Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 156/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 156/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23020049

Beiðni um endurupptöku í máli

[…]

 

  1. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

    Hinn 9. febrúar 2023 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. nóvember 2022, um að umsókn […] (hér eftir kærandi), fd. […], ríkisborgara Venesúela, um alþjóðlega vernd hér á landi, yrði ekki tekin til efnismeðferðar og að honum yrði vísað frá landinu. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda 10. febrúar 2023.

    Hinn 17. febrúar 2023 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku á úrskurði kærunefndar nr. 89/2023 frá 9. febrúar 2023 ásamt greinargerð. Þá barst kærunefnd viðbótargreinargerð í máli kæranda og frekari gögn 27. febrúar 2023. Hinn 28. febrúar 2023 óskaði kærunefnd eftir þýðingu á tilteknum gögnum sem kærandi lagði fram og barst kærunefnd þýðing á gögnunum 3. mars 2023. Hinn 8. mars 2023 var kæranda veittur frestur til að koma á framfæri athugasemdum varðandi þýðingu hinna tilteknu gagna. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

    Kærandi gerði kröfu um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar í sömu beiðni og um endurupptöku á úrskurðinum. Verður fjallað um þá beiðni í öðrum úrskurði.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Fram kemur í beiðni kæranda um endurupptöku að kærandi byggi beiðni sína á því að dvalarleyfi hans í Argentínu sé þegar fallið úr gildi vegna tímalengdar dvalar hans utan Argentínu, en það gerist sjálfkrafa þegar handhafi sé utan ríkisins umfram sex mánuði. Þær upplýsingar hafi hann fengið frá lögmanni í Argentínu. Þar að auki byggi kærandi á að hann hafi farið þess á leit við yfirvöld í Argentínu að dvalarleyfið yrði fellt úr gildi. Kærandi vísar til þess að nauðsynlegt sé að endurmeta mál hans m.t.t. niðurfellingar dvalarleyfisins og hættunnar á að hann verði endursendur til Venesúela vegna dóms sem hann hefur hlotið þar í landi vegna föðurlandssvika, en sú hætta hafi aukist vegna niðurfellingarinnar. Með vísan til framangreinds krefjist kærandi þess að mál hans verði endurupptekið með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

    Í viðbótargreinargerð kæranda, dags. 27. febrúar 2023, vísar kærandi til nýrra gagna í málinu, ákvörðun argentínskra yfirvalda um niðurfellingu dvalarleyfis, dags. 23. febrúar 2023. Ákvörðun máls kæranda byggi á a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem kærandi hafi verið handhafi dvalarleyfis í viðtökuríkinu. Atvik málsins hafi sannarlega breyst þar sem forsendur ákvörðunarinnar séu brostnar. Kærandi vísar til þess að fjalla þurfi um mál kæranda aftur, m.t.t. þessara breytinga. Þá séu aðstæður þannig að kæranda stafi veruleg hætta af því að snúa aftur til Argentínu. Að auki vísar kærandi til umfjöllunar um nauðsynleg ferðaskilríki og óumflýjanlegrar heimfarar til að afla þeirra.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á kærandi máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 9. febrúar 2023. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku meðal annars á því að dvalarleyfi hans í Argentínu sé þegar fallið úr gildi vegna tímalengdar dvalar hans utan Argentínu. Þá byggir kærandi jafnframt á því að hann hafi óskað eftir niðurfellingu á dvalarleyfi sínu í Argentínu og að í málinu liggi fyrir ákvörðun argentínskra stjórnvalda, dags. 23. febrúar 2023, þess efnis að krafa kæranda um niðurfellingu á dvalarleyfi sínu sé samþykkt. Kærandi vísar til þess að nauðsynlegt sé að endurmeta mál hans, m.t.t. framangreindra upplýsinga og að atvik málsins hafi sannarlega breyst þar sem forsendur ákvörðunar Útlendingastofnunar og úrskurðar kærunefndar séu brostnar.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lá fyrir að kærandi hafi dvalið ásamt konu sinni og dóttur í Argentínu frá apríl 2018 og að kærandi hafi hlotið ótímabundið dvalarleyfi þar í landi 6. maí 2021. Þá var það mat kærunefndar, samkvæmt gögnum um aðstæður í Argentínu, að kærandi hafi átt þess kost að óska eftir alþjóðlegri vernd í viðtökuríki og hefði möguleika á því við endurkomu þangað. Að mati kærunefndar lá fyrir fullnægjandi sönnun þess að kærandi hefði heimild til dvalar í viðtökuríki og að engar lögformlegar hindranir væru á því að kærandi gæti snúið sjálfviljugur aftur til viðtökuríkis. Þá var það mat kærunefndar að kærandi hefði ekki ástæðu til að óttast ofsóknir í Argentínu, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga, eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu að hann sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við matið leit kærunefnd til þess að stjórnvöld í Argentínu væru aðilar að Cartagena yfirlýsingunni þar sem veitt væri vernd gegn endursendingum einstaklinga til ríkis þar sem þeir eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non refoulement). Þá væru stjórnvöld í Argentínu aðilar að mannréttindasáttmála Ameríku þar sem m.a. væri mælt fyrir um bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í viðtökuríki féllu undir skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og yrði umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi því ekki tekin til efnismeðferðar.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgiskjölum sem liggja fyrir. Með endurupptökubeiðni kæranda lagði hann fram ýmis gögn frá Argentínu, þ. á m. gögn varðandi umsóknir hans um tímabundið og varanlegt dvalarleyfi þar í landi. Þá lagði hann fram ákvörðun argentínskra yfirvalda, dags. 23. febrúar 2023, en við meðferð málsins aflaði kærunefnd þýðingar á fyrrgreindri ákvörðun. Samkvæmt ákvörðuninni leitaðist kærandi eftir því við argentínsk yfirvöld að ótímabundið dvalarleyfi hans yrði fellt úr gildi og að kærandi myndi afsala sér þeim réttindum sem fælust í dvalarleyfi hans í Argentínu. Í niðurstöðu ákvörðunarinnar kemur fram að fallist hafi verið á kröfu kæranda um niðurfellingu á dvalarleyfi sínu.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-lið ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Í athugasemdum með ákvæðinu kemur m.a. fram að um sé að ræða regluna um fyrsta griðland (e. country of first asylum) og sé miðað við að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og veitt getur honum vernd. Þá skuli stjórnvöld hafa gengið úr skugga um að verði umsækjandi sendur til ríkisins þurfi hann ekki að óttast ofsóknir eða verða sendur áfram til heimalands síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) eða þar sem hætta sé á ómannúðlegri eða vansæmandi meðferð.

Líkt og rakið var í úrskurði kærunefndar nr. 89/2023 frá 9. febrúar 2023 þá var það mat nefndarinnar að aðstæður kæranda í viðtökuríki falli undir skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og yrði umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi því ekki tekin til efnismeðferðar. Var m.a. litið til þess að kærandi hafði dvalið í Argentínu frá apríl 2018 og væri með gilt dvalarleyfi þar í landi. Þá hafi kærandi átt þess kost að óska eftir alþjóðlegri vernd í viðtökuríki og haft möguleika á því við endurkomu þangað.

Að mati kærunefndar á kærandi enn þess kost að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í Argentínu. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi geti ekki lagt fram umsókn um dvalarleyfi að nýju þar í landi þrátt fyrir að hafa óskað eftir niðurfellingu á ótímabundnu dvalarleyfi sínu. Þá eigi kærandi eiginkonu og barn í viðtökuríki, sem að sögn kæranda, hafi heimild til dvalar þar í landi. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi orðið fyrir ofsóknum í Argentínu, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en við það mat hefur kærunefnd litið til gagna málsins og skýrslna um aðstæður í Argentínu. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að sú háttsemi kæranda, að fara fram á það við argentínsk yfirvöld að fella ótímabundið dvalarleyfi sitt úr gildi og þar með afsala sér réttindum sínum þar í landi, eigi ekki að leiða til endurupptöku málsins og að kærandi geti ekki með þeirri háttsemi öðlast frekari rétt til að fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar hér á landi. Þá telur kærunefnd að gögn málsins gefi til kynna að hann geti með auðveldum hætti átt í samskiptum við yfirvöld í Argentínu og styðji það mat nefndarinnar um að hann eigi kost á því að óska eftir alþjóðlegri vernd þar í landi eða leggja fram umsókn að nýju um dvalarleyfi, einkum í ljósi stöðu eiginkonu hans og dóttur í Argentínu. Að mati kærunefndar er ljóst að aðstæður kæranda falli enn undir a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd að framlögð gögn gefi ekki tilefni til endurupptöku málsins.

Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í úrskurði nefndarinnar nr. 89/2023 frá 9. febrúar 2023 að ekkert bendi til að kærandi eigi á hættu endursendingu til viðtökuríkis vegna nýrrar ríkistjórnar þar í landi. Að auki telur kærunefnd að þrátt fyrir að dvalarleyfi kæranda í viðtökuríki hafi verið niðurfellt að beiðni kæranda sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að kærandi eigi á hættu endursendingu til heimaríkis leggi hann fram umsókn um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi þar í landi.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að dvalarleyfi hans í Argentínu sé þegar fallið úr gildi þar sem kærandi hafi dvalið lengur en sex mánuði utan Argentínu. Kærunefnd bendir í því samhengi á að í svari argentínskra yfirvalda, dags. 15. nóvember 2022, við fyrirspurn Útlendingastofnunar til þeirra, kemur fram að ótímabundið dvalarleyfi í Argentínu geti fallið úr gildi ef handhafi dvelur utan Argentínu lengur en tvö ár í samræmi við c-lið 62. gr. laga um innflytjendur nr. 25.871/2004. Kærandi hefur ekki borið því við að hafa dvalið utan Argentínu lengur en tvö ár en það liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að kærandi kom hingað til lands 30. júní 2022. Samkvæmt framansögðu verður því ekki fallist á að dvalarleyfi kæranda sé fallið úr gildi vegna tímalengdar dvalar kæranda utan Argentínu.

Þá vísar kærandi til umfjöllunar sinnar í greinargerð til kærunefndar, dags. 7. febrúar 2023, um útrunnið vegabréf kæranda en kærandi hefur byggt á því við meðferð málsins að geta ekki endurnýjað vegabréf sitt öðruvísi en að fara til heimaríkis. Kærunefnd hefur fjallað um fyrrgreinda málsástæðu í úrskurði kærunefndar nr. 89/2023 frá 9. febrúar 2023. Kærunefnd telur það ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að vegabréf kæranda frá heimaríki sé útrunnið.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 89/2023, dags. 9. febrúar 2023, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum