Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 7/2009: Dómur frá 28. júlí 2009

Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, var í Félagsdómi í málinu nr. 7/2009.

  

Félag flugumsjónarmanna á Íslandi

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R

 

Mál þetta var dómtekið var 30. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Ástráður Haraldsson

 

Stefnandi er Félag flugumsjónarmanna á Íslandi (FFM).

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, vegna Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf. (IGS), Byggingu 11, Reykjanesbæ.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þær dómkröfur í málinu að viðurkennt verði að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS) hafi brotið gegn ákvæðum gr. 2-2.4 í 1. kafla kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna á Íslandi og Flugþjónustunnar Keflavíkurflugvelli ehf.

Þá er gerð sú krafa að viðurkennt verði að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS) hafi brotið gegn 8. grein, 6. kafla um „route checks“.

Auk þess er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess að sýknað verði af dómkröfum stefnanda.

Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Málavextir

Stefndi, Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS), er þjónustufyrirtæki, sem hefur frá stofnun, 1. janúar 2001, annast flugumsjón fyrir önnur flugfélög en Icelandair ehf. og aðra sem óskað hafa eftir þjónustu félagsins. Flugvélum Icelandair er sinnt af flugumsjónarmönnum þess félags en Icelandair rekur eigin flugumsjón fyrir sín flug og er bundið kjarasamningi við stefnanda.

Kjarasamningur var gerður milli Félags flugumsjónarmanna og Flugþjónustunnar Keflavíkurflugvelli ehf. árið 2001. Samkvæmt 1. grein hans, gr. 1.1. nær samningurinn til flugumsjónarmanna sem sinna störfum þjónustustjóra hleðslueftirlits hjá Flugþjónustunni Keflavíkurflugvelli ehf., nefnt IGS. Í 2. grein kjarasamningsins eru starfsskyldur þjónustustjóra hleðslueftirlits skilgreindar.

Kristinn Edgar Jóhannsson, Sturla Frostason, Kristinn Eyjólfsson, Ólafur Höskuldsson og Friðrik Jónsson störfuðu sem þjónustustjórar hleðslueftirlits hjá Flugþjónustunni Keflavíkurflugvelli ehf. og fór um kjör þeirra eftir framangreindum kjarasamningi.

Fyrrgreindir flugumsjónarmenn störfuðu sem þjónustustjórar innan hleðslueftirlits fyrirtækisins. Fimm þjónustustjórar voru í deildinni, einn á hverri vakt. Deildarstjóri, sem jafnframt er flugumsjónarmaður hafði m.a. umsjón með skipulagningu vakta og verkefna, þjálfun starfsmanna og starfsmannamálum. Tveir aðrir starfsmenn sáu um skipulagningu þjónustu og móttöku á einkavélum og vélum í eldsneytisstoppi. Þessir starfsmenn voru eingöngu á dagvakt og sáu þá um alla þjónustu sjálfir en skipulögðu þjónustu á næturnar. Aðrir starfsmenn voru þegar mest var 12 í heildina yfir sumartímann og sáu fyrst og fremst um hleðsluskrárgerð auk annarra verkefna.

Vegna samdráttar í flugi taldi stefndi að nauðsyn bæri til að hagræða í rekstri. Miðað við umfang starfseminnar og breytt skipulag taldi stefndi að einn flugumsjónarmaður réði við þau verkefni sem falla undir starfssvið flugumsjónarmanna með aðstoð frá Icelandair, ef þörf væri á, sbr. verksamning þessara aðila. Störf þjónustustjóra voru því lögð niður. Aðrar breytingar sem stefndi taldi horfa til hagræðingar voru jafnframt gerðar á starfsemi fyrirtækisins.

Stefndi kveður gerð hleðsluskráa vera kjarnann í starfsemi hleðslueftirlits og jafnframt mikilvægasta verkefni deildarinnar. Sú vinna lúti ströngum öryggis- og þjálfunarkröfum og hafi að langmestu leyti verið sinnt af almennum starfsmönnum. Sú vinnutilhögun hafi engum breytingum tekið eftir uppsögn þjónustustjóranna. Hleðsluskrárgerðin sé jafnframt stærsti þátturinn í starfsemi deildarinnar en þess beri að geta að deildin sjái um hleðsluskrárgerð fyrir öll flugfélög sem séu í þjónustu hjá IGS, þar á meðal Icelandair. Öðrum flugumsjónarverkefnum sinni flugumsjónarmenn Icelandair.

Hvað varði verkefni þjónustustjóra hleðslueftirlits hafi þau m.a. falist í að sjá um dagleg starfsmannamál sem nú séu á verksviði deildarstjóra. Þjónustustjórar hafi prentað út veðurupplýsingar fyrir önnur flugfélög en Icelandair. Eingöngu hafi verið um útprentun að ræða en þessar upplýsingar séu aðgengilegar á netinu og því ekki verið að afla þeirra eða kynna sér þær. Aðrir starfsmenn hafi einnig annast þennan verkþátt. Önnur verkefni sem tilgreind séu í gr. 2.1. í 1. kafla kjarasamningsins hafi þjónustustjórarnir aldrei séð um. Í dag sjái deildarstjóri hleðslueftirlits og almennir starfsmenn um að prenta þessar upplýsingar út. Komi til þess að vinna þurfi þessar upplýsingar, sem geti einungis átt við um litlar einkaflugvélar, þá sé sú þjónusta keypt af Icelandair á grundvelli fyrrgreinds verktakasamnings.

Stefndi bendir á að IGS sé þjónustuaðili og annist því ekki gerð flugáætlana. Þær komi tilbúnar frá flugrekstraraðila. Bæði þjónustustjórar og almennir starfsmenn hafi séð um útprentun flugáætlana og að senda þær áfram til flugmálayfirvalda. Að lokum hafi þjónustustjórar séð um að skrá (fæla) flugplönin. Deildarstjóri og almennir starfsmenn sjái í dag um að tilkynna flugplön til flugstjórnaryfirvalda. Deildarstjóri annist skráningu þeirra og eins sinni Icelandair þeirri þjónustu ef á þarf að halda.

Verkefni það sem tilgreint sé í gr. 2.3. í 1. kafla kjarasamningsins og felist í að fylgjast með framgangi flugs og þeim atriðum sem kunna að varða öryggi þess og hafa samband við flugstjóra hafi aldrei verið í höndum þjónustustjóra hleðslueftirlits. Slíkt eigi eingöngu við um flugumsjónarmenn flugrekanda. Þeir þættir sem taldir séu í greinum 2.6. til 2.10 séu allir í umsjón og höndum deildarstjóra í dag sem sé einnig flugumsjónarmaður.

Stefndi kveður almenna starfsmenn, sem starfi í hleðslueftirliti, hafa frá upphafi sinnt ýmsum störfum, eins og getið sé um hér að framan, án þess að um það hafi verið deilt, sbr. einnig gr. 2.7. í 1. kafla kjarasamnings aðila. Ranghermt sé að nýir menn hafi verið ráðnir inn á starfssvið flugumsjónarmanna. Almennum starfsmönnum hafi ekki fjölgað. Þá hafi einnig sú breyting orðið að störf umsjónarmanna landganga í farþegaafgreiðslu hafi verið lögð niður og ákveðnir verkþættir sem tilheyrðu þeim störfum færðir á tvær nýjar stöður hópstjóra í hleðslueftirliti og hafi það verið meginástæða þess að til þeirra starfa var stofnað. Hópstjóri hafi að öðru leyti umsjón með þjónustu „air side“, þ.e. svæðisins við brottfarahlið og sé tengiliður á milli starfsmanna farþegaafgreiðslu sem sjái um byrðingu véla auk annarra starfa.

Stefnandi telur að með hinu breytta fyrirkomulagi, sem hér að framan er lýst, hafi stefnandi gerst brotlegur við forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila, 1. kafla, 2. gr., lið 2.4 þar sem segir að meðlimir Félags flugumsjónarmanna á Íslandi hafi forgangsrétt á allri vinnu er heyri undir starfssvið flugumsjónarmanna.

Stefnandi telur einnig að stefndi hafi brotið gegn ákvæði 8. gr. í 6. kafla kjarasamningsins þar sem segir:

„Kynnisferðir (rout checks) á vegum IGS skv. reglugerð Flugmálastjórnar CAA skulu innifaldar í mánaðarlegum vinnutíma (t.d. ferðatími + vinnutími erlendis). Annars skulu þær greiddar sem yfirvina, nema um annað semjist. Kynnisferðir skulu skipulagðar í samráði við trúnaðarmann. Kynnisferðir skulu vera með þeim hætti að

þær fullnægi reglugerðum og kröfum flugmálastjórnar CAA.“

Stefnandi kveður framkvæmd þessa ákvæðis hafa verið með þeim hætti að hver þjónustustjóri hafi farið eina ferð til Evrópu á ári og eina ferð til Ameríku með tveggja nátta stoppi. Viðkomandi hafi haft það hlutverk að fylgjast með undirbúningi flugs, veðurathugunum og öllu sem viðkomi öryggisatriðum í viðkomandi flugi. Flugumsjónarmaðurinn hafi í flugi verið staðsettur í flugstjórnarklefa hjá flugmönnum. Fyrirkomulag hafi verið þannig að greidd hafi verið 1 nótt í gistingu í Evrópuflugi auk þess sem dagpeningar hafi verið greiddir.

Starfsmenn hafi litið svo á með hliðsjón af áralangri framkvæmd á framangreindu ákvæði kjarasamnings að starfsmenn hafi átt rétt á einum „rout checks“ á ári. Í framangreindu kjarasamningsákvæði segi að um kynnisferðir sé að ræða. Starfsmenn eigi rétt á slíkum kynnisferðum en að öðrum kosti skuli þær greiddar sem yfirvinna svo sem kveðið sé á um í 8. gr. 6. kafla í kjarasamningi.

Þegar áðurnefndum 5 þjónustustjórum hafi verið sagt upp störfum í september 2008 hafi þeim verið tilkynnt að ekki yrði um slíkar ferðir að ræða á uppsagnarfresti.  Þá hafi þeir ekki fengið neina yfirvinnu greidda í staðinn, þrátt fyrir ákvæði kjarasamnings. Stefnandi telur að með slíkri tilkynningu hafi stefndi brotið gegn ákvæði 6. kafla 8.gr. kjarasamnings.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Vegna brota á forgangsréttarákvæðum kjarasamnings

Samkvæmt grein 2 í 1. kafla kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna á Íslandi og Flugþjónustunnar Keflavíkurflugvelli ehf., lið 2.4. segi:

Meðlimir Félags flugumsjónarmanna á Íslandi (F.F.Í.) hafa forgangsrétt á allri vinnu er heyrir undir starfssvið flugumsjónarmanna, enda sé félagið opið öllum handhöfum skírteinis flugumsjónarmanna með þeim takmörkunum, sem félagslög ákveða.“

Þeir starfsmenn stefnda sem sinna nú störfum þeirra 5 flugumsjónarmanna, sem allir voru félagar í stefnanda, séu ekki félagsbundnir. Með því að ákveða að starfsmenn, sem ekki séu félagsbundnir, skuli sinna verkefnum sem falli undir verksvið flugumsjónarmanna samkvæmt kjarasamningi á milli aðila, hafi stefndi brotið gegn forgangsréttarákvæði kjarasamnings á milli aðila.

Stefndi haldi því fram í bréfi sínu til lögmanns stefnanda, dags. þann 22. janúar 2009, að einn flugumsjónarmaður, Pétur Jónsson, ráði fyllilega við að sinna þeim verkefnum sem þeir fimm flugumsjónarmenn sinntu áður. Það segi sig sjálft að þær fullyrðingar eigi ekki við rök að styðjast enda sé það augljóst að flugvélar komi og fari allan sólarhringinn, allan ársins hring, og að einn maður geti ekki með nokkru móti sinnt því verkefni.

 

Vegna brota á 6.kafla 8.gr. í kjarasamningi

Í greindu ákvæði kjarasamnings sé kveðið á um rétt starfsmanna til kynnisferða til útlanda einu sinni á ári. Í ákvæðinu segi að slíkar ferðir skuli innifaldar í mánaðarlegum vinnutíma en annars skuli þær greiddar sem yfirvinna „nema um annað semjist“. Árum saman hafi það verið viðurkennt af öllum aðilum, bæði stefnda og stefnanda að starfsmenn eigi rétt á slíkum ferðum einu sinni á ári. Samkomulag hafi verið um að túlka kjarasamningsákvæðið með því móti. Innihald og skilningur ákvæðisins hafi því verið með öllu ágreiningslaus. Það sé fráleitt að halda því nú fram, eftir áralanga framkvæmd með þessu móti, að það sé á valdi stefnda að ákveða það með einu pennastriki að þetta ákvæði falli út einn daginn, þ.e. daginn sem starfsmönnunum var sagt upp.

Með einhliða ákvörðun stefnda á því að bjóða starfsmönnum ekki að fara í kynnisferðir, þó að kominn hafi verið tími uppsagnarfrests, hafi stefndi brotið ákvæði kjarasamnings, sem þó sé skuldbindandi fyrir báða aðila.

Málatilbúnaður stefnanda byggist á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og lögum Félags flugumsjónarmanna. Vegna málskostnaðar er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.  Ennfremur er byggt á kjarasamningi aðila sem eru lágmarkskjör samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980.

Stefnandi sé ekki í heildarsamtökum launþega. Málið sé lagt fyrir Félagsdóm á grundvelli 2. tl. 1.mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi á því byggð að hann hafi ekki gerst brotlegur við kjarasamning aðila. Þeirri vinnu sem falli undir starfssvið flugumsjónarmanna samkvæmt samningnum sé sinnt af deildarstjóra hleðslueftirlits og í fjarveru hans af flugumsjónarmönnum Icelandair á grundvelli títt nefnds verksamnings. Að öðru leyti sinni almennir starfsmenn störfum með sama hætti og þeir hafi gert hingað til án þess að um það hafi verið ágreiningur.

Stefnandi hafi auk þess hvorki tilgreint hvaða starfsmenn eigi að hafa gengið inn í störf þeirra flugumsjónarmanna sem sagt var upp störfum né hvaða verkþætti þá sé um að ræða, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 1/1993.

Óhjákvæmilegt hafi verið að hagræða í rekstri til að mæta svo miklum samdrætti enda verkefni flugumsjónarmanna orðin lítil. Hafi fyrirtækið því neyðst til að segja upp um 80 starfsmönnum auk annarra aðgerða svo sem úthýsingar fjármálastjórnar fyrirtækisins og niðurfellingu á starfi sölu- og markaðsmála.

Það sé háð ákvörðun IGS hvernig vinnuskipulagi sé háttað og hve marga flugumsjónarmenn félagið telur sig þurfa í vinnu. Í framkvæmd hafi starfssvið flugumsjónarmanna ekki verið mjög afmarkað. Mörkin milli starfa flugumsjónarmanna og annarra starfsmanna hafi verið óljós og jafnvel tilviljanakennd. Báðir hópar hafi að stórum hluta sinnt sömu störfum auk þess sem margir þeirra verkþátta, sem þjónustustjórar IGS hafi sinnt, geti talist til almennra skrifstofustarfa, svo sem útprentun upplýsinga. Tæknibreytingar hafi einnig einfaldað störfin.

Svokallaðir hópstjórar gangi eingöngu dagvaktir og séu undir stjórn deildarstjóra hleðslueftirlits sem er flugumsjónarmaður. Hópstjórar sinni ekki þeim verkþáttum sem falli undir starfssvið flugumsjónarmanna í skilningi kjarasamnings aðila. Deildarstjóri hleðslueftirlits sjái um þau störf með aðstoð frá Icelandair á grundvelli verksamnings fyrirtækjanna.  

Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi hafi brotið gegn forgangsréttarákvæði samningsins eins og hann haldi fram.

Hvorki reglugerð nr. 1186/2008 né eldri reglugerð hafi að geyma ákvæði er lúti að starfssviði þjónustustjóra hleðslueftirlits.

 

Andmæli vegna rangfærslna í stefnu

Stefndi kveður IGS ekki stunda flugrekstur og hafi hvorki sömu heimildir og skyldur og slíkir aðilar. Flugumsjónarmenn IGS sjái ekki um að gera flugáætlanir og safna saman veðurupplýsingum ásamt NOTAM fyrir hvert einasta flug sem farið sé á vegum íslenskra flugfélaga. Flugumsjónarmenn flugrekstraraðila sjái sjálfir um þennan verkþátt fyrir sitt félag.

Þjónustustjórar hleðslueftirlits hafi hvorki séð um, né sjái um, að fylgjast með framgangi hvers flugs. Það eigi eingöngu við um flugumsjónarmenn flugfélaga.

Þá sé það ekki á ábyrgð þjónustustjóra að ganga úr skugga um að flugvélar sem IGS þjónustar séu löglegar til flugs á þeirri leið sem hún sé að fara. Það sé í höndum áhafnar flugvélarinnar og viðkomandi flugrekanda.

Þjónustustjórar hafi ekki haft, og hafi ekki, ákvörðunarvald um hvernig bregðast skuli við seinkun hjá flugfélagi sem IGS veitir þjónustu. Slíkt sé í höndum flugrekandans.

Þjónustustjórar hafi  mjög lítið komið að hleðslukráargerð en hafi þurft að hafa þjálfun sem slíkir í samræmi við kröfur IGS. Hleðsluskrárgerð hafi nær eingöngu verið í höndum almennra starfsmanna, sbr. framlagða starfslýsingu hleðslueftirlits.

Rangt sé að fjöldi fluga hafi verið sá sami fyrir og eftir uppsögn flugumsjónarmannanna. Eins að 10 almennir starfsmenn í hleðslueftirliti séu að sinna störfum fyrrum flugumsjónarmanna.

  

Um kynnisferðir samkvæmt kjarasamningi aðila.

Sýknukrafa stefnda byggir á því að í gr. 8 í 6. kafla kjarasamnings aðila sé  kveðið á um kynnisferðir á vegum IGS samkvæmt reglugerð Flugmálastjórnar. Núgildandi reglugerð hafi ekki að geyma neinar kvaðir eða reglur um kynnisferðir og því sé það ekki samningsbundin skylda að senda flugumsjónarmenn í slíkar ferðir. Því síður að venja hafi myndast um það. Stefnandi hafi hvorki fært rök að þeirri staðhæfingu sinni né sönnun þess að svo hafi verið en þess beri að geta að með kjarasamningi IGS hafi verið tekin upp önnur regla hvað þetta varðar en gildi samkvæmt kjarasamningi Icelandair. Það fyrirkomulag sem þar sé kveðið á um, gildi því ekki gagnvart IGS. Það sé ákvörðun IGS hverju sinni hvort slíkar ferðir séu farnar auk þess sem um sé að ræða kynnisferðir sem ætlast sé til að nýtist starfsmönnum í starfi.

Þjónustustjórarnir sem sagt hafi verið upp störfum hafi allir fengið slíka ferð til Evrópu á árinu 2008. Um sé að ræða dagsflug og því ranghermt í stefnu að greitt sé fyrir 1 nótt í Evrópuflugi.

Þá sé einnig rangt að félagið beri greiðsluskyldu vegna ferða sem ekki séu farnar. Kjarasamningurinn kveði ekki á um slíkt. Samkvæmt skýru orðalagi samningsákvæðisins skuli kynnisferðir vera innifaldar í mánaðarlegum vinnutíma annars skuli þær greiddar sem yfirvinna. Það þýði að séu þær farnar utan vinnutíma, t.d. í vaktafríi, greiðist yfirvinna. Greiðsluskyldan takmarkist við það tilvik. Forsvarsmenn IGS kannist heldur ekki við að hafa fengið slíka kröfu. 

Fullyrðingum í stefnu, um að samkomulag sé um túlkun stefnanda á ákvæði þessu, sé mótmælt.

Þá gefi málatilbúnaður stefnanda ekki til kynna á hvern hátt stefndi kunni að hafa brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. 

Stefndi byggir fyrst og fremst á kjarasamningi aðila, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og meginreglum vinnuréttar. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr. 

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í máli þessu er meðal annars tekist á um það hvort stefndi, Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli ehf., hafi brotið gegn forgangsréttarákvæði í kjarasamningi aðila. Ákvæði þetta er í lið 2.4 í 2. gr. 1. kafla í fyrirliggjandi kjarasamningi milli stefnanda, Félags flugumsjónarmanna á Íslandi, annars vegar og stefnda, Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf., hins vegar, sem undirritaður var hinn 1. maí 2001. Greint ákvæði kjarasamningsins er svohljóðandi:

„Meðlimir Félags flugumsjónarmanna á Íslandi (F.F.Í) hafa forgangsrétt á allri vinnu er heyrir undir starfssvið flugumsjónarmanna, enda sé félagið opið öllum handhöfum skírteinis flugumsjónarmanna með þeim takmörkunum, sem félagslög ákveða.“

Að auki er ágreiningsefni málsins hvort stefndi hafi brotið gegn ákvæði 8. gr. í 6. kafla kjarasamningsins varðandi kynnisferðir („route checks“).

Í stefnu er dómkrafan orðuð svo hvað varðar meint brot gegn fyrrgreindu ákvæði kjarasamningsins um forgangsrétt að þess er krafist „að viðurkennt verði að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS) hafi brotið gegn ákvæðum gr. 2-2.4 í 1. kafla kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna á Íslandi og Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf.“ Ekki kemur fram í kröfunni með hvaða hætti stefndi á að hafa brotið gegn greindu ákvæði. Af hálfu stefnda er í greinargerð fundið að þessu og á það bent að dómkrafan sé óskýr að þessu leyti þar sem ekki sé tilgreint í hverju meint brot stefnda felist, auk þess sem stefndi telur að tilvísun stefnanda til  ákvæða kjarasamningsins sé röng í dómkröfunni. Af hálfu stefnda er þó ekki krafist frávísunar málsins vegna greindra atriða.

Vegna athugasemda stefnda skal tekið fram að ekki verður talið að það fari á milli mála gegn hvaða ákvæði kjarasamningsins stefnandi telur að stefndi hafi brotið. Hins vegar verður að taka undir það með stefnda að nokkuð skorti á það að dómkrafan sé nægilega markviss, eins og hún er orðuð, þar sem þess er að engu getið í kröfunni í hverju meint brot stefnda gegn umræddu forgangsréttarákvæði felst. Í stefnu kemur hins vegar óyggjandi fram að stefnandi telur að stefndi hafi brotið gegn umræddu ákvæði kjarasamningsins með því að segja upp störfum fimm nafngreindum þjónustustjórum, félagsmönnum í stefnanda, í september 2008, jafnframt því að ákveða að ófélagsbundnir starfsmenn ræki þau störf sem falla undir starfssvið þjónustustjóranna. Verður að skýra dómkröfuna með hliðsjón af þessu. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður ekki talið að efni séu til frávísunar málsins ex officio að því er tekur til þessa þáttar þess.

Í máli þessu er ekki deilt um gildi umrædds ákvæðis í kjarasamningi aðila um forgangsrétt. Félagsdómur hefur að auki í mörgum dómum komist að þeirri niðurstöðu að slík ákvæði séu lögmæt. Þá er rétt að fram komi vegna sakarefnisins að forgangsréttur gildir ekki aðeins við ráðningu í starf heldur einnig við uppsögn, sbr. Fd. V:193 og dóma Félagsdóms frá 28. maí 2002 í málinu nr. 2/2002: Bifreiðastjórafélagið Sleipnir gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Kynnisferða sf. og frá 23. janúar 2007 í málinu nr. 7/2006: Flugvirkjafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Flugfélagsins Atlanta ehf.

Í forgangsréttarákvæði því sem hér er til umfjöllunar er verksvið flugumsjónarmanna skilgreint all nákvæmlega. Hvorugur samningsaðila hefur gert tillögur um breytingar á ákvæðinu þrátt fyrir að samningurinn hafi oftar en einu sinni verið endurnýjaður. Af hálfu stefnda virðist á því byggt að raunverulegt starfssvið þeirra flugumsjónarmanna sem hann hafði í þjónustu sinni og sagði upp störfum í september 2008 hafi verið annað en það sem gæti fallið undir lýsingu verksviðs flugumsjónarmanna í forgangsréttarákvæðinu. Því hafi það að segja flugumsjónarmönnunum upp störfum og ráða engan í þeirra stað úr hópi félagsmanna stefnanda ekki falið í sér brot á forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila.

Fyrir liggur að engar eðlisbreytingar urðu á starfsemi stefnda um haustið 2008. Verulega dró úr umfangi starfseminnar en eðli hennar var óbreytt. Eins og hér stendur á verður við það að miða að sönnunarbyrði um það að stefndi hafi enga þá starfsemi með höndum sem falli undir forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila hvíli á stefnda. Þá sönnun hefur stefnda ekki tekist að færa fram fyrir Félagsdómi. Því er óhjákvæmilegt að fallast á að með uppsögnum nefndra félagsmanna stefnda um haustið 2008 og með því að láta aðra starfsmenn, sem ekki nutu forgagnsréttar ganga í störfin að einhverju leyti hafi stefndi brotið gegn umsömdum forgangsrétti samkvæmt kjarasamningi aðila.

Víkur þá að seinni lið í dómkröfum stefnanda. Er þess krafist „að viðurkennt verði að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS) hafi brotið gegn 8. grein, 6. kafla um „route checks“. Þessi grein kjarasamningsins hljóðar svo:

„Kynnisferðir (rout checks) á vegum IGS skv. reglugerð Flugmálastjórnar CAA skulu innifaldar í mánaðarlegum vinnutíma (t.d. ferðatími + vinnutími erlendis). Annars skulu þær greiddar sem yfirvinna, nema um annað semjist. Kynnisferðir skulu skipulagðar í samráði við trúnaðarmann. Kynnisferðir skulu vera með þeim hætti að þær fullnægi reglugerðum og kröfum Flugmálastjórnar CAA.“

Af hálfu stefnanda er á því byggt að umrætt ákvæði kjarasamningsins kveði á um rétt starfsmanna til kynnisferða einu sinni á ári og hafi það verið sameiginlegur skilningur málsaðila. Geti stefndi ekki, eftir áralanga framkvæmd, fellt umrædd réttindi einhliða niður. Af hálfu stefnda er á hinn bóginn því teflt fram að hvorki sé fyrir að fara samningsbundinni skyldu til að senda flugumsjónarmenn í slíkar kynnisferðir, sem hér um ræðir, né hafi nokkur venja myndast þar að lútandi. Það sé alfarið á valdi stefnda að ákveða hvort slíkar ferðir séu farnar.

Af greindu ákvæði kjarasamningsins verður ekkert ráðið um skyldu stefnda til að senda flugþjónustumenn í kynnisferðir umfram það sem kann að leiða af tilvísun ákvæðisins til ótilgreindrar reglugerðar Flugmálastjórnar. Heldur stefndi því fram að núgildandi reglugerð hafi ekki að geyma neinar kvaðir eða reglur um kynnisferðir og verður ekki séð að því sé út af fyrir sig mótmælt af hálfu stefnanda sem samkvæmt framansögðu byggir á sameiginlegum skilningi aðila og venju um framkvæmd ákvæðisins. Að þessu athuguðu og þar sem stefnandi þykir ekki, gegn andmælum stefnda, hafa sýnt fram á það að venja hafi myndast um framkvæmd ákvæðisins í þá veru sem stefnandi heldur fram verður stefndi sýknaður að þessum lið í dómkröfum stefnanda. 

Samkvæmt framansögðu er fallist á fyrri lið í dómkröfum stefnanda í málinu, eins og nánar greinir í dómsorði, um viðurkenningu á því að stefndi hafi brotið gegn forgangsréttarákvæði í kjarasamningi aðila með því að segja fimm félagsmönnum stefnanda upp störfum í september 2008 jafnframt því að ákveða að ófélagsbundnir starfsmenn gengju í störf þeirra.

Samkvæmt úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 250.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli braut gegn ákvæðum í lið 2.4 í 2. gr. 1. kafla kjarasamnings Félags flugumsjónarmanna á Íslandi og Flugþjónustunnar Keflavíkurflugvelli ehf. með því að segja fimm félagsmönnum stefnanda upp störfum í september 2008 jafnframt því að ákveða að ófélagsbundnir starfsmenn gengju í störf þeirra.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, vegna Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf., greiði stefnanda, Félagi flugumsjónarmanna á Íslandi, 250.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Ástráður Haraldsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum