Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 126/2021 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 126/2021

 

Skaðabótaábyrgð húsfélags: Vatnsdæla í séreign.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 29. desember 2021, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 17. janúar 2022, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 15. febrúar 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls fimmtán eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á fimmtu hæð en gagnaðili er húsfélagið. Ágreiningur er um hvort gagnaðila beri að greiða kostnað vegna nýrrar vatnsdælu í íbúð álitsbeiðanda.

Krafa álitsbeiðanda er:

     Að viðurkennt verði að húsfélaginu beri að greiða kostnað vegna vatnsdælu í íbúð hans.

Í álitsbeiðni kemur fram að 22. nóvember 2021 hafi verið lokað fyrir vatnsinntak, bæði heitt og kalt vatn, fyrir stigaganginn í Norðurbakka 13C, án þess að íbúar hafi verið látnir vita. Í kjölfarið hafi nágranni bent álitsbeiðanda á að rétt væri að slökkva á vatnsdælum fyrir gólfhita vegna hættu á að dælan skemmdist væri hún að vinna án vatnsrennslis. Vatni hafi verið hleypt aftur á kerfið fljótlega með talsverðu trukki þar sem ekki hafi verið gætt að því að opna rólega fyrir vatnslokana og álitsbeiðandi þá sett straum á dæluna. Næstu tvo daga hafi hitinn í íbúðinni lækkað um fjórar gráður og þá heyrst högghljóð frá dælunni. Við athugun hafi komið í ljós að það hafi verið talsvert loft á kerfinu sem ekki hafði gerst áður.

Álitsbeiðandi hafi keypt nýja dælu og í ljós komið að hún dældi ekki vatni. Álitsbeiðandi hafi slökkt á henni og upplýst formann húsfélagsins um stöðuna. Hann hafi hvatt álitsbeiðanda til að hafa samband við rafvirkja og pípara sem hann hafi gert. Rafvirkinn hafi sagt að ekkert væri að rafbúnaði en píparinn hafi tappað restinni af loftinu af kerfinu en álitsbeiðandi hafi verið búinn að tappa loftinu af kerfinu í heilan dag með hléum. Eftir þetta hafi dælan farið að virka og heita vatnið að renna í gólflögnum og hitinn hækkað í eðlilegt horf.

Dælan hafi skemmst vegna þess að skyndilega hafi komið lofttappi inn á gólfkerfið hjá honum þegar vatnslokarnir hafi verið opnaðir. Þetta sé afleiðing þess sem hafi verið aðhafst í inntaksklefa sameignar. Því sé farið fram á að húsfélagið bæti tjónið sem nemi 73.704 kr. sem sé verð dælunnar. Gagnaðili hafi hafnað því.

Í greinargerð gagnaðila segir að á fundi 12. janúar 2022 hafi stjórn húsfélagsins tekið álitsbeiðnina til umræðu og niðurstaðan verið sú að hafna kröfu álitsbeiðanda. Í 4. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús segi að undir séreign falli öll tæki, búnaður og þess háttar inni í séreignarhluta, þótt tengd séu sameiginlegu kerfi eða lögnum.

Hvorki hafi lokun vatnsinntaks né opnun þess 22. nóvember 2021 verið gerð að undirlagi húsfélagsins heldur eiganda íbúðar nr. 206. Engin sönnun liggi fyrir því að röskun á vatnsflæði 22. nóvember 2021 hafi eyðilagt vatnsdælu álitsbeiðanda heldur gæti hún hafa verið komin á tíma og engar fréttir hafi borist af skemmdum á vatnsdælum fjórtán annarra íbúða sem hafi orðið fyrir sömu röskun á vatnsflæði. Hefð sé fyrir því að þótt húsfélag standi straum af viðgerðum á sameign vegna bilunar þá beri eigendur kostnað af viðgerð á séreign sinni sem skemmst hafi af völdum bilunar. Vísað sé til þess að þegar lekið hafi inn í íbúðir frá gluggabúnaði eða loftstokkum í sameign þurfi eigendur að greiða sjálfir viðgerð á innréttingum og parketi.

 

 

 


 

III. Forsendur

Í 4. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að undir séreign falli öll tæki, búnaður og þess háttar inni í séreignarhluta, þótt tengd séu sameiginlegu kerfi eða lögnum. Samkvæmt þessu ákvæði fellur vatnsdælan í íbúð álitsbeiðanda undir séreign.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um fjöleignarhús er húsfélag ábyrgt gagnvart einstökum eigendum og afnotahöfum vegna fjártjóns sem verður á eignum þeirra þegar tjón stafar af vanrækslu á viðhaldi sameignar, búnaði hennar og lögnum, sbr. 1. tölul., mistökum við meðferð hennar og viðhald, sbr. 2. tölul., eða bilun á búnaði sameignar og sameiginlegum lögnum þótt engum sem húsfélagið beri ábyrgð á verði um það kennt, sbr. 3. tölul.

Skaðabótaábyrgð húsfélags á grundvelli 52. gr. fjöleignarhúsalaga byggir á því að húsfélagið hafi sýnt af sér vanrækslu. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 26/1994 er fjallað um að ábyrgð samkvæmt 1. og 2. tölulið 1. mgr. ákvæðisins sé á sakargrundvelli. Í þeim tilvikum sé það skilyrði bótaskyldu að eigandi eða einhver sem hann ber ábyrgð á samkvæmt almennum reglum valdi tjóni af ásetningi eða gáleysi. Vanrækslan eða mistökin þurfa því að vera saknæm.

Samkvæmt gögnum málsins lokaði eigandi íbúðar 206 fyrir vatnsinntak í stigaganginum eftir að tenging á baðherbergi hans fór í sundur. Pípari framkvæmdi viðgerðir og hleypti vatni aftur á. Næsta dag uppgötvaðist að of mikill þrýstingur væri á kerfinu og því hafi píparinn komið aftur til að stilla kerfið. Álitsbeiðandi telur að vegna þessa hafi vatnsdæla hans orðið ónýt og því beri húsfélaginu að greiða reikning vegna nýrrar dælu. Hann telur að skyndilegur lofttappi hafi komið á gólfkerfið hjá honum þegar vatnslokarnir hafi verið opnaðir en ekki hafi verið gætt að því að gera það rólega. Fyrir liggur einnig að álitsbeiðandi slökkti á vatnsdælu fyrir gólfhita fljótlega eftir að lokað hafði verið fyrir vatnsinntakið.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd að skaðabótaábyrgð húsfélagsins sé ekki fyrir hendi í málinu, enda um að ræða framkvæmd eiganda íbúðar 206 án aðkomu húsfélagsins.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 15. febrúar 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Aldís Ingimarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum