Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Nr. 127/2019 - Úrskurður

kærufrestur liðinn

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 127/2019

Fimmtudaginn 9. maí 2019

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 28. mars 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. desember 2018, á umsókn um leiguíbúðalán vegna nýbygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn til Íbúðalánasjóðs, dags. 1. nóvember 2018, sótti kærandi um leiguíbúðalán vegna nýbygginga. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 4. desember 2018, með þeim rökum að félagið uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1042/2013, um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, að umsókn um lán samkvæmt 1. mgr. ásamt áætlunum samkvæmt 9. gr. og samþykktum framkvæmdaraðila, sbr. 5. gr., skuli berast Íbúðalánasjóði áður en framkvæmdir hefjist þegar um byggingu leiguíbúða sé að ræða.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. mars 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var veittur 14 daga frestur til að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að synjun Íbúðalánasjóðs virðist vera byggð á 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1042/2013 þótt farin sé flókin leið til að útskýra það í bréfi sjóðsins. Það virðist vera eina ástæða synjunarinnar. Kærandi bendir á að í umsóknarferlinu hafi aldrei verið útskýrt fyrir umsækjanda að hann þyrfti að halda að sér höndum þar til umsóknin væri afgreidd. Umsóknarferlið hafi tekið langan tíma vegna gagna sem hafi þurft að afla, meðal annars um þörf á íbúðum frá sveitarfélaginu. Í þessu langa ferli hafi aldrei verið minnst á við kæranda að halda að sér höndum þar til niðurstaða væri fengin. Orðin „áður en framkvæmdir hefjist“ séu ekki útskýrð í reglugerðinni. Framkvæmdartími á Íslandi sé að jafnaði á sumrin þegar mestu afköstin séu og hagkvæmast að byggja. Því hafi umsækjandi viljað byrja um leið og öll leyfi hafi legið fyrir til að byggja sem hagkvæmast á besta tíma. Kærandi óskar eftir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála um þetta atriði sem fram komi í svari Íbúðalánasjóðs.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 4. desember 2018 um að synja umsókn kæranda um leiguíbúðalán vegna nýbygginga.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 4. desember 2018, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 28. mars 2019. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 4. desember 2018 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. mars 2019, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Engar athugasemdir bárust.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála benda gögn málsins ekki til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum