Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 5/2017

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 31. október 2017 í máli nr. 5/2017.
Fasteign: Þeistareykjavirkjun, Þingeyjarsveit, fnr. 233-9239.
Kæruefni: Fasteignamat.

Árið 2017, 31. október, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 5/2017 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR


Með erindi, dags. 28. apríl 2007, kærði Landsvirkjun, kt. 420269-1299, þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands að skrá og meta til fasteignamats vinnubúðir Landsvirkjunar við Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239, sem og að meta sömu vinnubúðir til brunabótamats.

Með bréfum, dags. 8. maí 2017, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögnum frá Þingeyjarsveit og Þjóðskrá Íslands, vegna kærunnar. Með bréfi, dags. 22. maí 2017, barst umsögn frá Þingeyjarsveit. Umsögnin var send kæranda 23. maí 2017 og honum gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina athugasemdum sínum við hana. Kærandi gerði athugasemdir með bréfi, dags. 21. júní 2017, sem kynntar voru Þingeyjarsveit með bréfi, dags. 22. júní 2017. Þingeyjarsveit ítrekaði fyrri sjónarmið sín í málinu með bréfi, dags. 29. júní 2017.

Með bréfi, dags. 4. júlí 2017, barst yfirfasteignanefnd umsögn Þjóðskrár Íslands vegna kærunnar. Umsögnin var send kæranda og Þingeyjarsveit þann 11. júlí 2017 og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögnina. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2017 gerði kærandi athugasemdir við umsögn Þjóðskrár Íslands.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2017, sendi Þjóðskrá Íslands til nefndarinnar umsögn í tilefni af athugasemdum kæranda við umsögn Þingeyjarsveitar í málinu. Frekari athugasemdir bárust frá Þjóðskrá Íslands með bréfi, dags. 6. september 2017.

Við meðferð málsins hjá yfirfasteignamatsnefnd óskaði nefndin eftir frekari upplýsingum vegna kærunnar bæði frá kæranda og Þjóðskrá Íslands.

Málið var tekið til úrskurðar 31. október 2017.

I. Málavextir

Málavextir eru þeir að vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Þeistareykjavirkjun fór kærandi þess á leit við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, að fá stöðuleyfi fyrir vinnubúðum á vinnubúðareitum nr. L-07 og L-08 samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Þeistareykjavirkjun. Af hálfu sveitarfélagsins var gerð krafa um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir umræddum vinnubúðum.

Með erindi, dags, 4. apríl 2012, óskaði kærandi eftir byggingarleyfi fyrir vinnubúðum verkeftirlits á reit L-07 á Þeistareykjum vegna fyrirhugaðrar aðstöðu og reksturs verkeftirlits á í tengslum við framkvæmdir á svæðinu. Í erindinu kom fram að aðstaða verkeftirlits á reit    L-07 yrði í samræmi við deiliskipulag þar væri áætluð yrði svefnaðstaða fyrir 50 starfsmenn í 28 herbergjum og 11 íbúðum, auk skrifstofuaðstöðu.

Með bréfi, dags. 29. mars 2012, til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra óskaði kærandi eftir tímabundnu starfsleyfi vegna reksturs vinnubúða að Þeistareykjum meðan á framkvæmdum stæði. Heilbrigðiseftirlitið samþykkti fyrrgreinda umsókn um tímabundið starfsleyfi.

Með umsókn, dags. 25. júní 2014, óskaði kærandi eftir byggingarleyfi fyrir vinnubúðum (II. áfanga) á reit L-08 á Þeistareykjum. Eftir útgáfu byggingarleyfis voru vinnubúðir fluttar að Þeistareykjum frá Búðarhálsvirkjun en þær höfðu áður verið í notkun við Kárahnjúkavirkjun. Vinnubúðirnar voru settar upp af Landsvirkjun til notkunar fyrir verktaka á svæðinu.

Með umsóknum um byggingarleyfi fyrir vinnubúðunum fylgdu teikningar ásamt skráningartöflu að kröfu byggingarfulltrúa. Greitt var fullt byggingarleyfisgjald vegna vinnubúðanna og þá voru skráningartöflur sendar af sveitarfélaginu til fasteignamats.

Kærandi lagði inn beiðni til Þjóðskrár Íslands 14. nóvember 2014 um fyrsta brunabótamat vegna brunatryggingar á starfsmannahúsum, skrifstofum og geymslu við Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9293. Með tilkynningu Þjóðskrár Íslands 12. desember 2014 var kæranda tilkynnt um ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat og brunabótamat á fyrrgreindum eignum, þ.e. tveimur starfsmannahúsum (matshlutar 01 og 02), skrifstofu (matshluti 03) og geymslu (matshluti 06).

Með tilkynningum Þjóðskrár Íslands, dags. 19. nóvember 2015 og 3. nóvember 2016 var kæranda tilkynnt um ákvörðun Þjóðskrár Íslands varðandi fyrsta fasteignamat og brunabótamat á tilteknum matshlutum innan Þeistareykjavirkjunar, fnr. 233-0239, þ.e. matshlutum 04 (borvatnsveituhúsi), 05 (sjúkraskýli), 07 – 09 (starfsmannahús), 10-11 (skrifstofa) og 12 (starfsmannahús).

Með tilkynningu Þjóðskrá Íslands nr. F-623, dags. 28. desember 2016, var kæranda tilkynnt um fasteignamat fyrir Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239, alls sextán matshluta (01 – 16). Var fasteignamat allra matshlutanna ákveðið samtals kr. 1.802.155.000 en þar af var lóðarmat kr. 225.100.000. Í tilkynningunni kom fram að um væri að ræða fyrsta fasteignamat vegna fasteignarinnar en ljóst er að þar var eingöngu um að ræða fyrsta fasteignamat vegna matshluta nr. 13 – 16.

Með tilkynningu Þjóðskrá Íslands nr. F-621, dags. 29. mars 2017 var kæranda tilkynnt um nýtt fasteignamat fyrir Þeistareykjavirkjun (fnr. 233-9293, landnr. 220941, matshlutar 01-16) vegna nýskráningar lóðar. Í tilkynningunni kom fram að nýtt fasteignamat eignarinnar væri kr. 1.804.405.000.- í stað þess sem áður hafði verið tilkynnt.

Með tilkynningu Þjóðskrár Íslands nr. F-622, dags. 29. mars 2017, var kæranda tilkynnt um brunabótamat fyrir Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239, (matshlutar 01 – 16). Í tilkynningunni kom fram að um væri að ræða tilkynningu um brunabótamat vegna nýskráningu lóðar. Í tilkynningunni kom fram gildandi brunabótamat fyrir hvern og einn matshluta fasteignarinnar svo og eldri brunabótamat hvers matshluta. Matshlutar fasteignarinnar tóku til starfsmannahúsa (matshlutar 01 – 02, 07 – 09, 12), skrifstofa (matshlutar 03, 10 – 11), borvatnsveituhúss (matshluti 04), sjúkraskýlis (matshluti 05), geymslu (matshluti 06), vinnubúða (matshlutar 13 – 15) og stöðvarhúss (matshluti 16).

Þann 28. apríl 2017 sendi kærandi kæru til yfirfasteignamatsnefndar þar sem hann kærði þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands að skrá og meta til fasteignamats og brunabótamats vinnubúðir kæranda að Þeistareykjavirkjun líkt og að framan greinir.

Með tölvubréfi til Þjóðskrár Íslands þann 17. október 2017 óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir upplýsingum um hvenær einstakar matshlutar Þeistareykjavirkjunar, fnr. 233-9239, hefðu verið teknir til brunabótamats og hver hefði fengið tilkynningu um það mat. Í svarbréfi Þjóðskrár Íslands þann 19. október 2017 kom fram að fyrsta brunabótamat matshluta nr. 01 – 03 og 06 hefði verið 12. desember 2014, matshlutar nr. 05, 07 – 11 hefði verið 2. október 2015, matshluti nr. 04 þann 19. nóvember 2015 og loks hefðu matshlutar nr. 13 – 15 fyrst verið teknir til brunabótamats þann 3. nóvember 2016. Í öllum tilvikum hefði kæranda verið send tilkynning um fyrsta brunabótamat fyrrgreindra matshluta eignarinnar.

Með tölvubréfi dags, dags. 17. október 2017 óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir að kærandi tilgreindi nánar þá matshluta sem kæra lyti að og hver væri eigandi þeirra. Með tölvubréfi dags. 23. sama mánaðar upplýsti kærandi að kæran lyti að vinnubúðum/starfsmannahúsum í matshlutum 01 – 03, 05, 07 – 15 sem ýmist voru skilgreind sem starfsmannahús, skrifstofa, sjúkraskýli og vinnubúðir. Þá upplýsti Landsvirkjun að matshlutar 07 – 11 og 13 – 15 væru eign aðalverktaka á svæðinu. Kærandi vekur jafnframt athygli á að frágangur vinnubúða sé mismunandi hjá kæranda annars vegar og verktaka hins vegar. Í tilviki kæranda séu vinnubúðaeiningar lagðar ofan á trébita og svo sé steypt stétt fyrir framan og aftan til að auðvelda umgengi og snjómokstur. Vinnubúðir séu því ekki á steyptri plötu eða varanlega skeytt við jörðu. Frágangur hjá verktaka sé ekki með sama móti þ.e. ekki sé steypt stétt fyrir framan né aftan vinnubúðaeiningar. Þessar einingar séu lagðar hvor ofan á aðra og séu settir upp trépallar úr brettum og stigar til að auðvelda aðgengi. Með tölvubréfi dags. 24. október var Þingeyjarsveit og Þjóðskrá Íslands gefinn kostur á að gera athugasemdir við svarbréf kæranda en engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um skráningu og mat vinnubúða að Þeistareykjum (vinnubúða, starfsmannahúsa, skrifstofu o.fl.) í fasteignamati og til brunabótamats verði felldar úr gildi.

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu í fyrsta lagi á því að ákvörðun um skráningu og mat á vinnubúðum í fasteignamati eigi sér ekki lagastoð. Með lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna hafi verið gerð breyting á fasteignahugtakinu. Samkvæmt eldri lögum, sbr. 1. gr. laga nr. 94/1976 um fasteignaskráningu og fasteignamat, töldust til fasteigna þau mannvirki, „sem við land eru tengd“.

Með lögum nr. 6/2001 hafi verið gerð breyting á fasteignahugtakinu og það skilgreint að nýju en skv. 3. gr. fyrrgreindra laga sé fasteign afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Kærandi vísar í þessu sambandi til þeirrar greinargerðar er fylgdi með frumvarpi til laga nr. 6/2001. Í greinargerðinni hafi komið fram að lögð væri til breyting frá gildandi lögum á skilgreiningu hugtaksins fasteign þar sem fyrri skilgreining hafi verið í ósamræmi við hefðbundna skilgreiningu á hugtakinu fasteign samkvæmt eignarrétti.

Kærandi bendir á að með fyrrgreindri umfjöllun í greinargerð með lögum nr. 6/2001 sé löggjafinn að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 167/1995 en þar hafi komið fram ný túlkun á fasteignahugtakinu. Í því máli hafi verið um að ræða uppboð sem fram fór á færanlegum sumarbústað sem stóð á trébitum en í málinu var meðal annars tekist á um hvort húsið væri lausafé eða fasteign. Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu að bústaðurinn hafi ekki verið skeyttur við fasteignina og því hafi verið um lausafé að ræða í skilningi eignarréttar.

Kærandi telur að vinnubúðirnar séu ekki varanlega skeyttar við jörðu heldur séu þær lagðar ofan á timburása sem séu lagðir ofan á hellur á malarfyllingu og svo stagaðir niður með vírum. Þar sem um sé að ræða færanlegar vinnubúðir sé frágangur þeirra með þeim hætti að unnt sé að flytja þær til með einföldum hætti. Vinnubúðunum sé eingöngu ætlað að standa á meðan á framkvæmdum stendur og séu starfsleyfi til að mynda tímabundin og þannig hátti til um vinnubúðir kæranda við Þeistareyki.

Kærandi vísar jafnframt til þess að með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 6/1987 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu, í samræmi við þágildandi lög nr. 94/1976 um fasteignaskráningu og fasteignamat, að vinnubúðir sem reistar voru vegna Blönduvirkjunar, skyldi skrá og meta til fasteignamats þar sem þær teldust til fasteigna vegna þess að þær væru tengdar við landið. Frá því umræddur úrskurður var kveðinn upp hafi hins vegar verið gerðar áðurnefndar lagabreytingar. Í ljósi þess telji kærandi nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort vinnubúðir skuli skráðar og metnar í fasteignamati og til brunabótamats samkvæmt núgildandi löggjöf.

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu fyrrgreindra ákvarðana Þjóðskrár Íslands jafnframt á því að vinnubúðir séu lausafé en ekki fasteign í skilningi laga. Vísar kærandi í þeim efnum til skilgreiningar á hugtakinu vinnubúðir í 78. tl. greinar 1.2.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segi að starfsmannabúðir séu færanlegt húsnæði sem ætlað sé til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi. Líkt og fram komi í fyrrgreindu ákvæði séu vinnubúðir fluttar tímabundið inn á tiltekin framkvæmdasvæði fyrir starfsfólk. Að framkvæmdatíma loknum séu þær fluttar brott vegna annarra framkvæmda eða á geymslusvæði. Telur kærandi því að ekki sé um að ræða fasteign eða byggingar sem séu varanlega skeyttar við jörðu, heldur lausafé sem standi tímabundið á viðkomandi stað.

Þá vísar kærandi til þess að í 51. tl. greinar 1.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að til mannvirkja teljist starfsmannabúðir og húsvagnar sem ætlaðir séu til dvalar í fjóra mánuði eða lengur á sama stað. Samkvæmt lögum um mannvirki nr. 120/2010 séu mannvirki byggingarleyfisskyld. Ef starfsmannabúðir og húsvagnar séu notaðir í skemmri tíma en fjóra mánuði séu þau ekki byggingaleyfisskyld samkvæmt ákvæðinu. Kærandi telur að sú staðreynd að lausafé líkt og húsvagnar og/eða starfsmannabúðir séu byggingarleyfisskyld leiði ekki sjálfkrafa til þess að um sé að ræða nýbyggingu eða fasteign sem skrá og meta eigi til fasteignamats. Áskilnaður um byggingarleyfi fyrir vinnubúðir snúi eingöngu að afnotum á slíku lausafé til lengri tíma til að tryggja að skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti, brunaöryggismál og fleira séu fyrir hendi. Slík leyfisveiting feli ekki í sér að sömu reglur eigi að gilda um skráningu og mat fasteigna.

Kærandi bendir sérstaklega á að ef um uppsetningu vinnubúða ættu að gilda sömu reglur og um nýbyggingar þá yrði að skrá og meta slíkar vinnubúðir í fasteignamati við hvern flutning og jafnvel á fjögurra mánaða fresti. Þá þyrfti einnig að greiða skipulagsgjald í hvert skipti sem slíkar vinnubúðir væru fluttar á nýjan stað. Slík framkvæmd væri hvorki í anda laganna né í samræmi við lögskýringargögn.

Kærandi telur að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að meta vinnubúðir til brunabótamats. Vísar kærandi til 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna þar sem fjallað er um vátryggingaskyldu. Í greininni sé kveðið á um skyldu húseigenda til að brunatryggja allar húseignir þ.á m. hús í smíðum. Húseignir samkvæmt reglugerðinni séu hús eða hlutar húss sem ætlaðir séu til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota og séu varanlega við landið skeytt. Þar sem vinnubúðir séu ekki varanlega skeyttar við jörðu sé ljóst að slík mannvirki falli ekki undir skilgreiningu húseignar skv. 1. gr. fyrrgreindrar reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna.

Kærandi bendir á að skv. 4. – 6. gr. áðurnefndrar reglugerðar sé fjallað um framkvæmd brunabótamats húseigna. Þar sé kveðið á um það með skýrum hætti að eingöngu húseignir skuli vera vátryggðar og metnar brunabótamati. Kærandi telur ljóst að lagaheimild skorti fyrir því að vinnubúðir/starfsmannabúðir séu metnar til brunabótamats þar sem slík mannvirki falli ekki undir það skilyrði skilgreiningar á hugtakinu húseign að vera varanlega skeytt við jörðu. Í þessu samhengi sé rétt að nefna að í sumum tilvikum geti vinnubúðir og starfsmannabúðir verið á hjólum til að auðvelda flutning þeirra síðar. Slíkar búðir séu því ekki varanlega skeyttar við land og því beri að líta á þær sem lausafé en ekki fasteign.

III. Sjónarmið Þingeyjarsveitar.

Af hálfu Þingeyjarsveitar er bent á að kærandi hafi leigusamning vegna nýtingar jarðhitans við Þeistareyki og framkvæmda sem því fylgi. Útgefin byggingarleyfi fyrir vinnubúðum sem kæra kæranda tekur til, hvíli á því að kærandi hafi eignarréttarlegar heimildir yfir svæðinu, þ.e. leiguréttindi, til jarðhitanýtingar og hvers kyns mannvirkjagerðar sem slíkri nýtingu fylgi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Þeistareyki, sé gert ráð fyrir vinnubúðum á ákveðnum byggingarreitum. Í greinargerð deiliskipulagsins sé kynnt að ekki sé um varanlegar byggingar að ræða á reitunum R7 og R8, nema vegna hluta vinnubúða á reit R-7. Vinnubúðum sé lýst sem tímabundnum byggingum en lengd þess tíma sé ekki ákveðin. Vinnubúðirnar hafi nú staðið á svæðinu í 2 – 3 ár og óvíst hversu lengi þær muni standa. Mögulegt sé að þær standi í nokkur ár til viðbótar, en það geti farið eftir framgangi framkvæmda og mögulegum viðbótarframkvæmdum á svæðinu. Þannig sé ekki útilokað að vinnubúðirnar standi í 6 - 10 ár á svæðinu. Vinnubúðirnar séu tengdar rafmagni, vatni og fráveitukerfi, þ.e. tengingu við rotþróarkerfi.

Að mati Þingeyjarsveitar er skráning og fasteignamat vinnubúðanna eðlileg og rökrétt með tilliti til eiginleika og notkunar húsanna og lagasamræmis almennt. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal skrá allar fasteignir í fasteignaskrá og skulu þar koma fram upplýsingar um mannvirki sem skeytt séu við landið. Fasteignaskráin skal m.a. vera grundvöllur mats fasteigna og húsaskrár Þjóðskrár Íslands. Vinnubúðirnar séu nú þegar notaðar til skráningar lögheimilis, þ.e. samkvæmt húsaskrá Þjóðskrár Íslands. Þá telur sveitarfélagið að ekki séu forsendur til að gagnrýna þá málsmeðferð að byggingarleyfi skuli hafi verið veitt fyrir umræddar vinnubúðir, en ekki stöðuleyfi, sbr. ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010. Samkvæmt 5. tl. 3. gr. laganna sé byggingarleyfi skriflegt leyfi byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar til að byggja hús eða önnur mannvirki, breyta þeim eða rífa, eða breyta notkun þeirra, útliti eða formi. Leyfið feli í sér samþykkt aðal- og séruppdrátta og framkvæmdaáforma, og heimild til að hefja framkvæmdir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 13. gr. Þá sé í byggingarreglugerð gerð krafa um að umsækjandi byggingarleyfis hafi m.a. heimildir frá eiganda/umráðaaðila lands til framkvæmda.

Þingeyjarsveit vekur athygli á því að þar sem vinnubúðir séu byggingarleyfisskyld mannvirki, verði þau ekki fjarlægð nema að fengnu leyfi eða heimild til niðurrifs, sbr. t.d. 16. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Byggingarleyfið feli í sér að fjallað hafi verið um eignarréttarlegar heimildir til stöðu búðanna og tæknileg atriði um frágang þeirra (tengsl) við land. Umdeildar vinnubúðir hafi því allt aðra stöðu en lausafé, sem almennt megi gera ráð fyrir að megi skilyrðislaust fjarlægja og flytja, með ákvörðun eiganda lausafjárins.

Af hálfu Þingeyjarsveitar er bent á að í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sé lýsing á því hvernig skráningarskylda fasteignaskrár skuli framkvæmd, en þar komi fram að fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá. Í b-lið fyrrgreinds lagaákvæðis sé vísað til mannvirkja sem gerð hafa verið í landi eða á eða verið við það tengt. Með þessu orðalagi sé verið að vísa til þess að mannvirki sé á landi eða við það tengt. Ekki sé tilefni til að ætla að með því að skilgreining á fasteignarhugtakinu hafi verið tekin upp í lög um skráningu og mat fasteigna hafi orðið grundvallarbreyting á því hvernig bæri að meta að mannvirki væru tengd landi. Ljóst væri að ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 í þessum efnum fæli í sér sambærilega reglur og áður giltu. Eðlilegt sé að álykta að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 6/1987 hafi ennþá fullt fordæmisgildi en þar hafi verið talið að meta ætti vinnubúðir til fasteignamats.

Krafan um tengsl mannvirkja við land sé óbreytt frá því framangreindur úrskurður yfirfasteignamatsnefndar var kveðinn upp. Með skilgreiningu á fasteignahugtakinu í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, hafi verið reynt að afmarka nánar að ekki ætti að skrá til fasteignamats húseignir sem ekki hefðu tengsl við land, þ.e. ekki eignarréttarlega heimild til þeirra staðsetningar sem það hefði í raun. Skráning eigna án eignarréttarlegra heimilda til staðsetningar eða óvissra heimilda hafi tíðkast að einhverju marki fyrir 2001. Slíkar eignir hafi ekki varanleg tengsl við land, ef þau standa í óþökk eiganda/umráðaaðila lands eða án heimildar. Í máli sem hér um ræðir sé ekki deilt um að vinnubúðirnar hafi eignarréttarlega heimild til staðsetningar á Þeistareykjum og þá hafa þær einnig heimild til þeirrar staðsetningar samkvæmt deiliskipulagi svæðisins. Af hálfu Þingeyjarsveitar er í þessu sambandi bent til hliðsjónar á dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015, sem varðaði ágreining um skyldu Þjóðskrár Íslands til að skrá vatnsréttindi sem skilin höfðu verið frá landi. Í niðurstöðu Hæstaréttar er m.a. umfjöllun um þýðingu eldri löggjafar um skráningu og mat fasteigna og áhrif lagabreytinga á árinu 2001 þegar fasteignarhugtakið var tekið upp. Vatnsréttindi voru talin skráningar- og matsskyld, m.a. með hliðsjón af orðalagi 3. gr. laganna.

Af hálfu Þingeyjarsveitar er því sérstaklega mótmælt að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 167/1995 hafi þýðingu fyrir það mál sem hér er til meðferðar. Fyrrgreint dómsmál hafi varðað sumarhús í byggingu. Taka megi undir að varla hafi verið forsendur til skráningar þess bústaðar í fasteignaskrá, enda aðstæður allt aðrar en í þessu máli. Þá er áréttað að dómar varðandi fasteignarhugtakið á sviði veðréttar eða framkvæmdar nauðungarsölu, þurfi ekki að hafa fordæmisgildi í máli varðandi skýringu á lögum um skráningu og mat fasteigna.

Þá telur Þingeyjarsveit að hvað sem líði álitaefnum um þýðingu þess að fasteignarhugtakið hafi verið tekið upp í lög um skráningu og mat fasteigna á árinu 2001 eða þýðingu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001, verði að telja að vinnubúðir sem hafi svo varanleg tengsl við land eins og í því máli sem hér um ræðir, falli undir fasteignarhugtak 1. mgr. 3. gr. laganna. Með orðalaginu varanleg tengsl í fasteignarhugtakinu sé einkum vísað til tvenns konar sjónarmiða, þ.e. annars vegar hvort eignarréttarlegar heimildir séu fyrir staðsetningu mannvirkis og hins vegar hversu varanlegur frágangur sé á tengslum mannvirkis við land. Um hið fyrrnefnda sé ekki ágreiningur í þessu máli, þar sem kærandi hafi eignarréttarlegar heimildir til að staðsetja vinnubúðir og önnur mannvirki á Þeistareykjum. Varðandi frágang vinnubúða við land, þá liggi fyrir að þær séu tengdar vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum. Undir búðunum séu jarðfastar undirstöður og búðirnar þannig varanlega festar við land. Frágangurinn sé í eðli sínu ekki frábrugðinn því sem geti átt við um aðrar léttar byggingar, s.s. sumarbústaði. Frágangurinn hvíli á útgefnu byggingarleyfi og sé eiganda búðanna ekki heimilt að fjarlægja þær nema á grundvelli byggingarleyfis til niðurrifs/flutnings.

Þingeyjarsveit telur fasteignarhugtakið fela í sér ákveðna vísireglu um það hvernig varanleiki tengsla við land skuli metinn. Við beitingu vísareglna sé mögulegt að önnur löggjöf hafi þar áhrif, m.a. löggjöf á sviði byggingar- og skipulagsmála. Núgildandi löggjöf um skipulag geri ráð fyrir að gerð skuli grein fyrir stöðu vinnubúða í skipulagi og að byggingarleyfi skuli veitt fyrir þeim. Þessi löggjöf geri ráð fyrir að fjallað sé um vinnubúðirnar með sama hætti og aðrar varanlegar byggingar.

Varhugavert sé að meta varanleika út frá tímalengd væntanlegrar staðsetningar byggingar. Í því tilviki sem hér um ræðir sé óvissa um þann tíma sem vinnubúðir verði staðsettar á núverandi stað. Ekki sé útilokað að vinnubúðirnar standi upp undir áratug enda á forræði kæranda að ákveða hvenær þær verði fluttar. Slík staða geti verið sambærileg við sumarbústað sem sé færanlegur. Byggingum verði ekki forðað frá fasteignamati á grundvelli yfirlýsinga um brottflutning í óljósri framtíð, þegar flutningur bygginga sé í raun háður ákvörðunum eiganda/umráðaaðila lands.

Þingeyjarsveit bendir vegna umfjöllunar um löggjöf um brunabótamat að mögulegt sé að skylda til brunabótamats þurfi ekki að fylgja skyldu til fasteignamats eignar, enda hvíli ákvæði um brunabótamat á sérstakri löggjöf, þ.e. lögum um brunatryggingar nr. 48/1994. Í 1. gr. þeirra laga sé þó ákvæði sem virðist benda til brunabótamatsskyldu vinnubúða af því tagi sem fjallað sé um í máli þessu.. Því til viðbótar sé út frá sjónarmiðum um lagasamræmi eðlilegt að eins fari um skyldu til fasteignamats og brunabótamats.

IV. Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

Af hálfu Þjóðskrár Íslands er bent á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lýkur eða eftir að hún hefur verið tekin í notkun og ber eigandi eignarinnar ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. laganna annast Þjóðskrá Íslands virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamatsins sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma sem virðing hennar fer fram. Skal matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem geta eyðilagst af eldi og miðast við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Nánar sé kveðið á um tilhögun brunabótamats í reglugerð um lögboðna brunatryggingu nr. 809/2000 og vísar Þjóðskrá Íslands til hennar.

Þjóðskrá Íslands bendir á að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994 geti stofnunin endurmetið skyldutryggðar húseignir þegar stofnunin sjái ástæðu til og sé það brunabótamat, eins og fyrsta brunabótamat, húseiganda að kostnaðarlausu. Húseiganda sé ætíð heimilt á sinn kostnað að óska eftir endurmati Þjóðskrár Íslands á húseign hans skv. 4 mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 6. mgr. 2. gr. sömu laga sé húseiganda sem ekki vilji una mati Þjóðskrár Íslands heimilt að vísa ágreiningi þar um til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 5. gr. fyrrgreindra laga.

Í samræmi við ofangreint hafi kærandi þann 14. nóvember 2014 óskað eftir mati vegna brunatryggingar fasteigna vegna fasteignarinnar, Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239. Í þeirri beiðni hafi komið fram að um væri að ræða fyrsta mat á starfsmannahúsum, skrifstofum og geymslu. Því hafi borið að virða húsin til brunabótamats og að því búnu að leggja skipulagsgjald á þau sem nýbyggingar og skipti þá ekki máli þótt langt sé liðið frá byggingu húsanna.

Varðandi það álitaefni hvort vinnubúðir teljist vera lausafé eða fasteign í skilningi laga vísar Þjóðskrá Íslands í fyrsta lagi til þess að kærandi hafi sjálfur sent inn beiðni þann 14. nóvember 2014 um mat vegna brunatryggingar fasteignarinnar; Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239. Í öðru lagi er vísað til þess að teikningar og önnur gögn bendi ekki til annars en að um fasteign sé að ræða. Í þriðja lagi hafi verið gerður lóðaleigusamningur um landið og þinglýst á fasteignina. Í fjórða lagi þá breyti lýsingar á því hvernig vinnubúðirnar séu festar og hvernig frágangi þeirra er háttað ekki fyrrgreindum lagaákvæðum. Samkvæmt öllu framansögðu telur Þjóðskrá Íslands að mannvirkin uppfylli skilyrði laga um að teljast fasteign.

Að auki telur Þjóðskrá Íslands augljóst að óháð öllum öðrum röksemdum hafi kærandi með beiðni sinni um mat vegna brunatryggingar fasteignarinnar með fastanúmerið 233-9239, þann 14. nóvember 2014, haft ásetning til að fá fasteign sína brunatryggða og skráða í samræmi við lög.

Þjóðskrá Íslands telur ekki mögulegt að fallast á þau rök kæranda að umræddar byggingar eigi ekki að virða til brunabóta þar sem að vinnubúðir falli ekki undir skilgreiningar á hugtakinu húseign sem sé varanlega skeytt við jörðu. Vísar stofnunin í fyrsta lagi til fyrrgreindra sjónarmiða um að vinnubúðirnar geti ekki talist vera lausafé. Í öðru lagi vísar Þjóðskrá Íslands til þess að brunabótamatið hafi farið eftir matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar, í samræmi við lög um brunatryggingar nr. 48/1994 og reglugerð nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna með síðari breytingum. Matið hafi verið gert að beiðni kæranda. Fasteign sé í lögum almennt skilgreind sem afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.

Þjóðskrá Íslands geti ekki fallist á þær röksemdir kæranda að umrædd mannvirki séu ekki varanlega skeytt við land. Það sé mat stofnunarinnar að tengsl húsanna við land séu ekki svo losaraleg að um sé að ræða lausafé. Skipti í því sambandi engu þótt húsin eigi aðeins að standa á meðan framkvæmdir á svæðinu standi yfir. Fasteignum sé ætlað að standa um tiltekinn tíma en í skilningi laga og reglna skipti tímalengdin engu máli um það, hvort greiða skuli af þeim tilskilin gjöld eða ekki. Þó svo að húsin séu reist í afmörkuðum tilgangi þá séu þau varanlega skeytt við landið og þar með talin fasteign í skilningi laga. Slík túlkun hafi til að mynda verið staðfest af yfirfasteignamatsnefnd, s.s. í máli nefndarinnar nr. 6/1987.

V. Athugasemdir kæranda við umsögn Þingeyjarsveitar

Í bréfi, dags. 21. júní 2017, kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Þingeyjarsveitar í málinu.

Kærandi mótmælir því sem fram kemur í umsögn sveitarfélagsins að skráning og fasteignamat vinnubúða að Þeistareykjum sé eðlilegt með tilliti til notkunar búðanna og lagasamræmis almennt. Vísar kærandi til fyrri umfjöllunar sinnar um fasteignahugtakið, dómafordæma og úrskurða yfirfasteignamatsnefndar sem gerð sé grein fyrir í kæru.

Kærandi hafnar því sem fram komi í umsögn Þingeyjarsveitar að hvað sem líði álitaefnum um þýðingu þess að fasteignahugtakið hafi verið tekið upp í lög um skráningu og mat fasteigna, verði að telja að vinnubúðirnar, falli undir fasteignahugtakið út frá sjónarmiðum um eignarréttarlegar heimildir fyrir staðsetningu og varanlegum frágangi. Kærandi hafi með greinargóðum hætti sýnt fram á að vinnubúðirnar séu ekki varanlega staðsettar að Þeistareykjum og séu ekki varanlega skeyttar við landið. Þeim sé ekki ætlað að standa þar til frambúðar, einungis tímabundið. Leigusamningur kæranda til nýtingar jarðhita að Þeistareykjum geti með engu móti haft áhrif á eðli lausafjár með þeim hætti að það teljist fasteign.

Kærandi mótmælir því einnig að útgáfa byggingarleyfis vegna vinnubúða leiði af sér kröfu um að vinnubúðirnar séu skráðar í fasteignaskrá og metnar til fasteignamats. Kærandi vísar til sjónarmiða sinna í kæru hvað þetta varðar, m.a. til skilgreiningar á vinnubúðum skv. 78. tl. greinar 1.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Líkt og fram komi í því ákvæði séu vinnubúðir fluttar tímabundið inn á tiltekið framkvæmdasvæði fyrir starfsfólk til svefns, matar og daglegrar dvalar í tengslum við atvinnustarfsemi. Áskilnaður um byggingarleyfi snúi eingöngu að því að tryggja að skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti og brunaöryggismál og fleira sé fyrir hendi.

Varðandi frágang vinnubúða við land þá séu vinnubúðir ekki varanlega skeyttar við jörðu eins og áður hefur verið lýst og því unnt að flytja þær til með einföldum hætti. Þá sé eðlilegt að vinnubúðir séu tengdar vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum, enda séu slíkar búðir ætlaðar til svefns, matar, daglegrar dvalar eða samkomuhalds starfsfólks, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Þá telur kærandi að sjónarmið um hversu lengi vinnubúðir megi standa vegna einstakra framkvæmda breyti ekki eðli vinnubúða úr lausafé í fasteign. Vinnubúðir séu alltaf tímabundin lausn á hýsingu starfsfólks á framkvæmdatíma og af þeim sökum beri ekki að skrá og meta slíka tímabundna íverustaði starfsmanna til fasteignamats.

Kærandi hafnar alfarið sjónarmiðum Þingeyjarsveitar um lagasamræmi vegna brunabótamats. Að mati kæranda sé ljóst að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til þess að meta vinnubúðir til brunabótamats og sé öllum óljósum sjónarmiðum um lagasamræmi hafnað sem grundvelli slíks mats. Í 1. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000 sé fjallað um vátryggingaskyldu. Í greininni segi að húseigendum sé skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseignir samkvæmt reglugerðinni séu hús eða hlutar húss sem ætlaðir séu til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota og séu varanlega við landið skeytt. Þar sem vinnubúðir séu ekki varanlega skeyttar við jörðu sé ljóst að slík mannvirki falli ekki undir skilgreiningu húseignar skv. 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna. Kærandi vísar til ítarlegrar umfjöllunar í kæru varðandi fyrrgreind atriði og ítrekar fyrri sjónarmið sín að öðru leyti.

VI. Viðbótarathugasemdir Þingeyjarsveitar.

Með bréfi, dags. 29. júní 2017, ítrekaði Þingeyjarsveit þau sjónarmið sem fram komu í umsögn sveitarfélagsins frá 22. maí 2017. Sérstaklega var vísað til umfjöllunar um það til hvers skuli litið þegar lagt er mat á það hvort mannvirki teljist varanlega skeytt við land, þ.e. bæði byggingarfræðilegir þættir og eðli lóðarréttinda.

VII. Athugasemdir kæranda við umsögn Þjóðskrár Íslands.

Í bréfi, dags. 14. ágúst 2017, kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Þjóðskrár Íslands í málinu. Telur kærandi ekkert koma fram í umsögn Þjóðskrár Íslands sem leiða eigi til þess að kröfur kæranda verði ekki teknar til greina.

Varðandi þau fjögur atriði sem Þjóðskrá Íslands vísar til í umsögn sinni við mat á því hvort vinnubúðirnar teljist til fasteignar eða lausafjár þá bendir kærandi í fyrsta lagi á að sveitarstjórn og byggingafulltrúi Þingeyjarsveitar, sem teljist til skráningarstjórnvalda samkvæmt lögum nr. 6/2001, hafi farið fram á það við starfsmenn kæranda að beiðni um skráningu og mat yrði lögð fram til Þjóðskrár Íslands. Það að stjórnvald hafi með ólögmætum hætti gert slíka kröfu leiði ekki til þess að stjórnvaldsákvörðun verði lögmæt eða öðlist lagastoð. Frumkvæði að þeirri umsókn hafi því ekki verið hjá kæranda heldur að kröfu byggingarfulltrúa.

Í öðru lagi benda fyrirliggjandi teikningar, umsóknir til byggingafulltrúa og heilbrigðiseftirlits allar til þess að um tímabundin mannvirki sé að ræða að mati kæranda. Teikningar vegna vinnubúðanna sýni með mjög skýrum hætti að ekki sé um fasteign að ræða heldur lausafé sem gert sé ráð fyrir að verði flutt af svæðinu. Sjáist það einna best þegar teikningar vegna vinnubúða séu bornar saman við teikningar fyrir önnur varanleg mannvirki á svæðinu sem ætlað er að standa þar til frambúðar.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að í umsögn Þjóðskrár Íslands sé á því byggt að lóðarleigusamningur hafi verið gerður um land og þinglýst á fasteignina. Kærandi telur að þess fullyrðing eigi ekki við rök að styðjast. Á veðbókavottorði sé eingöngu að finna yfirlýsingu um aðilaskipti vegna samruna Þeistareykja ehf. og kæranda. Þann 27. desember 2011 hafi verið gerður samningur á milli fyrirtækisins og Þingeyjarsveitar um landréttindi vegna fyrirhugaðrar virkjunar. Það svæði sem heyri undir samninginn taki til 3480 hektara og taki til alls framkvæmdasvæðisins, vega, borplana, borhola, lagna, strengja o.fl. Ekki sé því um að ræða lóðarleigusamning fyrir hefðbundinni fasteign líkt og byggt sé á af hálfu Þjóðskrár Íslands. Það eitt og sér að gerður sé lóðarleigusamningur leiði ekki til þess að lausafé breytist í fasteign. Umræddum lóðaleigusamningi, dags. 27. desember 2011, sem vísað er til sé ekki þinglýst líkt og haldið sé fram.

Í fjórða lagi bendir kærandi á að skýrt komi fram í lögum nr. 6/2001 að þau taki til mannvirkja en ekki lausafjár. Hvað varðar brunabótamat sé einnig mjög skýrt að slíkt mat eigi eingöngu við mannvirki sem séu varanlega skeytt við jörðu. Það sé því vandséð að mati kæranda hvernig unnt sé að horfa fram hjá því hvernig vinnubúðir séu festar við jörðu eða frágangur þeirra sé að öðru leyti.

Kærandi telur samkvæmt framansögðu ljóst að ákvörðun Þjóðskrár Íslands sé haldin verulegum annmörkum þar sem lagðar hafi verið til grundvallar upplýsingar og forsendur sem eigi sér ekki stoð eða séu rangar. Þá hafi Þjóðskrá Íslands jafnframt alfarið horft framhjá því við ákvörðun sína að greina hvort um væri að ræða lausafé eða fasteign, líkt og áskilnaður sé um í lögum og því beri að ógilda ákvörðun Þjóðskrár Íslands.

VIII. Viðbótarathugasemdir Þjóðskrár Íslands.

Með bréfum Þjóðskrár Íslands, dags. 14. ágúst 2017 og 6. september 2017, kom stofnunin á framfæri frekari athugasemdum sínum vegna málsins.

Þjóðskrá Íslands fellst ekki á þá túlkun kæranda að mannvirkin séu ekki varanlega staðsett að Þeistareykjum og bendir á að þau séu fest við landið og tengd vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum enda séu slíkar búðir ætlaðar til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þá geri lög ekki ráð fyrir öðru en að mannvirki séu varanlega skeytt við landið og sem slík verði mannvirki tengd fyrrgreindum veitum. Líkt og kærandi bendi á hafi verið gerður tímabundinn leigusamningur fyrir lóð undir mannvirkin eins og gert sé um aðrar fasteignir.

Þá vísar Þjóðskrá Íslands ennfremur til þess að starfsmenn með aðstöðu í vinnubúðunum hafi fengið lögheimili sitt skráð í vinnubúðunum sem styrkir það sjónarmið að mannvirkin séu varanlega, eða a.m.k. til ófyrirséðs tíma varanlega við landið skeytt.

Telur Þjóðskrá Íslands allan málatilbúnað kæranda snúa að því að mannvirkjunum hafi verið komið fyrir tímabundið. Telji kærandi þar af leiðandi að skyldur sem á hann séu lagðar vegna mannvirkjanna ekki eiga við um sig sem aftur eigi að leiða til þess að kæranda beri ekki að greiða lögbundin gjöld af mannvirkjunum. Í athugasemdum sínum telji kærandi hins vegar ekkert nema eðlilegt að vinnubúðirnar séu tengdar vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum.

Þjóðskrá Íslands telur ljóst að röksemdir kæranda þess efnis að hann eigi að geta skráð mannvirki sem og notið allra réttinda sem fylgja skráningu mannvirkisins, svo sem vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum, án þess að greiða lögmæt gjöld fyrir samræmist ekki lögum og reglum. Máli sínu til stuðnings vísar Þjóðskrá Íslands til þess að lög geri ekki ráð fyrir tímabundnum fasteignum enda fylgja skráningu fasteignar ýmis réttindi sem leiði til kostnaðar fyrir sveitarfélagið. Þá bendir Þjóðskrá Íslands á að þegar notkun vinnubúðanna sé lokið sé kæranda í lófa lagið að fá mannvirkin afskráð sem leiði til þess að greiðsluskylda falli niður.

Af hálfu Þjóðskrár Íslands er bent á að í lagalegum skilningi séu ekki til tímabundnar fasteignir né mannvirki. Beiðni kæranda frá 14. nóvember 2014 um mat vegna brunatryggingar fasteignarinnar, með fastanúmerið 233-9239, sé beiðni um mat á fasteign en ekki um tímabundna fasteign. Að mati Þjóðskrár Íslands verður ekki horft framhjá því að kærandi hafi með fyrrgreindri beiðni sinni haft ásetning til að fá fasteign sína brunatryggða og skráða í samræmi við lög þar um. Hafi það verið ætlun kæranda að hafa vinnubúðirnar við Þeistareykjavirkjun sem lausafé hefði sveitarfélaginu ekki verið skylt að tengja lausafé við vatnsveitu, rafmagn og fráveitulagnir. Þá bendir stofnunin á að kærandi hafi haft talsverðan tíma til þess að óska afskráningar, hafi verið um mistök eða misskilning að ræða, þegar að beiðni var send Þjóðskrá Íslands eða ef um var að ræða ólögmæta nauðung af hálfu sveitastjórnar og byggingafulltrúa Þingeyjarsveitar.

Vegna staðhæfingar kæranda um að fullyrðing Þjóðskrár Íslands um að leigusamningi hafi verið þinglýst á fasteignina eigi ekki við rök að styðjast bendir stofnunin á þinglýst skjal, númer 425-F-000914/2014, á fasteigninni Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239 þar sem í skýringum segi; „Yfirlýsing um aðilaskipti á lóðarleigusamningi, innfærð sem lóðarleigusamningur, þar sem Landsvirkjun tekur við réttindum fyrri lóðarleiguhafa skv. skjali nr. 425-F-000454/2012“.

Þjóðskrá Íslands byggir á því að skeyting vinnubúðanna teljist varanleg og vísar máli sínu til stuðnings til niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 6/1987 þar sem ágreiningur var um hvort greiða skyldi fasteignaskatt af vinnubúðum við Blönduvirkjun. Í því máli var talið að tengsl mannvirkjanna við landið væru ekki það losaraleg, að þau yrðu talin til lausafjár en ekki fasteignar í skilningi þágildandi laga nr. 94/1976 og reglugerðar nr. 406/1978. Lýsing á festingu og frágangi vinnubúða við Þeistareykjavirkjun bendi til að þær hafi verið sambærilegar og í fyrrgreindu máli frá árinu 1987. Af þessum sökum geti Þjóðskrá Íslands ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að umrædd mannvirki séu ekki varanlega skeytt við land. Tengsl húsanna við land séu ekki svo losaraleg að um sé að ræða lausafé og skiptir það engu máli þótt húsin eigi aðeins að standa á meðan framkvæmdir á svæðinu standa yfir. Fasteignum sé ætlað að standa um tiltekinn tíma en í skilningi laga og reglna skipti tímalengdin engu máli um það, hvort greiða skuli af þeim tilskilin gjöld eða ekki. Þó svo að húsin séu reist í afmörkuðum tilgangi þá séu þau varanlega skeytt við landið og þar með talin fasteign í skilningi laga.

IX. Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal Þjóðskrá Íslands hlutast til um að allar nýjar eða breyttar eignir, sem upplýsingar berast um samkvæmt 19. gr. sömu laga, skuli metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar um þær berast Þjóðskrá Íslands nema sérstakar ástæður hamli. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal nýtt matsverð skráð í fasteignaskrá og gildir það með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati.

Í 1. mgr. 31. gr. laganna kemur fram að aðili, sem verulega hagsmuni geti átt í matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr., geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Krafa um slíkt endurmat skal vera skrifleg og studd rökum og nauðsynlegum gögnum. Samkvæmt 3. mgr. 31. gr. áðurnefndra laga gilda ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga ekki við meðferð mála samkvæmt 30. og 31. gr. laganna, en eiganda skal tilkynnt um nýtt eða breytt fasteignamat. Sætti eigandi sig ekki við ákvörðun fasteignamats getur hann gert skriflega og rökstudda kröfu um endurupptöku málsins innan eins mánaðar frá tilkynningu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 32. gr. a. laganna er fjallað um árlegt endurmat allra skráðra fasteigna en þar kemur fram að Þjóðskrá Íslands skuli endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skal það verð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember ár hvert skulu taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs. Þjóðskrá Íslands skal eigi síðar en í júní ár hvert gera viðkomandi sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a laga nr. 6/2001 sem þá tekur gildi næsta 31. desember.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 geta hagsmunaaðilar kært niðurstöðu endurmats samkvæmt 1. mgr. 31. gr. sömu laga til yfirfasteignamatsnefndar. Með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 6/2001 með lögum nr. 83/2008 var lögfest að eigandi fasteignar hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum um endurmat matsverðs til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig sæta allar ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um endurmat hvort heldur um er að ræða endurmat samkvæmt 1. mgr. 31. gr. eða 1. mgr. 32. gr. a laga nr. 6/2001, kæru til yfirfasteignamatsnefndar samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga.

Með bréfi, dags. 3. nóvember 2016 fékk kærandi tilkynningu um nýtt fasteignamat og brunabótamat fyrir fasteignina; Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239. Með hliðsjón af fyrri tilkynningum Þjóðskrár Íslands varðandi fasteignamat og brunabótamat eignarinnar mátti ráða að um frummat var að ræða varðandi matshluta nr. 13 – 15 þar sem matshlutar nr. 01 – 12 höfðu á árum áður verið teknir til fasteigna- og brunabótamats. Í tilkynningunni kom fram að hægt væri að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan 14 daga í samræmi við ákvæði 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá væri hægt að beiðast endurupptöku á ákvörðuninni innan eins mánaðar. Þá var jafnframt vakin athygli á því að hægt væri að kæra ákvörðun Þjóðskrár Íslands um brunabótamat til yfirfasteignamatsnefndar innan þriggja mánaða sbr. 27. gr. laga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 28. desember 2016 fékk kærandi aðra tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands um fasteignamat ársins 2017 fyrir fasteignina; Þeistareykjavirkjun, starfsmannahús, fnr. 233-9239 (tilkynning nr. F-623). Í tilkynningunni kom fram að um væri að ræða fyrsta fasteignamat sem tæki gildi 31. desember 2016. Fasteignamat eignarinnar var ákveðið kr. 1.802.155.000.- en þar af var lóðarmat kr. 225.100.000,-. Í áðurnefndri tilkynningu kom fram að hægt væri að koma á framfæri við Þjóðskrá Íslands athugasemdum við fasteignamatið innan mánaðar frá dagsetningu tilkynningarinnar, sbr. 32. gr. a laga nr. 6/2001. Þá var jafnframt tekið fram að hægt væri að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan 14 daga frá tilkynningu hennar sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þann 29. mars 2017 fékk kærandi enn eina tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands vegna fasteignarinnar; Þeistareykjavirkjun, starfsmannahús, fastanúmer 233-9239 (tilkynning nr. F-621). Í þeirri tilkynningu kom fram að um væri að ræða nýtt fasteignamat vegna nýskráningar lóðar. Heildarfasteignamat eignarinnar var nú tilgreint kr. 1.804.405.000.- en lóðarmat eignarinnar var óbreytt frá fyrri tilkynningu, þ.e. kr. 225.100.000,-. Í tilkynningunni kom fram að hægt væri að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan 14 daga í samræmi við ákvæði 21. gr. stjórnsýslulaga. Þá var einnig tekið fram að hægt væri að óska eftir endurmati í samræmi við ákvæði 31. gr. laga nr. 6/2001 en slík beiðni þyrfti að berast Þjóðskrá Íslands innan eins mánaðar frá tilkynningu ákvörðunarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands var fyrrgreind tilkynning nr. F-621 frá 28. mars 2017 annars vegar tilkomin vegna nýrrar lóðar úr landnúmeri 220941 og hins vegar vegna þess að komið hafði í ljós að útreikningar á endurstofnsverði matshluta nr. 01 (starfsmannahús) voru ekki réttir sem hafði það í för með sér að fasteignamat á fyrrgreindum matshluta nr. 01 hækkaði um kr. 2.250.000.- frá því sem áður hafði verið ákveðið, sbr. tilkynning Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2016, nr. F-623.

Samkvæmt fyrirliggjandi matsvottorði fyrir Þeistareykjavirkjun, fastanúmer 233-9239, dags. 31. desember 2016, eru sextán matshlutar sem tilheyra umræddu fastanúmeri. Þrír þessara matshluta taka til vinnubúða, þ.e. matshlutar nr. 13 – 15, (vinnubúðir III – V) en þessir þrír matshlutar voru fyrst skráðir í fasteignaskrá og metnir til fasteignamats 3. nóvember 2016, sbr. tilkynning Þjóðskrár Íslands til kæranda þann dag. Kæranda var síðan tilkynnt um nýtt heildarmat fasteignarinnar með tilkynningu þann 28. desember 2016. Aðrir matshlutar viðkomandi fastanúmers, þ.e. nr. 01 – 12, höfðu hins vegar verið skráðir í fasteignaskrá og metnir til fasteignamats áður, þ.e. árunum 2014 – 2015.

Í kæru er gerð sú krafa að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að skrá og meta vinnubúðir að Þeistareykjavirkjun til fasteignamats og brunabótamats verði felld úr gildi. Vísar kærandi í kæru sinni í þessu sambandi til matshluta nr. 13, 14 og 15 innan fyrrgreinds fastanúmers, nr. 233-9239, þar sem skráðar eru vinnubúðir nr. III, IV og V. Lýsing í málsástæðukafla kærunnar á frágangi vinnubúðanna og tengingu þeirra við landið kemur heim og saman við þessa matshluta.

Í tölvubréfi Landsvirkjunar dags. 23. október 2017 kemur fram að kæran nái einnig til matshluta nr. 01 – 03, 05, og 07 – 12. Þar sem ekki verður ráðið af kæru, dags. 28. apríl 2017, að kærð hafi verið ákvörðun Þjóðskrár um fasteignamat og brunabótamat annarra matshluta en nr. 13, 14 og 15 verður í máli þess aðeins tekin afstaða til ákvörðunar Þjóðskrár Íslands hvað varðar þá matshluta.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki annað ráðið en að fyrrgreindar tilkynningar Þjóðskrár Íslands frá 3. nóvember 2016 og 28. desember 2016 hafi verið tilkynningar um frummat á matshlutum nr. 13, 14, 15 samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að kærandi hafi óskað eftir endurmati samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 á fyrrgreindum matshlutum innan fastanúmersins 233-9239; Þeistareykjavirkjun, sbr. matsvottorð Þjóðskrár Íslands, dags. 3. nóvember 2016. (Tilkynning um nýtt fasteignamat og brunabótamat). Fyrrgreind ákvörðun Þjóðskrár Íslands varðandi áðurnefnda matshluta eignarinnar telst því vera frummat viðkomandi matshluta samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001.

Kærandi hefur í kæru sinni vísað til þess að líta beri á tilkynningu Þjóðskrár Íslands frá 29. mars 2017 sem bar yfirskriftina; Tilkynning um nýtt fasteignamat vegna nýskráningar lóðar (tilkynning nr. F-621) sé endurmat á fyrsta mati. Ekki er hægt að fallast á þær röksemdir enda getur sú ákvörðun hvorki talist endurmat á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001, sem grundvallast ætíð á sérstakri beiðni hagsmunaaðila um endurmat eignar, né árlegt endurmat viðkomandi eignar á grundvelli 32. gr. a sömu laga.

Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um frummat eigna samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 sæta ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar. Fyrrgreindar ákvarðanir Þjóðskrár Íslands varðandi frummat fyrrgreindra matshluta nr. 13, 14 og 15 sæta því ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar og koma ekki til endurskoðunar af hálfu nefndarinnar. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa þeim hluta kæru kæranda frá yfirfasteignamatsnefnd sem snýr að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að skrá og meta vinnubúðir samkvæmt matshlutum nr. 13, 14 og 15 að Þeistareykjavirkjun, Þingeyjarsveit, fastanúmer 233-9239 til fasteignamats.

II.

Kærandi gerir jafnframt kröfu um að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að meta vinnubúðir kæranda að Þeistareykjavirkjun, þ. e. sömu matshluta, til brunabótamats verði felld úr gildi og byggir á því að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að meta vinnubúðirnar til brunabótamats og vísar í því sambandi m.a. til 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar er húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir. Í lagaákvæðinu er sérstaklega tilgreint að húseignir samkvæmt lögunum séu hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota. Þá er eigendum jafnframt skylt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar að brunatryggja hús í smíðum meðan á smíðatíma þeirra stendur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994 skal Þjóðskrá Íslands annast virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og er heiti þeirrar virðingar kallað brunabótamat. Ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga gilda ekki um meðferð mála um ákvörðun brunabótamats en senda skal eiganda tilkynningu um nýtt og breytt brunabótamat. Sætti eigandi sig ekki við ákvörðun brunabótamats getur hann gert skriflega og rökstudda kröfu um endurupptöku málsins innan mánaðar frá tilkynningu ákvörðunar sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar. Samkvæmt 6. mgr. 2. gr. sbr. 5. gr. laganna er húseiganda eða vátryggingafélagi sem ekki vill una mati heimilt að vísa ágreiningi þar um til yfirfasteignamatsnefndar.

Ljóst er af ákvæði 1. mgr. 1. gr. og 6. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar, að heimild til að skjóta ágreiningi um brunabótamat húseigna til yfirfasteignamatsnefndar er bundin við húseiganda eða vátryggingarfélag. Kærandi hefur upplýst að hann sé ekki eigandi matshluta nr. 13 – 15 að Þeistareykjavirkjun, fnr. 233-9239. Þeim hluta kæru kæranda er varðar ákvörðun á brunabótamati fyrrgreindra matshluta er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd enda liggur ekki fyrir í málinu að kærandi hafi umboð eigenda fyrrgreinda húseigna til að kæra ákvörðun Þjóðskrár Íslands varðandi brunabótamat þeirra til yfirfasteignamatsnefndar.

Úrskurðarorð

Kæru Landsvirkjunar, dags. 28. apríl 2017, vegna þeirrar ákvörðunar Þjóðskrár Íslands að skrá og meta vinnubúðir að Þeistareykjavirkjun, Þingeyjarsveit, fastanúmer 233-9239, matshluta nr. 13, 14 og 15 til fasteignamats og brunabótamats er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

  

__________________________________

Valtýr Sigurðsson

  

 ______________________________           ________________________________

Ásgeir Jónsson                                     Björn Jóhannesson 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum