Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 276/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 276/2020

Fimmtudaginn 10. september 2020a

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. apríl 2020. Meðfylgjandi umsókn kæranda var skólavottorð þar sem fram kom að kærandi stundaði 30 ECTS eininga nám við Háskóla Íslands. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. maí 2020, var kæranda greint frá skilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og óskað eftir að hann hefði samband við ráðgjafa til að kanna hvort skilyrði fyrir gerð námssamnings væri uppfyllt. Væri þeirri boðun ekki sinnt innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins myndi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verða hafnað. Í kjölfarið var kærandi í samskiptum við Vinnumálastofnun og fékk þær upplýsingar að ekki væri heimilt að vera í fullu námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þann 22. júní 2020 var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað á grundvelli 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. júní 2020. Með bréfi, dags. 19. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. júlí 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júlí 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 15. júlí 2020 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. júlí 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé sjálfstætt starfandi á eigin kennitölu og hafi verið að vinna sem verktaki, bæði fyrir og eftir að hann hafi byrjað í framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Í raun hafi ekkert breyst eftir að hann hafi byrjað í náminu. Kærandi hafi verið og sé enn skráður hjá Ríkisskattstjóra sem sjálfstætt starfandi og hafi þurft að skila tryggingagjaldi og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi í hverjum mánuði og virðisaukaskatti árlega, óháð því hvort hann sé í námi eða ekki. Kærandi sé fyrst og fremst verktaki, ekki námsmaður. Að mati kæranda sé það óréttlátt af hálfu Vinnumálastofnunar að taka nám hans út fyrir sviga og flokka hann sem námsmann. Það geti ekki staðist að hann tapi rétti sínum til atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði bara fyrir það eitt að hafa skráð sig í nám með vinnu. Kærandi skilji ekki til hvers hann sé þá að greiða tryggingagjald.

Kærandi tekur fram að hann sé sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt skilgreiningu 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun ákveði að hunsa algjörlega þá staðreynd og taki námið út fyrir sviga og líti einfaldlega á hann sem námsmann að sækja um atvinnuleysisbætur. Að auki sé honum sagt að efnahagsástandið í dag skipti engu máli, að hann sé einfaldlega að sækja um almennar atvinnuleysisbætur sem námsmaður. Kærandi sé algjörlega ósammála þeirri staðhæfingu og furði sig á slíku viðhorfi í ljósi þess að ríkisstjórnin hafi kynnt sérstakan aðgerðapakka fyrir þjóðinni og Alþingi samþykkt sérstakt frumvarp um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda. Að mati kæranda sé þetta mjög óréttlát meðferð og fjárhagslega hafi þetta ekki verið auðveldur tími en það hafi tekið Vinnumálastofnun heilar sjö vikur að kveða upp sinn úrskurð.

Kærandi bendir á að það sjáist greinilega á skattaskýrslu sinni fyrir árið 2020 í samanburði við árið á undan að hann hafi orðið fyrir töluverðu tekjutapi upp á síðkastið og að hann rétt skrimti. Fyrr á árinu hafi kærandi skilað inn RSK 5.02 og tilkynnt um minnkað starfshlutfall, áður en aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar hafi verið kynntur til sögunnar. Kærandi falli svo sannarlega í þann hóp sem hafi orðið fyrir efnahagslegum þrengingum á þessum kórónutímum en virðist samt sem áður falla í einhverjar sprungur í kerfinu. Kærandi geti vel skilið að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum en honum finnist ekki sanngjarnt að missa öll réttindi og að hann sé útilokaður vegna þess eins að hafa skráð sig í nám samhliða vinnu, þrátt fyrir að greiða áfram tryggingagjald og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi.

Kærandi óskar eftir því að umsókn hans um atvinnuleysisbætur verði samþykkt á þeim forsendum að hann sé fyrst og fremst sjálfstætt starfandi einstaklingur eins og skráning hans hjá Ríkisskattstjóra og skattaskýrslur sýni glögglega.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er tekið fram að samkvæmt skilgreiningu b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 ætti hann að vera tryggður því að hann standi skil á reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi í hverjum mánuði. Samkvæmt túlkun Vinnumálastofnunar glati hann þeim rétti daginn sem hann skrái sig í nám, þrátt fyrir að halda skráningu sinni sem sjálfstætt starfandi einstaklingur óbreyttri hjá Ríkisskattstjóra. Kæranda beri skylda til að standa skil á þessum gjöldum mánaðarlega, burtséð frá því hvort hann stundi nám eða ekki. Kærandi sé algjörlega ósammála túlkun Vinnumálastofnunar á því að ekki sé unnt að líta fram hjá skilyrðum 52. gr. laganna, en þar standi til að mynda: „… enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.“ Kærandi sé einmitt ekki að sækja um hlutabótaleiðina sem atvinnulaus námsmaður, heldur sé hann að sækja um hana sem sjálfstætt starfandi einstaklingur vegna fækkunar á verkefnum sem tengist Covid-ástandinu. Það komi bersýnilega í ljós á skattaskýrslum og skráningu hjá Ríkisskattstjóra. Lögin um atvinnuleysistryggingar séu engan veginn nógu skýr hvað varði einstaklinga sem séu í námi og á vinnumarkaði, en um fjölmennan hóp í samfélaginu sé að ræða. Kærandi telji sig því ekki njóta sannmælis af þeim sökum. Það eigi ekki að refsa fólki á vinnumarkaði fyrir dugnað og vilja til að mennta sig frekar. Þetta sé ósanngjörn túlkun af hálfu Vinnumálastofnunar sem virðist leita leiða til að greiða ekki út bætur.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið lúti meðal annars að 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að hver sá sem stundi nám í skilningi c-liðar 3. gr. laganna teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum. Fram komi í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna að þrátt fyrir framangreint ákvæði geti atvinnuleitendur í háskólanámi átt rétt til atvinnuleysisbóta að nánari skilyrðum uppfylltum. Þær undanþáguheimildir komi til skoðunar þegar nám sé undir 20 ECTS-einingum og sé ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Fyrirhugað nám kæranda sé umfram 20 ECTS-einingar, alls 30 ECTS-einingar, og falli þar af leiðandi utan skilyrða 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna. Því verði að álykta að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við um atvik í máli kæranda. Vinnumálastofnun veki athygli á að þegar nám einstaklings nemi 20 ECTS-einingum eða meira sé engar undanþáguheimildir að finna í lögum um atvinnuleysistryggingar og stofnuninni því ekki heimilt að gera neinar undanþágur eða námssamninga í slíkum tilvikum.

Í kæru komi fram að kærandi telji sig vera fyrst og fremst sjálfstætt starfandi einstaklingur á vinnumarkaði en ekki námsmaður. Það sé mat stofnunarinnar að ekki sé unnt að líta fram hjá afdráttarlausum skilyrðum 52. gr. laganna um einstaklinga sem skráðir séu í nám í skilningi 1. mgr. 52. gr. laganna. Í ljósi þess sem að framan greini telji Vinnumálastofnun að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Kærandi eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann stundi nám. Stofnuninni hafi því borið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að kærandi stundi nám.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Óumdeilt er að kærandi var skráður í 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun og að námið var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma ekki til skoðunar þegar um fullt nám er að ræða líkt og á við í tilviki kæranda. Þrátt fyrir að kærandi hafi einnig verið sjálfstætt starfandi verður ekki hjá því litið að sá sem stundar nám telst ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006, nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 52. gr. laganna. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að hafna umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn A um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum