Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

1017/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.

Úrskurður

Hinn 14. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1017/2021 í máli ÚNU 21030004.

Kæra og málsatvik

Með kæru, dags. 4. mars 2021, kærði A fréttamaður á RÚV afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni hans um upplýsingar.

Með erindi, dags. 30. desember 2020, óskaði kærandi eftir að fá afrit af samskipum embættis landlæknis, þ. á m. sóttvarnalæknis, annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar sem tengjast bólusetningum við COVID-19 frá 1. nóvember 2020. Í beiðninni kom fram að óskað væri eftir bréfum og tölvuskeytum, minnisblöðum, skýrslum og öðrum gögnum sem kynnu að hafa farið á milli og tengjast kaupum og afhendingu á bóluefni, þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um bóluefnakaup, skipulagi bólusetningar, áætlunum um hvenær markmið bólusetningar gæti náðst o.s.frv. Auk þessa var óskað eftir gögnum þar sem kynni að vera fjallað um munnleg samskipti stofnananna sama efnis, t.d. fundargerðum eða minnisblöðum um símtöl. Kærandi ítrekaði beiðnina í nokkur skipti. Svar embættis landlæknis barst með tölvubréfi, dags. 4. febrúar 2021, ásamt þeim gögnum sem óskað var eftir. Í svarinu kom fram að önnur gögn sem kærandi fór fram á væru ekki fyrirliggjandi hjá embættinu.

Í kæru kemur fram að umbeðin gögn hafi verið afhent að mestu en kærð sé ákvörðun embættis landlæknis að afhenta ekki afrit af samningum við lyfjaframleiðendur og fundargerðum starfshóps um bóluefni.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 9. mars 2021, var kæran kynnt embætti landlæknis og veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn embættis landlæknis, dags. 29. mars 2021, kom fram að við frekari skoðun kærunnar og erindis RÚV liggi fyrir að málið varði samninga við lyfjaframleiðendur vegna bóluefna við COVID-19 og fundargerðir starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni við COVID-19. Þá sagði að umrædd gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá embætti landlæknis og því væri kæranda leiðbeint um að leita til heilbrigðisráðuneytisins varðandi beiðni um aðgang að framangreindum gögnum. Loks var beðist velvirðingar á því ef svar landlæknis til kæranda hefði ekki verið nægilega skýrt að þessu leyti.

Í kjölfarið óskaði úrskurðarnefndin með tölvupósti, dags. 31. mars 2021, eftir afriti af svari embættisins við beiðni kæranda. Með tölvupósti, dags. 6. apríl 2021, barst úrskurðarnefndinni afrit af svarbréfi embættisins til kæranda þar sem gerð var grein fyrir því að umrædd gögn, þ.e. samningar við lyfjaframleiðendur vegna bóluefna við COVID-19 annars vegar og fundargerðir starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni væru ekki fyrirliggjandi hjá embættinu. Var kæranda jafnframt leiðbeint um að leita til heilbrigðisráðuneytisins með beiðni um aðgang að umræddum gögnum.

Með tölvubréfi, dags. 6. apríl 2021, var óskað eftir afstöðu kæranda til svars landlæknis. Í svari kæranda, dags. 6. apríl 2021, er m.a. bent á að í þeim tölvupóstsamskiptum sem kærandi fékk afhent kæmi fram að sóttvarnalæknir hefði með tölvupósti, dags. 3. janúar 2021, til ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins, óskað eftir afriti af samningi um Moderna bóluefnið. Ekki yrði séð af þeim tölvupóstsamskiptum sem kæranda voru afhent hvort samningurinn hefði verið sendur sóttvarnalækni.

Í ljósi framangreinds ritaði úrskurðarnefndin embætti landlæknis tölvubréf, dags. 20. maí 2021, þar sem þess var óskað að embættið gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því hvort samningurinn vegna Moderna bóluefnisins hefði verið sendur sóttvarnalækni í kjölfar beiðni hans þar að lútandi sem vitnað er til í umræddum tölvupóstsamskiptum. Í svari embættis landlæknis, dags. 26. maí 2021, kemur fram að sóttvarnalæknir hafi fengið samninginn sendan til kynningar frá heilbrigðisráðuneytinu. Samninginn sé hins vegar hvorki að finna í skjalasafni né málaskrá embættisins. Það sé því ekki á forræði sóttvarnalæknis að svara beiðni um aðgang að samningnum sem ráðuneytið ber ábyrgð á og hafi í sínum vörslum.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni kæranda um aðgang að samningum um bóluefni vegna Covid-19 og fundargerðum starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni. Synjun embættis landlæknis er reist á því að umrædd gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu.

Í umsögn embættis landlæknis kemur fram að kæranda hafi verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem liggi fyrir hjá embættinu. Önnur gögn sem falli undir beiðnina, þ.e. samningar um bóluefni vegna Covid-19 og fundargerðir starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu. Eins og að framan greinir upplýsti embætti landlæknis úrskurðarnefndina við meðferð málsins um að sóttvarnalæknir hefði fengið samninginn vegna Moderna bóluefnisins sendan frá heilbrigðisráðuneytinu til kynningar. Samninginn væri hins vegar hvorki að finna í skjalasafni né málskrá embættisins.

Af framangreindu verður ráðið að embætti landlæknis líti svo á að umræddur samningur hafi ekki talist fyrirliggjandi hjá embættinu þar sem hann hafi borist sóttvarnalækni til kynningar en ekki skráður í málaskrá embættisins. Umræddur samningur sé á forræði heilbrigðisráðuneytisins og því ekki sóttvarnalæknis að svara beiðni um aðgang að samningnum. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda. Fyrir liggur að umræddur samningur barst sóttvarnalækni í tengslum við lögbundið hlutverk hans og verður af þeim sökum að líta svo á að hann hafi talist fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga eftir að hann barst burtséð frá því hvort samningurinn var formlega skráður í málaskrá embættisins.

Afstaða embættis landlæknis virðist öðrum þræði reist á því að umræddur samningur sé á forræði heilbrigðisráðuneytisins en ekki sóttvarnalæknis og því ekki hans að taka afstöðu til beiðni um afhendingu samningsins. Af því tilefni skal tekið fram að í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga er fjallað um það hvert beiðni um upplýsingar skuli beint. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar farið er fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skuli beiðni beint til þess sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skuli beiðni beint til þess aðila sem hefur gögnin í vörslu sinni. Af framangreindu leiðir að þegar fleiri en eitt stjórnvald hefur tiltekin gögn undir höndum, sem ekki tengjast töku stjórnvaldsákvörðunar, líkt og háttar til í þessu tilviki, getur borgarinn almennt valið til hvaða stjórnvalds hann leitar með gagnabeiðni. Embætti landlæknis getur þannig ekki komið sér hjá því að taka ákvörðun um afhendingu gagna með vísan til þess að umrætt gagn sé í fórum annars stjórnvalds eða á forræði þess.

Í ljósi þess sem að framan er rakið verður hvorki ráðið af ákvörðun embættis landlæknis né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á efni samningsins í samræmi við ákvæði upplýsingalaga og hvort rétt væri að takmarka aðgang að samningnum á grundvelli undanþáguákvæða laganna.

Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að embætti landlæknis hafi tekið rökstudda afstöðu til gagnabeiðni kæranda að þessu leyti, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir embætti landlæknis að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Hvað önnur gögn snertir sem kunna að falla undir beiðni kæranda telur úrskurðarnefndin í ljósi skýringa embættis landlæknis að ekki séu forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umrædd gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu að undanskildum samningi um Moderna bóluefnið sem fjallað er um hér að framan.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.



Úrskurðarorð:

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 4. febrúar 2021, um að synja beiðni kæranda, A fréttamanns á RÚV um aðgang að samningi um Moderna bóluefnið er felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar. Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum