Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 24/2010

Ár 2011, þriðjudaginn 22. febrúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í málinu nr. 24/2010 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dagsettu 7. desember 2010 kærir Sigurður Örn Sigurðarson f.h. Kristrúnar Helgu Hafþórs­dóttur, kt. 130983-4809, þá ákvörðun Seltjarnarneskaupstaðar að leggja fasteigna­skatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitar­félaga á fasteign kæranda að Eiðistorgi 17, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206-7343.

 

Hinn 15. desember 2010 óskaði yfirfast­eigna­matsnefnd eftir umsögn frá Seltjarnar­nes­kaupstað. Umsögn sveitarfélagsins, dagsett 6. janúar 2011, barst nefndinni 11. janúar 2011.

 

Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna umsagnar sveitar­félagsins og skilaði þeim 4. febrúar 2011. 

 

Yfir­fasteignamatsnefnd skoðaði eignina 25. janúar 2011. Málið var tekið til úrskurðar 9. febrúar 2011.

 

Sjónarmið kæranda.

Í kærubréfi er óskað eftir leiðréttingu á fasteignagjöldum vegna eignarinnar Eiðistorgi 17, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206-7343. Tekið er fram að eignin sé skráð sem íbúð bæði í fast­eigna­skrá og í veðbók, en krafið sé um fasteignagjöld eins og um atvinnu­húsnæði sé að ræða. Því er haldið fram að fasteignin sé innréttuð sem íbúðar­húsnæði og notuð sem slík, en standi þó auð þegar kært er.

 

Sjónarmið Seltjarnarneskaupstaðar.

Í umsögn sveitarfélagsins er vísað til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 7/2007 sem varðar sama húsnæði og hér er til meðferðar. Fullyrt er að húsnæðið hafi verið sam­þykkt sem skrifstofuhúsnæði og engar breytingar hafi orðið á skil­greiningu þess hjá sveitar­félaginu, engin formleg beiðni hafi borist sveitarfélaginu um að breyta húsnæðinu í íbúð. Í umsögninni er því haldið fram að húsnæðið sé ranglega skráð sem íbúð í fasteigna­skrá.

 

Niðurstaða.

Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði eignina 25. janúar 2011.  Af hálfu kæranda mætti Jóhanna Guðmundsdóttir og af hálfu sveitarfélagsins mættu Stefán Bjarnason og Örn Þór Halldórsson.

 

Rýmið er skráð 01 0202 á 2. hæð hússins. Það skiptist í forstofu, eldunaraðstöðu, ræsti­herbergi/snyrting og sjö herbergi. Á gólfi forstofu, gólfi og hluta veggja ræsti­herbergis/snyrtingar eru flísar. Þar er salerni, vaskur, sturta og sorplúga. Í eldunaraðstöðu er slitið parket á gólfi. Þar er bráða­birgðainnrétting án efri skápa og frístandandi eldavél. Hluti veggja eru spónaplötuklæddir timburveggir, aðrir steyptir og múraðir. Í húsnæðinu er mikil lofthæð. Loft eru almennt máluð og filtteppi á gólfum. Ljósabúnaður er hangandi flúorlampar. Ekki var rafmagn á húsnæðinu þegar vettvangsganga fór fram og ljóst að átt hafði verið við rafmagnstöflu og raflagnir án þess að þeirri vinnu væri lokið.

 

Umboðsmaður kæranda upplýsti að um árabil hafi verið rekin videóleiga í húsnæðinu. Því hafi síðar verið breytt og um tíma notað sem leiguhúsnæði fyrir útlendinga. Ekki hefur verið búið í húsnæðinu um hríð og enginn bjó þar þegar vettvangsganga fór fram.

 

Kærandi gerir þá kröfu að fasteign hans að Eiðistorgi 17, Seltjarnarnesi, verði skattlögð sem íbúðar­húsnæði skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b lið og c lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðar­hús ásamt lóðar­réttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mann­virki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðar­réttindum. Undir b lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heima­vistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fast­eignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunar­húsnæði, fiskeldis­mannvirki, veiðihús og mann­virki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

 

Álitaefni í kærumáli þessu er hvort húsnæði það sem kæran varðar skuli teljast íbúðarhús­næði í skilningi a liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitar­félaga. Hvorki í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 né í reglugerð um fast­eignaskatt nr. 1160/2005 er að finna skilgreiningu á því hvaða skilyrðum skuli uppfyllt til þess að húsnæði teljist vera íbúð í skilningi laganna. Fasteign kæranda er skráð sem íbúð í fasteignaskrá. Í eldri úrskurðum yfirfasteigna­mats­nefndar hefur verið á því byggt að raunveruleg notkun húsnæðis ráði því undir hvaða staflið 3. mgr. 3. gr. eign flokkist en ekki skráð notkun eða samþykki byggingar­yfirvalda. Hefur verið fallist á þann skilning í dómi Hæstaréttar í máli nr. 85/2006. Húsnæði kæranda var ekki notað sem íbúðarhúsnæði þegar vettvangsskoðun fór fram. Af fyrirliggjandi grunnmynd, frá september 1981, hefur húsnæðið verið hannað og byggt sem skrifstofur. Ekki eru til nýrri samþykktir uppdrættir af húsnæðinu sem sýna aðra notkun. Núverandi búnaður og frágangur húsnæðisins ber þess ekki merki að vera íbúðar­húsnæði.

 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um fasteign kæranda að Eiðistorgi 17 og notkun hennar er eigi unnt að fallast á með kæranda að eignina hafi átt að skatt­leggja sem íbúðar­húsnæði samkvæmt a-lið 3. gr. laga nr. 4/1995. Telur yfirfasteigna­matsnefnd að stað­festa beri þá ákvörðun Seltjarnarneskaupstaðar að leggja  fast­eigna­skatt á fasteignina samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. 

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Seltjarnarneskaupstaðar um að leggja fasteignaskatt á fasteignina Eiðistorg 17, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206-7343, samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Reykjavík, 22. febrúar 2011,

 

______________________________

Jón Haukur Hauksson

 

__________________________                                                        ____________________________

       Inga Hersteinsdóttir                                                                                              Ásta Þórarinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum