Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um aflaskráningu

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 17. nóvember 2019, frá [A]. Ráða má af kæru að kærð sé til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um aflaskráningu bátsins [B].

 

Kröfur kæranda

Ráða má af kæru að kærandi krefjist þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um aflaskráningu bátsins [B] verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Skipið [B] var með grásleppuleyfi á grásleppuvertíðinni árið 2019. Við uppgjör fiskveiðiársins 2018/2019 sendi Fiskistofa kæranda bréf, dags. 17. september 2019, þar sem kom fram sú ákvörðun Fiskistofu um leiðrétta aflaskráningu að reikna 295 kg. af óslægðum fiski til aflamarks á ofangreint skip, sem var það magn sem kærandi hafði á tímabilinu farið fram yfir það hámark sem skrá mátti sem VS-afla að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þá fylgdu kæruleiðbeiningar þessari ákvörðun Fiskistofu. Ekki hefur komið til innheimtu sérstaks gjalds vegna umframafla skv. lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Stjórnsýslukæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 17. nóvember 2019, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupósti, dags. 12. apríl 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna ásamt þeim gögnum er stofnunin teldi varða málið. Umsögn Fiskistofu ásamt gögnum bárust ráðuneytinu, dags. 18. júní 2021. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Fiskistofu. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Málsástæður og sjónarmið í stjórnsýslukæru

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærandi eigi bátinn [B] og að hann mótmæli að ruglað sé saman aflamarki og grásleppuleyfi hans. Kærandi segir að hann telji sig einungis þurfa að fara eftir lögum um grásleppuveiðar, um lengd neta, fjölda neta í sjó, möskvastærðir og merkingar þeirra ásamt áætluðum dagafjölda. Kærandi segir að hann telji að hann eigi allan þann fisk sem kemur í hans net, og hann sé ekki á aflamarki á þeim tíma sem hann er við veiðar á grásleppunetum. Kærandi segir að einkaleyfi sitt virki eins og aflamarkskerfin þar sem ekki megi færa af þeim yfir á krókaaflamark og ekki frá því yfir í strandveiðikerfið. Þetta séu s.s. lokuð kerfi alveg eins og hans einkaleyfi. Kærandi segist ekki geta stjórnað því hvort þorskur eða aðrar fisktegundir komi í net sem ætluð séu til grásleppuveiða. Kærandi segir að sér sé hegnt og hann sektaður fyrir hluti sem hann geti ekki stjórnað eða komið í veg fyrir. Telur hann að um furðulega stjórnun sé að ræða þar sem reynt sé að stjórna einhverju sem ekki undir neinum mannlegum eiginleikum sé hægt að hafa stjórn á. Hann telur að á öllum sínum árum sem sjómaður hafi hann verið neyddur af Fiskistofu til að færa allan afla sem hafði komið í net við veiðar á grásleppu í sjóði, fyrst AVS sjóð um aukið verðmæti sjávarfangs og síðar í VS sjóðinn. Þá fer kærandi fram á að fá endurgreiddan allan þann afla að fullu og allar þær sektir á þeim greiðslum sem kæranda hafa borist á umfram afla. Að öðrum kosti fer hann fram á að færðar séu á hann aflaheimildir sem af honum hafa verið teknar í ofangreinda sjóði. Þá fjallar kærandi um að hann hafi heyrt að setja eigi grásleppu í aflamark og að hann krefjist þá að einkaleyfi sitt verði fébætt með fullum bótum.

 

Sjónarmið Fiskistofu

Í umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 18. júní 2021, segir að skipið [B] hafi verið með grásleppuveiðileyfi á grásleppuvertíðinni árið 2019 og að um vigtun og skráningu sjávarafla gildi reglugerð nr. 745/2016. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að allur afli skuli skráður til aflamarks á veiðiskip. Skipstjórum sé heimilt að ákveða að hluti afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess að tilteknum skilyrðum uppfylltum, skv. 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og 8. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 674/2018, um veiðar í atvinnuskyni, fiskveiðiárið 2018/2019. Um sé að ræða svokallaðan VS-afla og sé heimildin bundin við tiltekið magn sem skal aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju tímabili. Heimild til að landa VS-afla skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil. Þó má miða ýsuafla sem fæst sem meðafli eða meðafla við grásleppuveiðar, við heimild fiskveiðiársins í heild, enda sé sá afli gerður upp í lok þess, skv. c. lið 8. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 674/2018. Heimildin sé í fyrsta lagi háð því skilyrði að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn og skráður sérstaklega, en í öðru lagi að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Í 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 segi að forráðamenn uppboðsmarkaðarins skuli standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skuli útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um en 80% fara til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Segir í bréfinu að þegar Fiskistofa hafi gert upp fiskveiðiárið 2018/2019 með tilliti til ofanritaðs nam heimild skipsins til löndunar á VS-afla á tímabilinu 1.300 kg. Skráður VS-afli skipsins á sama tímabili nam 1.595 kg. eða 295 kg. umfram heimild skipsins til löndunar afla sem VS-afla. Í bréfi Fiskistofu sagði ennfremur að fari sá hluti afla sem reiknast ekki til aflamarks skips skv. ákvæðum 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 yfir 0,5% af uppsjávarafla eða 5% af öðrum sjávarafla eða ef ekki hefur verið farið að ákvæðum 10. gr. við sölu aflans, skal Fiskistofa endurreikna aflamarksstöðu skipsins þannig að sá hluti aflans skráist til aflamarks viðkomandi skips að fullu, skv. 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Segir að ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um að leiðrétta aflaskráningu skipsins byggi á framangreindum grunni og því telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Forsendur og niðurstaða

 

I.

Ákvörðun Fiskistofu um endurreiknaða aflamarksstöðu og aflaskráningu bátsins [B] er dags. 17. september 2019. Kæruheimild er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu, dags. 17. nóvember 2019. Kæran barst því innan tilskilins frests. Er málið því tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna. Málið er því tekið til efnismeðferðar.

 

II.

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Fiskistofu um að endurreikna aflamarksstöðu og aflaskráningu bátsins [B], með vísan til 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla, sbr. og 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

Í 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, segir:

Skipstjóra fiskiskips er heimilt að ákveða að hluti af afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju tímabili. Ráðherra skal binda heimild þessa við ákveðin tímabil. Heimild þessi er háð eftirfarandi skilyrðum:

    1. Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.

    2. Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

 

Nánar var kveðið á um þessi ákvæði í þágildandi reglugerð nr. 674/2018, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2018/2019. Þar segir í c. lið 8. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar:

Heimildin skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil á fiskveiðiárinu. Ekki er heimilt að flytja ónýttar heimildir milli tímabilanna. Þó má miða ýsuafla sem fæst sem meðafli eða meðafla við grásleppuveiðar, við heimild fiskveiðiársins í heild, enda sé sá afli gerður upp í lok þess.

 

Í 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, segir svo:

Sé heimild í 9. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

 

Í 1. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla, segir að reglugerðin gildi um vigtun og skráningu alls afla sem landað er hér á landi án tillits til þess hvar hann er veiddur. Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að allur afli skuli skráður til aflamarks á veiðiskip.

 

Í 2. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar segir:

Fari sá hluti afla sem reiknast ekki til aflamarks skips samkvæmt ákvæðum 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, yfir 0,5% af uppsjávarafla, eða 5% af öðrum sjávarafla eða ef ekki hefur verið farið að ákvæðum 10. gr. greinar við sölu aflans, skal Fiskistofa endurreikna aflamarksstöðu skipsins þannig að sá hluti aflans skráist til aflamarks viðkomandi skips að fullu.

 

Ráðuneytið tekur einnig fram að skv. þágildandi reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2019 nr. 236/2019 segir í 1. gr. að Fiskistofa veiti leyfi til veiða á grásleppu. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofa sjávar, að óheimilt sé að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipin hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru.

 

Það liggur fyrir í þessu máli að sá VS-afli sem skráður var umfram VS-heimild skipsins var langa, skarkoli, steinbítur en að mestu leyti þorskur. Verður skipið því að eiga eða skrá á sig aflamark fyrir slíkum meðafla sem fer fram úr heimild til skráningar VS-afla við hrognkelsaveiðar. Fiskistofu bar því að endurreikna aflamarksstöðu skipsins í lok fiskveiðiársins.

 

III.

Með vísan til alls framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu, með vísan til 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla, sbr. og 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um endurreiknaða aflamarksstöðu og aflaskráningu bátsins [B].

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum