Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 288/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 288/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21040020

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. apríl 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2021, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Af greinargerð má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands árið 2017 á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Kærandi yfirgaf landið og fór til heimaríkis árið 2018 og hið sama ár kom hann aftur til landsins. Þann 9. október 2019 sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 2. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 25. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þann 18. júní 2020 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi með úrskurði kærunefndar útlendingamála og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Með ákvörðun, dags. 3. september 2020, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd staðfesti þá ákvörðun með úrskurði sínum þann 5. nóvember 2020. Þá var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðarins synjað með úrskurði kærunefndar dags. 23. nóvember 2020.

Þann 12. mars 2021 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2021, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar hinn 9. apríl 2021. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2 mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 14. apríl 2021 féllst kærunefnd á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 7. maí 2021 ásamt fylgigögnum.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að kæranda hafi verið birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann hinn 12. mars 2021 þar sem kærandi hefði ekki yfirgefið landið í samræmi við fyrirmæli í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 371/2020, dags. 5. nóvember 2020. Hafi kæranda verið veittur sjö daga frestur til að leggja fram andmæli í tilefni tilkynningarinnar auk þess sem málið yrði fellt niður hjá Útlendingastofnun, yfirgæfi kærandi landið innan sjö daga frá birtingu framangreindar tilkynningar. Engin andmæli hefðu borist frá kæranda.

Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að brottvísun kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Bæri Útlendingastofnun að teknu tilliti til ákvæðis 102. gr. laga um útlendinga, að vísa kæranda á brott samkvæmt a-lið 98. gr. laganna. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hin fyrirhugaða brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með vísan til þeirra hagsmuna sem undir séu í kærumálinu hjá ríkissaksóknara. Meint brot varði m.a. mansal, líkamsárás, fjársvik og brot gegn lögum um atvinnuréttindi. Eins og fram komi í eldri úrskurði kærunefndar skuldi kærandi bróður sínum og tveimur öðrum einstaklingum í Pakistan umtalsverðar fjárhæðir sem greiddar hafi verið til fyrrverandi atvinnurekanda kæranda á Íslandi. Eins og gefi að skilja sé kærandi í mikilli hættu í heimaríki sínu vegna skuldar sinnar og þess vegna hafi hann komið aftur til landsins í þeim tilgangi að fá umrædda fjármuni til baka svo hann geti endurgreitt skuldina. Verði honum gert að yfirgefa landið áður en niðurstaða kærumálsins liggur fyrir sé mikil hætta á því að hagsmunir hans fari forgörðum auk þess sem hætta sé á því að hann fái ekki tækifæri til þess að bera vitni í málinu ef ske kynni að ákvörðun lögreglunnar hinn 23. mars 2021, um að fella niður rannsókn, verði felld úr gildi. Umrædd ákvörðun hafi verið kærð til Ríkissaksóknara þann 7. apríl 2021 en stjórnvaldinu beri að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá síðastnefndri dagsetningu. Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að það væri bersýnilega ósanngjarnt að vísa honum frá Íslandi áður en niðurstaða kærumálsins liggi fyrir.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Eins og áður er rakið var með úrskurði kærunefndar nr. 371/2020, dags. 5. nóvember 2020, lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Kærandi móttók úrskurðinn þann 9. nóvember 2020. Þá liggur fyrir að kærandi hefur að eigin sögn dvalið hér á landi óslitið frá því síðla árs 2018 án þess að hafa haft löglega heimild til dvalar.

Líkt og rakið er í III. kafla úrskurðarins var kæranda birt tilkynning um hugsanleg brottvísun og endurkomubann hinn 12. mars 2021 og er það því mat kærunefndar að kæranda hafi verið með fullnægjandi hætti birt tilkynning umræddan dag um að til skoðunar væri að brottvísa kæranda og ákvarða honum endurkomubann á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þegar kæranda var birt framangreind tilkynning hafði hann samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki yfirgefið landið og eru skilyrði a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Í greinargerð byggir kærandi á því að hin fyrirhugaða brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi ákvæðisins, með vísan til þeirra hagsmuna sem undir eru í kærumáli hans sem er til meðferðar hjá ríkissaksóknara. Kærandi hefur við meðferð málsins lagt fram bréf frá ríkissaksóknara, dags. 15. apríl 2021, þar sem staðfest er að kærandi hafi lagt fram kæru til ríkissaksóknara hinn 7. apríl 2021 varðandi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 23. mars 2021, um að hætta rannsókn á máli sem kærandi sé aðili að. Samkvæmt svari ríkissaksóknara, dags. 16. júní 2021, við upplýsingabeiðni kærunefndar er mál kæranda enn til meðferðar hjá embættinu. Samkvæmt greinargerð kæranda varði meint brot sem kærandi hafi tilkynnt til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu m.a. mansal, líkamsárás, fjársvik og brot gegn lögum um atvinnuréttindi. Byggir kærandi á því að það væri bersýnilega ósanngjarnt að vísa honum frá Íslandi áður en niðurstaða kærumálsins liggur fyrir, m.a. þar sem hagsmunir hans myndu fara forgörðum og hann fengi ekki að vera vitni í málinu. Kærandi hafi kært ákvörðunina til þess að krefjast þess að fá málinu framgengt og ákæra yrði gefin út í málinu.

Aðili sakamáls hefur möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá er ljóst af gögnum málsins að lögreglan hefur þegar tekið skýrslur af kæranda ásamt því að kærandi hafi veitt aðstoð við frekari gagnaöflun, s.s með því að heimila afritun gagna úr farsíma sínum. Eru umrædd gögn því orðin hluti af gögnum málsins.

Hafi kærandi í hyggju að höfða einkamál þá er enn fremur ljóst að vera aðila á landinu ekki forsenda fyrir því að einkamál sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur aðili möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Að mati kærunefndar er ekkert því til fyrirstöðu að kærandi geti gefið aðilaskýrslu í gegnum síma muni hann höfða einkamál fyrir dómstólum hér á landi.

Líkt og að framan greinir byggir kærandi á því að hann sé í hættu í heimaríki þar sem hann skuldi tilteknum einstaklingum fjármuni sem hafi beitt hann mansali en hann sé hér á landi til þess að fá umrædda fjármuni greidda til baka. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli KNU20090033 frá 5. nóvember 2020 var tekin afstaða til umræddrar málsástæðu kæranda. Var það niðurstaða kærunefndar að þar sem um það bil tvö ár hefðu, á þeim tímapunkti, verið liðin frá því að kærandi kom hingað til lands frá heimaríki væri hann ekki lengur undir áhrifum þeirra einstaklinga sem hafi beitt hann mansali. Að auki hefði það verið niðurstaða kærunefndar að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga um bann við endursendingu (non-refoulement) stæðu ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda til heimaríkis. Kærunefnd ítrekaði niðurstöðu sína í máli KNU20110036 frá 23. nóvember 2020 auk þess sem nefndin komst að því að kærandi ætti ekki í hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða í heimaríki. Frá því að kærunefnd komst að niðurstöðu í framangreindum málum hafa liðið rúmlega sex mánuðir. Hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn sem eru til þess fallin að breyta mati kærunefndar hvað þetta atriði varðar. Ítrekar kærunefnd því að ekkert í máli kæranda bendi til þess að hann verði í hættu í heimaríki verði honum gert að snúa aftur þangað.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda yfirgaf hann landið ekki innan veitts frests. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár og ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi, m.a. á ákvæðum laga um útlendinga.

Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi yfirgefið landið og mun endurkomubann til landsins því hefjast þann dag sem hann verður færður úr landi eða fer af sjálfsdáðum af landi brott, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum