Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 4/2022

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 4/2022

 

 

Þriðjudaginn 1. febrúar 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 16. júlí 2021, sem barst heilbrigðisráðuneytinu þann 3. ágúst sama ár, kærði […] (hér eftir kærandi), málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli sem lauk með útgáfu álits, dags. 17. maí 2021. Kærandi krefst þess að heilbrigðisráðuneytið ómerki málsmeðferð landlæknis.

 

Málið er kært á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og barst kæra innan kærufrests.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins og málavextir.

Kæra í málinu var send embætti landlæknis til umsagnar. Með tölvupósti frá embætti landlæknis til ráðuneytisins, dags. 30. ágúst 2021, kom fram að embættið hygðist endurupptaka málið þar sem kæranda hefði ekki verið send umsögn óháðs sérfræðings til andmæla. Í framhaldinu aflaði embætti landlæknis frekari upplýsinga í málinu sem leiddi til þess að hætt var við endurupptöku málsins. Með bréfi, dags. 26. október 2021, gaf embættið umsögn um kæru. Kærandi gerði athugasemdir við umsögnina með bréfi, dags. 29. nóvember 2021.

 

Atvik málsins eru þau að þann 16. janúar 2019 kvartaði tiltekinn sjúklingur til embættis landlæknis vegna meintra mistaka sem hún taldi að hefðu átt sér stað þegar kærandi fjarlægði gallblöðru hennar á […] (hér eftir A) þann 15. september 2015. Við meðferð málsins leitaði embætti landlæknis til óháðs sérfræðings sem veitti umsögn þann 3. ágúst 2020. Var það faglegt álit sérfræðingsins að mistök hefðu átt sér stað við meðferð kæranda á kvartanda. Í áliti embættis landlæknis, dags. 17. maí 2021, segir að umsögnin hafi verið send kvartanda (þ.e. sjúklingi) og A með bréfum embættisins, dags. 12. ágúst 2020, og þeim boðið að koma að frekari gögnum eða athugasemdum innan þriggja vikna. Fram kemur að hvorki athugasemdir né gögn hafi borist. Niðurstaða embættis landlæknis var sú að kærandi hefði gert mistök við gallblöðrunám kvartanda, bæði í skurðaðgerðinni sem og við seinkaða greiningu á gallleka í kjölfar aðgerðarinnar. Þá taldi landlæknir að mistök hefðu leitt til seinkaðrar greiningar á kviðsliti kvartanda í febrúar 2016.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru byggir kærandi á því að meðferð málsins hafi verið haldin annmörkum. Annmarkarnir felist annars vegar í aðkomu B, yfirlæknis hjá embætti landlæknis, að áliti og niðurstöðu embættisins og hins vegar að því að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að skila inn athugasemdum við umsögn óháðs sérfræðings í málinu. Kærandi hafi áður gert athugasemdir við aðkomu B að málum hans sem hafi lotið að hlutdrægu og röngu mati B en einnig óviðeigandi framkomu og einelti í garð kæranda. Telur kærandi að B sé vanhæfur til að koma að málum sem snerta kæranda, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá byggir kærandi á því að hann hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um umsögn óháðs sérfræðings áður en embætti landlæknis gaf út álit í málinu sem brjóti gegn andmælarétti hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga.

 

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis.

Í umsögn embættis landlæknis er vísað til tölvupósts frá C, framkvæmdastjóra lækninga á A, til embættis landlæknis þann 28. september 2021. Í tölvupóstinum hafi embættið fengið afrit af svörum kæranda til A vegna kvörtunar í málinu og skýringar C á því hvers vegna frekari gögn hafi ekki verið send á kæranda. Er í kjölfarið vísað til tölvupósts frá kæranda til C, dags. 4. mars 2019, þar sem kærandi fjallar um kvörtunina í málinu. Í tölvupóstinum frá kæranda segi hann m.a. að þar sem hann starfi ekki lengur á þessari stofnun geti hann ekki séð að honum sé skylt að svara því. Þar að auki hafi A verið beðið um að svara erindinu en ekki hann persónulega. Kærandi hafi auk þess ekki aðgang að Sögukerfinu og nauðsynlegum upplýsingum um þá vinnu. Þar sem C og „[…]“ þekki vel til málsins biðji kærandi þá um að svara þessu fyrir hönd A.

 

Embætti landlæknis telur ljóst að með þessu hafi kærandi fengið kost á að nýta rétt sinn til að tjá sig um málið og komi afstaða hans eða beiðni um að aðrir læknar á A svari kvörtuninni fyrir hönd A. Vísar embætti landlæknis einnig til þess að kæranda sé kunnugt um málsmeðferð embættisins í kvörtunarmálum og hvernig staðið sé að gagnakynningu. Sé þannig ekki tilefni til að endurupptaka málið. Loks vísar embætti landlæknis málsástæðum er lúta að meintu vanhæfi B á bug, sbr. úrskurði heilbrigðisráðuneytisins nr. 19/2020 og 5/2021.

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum kæranda við umsögn embættis landlæknis er vísað til framangreindra tölvupósta. Að því er varðar tölvupóst kæranda til C, sem embætti landlæknis vísi til, kveðst kærandi ekki hafa verið í neinni aðstöðu til að skrifa þá greinargerð sem óskað hafi verið eftir. Kærandi hafi verið hættur störfum á A og ekki haft aðgang að málsgögnum, auk þess sem fleiri læknar hafi komið að málinu. Þegar svona sé ástatt sé það skylda forstöðulæknis að standa fyrir svörum. Telur kærandi að hann hafi með engu móti verið að afsala sér frekari aðkomu að málinu, hvað þá andmælarétti. Með því að hafa ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um umsögn óháðs sérfræðings hafi verið brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

 

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málshraða og málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli.

 

Í II. kafla laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um kvörtun til landlæknis í 12. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

 

Af 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er ljóst að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda eftir því sem við á um meðferð kvörtunarmála hjá embætti landlæknis, þ. á m. ákvæði 13. gr. laganna um andmælarétt. Samkvæmt ákvæðinu skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans eða slíkt sé augljóslega óþarft.

 

Gögn málsins bera með sér að eftir að kvörtun hafi borist embætti landlæknis hafi embættið óskað eftir greinargerð og gögnum frá A með bréfi, dags. 21. febrúar 2019. Þann 25. mars 2019 hafi bréf borist frá C, framkvæmdastjóra lækninga við A, en bréfinu hafi fylgt afrit af sjúkragögnum frá A auka greinargerðar D, forstöðumanns skurðlækninga við A. Liggur fyrir að í millitíðinni sendi kærandi framangreindan tölvupóst á C, eða þann 4. mars 2019, þar sem hann óskar eftir því að C og „[…]“ svari erindi landlæknis fyrir hönd A. Í áliti landlæknis kemur fram að með bréfi embættisins til kæranda, dags. 11. nóvember 2019, hafi verið óskað eftir greinargerð hans vegna málsins. Kærandi hafi svarað erindinu þann 7. desember 2019 þar sem hann greinir frá sinni hlið í málinu. Er jafnframt rakið að embætti landlæknis hafi aflað umsagnar frá óháðum sérfræðingi sem hafi legið fyrir þann 3. ágúst 2020. Í tölvupósti frá embætti landlæknis til ráðuneytisins, dags. 30. ágúst 2021, segir að embættið hafi fengið upplýsingar frá A þess efnis að umsögnin hafi ekki verið send til kæranda. Er þannig óumdeilt í málinu að kæranda fékk ekki tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn óháðs sérfræðings sem vísað er til í niðurstöðu embættis landlæknis.

 

Efni tölvupósts kæranda til C, dags. 4. mars 2021, hefur þegar verið rakið. Er það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki talið sig vera í aðstöðu til að skrifa greinargerð til embættis landlæknis á þeim tíma um kvörtun í málinu sé ekki unnt að leggja til grundvallar eða fullyrða að kærandi hafi með tölvupóstinum afsalað sér með öllu rétti til að koma að athugasemdum á seinni stigum málsins. Vísar ráðuneytið í þessu sambandi jafnframt til þess að af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi skilað greinargerð til embættis landlæknis vegna málsins þann 7. desember 2019 þar sem hann hafi komið sjónarmiðum á framfæri vegna kvörtunarinnar og þannig sýnt viðleitni til að tjá sig um málið.

 

Í athugasemdum um andmælareglu stjórnsýsluréttar í frumvarpi til stjórnsýslulaga segir að þegar aðila stjórnsýslumáls sé ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verði að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins sé almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Niðurstaða umsagnar óháðs sérfræðings í máli kæranda var sú að kærandi hefði gert mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið bendir á að umsögn frá óháðum sérfræðingi í máli á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu hefur almennt talsverða þýðingu fyrir niðurstöðu slíkra mála. Ber embætti landlæknis að tryggja að gögn sem hafa þýðingu í slíkum málum berist til málsaðila, í þessu tilviki kæranda sem þeim heilbrigðisstarfsmanni sem kvartað var undan, og að þeim verði veitt færi á að koma að athugasemdum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Eins og áður greinir liggur fyrir í málinu að kæranda var ekki veitt tækifæri til að tjá sig um umsögn óháðs sérfræðings, sem hafði að geyma upplýsingar sem voru honum í óhag, áður en embætti landlæknis gaf út álit í málinu um að hann hefði gert mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu.

 

Er það mat ráðuneytisins samkvæmt framangreindu að við meðferð málsins hjá embætti landlæknis hafi verið brotið gegn 13., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur ráðuneytið annmarkan vera þess eðlis að ekki verði bætt úr honum á æðra stjórnsýslustigi. Samkvæmt framangreindu verður málsmeðferð embættis landlæknis ómerkt og lagt fyrir embættið að taka málið til nýrrar meðferðar.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar, sem lauk með útgáfu álits dags. 17. maí 2021, er ómerkt. Lagt er fyrir embætti landlæknis að taka málið til nýrrar meðferðar.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum