Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

1106/2022. Úrskurður frá 2. nóvember 2022

Hinn 2. nóvember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1106/2022 í máli ÚNU 22060014.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. júní 2022, kærði A synjun Barna- og fjölskyldustofu á beiðni hans um gögn. Kærandi óskaði hinn 4. maí 2022 eftir öllum gögnum sem við kæmu máli hans. Barna- og fjölskyldustofa svaraði kæranda hinn 10. júní 2022. Svarinu fylgdu þau gögn sem hefðu fundist í skjalasafni stofnunarinnar og vörðuðu kæranda, m.a. gögn tengd Barnahúsi.

Kæranda var synjað um tiltekin gögn, þ.e. ódagsett bréf frá fjölskyldu- og félagsþjónustu […] með beiðni um lögreglurannsókn, og bréf frá lögreglustjóranum á […] frá því í […]. Synjunin byggðist á þeim grund­velli að þau tengdust sakamáli sem hefði verið í ferli hjá lög­reglunni, en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upp­lýsingalaga, nr. 140/2012, giltu lögin ekki um rannsókn saka­máls eða saksókn. Kæranda var bent á að leita til lögreglunnar varðandi aðgang að þeim. Þá var kæranda leiðbeint um að frekari gögn sem vörðuðu máls hans kynnu að vera til hjá viðkomandi barna­verndarnefnd og honum bent á að leita þangað.

Í kæru kemur fram að kærandi krefjist þess að fá öll gögn sem við komi sínu máli frá barnaverndar­nefnd, ekki aðeins Barnahúsi.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Barna- og fjölskyldustofu með erindi, dags. 15. júní 2022, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Barna- og fjölskyldustofa léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Barna- og fjölskyldustofu barst úrskurðarnefndinni hinn 30. júní 2022. Í henni kemur fram að stofnunin telji sig ekki hafa heimild til að afhenda þau gögn sem kæranda var synjað um aðgang að með vísan til 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, þar sem þau tilheyrðu rannsókn sakamáls. Styddist það jafn­framt við leiðbeiningar sem stofnunin hefði fengið frá ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, sbr. 13. gr. a upplýsingalaga.

Umsögn Barna- og fjölskyldustofu var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. júní 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ódagsettu bréfi frá fjölskyldu- og félagsþjónustu […] með beiðni um lögreglurannsókn, og bréfi frá lögreglustjóranum á […] frá því í […]. Synjun Barna- og fjölskyldustofu byggist á 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp það sem varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996, kemur fram að talið hafi verið eðlilegra að lög um meðferð opinberra mála hefðu að geyma sérreglur í þessu sam­bandi. Þá segir í frumvarpi til upplýsingalaga, nr. 140/2012, að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér þau gögn sem kæranda var synjað um aðgang að og telur ótvírætt að þau tilheyri rannsókn sakamáls. Er því óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá úrskurð­arnefnd um upplýsingamál, enda falla þau gögn sem um er deilt ekki undir gildissvið laganna. Úrskurð­ar­nefndin bendir kæranda á, svo sem fram kemur í ákvörðun Barna- og fjölskyldustofu til kæranda, að honum er fært að leita til viðeigandi barnaverndarnefndar varðandi aðgang að hugsan­legum frekari gögnum um sig. Þá er og unnt að beina beiðni um aðgang að gögnum sakamála sem er lokið til lög­reglu­stjóra í því umdæmi þar sem rannsóknargögn eru geymd eða héraðssaksóknara, sbr. 4. gr. fyrir­mæla ríkissaksóknara nr. 9/2017.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 13. júní 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum