Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 3/2007

 

 

Ár 2007, miðvikudaginn 14. mars, var af  Yfirfasteignamatsnefnd í málinu nr. 3/2007 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dags. 17. janúar 2007 kærir Eva María Ævarsdóttir hdl., Lex lögmannsstofu, f.h. Fasteignafélagsins Stoða ehf., kt. 450599-3626, ákvörðun Reykjavíkurborgar um gjaldskyldu fasteignaskatts sem lagður var á og innheimtur af fasteignunum Eiríksgötu 5, Reykjavík, fastanúmer 200-8598, Laugavegi 26, Reykjavík, fastanúmer 223-6101 og Laugavegi 176, Reykjavík, fastanúmer 201-2337 og 201-2339, á árunum 2004-2006. 

 

Í kæru var á því byggt með vísan til undanþáguákvæðis 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga að lagastoð hafi skort til álagningar fasteignaskatts.

 

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi dagsettu 25. janúar 2007 eftir umsögn Reykjavíkurborgar. Umsögn barst með bréfi Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkurborgar  dagsettu 21. febrúar 2007.  Í bréfinu er upplýst  að af hálfu Reykjavíkurborgar hafi verið fallist á að eignarhluti kæranda í fasteigninni Laugavegi 26 falli undir undanþáguákvæði 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og sama gildi um eignarhlut kæranda í fasteigninni Laugavegi 176.  Hafi málsaðilar komist að samkomulagi um að kæra vegna þessarra fasteigna falli niður.  Í bréfi lögmanns kæranda dagsettu 8. mars 2007 er staðfest að Reykjavíkurborg hafi fallist á kröfur kæranda varðandi Laugaveg 26 og Laugaveg 176.  

 

Samkvæmt framanrituðu varðar ágreiningur í máli þessu ákvörðun Reykjavíkurborgar um skyldu kæranda að greiða fasteignaskatt vegna Eiríksgötu 5, Reykjavík.

 

Samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins var skráður eigandi fasteignarinnar Eiríksstaðir ehf. til 1. nóvember 2004.  Upplýst er að samkvæmt samrunaáætlun 28. júní 2004 var Eiríksstaðir ehf. sameinað Stoðum ehf. sem við samrunann yfirtóku eignir og skuldir þess.   

 

 Í kærubréfi segir varðandi  Eiríksgötu 5:

                „Fasteign þessi var leigð til Ríkisspítala, sem nýttu fasteignina undir skrifstofur spítalans.             Félagið greiddi álagða fasteignaskatta vegna eignarinnar fyrir árin 2004 og 2005.  Samkvæmt             5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, voru sjúkrastofnanir samkvæmt              heilbrigðislögum hins vegar undanþegnar fasteignaskatti fram að því að undanþágan var felld   niður með 4. gr. laga nr. 140/2005.  Hafði undanþága af þessu tagi þá verið í lögunum í          áratugi.  Samkvæmt dómi Hæstaréttar í dómasafni frá 1950, bls. 385 ber að skýra        undanþáguna svo að hún taki til þeirra fasteigna stofnana  sem tilgreindar eru í              ákvæðinu,                 sem notaðar eru sem eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfrækslu þeirra.         Óhjákvæmilegt er að telja skrifstofur ríkisspítalanna eðlilegan og nauðsynlegan þátt í        starfrækslu spítalanna.  Jafnframt er ljóst, samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 9. febrúar 2006 í    máli nr. 351/2005, Landsafl hf. gegn Reykjavíkurborg, að undanþágur skv. 5. gr. laga nr.            4/1995, eins og hún var áður en undanþágan var felld niður með lögum 140/2005, eru bundnar            við fasteignirnar sjálfar og notkun þeirra, en ekki eignarhald, enda eru fasteignirnar andlag    skattlagningarinnar en ekki eignarhaldið.  Í ljósi framangreinds verður að telja að ekki hafi          verið lagastoð fyrir álagningu fasteignaskatta á eignina.“

     

Í umsögn Reykjavíkurborgar, dagsettri 21. febrúar 2007, segir m.a.:

„Kærandi vísar til þess að samkvæmt 5. gr. laga um tekjustofna sveitarélaga, voru sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum undanþegnar fasteignaskatti fram að því að undanþágan var felld niður með 4. gr. laga nr. 140/2005.

 

Um er að ræða fasteign sem leigð hefur verið Landspítala-Háskólasjúkrahús, sem nýtt hafa fasteignina undir skrifstofur spítalans.  Telur kærandi að skýra beri undanþáguna svo að hún taki til þeirra fasteigna stofnana sem tilgreindar eru í ákvæðinu, sem notaðar eru sem eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfrækslu þeirra og vísar til dóms Hæstaréttar frá 1955 í því sambandi.  Efast má hins vegar um fordæmisgildi dómsins, þar sem í sératkvæði minni hluta dómsins var talið að öflun húsnæðis handa starfsfólki heilbrigðisstofnunar yrði almennt ekki talinn nauðsynlegur og náinn þáttur í rekstri þess.  Þótti því ekki talið heimilt að veita hælinu, þau sérstöku hlunnindi umfram aðra skattþegna, er felast í undanþágu undan greiðslu fasteignaskatta.  Héraðsdómur í sama máli komst að sömu niðurstöðu og minni hluti Hæstaréttar.  Í forsendum héraðsdóms er m.a. bent á að aðeins hafi verið um að ræða hagkvæma lausn á húsnæðisvandanum og líta bæri á húseignina sem hvert annað hús sem selt væri á leigu enda stæði það ekki á elliheimilislóðinni heldur á sérstakri lóð við aðra götu.

 

Þá ber að benda á að fasteignir eru því aðeins undanþegnar fasteignaskatti að þær falli fortakslaust undir undanþáguákvæði laga.  Þetta sjónarmið hefur einnig komið skýrt fram í dómum Hæstaréttar sem varða túlkun lagaákvæða um undanþágur frá fasteignaskatti. Ber að skoða þetta í samræmi við orðalag þágildandi undanþáguákvæðis 5. gr. laganna, þ.e. að aðeins sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum skulu undanþegnar fasteignaskatti en í 23. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 kemur fram að sjúkrahús eru í lögunum hver sú stofnun sem ætluð er sjúku fólki til vistunar og þar sem læknishjálp og allur aðbúnaður er í samræmi við það sem lögin og reglugerðir þar að lútandi krefjast.

 

Verður því að telja með hliðsjón af því sem að framan greinir, að eignarhlutur kæranda í Eiríksgötu 5 féll ekki undir undanþáguákvæði þágildandi 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga á árunum 2004 og 2005.“

 

Umsögn Reykjavíkurborgar var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 28. febrúar 2007 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum af hálfu kæranda.  Frekari athugasemdir bárust með bréfi  lögmanns kæranda dagsettu 8. mars 2007.

 

Niðurstaða.

Ágreiningur í máli þessu varðar skyldu kæranda árin 2004 og 2005 til að greiða fasteignaskatt af fasteigninni Eiríksgötu 5 í Reykjavík, fastanúmer 200-8598.

 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skal árlega  leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári, sbr. þó 5. gr. þar sem kveðið er á um undanþágu frá skyldu til að greiða fasteignaskatt.  Ákvæði 5. gr. var breytt með 4. gr. laga nr. 140/2005 sem öðluðust gildi 1. janúar 2006.  Fyrir lagabreytinguna  sagði um undanþágur frá fasteignaskatti í 1. mgr. 5. gr.:

 

„Undanþegin fasteignaskatti eru sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum, kirkjur, skólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, bókasöfn og önnur safnahús og hús annarra ríkja að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum.  Sama gildir um lóðir slíkra húsa.“

 

 

 

Mál þetta varðar gjaldskyldu áranna 2004 og 2005. Í þágildandi ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 var tæmandi upptalning þeirra eigna sem undanþegnar voru fasteignaskatti. Landspítali-háskólasjúkrahús er sjúkrastofnun samkvæmt heilbrigðislögum, sbr. 23. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og var samkvæmt því undanþegið fasteignaskatti samkvæmt ákvæðinu.  Ágreiningslaust er að fasteign kæranda að Eiríksgötu 5 var á árunum 2004 og 2005 nýtt undir skrifstofur spítalans. Það er álit Yfirfasteignamatsnefndar að skrifstofuhaldið hafi verið hluti af nauðsynlegum og eðlilegum rekstri Landspítala-háskólasjúkrahúss og fasteignin því undanþegin fasteignaskatti samkvæmt 1. mgr. 5. gr.       

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Fasteign kæranda að Eiríksgötu 5 í Reykjavík, fastanúmer 200-8598, var undanþegin fasteignaskatti árin 2004 og 2005 samkvæmt þágildandi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 miðað við nýtingu eignarinnar fyrir skrifstofur Landspítala-háskólasjúkrahúss.

 

 

                                               _____________________

Pétur Stefánsson

 

                  ____________________                     _______________________

                    Guðný Björnsdóttir                              Andrés Svanbjörnsson

 

 

           

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum