Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Mál nr.11/2010, úrskurður 9. ágúst 2010

 

Úrskurður

uppkveðinn 9. ágúst 2010

í málinu nr. 11/2009:

Landsnet

gegn

Herði Jónssyni.

eiganda Höfða í Mosfellsbæ.

 

 

Ár 2010, Mánudaginn 9. ágúst, var ofangreint mál tekið fyrir tekið fyrir í Matsnefnd eignanámsbóta og kveðinn upp í því svolátandi

ú r  s  k u r ð u r:

 

1.  Skipan nefndarinnar.

Matsnefndina skipa í þessu máli:  Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., formaður ad hoc og Benedikt Bogason, dómsstjóri og Óskar Sigurðsson hrl. og löggiltur fasteignasali, sem kvaddir voru til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

Hinn reglulegi formaður nefndarinnar vék sæti í málinu. Með bréfi dagsettu hinn 19. desember s.l. skipaði dómsmálaráðherra Sigurð Helga Guðjónsson formann ad hoc í þessu máli og í málinu nr. 12/2010 en talið var æskilegt að sama nefndin fari með þessi tvö mál og úrskurði í þeim.

 

2.  Aðilar:

Eignarnemi:           Landsnet hf.,Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík.

Eignarnámsþoli:    Hörður Jónsson, Bakkaflöt 12, Garðabæ.

 

3.  Lögmenn aðila:

Lögmaður eignarnema:         Þórður Bogason hrl.

Lögmaður eignarnámsþola:  Hilmar Ingimundarson, hrl.

 

4.  Málsmeðferðin fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

Með bréfi dagsettu 23. nóvember s.á. tilkynnti hinn reglulegi formaður nefndarinnar dómsmálráðuneytinu að hann viki sæti í málinu og óskaði eftir því að ráðuneytið skipað ad hoc formann til að fara með málið og var Sigurður Helgi Guðjónsson hrl. skipaður til þess hinn 18. desember 2009. Málið var tekið fyrir miðvikudaginn 19. maí s.l. og var þá rætt um málsmeðferðina, farið yfir gögn þess og stöðu og var málinu síðan frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu matsþola til mánudagsins 7. júní s.á.

 

Þann dag var málið tekið fyrir og gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar og ákveðinn var tími fyrir munnlegan flutning málsins þriðjudaginn 22. júní s.á. Þá var málið flutt munnlega af lögmönnum aðila og að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar.

 

Á engu stigi málsins komu fram athugasemdir við skipan nefndarinnar og hæfi nefndarmanna né við málsmeðferðina. Sáttagrundvöllur reyndist á engu stigi fyrir hendi. Málið hefur dregist nokkuð vegna sumarleyfa og anna matsmanna.

 

5.  Matsbeiðni. Andlag og umfang eignarnámsins

Í matsbeiðnin, dags. 6. október 2009 segir að eignarnemi hafi ákveðið að nýta sér heimild í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. úrskurð iðnaðarráðherra, dags. 5. október 2009, til að taka eignarnámi tiltekin landsréttindi í landi jarðarinnar Höfða í Mosfellsbæ, vegna þess hluta 1132kV háspennulínu, Nesjavallalínu 2, sem áformað er að leggja um land hennar. Ekki hafi náðst samkomulag við eiganda um umráðatöku og bætur vegna línunnar.

 

Í fyrsta lagi nái heimildin til að eignarnemi leggi 900 metra langan 132 kV jarðstreng, svokallaða Nesjavallalínu 2 ásamt ljósleiðara um land jarðarinnar, og fylgir 10 metra breitt helgunarsvæði strengnum og ljósleiðara, sem liggur meðfram vegi nr. 435, Nesjavallaleið, skv. meðfylgjandi yfirlitsmynd. Að framkvæmdum loknum jafni eignarnemi jarðrask og sáir í gróðursár. Verði mannvirki þessi óskoruð eign hans eða þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna jarðstrengsins og ljósleiðara ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessara setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu.

 

Í öðru lagi gildi þær kvaðir og höft sem leiða af lögum og reglum um háspennujarðstrengi. Til að tryggja öryggi bæði strengsins og vegfarenda um helgunarsvæðið, er allt verulegt rask á jarðvegi helgunarsvæðisins óheimilt. Rask telst verulegt ef það veldur raski á meira dýpi en 20 cm frá ósnortnu yfirborði helgunarsvæðisins. Sé nauðsynlegt að leggja vegslóða yfir strenginn, leggja lagnir eða fara í aðrar framkvæmdir innan helgunarsvæðisins sem valda raski umfram framangreinda 20 cm, skal það gert í samráði við og undir eftirliti eignarnema.

 

Í þriðja lagi sé eignarnema jafnframt heimilt um leið að leggja ljósleiðara með jarðstrengnum er lúti sömu kvöðum og réttindum og jarðstrengurinn.

 

Í fjórða lagi skuli eignanemi hafa óhindraðan umferðarétt um vegslóða og aðgang að helgunarsvæði jarðstrengsins og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar framkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar.

 

Jafnframt segir í beiðninni að eignarnámið sé ekki víðtækara en nauðsynlegt sé og því sé ekki krafist fullkominna eignaryfirráða á landspildunni. Eignarnemi geri því ekki athugasemd við að eignarnámsþoli leyfi nýtingu landsins svo fremi sem það leiði ekki til verulegs rasks á helgunarsvæðinu, skapi ekki hættu fyrir rekstur línunnar né tálmi aðgengi að mannverkum eignanema.

 

Með vísan til ofangreindra heimilda, svo og með vísan til 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995 og 4. gr. laga um framkvæmd eignarnáms fór eignarnemi þess á leit að nefndin meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna þessa. Jafnframt var óskað eftir heimild til umráðatöku þá þegar.

 

 

 

 

6.  Eignarnámsheimild. Umráðataka. Upphafsaðgerðir.

Iðnaðarráðherra veitti með úrskurði 5. október 2009 eignarnema heimild til að taka eignarnámi tiltekin landsréttindi í landi Höfða, sbr. heimild 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

 

Í téðri matsbeiðni óskaði eignarnemi eftir að matsnefnd heimilaði umráðatöku hins eignarnumda, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973. Matsnefndin tók málið fyrir hinn 8. október 2009 og lagði lögmaður eignarnema þá fram téða matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Var síðan farið á vettvang og aðstæður skoðaðar.

 

Með bréfi dags. 10. október 2009 heimilaði matsnefnd eignarnámsbóta eignarnema umráð hins eignarnumda gegn greiðslu tryggingar að fjárhæð kr. 2.000.000. Hinn 12. október 2009 tilkynnti eignarnemi matsnefndinni og eignarnámsþola að trygging hefði verið innt af hendi og umráð hins eignarnumda þar með tekin.

 

7.  Kröfugerð aðila.

7.1. Kröfur eignarnema:

Að matsnefndin meti hæfilegar bætur úr hendi eignarnema til eignarnámsþola vegna framkvæmda í landi jarðarinnar Höfða í Mosfellsbæ sem varða þann hluta 132 kV háspennulínu, Nesjavallalínu 2, sem lögð verður um land jarðarinnar.

 

7.2 Kröfur eignarnámsþola:

Að eignarnámsbætur úr hendi eignarnema vegna lagningar jarðstrengja um jörðina Höfða verði ákvarðaðar kr. 50.000.000.- krónur fimmtíumilljónir00/100.- og að eignanema verði gert að greiða eignanámsþola lögfræðikostnað hans að viðbættum virðisaukaskatti.

 

8.  Málavextir.

Eignarnemi lýsir málavöxtum svo:

Á árinu 2007 hóf eignarnemi undirbúning að lagningu 132 kV línu (jarðstrengs) frá tengivirki við Nesjavallavirkjun að aðveitustöð Landsnets á Geithálsi. Nesjavallavirkjun er tengd landskerfinu með einni 132 kV háspennulínu, Nesjavallalínu 1. Eftir að virkjunin var stækkuð í 120 MW rafafl þótti nauðsynlegt að auka flutningsgetu frá virkjuninni og koma á varatengingu, Nesjavallalínu 2, sem hér er fjallað um. Með nýrri línu léttir álagi af Nesjavallalínu 1 sem nú þegar er orðin yfirlestuð, orkutöp minnka og hættan minnkar á truflunum á núverandi línu sökum yfirlestunar.

 

Hvað Höfða varði sé um að ræða 900 metra kafla sbr. meðfylgjandi yfirlitskort. Helgunarsvæði strengsins er 10 metra breitt og eru því heildaráhrif á land jarðarinnar 0,9 ha. Við val á jarðstrengsleiðinni var haft að markmiði að fylgja röskuðum svæðum eins og unnt væri. Áætluð strengleið er að verulegu leyti innan veghelgunarsvæðis Nesjavallaleiðar (nr. 435) og Hafravatnsvegar (nr. 431). Þar að auki fylgir strengurinn mannvirkjabelti milli Nesjavalla og Geitháls, þ.e.a.s. vegi og hitaveitulögn, og liggur því nánast hvergi um óraskað land. Jarðstrengurinn verður grafinn niður og er áætlað að skurðurinn verði að lágmarki 1,25 m að dýpt og u.þ.b. 1,3-1,6 m að breidd við yfirborð.

 

Samhliða strengnum verður lagður ljósleiðari alla strengleiðina, en hann er nauðsynlegur til stýringar. Lagðir verða þrír einleiðarar í skurðinn, á um 1 m dýpi. Í þessu tilviki var unnt útfrá hagkvæmnis- og öryggisástæðum og ákveðið að velja um að setja línuna í streng í stað þess að reisa loftlínu en byggingarbann vegna loftlínu nær yfir stærra svæði en þegar um jarðstreng er að ræða.

 

Verkið var tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem úrskurðaði hinn 1. júní 2007 að framkvæmdin væri ekki matsskyld samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt veitti Orkustofnun eignanema 22. apríl 2009 til þess að reisa og reka Nesjavallalínu 2, sbr. ákvæði raforkulaga þar að lútandi. Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar er umrætt landsvæði ekki skipulagt og telst opið óbyggt svæði. Hinn 19. febrúar 2008, var samþykkt breyting á aðalskipulaginu í samræmi við áætlanir um lagningu jarðstrengsins. Engar athugasemdir bárust frá landeigendum á gjörvallri línuleiðinni.

 

Gert er ráð fyrir því að jarðstrengurinn liggi á skipulögðu mannvirkjabelti, samhliða vegi í landi jarðarinnar eða hitaveituæð. Lögbundið helgunarsvæði vegarins dregur mjög úr áhrifum framkvæmdarinnar. Eignanemi mun styrkja jarðstrenginn sérstaklega á sinn kostnað þar sem þörf er á að aka stórum farartækjum yfir hann ef framtíðarlandnot kalla á vegagerð. Því eru áhrif framkvæmdarinnar eins lítil og unnt er. Telja má einnig að framkvæmdin muni ekki á neinn hátt hamla framtíðarnýtingu jarðarinnar. Ítreka verður að um minniháttar röskun er að ræða.

 

Landeigendum á línuleiðinni var af hálfu eignarnema sent bréf, dags. 12. júní 2007, þar sem framkvæmdin var kynnt og óskað eftir athugasemdum landeigenda við þær strengleiðir sem til skoðunar voru. Hinn 9. febrúar 2009 sendi eignarnemi landeigendum á línuleiðinni bréf, ásamt yfirlitsmynd af línuleiðinni, þar sem þeim var gefinn kostur á að gera athugasemdir við merkt landamerki á línuleiðinni og jafnframt óskað eftir fundi með landeigendum.

 

Í kjölfarið átti eignarnemi í samningaviðræðum við þá eigendur þess lands sem nauðsynlegt er að Nesjavallalína 2 liggi um. Samningar við landeigendur tókust í öllum tilvikum nema samningar við eiganda Höfða. Var af aðilum ákveði að vísa ágreiningi um fjárhæð bóta til úrskurðar matsefnd eignarnámsbóta. Eignarnámsþoli vildi hvorki semja um heimild til að leggja jarðstrenginn né veita framkvæmdaleyfi gegn því að um fjárhæð bóta væri fjallað í matsnefnd eignarnámsbóta.

 

9.  Nánari lýsing eignarnema á samningaumleitunum.

Eignanemi og eignarnámþoli hittust á fundi hinn 29. apríl 2009 og var þá strax ljóst að verulegur ágreiningur var milli aðila um hvað teldust hæfilegar bætur fyrir það landsvæði sem óskað var eftir ótímabundnum afnotum af. Áframhaldandi samskipti fóru fram á fundum, símleiðis eða með tölvupóstum. Við mat á landverði var af hálfu eignarnema tekið mið af nýjustu upplýsingum um kaup og sölu á landsvæði í nágrenninu, sem og nýlegum fasteignaauglýsingum. Skipti þar mestu máli að Orkuveita Reykjavíkur festi kaup á landspildu við Geitháls, sem er næsti bær við Höfða og sambærilegt land í hvívetna, örfáum dögum áður en bankakerfi landsins hrundi eða 3. október 2008. OR greiddi þá kr. 1.000.000,- fyrir hvern hektara lands, en fyrirtækið fékk Helga Jóhannesson hrl. til þess að verðmeta hið keypta landsvæði.

 

Síðan framangreind kaup áttu sér stað hafa efnahagsaðstæður á Íslandi breyst verulega til hins verra. Aðgangur að lánsfé hefur takmarkast mjög og möguleiki á fjármögnun til kaupa á óbyggðum landsvæðum er varla fyrir hendi. Allt leiðir þetta til lækkunar fasteignaverðs. Engu að síður var tekin sú afstaða af hálfu eignarnema að bjóða eignanámsþola bætur samkvæmt því mati sem lagt var til grundvallar við framangreind kaup OR, eða kr. 1.000.000,- fyrir hvern hektara. Eftir að ljóst var að eignarnámsþoli myndi ekki sætta sig við það bótatilboð og í viðleitni til að samningum við eigendur, hækkaði eignarnemi hf. tilboð sitt í kr. 1.500.000,- fyrir hvern hektara.

 

Eins og fram kemur í framlögðum fundargerðum og tölvupóstsamskiptum, taldi eignarnámsþoli samningstilboð þetta of lágt. Vísaði hann til almennra gagna til rökstuðnings verðmati hans, þ.e.a.s. fasteignaauglýsinga, auk þess sem fasteignasali í Mosfellsbæ hafi að sögn talið hektaraverð vera á bilinu 4-6 millj. kr.

 

Reynt var til þrautar að ná samkomulagi Að lokum lagði eignarnemi til annars vegar, að greiddar væru samtals 2 millj. króna (verð per. ha. 1.500.000 kr.) og samkomulag yrði gert um að bætur yrðu endurskoðaðar ef matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði hærri bætur vegna framkvæmda við Nesjavallalínu 2 í sambærilegum tilvikum og í landi Höfða og hins vegar að sama upphæð yrði greidd og á sömu forsendum gegn því að veita eignarnámsþola framkvæmdaleyfi og aðilar sammæltust um að matsnefnd eignarnámsbóta tæki fjárhæð bóta til umfjöllunar. Óháð niðurstöðu matsnefndar yrði framangreind greiðsla óafturkræf. Eignarnámsþoli hafi hafnaði öllum framangreindum tilboðum.

 

Eignarnemi tekur skýrt fram að tilboð hans hafi verið á allan hátt hagkvæm fyrir eignarnámsþola, t.d. hafi verið miðað við hámarksverð og boðin full greiðsla fyrir helgunarsvæði. Tilboð eignarnema miðuðu í öllum tilvikum að því að eignarnámsþoli væri betur settur með samningum en með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta og/eða dómstóla.

Skýrt hafi verið tekið fram í framangreindum tilboðum og síðari samningaviðræðum við eignarnámsþola að yrði ekki fallist á tilboð eignarnema féllu þau niður og hefðu ekki fordæmisgildi við síðari meðferð málsins. Áskildi eignarnemi sér allan rétt til að láta reyna á raunverulegt tjón og fjárhæð bóta kæmi til meðferðar matsnefndar eignarnámsbóta og/eða dómstóla. Öll tilboð eignanema til eignarnámsþola eru því niður fallið og er matsnefndinni óheimilt að miða við þær fjárhæðir sem eignarnemi var reiðubúin til að greiða til að ná samkomulagi við eignanámsþola án þess að til matsmáls þyrfti að koma.

 

10.  Sjónarmið, lagarök og rökstuðningur eignarnema.

Eignarnemi vísar til þeirra frumsjónarmiða er gilda þegar bætur eru metnar vegna eignarnáms. Samkvæmt meginreglum fjármunaréttar fæst einungis fjárhagslegt tjón bætt vegna eignarnáms en ekki ófjárhagslegt. Þannig eigi eignarnámsþoli aðeins rétt á því að fá bætur fyrir endurgjald eignarnumins verðmætis og fyrir það óhagræði sem sannanlega hefur leitt til fjárhagslegs tjóns. Beri hér m.a. að líta til dóms Hæstaréttar 1997:52 og frá 17. mars 2005 í málinu nr. 349/2004.

Eignarnemi telur tjón eignarnámsþola einskorðast við missi lands sem fellur undir helgunarsvæði strengsins. Eignarnemi telur ekki að eignarnámsþoli verði fyrir frekara tjóni. Eignarnemi telur ekki að sú takmörkun sem helgunarsvæði jarðstrengsins hefur í för með sér takmarki mögulega nýtingu, sem valdi eignarnámsþola fjárhagslegu tjóni. Þá telur eignarnemi að líta beri til þess við mat á tjóni eignarnámsþola að áhrif jarðstrengsins í veghelgunarsvæði hafa hverfandi áhrif á heildarhagsmuni landeiganda og hamla í engu uppbyggingu eða nýtingu jarðarinnar, ef til þess kemur en ekkert skipulag liggur fyrir um nýtingu.

 

Eignarnemi telur að verðmæti jarðarinnar rýrni ekki umfram það sem bætt verður af viðurkenndum ástæðum. Eignarnámsþola ber að sanna fjárhagslegt tjón umfram það sem viðurkennt er, að öðrum kosti verður eignarnema ekki gert að greiða bætur vegna þess. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda hefur ekki verið sýnt fram á að tjóni verði valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið.

Eignarnema ber einungis að bæta fyrir þá skerðingu landsafnota sem tilkoma jarðstrengsins veldur. Að því er mat á skerðingu varðar ber að hafa hliðsjón af kostum landsins og sannanlega mögulegri nýtingu. Er þess krafist að eingöngu verði litið við ákvörðun bótafjárhæðar til þess sem raunverulega hefur verið skert og til sannanlegs fjártjóns sem matsþoli verður fyrir.

 

Um lagarök vísar eignarnemi til 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. heimild iðnaðarráðuneytisins, dags. 18. febrúar 2005. Að því er snertir málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vísast til laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sbr. 72. gr. stjórnarskrár, sbr. lög nr. 97/1995.

 

11.  Sjónarmið, lagarök og rökstuðningur eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli kveður jörð sína Höfða í Mosfellsbæ 268,4 ha að stærð og liggi hún að norðan frá Langavatni og að Lynghóli að sunnanverðu.      Jarðstrengur og ljósleiðari þegar verið lagðir um jörðina að sunnanverðu með heimild þáverandi matsnefndar eignarnámsbóta gegn kr. 2.000.000.- tryggingu, sem greidd var til lögmanns eignarnámsþola og varðveitt er hjá honum. Eignarnámsþoli telur þessa tryggingarfjárhæð fjarri lagi og í engu samræmi við verðmæti þess lands, sem eignarnámið tekur til. Jarðstrengurinn kljúfi landið í tvennt og því verði hluti þess sunnan strengsins ekki eins nýtilegur til bygginga og ella.

           

Í matsbeiðni séu tiltekin fjögur atriði, sem eignarnámið takir til. Jarðstrengurinn, ásamt ljósleiðara, liggi um landið á 900 metrum og sé helgunarsvæðið sagt vera 10 metra breitt, þ.e. 5 metrar hvoru megin við strenginn.

 

Telur eignanámsþoli í fyrsta lagi að þetta helgunarsvæði valdi meiri vandkvæðum á nýtingu jarðarinnar en nemur þessum 5 metrum sitt hvoru megin við jarðstrenginn. Beri að taka tillit til þess við ákvörðun eignarnámsbóta. Telur eignarnámsþoli að helgunarsvæðið sé allt of lítið miðað að hér sé um að ræða háspennulínu. Samkvæmt því sem komi fram hjá Reykjavíkurborg vegna deiliskipulagsins á Hólmsheiði, sé helgunarsvæðið 100 metrar vegna háspennulínu. Því sé um að ræða 10 ha skerðingu á landinu en ekki 1 ha eins og eignarnemi vilji meina.

 

Í öðru lagi sé sú kvöð sett á landeiganda, að verulegt rask á jarðvegi helgunarsvæðisins sé óheimilt eins og nánar greini í matsbeiðninni. Þar segi m.a. að telji landeigandi nauðsynlegt að leggja t.d. vegslóða yfir strenginn eða fara í aðrar framkvæmdir innan helgunarsvæðisins, sem valdi raski umfram 20 cm dýpt frá ósnortnu yfirborði, skul það gert í samráði og undir eftirliti eignarnema. Þetta sé kvöð, sem beri að meta sérstaklega.

 

Í þriðja lagi gildi um lagningu ljósleiðara meðfram jarðstrengnum sömu sjónarmið og rakin eru hér að framan.

 

Í fjórða lagi er sú kvöð lögð á jörðina, að eignarnemi skuli um aldur og ævi eiga hindrunarlausan umferðarrétt um vegaslóða á jörðinni og aðgang að helgunarsvæði jarðstrengsins og ljósleiðara vegna framkvæmda, viðhald, eftirlist og endurnýjunar síðar. Þessa ævarandi kvöð ber að taka sérstaklega til mats.

 

Eignanámsþoli mótmælir þeirri staðhæfingu eignarnema, að framkvæmdir þessar muni á engan hátt hamla framtíðarnýtingu jarðarinnar. Enda þótt ekki liggi enn fyrir af hálfu Mosfellsbæjar skipulag um íbúðarbyggð á jörðinni Höfða, sé þó ljóst, að það verður gert í nánustu framtíð. Reykjavíkurborg hafi þegar samþykkt deiliskipulag á Hólmsheiði, sem nær að mörkum jarðarinnar að sunnanverðu. Telur eignanámsþoli að stutt verði í að Mosfellsbær samþykki deiliskipulag á næsta svæði við Hólmsheiðina í tengslum við fyrrgreint deiliskipulag Reykjavíkurborgar, þ.m.t. jörðina Höfða.

 

Hér sé um að ræða verðmætt byggingaland, sem hlýtur að hafa veruleg áhrif á eignarnámsbætur til eignanámsþola miðað við þá skerðingu og kvaðir, sem eignarnámið tekur til. Vísar eignarnámsþoli til nokkurra mála hjá matsnefnd eignarnámsbóta, t.d. vegna Blikastaða og Miðfells, svo dæmi séu tekin, sbr. úrklippur úr dagblöðum. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasala sé verð á hektara á bilinu 4-6 milljónir. 

 

Ef um sé að ræða 10 ha sem landið skerðist ættu bætur að nema á bilinu 40 – 60 milljónir. Eignanámsþoli kveðst fara milliveginn í kröfugerð sinni

 

12.  Niðurstaða matsnefndar.

Matsnefndin fór á vettvang hinn 7. júní s.l. ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþola. Voru aðstæður, landið, lega þess og staðhættir skoðaðir, svo og verksummerki framkvæmda. Lögmennirnir komu með ábendingar og skýringar og áréttuðu sjónarmið umbjóðenda sinna. Einnig gaf eignarnámsþoli upplýsingar.

 

Sá hluti jarðarinnar Höfða er hér um ræðir og eignarnámið tekur til er 900 metra kafli. Helgunarsvæði strengsins er 10 metra breitt og samkvæmt því er um 0.9 ha að ræða. Landspartur þessi er á óskipulögðu svæði á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Ekki er ágreiningur um stærð landsins og mörk. Er strengurinn að mestu innan veghelgunarsvæðis Nesjavallavegar og Hafravatnsvegar.

 

Um er að tefla niðurgrafinn streng og ljósleiðara samhliða honum. Eignarnemi kveðst brúka jarðstreng í stað loftlínu sem hafi í för með sér meira rasks og víðtækari hömlur og helgunarsvæði en jarðstrengur. Verður ekki annað en séð en eignarnemi hafi kostað kapps um að fylgja röskuðum svæðum og helgunarsvæðum mannvirkja sem fyrir eru. Liggur strengurinn þannig að engu eða hverfandi leyti um óraskað land.

 

Það land sem í máli þessu er fjallað um hefur vegna legu, fyrri framkvæmda, mannvirkja, takmarkana og kvaða ekki mikið verð- og markaðsgildi. Við ákvörðun eignarnámsbóta verður að líta til þess að landið liggur um helgunarsvæði annarra varanlegra mannvirkja þannig að því verður ekki ráðstafað né byggt á því um fyrirsjáanlega framtíð.

 

Einnig verður að líta til þess að hér er ekki um eiginlegt eignarnám að tefla, heldur mat á því hversu mikið þessi kvöð eða takmörkun á eignarétti eignarnámsþola geti talist rýra verðmæti jarðar hans. Það er óumdeilt að eignarnámsþoli fer eftir sem áður með ráðstöfunar og hagnýtingarrétt á þessu landi en með ákveðnum kvöðum og takmörkunum. Eignarnemi á umferðarrétt um landið og aðgangsrétt til eftirlits, viðgerða og endurbóta og framkvæmdir og tilfæringar af hálfu eignarnámsþola skulu vera í samráði við eignarnema og undir eftirliti hans. Hér er eins og á stendur ekki um þungbæra kvöð að tefla sem metin verður til hárra fjárhæða.

 

Jafnframt liggur fyrir að hagnýtingar- og ráðstöfunarmöguleikar þessa lands voru ekki miklir vegna aðstæðna og þegar áhvílandi kvaða eins og áður segir. Af þeim sökum er verðmæti þess ekki mikið í kaupum og sölum, sé það á annað borð söluhæft. Sú var þegar raunin áður en eignarnám þetta og þær framkvæmdir sem hér um ræðir komu til.

 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar skal fullt verð koma fyrir eign sem eignarnámi er tekin. Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 á landeigandi rétt til bóta vegna röskunar eða skemmda á landi, mannvirkjum eða öðrum eignum vegna framkvæmda á landi. Það er aðeins raunverulegt fjárhagslegt tjón sem bætt verður.

 

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að skerðingin á landi hans fari svo nokkru nemi út fyrir 10 metra helgunarsvæðið a.m.k ekki eftir lok framkvæmda. Fellst nefndin þannig ekki á þau rök eignarnámsþola að miða beri við 100 metra helgunarsvæði eins og um háspennulínu væri að tefla. Þar er ólíku saman að jafna. Ekki verður heldur tekið undir það með eignarnámsþola að hér sé um að ræða mjög verðmætt byggingarland.

 

Eignanámþoli heldur því fram að þrátt fyrir deyfð í byggingariðnaðinum nú þá sé það tímabundið ástand. Brátt muni bresta á betri tíð og þá verði landið verðmætt byggingarland. Beri að meta slíkar væntingar til fjár og þær eigi að leiða til hækkunar bóta. Eins og mál þetta er vaxið kemur slík biðvon ekki til álita. 

 

Eignarnámsþoli hefur kröfum sínum til stuðnings vísað til nýlegra úrskurða nefndarinnar varðandi land á höfuðborgarsvæðinu og einnig til auglýsinga á löndum í Mosfellsbæ. Þessi gögn og þær upplýsingar sem þau hafa geyma breyta ekki forsendum nefndarinnar samkvæmt ofanrituðu og þeirrar niðurstöðu sem að neðan getur.

 

Að öllu virtu er það álit nefndarinnar að hæfilegar bætur til eignarnámsþola úr hendi eignarnema séu alls kr. 850.000.- krónur áttahundruð og fimmtíu þúsund 00/100, sem sundurliðast þannig:    1.    Bætur vegna lands og kvaða   kr.  450.000.-

                    2.    Óþægindi og rask                    “ .   400.000.-

                                                                  Samtals krónur    850.000.-

 

Samkvæmt 11. gr. i.f. laga nr. 11/1973 skal eignarnemi greiða eignarnámsþola lögmannskostnað vegna reksturs þessa máls. Telst hann hæfilega ákveðinn að fjárhæð kr. 502.000.- með virðisaukaskatti en málskostnaðarreikningur af hans hálfu var ekki lagður fram í málinu

 

Jafnframt skal eignarnemi greiða kr. 600.000.- til ríkissjóðs til að mæta kostnaði af starfi nefndarinnar að máli þessu, sbr. 11. gr. laga nr. 11/1973.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð.

Eignarnemi, Landsnet hf., greiði eignarnámsþola, Herði Jónssyni, kr. 850.000.- í bætur vegna eignarnáms þessa.

 

Eignarnemi greiði eignarnámþola málskostnað að fjárhæð kr. 502.000.-- með virðisaukaskatti. Þá greiðir eignarnemi kr. 600.000.- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

___________________________________

 

 

 

 

Sigurður Helgi Guðjónsson

 

 

 

     Benedikt Bogason                                                         Óskar Sigurðsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum