verið vísað til sáttasemjara og úrsagnarbréfs Marínar Gústafsdóttur.

2. krafa


  1. Vísað sé til þess sem áður sé fram komið um lög Verkalýðsfélagsins Vöku og úrsögn Marínar Gústafsdóttur. Úrsögn Marínar hafi verið ógild. Marín hafi raunar enn ekki sagt sig úr Vöku með gildum hætti. Framganga Marínar eftir 17. apríl 2000 sé afar misvísandi um afstöðu hennar til þess hvort hún vilji segja sig úr félaginu yfirleitt. Annars vegar sé þetta mál, hins vegar þiggi Marín styrki úr sjóðum Vöku og taki þátt í starfsemi á vegum félagsins.

     

Öllum málsástæðum stefnanda, framkomnum eða óframkomnum, sem byggja á því að með lögunum nr. 94/1986 sé stefnanda eða öðrum einstökum stéttarfélögum fenginn lögbundinn forgangs- eða einkaréttur til samningsfyrirsvars við gerð kjarasamninga, sé harðlega mótmælt. Á því sé byggt af hálfu stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku, að slík ákvæði laganna standist ekki að íslenskum rétti og að þeim beri að víkja til hliðar sem gildislausum.

Málsvörn stefnda styðjist við reglur vinnuréttar um gerð kjarasamninga, samningsumboð og aðild að stéttarfélögum, sbr. lög nr. 94/1986 og lög nr. 80/1938. Þá vísist til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna kröfu um málskostnað.


Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Af hálfu stefnanda er því borið við að stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild Marínar Gústafsdóttur og felist í því að þeim sé óheimilt að þvinga hana til þátttöku í öðru stéttarfélagi en hún sjálf kjósi. Regla þessi verði leidd af 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, sem veittu sáttmála þessum ásamt áorðnum breytingum samkvæmt tilgreindum samningsviðaukum, lagagildi hér á landi. Stefnandi bendir á að takmarkanir af þeim toga, sem hér um ræðir, beri að túlka þröngt með tilliti til samnings- og félagafrelsis og miða beri við að verkfall eða atkvæðagreiðsla um verkfall standi yfir. Sé þröngri túlkun ekki beitt þá sé um hindrun að ræða sem ekki standist. Af hálfu stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku, er bent á að ákvæði, sem efnislega svari til 10. gr. í lögum félagsins, séu í lögum flestallra stéttarfélaga í landinu. Tilgangurinn sé að koma í veg fyrir að úrsagnir veiki samningsstöðu félaganna. Takmarkanir samkvæmt 10. gr. félagslaganna séu hóflegar og styðjist við málefnaleg rök. Marín Gústafsdóttir hafi gengist undir ákvæðið með inngöngu í félagið á sínum tíma. Þegar hún sagði sig úr félaginu hafi vinnudeila staðið yfir í skilningi ákvæðisins.

Í 1. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, er m.a. tekið fram að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess, og engan megi skylda til aðildar að félagi, þó með þeirri undantekningu að kveða má á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki sínu vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Við meðferð frumvarps þess, sem varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, komu fram breytingartillögur af hálfu stjórnarskrárnefndar, þ. á m. á 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins, sbr. 10. tölul. breytingartillagnanna, þess efnis að stjórnmálafélaga og stéttarfélaga var getið sérstaklega (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3887-3889). Í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar sagði svo um þessa breytingu: "Sú tillaga hefur komið fram að eðlilegt sé að kveða beint á um réttinn til að stofna stéttarfélög í greininni. Hefur nefndin ákveðið að leggja til að stjórnmálafélaga og stéttarfélaga verði getið sérstaklega í henni í ljósi þess að hér er um að ræða einhverja mikilvægustu flokka félaga í sérhverju lýðræðisríki. Er hér átt við stéttarfélög í skilningi laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938." (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3886).

Í 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er m.a. tekið fram að rétt skuli mönnum að mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum, og í 2. mgr. greinarinnar eru tilgreindar þær takmarkanir sem þessi réttur er háður.

Í 1. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, segir að menn eigi rétt á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt. Í 1. mgr. 3. gr. laga þessara er tekið fram að stéttarfélög ráði sjálf málefnum sínum með þeim takmörkunum sem sett eru í lögunum. Einstakir meðlimir félaganna séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess sem það kann að vera í. Í 2. mgr. 3. gr. er mælt svo fyrir að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, séu skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.

Samkvæmt framansögðu er réttur til að stofna stéttarfélög sérstaklega varinn af 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af því leiðir, sbr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, að stéttarfélög ráða málefnum sínum sjálf, þar á meðal félagssamþykktum. Verður að telja að á þessum grundvelli geti stéttarfélög sett takmarkanir í félagslög sín á úrsagnir úr félögunum, enda séu slíkar takmarkanir málefnalegar, byggðar á starfslegum hagsmunum félaganna og gangi ekki lengra en þörf krefur. Ljóst er að tilgangur hins umdeilda ákvæðis í 10. gr. félagslaga Verkalýðsfélagsins Vöku er að koma í veg fyrir að úrsagnir veiki félagið þegar sérstakrar samstöðu er þörf vegna vinnudeilu. Almennt verður að telja slíkt markmið málefnalegt og ákvæði af þessum toga lögmæt. Er það og óumdeilt í málinu. Hins vegar er ljóst að af 74. gr. stjórnarskrárinnar leiðir að slík ákvæði geta ekki verið víðtækari og gengið lengra en nauðsyn ber til. Ber að túlka slík ákvæði með hliðsjón af því.

Þegar Marín Gústafsdóttir sagði sig úr Verkalýðsfélaginu Vöku voru kjarasamningar lausir milli Alþýðusambands Norðurlands f.h. aðildarfélaga þess, þ. á m. Verkalýðsfélagsins Vöku, og Einingar-Iðju annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs hins vegar og samningaviðræður í gangi. Fram er komið að viðræður hófust samkvæmt viðræðuáætlun við samninganefnd ríkisins hinn 31. janúar 2000. Hafði málinu verið vísað til ríkissáttasemjara hinn 17. apríl 2000, sbr. III. kafla laga nr. 80/1938, sbr. 5. gr. laga nr. 75/1996. Nýr kjarasamningur var gerður 9. maí 2000, eins og fram er komið. Í málinu eru takmarkaðar upplýsingar komnar fram um samningaviðræður þessar, en fyrir liggur þó að hvorki kom til verkfalls né hafði ákvörðun um verkfall verið tekin. Af hálfu stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku, er því haldið fram að vinnudeila hafi verið yfirstandandi í skilningi 10. gr. félagslaga á greindum tíma og nánast stutt það viðhorf við þær aðstæður, sem að framan er lýst, og með almennri skírskotun til þess að vinnudeila sé ágreiningur sem upp komi við gerð nýrra kjarasamninga. Af hálfu stéttarfélagsins kom fram í málflutningi hér fyrir dómi að umrætt bann 10. gr. félagslaga væri frekar víðtækt, miðað við venjuleg ákvæði af þessum toga, en hvorki óhæfilegt né óheimilt. Það ber undir stefndu, Verkalýðsfélagið Vöku og Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, sem byggja á því að úrsögn Marínar Gústafsdóttur hafi ekki haft gildi vegna 10. gr. félagslaga stéttarfélagsins, að sýna fram á á ótvíræðan hátt að atvikum hafi verið svo farið að ákvæði þetta eigi við í hennar tilviki, sbr. þau viðhorf um skýringu á ákvæðinu sem að framan getur. Með málatilbúnaði sínum hafa þessir stefndu engan veginn leitt þetta í ljós. Ber að líta til þess að hugtakið "vinnudeila" er ekkert nánar skilgreint í 10. gr. félagslaganna. Þá skal tekið fram að það eitt að málinu var vísað til ríkissáttasemjara þykir ekki skipta sköpum í þessum efnum. Samkvæmt þessu verður sýknukrafa stefndu ekki tekin til greina á þessum grundvelli.

Marín Gústafsdóttir var ráðin sem meðferðarfulltrúi við Sambýlið að Lindargötu, Siglufirði, frá og með 1. janúar 1989, en frá 1995 hefur starfsheitið verið stuðningsfulltrúi. Stofnun þessi er ríkisstofnun og starfar samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Í 13. gr. laganna er gert ráð fyrir því að gerðir séu samningar milli ríkisins og sveitarfélaga um það að sveitarfélög annist þjónustu við fatlaða að hluta til eða öllu leyti, ýmist á vettvangi sveitarfélaga, byggðasamlaga eða héraðsnefnda. Í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum þessum er kveðið á um framsal valdheimilda ríkisins til sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar, þegar gerður er samningur samkvæmt 13. gr. laganna, og jafnframt er tekið fram um réttarstöðu starfsmanna við þær aðstæður. M.a. er tekið fram að engin formbreyting verði á ráðningarstöðu starfsmanna, þeir séu áfram ríkisstarfsmenn og um laun þeirra og önnur starfskjör fari eftir sömu kjarasamningum og fyrr. Verður ákvæði þetta ekki túlkað svo að það skerði almenn vinnuréttarleg réttindi svo sem stéttarfélagsaðild. Á grundvelli 13. gr. laga nr. 59/1992 gerði félagsmálaráðherra hinn 23. mars 1999 tímabundinn samning við Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra um að byggðasamlagið veitti fötluðum lögbundna þjónustu. Í 6. gr. samningsins er fjallað um starfsmannamál. Samningnum fylgdi starfsmannalisti þar sem Marín Gústafsdóttir er tilgreind meðal starfsmanna og þess getið að stéttarfélag hennar sé Verkalýðsfélagið Vaka. Fram kemur á listanum að starfsmenn í þjónustu við fatlaða eru í ýmsum stéttarfélögum, sumir í stefnanda en aðrir í ýmsum stéttarfélögum samkvæmt lögum nr. 80/1938.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986 gilda lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 1. gr. laganna taka þau ekki til starfsmanna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fara eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938 og lög nr. 19/1979. Í athugasemdum við þennan tölulið í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 94/1986, er tekið fram að gert sé ráð fyrir því að áfram verði unnt að ráða hjá opinberum stofnunum starfsmenn er taki laun samkvæmt þeim almennu kjarasamningum sem gerðir eru á milli samtaka vinnuveitenda og launþega, sbr. lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 fara stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Stefnandi er slíkt stéttarfélag sem um ræðir í greindu ákvæði 4. gr. laganna. Verður ekki fallist á það með stefnda, Byggðasamlagi um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, að réttur stefnanda til samningsaðildar í því tilviki, sem hér um ræðir, ráðist af 5. gr. laga nr. 94/1986.

Eins og fram er komið hefur fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gert kjarasamning við Alþýðusamband Norðurlands vegna aðildarfélaga þess og verkalýðsfélagið Einingu, nú Einingu-Iðju, sem m.a. tekur til starfs stuðningsfulltrúa, og jafnframt er gert ráð fyrir slíku starfi í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs við stefnanda. Í máli þessu er því tekist á um samningsaðild þegar svo stendur á að fjármálaráðherra hefur gert kjarasamning um sömu störf við tvö stéttarfélög, annars vegar stéttarfélag starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 94/1986 og hins vegar almennt stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938. Ekki er berum orðum í lögum nr. 94/1986 gert ráð fyrir beinum kjarasamningum fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð við stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938, enda þótt alkunna sé að fyrir sé að fara víðtækri samningsgerð af þeim toga. Með hliðsjón af þessum aðstæðum verður að leysa úr málinu.

Eins og fram er komið er Sambýlið að Lindargötu 2, Siglufirði, ríkisstofnun, og Marín Gústafsdóttir því ríkisstarfsmaður. Hún óskaði eftir að segja sig úr stefnda, Verkalýðsfélaginu Vöku, og ganga í stefnanda, Starfsmannafélag ríkisstofnana. Stóð ekkert í vegi fyrir því að þessar ákvarðanir hennar næðu fram að ganga svo sem rakið hefur verið. Þegar litið er til þessa og virt er staða stefnanda sem stéttarfélags ríkisstarfsmanna samkvæmt lögum nr. 94/1986, sem að framan er lýst, verður ekki talið að neitt standi því í vegi að fyrri kröfuliður í dómkröfum stefnanda, um viðurkenningu á að félagið fari með samningsaðild fyrir Marínu Gústafsdóttur við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið vegna greindra starfa hennar, nái fram að ganga. Ekki verður talið, eins og á stendur, að 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 standi því í vegi né að stefnandi hafi borið tilkynningarskyldu samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar eins og stefndi, Byggðasamlag um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra, heldur fram. Þá verður ekki talið að lög nr. 59/1992 og fyrrgreindur þjónustusamningur standi gegn þessari niðurstöðu. Þegar litið er til stöðu Sambýlisins að Lindargötu 2, Siglufirði, samkvæmt lögum nr. 59/1992, þ. á m. varðandi kjarasamningsgerð, og þeirrar ráðstöfunar um rekstur stofnunarinnar, sem gerð var á grundvelli laganna með greindum þjónustusamningi, verða sýknukröfur stefndu, Byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra og íslenska ríkisins, ekki teknar til greina á grundvelli aðildarskorts. Þá verður ekki talið að málsástæða stefnda, Verkalýðsfélagsins Vöku, sem byggir á aðildarskort, eigi við rök að styðjast.

Samkvæmt framansögðu ber að taka til greina fyrri lið í dómkröfum stefnanda um viðurkenningu á því að stefnandi fari með samningsaðild fyrir Marínu Gústafsdóttur við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið vegna greindra starfa hennar.

Samkvæmt öðrum lið í dómkröfum sínum krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að laun og kjör Marínar Gústafsdóttur hafi frá og með 1. maí 2000 farið eftir kjarasamningi stefnanda og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 23. apríl 1997, með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000 og kjarasamningi sömu aðila frá 25. mars 2001 með gildistíma frá 1. mars 2001 til 30. nóvember 2004. Eins og fram er komið var kjarasamningur Verkalýðsfélagsins Vöku við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs laus þegar Marín Gústafsdóttir gekk úr félaginu og nýr samningur hafði ekki verið gerður. Að þessu virtu og samkvæmt niðurstöðu málsins þykja ekki efni til annars en taka þessa kröfu til greina, enda stendur grunnregla 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og grundvöll slíkrar reglu í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986, ekki gegn því.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina.

Stefndu greiði hver um sig stefnanda 75.000 krónur í málskostnað.


D Ó M S O R Ð

Viðurkennt er að Starfsmannafélag ríkisstofnana fari með samningsaðild fyrir Marínu Gústafsdóttur, kt. 200551-2069, við gerð kjarasamninga við stefnda, íslenska ríkið, vegna starfa hennar sem stuðningsfulltrúi við Sambýlið, Lindargötu 2, Siglufirði.

Þá er og viðurkennt að laun og kjör Marínar Gústafsdóttur, hafi frá og með 1. maí 2000 farið eftir kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 23. apríl 1997, með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000 og kjarasamningi sömu aðila frá 25. mars 2001 með gildistíma frá 1. mars 2001 til 30. nóvember 2004.

Stefndu greiði hver um sig stefnanda 75.000 krónur í málskostnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum