Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 425/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 425/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080001 og KNU21090008

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 16. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Eþíópíu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Ungverjalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 21. júní 2021. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 28. júní 2021. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 8. júlí 2021.

Þann 29. júlí 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Þann 12. ágúst 2021 bárust kærunefnd upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Athugasemdir og gögn bárust frá talsmanni kæranda þann 26. ágúst 2021. Þá bárust frekari athugasemdir frá Útlendingastofnun og stoðdeild þann 26. og 27. ágúst 2021. Þann 1. september 2021 óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Frekari upplýsingar bárust frá talsmanni kæranda þann 3. september 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. júlí 2020. Þann 28. júlí 2021 hafi því 12 mánuðir verið liðnir frá því að umsókn hans um alþjóðlega vernd var lögð fram. Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá umsókn hans og tafir á meðferð málsins séu ekki á hans ábyrgð skuli taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með vísan til framangreinds er gerð sú krafa að mál hans verði endurupptekið og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 25. ágúst 2021, kemur m.a. fram að þann 22. júlí 2021 hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra hringt í kæranda og honum greint frá því að til stæði að flytja hann til Ungverjalands. Í símtalinu hafi kæranda verið greint frá því að í vikunni á eftir þyrfti hann að gangast undir skimun fyrir Covid-19, en honum hafi hvorki verið gefinn upp nákvæmur staður né stund. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi viljað ná tali af lögmanni sínum áður en lengra yrði haldið. Síðar sama dag hafi stoðdeild hringt aftur í kæranda en hann ekki svarað enda hafði hann þá ekki náð að ræða við talsmann sinn svo sem fallist hafði verið á af hálfu stoðdeildar. Þann 23. júlí 2021 hafi kærandi farið út að skemmta sér og týnt símanum sínum. Kærandi byggir á því að það sem fram komi í dagbók stoðdeildar vegna vitjunar lögreglu í búsetuúrræði hans þann 25. júlí 2021 sé misskilningur enda sé hugsanlegt að viðmælandi lögreglunnar hafi talið svarið vernda hagsmuni kæranda. Kærandi hafi því sannarlega haft dvalarstað í herberginu allt þar til eigur hans voru fjarlægðar þaðan með valdi, án viðvörunar og án þess að kærandi eða talsmaður hans væru upplýstir um útburðinn og ástæður hans þann 26. júlí 2021. Allar eigur kæranda hafi verið í herberginu þegar það hafi verið tæmt með valdi þann dag. Þann sama dag hafi talsmanni kæranda borist tölvubréf þess efnis að kærandi hefði verið lýstur horfinn frá og með þeim degi án nokkurra skýringa eða upplýsinga. Þá hafi kærandi greint talsmanni sínum frá því þann 27. júlí 2021, að herbergi hans hefði verið tæmt án viðvörunar. Kærandi telur að hann hafi verið skráður horfinn í þeim tilgangi að framlengja frest til þess að flytja hann úr landi samkvæmt lögum um útlendinga. Hafi talsmanni hans þannig verið send tilkynning um að kærandi væri skráður horfinn, án nokkurra skýringa eða frekari upplýsinga, og án þess að nokkrar tilraunir væru gerðar til þess að koma skilaboðum til kæranda í gegnum talsmann. Kærandi hafi verið símalaus en leitað til félagsþjónustunnar þegar honum varð ljóst að herbergi hans hafi verið tæmt. Kærandi telur eðlilegt að einstaklingum séu gefnir einhverjir dagar áður en vistarverur þeirra séu tæmdar vegna þess að ekki náist í þá. Þá hefði Útlendingastofnun og lögreglu verið í lófa lagið að hafa samband við talsmann kæranda til að koma þessum skilaboðum áleiðis. Ljóst sé að stjórnvöld hafi ætlað sér að flytja kæranda úr landi með eins dags fyrirvara áður en 12 mánaða frestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leið. Kæranda hafi því ekki verið gefið hið minnsta svigrúm áður en hann var lýstur horfinn þegar ekki náðist í hann samstundis. Kærandi byggir á því að sú staðreynd að stjórnvöld hafi eingöngu haft einn dag til stefnu áður en skylt yrði að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi ekki vera á ábyrgð hans, enda hafði málsmeðferð hans tafist svo mánuðum skipti vegna afglapa Útlendingastofnunar við meðferð málsins, sem olli því að endanlegur úrskurður var ekki kveðinn upp fyrr en 11 mánuðir voru liðnir frá umsókn.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. júlí 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti þann 28. júlí 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun þann 12. ágúst 2021 varðandi fyrirspurnir um tafir á málsmeðferð og flutningi kæranda kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafi kærandi ekki verið í búsetuúrræði sínu hjá Reykjavíkurborg þegar fara átti með hann í sýnatöku vegna Covid-19 en í kjölfar sýnatökunnar átti að fylgja honum til Ungverjalands þann 27. júlí 2021. Kom fram að kærandi hefði verið með slökkt á farsíma sínum og ítrekað hafi verið reynt að ná í hann. Þá hafi þjónustuteymi Reykjavíkurborgar farið heim til kæranda og komið í ljós að hann hefði tekið flest allt dót sitt og að sögn annarra aðila í búsetuúrræðinu hefði kærandi ekki sést síðan föstudaginn 23. júlí 2021. Þá kom fram að samkvæmt þjónustufulltrúa hefði kærandi hvorki svarað símtölum né textaskilaboðum. Samkvæmt málaskrá stofnunarinnar væri því litið svo á að kærandi hafi tafið mál sitt í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Jafnframt kom fram í svari Útlendingastofnunar að þegar kærandi ritaði undir þjónustupappíra (e. Offer of service) hafi hann ritað undir eldri gerð pappíra þar sem ekki komi fram hverjar afleiðingar þess geti verið ef ekki sé tilkynnt um breyttan dvalarstað.

Kærunefnd telur að þegar ekki er unnt að framkvæma endanlega ákvörðun um að einstaklingur skuli yfirgefa landið vegna þess að stjórnvöld geta ekki náð til einstaklingsins séu þær tafir sem leiða af því almennt á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, svo framarlega sem yfirvöld hafa gripið til raunhæfra aðgerða til að hafa uppi á einstaklingnum.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá stoðdeild þann 12. ágúst 2021 kemur fram að þann 22. júlí 2021 hafi verið rætt við kæranda í síma og honum tjáð að til stæði að hann færi í sýnatöku mánudaginn 26. júlí 2021. Í athugasemdum kæranda kemur fram að í umræddu símtali hafi kæranda verið greint frá því að hann þyrfti að gangast undir Covid-19 sýnatöku í vikunni en honum hafi hvorki verið gefinn upp nákvæmur staður né stund. Þá heldur kærandi því fram að hann hafi sannarlega haft dvalarstað í búsetuúrræði sínu allt þar til eigur hans voru fjarlægðar þaðan af hálfu félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Allar eigur kæranda hafi verið í úrræðinu að undanskildu því sem eðlilegt sé að fólk hafi með sér út úr húsi, en m.a. hafi fartölva hans verið þar enn. Þá kemur jafnframt fram í athugasemdum talsmanns kæranda að kærandi hafi týnt símanum sínum þann 23. júlí 2021. Af gögnum málsins liggur fyrir að ágreiningur er um málsatvik, þ.e. hvort kærandi hafi verið boðaður í sýnatöku á ákveðnum fyrirframgefnum tíma og hvort kærandi hafi raunverulega yfirgefið búsetuúrræði sitt. Verður kærandi því látinn njóta þess vafa sem uppi er hvað framangreind málsatvik varðar.

Í máli kæranda liggja ekki fyrir gögn eða upplýsingar sem sýna fram á að reynt hafi verið að afla upplýsinga frá talsmanni kæranda eftir að ekki náðist í kæranda á tímabilinu 22. - 25. júlí 2021 en samkvæmt gögnum málsins barst talsmanni tölvubréf, dags. 26. júlí 2021, þess efnis að kærandi hefði verið lýstur horfinn frá og með 26. júlí 2021. Í svari sem barst kærunefnd frá Útlendingastofnun þann 12. ágúst 2021 kemur fram að kæranda hafi ekki verið leiðbeint með skýrum hætti um að honum bæri að tilkynna Útlendingastofnun um breyttan dvalarstað, hefði hann ekki í hyggju að nýta sér búsetuúrræði á vegum stofnunarinnar lengur. Þá er uppi ágreiningur um hvort kærandi hafi sannanlega verið boðaður í sýnatöku með nægilega skýrum hætti en af svörum Útlendingastofnunar og stoðdeildar er að mati kærunefndar ekki hægt að slá því föstu að kæranda hafi með formlegum og skýrum hætti verið tilkynnt um hvar og hvenær hann ætti að mæta í sýnatöku. Þegar um svo íþyngjandi afleiðingar er að ræða fyrir kæranda telur kærunefnd að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, m.a. í því skyni að fyrirbyggja misskilning og tryggja sönnun, að upplýsa hann með formlegum og sannanlegum hætti um skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun. Í því sambandi hefur kærunefnd m.a. litið til þess að ekki var reynt að hafa samband við talsmann kæranda til þess að óska eftir upplýsingum um breyttan dvalarstað.

Með hliðsjón af framangreindu er því ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu kærunefndar þykir ekki ástæða til þess að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar og er þeirri kröfu því vísað frá kærunefnd.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum