Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 14/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru 3. september 2018 kærði Síminn hf. útboð Ríkiskaupa nr. 20735 „Síma- og fjarskiptaþjónusta fyrir Íslandspóst“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felldar verði úr gildi ákvarðanir varnaraðila Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um ógildingu útboðsferlis og að halda hraðútboð. Þá krefst kærandi aðgangs að tilboði Sýnar hf. Jafnframt er gerð krafa um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að honum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilar krefjast þess að kröfum kæranda verði hafnað og varnaraðilinn Sýn hf. krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi kæranda. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.


Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. október 2018
í máli nr. 14/2018:
Síminn hf.
gegn
Ríkiskaupum
Íslandspósti ohf.
og Sýn hf.

Með kæru 3. september 2018 kærði Síminn hf. útboð Ríkiskaupa nr. 20735 „Síma- og fjarskiptaþjónusta fyrir Íslandspóst“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felldar verði úr gildi ákvarðanir varnaraðila Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um ógildingu útboðsferlis og að halda hraðútboð. Þá krefst kærandi aðgangs að tilboði Sýnar hf. Jafnframt er gerð krafa um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að honum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilar krefjast þess að kröfum kæranda verði hafnað og varnaraðilinn Sýn hf. krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi kæranda.

Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í júní 2018 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð á Evrópska efnahagssvæðinu í þeim tilgangi að gera samning fyrir Íslandspóst ohf. um farsímaþjónustu, talsímaþjónustu, internetþjónustu og gagnatengingar. Bjóðendur skyldu gera tilboð í alla flokka útboðsins og tilboð eins bjóðanda skyldi valið á grundvelli besta hlutfalls milli verðs og gæða, sbr. grein 3.1 í útboðsgögnum. Samkvæmt grein 3.1.1 í útboðsgögnum hafði varnaraðili skilgreint svonefnda verðkörfu sem tók til hvers hinna fjögurra flokka útboðsins. Tekið var fram að „[a]triði í tilboðsskrá sem ekki eru með fjöldatölum eru ekki innifalin í verðkörfum en óskað er eftir upplýsingum um verð og/eða fastan afslátt í þá liði“. Vægi verðs var 80% (80 stig) en gefin voru 20 stig fyrir formlega vottun bjóðanda í samræmi við tvo tilgreinda staðla, sbr. grein 3.1.2 í útboðsgögnum. Ekki var heimilt að gera frávikstilboð.

Tilboð voru opnuð 14. ágúst 2018 og þá var lesin upp heildartilboðs¬upphæð verðkörfu bjóðenda. Tilboð Sýnar hf. var þá að fjárhæð 8.026.848 krónur en tilboð kæranda að fjárhæð 31.681.944 krónur. Kærandi kom á framfæri athugasemd á fundinum að líklega væri um að ræka skekkju í reikniformúlu í flipa 2c, vegna „IP tenginga“ sem leiddi til þess að tiltekinn lið vanti inn í samtölu. Sýn hf. gerði ekki athugasemda við upplesin tilboð. Eftir skoðun varnaraðila á þessari athugasemd voru leiðrétt tilboðsverð birt með leiðréttri fundargerð opnunarfundar 16. ágúst 2018. Fram kom að villan hefði verið þess eðlis að „kostnaður bjóðenda við 61 x IP tengingu á starfsstöð var ekki talinn með í verðkörfu bjóðenda“. Nánar tiltekið hefði villan verið sú að í reit E10, flipa 2c, hafi formúlan átt að vera: ((C10 + D19)/2*B10*G1), en var þess í stað : ((C10 + D19)/2*B10*G2). Samkvæmt leiðréttingu, sem fólst í því að umræddum lið var bætt við verðkörfu, var tilboð Sýnar hf. að fjárhæð 124.387.848 krónur en tilboð kæranda 51.489.864 krónur. Hinn 22. ágúst 2018 var tilkynnt um val á tilboði kæranda á grundvelli leiðréttra útreikninga á tilboðum. Samdægurs hafði Sýn hf. samband við varnaraðila og tók fram að gerð hefði verið villa við útreikning á heildarverðkörfu eftir leiðréttingu á fyrrgreindri formúlu tilboðsheftis. Ástæða skekkjunnar væri að við leiðréttan útreikning væri „ótakmarkað gagnamagn (Reitur D10) margfaldaður með fjölda tengingar (61) þrátt fyrir að skýrt komi fram í athugasemdum að gagnamagn sé mælt í gegnum miðju fyrirtækisins (Reitur H19)“. Þá sagði að um um væri að ræða „eitt mánaðargjald sem rukkast mánaðarlaga“ og var nánar útskýrt að það hefði átt að margfalda verð fyrir ótakmarkað gagnamagn með 1 en ekki 61. Varnaraðili tilkynnti bjóðendum 29. ágúst 2018 að nauðsynlegt væri að endurtaka innkaupin í formi hraðútboðs. Hefði komið í ljós að leiðrétting á tilboðsverðum sem fram kom í leiðréttri fundargerð opnunarfundar 16. ágúst 2018 „[raski] jafnræði bjóðenda því að framsetning Sýnar hf. á tilboði var gerð með tilliti til þess að margfeldi vantaði í reitinn og eftir leiðréttingu var tilboð Sýmnar hf. langt frá þeirri niðurstöðu sem fyrirtækið lagði upp með“. Væri því ljóst að umrædd villa í tilboðshefti og leiðrétting hefði haft áhrif á niðurstöðutölur útboðsins sem gerði það að verkum að tilboðin væru ekki samanburðarhæf. Fram kom í tölvubréfi varnaraðila til kæranda 31. ágúst 2018 að bjóðendur hafi brugðist með mismunandi hætti við villu í tilboðshefti og að varnaraðili hafi ekki talið unnt að taka tilboði Sýnar hf. þar sem athugasemd í tilboðsblaði hafi ekki verið nægilega augljós og „óheimilt er að taka tilboði með aukaskýringum eftir að tilboð eruð opnuð“.

Kærandi telur að villan í tilboðsheftinu hafi verið augljós og að varnaraðila hafi verið heimilt að leiðrétta tilboðsfjárhæðir. Tilboð hafi átt að fela í sér einingaverð fyrir gagnatengingar og geti umrædd villa ekki verið ástæða þess að framsetning Sýnar hf. á tilboði hafi verið röng. Þá megi ekki hætta við útboð nema veigamikil og málefnaleg rök standi til þess, en það eigi ekki við í þessu máli.

Varnaraðili vísar til þess að villa í tilboðshefti hafi gert það að verkum að samtala vegna „IP kostnaðar“ hafi ekki verið reiknuð inn í heildarkostnað. Framsetning útboðsgagna hafi þannig verið villandi og tilboð bjóðenda eftir leiðréttingu ekki verið samanburðarhæf þar sem tilboði Sýnar hf. hafi fylgt skýring sem breyti hugsanlega útfærslu á uppreikningi tilboðs bjóðandans. Þá hefði samkeppni verið raskað hefði tilboði Sýnar hf. verið breytt í samræmi við útskýringar bjóðandans. Hafi því verið nauðsynlegt að auglýsa útboðið að nýju. Varnaraðilinn Sýn hf. leggur áherslu á að ekki hafi verið um augljósa villu í tilboðshefti að ræða þannig að endurskilgreina hafi átt verðkörfu og sé við þessar aðstæður unnt að endurtaka útboðið á grundvelli skýrari forsendna líkt og ákveðið hafi verið að gera.

Niðurstaða

Kaupendum í opinberum innkaupum er heimilt að lagfæra reikningsvillur í tilboðum, sem og reikningsskekkju sem er til komin vegna villu í útboðsgögnum, svo lengi sem slíkt raskar ekki jafnræði bjóðenda. Umrædd villa í formúlu fyrrgreinds tilboðsblaðs virðist eingöngu hafa falist í því að heildarkostnaður við „IP tengingu á starfsstöð“ var utan við samtölu verðkörfunnar. Í hverjum lið í tilboðsblaðinu skyldi fylla út verðtilboð vegna 200GB niðurhals annars vegar og vegna ótakmarkaðs niðurhals hins vegar. Meðaltal þessara tveggja verða var svo margfaldað með fjölda eininga, sem og mánaðafjölda, og fékkst þannig verð fyrir þennan lið. Fyrir liggur að varnaraðili leiðrétti tilboðsverð kæranda og Sýnar hf. á þeim grundvelli þannig að verð vegna „IP tengingar á starfsstöð“ voru lögð við verðkörfu.

Leiðrétt tilboðsverð hækkuðu samkvæmt því í samræmi við þau einingarverð sem bjóðendur höfðu annars vegar boðin fyrir 200 GB og hins vegar fyrir ótakmarkað gagnamagn. Að mati nefndarinnar mátti bjóðendum vera ljóst að umræddur liður ætti að vera hluti verðkörfu enda var getið um áætlaðan fjölda tenginga, þ.e. fjöldatölu í skilningi greinar 3.1.1 í útboðsgögnum, og var því raunar ekki mótmælt í athugasemdum varnaraðilans Sýnar hf. frá 22. ágúst 2018. Líkt og rakið hefur verið var um einfalda leiðréttingu á reikniformúlu að ræða og byggðust útreikningar á þeim verðum sem bjóðendur höfðu sjálfir tilgreint á tilboðsblaðinu. Eins og mál þetta liggur nú fyrir nefndinni verður ekki séð að umrædd villa í tilboðshefti hafi haft áhrif á framsetningu tilboðs Sýnar hf. og þannig leitt til þess að tilboðin voru ósamanburðarhæf líkt og varnaraðili telur. Er þar jafnframt litið til þess að varnaraðili telur sjálfur að óheimilt hafi verið að breyta eða leiðrétta tilboð Sýnar hf. að teknu tilliti til þeirrar athugasemdar sem var að finna á tilboðsblaði bjóðandans.

Með vísan til alls framangreinds telur nefndin að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup með ákvörðun varnaraðila um að ógilda útboðsferlið og hefja nýtt innkaupaferli. Verður fyrirhugað innkaupaferli því stöðvað samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar.


Ákvörðunarorð:

Stöðvað er fyrirhugað innkaupaferli varnaraðila Ríkiskaupa fyrir hönd Íslandspósts ohf. á síma- og fjarskiptaþjónusta fyrir Íslandspóst.

Reykjavík, 24. október 2018.


Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira