Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 369/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 16. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 369/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070025

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 11. júlí 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela og Líbanon (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júní 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 23. febrúar 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. 6. apríl 2022, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 16. júní 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 11. júlí 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 26. júlí 2022. Þá bárust kærunefnd gögn 25. ágúst og 7. september 2022.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í Venesúela og Líbanon vegna almenns ástands í báðum ríkjum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkja ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé með tvöfalt ríkisfang, þ.e. frá Venesúela og Líbanon, og þurfi því að skoða aðstæður kæranda í báðum heimaríkjum. Um málavexti vísar kærandi til viðtala hjá Útlendingastofnun og hinnar kærðu ákvörðunar. Kemur þar m.a. fram að kærandi hafi greint frá því að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt, Venesúela, vegna þess að glæpahópar hafi, í samvinnu við yfirvöld, reynt að drepa hann þar sem hann hafi neitað að starfa fyrir þá við flutning á flúori og öðrum efnum. Meðlimir glæpahópanna hafi elt kæranda og skotið á bíl hans. Í kjölfarið á framangreindu hafi kærandi misst allt, þ. á m. fyrirtæki sitt, húsnæði og fjölskyldu. Þá hafi kærandi greint frá öðru atviki þar sem meðlimir glæpahóps hafi brotist inn á heimili hans og beitt hann ofbeldi með þeim afleiðingum að hann glími enn við margþættan heilsufarsvanda. Aðspurður hvernig ástandið í Líbanon væri hafi kærandi greint frá því að það væri verra en í Venesúela. Neyðarástand ríki í landinu og skortur væri á matvælum og lyfjum. Þá væri enga vinnu fyrir kæranda að fá í landinu. Auk þess óttist kærandi að hann verði fyrir fordómum á grundvelli trúarbragða í Líbanon, en hann sé drúsi.

Kærandi telur ljóst að veita beri honum viðbótarvernd á þeim grunni að hann sé ríkisborgari Venesúela. Væri hann ekki einnig ríkisborgari Líbanon ætti fordæmi kærunefndar í máli nr. 231/2022 við. Kærandi telur því ekki þörf á að ræða stöðu hans í Venesúela frekar, enda liggi fyrir skýr fordæmi varðandi ríkisborgara Venesúela.

Þá telur kærandi að hann eigi rétt á alþjóðlegri vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli stöðu mála í Líbanon og heilsufars hans. Hann sé fárveikur og engar líkur séu á því að hann muni geta fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Líbanon. Kærandi telur skorta á rannsókn Útlendingastofnunar, þ. á m. hvað varðar aðgengi hans að heilbrigðisþjónustu í Líbanon. Hann eigi hvorki peninga né eignir og muni því ekki geta greitt fyrir heilbrigðisþjónustu. Þá telur kærandi að taka þurfi til skoðunar að hann sé tæplega fimmtugur að aldri og hafi ekki búið í Líbanon í um 25 ár. Hann hafi ekki unnið sér inn nein réttindi þar, s.s. á vinnumarkaði. Þá hafi hann engin tengsl við Líbanon og eigi hvorki vini né fjölskyldu þar í landi.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Kröfur kæranda eru, sem fyrr segir, m.a. byggðar á því að hann geti ekki fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu, Líbanon, vegna heilsufarsvandamála sinna. Við meðferð málsins hefur kærandi framvísað heilsufarsgögnum frá Íslandi og Noregi. Af þeim gögnum verður ráðið að hann glími við ýmis heilsufarsvandamál, þ. á m. sykursýki og lifrarvandamál, og þurfi lyf og utanumhald heilbrigðissérfræðinga.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram það mat Útlendingastofnunar að kæranda standi til boða viðeigandi heilbrigðisþjónusta í Líbanon. Í því sambandi vísar Útlendingastofnun til heimilda frá alþjóða heilbrigðismálastofnuninni frá 2016 (Health Profile 2015. Lebanon) og 2018 (Lebanon. Country Cooperation Strategy 2019-2023) og vefsíðu líbanska heilbrigðisráðuneytisins. Þá kemur fram í ákvörðuninni að þau heilsufarsgögn sem kærandi hafi lagt fram beri ekki með sér að hann sé í meðferð vegna heilsufarskvilla hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa. Verði því ekki séð að hann hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd vegna heilbrigðisástæðna.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér, þ. á m. skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 11. apríl 2022 (e. Visit to Lebanon. Report of the Special Rapporteur on extreme poverty and human rights), verður ráðið að ástandið í Líbanon, þ. á m. hvað varði aðgengi að heilbrigðisþjónustu og lyfjum, hafi farið versnandi undanfarin ár. Í ljósi framangreinds og málsástæðna kæranda telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi borið að líta til nýlegri heimilda sem gefi betri mynd af því hvernig aðgengi kæranda að heilbrigðisþjónustu og lyfjum í heimaríki væri háttað. Liggi ekki fyrir nýlegar upplýsingar um framangreint sé ómögulegt að meta hvort aðstæður kæranda geti fallið undir ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar ber rökstuðningur Útlendingastofnunar ekki með sér að lagt hafi verið fullnægjandi mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda út frá lagagrundvelli máls hans. Þá telur kærunefnd að skort hafi á rökstuðning fyrir því af hverju kærandi sé ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa.

Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda verði bæði löglegar og réttar. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case. 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                              Sindri M. Stephensen

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum