Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 475/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 475/2022

Mándaginn 21. nóvember 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 21. september 2022, kærði C lögmaður, f.h. C, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 16. september 2022 vegna umgengni kæranda við son kæranda, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn, D, er X ára gamall. Kærandi er móðir drengsins og fer hún ein með forsjá hans. Drengurinn er nú í tímbundinni vistun utan heimilis hjá móðurömmu sinni og móðurafa.

Mál drengsins hefur verið unnið á grundvelli barnaverndarlaga í kjölfar tilkynningar sem barst 8. október 2021. Mál drengsins fór fyrir fund Barnaverndarnefndar B þann 18. janúar 2022 með tillögu starfsmanna um tveggja mánaða vistun drengsins utan heimilis. Kærandi samþykkti ekki vistun drengsins utan heimilis og var málið því tekið til úrskurðar þann 25. janúar 2022. Kærandi var ekki til samvinnu um að afhenda drenginn og því var drengurinn færður úr skóla og komið í umsjá móðurömmu og afa.

Þann 8. mars 2022 lagði barnaverndarnefnd til á fundi nefndarinnar sex mánaða áframhaldandi vistun drengsins utan heimilis. Kærandi samþykkti ekki vistun drengsins og var því gerð krafa um vistun hans utan heimilis fyrir Héraðsdómi B. Héraðsdómur féllst ekki á sex mánaða vistun drengsins en samþykkti fjögurra mánaða vistun hans, eða til 25. júlí 2022. Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem úrskurðaði þann 7. júní 2022 að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í sex mánuði, eða til 25. september 2022.

Mál drengsins var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B 6. september 2022 vegna tillögu um áframhaldandi vistun utan heimilis í sex mánuði og umgengni í vistun. Kærandi samþykkti hvorki vistun utan heimilis né að taka á móti óboðuðu eftirliti og þá náðist ekki samkomulag um umgengni á meðan vistun stæði. Málið var því tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að A, skuli hafa umgengni við D, einu sinni í viku í 2 klst. í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Umgengni verði með þessum hætti á núverandi vistunartíma eða til 25. september 2022. Þá verði umgengni með sama hætti í 8 vikur í áframhaldandi vistun drengsins frá og með 25. september 2022. Skilyrði umgengni er að móðir sé í jafnvægi og hæf til að sinna umgengni við drenginn. Móðir eigi auk þess umgengni við drenginn með símtölum þrisvar sinnum í viku.

Barnaverndarnefnd B ákveður að eftirlit verði haft með heimili drengsins D, næstu sex mánuði, sbr. a liður 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. september 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 4. október 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. október 2022, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Kærandi telur að engar forsendur séu fyrir úrskurðinum né ástæða til að kveða á um svo íþyngjandi aðgerðir sem séu andstæðar vilja barnsins og móður. Virða beri skýran vilja drengsins varðandi umgengni við móður sína.

Móðir sé ekki í neyslu og þá sé ekki rétt að móðir hafi hafnað samvinnu en hún treysti ekki starfsfólki Barnaverndar B til að taka af henni fíkniefnapróf og hefur lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að undirgangast fíkniefnapróf hjá fagmanni, til dæmis á heilsugæslustöð. Vilji móður til samvinnu hafi hins vegar verið hundsaður og hún lítilsvirt á fundi Barnaverndarnefndar B.

Ekki hafi verið tekið tillit til vilja drengsins við vinnslu málsins. Rannsóknarregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga svo og ákvæði barnaverndarlaga hafi því verið brotin við vinnslu málsins. Þá verði ástæðulaust eftirlit með heimili drengsins að teljast brot á friðhelgi heimilisins.


 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í kæru lögmanns móður til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 21. september 2022 sé gerð krafa um að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 16. september 2022 verði felldur úr gildi.

Barnaverndarnefnd vísar til þess að í úrskurði nefndarinnar frá 16. september 2022 komi fram að meta þurfi umgengni með hliðsjón af hagsmunum drengsins. Nefndin hafi úrskurðað að kærandi hefði umgengni við drenginn einu sinni í viku, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnaverndar B á meðan vistun drengsins utan heimilis væri í gildi. Drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis með úrskurði barnaverndarnefndar þann 19. september 2022 og hafi borgarlögmanni verið falið að krefjast þess fyrir héraðsdómi að vistun drengsins utan heimilis skyldi standa í alls sex mánuði, eða til 26. mars 2023.

Markmiðið með vistun drengsins utan heimilis sé að gefa kæranda færi á að bæta uppeldisaðstæður sínar og sé stefnt að því að drengurinn fari aftur í umsjá hennar að vistun lokinni. Nefndin hafi lagt áherslu á það í úrskurði sínum að kærandi nýti vel vistunartíma drengsins utan heimilis til að vinna að því að bæta uppeldisaðstæður sínar og leita sér faglegrar aðstoðar í þeim efnum.

Starfsmenn Barnaverndar B hafa ítrekað reynt að skipuleggja umgengni kæranda við drenginn, til dæmis í bókunum meðferðarfunda, dags. 10. mars og 3. maí 2022, en að mati starfsmanna barnaverndar hefur kærandi ekki verið til samstarfs um að eiga umgengni við drenginn.

Talsmannsskýrsla drengsins barst þann 5. september 2022 og þar komi fram að drengnum líði vel hjá móðurforeldrum sínum en hann vilji búa hjá móður sinni. Drengurinn lýsti því að hann vildi hitta móður sína og þá helst hverja helgi á meðan vistun stæði yfir. Vilji drengsins sé skýr um að vilja fá að hitta móður sína og taldi nefndin því mikilvægt að drengurinn fengi notið umgengni við móður sína á meðan vistun hans utan heimilis stæði yfir. Nefndin hafi því úrskurðað að kærandi hefði umgengni við drenginn einu sinni í viku. Nefndin og starfsmenn barnaverndar telja mikilvægt að kærandi sé til samstarfs og þiggi umgengni við son sinn.

Að mati starfsmanna hefur kærandi ekki sýnt samstarfsvilja við barnavernd en hún hafi hvorki sinnt óboðuðu eftirliti né viljað taka vímuefnapróf til að staðfesta edrúmennsku sína. Mál drengsins hafi verið unnið hjá Barnavernd B á grundvelli barnaverndarlaga frá 8. október 2021 og á þeim tíma hafi 20 tilkynningar og bakvaktarskýrslur borist um áhyggjur af drengnum í umsjá kæranda og vegna vímuefnaneyslu hennar. Starfsmenn hafa því talið óboðað eftirlit og vímuefnapróf vera nauðsynleg í málinu með hagsmuni drengsins að leiðarljósi.

Ekki verði séð af gögnum málsins að rannsóknarregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga eða ákvæði barnaverndarlaga hafi verið brotin við meðferð málsins eins og haldið sé fram í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé það mat Barnaverndarnefndar B að sú ákvörðun að móðir eigi umgengni við son sinn einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn á meðan vistun drengsins utan heimilis stendur yfir, samræmist hagsmunum drengsins.

Í ljósi alls framangreinds, allra gagna málsins og með vísan til greinargerðar starfsmanna barnaverndar, úrskurðar barnaverndarnefndar þann 16. september 2022 og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV.  Sjónarmið drengsins

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns, dags. 5. september 2022, þar sem meðal annars var aflað upplýsinga um afstöðu drengsins til umgengni. Í skýrslunni kemur fram að drengurinn vilji hitta móður sína eins mikið og kostur er, að minnsta kosti um hverja helgi. Hann kvaðst ekki hafa fengið að hitta hana lengi og sakni hennar mikið. Hann sagðist ræða við hana í síma nokkrum sinnum í viku sem hann taldi betra en ekkert. Drengurinn kvaðst líða vel eftir að hafa rætt við móður sína en hann finni fyrir miklum söknuði.

V.  Niðurstaða

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi er móðir drengsins og fer hún ein með forsjá hans. Drengurinn er í tímabundnu fóstri hjá móðurforeldrum sínum.

Með hinum kærða úrskurði frá 16. september 2022 var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda yrði einu sinni í viku, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Skilyrði umgengni sé að kærandi sé í jafnvægi og hæf til að sinna umgengni við dreginn. Kærandi eigi auk þess umgengni við drenginn með símtölum þrisvar sinnum í viku. Þá var kveðið á um eftirlit með heimili drengsins í sex mánuði í samræmi við ákvæði a. liðar 1. mgr. 26. gr. bvl.

Kærandi telur að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð málsins þar sem ekki hafi verið tekið tillit til vilja drengsins til umgengni við kæranda. Því til viðbótar telur kærandi að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl.,  auk þess sem úrskurðurinn brjóta í bága við meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Úrskurðarnefndin telur að barnaverndarnefnd hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins og verður því að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. bvl. á barn sem vistað er á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd leitast við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja, að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda á viðkomandi heimili eða stofnun. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B kemur fram að kærandi hafi ekki verið fús til samstarfs. Áhyggjur séu af velferð drengsins þar sem öll hegðun kæranda virðist benda til þess að hún sé í neyslu líkt og tilkynningar hafi snúist um og lögregluafskipti af henni hafi staðfest. Reynt hafi verið að koma á umgengni en kærandi hefur ekki verið til samstarfs um að hitta son sinn undir þeim skilyrðum sem sett hafi verið fram. Í ljósi þessa verður að fallast á mat Barnaverndarnefndar B um að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Í ljósi atvika málsins og þess að stefnt skuli að því að drengurinn fari aftur í umsjá kæranda að lokinni vistun utan heimilis verður að fallast á þá niðurstöðu Barnaverndarnefndar B um að eftirlit verði haft með heimili drengsins í sex mánuði í samræmi við heimild a-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl. 

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 81. gr. bvl. þegar umgengni barna í vistun við foreldra og nákomna er ákveðin og að barnaverndarnefndin hafi lagt mat á málið út frá hagsmunum drengsins. Í því felst að gætt hafi verið meðalhófs og jafnræðis við úrlausn málsins. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 16. september 2022 varðandi umgengni A, við D, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum