Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 158/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 158/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22020036

 

Kæra […] og barns

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. febrúar 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja umsóknum hennar og barns hennar, […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir A), um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kæranda og barni hennar verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Þáverandi eiginmanni kæranda og föður A var veitt alþjóðleg vernd á Íslandi hinn 9. ágúst 2011. Í kjölfarið, hinn 9. júlí 2012, var kæranda og A veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi sem maki og barn flóttamanns á grundvelli þágildandi 4. mgr. 46. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hinn 13. ágúst 2013 barst Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar um kæranda og A frá sænsku útlendingastofnuninni á grundvelli þess að þau hefðu sótt um alþjóðlega vernd þar í landi hinn 4. desember 2012. Í kjölfarið sendi Útlendingastofnun beiðni til Þjóðskrár Íslands hinn 15. ágúst 2013 um að skrá kæranda og A úr landi. Hinn 14. desember 2016 bárust Útlendingastofnun umsóknir um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir kæranda og þrjá syni hennar, þ. á m. A og hringdi starfsmaður Útlendingastofnunar í kæranda hinn 26. maí 2017 til að frá frekari upplýsingar svo unnt væri að komast að niðurstöðu í málinu. Útlendingastofnun sendi kæranda tilkynningu hinn 8. júní 2017 um að stofnunin væri að skoða hvort tilefni væri til að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hefðu komið í símtalinu, þ.e. að hún hefði snúið aftur til heimaríkis og búið þar í tvö ár. Með ákvörðunum hinn 9. október 2017 var alþjóðleg vernd kæranda og A afturkölluð og beiðni þeirra um endurnýjun á dvalarleyfum á Íslandi jafnframt synjað. Þá var þeim einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanirnar voru kærðar til kærunefndar útlendingamála sem hinn 25. janúar 2018 felldi þær úr gildi á þeim grundvelli að á meðan fjölskyldutengsl þau sem kveðið væri um í 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga væru enn til staðar væri grundvöllur verndar þess ákvæðis enn til staðar. Var lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og A um endurnýjun dvalarleyfis til nýrrar meðferðar. Kærandi og A fengu útgefið dvalarleyfi hinn 25. janúar 2018 með gildistíma til 25. janúar 2022. Hinn 26. maí 2021 var föður A og fyrrum eiginmanni kæranda birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að alþjóðleg vernd hans og dvalarleyfi væri afturkölluð á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að kærandi og A hafi yfirgefið Ísland í lok árs 2012, eða um sex mánuðum eftir að þeim var veitt alþjóðleg vernd hér á landi, og dvalið í Svíþjóð og síðar heimaríki allt til ársins 2019. Þá hafi þau ferðast til heimaríkis að nýju hinn 16. september 2019 og verið stöðvuð á flugvellinum í Kaupmannahöfn hinn 7. október 2019 með íslensk ferðaskilríki og vegabréf útgefin af heimaríki. Tók Útlendingastofnun ákvörðun hinn 1. júní 2021 um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda og A ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru staðfestar með úrskurði kærunefndar hinn 2. september 2021 og var lagt fyrir kæranda og A að hverfa af landi brott og þeim veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug. Var athygli kæranda vakin á því að yfirgæfi hún ekki landið innan frestsins kynni að vera heimilt að brottvísa henni og ákveða endurkomubann, sbr. 98. og 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi lagði fram umsóknir um ótímabundið dvalarleyfi fyrir sig og fyrir hönd A hinn 15. október 2021. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, var umsóknunum synjað. Kærandi kærði ákvarðanirnar til kærunefndar hinn 25. febrúar 2022. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 11. mars 2022.

III.          Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er vísað til þess að kærunefnd hafi í úrskurðarframkvæmd sinni vísað til þess að það leiði af orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga að mat á því hvort umsækjandi uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis verði að miða við þann tíma þegar umsókn er lögð fram. Kærandi og A hefðu ekki dvalarleyfi í gildi og uppfylltu ekki skilyrði tímabundins dvalarleyfis sem þau hefðu haft áður, þegar sótt var um ótímabundið dvalarleyfi hinn 15. október 2021. Kærandi og A uppfylltu því ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. Þar að auki hefðu kærandi og A dvalist í heimaríki sínu á árunum 2013 til 2019 en í samræmi við 1. mgr. 58. gr. og 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, bæri umsækjanda að meginreglu að hafa dvalist hér á landi samfellt í fjögur ár og væri honum óheimilt að dveljast erlendis lengur en 90 daga á hverju ári, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. sem að mati Útlendingastofnunar ætti ekki við í málinu. Þá hefðu kærandi og A ekki uppfyllt skilyrði um samfellda dvöl í fjögur ár fyrr en í janúar 2023 í fyrsta lagi samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga auk þess sem þau hefðu hætt að safna réttindum til ótímabundins dvalarleyfis hinn 2. september 2021, sbr. 1. mgr. 103. gr. og 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að eiginmanni kæranda og barnsföður hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi hin 9. ágúst 2011 og í framhaldinu hafi kærandi og barn þeirra fengið dvalarleyfi vegna alþjóðlegrar verndar sem maki og barn flóttamanns. Alþjóðleg vernd kæranda hafi verið afturkölluð af Útlendingastofnun hinn 8. september 2020 þar sem kærandi hefði snúið aftur til heimaríkis vegna andláts ættingja. Hafi ákvörðunin verið staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála hinn 2. september 2021 og hafi A jafnframt hlotið sviptingu á alþjóðlegri vernd af þeim sökum þrátt fyrir að fyrir lægi að barnið hefði ekki haft frumkvæði að ferðalaginu.

Kærandi byggir á því að ekki séu fyrir hendi skilyrði til synjunar á ótímabundnu dvalarleyfi samkvæmt 1. mgr. og a-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji sig hafa uppfyllt skilyrði dvalarleyfis við framlagningu umsóknar enda dvalið hér á grundvelli framlengingar á alþjóðlegri vernd sem hún fékk fyrst árið 2012. Dvöl á grundvelli þess leyfis geti talist grundvöllur fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis. Kærandi hafi ekki verið meðvituð um réttaráhrif ferðalagsins á dvalarleyfi alþjóðlegrar verndar við för sína til Írak enda hafi hvati ferðarinnar verið fjarri því að nýta sér á ný vernd heimalands síns. Hafi kærandi mátt gera staðfastlega ráð fyrir því að grundvöllur hefði skapast fyrir ótímabundið dvalarleyfi en kærandi og A hafi verið í tengslum við Ísland í 11 ár, aðlagast íslensku umhverfi, ræktað félagsleg tengsl og líti á landið sem framtíðarheimili sitt. Bersýnilega ósanngjarnt væri að rjúfa þá tenginu sem þau hafi við landið og jafnframt liggi fyrir að vegna ungs aldurs A hafi hann ekki farið sjálfviljugur til heimaríkis. Verði að meta aðstæður A sérstaklega með tilliti til þessa, þar sem ekki sé forsvaranlegt að byggja jafn íþyngjandi ákvörðun og raun ber vitni á óviðráðanlegum aðstæðum A.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 58. gr. má ráða að útlendingur sem sækir um ótímabundið dvalarleyfi þurfi almennt að uppfylla skilyrði a-e-liða 1. mgr. til að fá útgefið leyfið. Samkvæmt a-lið 1. mgr. er skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis að útlendingur uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi og A voru síðast með útgefin dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga á tímabilinu 25. janúar 2018 til 2. september 2021 en þá staðfesti kærunefnd ákvarðanir Útlendingastofnunar um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi þeirra ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Er vísað til þess í úrskurðinum að kærandi hafi skilið að borði og sæng við eiginmann sinn hinn 27. júlí 2020 og að alþjóðleg vernd hans hafi verið afturkölluð hinn 26. maí 2021 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Uppfylltu kærandi og A því ekki lengur skilyrði 2. mgr. 45. gr. fyrir fjölskyldusameiningu flóttafólks við maka og barn. Þá var jafnframt vísað til þess að kærandi og A hefðu yfirgefið Ísland í lok árs 2012, eða um sex mánuðum eftir að þeim var veitt alþjóðleg vernd á landinu, og dvalið í heimaríki allt til ársins 2019. Hefðu kærandi og A því sjálfviljug notfært sér á ný vernd heimalands síns í skilningi a-liðar 1. mgr. 48. gr. laganna.

Þegar kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi fyrir sig og fyrir hönd A hinn 15. október 2021 voru þau ekki með í gildi dvalarleyfi á Íslandi auk þess sem þeim bar í samræmi við úrskurð kærunefndar nr. 422/2021, dags. 2. september 2021, sem tilkynntur var þeim með bréfi, dags. 3. september 2021, að yfirgefa landið ekki síðar en hinn 4. október 2021 en umsóknir um ótímabundið dvalarleyfi voru lagðar fram hinn 15. október 2021. Kærandi og A uppfylla því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að uppfylla áfram skilyrði dvalarleyfis við umsókn um ótímabundið dvalarleyfi.

Að sama skapi er ljóst að kærandi og A uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sbr. 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingu, um samfellda dvöl á landinu síðustu fjögur ár.

Með vísan til alls framangreinds eru hinar kærðu ákvarðanir staðfestar.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum