Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 363/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 363/2021

Miðvikudaginn 3. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júlí 2021 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri með umsókn 23. febrúar 2021. Með örorkumati, dags. 3. júní 2021, var umsókn kæranda synjað en henni metinn örorkustykur vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 30. júní 2023. Með umsókn 14. júní 2021 sótti kærandi á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Með örorkumati, dags. 9. júlí 2021, var beiðni kæranda um breytingu á gildandi örorkumati synjað. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun þann 12. júlí 2021 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júlí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júlí 2021. Með bréfi, dags. 19. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2021. Viðbótargagn barst frá kæranda 24. ágúst 2021 og var það sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um endurmat á örorku.

Kærandi hafi verið á endurhæfingar- og örorkulífeyri síðan 14. júlí 2003. Þann 23. febrúar 2021 hafi kærandi sent inn umsókn ásamt læknisvottorði vegna endurmats þar sem örorkumat hafi verið í gildi til 1. júní 2021. Örokumatið hafi verið endurnýjað til 30. júní 2021. Mat skoðunarlæknis hafi verið frekar undarlegt að því leyti að þegar að kærandi hafi ætlað að segja frá heilsu sinni hafi hann sagt að það skipti í raun ekki máli hvaða sjúkdómsgreiningar hún væri með, hann hafi bara verið beðinn um að athuga nokkur atriði.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. júní 2021, hafi komið fram að hún hafi uppfyllt skilyrði örorkustyrks. Kærandi skilji ekki hvernig hún eigi, eftir að hafa verið sjúklingur í 18 ár, að vera allt í einu svo mikið betri til heilsunnar að hún eigi að geta farið út á vinnumarkaðinn.

Kærandi hafi lent í alvarlegu bílslysi árið X. Hún hafi farið í tvær stórar bakaðgerðir, fimm aðgerðir á móðurlífi vegna endómetríósu og aðgerð þar sem æxli hafi verið fjarlægt úr [kirtli]. Kærandi sé greind með liðagigt og slæma vefjagigt, mígreni, krónískar bólgur í vöðafestum, millirifjagigt og krónískar maga- og ristilbólgur, ásamt því að vera haldin ofboðslega miklum kvíða og þunglyndi. Ekkert hafi breyst varðandi þessi atriða nema til hins verra og það töluvert mikið.

Þrír af hverjum fjórum dögum hjá kæranda séu virkilega slæmir og flesta daga taki það hana um það bil hálfan dag bara að komast almennilega á fætur. Hún geti aldrei planað neitt því að hún viti aldrei hvernig morgundagurinn verði. Miklir taugaverkir plagi kæranda alla daga ásamt beinverkjum hér og þar um líkamann, aðallega í höndum og fótum. Þessir líkamspartar eigi það einnig til að dofna. Mígrenið sé mismikið eftir dögum en sé alltaf til staðar. Tímar í kringum blæðingar séu mjög erfiðir þar sem hún verði yfirleitt veik. Flesta daga sé hún með ógleði ásamt miklum svima og heilaþoku og suma daga sé hún ekki fær um að fara út úr húsi. Bólgur í vöðvafestum í framanverðum hálsi valdi því að hún sé með mjög slæma eyrnaverki. Alla daga sé hún með leiðandi verki niður vinstri öxl, mjöðm og fótlegg, en hún hafi alltaf verið verri í vinstri helmingi líkamans.

Undanfarin ár hafi fínhreyfingar kæranda farið versnandi og eigi hún mjög erfitt með allar hreyfingar eins og að skrifa eða prjóna. Þá geti hún ekki hrært upp sósu eða hnoðað deig eða gert neitt sem krefjist þess að vöðvum í fingrum sé haldið í ákveðinni spennu eða hreyfingu. Hreyfingar eins og að halda utan um stýri á bíl séu vondar eftir skamman tíma ásamt því að hún þoli illa að sitja.

Kærandi geti illa gengið styttri vegalengdir og hún hafi ekki getu til þess að hlaupa eða skokka. Kærandi eigi einnig mjög erfitt með setu og geti ekki legið nema á vinstri hlið, það eigi einnig við um svefn.

Kærandi þurfi að halda reglu á svefninum til þess að auka ekki á frekari heilsuvandamál sín sem geti verið erfitt vegna mikilla verkja og kvíða ásamt því að hún þurfi að athuga vel hvað hún borði. Mikilir verkir neðan í hælum séu algengir ásamt beinverkjum í fótum. Síþreyta og orkuleysi sé til staðar alla daga ásamt miklum kvíða og þunglyndi. Einnig þjáist hún af slæmu minni.

Önnur verkefni í lífinu eins og áhugamál séu af skornum skammti þar sem hún hafi einfaldlega hvorki orku né líkamlega heilsu til þess að stunda slíkt. Hún sé mikið heimavið og hafi ekki mikla félagslega tengingu nema þá einna helst við nánustu fjölskyldu.

Mikill kvíði hafi þróast með henni eftir alvarlegt heimilisofbeldi sem hún hafi lent í fyrir fjórum árum. Hún sé með háan blóðþrýsting og hjartsláttartruflanir flesta daga.

Kæranda þyki það alls ekkert fagnaðarefni að vera svo slæm til heilsunar að hún þurfi að vera á örorku, eins og það sé ekki nógu erfitt að þurfa að berjast við veikindi alla daga, bæði líkamleg og andleg. Núna þurfi hún að berjast við kerfið til þess að sanna veikindi sín fyrir Tryggingastofnun. Að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á allt annað sem hún glími við alla daga sé hreint út sagt ógerlegt fyrir manneskju að standa í.

Í 18 ár hafi hún verið á þessu kerfi, margoft sótt um endurmat og fengið nema í þetta skipti þegar hún hafi fengið lækkun. Kvíðinn hafi magnast upp og þar af leiðandi þunglyndi og þá fylgi þessu einnig líkamlegar þættir. Kærandi kvíði því á kvöldin að fara að sofa vegna þess að hún þurfi að vakna daginn eftir, ekkert öryggi, engin heilsa og ósvaraðar spurningar um framhaldið.

Kærandi spyr hvernig hún, einstæð [...] barna móðir sem hafi verið á tryggingakerfinu síðustu tvo áratugi, eigi að geta barist við kerfi sem hafi eftir allan þennan tíma ákveðið að hún sé ekki nógu veik lengur og hafi ákveðið að henda henni bara út. Kærandi spyr hvernig hún eigi að sanna að hún sé nógu veik ef ekki með læknisskoðunum og vottorðum.

Við alla þessa spennu hafi kvíðinn magnast og líkamlegir þættir einnig. Kæranda finnist verulega að sér vegið og fótunum hafi gjörsamlega verið kippt undan henni.

Það sé von kæranda að þessum úrskurði verði snúið við svo að hún eigi sér einhverja von um bjartari tíma framundan, án stöðugrar baráttu við stofnun sem sé til þess gerð af ríkinu að hjálpa fólki eins og henni.

Síðustu þrjá daga hafi kærandi steinlegið vegna mikilla verkja í baki, fótum og höndum. Hún hafi ekki getað sinnt neinu, ekki einu sinni sjálfri sér. Hún hafi legið svo til allan daginn frá því að morgni 13. júlí þegar hún hafi vaknað með mikla bakverki sem leiði í fætur og hendur. Kærandi hafi engan kraft og enga orku, hún geti ekki setið, ekki legið, ef hún standi skamma stund verki hana í fótleggi og hendur og bugunin sé alger, það eina sem hægt sé að gera er að reyna að leggjast niður og hreyfa sig sem minnst. Skýringin sé engin, fyrirvarinn sé enginn. Kærandi hafi ekki verið að gera neitt öðruvísi en vanalega dagana á undan. Þetta sé hennar veruleiki.

Kærandi geti verið sæmileg í tvo til þrjá daga en svo alveg hrikalega slöpp með mikla verki. Þreytan og orkuleysið sem fylgi þessu sé mikið svo að ekki sé talað um kraftleysi í útlimum. Einföld atriði eins og að fara í sturtu taki mikið á og þurfi hún hreinlega að setjast niður og draga andann vegna sársaukans. Þegar verkirnir verði svona miklir missi hún einnig alla einbeitingu sem og heilstæða hugsun og verði bara hálfdofin öll og ekki hæf til neinna verka. Allt í kringum hana verði bara að bíða, börnin að sjá um sig sjálf og hvert annað. Við slíka bugun hellist yfir hana þessi svakalegi kvíði sem lami það litla sem hún eigi eftir. Nú sé hún aðeins að koma til baka, verkirnir séu enn til staðar og miklir en hún geti sæmilega hreyft sig í smá stund í einu, en eftir sitji þessi mikla þreyta og líkamleg og andleg bugun eftir síðustu daga. Eftir því sem líkaminn skáni aðeins keyri andlega hliðin kvíðann að henni á fullum krafti. Það að þurfa að líða svona sé hryllilegur veruleiki sem því miður sé lítið hægt að gera í nema bíða eftir betri dögum sem komi sem betur inn á milli, þrátt fyrir að þeir verði seint kallaðir „góðir“ dagar. Slíka daga eins og undanfarna þrjá daga kalli hún „köst“ því að þetta komi í „köstum“ í þrjá til fjóra daga sem hún sé svona virkilega slæm og svo aðrir tveir til þrír dagar sem hún sé skárri.

Þetta sé miðað við að hún geri lítið sem ekkert. Ef hún þyrfti að gera eitthvað, keyra lengri vegalengdir, fara í ferðalag eða bara hvað annað sem krefjist þess að hún brjóti upp rútínu leiði það alltaf til þess að hrinda þessum svokölluðu „köstum“ af stað sem taki hana marga daga að jafna sig af.

Kærandi geti ekki séð hvernig hún eigi að geta farið út á vinnumarkað með slíka heilsu. Hún taki lyf við kvíða og verkjum alla daga reglulega yfir daginn. Á nóttunni taki hún svo önnur lyf til þess að geta sofið. Verkirnir séu alltaf til staðar, þrátt fyrir lyfin en geri „skárri“ dagana bærilegri, en á verri dögum slái verkjalyf lítið á. Einnig glími kærandi við allskonar taugaverki sem komi og fari óháð annarri líðan. Mígrenið sé einnig alltaf til staðar en sé þó verst í kringum blæðingar. Orkuleysi og heilaþoka fylgi henni einnig mikið ásamt miklu minnis- og einbeitningarleysi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn kæranda um endurmat á örorku.

Umsókn kæranda um örorku hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. júlí 2021, með vísan til þess að innsend gögn gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrra mati og hafi verið vísað til þess að fyrirliggjandi niðurstaða frá 3. júní 2021 um 50% örorku væri í gildi. Í því mati hafi komið fram að skilyrði örorkumatsstaðals hafi ekki verið uppfyllt en að færni til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk hafi því verið talin uppfyllt og hafi örorka verið metin 50% tímabundið frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2023.

Ágreiningur málsins sé hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett sé með skýrri lagastoð. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins varði andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins geti hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um örorkumat sé heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, þ.e. utan örorkumatsstaðals, ef tryggingayfirlæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum og í ljósi þess að 18. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar til langframa. Mat á skilyrðum örorkustyrks sé því framkvæmt sem mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. getu til að afla atvinnutekna.

Við afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun hafi legið fyrir umsókn, dags. 14. júní 2021, læknisvottorð, dags. 9. júní 2021, svör við spurningalista, dags. 14. júní 2021, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. 2. júní 2021. Þá hafi legið fyrir eldri gögn vegna fyrri umsókna kæranda.

Einnig hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins að kærandi hafði fengið metinn örorkulífeyri frá 1. febrúar 2009 til 30. júní 2021 og einnig endurhæfingarlífeyri í 14 mánuði á árunum 2003 og 2004 og síðan aftur frá 1. janúar 2007 til 31. janúar 2009.

Tryggingastofnun sé ætíð heimilt að endurskoða bótagrundvöll og í þessu tilfelli hafi verið talið rétt að senda kæranda í skoðun að nýju þar sem langt hafi verið liðið frá fyrri skoðun, en hún hafi farið fram árið 2009, og í henni hafi komið fram að eðlilegt væri að endurmeta ástand kæranda eftir eitt ár sem hafi ekki verið gert. Kærandi hafi ekki staðist skoðun árið 2006. Nýja skoðunarskýrslan hafi verið notuð til grundvallar við hið kærða mat.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. júlí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn um örorkulífeyri hefði verið synjað með þeim rökum að framlögð gögn gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrra mati frá 3. júní 2021 á heilsufarsskerðingu hennar. Fyrri niðurstaða þess efnis að skilyrði örorkumatsstaðals hafi ekki verið uppfyllt stæði því. Færni til almennra starfa hafi hins vegar verið talin skert að hluta. Læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk hafi því verið talin uppfyllt. Samkvæmt því mati hafi kærandi rétt á tímabundnum örorkustyrk.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun 12. júlí 2021 sem hafi verið veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. júlí 2021.

Tryggingastofnun hafi vegna framkominnar kæru farið á ný yfir gögn málsins sem fyrirliggjandi hafi verið við ákvörðunartöku sem og athugasemdir kæranda til úrskurðarnefndar. Engin ný gögn hafi borist með kæru.

Í læknisvottorði, dags. 9. júní 2021, komi fram að kærandi segist vera með daglega verki í bakinu en misslæma og þá sé hún með mikinn kvíða sem geri hana óvinnufæra. Kærandi hafi verið spengd í mjóbaki 2003 vegna spondylolisthesis L5, hún hafi lagast mikið en ekki nægilega vel til þess að verða vinnufær, alltaf með einhverja verki bæði í baki og annars staðar eins og við vefjagigt. Í vottorðinu segi hins vegar að við skoðun hafi hún ekki verið þjáð að sjá og að hún geti gengið, staðið og beygt sig án mikilla vandræða. Samkvæmt vottorði sé kærandi engu að síður óvinnufær og ekki megi búast við því að færni hennar aukist.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi örorkustyrkur verið ákveðinn á grundvelli fyrra örorkumats sem hafi farið fram 3. júní 2021 að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis, dags. 2. júní 2021. Í skýrslunni sé vísað til þess að kærandi sé með verki í baki og einnig með dreifða verki og hafi verið greind með vefjagigt. Þá segi að kærandi glími við mikinn kvíða og streitu. Þrátt fyrir það segi í skýrslu skoðunarlæknis að færniskerðing kæranda hamli henni ekki meira en svo að hún geti keyrt bíl og mótorhjól, gengið, synt og skíðað án mikilla vandkvæða. Við líkamsskoðun hafi kærandi getað setið í þrjátíu mínútur, staðið upp, beygt sig og hreyft hendur og fingur án mikilla óþæginda. Að mati skoðunarlæknis sé endurhæfing ekki fullreynd.

Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis, dags. 26. maí 2021, hafi kærandi fengið þrettán stig í líkamlega hlutanum og þrjú í þeim andlega. Þar segi nánar tiltekið að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund í senn, að kærandi geti ekki staðið nema tíu mínútur án þess að ganga um, að kærandi geti eingöngu gengið upp og niður milli hæða með því að ganga út á hlið eða taka eitt þrep í einu, að kærandi ergi sig yfir því, sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik, að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf.

Varðandi liðinn að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik, hafi skoðunarlæknir hakað við nei en í rökstuðningi segi að kærandi kannist vel við það. Telji Tryggingastofnun því að kærandi hafi fengið eitt stig fyrir þennan lið, sem hækki hana upp í þrjú stig þó að í rökstuðningsbréfum til kæranda sé ekki tekið tillit til þess og því sé einungis talað um tvö stig í andlega hlutanum. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig. Enn fremur sé þessi stigagjöf í samræmi við upplýsingar sem komi fram í læknisvottorði, dags. 9. júní 2021, og umsögn skoðunarlæknis um líkamlega heilsu og geðheilsu kæranda í skoðunarskýrslu.

Niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar hafi verið sú að skilyrði örorkumatsstaðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Á þeim grundvelli hafi örorkustyrkur verið ákveðinn fyrir tímabilið 1. júlí 2021 til 30. júní 2023.

Tryggingastofnun leggi skýrslu skoðunarlæknis, dags. 2. júní 2021, til grundvallar við örorkumatið. Rétt sé að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum og þær staðreyndar. Í þessu tilfelli hafi nýtt læknisvottorð verið borið saman við niðurstöður skoðunarskýrslu og metið hvort tilefni væri til boðunar kæranda til skoðunarlæknis á ný. Niðurstaða þess mats hafi verið sú að önnur skoðun væri óþörf vegna þess að samanburður á þeim gögnum, sem hafi legið til grundvallar ákvörðun Tryggingastofnunar í máli þessu, hafi ekki bent til þess að ósamræmi væri á milli skýrslu skoðunarlæknis og nýs læknisvottorðs um færniskerðingu kæranda. Þannig komi fram í læknisvottorði, dags. 9. júní 2021, og í skýrslu skoðunarlæknis, dags. 2. júní 2021, sömu upplýsingar um kvíða, bakverki og vefjagigt. Þær upplýsingar sem kærandi hafi veitt á spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 14. júní 2021, séu hins vegar ekki í fullkomnu samræmi við þær upplýsingar sem komi fram í læknisvottorði, dags. 9. júní 2021, og staðfestar hafi verið í skýrslu skoðunarlæknis, dags. 2. júní 2021. Verði þó ekki séð að örorkumat, dags. 3. júní 2021, sé byggt á öðrum upplýsingum en þeim sem kærandi hafi sjálf veitt og hafi verið staðfestar af skoðunarlækni. Sé því ljóst að þeir sjúkdómar sem kærandi þjáist af leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnunum og einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs kæranda.

Athugasemdir kæranda sem hafi fylgt með kæru gefi, að mati Tryggingastofnunar, ekki tilefni til endurskoðunar á fyrri ákvörðun þar sem ný læknisfræðileg gögn um færniskerðingu kæranda, athugasemdunum til stuðnings, hafi ekki fylgt kæru.

Beiting undantekningarákvæðis 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 sé að mati Tryggingastofnunar aðeins heimil ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda.

Að öllu samanlögðu hafi þau gögn sem hafi legið fyrir þegar kærð ákvörðun hafi verið tekin, ekki gefið tilefni til að ætla að kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. laga um um almannatryggingar um að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. einnig skilyrði örorkustaðals samkvæmt reglugerð um örorkumat.

Með vísan til ofangreinds sé það því niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn og sé byggð á faglegum sjónarmiðum og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júlí 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri en henni metinn örorkustykur vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 30. júní 2023. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 9. júní 2021. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„[Other reactions to severe stress

Vefjagigt

Dorsalgia, unspecified

Arthrodesis status

Dorsalgia, unspecified]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda nú segir í vottorðinu:

„A var spengd í mjóbaki 2003 vegna spondylolisthesis L5. Lagaðist mikið en ekki nægilega vel til þess að verða vinnufær. Alltaf með einhverja verki bæði í baki og annars staðar eins og við vefjagigt. Þjáist auk þess að miklum kvíða og stressi. Fór í endurmat á örorku sem hún hefur haft í 13 ár og var metin til aðeins 50%. Er mjög ósátt með þessa niðurstöðu sem hún hefur kært og óskað eftir skoðun í dag:“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„Í viðtali í dag segist hún vera með daglega verki í bakinu, en misslæma. Þá er hún með mikinn kvíða sem gerir hana óvinnufæri þegar hann hellsit yfir hana.

Við skoðun er hún ekki þjáð að sjá. Gengur án ytri stuðnings og án helti. Stendur rétt. Vel gróið miðlæiuör eftir fyrri spengingu og brottnám á festibúnaði. Beygir sig fram, aftur og til beggja hliða án sársauka; hreyfing er mjög minnkuð vegna speningarinnar; einnig hvellaum yfir mjóbaksvöðvum og SIPS vöðvafestum.

Notar daglega Esomeprazol, Pregabalin og Parkódín.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni hennar muni aukast. Í athugasemdum segir í vottorðinu:

„Vottorð þetta er nýtt v/ þess að sjkl var ósátt við núverandi mat og vill fá það endurskoðað. Fyrra læ vo mitt var því miður gamalt þar sem sjkl býr á F og var ekki með nýja sko'ðun í kerfinu.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 21. febrúar 2021, vegna fyrri umsóknar kæranda, sem er að mestu samhljóða vottorði hans frá 9. júní 2021.

Þá liggja fyrir meðal annars læknisvottorð vegna eldri umsókna kæranda um örorkulífeyri. Undir rekstri málsins barst úrskurðarnefnd læknisvottorð C, dags. 19. ágúst 2021, þar sem segir meðal annars:

„A hefur verið slæm af kvíða og þunglyndiseinkennum í mörg. Hefur verið á þunglyndis- og kvíðalyfjum í mismunandi skömmtum í mörg ár. Átt þokkaleg tímabil á milli. Andlega líðanin hefur gjarnan sveiflast nokkuð eftir líkamlegu ástandi sem hefur oft á tíðum verið mjög bágborið. [...]

Hennar stærsta vandamál hefur verið stoðkerfisverkir. Er með vefjagigt.

[...]

Er með verulega skerta hreyfigetu í lendarhrygg og reyndar við skoðun hja undirrituðum 21.07.2021 afskaplega stirð og mjög skerta takmörkuð hreyfigeta í öllum hrygg, þar á meðal hálshrygg í öllum plönum.

Getur ekki lyft handleggjum yfir 90°. Aum í öllum festum.

[...]

Við skoðun hjá undirrituðum þann 21.7.21 er geðslag mjög lækkað og hún örvæntingarfull vegna þess að hún treystir sér engan vegin út á vinnumarkaðinn aftur vegna stoðkerfisverkja og andlegrar líðunar.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Þar lýsir kærandi heilsuvanda sínum þannig að hún sé með bakvandamál, vefjagigt, endometriosis, mígreni millirifjagigt og kvíða. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja þannig að hún geti ekki setið lengi í sömu stöðu, hún þurfi stöðugt að vera að hreyfa sig. Hún geti ekki setið með bakið upp við neitt sem ekki gefi eftir vegna sársauka í baki við spengingu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hún þurfi gjarnan að styðja sig við til þess að standa upp. Kærandi svarar spurningu um það hvort að hún eigi í erfiðleikum við að beygja sig eða krjúpa og rétta sig upp aftur þannig að hún geti takmarkað beygt sig, það sé verra að reisa sig við. Hún geti ekki kropið, hún hafi ekki styrk til þess að færa sig upp aftur. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að standa þannig að hún geti ekki staðið kyrr nema stutta stund í einu, óstöðug. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún í eigi erfiðleikum við að ganga þannig að hún haltri yfirleitt á vinstri fæti vegna mikilla bólgu í vöðvafestum og í kringum mjöðm. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að hún eigi erfitt með gang í stigum vegna vinstri mjaðmar og baks. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að beita höndunum þannig að hún eigi mjög erfitt með allar fínhreyfingar eins og að skrifa, sauma eða prjóna, hún þreytist fljótt og verði stíf í öllum liðum. Hún eigi í vandræðum með hreyfingar eins og að hræra upp sósu eða hnoða deig. Hún eigi erfitt með að keyra bíl þar sem það reyni mikið á hendurnar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að beygja sig sé erfitt og eins að reisa sig við. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það sé mjög erfitt. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að sjónin breytist hjá henni eftir annarri líðan, hún þoli mjög illa mikla birtu og sólarljós og hún sjái mjög illa í myrki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða þannig að hún sé með mikinn kvíða og stress sem fylgi heilsuvandamálunum. Hún upplifi mikinn kvíða yfir síversnandi heilsu og vanmátt yfir að geta ekki gert hluti.

Einnig liggja fyrir spurningalistar með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsóknir sínar á árinum 2006 og 2009. Í spurningalistanum frá árinu 2009 lýsir kærandi heilsuvanda sínum á þá leið að hún sé mjög bakveik eftir bílslys árið X, hún finni mikið til í öllum liðum og sé slæm í maga vegna inntöku lyfja. Varðandi líkamlega færniskerðingu svarar kærandi játandi spurningum er varða að sitja á stól, standa upp af stól, beygja sig eða krjúpa, standa, ganga á jafnsléttu, ganga upp og niður stiga, nota hendurnarnar, teygja sig eftir hlutm og að lyfta og bera. Kærandi svarar játandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 2. júní 2021. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið meira en í eina klukkustund. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi eingöngu gengið upp og niður milli hæða með því að ganga út á hlið eða taka eitt þrep í einu. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu

Heilsufars- og sjúkrasögu kæranda er lýst svo:

„Mjóbaksspenging 2003 vegna spondylolisthesis L5. Aftari spengning L4-S1 sem var síðan fjarlægð. Lagaðist mikið en varð þó ekki vinnufær. Verkir í baki og einnig dreifðir verkir og verið greind með vefjagigt. Verkir mest í öxlum og mjöðmum sérstaklega vinstra megin. Fær inn á milli orkuleysi og útútskýrða verki. Fór á E fljótlega eftir spengingu en ekki eftir það. Glímt við mikinn kvíða og streitu. Fundið vanlíðan og það dregið úr henni. Verið að taka pregabalin yfir daginn og gabapenting á kvöldin ekki þurft þunglyndislyf.“

Dæmigerðum degi er lýst svo:

„Vaknar um kl 7 á morgnana. [...] Fer á fætur þegar að börn eru farin. Er þá að dandalast um heimilis. Fer í búðina og kaupir inn á góðum degi. Gerir lítið á slæmum degi. Gengur misvel með heimilisstörf. Reynir þó að halda hreinu. [...] kemur annan hvern laugardag og hjálpar við stærri þrif.Erfitt með að skúra og allar hreyfingar sem teygjur eða beygjur. Getur moppað og léttari hreyfingu. Óþægindi frá fingrum og erfitt að halda á penna. Erfitt að hræra upp sósu. Erfitt að keyra lengri vegalengdir. Verður að rétta úr fingrum eftir 30-40 mín. Erfitt að sitja lengi. Eftir keyrslu frá F til I þá verður hún að stoppa á 1 klst fresti.[...] Stendur upp og gengur um í 10 mín og keyrir síðan áfram. Ekki verið í sjúkraþjalfun. Verið með hreyfingar x3 í viku. Teygjur og léttar styrktaræfingar. Getur ekki gert magaæfingar. Þolir illa að ganga. Fer í göngutúra þegar ekki kallt.Gengur þá ca 15-20 mín. Gengur til X sem er í 13 mín fjarlægð. Fer stundum í sund . þolir ekki nudd í pottum. Snertiviðkvæm í baki þar sem að hún var skorin. Gerir lítið yfir daginn . Er mest heima. Mikið að stússast í kringum börn. Þau að æfa [...]. Fer sjálf stundum á skíði [...]. Hjólar á sumrin. Ekki að fara í tækjasali. Les stundum og tekið kippu hvað það varðar. Stundum erfitt að lesa. Er með mikinn augnþurrk. Hittir [...] [...] . Ekki að forðast fólk. Fer í veislur og finnst gaman af því. Eldar alla daga. Mjög rútínuföst. Reynir að vera með góðan og hollan heimlilislmat. Reynir að fara að sofa á sama tíma. Áhugamál mikil í [...]. Les mikið sjálfshjálparbækur. Gaman að fara í [...] og fara með börnum. Prjónar stundum. Verður fljótt þreytt við að prjóna. Leiðist aldrei og vill hafa eitthvað fyrir stafni. Fer að sofa milli 22.30 - 23. [...]“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Glímt við mikinn kvíða og streitu. Fundið vanlíðan og það dregið úr henni. Verið að taka pregabalin yfir daginn og gabapenting á kvöldin ekki þurft þunglyndislyf. Ekki vonleysi og neitar dauðahugsunum. Getur aldrei planað neitt vegna verkja og það haft neikvæð áhrif á hennar líðan.“

Atferli í viðtali er lýst svo:

„Kemur vel fyrir og gefur góða sögu. Ágætis kontakt og lundafar telst vera eðlilegt. Ekki vonleysi í henni og neitar dauðahugsunum.“

Líkamsskoðun er lýst svo í skoðunarskýrslu.

„Kveðst vera 164 cm að hæð og 58 kg að þyngd. Situr í viðtali í 30 mín en þarf þá að standa upp. Stendur upp úr stólnum án þess að styðja sig ið. Sæmilegar hreyfingar í öxlum . Aðeins skert í vinstri hendi kemur henni þó aftur fyrir hnakka og upp á hvirfil en með vandkvæðum Merki um bólgur og tendinit í vinstri öxl Heldur á 2 kg lóði með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Nær´í og handfjatlar smápening með hægri og vinstri hendi. Gengur með smá heltu og fremur hægt vegna vinstri mjaðmar. Gengur upp og niður stiga en þarf að fara eina og eina tröppu sérstaklega á leið niður og þá vegna óþæginda í vintri mjöðm.“

Í athugasemdum segir í skýrslunni:

„Ekkert farið í endurhæfingu frá 2004 nema í sjúkraþjálfun fyrir mörgum árum. Endurhæfing því ekki mikið reynd undanfarið. Ekki verið sótt um á E. Ígrunda með nýja dvöl þar.“

Í málinu liggur einnig fyrir skoðunarskýrsla G en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 17. apríl 2009. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún gæti ekki setið nema 30 mínútur án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi gæti ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Kærandi gæti stundum ekki beygt sig og kropið til að taka pappírsblað upp af góflinu og rétt sig upp aftur. Kærandi gæti ekki staðið nema tíu mínútur án þess að ganga um. Kærandi gæti ekki gengið nema 400 metra án þess að stoppa eða fá veruleg óþægindi. Kærandi gæti eingöngu gengið upp og niður stiga með því að ganga út á hlið eða taka eitt þrep í einu. Kærandi gæti ekki lyft hvorum handlegg sem er upp fyrir höfuð. Að öðru leyti taldi skoðunarlæknir að kærandi byggi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda taldi skoðunarlæknir að geðsveiflur yllu kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins og að svefnvandamál hefðu áhrif á dagleg störf. Að öðru leyti taldi skoðunarlæknir að kærandi byggi ekki við andlega færniskerðingu.

Í málinu liggur einnig fyrir skoðunarskýrsla H en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 27. nóvember 2006. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún gæti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp, hún gæti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur og að hún gæti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Andleg færniskerðing kæranda var ekki metin í þessari skoðun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn.

Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis sem skoðaði kæranda 2. júní 2021 og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Samkvæmt skoðunarskýrslu getur kærandi ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt örorkustaðli. Samkvæmt skoðunarskýrslu getur kærandi eingöngu gengið upp og niður milli hæða með því að ganga út á hlið eða taka eitt þrep í einu. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til þrettán stiga. Samkvæmt skoðunarskýrslu er andleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Samkvæmt skoðunarskýrslu hafa svefnvandamál áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skoðunarskýrslu er því andleg færniskerðing kæranda metin til tveggja stiga.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það liggur fyrir að Tryggingastofnun féllst á að kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku á árinu 2009 vegna líkamlegra og andlegra veikinda og hefur það mat verið framlengt fjórum sinnum, síðast með ákvörðun, dags. 25. maí 2021, með gildistíma 1. júní 2021 til 30. júní 2021. Tryggingastofnun hefur reglulega endurmetið örorku kæranda án skoðunar, fyrir utan skoðun sem framkvæmd var 17. apríl 2009.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að misræmis gæti í skoðunarskýrslu varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að kærandi ergi sig ekki yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik með þeim rökstuðningi að hún kannist við það. Úrskurðarnefnd telur að framangreint gefi til kynna að kærandi ergi sig yfir því sem hafi ekki angrað hana áður en hún varð veik. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þetta atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Fyrir liggur að kærandi hefur þrisvar farið í mat hjá skoðunarlækni. Niðurstöður skoðunarskýrslna frá árunum 2009 og 2021 eru mjög ólíkar og má ráða af þeim að mjög mikil breyting hafi orðið á líkamlegri færniskerðingu kæranda á þessum fimmtán árum. Samkvæmt fyrri skoðunarskýrslu fékk kærandi 34 stig fyrir líkamlega hluta staðalsins en þrettán stig fyrir líkamlega hluta staðalsins við seinni skoðun. Að mati úrskurðarnefndar rökstyður skoðunarlæknir niðurstöður sínar varðandi líkamlega færniskerðingu á fullnægjandi máta í skoðunarskýrslu með vísun til skoðunar hans á kæranda í því viðtali, auk frásagnar hennar á lýsingu á dæmigerðum degi. Samkvæmt framangreindu hefur líkamleg færniskerðing kæranda batnað að einhverju leyti á þessum tólf árum sem liðu á milli skoðana. Fyrirliggjandi læknisvottorð gefa ekki til kynna að mat skoðunarlæknis hafi ekki verið rétt á þeim tímapunkti þegar skoðunin fór fram.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera aðra athugasemdir við skoðunarskýrslu D og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk þrettán stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og hefði að hámarki getað fengið þrjú stig úr andlega hlutanum, uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum