Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 3/2013

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 1. nóvember 2013 í máli nr. 3/2013.

Fasteign:  Íbúð  við Vatnsstíg í Reykjavík.

Kæruefni:  Gjaldflokkur fasteignaskatts

Árið 2013, föstudaginn 1. nóvember 2013, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 3/2013 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2013, sem barst nefndinni 21. mars 2013 voru kærð álögð fasteignagjöld 2013 vegna íbúðar á Vatnsstíg, 101 Reykjavík.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 3. apríl 2013, eftir umsögn frá Reykjavíkur­borg. Umbeðin umsögn barst frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 29. apríl 2013.

Þann 30. apríl 2013 var umsögnin send kæranda. Með bréfi, dags. 7. maí 2013, bárust athugasemdir kæranda við umsögn Reykjavíkurborgar.

Þann 8. maí 2013 voru athugasemdirnar sendar Reykjavíkurborg. Ekki bárust frekari athugasemdir frá Reykjavíkurborg.

Með tölvubréfi, dags. 25. september 2013, var málsaðiljum tilkynnt um vettvangsgöngu að Vatnsstíg, Reykjavík. Yfirfasteignamatsnefnd gekk á vettvang og skoðaði eignina 2. október 2013. Í kjölfar vettvangsgöngunnar bárust viðbótarsjónarmið frá kæranda með tölvubréfi, dags. 7. október 2013. Málið var tekið til úrskurðar 11. otkóber 2013. 

Sjónarmið kæranda

Krafa kæranda er að eignin verði flokkuð sem íbúðarhúsnæði og fasteignaskattur lagður á hana samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Ekki sé rétt að hækka fasteignagjöld úr 0.2% í 1.65%.

Kærandi telur að þau sjónarmið sem byggt er á í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 8/1996 eigi ekki við í máli hans, þar sem íbúð hans hafi í engu verið breytt, húsnæðið sé fyrst og fremst íbúð sem nýtt sé af kæranda en vegna tímabundinna starfa erlendis hafi hann fengið útgefið rekstrarleyfi fyrir íbúðargistingu til þess að leigja hana út til skamms tíma í einu með þrifum, handklæðum og líni.

Hann telur að þrátt fyrir að gisting á heimili gegn endurgjaldi sé leyfisskyld í skilningi laga nr. 85/2007 sé ekki skilyrði fyrir hendi til að fella íbúðina undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 við álagningu fasteignaskatts. Reykjavíkurborg hafi ákveðið val þegar metið er undir hvaða grein viðkomandi laga íbúðin sé felld við álagningu fasteignaskatts. Við það val eigi borgin að gæta þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en eðlilegt megi telja út frá beinum lagatexta þannig að ákvörðunin valdi sem minnstri röskun og óhagræði með hliðsjón af meginreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið krefst kærandi þess til vara að álagningu fasteignaskatts verði skipt og hún reiknuð bæði eftir a-lið og c-lið á þeirri forsendu að íbúðin sé aðeins nýtt hálft árið til útleigu.

Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg vísar fyrst og fremst til þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, með lögum nr. 144/2000, í kjölfar álits samkeppnisráðs nr. 8/1998. Með 3. gr. breytingarlaganna var b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, nú c-liður sömu greinar, breytt þannig að undir þann flokk féllu einnig mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 144/2000 er einnig vísað til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar frá 9. maí 1997, í máli nr. 8/1996. Þar varð niðurstaðan sú að bændagisting, þar sem ákveðinn hluti húss hafði verið innréttaður gagngert í því augnamiði að leigja til gistingar, félli utan ramma venjulegs landbúnaðar. Gat sá hluti viðkomandi húss sem þetta átti við um því ekki fallið undir undantekningarákvæði a-liðar.

Einnig er vísað í 3. gr. laga nr. 85/2007 þar sem segir að gististaðir séu staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, i gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga. Þá segir í 7. gr. sömu laga að hver sá sem hyggst stunda starfsemi sem fellur undir lög nr. 85/2007 skuli hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda.

Þann 16. janúar sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í flokki II og gildi leyfið til 16. janúar 2017. Með vísan til þessa beri kæranda að greiða fasteignaskatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 líkt og öðrum sem fengið hafa leyfi til reksturs gististaða.

Niðurstaða

Kærð er álagning fasteignaskatts fyrir árið 2013 vegna íbúðar á Vatnsstíg, 101 Reykjavík og því haldið fram að rétt sé að álagningin taki mið af a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þar sem um sé að ræða íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg telur hins vegar rétt að álagningin taki mið af c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, þar sem ljóst sé að umrædd íbúð hafi verið leigð út til ferðamanna í fjarveru eiganda og teljist þannig nýtt fyrir ferðaþjónustu í skilningi ákvæðis c-liðar.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um íbúðarhúsnæði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er með 4. mgr. 3. gr. laganna sveitarstjórn veitt heimild til þess að hækka um allt að 25% hundraðshluta þá sem tilgreindir eru í a- og c-liðum 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laga nr. 85/2007 eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

Óumdeilt er að kærandi hefur boðið ferðamönnum gistingu í íbúð sinni gegn endurgjaldi og hefur hann til þess tilskilið rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 85/2007. Af framlögðu yfirliti kæranda má greina að leigutími hefur iðulega verið nokkrir dagar í senn. Þannig verður hann að teljast hafa nýtt íbúð sína, sem ella félli undir undanþáguákvæði a-liðar, fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Skráður ábyrgðarmaður í rekstrarleyfi kæranda, tilkynnti til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar á staðfestu afriti byggingarfulltrúa af teikningu íbúðar kæranda að um heilsársleigu væri að ræða. Í kjölfar þess var skráningu eignarinnar breytt en fasteignaskatturinn tekur mið af þessari breyttu skráningu og verður hærri álagning því rakin til framangreindrar tilkynningar til heilbrigðiseftirlitsins. Til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið verður að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram.

Með hliðsjón af framangreindu telst álagning fasteignaskatts árið 2013 vegna íbúðar við Vatnsstíg, 101 Reykjavík réttilega ákvörðuð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þá er án frekari aðgreiningar af hálfu kæranda í tímabil útleigu annars vegar og tímabil eigin notkunar hins vegar ekki unnt að fallast á varakröfu hans um að álagningu fasteignaskatts skuli skipt og hún ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. umræddra laga hluta úr ári og c-lið sömu greinar hluta úr ári.

Úrskurðarorð

Álögð fasteignagjöld vegna íbúðar við Vatnsstíg, 101 Reykjavík, árið 2013 eru staðfest.

 

Inga Hersteinsdóttir

 Ásgeir Jónsson    Hulda Árnadóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum