Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 613/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 613/2020

Fimmtudaginn 18. febrúar 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. nóvember 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. nóvember 2020, um synjun á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 31. ágúst 2020, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 21. október 2020, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 4. nóvember 2020 og staðfesti synjunina.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. nóvember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 14. desember 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. desember 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé atvinnulaus og eigi eitt barn. Kæranda hafi verið neitað um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakan húsnæðisstuðning en hann hafi fengið þær upplýsingar að Reykjavíkurborg ætti 3.200 íbúðir til taks. Kærandi greiði 195.000 kr. í húsaleigu en Reykjavíkurborg hafi ekki viljað veita aðstoð.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi sjálfur sagt upp núverandi húsnæði og hafi átt að flytja út þann 30. nóvember 2020. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá ráðgjafa kæranda hafi hann haft samband við leigusala og framlengt leigusamning um ár. Málefni kæranda hafi verið til vinnslu á þjónustumiðstöð frá því í janúar 2020 og vinnslan hafi að mestu snúist um húsnæðismál hans.

Reykjavíkurborg vísar til þess að í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna komi fram að umsóknir skuli metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal nr. 1 með reglunum. Við lok mats séu reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skuli umsækjandi vera metinn til að lágmarki 9 stiga þegar um sé að ræða einstakling/hjón/sambúðarfólk, sbr. e-lið 4. gr. reglnanna.

Umsókn kæranda hafi verið metin á grundvelli framangreinds matsviðmiðs og niðurstaðan verið sú að hann hafi verið metinn til 6 stiga. Sumir þættir matsins séu ekki háðir mati, eins og staða umsækjanda, tekjur umsækjanda og börn á heimili umsækjanda, en aðrir þættir séu háðir mati, þ.e. húsnæðisstaða, sérstakar aðstæður barna og félagslegur vandi umsækjanda. Varðandi síðarnefndu þættina í málinu þá hafi aðstæður kæranda verið metnar í öllum þremur tilfellum til eins margra stiga og unnt sé. Þeir þættir matsins sem ekki eigi við í máli kæranda séu staða umsækjanda, staða maka þar sem kærandi sé einstæður og sérstakar aðstæður barna.

Hvað varði stig vegna tekna þá hafi ekki verið veittar undanþágur frá þeim viðmiðum sem þar séu sett. Tekjur kæranda hafi numið 4.221.634 kr. fyrir árið 2019. Samkvæmt matsviðmiðum fái umsækjandi 1 stig þar sem árstekjur séu á bilinu 3.474.250 kr. til 5.345.000 kr. Kærandi hafi fengið eitt stig vegna barna en hann eigi eitt barn sem sé í reglulegri umgengni hjá kæranda.

Þættir er varði félagslegar aðstæður kæranda séu háðir mati. Stig fyrir húsnæðisstöðu umsækjenda séu metin út frá umfangi húsnæðisvanda og séu gefin 0, 1, 2 eða 3 stig. Kærandi hafi verið metinn til 2ja stiga og falli undir matsviðmiðið; er með húsnæði/herbergi, skemur en þrír mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi og ekki er möguleiki á framlengingu. Fyrir liggi að kærandi hafi frá þeim tíma er matið hafi verið unnið framlengt leigusamning um ár.

Stig vegna félagslegs vanda umsækjenda séu metin út frá umfangi vanda og séu gefin 0, 1, 2, 4 eða 6 stig. Félagslegur vandi kæranda hafi verið metinn til 2ja stiga og falli undir matsviðmiðið; umsækjandi glímir við félagslegan vanda sem hefur hamlað því að hann hafi sótt þá þjónustu sem í boði er. Til þess að hljóta fleiri stig vegna félagslegs vanda, þ.e. 4 stig samkvæmt matsviðmiðum, þurfi félagslegar aðstæður kæranda að vera metnar þannig að hann glími við fjölþættan vanda sem hafi afgerandi áhrif á húsnæðisstöðu og/eða færni hans til að leigja á almennum markaði, þrátt fyrir stuðning félagsþjónustu eða annarra viðurkenndra aðila. Við mat á því hvort umsækjandi eigi við fjölþættan félagslegan vanda að stríða hafi þau viðmið mótast í framkvæmd að til fjölþætts vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni og framtaksleysi. Með fjölþættum vanda sé einnig átt við að einstaklingur hafi verið að fá þjónustu frá þjónustumiðstöð og einnig frá öðrum viðurkenndum þjónustuaðilum og umtalsverðar líkur séu á að hann þurfi á þeirri þjónustu að halda áfram. Það eigi ekki við um stöðu kæranda og því sé ekki unnt að veita fleiri stig hvað þann þátt varði.

Reykjavíkurborg bendir á að með notkun matsblaðs sé leitast við að gæta jafnræðis meðal umsækjenda og veita þeim stig á grundvelli atriða sem séu nánar tilgreind í matsblaðinu og stigagjöf taki mið af aðstæðum viðkomandi. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því talið að staðfesta bæri niðurstöðu þjónustumiðstöðvar um 6 stig samkvæmt matsviðmiðum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og þar með synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Þá hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að ekki væri ástæða til að breyta fyrirliggjandi stigagjöf þjónustumiðstöðvar með vísan til aðstæðna kæranda og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar á grundvelli stigagjafar, sbr. e-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Að mati Reykjavíkurborgar hafi hin kærða ákvörðun hvorki brotið gegn framangreindum reglum né lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 64. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt e-lið 4. gr. skulu umsóknir metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal nr. 1 með reglunum. Við lok mats eru reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skal umsækjandi vera metinn að lágmarki til níu stiga þegar um er að ræða einstakling líkt og á við í tilviki kæranda. Sumir þættir matsviðmiðsins eru ekki háðir mati, eins og staða umsækjanda, tekjur og börn á heimili umsækjanda. Kærandi fékk tvö stig samanlagt fyrir þá þætti og gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við það. Aðrir þættir eru háðir mati, svo sem húsnæðisstaða, sérstakar aðstæður barna og félagslegur vandi umsækjanda. Húsnæðisstaða kæranda var réttilega metin til tveggja stiga og félagslegur vandi kæranda var einnig metinn til tveggja stiga sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins sem gefa fleiri stig eigi ekki við um aðstæður hans.

Samkvæmt framangreindu var umsókn kæranda metin til sex stiga og uppfyllti hann því ekki skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. nóvember 2020, um að synja umsókn A um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum