Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 672/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 672/2021

Mánudaginn 2. maí 2022

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 14. desember 2021, kærði D lögmaður, f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar C frá 22. nóvember 2021 vegna umgengni þeirra við E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn E er tæplega X ára gamall. Kærendur eru kynforeldrar drengsins.

Kærendur voru svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms F þann 12. október 2021. Kærendur hafa áfrýjað dóminum til Landsréttur. Drengurinn er í vistun hjá móðurömmu sinni.

Mál barnsins var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar C þann 22. nóvember 2021. Fyrir fundinn lá afstaða starfsmanna barnaverndarnefndar sem lögðu til að umgengni kærenda við drenginn væri að hámarki þrisvar til fjórum sinnum á ári.

Kærendur féllust ekki á tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd C hafnar kröfum A og B um aukna umgengni við E sem lítur forsjá barnaverndarnefndar C, umgengni skal fara fram fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti, um lagaheimild vísast til 4. mgr. 74. gr. sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 .“

Lögmaður kærenda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 14. desember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar C ásamt gögnum málsins. Greinargerð lögmanns barnaverndarnefndarinnar barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 14. janúar 2022, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. janúar 2022, var hún send lögmanni kærenda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærendur krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að umgengni barnsins við kærendur verði ákveðin í samræmi við kröfu þeirra fyrir barnaverndarnefndinni þann 17. nóvember 2021, þ.e. að umgengni drengsins við kærendur verði ákveðin að minnsta kosti annan hvorn föstudag, tvær klukkustundir í senn auk einnar helgar í mánuði frá föstudegi til sunnudags.

Í kæru kemur fram málið hafi verið tekið fyrir vegna kröfu kærenda um aukna umgengni við drenginn eftir að Barnaverndarnefnd C felldi alfarið niður umgengi þeirra við barnið eftir að foreldrar drengsins voru sviptir forsjá hans með dómi Héraðsdóms F þann 12. október 2021. Umgengniskröfunni fylgdi greinargerð þar sem skýrðar voru forsendur foreldra fyrir kröfunni og vísað til íslenskra laga, alþjóðlegra mannréttindasáttmála og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Kærendur hafi áfrýjað dómi Héraðsdóms F frá 12. október 2021 til Landsréttar, sbr. áfrýjunarstefnu, dags. 25. október 2021, og greinargerð kærenda, dags. 21. nóvember 2021. Áfrýjunarstefnan lá fyrir áður en úrskurður Barnaverndarnefndar C var kveðinn upp. Nefndin hefði því hæglega getað komist að þeirri niðurstöðu að viðhalda sömu umgengni og verið hefur, þ.e. annan hvorn föstudag, tvo tíma í senn undir eftirliti, þar til endanlegur dómur væri genginn í málinu.

Í úrskurði barnaverndarnefndar sé enga umfjöllun að finna um rök foreldra fyrir kröfunni heldur látið við það sitja að nefna þau án þess að þeim sé í nokkru svarað.

Ekkert sé fjallað um þau rök kærenda að sú forsenda barnaverndarnefndar að umgengni barns í fóstri við foreldra sína þjóni aðeins því markmiði að barnið þekki uppruna sinn, standist ekki alþjóðlega mannréttindalöggjöf. Í greinargerð kærenda séu reifuð lagarök fyrir því að framkvæmd íslenskra barnaverndaryfirvalda sé að þessu leyti lögleysa en Barnaverndarnefnd C skautar fram hjá þeirri umfjöllun og ákveður umgengni í fjögur skipti á ári, án þess að rökstyðja það nokkuð.

 

Þá sé hvergi í úrskurðinum vikið að umfjöllun í greinargerð kærenda um túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 8. gr. MSE, sem ítarlega sé reifuð í  dómaframkvæmd MDE, meðal annars þeim dómum sem vísað hafi verið til í greinargerðinni.

 

Þá þykir athyglisvert að nefndin fjalli um að móður hafi staðið til boða að hitta drenginn heima hjá móðurömmu barnsins þar sem barnið sé í fóstri, en móðir hafi ekki þegið það. Ekkert tillit sé tekið til röksemda móður þess efnis að hún treystir sér ekki ein inn á heimili móður sinnar sem hefur ráðskast með allt hennar líf. Hún hafi óskað eftir því að faðir barnsins fengi að koma með eða tengdamóðir hennar en því hafi alfarið verið hafnað og henni þannig gert ómögulegt að hitta drenginn meira en annan hvorn föstudag undir eftirliti.

 

Í úrskurðinum sé ekkert fjallað um að í einu forsjárhæfnismati af þremur séu kærendur taldir hæfir þannig að það er ekki einhugur um forsjárhæfni þeirra. Til þess beri að líta að vafi sé um það.

 

Því sé mótmælt að stöðugleika barnsins sé ógnað með því að vera í svo ríkri umgengni sem verið hefur (annar hvor föstudagur, 2 tímar í senn undir eftirliti). Það sé ekki hægt taka barn úr umsjá foreldra, skammta þeim litla umgengni og nota sem rök fyrir lítilli umgengni að tryggja verði stöðugleika barnsins.

 

Þá sé ekkert tillit tekið til þess að móðir hafði nýlega verið greind með alvarlega vefjagigt sem geti útskýrt sár og marbletti á líkama hennar. Barnavernd hafi ávallt skýrt þessa marbletti þannig að faðir beiti móður ofbeldi, þrátt fyrir neitun hennar, en hið meinta ofbeldi föður sé ein meginröksemd fyrir forsjársviptingunni, án þess að fyrir liggi nokkur sönnun þess efnis.

 

Í úrskurðinum sé ekkert tillit tekið til þess að endanlegur dómur í málinu er ekki genginn þar sem búið sé að áfrýja dóminum til Landsréttar.

Tilgangurinn með rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sé sá að afla nægilegra upplýsinga til þess að hægt sé að taka sem besta ákvörðun í máli. Sú regla þjónar ekki tilgangi sínum ef stjórnvöld vísa aðeins til raka aðila fyrir kröfum sínum, án þess skoða þau af alvöru og án þess að taka nokkra afstöðu til þeirra. Verður ekki séð að nefndin hafi skoðað rök foreldra í málinu, kynnt sér löggjöfina, dómaframkvæmdina eða þau meginsjónarmið sem liggja að baki rétti barna og foreldra til að halda tengslum og umgangast reglulega, hafi þau verið aðskilin.

Ljóst sé að samkvæmt alþjóðalögum eiga börn í fóstri sama rétt til umgengni við foreldra sína og svokölluð “skilnaðarbörn”. Oftar en ekki dvelja börn fráskilinna foreldra hjá forsjárlausu foreldri aðra hvora helgi, auk þess að njóta aukinnar umgengni um hátíðar og í sumarfríi.

Meginregluna um tengsla- og umgengnisrétt barna sem hafa verið skilin frá foreldrum sínum er að finna í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans sem hljóðar svo:

,,Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. ”

Þá hafi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gefið það út að “það sem barni er fyrir bestu” hafi sömu merkingu hvort heldur börn hafa verið skilin frá foreldrum sínum vegna sambúðarslita eða fyrir milligöngu ríkisins. Þá gilda allar reglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um öll börn, án aðgreiningar, og 9. gr. sáttmálans gildir jöfnum höndum um börn í fóstri sem og önnur börn, óháð þeim ástæðum sem liggja að baki aðskilnaðinum á milli foreldra og barna. Enda væri það ótækt að mismuna börnum eftir aðstæðum þeirra eða foreldra. 

Lögin séu skýr - það eru einfaldlega mannréttindi barns kærenda að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldra sina með reglubundnum hætti. Spurningin sé ekki hvort þau eigi að njóta þess réttar heldur hvernig skuli standa að því að koma á löglegu ástandi. Í úrskurði barnaverndarnefndar sé ekkert fjallað um 9. gr. Barnasáttmálans sem á við um börn í varanlegu fóstri. Á því sé byggt að umgengni fjórum sinnum á ári fullnægi ekki skilyrðum 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans.

Í úrskurði barnaverndarnefndar segir að það sé mat starfsmanna að eðlilegt sé að drengurinn þekki foreldra sína og ætla megi að umgengni þrisvar til fjórum sinnum á ári geti viðhaldið þeim tengslum sem fyrir eru. Ekki sé fallist á það með barnaverndarnefnd að umgengni fjórum sinum á ári uppfylli markmið ákvæðis 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, auk 8. gr. MSE, sbr. 71. gr. stjórnarskrár, sem sé einmitt það að barn viðhaldi persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt. Slíkum persónulegum tengslum og beinu sambandi verður ekki viðhaldið nema samskipti séu regluleg, sbr. orðalagið ,,með reglubundnum hætti”.

Þessu til stuðnings megi til dæmis nefna álit umboðsmanns barna frá 25. mars 2014 þar sem fram kemur hvaða reglur Barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrár gilda um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt og að sömu reglur gildi um öll börn sem hafi verið aðskilin frá foreldri, sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Í áliti umboðsmanns barna sé vísað til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, 71. gr. stjórnarskrár, auk 8. gr. MSE og túlkun á þeim sem sé eftirfarandi:

,,Af fyrrnefndum ákvæðum er ljóst að umgengni barns við foreldri verður að vera regluleg, þannig að barn nái annaðhvort að viðhalda þeim tengslum sem til staðar eru eða tengsl nái að myndast. Ennfremur þarf að sjálfsögðu að tryggja öllum börnum sama rétt, án mismununar, sbr. m.a. 2. gr. Barnasáttmálans og 65. gr. Stjórnarskrárinnar… óheimilt er að mismuna börnum eftir stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra… Réttur barns er sá sami óháð því hvort að barn búi hjá öðru foreldri eða fósturforeldrum.”

Túlkun umboðsmanns barna sé í samræmi við túlkun MDE og Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á ákvæðum Barnasáttmálans. Túlkun Barnaverndarnefndar C eigi sér hins vegar enga stoð í lögskýringargögnum né orðanna hljóðan ákvæðisins. Réttur fósturbarna til umgengni við foreldri sitt sé ekki minni en réttur skilnaðarbarna, sá réttur sé hinn sami. Það þýðir þó ekki sjálfkrafa að umgengni eigi að vera svona eða hinsegin, heldur þarf ávallt að meta hvað telst vera barni fyrir bestu hverju sinni, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 4. gr. bvl., 8. gr. MSE, auk 71. gr. stjórnarskrár.

Ákvæði 74. gr. bvl. og athugasemdir í greinargerð, sem skýrir ákvæðið, sé í fullu samræmi við framangreindar skýringar umboðsmanns barna. Það sé hins vegar túlkun barnaverndaryfirvalda og úrskurðarnefndarinnar á ákvæði 74. gr. sem gengur í berhögg við umrædd ákvæði Barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrár. Bent sé á að í athugasemdum með 74. gr. bvl. segir að ákvæðið byggi á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur fullgilt. Þar segir enn fremur að ,,ef neita á um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins.” Ekkert slíkt sé fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir. Þvert á móti séu aðstæður foreldra góðar, þau lifa eðlilegu og reglusömu lífi og á heimili þeirra býr föðuramma barnsins sem barnið hefur þekkt og umgengist frá fæðingu. Umgengni hafi ávallt gengið mjög vel og barnið hefur notið sín í umgengni. Þetta kemur fram í öllum þeim forsjárhæfnismötum sem liggja fyrir í málinu þar sem matsmenn hafa fylgst með umgengni.

Óheimilt sé að hafa vélræna nálgun á umgengni þar sem alltaf sama umgengni sé ákvörðuð fyrir fósturbörn á þeim eina grunni að markmið fóstursins sé að aðlagast fósturfjölskyldu. Í dómaframkvæmd MDE koma miklu fleiri sjónarmið til skoðunar og allt önnur þegar lagt er mat á hvað telst vera barni fyrir bestu hverju sinni. Sjá hér meginheimild um þetta General Comment no. 14 frá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna en þessi lögskýringargögn leggur MDE til grundvallar þegar hann dæmir í málum sem varða rétt barna á grundvelli 8. gr. MSE.

Bent sé á að ekkert raunverulegt mat á því hvað telst vera barninu fyrir bestu þegar kemur að umgengnisrétti þess hafi farið fram hér. Virðist vera byggt á einhvers konar venju um að umgengni í fóstri eigi að vera þrjú til fjögur skipti á ári, óháð öllu öðru. Byggir sú venja ekki á neinum lagarökum heldur fer hún þvert á móti gegn lögum, mannréttindum og stjórnarskrá. Þá gengur yfirlýst markmið barnaverndarnefndar með slíkri umgengni enn fremur gegn markmiði þeirra mannréttindasáttmála sem um umgengnina gilda.

Í ljósi framangreinds og með vísan til greinargerðar foreldra, sem lögð var fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er þess farið á leit að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C kemur fram að málið eigi sér nokkurn aðdraganda og rétt sé að geta helstu atvika.

 

Kærendur eignuðust drenginn E  X. Barnavernd C hefur sinnt eftirliti með kærendum frá því áður en drengurinn fæddist. Ástæða þess sé sú að tilkynningar um alvarlegt ofbeldi föður gagnvart móður bárust ítrekað á meðgöngu, til dæmis frá ljósmóður sem sinnti mæðraeftirliti. Einnig sé rétt að geta þess að kærandi A átti fyrir annan son en hún hafi verið metin vanhæf til að fara með forsjá hans og var svipt forsjá með dómi þann 11. febrúar 2019. Eldri drengurinn sé nú vistaður í varanlegu fóstri hjá móðurömmu sinni. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar í málinu hefur kærandi A ekki sóst eftir umgengni við eldri drenginn frá því að hann var vistaður í fóstur.

 

Kærandi A greind með ADHD/ODD og ódæmigerða einhverfu ásamt kvíða og þunglyndi. Kærandi B á sér sögu um neyslu fíkniefna og áfengis. Kærendur hófu að búa saman um áramót 2016/2017. Á árinu 2019 tóku þau á leigu íbúð við G á H þar sem þau bjuggu þar til drengurinn fæddist í X. Þau bjuggu síðar um tíma hjá föðurömmu drengsins en fluttu síðan aftur í íbúðina á G. Í X fluttu þau til I.

 

Eins og áður segir bárust ítrekaðar tilkynningar um ofbeldi kæranda B gagnvart kæranda A þegar hún gekk með drenginn. Mæðravernd Heilbrigðisstofnunar F sendi tilkynningu í desember 2019 þar sem áverkar komu í ljós við skoðun á líkama kæranda A sem bentu til þess að hún væri beitt líkamlegu ofbeldi. Samkvæmt gögnum hafi verið um að ræða handaför á báðum upphandleggjum og mar á kvið. Í mars 2020 barst aftur tilkynning um að nýir og gamlir áverkar hafi sést í öllum skoðunum fram að þeim tíma. Áverkar voru til dæmis verulegir við bráðakomu kæranda A þann 6. mars 2020. Í lok mars 2020 barst enn önnur tilkynning frá Í um ofbeldi gagnvart kæranda A. Við skoðun þann 20. mars 2020 sáust áverkar á báðum höndum, fjöldinn allur af marblettum og brunasár á vinstra handarbaki og á bringu. Auk þess sást fjöldinn allur af marblettum á fótleggjum. Fleiri tilkynningar bárust um ofbeldi í kjölfarið. Þann 31. mars leitaði kærandi A til dæmis á kvennadeild Í þar sem hún hafði ekki fundið neinar hreyfingar hjá fóstrinu undanfarna klukkutíma. Var hún þá gengin 31 viku. Við komu var kærandi A í miklu uppnámi og með mikla líkamlega áverka, bæði nýja og eldri áverka. Um hafi verið að ræða hnefahögg í andlit og fjölda sára og marbletta sem voru metnir merki um barsmíðar. Kærendur hafa báðir neitað því að kærandi B beiti kæranda A ofbeldi en að mati tilkynnenda séu skýringar þeirra á áverkum ekki trúverðugar.

 

Í ljósi ofangreinds og alvarleika málsins ákvað barnavernd að hafa óboðað eftirlit með heimili kærenda. Þá óskaði barnavernd eftir forsjárhæfnismati fyrir kærendur þann 7. apríl 2020. Forsjárhæfnismatið lá fyrir þann 15. júlí 2020 og var niðurstaða þess sú að foreldrahæfni kærenda væri verulega skert vegna heimilisofbeldis, dómgreindarskorts og innsæisleysis þeirra beggja. Kærendur væru þar af leiðandi ekki fær um að skapa barni sínu þroskavænlegt umhverfi.

 

Drengurinn fæddist eins og áður sagði X. Stuttu eftir fæðingu hans barst enn á ný tilkynning til barnaverndar þar sem óttast var um velferð kæranda A og drengsins þar sem hún hafði farið með barnið heim til kæranda B. Þann 13. ágúst 2020 gripu starfsmenn barnaverndar til þess ráðs að neyðarvista drenginn utan heimilis. Eftir neyðarvistunina höfðu kærendur umgengni við drenginn annan hvorn föstudag frá kl. 14-16 og fór umgengnin fram undir eftirliti.

 

Þann 16. ágúst 2020 óskaði faðir kæranda A eftir aðstoð lögreglu við að sækja hana á heimilið og færa hana í Kvennaathvarfið eftir beiðni um aðstoð frá kæranda. Daginn eftir fór kærandi A aftur heim til kæranda B. Þann 20. ágúst fékk kærandi A flog eða krampa við akstur í Hvalfjarðargöngunum. Kærandi A var í kjölfarið flutt með sjúkrabifreið á Sjúkrahúsið á H. Í ljós kom að kærandi var hryggbrotin, eða með svokallað samfallsbrot á hrygg, en hún gat ekki útskýrt hvernig hryggjarliðurinn hafði brotnað.

 

Þann 27. ágúst 2020 úrskurðaði barnaverndarnefnd að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði frá 27. ágúst að telja, sbr. 27. gr. barnaverndarlaga. Úrskurðurinn var byggður á því að á meðgöngunni hefðu borist ítrekaðar tilkynningar frá mæðravernd, heilsugæslu, lögreglu og öðrum um líkamlegt ofbeldi föður í garð móður. Alvarlegar áhyggjur hefðu verið af því að lífi og heilsu bæði móður og barns hafi verið verulega ógnað. Móðir hafi neitað að hún byggi við ofbeldi en hún hafi verið margsaga um tilurð áverka og metin ótrúverðug. Hún hafi greint frá því að sambandið gengi illa og mikið væri um rifrildi. Þá hafi hún kallað eftir aðstoð við að fara frá föður, en hætt við eða farið til baka stuttu síðar. Faðir ætti sér sögu um erfiða hegðun, neyslu og ofbeldishneigð. Forsjárhæfnismat sýndi fram á vanhæfi foreldra til þess að fara með forsjá sonar síns, auk þess sem ofbeldishneigð föður og persónugerð væri með þeim hætti að ungbarni gæti stafað hætta í hans umsjá. Það væri mat starfsmanna barnaverndar að til þess að tryggja öryggi drengsins til frambúðar, að hann byggi við þroskavænleg skilyrði og að nauðsynlegum þörfum hans væri mætt, þá væri hagsmunum hans best borgið í varanlegu fóstri. Barnaverndarnefnd C tók undir það mat. Það var því álit nefndarinnar að brýnir hagsmunir drengsins mæltu með því að hann yrði vistaður utan heimilis.

 

Drengurinn var vistaður í fóstur hjá móðurömmu sinni, J. Eins og áður sagði er eldri sonur kæranda A vistaður í varanlegu fóstri hjá J ömmu sinni. Nýtur yngri drengurinn þannig samvista við bróður, móðurömmu og aðra úr móðurfjölskyldu í fóstrinu. Auk þess hefur J staðfest að kærandi A sé alltaf velkomið að heimsækja drenginn ef hún kemur ein í heimsókn.

 

Þann 1. október 2020 höfðaði […] C mál gegn kærendum fyrir Héraðsdómi F þar sem gerð var sú krafa að þau yrðu svipt forsjá drengsins. Kærendur kröfðust sýknu af kröfunni. Undir rekstri málsins höfnuðu kærendur því alfarið að kærandi B beitti kæranda A ofbeldi. Þá höfnuðu þau einnig að kærandi B neytti fíkniefna líkt og hann gerði áður og byggðu á því að áfengi væri ekki vandamál á heimilinu. Frekari upplýsingar um málsástæður kærenda megi finna í dómi Héraðsdóms F.

 

Undir rekstri dómsmálsins hafi dómkvaddur matsmaður, K sálfræðingur, verið fenginn til að leggja mat á forsjárhæfni kærenda. Niðurstaða hans þá hafi verið sú að hann taldi ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að byggja niðurstöðu á um hæfni kærenda til að fara með forsjá drengsins. Hann kvað þó ekkert því til fyrirstöðu að þeim yrði gefið tækifæri til að annast son sinn með stuðningi og eftirliti frá barnavernd á meðan þörf krefði. Mikilvægt væri að þau myndu sækja sálfræðimeðferð til að vinna úr áföllum og var ráðlagt að kærandi B styrkti sig með meðferð við fíkn sinni í vímuefni, þótt hann hefði verið í bata. Matsmaðurinn lýsti efasemdum yfir þeirri afstöðu barnaverndar að kærendur byggju í ofbeldissambandi. Matsmaður taldi engar vísbendingar vera um að kærandi B væri ofbeldishneigður.

 

[…] C fór í kjölfar þessa fram á að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn, sálfræðingarnir L og M. Yfirmatsgerð þeirra er ítarleg og er niðurstaðan sú að það sé mat yfirmatsmanna að kærendur uppfylli ekki nauðsynleg viðmið fyrir forsjárhæfni. Í matinu sé meðal annars rakið að matsmenn dragi ekki í efa að kærendur elski barn sitt og séu fær um að tjá það með atlotum og orðum. Hins vegar hafi ekki ríkt friður og stöðugleiki á heimili þeirra og mjög margt í málinu hafi bent til þess að kærandi A hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi af hendi kæranda B. Yfirmatsmenn töldu gögn um það vera svo alvarleg og koma frá svo áreiðanlegum aðilum að ekki væri verjandi að líta fram hjá þeim. Með hliðsjón af þeim og áhættumati vegna ofbeldis töldu matsmenn hættu á að kærandi B gæti beitt ofbeldi inni á heimilinu og því væri barnið ekki í öruggum höndum þar.

 

Rétt sé að geta þess að í dómsmálinu lá einnig fyrir sálfræðilegt mat um forsjárhæfni kæranda A frá 19. maí 2018 sem O, sérfræðingur í klínískri sálfræði, vann fyrir Barnavernd Ó í tengslum við umfjöllun um mál eldri sonar kæranda. Helstu niðurstöður þess voru þær að geta kæranda A til að gæta öryggis drengsins væri takmörkuð. Þá kom fram í matinu að hún hefði sinnt lítið og illa þeirri stuttu umgengni sem hún hafi haft og lítið barist fyrir því að halda drengnum hjá sér. Þá kom fram í matinu að kærasti hennar, kærandi B, virtist ekki vilja fá drenginn til þeirra. Niðurstaða matsmanns var sú að kærandi hefði ekki næga hæfni til að fara með forsjá eldri drengsins og afar litlar líkur væru á því að það breyttist næstu árin. Þetta mat hafi verið mikilvægt gagn þegar Héraðsdómur N komst að þeirri niðurstöðu að kærandi A skyldi svipt forsjá eldri sonar síns.

 

Héraðsdómur F kvað upp dóm í málinu þann 12. október 2021. Í niðurstöðu dómsins sé meðal annars lagt til grundvallar að afar sterkar vísbendingar séu um að kærandi A hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu kæranda B og að hagsmunir drengsins hafi verið leið til þess að slakað yrði almennt á sönnunarkröfum í þessum efnum, jafnvel þótt ekki væri aðkallandi þörf á því í málinu að mati dómsins. Þá taldi dómurinn óhjákvæmilegt að leggja yfirmatið til grundvallar niðurstöðu í málinu, enda væri matið vel unnið, afar ítarlegt og engir gallar á því sem drægju úr gildi þess. Matið endurspeglaði þar að auki önnur gögn málsins. Niðurstaða dómsins var þar af leiðandi sú að kærendur væru óhæf til að fara með forsjá drengsins. Í dómnum kemur einnig fram að það sé mat dómsins að umgengnisréttur kæranda hafi verið rúmur miðað við sambærileg mál.

 

Kærendur hafa áfrýjað dómi Héraðsdóms F til Landsréttar, sbr. áfrýjunarstefnu sem var gefin út þann 25. október 2021.

 

Frá því að drengurinn var vistaður í fóstur hjá móðurömmu sinni höfðu kærendur haft umgengni undir eftirliti, tvisvar í mánuði, í tvær klukkustundir í senn. Þau sinntu umgengni ásamt föðurömmu drengsins. Einnig hafði kæranda A staðið til boða að hitta drenginn ein á heimili móður sinnar en hún hafði ekki nýtt sér það. Frá því að dómur féll í Héraðsdómi F hafi ekki verið umgengni en þann 19. október 2021 óskuðu foreldrar eftir aukinni umgengni við drenginn, þ.e að lágmarki annan hvorn föstudag í tvær klukkustundir í senn, auk einnar helgar í mánuði, frá föstudegi til sunnudags. Foreldrar hefðu verið upplýstir með tölvupósti þann 21. október 2021 um að ekki yrði gert ráð fyrir umgengni með sama hætti í ljósi þess að dómur væri fallinn. Þann 22. október 2021 var beiðni um aukna umgengni lögð fyrir meðferðarfund en niðurstaða fundarins var sú að henni væri hafnað og erindinu vísað til barnaverndarnefndar. Þann 26. október 2021 óskaði föðuramma drengsins einnig eftir umgengni við hann.

 

Með greinargerð, dags. 17. nóvember 2021, lögðu starfsmenn barnaverndar til við barnaverndarnefnd að umgengni foreldra við drenginn tæki mið af forsjársviptingu foreldranna og því væri hún að hámarki þrisvar til fjórum sinnum á ári undir eftirliti. Greinargerð lögmanns kærenda, dags. 17. nóvember 2021, hafi einnig verið lögð fyrir nefndina. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar þann sama dag. Kærendur sóttu fundinn ásamt lögmanni sínum og föðurömmu drengsins.

 

Niðurstaða barnaverndarnefndar þann 22. nóvember 2021 hafi verið sú að taka undir mat starfsmanna barnaverndar. Í bókun nefndarinnar kemur fram:

 

„Barnaverndarnefnd C getur ekki fallist á kröfu foreldra um aukna umgengni með vísan til greinargerðar starfsmanna í barnavernd, fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms F nr. E-X og annarra gagna. Fyrir liggur að foreldrar hafi verið sviptir forsjá og er drengurinn vistaður á vegum barnaverndar. Til að tryggja að drengurinn fái þann stöðugleika sem mikil áhersla er lögð á tekur nefndin undir mat starfsmanna og telur fyrir bestu að umgengni verði 3-4 sinnum á ári, í tvær klukkustundir í einu undir eftirliti. Nefndin telur það ekki þjóna hagsmunum né þörfum barnsins með vísan til 74. gr. bvl. nr. 80/2002 að  umgengni verði rýmkuð í samræmi við kröfur foreldra. Ekki er talin ástæða til að taka sérstaklega fyrir umgengni föðurömmu við drenginn enda liggur fyrir að hún hafi og geti áfram nýtt sér umgengni með foreldrum.“

 

Rétt sé að geta þess að eftirfarandi umfjöllun er ekki tæmandi um öll málsatvik. Vísast til fyrirliggjandi gagna málsins til frekari upplýsinga.

 

Afstaða Barnaverndarnefndar C sé sú að krafa foreldra um umgengni sé ekki í samræmi við hagsmuni drengsins og þau markmið sem stefnt sé að með vistun hans í fóstri, þ.e. að hann búi á öruggum stað þar sem hann njóti stöðugleika og þeirrar umhyggju og umönnunar sem hann þurfi á að halda. 

 

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eiga foreldrar rétt á umgengni við barn sitt, nema það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanlegt þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þá skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Þá er það og meginregla í barnaverndarstarfi öllu að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

 

Í fyrirliggjandi dómi Héraðsdóms F í málinu kemur fram að fullvíst megi telja að líkamlegri og andlegri heilsu drengsins og þroska sé hætta búin fari kærendur með forsjá hans. Með vísan til gagna málsins og grunnreglu barnaréttar um að hagsmunir barna skuli hafðir í fyrirrúmi, eftir því sem velferð þeirra krefst, verði hagsmunir kærenda af áframhaldandi forsjá barnsins að víkja. Dómurinn telji að tryggja verði drengnum það framtíðarheimili sem hann nú hefur þar sem líkamleg og andlega heilsa hans og þroskavænlegar uppeldisaðstæður séu tryggðar.

 

Barnaverndarnefndin telur að sömu sjónarmið eigi við þegar leyst sé úr kröfum foreldra um umgengni. Barnaverndarnefndin telur að svo mikil umgengni sem foreldrar krefjast geti raskað þeirri ró og stöðugleika í lífi drengsins sem stefnt er að með vistun hans í fóstur. Mikilvægt sé að þeim stöðugleika, sem komið hefur verið á, verði ekki raskað. Einnig er bent á að í yfirmatsgerð, sem lögð var fram fyrir héraðsdóm, kemur fram að það sé alla jafna barni þroskavænlegt að alast upp með systkini. Í fóstrinu hjá móðurömmu sinni gefst drengnum kostur á að alast upp með stóra bróður sínum, sem er nálægur honum í aldri, við góðar og traustar aðstæður og sterkara tengslanet. 

 

Að mati barnaverndarnefndarinnar sé ekki raunsætt að drengurinn fari aftur í forsjá foreldra sinna og því sé mikilvægast að vinna að því markmiði að hann búi við sem mesta ró, öryggi og stöðugleika á fósturheimilinu. Barnaverndarnefnd telji, í ljósi fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms F, að gera verði ráð fyrir að drengurinn verði vistaður í varanlegu fóstri hjá móðurömmu sinni. Til að tryggja stöðugleika, sem mikil áhersla sé lögð á, sé ekki talið honum fyrir bestu að vera í eins ríkri umgengni við foreldra sína líkt og var fyrir uppkvaðningu dóms. Taka verði mið af því hversu ungur drengurinn sé og hverjar þarfir hans séu. Hins vegar sé rétt og eðlilegt að drengurinn þekki foreldra sína og það megi ætla að umgengni í þrjú til fjögur skipti á ári geti viðhaldið þeim tengslum sem fyrir séu.

 

Auk ofangreindrar umgengni standi kæranda A til boða að hitta báða syni sína á heimili móður sinnar komi hún ein, án kæranda B. Að sögn kæranda A hefur það skilyrði komið í veg fyrir umgengni. Í bókun fundar hjá barnaverndarnefnd kom fram að kærandi A myndi nýta sér slíkar heimsóknir fengi hún fulltrúa barnaverndar með sér. Ekki liggur fyrir beiðni um slíka fylgd, en komi slík beiðni fram verður afstaða sérstaklega tekin til þess, einnig með vísan til 74. gr. a. barnaverndarlaga.

 

Barnaverndarnefnd telur rétt að geta þess að nú liggur fyrir munnleg umsögn frá stuðningsfjölskyldu drengsins, skráð þann 29. desember 2021. Í henni komi fram að stuðningsfjölskylda sjái mikinn mun á drengnum eftir að umgengni við foreldra var minnkuð eftir úrskurð barnaverndarnefndar. Drengurinn hafi ávallt komið til stuðningsfjölskyldu eftir umgengni og það hafi tekið tíma að róa drenginn sem hafi verið óöruggur og kvíðinn. Í þau skipti sem drengurinn hafi komið, án þess að hafa verið í umgengni áður, hafi hann hins vegar verið glaður, öruggur með sig og liðið vel.

 

Af hálfu barnaverndarnefndar sé þeim sjónarmiðum sem fram koma í kæru um að úrskurður barnaverndarnefndar brjóti gegn Barnasáttmálanum eða öðrum alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt, alfarið hafnað. Að mati barnaverndarnefndarinnar sé litið fram hjá mikilvægu atriði í umfjöllun af hálfu kærenda um umræddar skuldbindingar. Til dæmis sé sérstaklega tekið fram í niðurlagi 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans að virða skuli rétt barns til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldra með reglubundnum hætti, sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Þetta komi einnig skýrlega fram í áliti umboðsmanns barna frá 25. mars 2014 sem vísað sé til af hálfu kærenda, það er að heimilt sé að takmarka umgengnisrétt barns ef talið er að umgengni sé andstæð hagsmunum barnsins. Það eigi til dæmis við ef ljóst sé að foreldrar eru ekki hæfir til að sinna börnum sínum eða stefna velferð þeirra í hættu. Að mati barnaverndarnefndar eigi þetta við í málinu, sbr. ofangreindan rökstuðning, og því fari best á að umgengni sé þrisvar til fjórum sinnum á ári. 

 

Barnaverndarnefnd vísar einnig til þess að úrskurður um umgengni tekur mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í athugasemdum um 74. gr. í frumvarpi til barnaverndarlaga. Þar segir meðal annars:

 

„Leggja verður áherslu á að nokkuð önnur sjónarmið gilda um mat á umgengni við barn í fóstri en um rétt til umgengni samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 20/1992. Erfitt er að gefa leiðbeiningar um inntak umgengnisréttarins í lögum en nokkur sjónarmið má þó nefna. Við ákvörðun um umgengni verður barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns í hverju máli. Gæta verður þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verður almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna. Þegar barni er ráðstafað í fóstur sem ætlað er að vara þar til barn verður lögráða verður almennt að gera ráð fyrir að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og hafi jafnvel verið sviptir forsjá barnsins af ástæðum sem lýst er í 29. gr. frumvarpsins. Markmið fósturs er þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en árétta ber að meta þarf hagsmuni barnsins í hverju tilviki og sterk rök þurfa að vera fyrir því að hafna umgengni með öllu.“

 

Barnaverndarnefnd telur að höfð hafi verið hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem þarna séu nefnd þegar úrskurðað hafi verið um umgengni, þ.e. umgengnin sé í samræmi við markmiðin með fóstri, ætlað sé að fóstrið verði varanlegt og hagsmunir barnsins krefjast þess að umgengni verði takmörkuð. Þá ítrekar barnaverndarnefnd að sömu sjónarmið eiga ekki við um umgengni þegar barn er í fóstri og um umgengni þegar um er að ræða skilnaðarbörn, sbr. einnig ummæli í frumvarpinu hér fyrir ofan.

 

Að mati barnaverndarnefndar hnekkja framlögð gögn af hálfu kærenda um vefjagigtargreiningu kæranda A ekki fyrirliggjandi gögnum og sönnunarmati Héraðsdóms F um tilkomu áverka.

 

Með vísan til alls ofangreinds sé það mat Barnaverndarnefndar C að það þjóni hagsmunum drengsins best að umgengni við foreldra sé með þeim hætti sem kveðið er á um í úrskurði barnaverndarnefndar frá 22. nóvember 2021. Afstaða barnaverndar sé því sú að úrskurðarnefnd velferðarmála beri að hafna öllum kröfum kærenda og staðfesta úrskurð barnaverndarnefndar í málinu.

IV. Afstaða barns

Vegna ungs aldurs drengsins var honum ekki skipaður talsmaður.

V. Afstaða fósturmóður

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir gögnum frá barnaverndarnefndinni um afstöðu fósturmóður. Upplýsingar um afstöðu fósturmóður bárust með tölvupósti 25. apríl 2022. Fram kemur að fósturmóðir kjósi að umgengni verði sem minnst á meðan drengurinn sé þetta ungur og hafi ekki getu til að segja sjálfur frá hvað hann vilji. Fósturmóðir sé sátt með úrskurð barnaverndarnefndarinnar um að drengurinn hitti foreldra sína fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn og undir eftirliti.

Fósturmóðir kveðst skilja að foreldrar vilji fá að hitta drenginn meira en segist ekki vita hvaða hag drengurinn hafi af því. Hún hafi áhyggjur af því hvernig drengnum hafi liðið eftir umgengni og lýsir því sem svo að hann virðist vera „tættur, þreyttur og ringlaður“. Hann hafi komið betur stemmdur eftir síðustu umgengni 5. apríl 2022 en virðist þó ekki gera sér grein fyrir hverja hann sé að hitta. Í ljósi þess hversu lítill hann sé geti hann takmarkað tjáð sig um sína upplifun.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn E er tæplega X ára gamall. Kærendur hafa verið svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms F þann 12. október 2021. Kærendur hafa áfrýjað dóminum til Landsréttur. Drengurinn er í vistun hjá móðurömmu sinni.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram, að virtum gögnum málsins, að það sé álit barnaverndarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best að umgengni verði háttað í samræmi við tillögur starfsmanna barnaverndarnefndarinnar og að ekki verði fallist á kröfur foreldra. Bent sé á að það standi móður til boða að hitta drenginn á heimili fósturforeldris komi hún ein, þ.e. án föður. Í bókun fundar hafi komið fram að móðir myndi nýta sér slíkar heimsóknir fengi hún fulltrúa barnaverndar með sér. Ekki liggi fyrir beiðni um slíka fylgd, en komi hún fram verði tekin afstaða sérstaklega til þess og þá einnig 74. gr. a. barnaverndarlaga.

Kærendur, sem eru kynforeldrar drengsins, krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að umgengni barnsins við kærendur verði ákveðin í samræmi við kröfu þeirra fyrir barnaverndarnefndinni þann 17. nóvember 2021, þ.e. að umgengni drengsins við kærendur verði ákveðin að minnsta kosti annan hvorn föstudag, tvær klukkustundir í senn, auk einnar helgar í mánuði, frá föstudegi til sunnudags.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengisréttarins eða framkvæmd hans.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem barnið er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni barnsins við kærendur á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þess best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Varðandi kröfu kærenda til umgengni við drenginn verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir hans af því að njóta frekari umgengni við kærendur. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni drengsins við kærendur með hliðsjón af því að ekki er verið að reyna styrkja tengsl þeirra enn frekar. Hagsmunir drengsins eru best varðir með því að ró skapist í kringum hann og að hann fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Úrskurðarnefndin telur að við ákvörðun á umgengni við núverandi aðstæður þurfi að taka sérstakt tillit til ungs aldurs drengsins og þeirra þarfa sem hann hefur vegna þess.

Með vísan til alls framangreinds er það því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að umgengni við kærendur og fyrirkomulag umgengni hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar C.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar C frá 22. nóvember 2021 um umgengni E, við A og B, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum