Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 442/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 442/2020

Miðvikudaginn 20. janúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. september 2020, kærði B lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn barnsföður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 1. júlí 2019. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 27. júlí 2020, sótti barnsfaðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 1. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. ágúst 2020, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsföður hennar frá 1. júlí 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. september 2020. Með bréfi, dags. 21. september 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. október 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. október 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 19. október 2020, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 21. október 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 24. ágúst 2020 þar sem kæranda sé gert að greiða meðlag með syni sínum afturvirkt frá 1. júlí 2019, verði felld úr gildi, og að meðlagsskylda kæranda miðist við það tímamark er krafa barnsföður um greiðslu meðlags var lögð fram.

Kærandi telji ákvörðun Tryggingastofnunar vera ólögmæta þar sem skorti grundvöll og skilyrði til að kveða á um afturvirkar meðlagsgreiðslur. Þá hafi verið brotið gegn andmælarétti kæranda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem stjórnvaldið hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. laganna, sbr. 63. gr. laga um almannatryggingar og  3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009.

Kærandi bendi á að henni hafi ekki verið kunnugt um framkomna meðlagskröfu barnsföður síns, og að beiðni hans stangist á við samkomulag sem foreldrarnir hafi gert með sér þegar kærandi hafi samþykkt að greiða einfalt meðlag með syni sínum frá 1. september 2017, en kærandi hafi fullnægt meðlagsskyldu sinni að fullu fyrir umrætt tímabil með fjárgreiðslum.

Kærandi bendi á að stjórnvöld hafi ekki uppfyllt skyldubundna rannsóknarskyldu sína áður en ákvörðunin hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en fullt tilefni hafi verið til þess þegar horft sé til þess að meðlagsskylda umbjóðanda kæranda hafi varað í tæp þrjú ár þegar barnsfaðir hennar hafi lagt fram beiðnina og krafist þess jafnframt að kæranda yrði gert að greiða meðlag afturvirkt um eitt ár. Hafi það, að mati kæranda, gefið stjórnvöldum fullt tilefni til að kanna nánar hvort og þá á hvern hátt kærandi hafi fullnægt skyldu sinni fyrir þann tíma. Jafnframt að tilkynna kæranda um framkomna beiðni svo að hún gæti komið fram athugasemdum sínum og gögnum sem kynnu að hafa áhrif á greiðsluskyldu aftur í tímann, en slíkt hafi stjórnvaldinu borið að gera samkvæmt 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Brot á þessari skyldu leiði óhjákvæmilega til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga sé stjórnvöldum rétt og skylt að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Tryggingastofnun hafi borið skylda til þess að ganga úr skugga um að þær upplýsingar sem hafi legið að baki ákvörðuninni hafi verið réttar. Um sé að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem varði mikilsverða hagsmuni kæranda. Því sé það óforsvaranlegt að ekki hafi verið gengið úr skugga um að málið væri nægilega upplýst áður en ákvörðun um greiðsluskyldu kæranda hafi verið tekin.

Kærandi hafi ávallt sinnt meðlagsskyldu sinni af kostgæfni með því að millifæra beint inn á reikning sonar þeirra fjármuni til framfærslu, en sá háttur hafi verið hafður á samkvæmt samkomulagi kæranda og barnsföður.

Á tímabilinu júli 2019 til júlí 2020 hafi kærandi greitt alls kr. 608.290 inn á reikning sonarins, sbr. meðfylgjandi gögn. Nemi þessi fjárhæð 50.707 að meðaltali á mánuði síðastliðna 12 mánuði. Ásamt meðlagsskyldu sinni hafi kærandi auk þess borið kostnað af ýmsum öðrum útgjöldum tengdum syni þeirra og vísist frekar til fylgigagna. Kærandi hafi meðal annars greitt kr. 162.296 þann 6. ágúst 2020 fyrir bílpróf drengsins. Hafi þessi framkvæmd á meðlagsskyldu kæranda haldist óbreytt frá september 2017 og hafi kærandi gögn um greiðslur frá fyrri tíma er staðfesti þessa framkvæmd, sé þess óskað.

Nú þremur árum seinna fái kærandi kröfu, dags. 24. ágúst 2020, um greiðslu meðlags eitt ár aftur í tímann, frá 1. júlí 2019. Kærandi gagnrýni þessi vinnubrögð Tryggingastofnunar og telji það ekki styðjast við nein rök að henni sé gert að greiða meðlag frá 1. júlí 2019 þegar fyrir liggi að kærandi hafi staðið við sínar skuldbindingar og gott betur.

Beiðni barnsföður sé sett fram gegn betri vitund um að kærandi hafi allt frá þeim tíma er meðlagsskylda kæranda hófst greitt verulegar fjárhæðir til að fullnægja skyldu sinni, auk þess sem kærandi hafi greitt til viðbótar háar fjárhæðir er tengist framfærslu drengsins.

Fyrirkomulag greiðslnanna hafi þannig verið í samræmi við samning foreldranna og hafi farið athugasemdalaust fram með þessum hætti frá staðfestingu samningsins þann 16. ágúst 2017. Vegna síðbúinnar kröfu barnsföður og að teknu tilliti til framkominna gagna telji kærandi að það standi nú upp á hann að greina á hvern hátt kærandi hafi ekki fullnægt skyldu sinni og að ekki hafi komið fram athugasemdir frá honum um framkvæmd skyldu.

Þá telji kærandi að ekki sé fullnægt lagaskilyrðum til að kveða á um greiðslu meðlags afturvirkt um 12 mánuði. Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2007 sé kveðið á um þá meginreglu að sé meðlagsákvörðun eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn hafi borist, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Kærandi byggi á því að slíkar sérstakar ástæður séu ekki fyrir hendi, en túlka verði þessa heimild þröngt eðli málsins samkvæmt þar sem um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Í reglugerðinni um sérstakar aðstæður sé vísað til þess að slíkt kunni að eiga við ef meðlagsmóttakanda hafi af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar. Meðlagsmóttakanda hafi borið að setja fram kröfu sína sem hann hafi ekki gert og kæranda sé ekki kunnugt um að einhverjar sérstakar ástæður hafi valdið því að barnsfaðir hennar hafi beðið í nærfellt þrjú ár með að setja fram kröfuna, aðra en þá að kærandi hafi á umræddu tímabili fullnægt meðlagsskyldu sinni og krafa barnsföður því tilefnislaus.

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi ljóst að Tryggingastofnun hafi ekki gætt að lögbundnum skilyrðum laga. Ákvörðun Tryggingastofnunar að samþykkja umsókn barnsföður kæranda sé í andstöðu við áðurnefnd lagaákvæði og meginreglu stjórnsýslulaga um lögmæti og réttmæti stjórnvaldsákvarðana og þannig hafi verið brotið á rétti kæranda.

Þá leiði framkomin gögn og upplýsingar til þess að ekki verði fallist á afturvirkar meðlagsgreiðslur þar sem lagaskilyrði skorti til að fallast á umrætt heimildarákvæði og þess að kærandi hafi sannanlega fullnægt framfærsluskyldu sinni við son sinn og í raun greitt umfram skyldu og skuldi þar af leiðandi ekki meðlag aftur í tímann.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 19. október 2020, kemur fram að kærandi sé ósammála því mati Tryggingastofnunar að heimildarákvæði í 4. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 verði beitt, óháð því hvort meðlagsskyldur aðili hafi fullnægt framfærsluskyldu sinni eða ekki á því tímabili sem beiðni barnsföður taki til og varði meðlag aftur í tímann.

Um undantekningu sé að ræða frá ákvæðum barnalaga um að meðlag greiðist mánaðarlega fyrir fram og beri því að túlka þröngt og meðlagsskyldum aðila í hag. Kærandi byggi þó einnig á því að í barnalögum sé hvergi vikið að afturvirkri greiðsluábyrgð meðlagsskylds aðila og því skorti Tryggingastofnun heimild til að kveða á um slíkt. Aðili sem telji að meðlagsskylt foreldri hafi ekki fullnægt skyldu sinni beri sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni og ljóst að greiðsluskylda sé háð því að meðlagsskylt foreldri hafi ekki greitt umsamið meðlag. Geti Tryggingastofnun ekki vikist undan þessum skilyrðum þar sem þau byggi á rétti þess aðila sem telji sig eiga fjárkröfu á hendur meðlagsskyldu foreldri. Virðist sem Tryggingastofnun telji að beiting 63. gr. laga nr. 100/2007 þurfi ekki að taka mið af þeim lögum, þ.e. barnalögum sem meðlagsskyldan og meðlagsgreiðslan grundvallist á. Það hvort barnsfaðir í þessu tilfelli óski eftir milligöngu Tryggingastofnunar eða reki sjálfur mál gegn meðlagsskyldu foreldri, breyti engu um það skilyrði að meðlag verði að teljast ógreitt svo að lögvarin fjárkrafa stofnist á hendur kæranda í þessu tilfelli.

Kærandi leggi áherslu á að um heimildarákvæði sé að ræða sem feli í sér þá sjálfsögðu kröfu að hægt sé, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að beita heimildinni eins og rakið sé hér að framan. Slíkt eigi vissulega ekki við, hafi til dæmis meðlagsskyldur aðili fullnægt framfærsluskyldu sinni, því að ella fæli greiðslan í sér að framfærsluskyldur aðili fengi borgað tvisvar sinnum fyrir sama framfærslutímabil. Ljóst sé að lagaákvæðinu hafi verið ætlað að girða fyrir slíkt háttalag og litist ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 vissulega af þessu sjónarmiði. Jafnvel þó að þessi skilyrði komi ekki fram með beinu orðalagi í lagaákvæðinu þá þurfi ekki að velkjast í vafa um að skilyrði til að greiða meðlag aftur í tímann grundvallist á því að meðlagsskyldur aðili hafi ekki fullnægt skyldu sinni, ella væri ekki um gilda fjárkröfu að ræða, hvort heldur samkvæmt almennum reglum kröfuréttar eða barnaréttar. Þannig hátti ekki til í þessu máli og hafi Tryggingastofnun því ekki heimild til að fella á kæranda greiðsluskyldu vegna meðlags nema leitt sé í ljós að hún hafi ekki fullnægt meðlagsskyldu sinni og þar með ekki framfærsluskyldu sinni með barninu samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003.

Telji Tryggingastofnun sig hins vegar bundna af þessu lagaákvæði og það gefi ekki svigrúm til mats á skilyrðum fyrir meðlagsgreiðslum, þrátt fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða, byggi kærandi á því að hún verði ekki gerð ábyrg fyrir slíkri greiðslu og hún sé því alfarið á ábyrgð Tryggingastofnunar.

Þá leiði almennar reglur stjórnsýsluréttarins um meðalhóf og góða stjórnsýsluhætti og þess að ákvörðunin sé mjög íþyngjandi fyrir kæranda til þess að ekki verði hægt að fallast á síðbúna beiðni barnsföður, standi önnur skilyrði ekki til þess. Þá leiði ákvæði laga nr. 100/2007 ekki til þess að stjórnvaldið þurfi ekki að rannsaka málið og kanna, meðal annars hvort og þá hvernig framfærsluskyldu hafi verið háttað til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Það geti vissulega ekki verið tilgangur löggjafans að framfærsluskyldur aðili skuli fá meðlag tvígreitt fyrir sama tímabil, en við beitingu heimildarákvæðisins beri stjórnvaldi einnig að gæta að hagsmunum meðlagsgreiðanda og gæta að því að hægt sé að beita heimildinni gagnvart honum þannig að bindandi sé að lögum, nema hann hafi ekki fullnægt meðlagsskyldu sinni sem sé grundvallarskilyrði fyrir afturvirkum meðlagsgreiðslum.

Þá byggi kærandi á því að við skilnað og lögskilnað hafi leyfið verið skýrlega bundið þeim skilyrðum að ef óskað væri eftir greiðslum aftur í tímann skuli gera það innan tveggja mánaða frá útgáfu leyfisbréfsins. Við þetta skilyrði séu aðilar bundnir og sem ekki hafi sætt andmælum af hálfu barnsföður. Umsókn hans sé því of seint fram komin og því skorti skilyrði til að fallast á hana hvað sem öðru líði.

Í sama leyfi komi fram að kærandi muni greiða einfalt meðlag frá 1. september 2017 og byggi kærandi mál sitt á því að hún hafi staðið við þann samning sem fram komi í leyfinu og sannað það með framlagningu gagna og því eigi barnsfaðir ekki neina lögmæta fjárkröfu á hendur kæranda byggða á leyfinu sem sé grundvöllur þess að hægt sé að fallast á afturvirka meðlagsgreiðslu. Úrskurður Tryggingastofnunar um afturvirkar meðlagsgreiðslur byggi eðli málsins samkvæmt á rétti barnsföður til meðlags fyrir sama tímabil, þannig að hafi meðlagsskyldur aðili fullnægt skyldum þeim sem fram komi í samningi þeirra á milli og leyfi til lögskilnaðar lúti að, þá eignist barnsfaðir ekki meiri rétt gagnvart meðlagsskyldum aðila en hann eigi með því einu að óska milligöngu Tryggingastofnunar um þær sömu greiðslur og hann hafi áður þegið. Þá bendi kærandi á það að samkvæmt 63. gr. barnalaga komi fram að greiða skuli meðlag mánaðarlega fyrir fram nema annað sé ákveðið. Ekkert annað hafi verið ákveðið í samkomulagi aðila og því ljóst að barnsföður beri, samkvæmt almennum reglum, að sanna að kærandi hafi ekki staðið við framfærsluskyldu sína og þannig brotið efni samningsins sem hafi varðað annað tímabil en sem nemi fyrirframgreiðslu og við það sé Tryggingastofnunar bundin. Af þeim sökum hafi kærandi fallist á að greiða meðlag fyrir milligöngu Tryggingastofnun fyrir þann tíma sem ókominn sé, en hafnað algjörlega að greiða meðlag fyrir tíma sem liðinn sé þar sem það sé uppgert. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að verða við beiðni barnsföður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hans með syni þeirra frá 1. júlí 2019.

Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 24. ágúst 2020, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsföður kæranda frá 1. júlí 2019 með syni þeirra. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsföður kæranda þann 27. júlí 2020 um meðlag frá 1. júlí 2019 og á sama tíma hafi borist leyfisbréf til lögskilnaðar, dags. 14. september 2018, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með syni sínum frá 1. september 2017 til 18 ára aldurs.

Ákvæði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveði á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. almannatryggingalaga og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. leyfisbréf til lögskilnaðar, dags. 14. september 2018, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsföður hennar. Þá liggi fyrir umsókn barnsföður kæranda um meðlag.

Með vísan til ofangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsföður kæranda frá 1. júlí 2019 eins og hann hafi óskað eftir og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru sinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar og að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna allt að 12 mánuði aftur í tímann. Í því samhengi skipti ekki máli hvort barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019 og 59/2020. Í ljósi þessa telji Tryggingastofnun að ekki hafi verið brotið á stjórnvaldsreglum eins og kærandi haldi fram í kæru sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. ágúst 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður kæranda frá 1. júlí 2019.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Í 6. mgr. 63. gr. er að finna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett með stoð í því lagaákvæði, sbr. 70. gr. laganna. Fjallað er um heimild til að greiða meðlag aftur í tímann í 7. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. er heimilt að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þá segir í 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.“

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur allt að 12 mánuði aftur í tímann, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsfaðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með syni þeirra með rafrænni umsókn þann 27. júlí 2020 frá 1. júlí 2019. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli útgáfu leyfis til lögskilnaðar frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt lögskilnaðarleyfinu ber kæranda að greiða barnsföður sínum meðlag frá 1. september til 18 ára aldurs barnsins, í samræmi við samning kæranda og barnsföður hennar frá 16. ágúst 2017.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi fullnægt meðlagsskyldu sinni að fullu fyrir tímabilið júli 2019 til júlí 2020 með fjárgreiðslum vegna sonar síns, meðal annars með greiðslum samtals að fjárhæð 608.290 inn á reikning sonar síns. Þá er byggt á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem Tryggingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Einnig er fjallað um að í barnalögum sé hvergi vikið að afturvirkri greiðsluábyrgð meðlagsskylds aðila, og því skorti Tryggingastofnun heimild til að kveða á um slíkt.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum og sama gildir um staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur. Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu leyfi til lögskilnaðar frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem kveður á um meðlagsskyldu kæranda með syni sínum til 18 ára aldurs, í samræmi við samning kæranda og barnsföður hennar. Í ljósi þess bar Tryggingastofnun að fallast á umsókn barnsföður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að greiða meðlag í samræmi við meðlagsákvörðun. Þá telur úrskurðarnefndin að ákvæði 4. mgr. 63. gr. laganna feli í sér takmörkun á greiðslu meðlags aftur í tímann, þ.e. að ekki sé heimilt að greiða meðlag lengra en tólf mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem viðeigandi gögn bárust Tryggingastofnun. Í ljósi þess og með hliðsjón af þróun lagaákvæðisins og lögskýringargögnum telur úrskurðarnefnd velferðarmála að túlka verði heimild Tryggingastofnunar til greiðslu aftur í tímann samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar á þá leið að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann í samræmi við lagaákvæðið ef meðlagsákvörðun kveður á um það, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017. Að mati nefndarinnar hafa lög ekki að geyma heimild til að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu aftur í tímann. Þá telur úrskurðarnefndin að reglugerðarheimildin í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, feli ekki í sér heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna allt að tólf mánuði aftur í tímann, þrátt fyrir að meðlagsgreiðandi geti lagt fram gögn um greiðslur til sonar síns á því tímabili sem sótt sé um, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar.

Eins og áður hefur komið fram gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð Tryggingastofnunar, nánar tiltekið að stofnunin hafi ekki veitt kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. laganna. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi farið í bága við framangreind ákvæði stjórnsýslulaga þar sem samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki þörf á að veita einstaklingi andmælarétt, sé slíkt augljóslega óþarft. Eins og greint hefur verið frá hér að framan liggur fyrir lögmæt meðlagsákvörðun og samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina í slíkum tilvikum. Að mati úrskurðarnefndarinnar lágu því fyrir fullnægjandi gögn til þess að taka ákvörðun í málinu og ekki var þörf á að afla sjónarmiða kæranda.

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að Tryggingastofnun skorti heimild í barnalögum til að kveða á um afturvirka greiðsluskyldu meðlagsskylds aðila telur úrskurðarnefndin niðurstöðu Tryggingastofnunar vera í samræmi við 67. gr. barnalaga og 63. gr. laga um almannatryggingar, eins og áður hefur verið fjallað um. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. ágúst 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður kæranda frá 1. júlí 2019.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. ágúst 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður A, frá 1. júlí 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum