Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 20/2012

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 21. nóvember 2012 í máli nr. 20/2012

Fasteign: Kirkjuvegur 11, fnr. 218-6496, Árborg.

Kæruefni: Fasteignamat fyrri ára.

 

Ár 2012, miðvikudaginn 21. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í málinu nr. 20/2012 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dagsettu 8. október 2012 kærðu Gunnar Ólafsson og Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir synjun Þjóðskrár Íslands frá 9. júlí 2012 um að endurskoða fasteignamat Kirkjuvegar 11, fnr. 218-6496, Selfossi, fyrir tímabilið 1. júní 2008 til 1. nóvember 2011. Kærendur gera kröfu um að yfir­fasteignamatsnefnd endur­ákvarði fasteignamat eignarinnar fyrir nefnt tímabil. Málið var tekið til úrskurðar 30. október 2012.

Sjónarmið kæranda

Í kæru er vísað til þess að vegna jarðskjálfta 29. maí 2008 hafi fasteign kærenda að Kirkjuvegi 11 skemmst og í framhaldinu verið metin „altjóna“ af Viðlagatryggingu Íslands. Kærendur lýsa framvindu mála og samskiptum sínum við meðal annars Sveitarfélagið Árborg, Viðlagatryggingu Íslands og Þjóðskrá Íslands. Kærendur telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotin meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur halda því fram að ekki liggi málefnaleg sjónarmið að baki hinn kærðu ákvörðun Þjóðskrár Íslands. Kærendur segja Sveitarfélagið Árborg hafa brugðist upplýsingaskyldu sinni til Þjóðskrár Íslands, sbr. 21. gr. laga nr. 6/2001, með því að hafa ekki komið réttum upplýsingum til Þjóðskrár Íslands. Kærendur vísa til rökstuðnings Þjóðskrár Íslands fyrir synjun sinni, en þar var vísað til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar frá 5. febrúar 2009 í máli nr. 8/2008, þar sem vísað var til orðalags 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 og heimild eiganda til þess að krefjast endurskoðunar á fasteignamati væri talin bundin við matsverð á þeim tíma þegar kæra var sett fram. Kærendur telja að ákvörðun Þjóðskrár Íslands sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og að ekki ríki jafnræði um það hvort heimildin til endurskoðunar á fasteignamati sé til staðar þegar eigandi ákvað að láta rífa hús sín eða ekki. Húsin hafi öll orðið altjóna við jarðskjálftann, sama hvort einhver þeirra hafi síðar verið gerð upp. Ef heimild til endurskoðunar á fast­eigna­mati hafi verið til staðar þegar hús voru rifin þá megi færa rök fyrir því að heimildin sé einnig til staðar þegar ákveðið er að hús skuli standa. Óumdeilt sé að fasteigna- og bruna­bóta­mat eignarinnar hafi lækkað töluvert frá Suðurlandsskjálftanum 29. maí 2008. Kærendur séu ekki að fara fram á endurgreiðslu allra fasteignagjaldanna frá þeim tíma til 31. desember 2011 líkt og eigendur þeirra húsa sem voru rifin á svæðinu heldur aðeins að krefjast endur­greiðslu á þeim mismun sem fasteignagjöld eru í dag og fyrir skjálftann, því kærendur telja sig hafa greitt of há fasteignagjöld miðað við fasteignamat hússins í dag. Kærendur telja sig hafa greitt fasteignagjöld sem byggjast á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Kærendur gera kröfu um að yfir­fasteignamatsnefnd endur­ákvarði fasteignamat eignarinnar fyrir tíma­bilið 1. júní 2008 til 1. nóvember 2011.

Niðurstaða

Krafa kærenda til yfirfasteignamatsnefndar er um endurskoðun á fasteignamati Kirkjuvegar 11, fnr. 218-6496, Sveitarfélaginu Árborg, fyrir tímabilið frá 1. júní 2008 til 1. nóvember 2011. Í kröfu sinni til Þjóðskrár Íslands virðast kærendur hafa krafist endurskoðunar á fasteigna­mati eignarinnar fyrir tímabilið frá 29. maí 2008 tl 31. desember 2011. Þrátt fyrir þetta misræmi í dagsetningum er litið svo á að hér sé um sömu kröfu að ræða.

Í þessu tilviki var krafa kærenda um endurskoðun eldra fast­eignamats sett fram við Þjóðskrá Íslands á árinu 2012. Þá var skráð fasteignamatsverð eignanna það matsverð sem hafði tekið gildi hinn 31. desember 2011, sbr. 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001. Að mati yfir­fasteigna­mats­nefndar, með vísan til orðalags 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001, er heimild eiganda til þess að krefjast endurskoðunar á fasteigna­mati bundin við skráð matsverð á þeim tíma þegar kæra er fram sett. Heimildin nær ekki til endur­skoðunar á fasteignamati sem fallið var úr gildi þegar krafan kom fram. Þar sem fast­eigna­mats­verð húseignar kærenda við Kirkjuveg 11 á Selfossi fyrir tímabilið frá 1. júní 2008 til 1. nóvember 2011 var ekki lengur skráð matsverð eignarinnar þegar kærendur settu fram kröfu sína um endurskoðun, er kröfu þeirra hafnað. Samkvæmt framangreindu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Þjóðskrár Íslands.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 9. júlí 2012 um að synja um endurskoðun fast­eigna­mats Kirkjuvegar 11, fnr. 218-6496, Sveitarfélaginu Árborg, fyrir tímabilið frá 1. júní 2008 til 1. nóvember 2011.

 

________________________________

Jón Haukur Hauksson

 

________________________________

Inga Hersteinsdóttir

________________________________

Ásta Þórarinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum